miðvikudagur, 4. mars 2009

Dularfullu hrísmjólkurhúsin í Hollandi

Ég setti þennan pistil inn á bloggið mitt, bjorgarna.blog.is, en ég ákvað að senda ykkur hann líka á okursíðuna:

Er verið að okra á okkur?

Ég er ein þeirra sem þarf að nota ýmsar vörur í staðinn fyrir mjólkurvörur. Ég komst að því fyrir þó nokkuð löngu síðan að ég kýs frekar að nota hrísgrjónamjólk en soyamjólk. Hrísgrjónamjólk hefur reyndar alltaf verið dýrari en soyajólk en ég hef látið mig hafa það hingað til.

Er verið að okra? Fyrir svona ári síðan kostaði hrísgrjónamjólk á bilinu 200-250 kr. eftir því hvar hún var keypt. Núna var ég að reka augun í það að í Bónus kostar hún 398 kr!!! Það er næstum tvöföldun á verði. Annars staðar er hún komin vel yfir 400 kr. Mér varð svo mikið um að ég fór að reikna út hvort þetta gæti mögulega verið rétt svona m.v. hvað hefur gerst í verðbólgu og gengismálum.

Mjólkin sem ég hef verið að nota er framleidd í Hollandi svo ég fann út gengi evrunnar fyrir ári síðan og svo gengið í dag. Ef ég bætti ofan á gengishækkunina 18% verðbólgu fyrir allt árið þá passar þetta verð. En þetta er reiknað ofan á útsöluverð og það var ekki svona há verðbólga allt síðasta ár! Það er greinilega verið að taka sér nokkrar auka krónur þarna á minn og annara kostnað!

Sama varan? Annað sem ég tók líka eftir þegar ég fór að rýna í þessi mál. Ég á tvær uppáhalds tegundir; Önnur heitir held ég Lima en hin Rice Dream. Mér hefur alltaf fundist þær alveg eins, léttar og ferskar á bragðið. Lima hefur verið ívið ódýrari svo ég fór að athuga efnainnihald. Viti menn: Það er nákvæmlega sama efnainnihald í þeim - alveg uppá milligramm! Ekki bara það heldur er uppsetningin á listanum nákvæmlega eins. Eini munurinn er sá að það er sitt hvort letrið á umbúðunum. Þetta fannst mér skrýtið.

Skrýtnara varð málið þó þegar ég las upplýsingar um framleiðendurna: Jújú... sitt hvor framleiðandinn, báðir í Hollandi... EN..... við sömu götu og í húsum hlið við hlið!! Annar í húsi númer 9 en hinn númer 11!!

Getur verið að það sé kannski verið að selja manni NÁKVÆMLEGA SÖMU VÖRUNA Á SITT HVORU VERÐINU????

Mér finnst vont að sjá að ég hef verið höfð að fífli.

Ég er hætt að nota hrísgrjónamjólk og er farin að nota soyamjólk. Soyamjólkin hefur, þrátt fyrir að vera framleidd í Hollandi rétt eins og hrísgrjónamjólkin, ekki hækkað nema um rétt rúman 50 kall. Ætli það sé öðruvísi evra og verðbólga hjá soyjavörum en hrísgrjóna? Hvað á maður að halda?

Bestu kveðjur,
Björg Árnadóttir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli