þriðjudagur, 30. júní 2009

SMA enn og aftur

Í Bónus hefur SMA 900g þurrmjólkurduft hækkað úr 998 kr í kr. 1598 eða um rúmlega 60%
Vel í lagt þar.
Keypt í Bónus Akureyri

Tölvutek - gróft svindl?

Stundum eru auglýstar tölvur með dýrum og flottum örgjörva þegar þær eru í raun að bara með ódýrari budget örgjörva. Meðaljóninn fattar ekki að hann er að kaupa mun lélegri vöru en auglýst er.
Sjá umræðu um málið:
http://spjall.vaktin.is/viewtopic.php?f=9&t=23516
bestu kveðjur
Arnar

Pro-Gastro8

Ég er ein af þeim fjölmörgu sem tek inn Pro-Gastro8 fyrir þarmaflóruna og meltinguna.
Mikið hefur verið fjallað um þetta náttúrulyf á útvarpi Sögu hjá henni Arnþrúði Karlsdóttur.
Í Lyfju Smáralind kostar pakkinn rúmlega 1500 kr.
Í Lyf og Heilsu Kringlunni kostar pakkinn rúmlega 1900 kr.
Í Lyfjaveri Suðurlandsbraut kostar pakkinn rúmlega 2200 kr.
Lyfjaver gefur sig út fyrir að vera ódýrt apótek, en þetta kalla ég okur.
Alls staðar er um að ræða pakkningu með 40 hylkjum.
Viltu vinsamlegast birta þessar upplýsingar svo fólk geti áttað sig á hvar best er að kaupa þessa vöru.
Með baráttukveðju,
Sigurbjörg A. Guðmundsdóttir

Okur í Brynjuís

Mig langaði að senda þér nokkrar línur því mér er farið að blöskra verðskráin í Brynju á Akureyri. Ísinn þar er frábær og allt það en það sem fer í taugarnar á mer er að það er rukkað fyrir hvern einasta hlut. Í langan tíma hafa þau haft þann sið að rukka fólk fyrir aukabox ef keyptur er stór bragðarefur. Það finnst mér alveg út úr kortinu sérstaklega í ljósi þess að ef þú pantar ís í brauðformi og færð á hann dýfu er þér undantekningarlaust boðið að setja ísinn í box svo hann detti ekki, ekki kostar það krónu. Við kaupum yfirleitt stóran bragðaref og biðjum um að skipta honum í tvö box, því það er miklu ódýrara heldur en að kaupa tvo litla, nógu dýr er nú ísinn samt fyrir. Ég hef pirrað mig á þessum boxakaupum í langan tíma og nokkrum sinnum dottið í hug að koma með box að heiman en gleymi því svo alltaf. En fyrir skömmu tóku eigendur Brynju þá ákvörðun að rukka fyrir aukaplastskeiðar og kostar nú hver skeið 100 krónur!! Þannig að ef þú kaupir þér stóran bragðaref og biður um að láta skipta honum kostar það mig nú 150 krónur aukalega. Þetta finnst mér til háborinnar skammar og er nú hætt að versla við Brynju, fer heldur út í Bónus og kaupi lítra af ís þar!
Steinunn

Varahlutaokur


Ég vinn við bifreiðaverkstæði hér í bæ og vildi benda á hvað varahlutir í bíla hafa hækkað úr öllu valdi. Ómerkilegir hlutir sem kosta ekki mikið í framleiðslu eru komnir í ótrúlega tölur.
Mér datt í hug að senda þér þetta bréf þar sem mér blöskraði mikið eftir ferð uppí Brimborg. Ég var það til að kaupa lítið plast á Mösdu bíl sem er lok fyrir rúðupissið á stuðari. Þetta litla stykki kostar litlar 55.000kr !!! Allur stuðarinn kostar aðeins 170.000 (án lokana). Þetta er bara lítið dæmi um hvað varahlutir hafa hækkað eftir hrunið. Meðfylgjandi mynd er af þessu stykki sem mér vantaði.
kv,
Jón Helgi

Kreppugler

Það hefur verið ansi fjörug umræða um gleraugu á þessari síðu. Var að sjá að einhver er búinn að opna netverslun með gleraugum, finnst þetta ógeðslega sniðugt og virðist vera rosanlega ódýrt. www.kreppugler.is
Kær kveðja,
Óli

mánudagur, 29. júní 2009

Rasismi og okur í ferðaþjónustunni

Var á barnum í Leifstöð og keypti bjór á 520 kr. Kaninn sem sat við hliðina á mér var látinn borga 5 dollara fyrir sama bjór eða um 640 kr isk miðað við gengið eins og það var á þessum tíma (128 kr dollarinn).
Þannig þurfti útlendingurinn að borga um 23% meira fyrir sömu vöru.
Þetta á við um flestar vörur þarna. Þegar ferðamenn voru búnir að greiða spurðu þeir hvaða gengi væri eiginlega verið að nota og var fátt um svör..
Ef útlendingar eru efins um að við íslendingar séum apar í peningamálum þá hverfur sá efi við svona aðstæður..
Spurning hvort ferðaþjónustan hagi sér svona yfir línuna??
kv
VAV

American Húmbúkk

Ég gerði þau mistök um daginn að láta blekkast til að fá mér American Express greiðslukort, aðallega vegna svokallaðrar punktasöfnunar erlendis. Nú hef ég hins vegar reynt að greiða með kortinu í þremur Evrópulöndum (DK, DE, CH) en hvergi er tekið við þessari tegund korta, ekki einu sinni í hraðbönkum. Engir punktar að hafa upp úr því sem sagt.
Þá er heimasíðan www.americanexpress.is ein allsherjarblekking og samansafn villandi upplýsinga.
Hvergi er hægt að fá upplýsingar um kortagengi amex, svo korthafar geta ekki gert sér grein fyrir hvað þeir þurfa að borga fyrir þjónustu/vöru erlendis. Það er léleg afsökun að gengið sé síbreytilegt, þeim mun meiri ástæða er til að hafa þessar upplýsingar aðgengilegar.
Á síðunni stendur: "Þú færð 5.000 Vildarpunkta þegar þú byrjar að nota Classic kortið." Þetta er villandi, vildarpunktarnir færast fyrst eftir mánaðamót, þegar kortareikningurinn hefur verið greiddur. Því ætti að standa: Þú færð 5.000 vildarpunkta þegar þú hefur greitt fyrsta kortareikninginn þinn.
Þá er mjög erfitt að átta sig á hvað það kostar að nota kortið, hvort sem er í búðum eða hraðbönkum, gjaldskráin er vægast sagt óskýr. Dæmi:
Skotsilfur
þóknun úttektargjald
Innanlands 3,0% lágmark 650 kr.
Erlendis 4,5% lágmark 650 kr.

Sem sagt, það er ekki auðvelt að átta sig á skilmálum þessa korts af heimasíðunni, maður verður bara að prófa og komast að því af eigin raun, hvurslags húmbúkk þetta er.

Kveðja
Anna

Skrýtið tilboð á Diskóís

Það var auglýsing í Fréttablaðinu í dag frá Kjörís um að gamli Diskóísinn þeirra væri á 99kr. Mig grunaði nú að þetta ætti ekki við alls staðar þannig að ég fór á Olís bensínstöðina á Akureyri til að kaupa mér ísinn á 99 kr enda örugglega um 15 ár síðan ég fékk mér svona síðast.
Þar var ísinn á 299 kr. Svörin sem ég fékk var að Kjörís væri að auglýsa þetta en ekki Olís hér f norðan. Það var búið að loka á skrifstofu Kjörís þegar ég hafði samband þangað.
mbk.
ólöf sigríður

Teningunum hefur verið kastað (á glæ)

Ég var að leita að teningum og fór í 3 bókabúðir niðrí bæ, þar var bara til sama varan á sama verði í öllum búðunum eða 6 teningar á 995kr. Svo eg brá mér í Nexus og fékk 12 teninga á 995 kr eða helmingi meira magn á sama verði. 10 sinnum meira úrval.

Kv. Albert Teitsson

Ánægður með MP banka

Vil tala um það sem jákvætt er og það er að ég hóf fyrir stuttu síðan viðskipti hjá MP – banka, eftir að hafa í annað skipti hætt viðskiptum við Kaupþing, nema hvað að ég fékk meðal annars debetkort hjá MP - banka og þegar ég byrja að nota það, þá tek ég eftir því að það fer yfir heimild og ég fæ FIT kostnað í hausinn, eins og mun fylgja þessum venjulegu debetkortum, en ég hafði verið búinn að panta síhringikort, en þau stöðva greiðslur af kortinu ef engin er innistæðan.
Ég hafði samband við MP – banka út af þessu og er mér þá strax vel tekið og ég beðinn afsökunar á þessum mistökum og FIT kostnaðurinn sem áður hafði komið til, var endurgreiddur inn á reikninginn minn strax og mér síðan sent nýtt debetkort.
Svona góða þjónustu hjá MP – banka vill maður sjá hjá fyrirtækjum og fjármálastofnum,þau eru til fyrirmyndar hjá MP - banka.
Takk fyrir góða vefsíðu.
Kristján Blöndal.

Ekki hress með N1grillskálann á Patreksfirði

Ég hef ekki skrifað þér áður, en nú er mér allri lokið og get ekki orða bundist. Ég keypti 4stk Panasonic AAA rafhlöður í N1-grillskálanum á Patreksfirði sem kostuðu litlar 981,00 svo var annar verðmiði undir og á honum stóð 610,00. Þar sem maður er orðin svo sljór þagar maður er að versla og bara réttir kortið þegjandi og hljóðalaust, mér var bent á að kanna verð annarsstaðar sem ég og gerði það voru að vísu önnur gerð og voru þau ódýrustu hér á Patró frá um 370,00 til 600,00 og kannaði ég líka víðar um landið hjá N1 og var það dýrasta sem ég kannaði 620,00 sem voru samskonar rafhlöður.
Eins langar mig að segja þér frá því að lítið Góu Hraun kostar litlar 250,00 kr!!! í sama N1 Grillskála á Patró en kostar á Hótel Flókalundi 80,00 sama stærð, eins súkkulaði.
Viðskiptavinur Grillskála N1 á Patreksfirði

miðvikudagur, 24. júní 2009

Dýrir augndropar

Langar að benda á uppreiknað verð Livostin augndropa sem eru mikið notaðir á mínu heimili vegna frjókornaofnæmis. Einingin er í 4 ml glasi sem dropaskammtari. Vissulega er ekki mikið magn notað í einu en verð á 4 ml í Lyfju Smáratorgi er á kr. 2,876.- Oft er það hagur að selja hluti í litlum einingum til að auka framlegð, ennfremur sem lyf geta runnið út fljótlega eftir opnun, en umreiknað kostar 1 líter af þessum augndropum kr. 719,000.- ! (250 glös í 1,000 ml.)
Það er töluvert meira en útborguð mánaðarlaun hæstvirts forsætisráðherra sem skal þó leggja línurnar með launakjör opinberra starfsmanna. Þó svo þessi kaup drepi mig ekki fjárhagslega þá má vera ljóst að víða í þessari veröld er vitlaus gefið, neytanda í óhag. Framlegð af vöru sem þessari hlýtur að hlaupa á þúsundum prósenta.

fimmtudagur, 18. júní 2009

Verð í Evrum

Undanfarið hefur verið rætt um verðlagningu Bláa lónsins í evrum og
sitt sýnist hverjum.
Ég hugðist heimsækja Kerlingarfjöll í sumar og fór á heimasíðuna
þeirra kerlingarfjoll.is og gat hlaðið niður verðlista ársins 2009
sem PDF skjal.
Mér brá þegar ég sá að allt er þar verðlagt í evrum og búið að
verðleggja íslendinga út af svæðinu.
Sem dæmi þá kostar 10 evrur á mann eða rúmlega 1700 kr. að tjalda eða
leggja fellihýsi á svæðinu sem hlýtur að vera með því dýrasta á
landinu.
kv,
Jón
p.s. Merkilegt að sem skýringu á hækkun frá fyrra ári er m.a. hærri
launakostnaður.

Dýrt í Nesti

Ég hef aldrei skrifað þér en finnst ég knúinn til þess núna. Oft á tíðum þá
kemur maður við í verslunum N1 Nesti og grípur með sér mat í fljótfærni. Núna
áðan kom ég þar við og ætlaði mér að versla Kristal Plús rauðan og mér til
skelfingar þá ætlaði afgreiðsludaman að rukka mig um 435kr, já 435kr. fyrir 2
lítra af rauðum Kristal plús, þá varð mér nóg boðið.
Eftir að hafa gert verðkönnun (ekki ítarlega bara svona einsog fólk gerir) þá
kom það í ljós að oftar en ekki þá voru verslanir Nestis dýrari en 10-11 sem ég
hef hingað til forðast að versla við vegna verðmunar. Það er klárt mál að
framvegis þá legg ég leið mína þangað frekar en að versla við N1.
p.s. ég keypti skonsupakka þar á um 240kr en borgaði svo um 150kr. fyrir sama
pakka í Hagkaupum
kv.
HjaltiVignis

miðvikudagur, 17. júní 2009

Dýrar bleyjur í Vík

Heyrðu, í sjoppunni í Vík kostar bleyjupakki 5000 krónur sem kostar rúmlega 2000 í Bónus. Barnið mitt pissublautt þurfti að fara heim í sundbuxum því ekki gat ég hugsað mér að láta taka okkur svona í ööö...
Bestu kveðjur,
Hólmfríður

þriðjudagur, 16. júní 2009

Tal hækkar

Ég er að fá útrás fyrir þunglyndi sem ég fæ yfir öllum hækkunum sem hrynja yfir okkur nú í kreppunni. Síminn minn (hjá Tal) hefur hækkað um 1419 kr. á mánuði. Ég var að borga 6200 en þarf nú að borga 7619. Er þetta ekki u.þ.b. 18% hækkun.
Ekki hafa launin hækkað, ekki held ég að þetta sé vegna gjaldeyrisviðskipta eða aukinna skatta. Hvað þá???????????
Ragna

Óánægð með Mini Market

Mig langar að kvarta yfir mjög lélegri þjónustu sem ég og fjölskylda mín höfum fengið hjá Mini Market (Pólska búðin) hérna í Drafnarfelli.
Ég (Kolbrún) sendi litla bróðir minn sem er að verða 7ára út í búð með 500kr að kaupa eina 2l kók. En þegar hann kemur heim, þá kemur í ljós að kókin er útrunninn (minnir um miðjan Maí - þetta var "jólakók"). Hann fer aftur út í búðina til að fá aðra í staðinn fyrir þessa útrunnu.
En þegar hann kemur heim er hann ekki með aðra kók í staðinn og engan pening (eins og ef að hann hefði fengið endurgreitt). Kærasti minn fór þá út í búðina til að koma málinu á hreint og fá annaðhvort nýja kók eða endurgreitt. En þá sagði afgreiðslumaðurinn á ensku að hann hefði endurgreitt stráknum sem hann gerði ekki. Og ekki gat kærasti minn farið lengra með þetta því strákurinn gleymdi að taka kvittun.
Það er ekki heimsendir að missa um 300kr en samt þetta viðmót að snuða 7 ára strák í viðskiptum er SKÍTLEGT !!
Hef áður lent í því að kaupa útrunna vöru hjá þeim og þeir hafa neitað að taka við því til baka. Jafnvel þó að ég hafi verið með kvittun og verið þarna 5min áður.
Höfum lent í veseni með þessa búð áður og héldum að það væri bara einsdæmi en annað hefur komið í ljós.
Kveðja, Kolbrún.

Capri djús í Bónus

Verslaði í Bónus í dag og keypti einn kassa af capri djús (10 djúspokar í kassa) á kr. 359. Greip síðan einnig með staka djúspoka sem síðan kom í ljós að voru seldar á 59 kr. stk. Þannig að ef þú kaupir djúsinn innpakkaðan í hentugum umbúðum borgar þú 35.90 fyrir stk. en 23.10 aukalega fyrir að það er búið að taka úr kassanum fyrir þig!
Frekar siðlaus álagning! Þetta er nákvæmlega sama varan!
kv. JG

Íslenski fáninn

í tilefni af 17.júní mig langar að benda á svívirðilegan verðmun á sömu vörunni á milli Húsasmiðjunnar og Byko.
Íslenskur fáni, á tréspítu fyrir börn, sama vara, sama strikamerki á mjög mismunandi verði.

Húsasmiðjan 139.kr.
Byko 409.kr.

Kveðja,
Ólöf Rún

sunnudagur, 14. júní 2009

Verðmerkingar í Hagkaupum

Fór í Hagkaup í Reykjanesbæ og ætlaði að versla hvíta stuttermaboli, 2 í pakka frá HFK(held það),. Hafði keypt 1 pakka í mai á um 1300 kr. Búið að hækka upp í 1699 kr. Það er kannski ekki málið heldur það að þegar ég er að skoða verðmiðana , þá rek ég augun í að það er búið að klippa neðan af þeim á nokkru pökkum. Hvað er í gangi hugsa ég með mér. Jú þá er búið að kilppa gamla verðið af og allir komnir á nýja verðið.Þetta var svo greinilegt, sumir voru frekar skakkt klipptir. Mér fannst eins og þeir hjá Hagkaup halda að kúnnarnir séu bara fífl. Fór og spurði eftir þessu og svarið var að þegar kemur ný sending þá er þetta vaninn! Þá hækka þeir það sem er fram í búð vegna sama vörunúmers!!!!!!!! Mér hefði fundist vera meiri sómi í því að plokka gamla verðið af og nýja sett á.
Hefði samt ekki keypt bolina.
Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem ég hef lent í þessu, keypti kaffivel hjá þeim fyrír Jólin, á tæpar 5000 kr, en á öðrum stað var samskonar vél á miklu hærra verði, ný sendingi, það sem klikkaði var að þegar ég spurði eftir þessu þá var sagt að drengirnir sem raða upp í hillur hefðu sett þetta á rangan stað og gleymt að skipta út verðinu. Ég fékk samt vélina á gamla verðiu
kv
nafnlaus

Rúmlega 70% dýrara í Lyfju

Hér er lítið dæmi um okur. Þann 9. júní sl. keypti konan 100 millilítra plastflösku
með dönskum brjóstdropum í apótekinu Lyfjaveri, Suðurlandsbraut 2, sem kostaði 627 krónur. Í dag, 12. júní, keypti ég sama skammt af sömu brjóstdropum í Lyfju í Garðabæ. Í Lyfju kostaði plastglasið 1.072 krónur eða 445 krónum meira, rúmlega 70 % hærra verð! Þess má geta að sama lotunúmerið er á báðum plastflöskunum.
Með kveðju,
Neytandi

Lélegt viðskipasiðferði hjá Byko

Getur verið að það sé ennþá einhver 2007 fílingur hjá Byko? Ég fór í verslun Bykó á Akureyri að kaupa ferðagasgrill sem var auglýst í tveimur bæklingum frá þeim sem bornir hafa verið í hús. Þar stendur meðal annars skýrum stöfum í þeim báðum: „Þrýstijafnari og slanga fylgja“. Ég ætlaði að taka pakkningu með grillinu og fara að greiða en sá að enginn þrýstijafnari var á sýningareintakinu. Spyr þá starfsmann hvort það fylgi ekki örugglega þrýstijafnari. Hann kveður svo vera en kemur eftir örstutta stund aftur og segir að hann fylgi reyndar ekki og hann kosti 3.900 kr. Ég er ekki sáttur og næ í bæklingana og sýni honum og öðrum starfsmanni sem virtist yfirmaður. Sá segir að þrýstijafnarinn fylgi ekki með í kaupunum. Fyrst rökstyður hann það með því að í bæklingnum sé fyrirvari um mögulegar breytingar. Þegar ég er ekki sáttur við það svar, þá er næsta mótbára sú að þetta sé prentvilla og ítrekar það þegar ég mótmæli! Systir mín og lítil dóttir fylgdust með þessum sérkennilegu orðaskiptum og þrír aðrir starfsmenn Byko og horfðu á þennan erfiða kúnna með vandlætingarsvip. Að sjálfsögðu lét ég nokkur vel valin orð falla um lélegt viðskiptasiðferði og strunsaði í burtu. Ekki veit ég hverjir eigendur Byko eru og hvernig starfsmenn eru þjálfaðir en eitt er víst að ég mun sneiða hjá Byko framvegis.
Jóhann Frímann

föstudagur, 12. júní 2009

Dýrt bús í Loftkastalanum

Ég verð að kvarta svolítið yfir verðlagningunni á áfenginu sem selt er í Loftkastalanum. Ég fór þangað á forsýninguna í gærkvöldi með vinkonu minni, hún bauð mér upp á litla hvítvín sem hún borgaði 1500kr fyrir. Hvers konar álagning er í gangi? Mér þætti gaman að vita hvort þetta kosti svona í Leikhúsinu og á tónleikum þar sem léttvín er selt.. Kv. Sigurbjörg Björnsdóttir

Þjónustustig í dýrari matvörubúðum

Mig langar að koma hugleiðingu á framfæri sem snýr að matvöruverslunum á borð
við 10-11, 11-11, Nóatún og Hagkaup þar sem verðlagningin er afar rífleg.
Ég hef í mörg ár furðað mig á því afhverju fólk við kassana í þessum búðum
hjálpar ekki viðskiptavinunum að setja í pokana og klárar viðskiptin áður en
næsti viðskiptavinur er tekin (í bakaríið :-þ).
Í staðin er vörunum troðið yfir hver aðra og jafnvel vörum næsta kúnna líka
þannig að maður á fótum sínum fjör að launa og það verður svona
"bónus-fílingur" á verslunarferð sem átti að vera svona "rólegri og
afslappaðri-fílingur" á. Hér væri til dæmis möguleiki fyrir "dýra" verslun að
skapa sér sérstöðu. Það er að segja ef slíkur áhugi er fyrir hendi og
raunveruleg samkeppni er til staðar á fákeppnismarkaði.
Með vinsemd og virðingu,
Guðrún - húsmóðir á besta aldri

Dýrt kílóbæt

Nú veit ég ekki hvort það hafi verið fjallað um þetta hjá þér áður en ég ákvað að láta þetta flakka. Ég er að fara að ferðast í næstu viku til útlanda og ákvað að hringja í Vodafone og spyrjast fyrir um hvernig taxtinn væri hjá þeim varðandi 3G sem ég hef nú notað það af og til, kíkt á mbl osvf. Daman í þjónustuverinu tjáði mér að kb (kílóbætið) væri verðlagt á 1,1 Evru ! Sem mundi þýða á núverandi gengi að það mundi kosta 21.840 kr. Að opna mbl.is !
Nú veit ég að það flokkast undir munað að geta notað símtækið sitt til að fylgjast með fréttum á ferðinni en mér finnst þetta vera gjörsamlega útúr kortinu. Á þessum taxta Vodafone væri straumur af 3MB lagi frá tónlist.is að kosta notandann í kringum 660.456kr. það yrði s.s. mjög dýrt spaug að rekast óvart í webbrowser takkann á símanum sínum í útlöndum, held að maður skilji hann bara eftir heima hjá sér í læstri skúffu.
Kv. Karl Jónasson

miðvikudagur, 10. júní 2009

Gas! Gas! Gas!

Ég fór úti Olis Álfheimum áðan til að skila 5kg plast gashylki, sem ég keyti um daginn á tæpar kr 9000.- en þau vildu kaupa af mér á ca kr. 2500.- eða kr. 6500.- minna en ég borgaði fyrir það fyrir nokkrum dögum síðan. Svo ég fór til að ath hvort allir notuðu sömu vinnubrögð. Ég fór í Esso Borgartúni sem endurgreiddi mér gashylkið á samaverði og það kostaði í upphafi eða tæpar kr. 9000.- þar er maður ekki rændur um hábjarta dag.
kveðja
Jóhann B. Þorgeirsson.

Blekkingarleikur AmEx

Ég vildi benda á eitt sem neytandi og atvinnurekandi.
Það er auglýst grimmt að American Express sé málið, kemst út - punktasöfnun mikil,
Sölumaður hringdi og reyndi að sannfæra mig um að þetta væri málið
hann benti á mig að kostnaður færi á fyrirtækin, látum þá borga.
Það eru mjög mörg fyrirtæki að loka á Amex vegna hversu fáranlega hátt prósentu gjald/þóknun þeir eru að taka fyrir hverja færslu. Þetta veldur óþægindum fyrir neytendur.
Annað og meira atriði er það að GENGISTAFLAN hjá þeim er töluvert hærri en hjá hinum kortafyrirtækjunum, reiknaðu dæmið og þú munt sjá að þú endar með að borga fyrir ferðina útaf þessum mun.
Þetta er náttúrulega bara blekkingarleikur.
kv Gunnar

Klukkutímabið í Hyrnunni

Við hjónin stoppuðum í Borgarnesi um daginn og borðuðum í Hyrnunni. Við héldum
að þetta væri skyndibitastaður og fórum þangað þess vegna og pöntuðum okkur
kjúkling. Eftir klukkutíma bið fengum við matinn.
Að það skuli taka klukkututíma að afgreiða kjúkling er auðvitað met útaf fyrir
sig.
Klukkutíma bið er ekkert sem kemur fólki á óvart. það gerist um hverja helgi.
Fólk bíður og bíður. Það komi starfsfólkinu jafnmikið óvart að allt skuli vera
fullt af fólki!! Að það skuli ekki vera meira skipulega á afgreiðslunni er alveg
með ólýkindum. Starfsfólkið er örugglega skammað út í eitt af óánægðum
viðskiptavinum.
Það kostar eigendur lítið að gera gott staftsfólk betra því það verður alltaf
að greiða því laun hvort sem eigandi þjálfar það eða ekki. Þeim mun meira sem
fólk er þjálfað og vinnur skipulega þeim mun betra fyrir alla.
Og fyrst ég er byrjuð að kvarta. Það mundi ekki drepa neinn að þrífa þarna þó
ekki væri nema smá. Bæði inn og úti.
Kveðja
Sigga

80 kall fyrir sumarleik

Ég fór í Hagkaup í skeifunni í gær, sá þar í stórri stæðu Kókómjólk í svona six-pack og stórt spjald ofaná merkt TILBOÐ 6 stk kókómjólk á 318kr. Auðvitað vildi ég gera góðan díl þarna og greip 3 pakkningar. Þegar ég kom heim fór ég að skoða miðann, bara svona fyrst ég var með hann, og þá kom í ljós að 2 pakkningar hafði ég keypt á vissulega 318kall, en sú þriðja var á 396kr þ.e. 78kr meira en hinar... Nú er ég ekki sérfræðingur í kókómjólk en fernurnar líta nú allar eins út, líklegast er bragðið það sama í öllum og allar voru þær saman í stafla. Eini sjaánlegi munurinn er að það er miði á einni kippunni sem er sumarleikur MS...en ekki á hinum tveim, er ekki soldið verið að seilast langt ef á að rukka tæplega 80 kall af neytandanum fyrir það að taka þátt í sumarleik...er þá ekki bara betra að sleppa leiknum og lækka verðið? Svona pæling.

Kveðja,
Kristinn Jónsson

Sodastream til í Byko

Einu sinni varstu að skrifa um Sodastream og að það væri ekki lengur til á landinu. Ég var í Byko áðan og sá að Sodastream tæki, nokkrar tegundir, voru til sölu og að auki nokkrar bragðtegundir. Ég get svo sem ekki svarið að þetta sé eitthvað ódýrara en að kaupa gosið út í búð, en vildi bara benda á að þetta er allavega til aftur.
Lalli

Mælir með tonlist.is

Nú eru allir að spara, og Tónlist.is er leið til að fá tónlist á góðu verði...
Hér eru nokkrir punktar:
Hægt að fá áskrift af öllu efni, íslensk tónlist 1.995kr eða íslensk og erlend tónlsit á 2.699kr
Í rauninni færðu aðgang að öllum plötu fyrir það sama og ein kostar, en ný plata er kominn í c.a. 2.700-2.900kr út úr búð!
Verð á plötum hjá tonlist.is er 20-30% ódýrari - t.d. alment verð á nýrri plötu hjá tonlist.is er á 1.990 kr þegar það er c.a. 2.700kr út úr búð.
Hægt að fá sér bara þau lög sem maður vill, ef þú fílar bara eitt lag á plötunni þá kaupir þú bara það lag (verð 79-199kr lagið)
Svo er hægt að prófa þetta allt frítt í 7 dag, svona fyrir þá sem eru ekki vissir hvort þetta er eitthvað fyrir þá...
Berti

þriðjudagur, 9. júní 2009

Margendurtekin mannleg mistök í Tölvulistanum

Mig langar að koma á framfæri upplifun á sérstaklega lélegri þjónustu sem
ég fékk hjá Tölvulistanum nú á dögunum.
Ég fékk flakkara í jólagjöf sem hætti að virka í apríl (rúmlega fjórum
mánuðum eftir kaup). 7. maí þá reyni ég að hringja á verkstæðið og
verslunina hjá tölvulistanum. Eftir að hafa reynt í 45 mínútur að ná í
annað hvort verslun eða verkstæði þá hætti ég því og fer niður í verslun
og fæ upplýsingar um hvar verkstæðið er.
8. maí þá fer ég með flakkarann á verkstæðið og er sagt að það taki 4 daga
að bilanagreina hann og ég verði látin vita þegar það er búið að greina
bilunina.
25. maí þá hef ég ekkert heyrt frá verkstæðinu þannig ég hringi til að
athuga stöðuna á málinu. Þá er mér sagt að það sé ekki búið að skoða
flakkarann (hann er semsagt búinn að vera þarna alveg óhreyfður og
óskoðaður í tæpar 3 vikur). Ég spyr hvernig standi á því og fæ þau svör að
það hafi verið svo mikið að gera. Svo líða nokkrir dagar og ég hringi
reglulega til að athuga hvort þetta fari nú ekki að koma og það er svo 3.
júní sem ég fæ að vita að flakkarinn sé ónýtur og harði diskurinn minn
verði færður yfir í nýjan flakkara. (ég hafði mestar áhyggjur af gögnunum
sem voru inn á flakkarnum. Þarna voru allar fjölskyldumyndirnar mínar og
öll gögn mín úr Háskólanum síðustu 3 ár). Í hvert skipti sem ég talaði við
verkstæðið þá talaði ég sérstaklega um mikilvægi þess að ég myndi fá harða
diskinn minn.
4. júní þá fæ ég sms um að flakkarinn sé tilbúinn og ég megi sækja hann.
Ég fer á verkstæðið og fæ afhentan kassann og spyr þá einu sinni enn hvort
öll gögnin mín séu ekki á þessum nýja flakkara. Enn einu sinni er mér sagt
að þetta sé bara sami harði diskurinn ég og þurfi ekki að hafa neinar
áhyggjur af þessu.
Sama dag og ég fæ flakkarann afhendan fer ég út á land og á
föstudagskvöldinu þá ætla ég að fara að færa gögn af tölvunni minni yfir á
flakkarann. Þegar ég opna kassann þá sé ég boxið (sem er utan um harða
diskinn) og það er tómt. Ég prufa að kveikja á honum og það er allt í lagi
en það er enginn harður diskur í boxinu, hvorki nýr né minn gamli.
Á þessum tímapunkti var ég orðin alveg óheyrilega pirruð því það var ekki
eitt atriði í sambandi við þjónustuna hjá þeim sem var búinn að vera í
lagi.
Á mánudaginn þegar ég kem aftur í bæinn þá fer ég á verkstæðið og segi að
ég hafi fengið afhent tómt box og ég vilji fá harða diskinn minn. Þá er
hann ekki á staðanum og þetta tekur þá einhvern tíma að ná í þetta. Hann
segist svo hringja þegar þetta verði til, það verði hugsanlega í dag!! Ég
spyr hvort þetta sé nokkuð svona mikið mál. Hvort að þessu verði ekki bara
reddað í hvelli og flakkarinn svo sendur til mín. Hann játar því hvorki né
neitar en segist ætla hafa samband þegar þetta verði komið. Seinna um
daginn fæ ég svo símtal þar sem hann segir mér að þetta sé allt komið og
ég megi sækja hann. Ég spyr hvort þeir keyri honum ekki til mín en þá var
það ekki hægt þennan dag (?!)
Þannig ég ákveð að sækja hann (þarna er ég búin að fara 4. sinnum á þetta
verkstæði, auk ótal símtala). Þegar ég kem þarna þá kemur hann með
flakkarann og eina snúru og ætlar að rétta mér hann þannig (án
fjárstýringa, usb-tengis, hleðslutækis og alls sem að þarf til að hægt sé
að nota hann).
Ég bið um að fá allt sem á að fylgja með og hann fer og tekur sér
ágætistíma í að grafa upp kassann með öllum fylgihlutunum. Ég bið hann svo
um að tengja tækið við tölvu þannig ég geti verið alveg viss um að öll
gögnin séu inn á, þetta virki allt og allar snúrur séu með. Þá finnst
ekkert usb tengi og starfsmaðurinn fullyrðir að það hafi ekki verið í
kassanum. En ég segi honum að þarna hafi allt verið og ég vilji fá allt
sem hafi verið í kassanum. Þá dregur hann upp eitthvað gamalt usb-tengi
frá þeim og segir að hann skuli bara gefa mér það fyrst ég hafi týnt hinu
(sem var ekki tilfellið), Ég bað hann vinsamlegast um að finna usb-tengið
mitt, ég þyrfti ekki að fá eitthvað drasl gefins frá þeim. Ég vildi bara
fá það sem ég ætti.
Þegar þarna var komið við sögu þá var ég orðin mjög pirruð (vægast sagt)
og var að tala við einhvern sem sagðist vera einhver yfirmaður þarna. Ég
vildi fá útskýringar á því hvernig hann myndi verja svona vinnubrögð.
Hann vildi meina að þessar tafir hefðu verið alveg óvæntar (sem mér finnst
ólíklegt og ef svo er þá er mjög lítið mál að láta fólk vita) og hitt
hefði bara verið mannleg mistök. Hann gaf lítið út á það að það vantaði
eitthvað upp á verklagið eða vinnubrögðin hjá þeim og þvertók fyrir að
bæta fyrir þetta á nokkurn hátt.
Ég bara get ekki orða bundist, ég veit að þetta er langt bréf en það var
líka hvert sem rak annað í þessum samskiptum sem ég neyddist til að hafa
við tölvulistann.
Þetta finnst mér vera lýsandi dæmi um eins lélega þjónustu og hægt er að
veita. Ég viðurkenni það alveg að mistök gerast og óviðráðanlegir hlutir
líka, en þetta var eitthvað allt annað en "mannleg mistök"
kveðja Júlía Birgisdóttir

Nefspreysokur - skást í Garðsapóteki

Ég ætlaði að kaupa Nasacort sem er nefsprey vegna frjóofnæmis og labbaði inn í Lyfju og fékk áfall þetta nauðsynlega lyf kostaði á 5 þúsundið og svo ég gekk í það að hringja: jú, Lyfjaver kostaði það 4600, Apótekið 4212 kr og Garðsapótek var það 2890 kr.
Munurinn er ekki skýrður nema með okri.
Eitthvað fær maður afslátt ef maður er með lyfseðil í þessum okursjoppum en það hefur svo mikið breyst síðan fyrir ári þegar ég keypti síðast.
Bestu kveðjur,
Unnur Sigurðardóttir

Hvalkjöt hækkar

Ég átti leið í Mjóddina og kíkti inn í Netto .... rétt svona til að athuga hvort eitthvað matarkyns væri á tilboði. Sá ég að nýtt Hrefnukjöt var komið í borðið en ég fékk smávægilegt hjartaáfall er ég leit á verðið ! TÆPAR 1500 kr. kílóið!!
Ekki eru mörg ár síðan ég fékk kílóið á 199 kr í Bónus. Síðasta ár var hægt að fá það á undir 1000 kr. Nú þykir mér fokið í flest skjól á mínu Hvala áti og mun ég hér með ekki kaupa það oftar , kaupi þá frekar okkar eðal lambakjöt töluvert ódýrara en hvalinn.
Það mætti halda að þessir hvalaveiðimenn eldu hvalinn sjálfir og borguðu hellings kostnað við það! Hvað réttlætir þetta háa verð ?
Kv. Gulli Jóns.

Hent út af Ölveri út af gosglasi

Tómas heiti ég og varð fyrir virkilega slæmri þjónustu sem á sér enga líka.
Það var þannig að ég og bróðir minn förum á Ölver í Glæsibæ til að horfa á fótboltaleik.
Ég byrja á því að panta mér einn bjór. Þegar afgr. konan er að hella bjórnum í glas spyr ég hana hvort hún sé með hamborgaratilboð.
Hún svara því játandi og ég spyr hvað það kosti, 1.100,-kr svara hún. Og þá spyr ég hana hvort það séu franskar og Coke með. Þessu svarar hún játandi og ég segist ætla fá eitt slíkt. Fyrir bjórinn og borgarann borga ég 1.600,-kr fyrir. Svo fer ég að mínu borði og fæ borgarann stuttu seinna, nema það vantar gosið. Ég geri mér ferð að barborðinu þar sem eigandinn afgreiðir mig með gosið.
Stuttu seinna kemur hann að mér og heimtar að ég borgi gosið. Ég segi þá við hann að ég hafi keppt það með í tilboðinu. Hann svara því neitandi og rökstyður það með því að segi að ég hafi fengið bjór með. Ég segi við hann að ég komi og ræði við hann þegar leiknum sé lokið. Það fyrsta sem ég geri þegar það kemur hálfleikur er að fara og ræða við hann. Ég byrja á því að vera léttur og skemmtilegur við hann og segi við hann að mér fynndist að ég þyrfti ekki að borga gosið og rek mín samskipti við hans starfsmann sem kemur inn í samtalið og segir við mig að ég hafi sagt koktelsósu, ekki coke. Ég segi henni að svo hafi ekki verið og þyki leiðinlegt að hún hafi miskilið mig. Þá segir eigandinn við mig að ég hafi um tvennt að velja, annað hvort að borga gosið eða ég gæti bara drullað mér út. Bróðir minn stendur við hliðina á mér og verður vitni að þessu. Og spyr hvort að þetta sé nú ekki full gróf framkoma við viðskiptavin sem væri nú búinn að eyða nokkur þúsundum á meðan leiknum stóð. Hann svarar með því að segja við hann að halda kjafti og við gætum bara báðir drullað okkur út.
Ég og bróðir minn erum með samanlagt 20 ára reynslu úr þjónustustörfum og höfum aldrei á okkar ferli orðið vitni af slíkri þjónustu. Ég er núna tveimur vikum seinna ekki búinn að fatta hvað kom yfir þetta fólk og afhverju þessi hegðun átti sér stað. Því ég og bróðir minn vorum ekkert nema kurteisir við þau. Þarna missti Ölver marga viðskiptavini í skiptum fyrir 0,5L af gosi, sem ég endaði með að skila til hans eftir einn sopa, ekki hafði ég mikið geð á að drekka það eftir þessi viðskipti.
Tómas

Markísuhækkun í Europris

Langar að benda á hækkun hjá Europris sem mér blöskrar alveg
Hringdi í Europris útaf markísu sem ég verslaði í fyrra á 19.990 og þegar búið var að hengja hana upp í kringum 20.ágúst í fyrra kom í ljós að hún var gölluð og þurfti ég ásamt góðu aðstoðarfólki að taka aftur niður með tilheyrandi veseni og tímaeyðslu og drösla henni aftur í verslun Europris. Þegar þarna var komið við sögu var nú sumarið á enda og mér fannst nú tilgangslaust að fara að eyða meiri tíma og basli við að koma nýrri upp til að sitja af sér veturinn og tjáði ég þeim það í versluninni. Mér var boðin endurgreiðsla sem ég þáði með þökkum. Eftir sat í vetur göt á húsveggnum mínum sem biðu eftir nýrri markísu með vorinu....en nú má búast við að fyllt verði upp í götin með öðru en festingum markísunnar....fór ó Europris um daginn og verðið á markísunni er komið í 39.990!!! sem sagt rúmlega 100% hækkun
Þegar ég hringdi á skrifstofu Europris til að spyrjast fyrir um þessa rosalega miklu hækkun fékk ég þau svör að gegnið væri búið að hækka svona mikið...einmitt!!!
Skoðaði gengið á norsku krónunni (mér var sagt að þetta væri keypt þaðan) og þá kemur nú í ljós að gengið 1.júlí í fyrra var tæp 15,7 og er núna 19,3.... ekki 100% hækkun á gengi ef maður kann að reikna aðeins!!!
Þegar ég kom með þau rök að gengishækkunin væri nú ekki til að sannfæra mann um þessa rúmlega 100% hækkun hjá þeim þá var mér sagt „til vara“ að þetta væri líka búið að hækka svona mikið hjá birgja erlendis...einmitt!!!
p.s til gamans má geta að sumarið 2007 kostaði þessi sama markísa 12.990!
Er þetta eðlileg hækkun? Hvað finnst neytendum?
Kær kveðja, Ragnheiður

mánudagur, 8. júní 2009

Hækkun um 400% á 10 árum

Datt í hug að vekja athygli þína á gríðarlegum hækkunum á s.k. skógarplöntum (bakkar með litlum trjáplöntum) sem almenningur kaupir til að skrýða landið trjágróðri og kolefnisjafna um leið.
Ég byrjaði að kaupa svona bakka fyrir 10 árum eða árið 1999 og þá var alengt verð 1290 krónur en í dag kosta þeir hjá flestum söluaðilum 4800 kr bakkinn og virðist sem eitthvað verðsamráð sé í gangi. Þetta er hækkun um 400% á 10 árum. Ég hef grun um að þetta sé meiri hækkun en á annarri vöru, en allt efni er innlent þ.e. fræ og mold eða stiklingar og mold. Laun hafa ekki hækkað svona mikið, þannig að þá eru það kannski plastbakkarnir sem eru notaðir sem eru svona dýrir, veit ekki hvar þeir eru framleiddir, en það mætti spara mikið með því að endurgreiða skilagjald af bökkunum og endurnýta þá. Ég er nokkuð viss um að víða liggi mikið af þessum bökkum í reiðileysi.
Ég held að þessar hækkanir á skógarplöntum séu enn eitt dæmi um verðhækkanir þar sem er verið að fara illa með neytendur.
Annað sem mér blöskrar er að fyrir um 8 árum keypti ég s.k. smáhýsi í Húsasmiðjunni á 98.000 krónur. Nú kosta svona smáhýsi um eina milljón á "gamla verðinu" .
kk,
Ingibjörg

Klikkuð menu á Fiskmarkaðinum

Ég má til með að segja frá viðskiptum mínum við veitingastaðinn Fiskmarkaðinn hér í Reykjavík nýlega.
Við vorum sex háskólanemar að fagna saman skilum á lokaverkefni okkar og fórum út að borða á þriðjudagskvöldi í byrjun maí. Þar sem einhverja langaði í sushi var ákveðið að fara á Fiskmarkaðinn í Aðalstræti.
Þegar inn var komið var okkur afhentur vínseðill. Allir pöntuðu sér einn bjór, en þarna er aðeins seldur bjór í flöskum, 330 cl. Samkvæmt vínseðlinum kostaði Egils Gull 950 kr og Ashai (innfluttur japanskur) 990 kr. Bjór á krana var ekki í boði. Við pöntuðum einn á mann meðan beðið var eftir borði.
Þegar við fengum matseðilinn í hendurnar tókum við eftir því að misræmi var á milli verða þar sem réttirnir voru kynntir á íslensku eða á ensku. Tek það skýrt fram að verðin voru bæði í íslenskum krónum. Munurinn á Sushi bakkanum var 400 kr, þar sem þeir sem lesa og tala íslensku voru rukkaðir um hærra verða en þeir sem lesa og panta á ensku!
Eftir matinn var farið upp á efri hæðina og gert upp. Þá kom í ljós að litli Egils flöskubjórinn kostaði 1.190 kr í kassanum eða 250 kr meira en vínseðilinn sagði til um. Þar sem við höfðum drukkið nokkra bjóra hvert þá var þetta um kr 1.000 á mann sem munaði þarna á verðinu. Ashai bjórinn kostaði líka 1.190 kr í kassanum, eða 200 kr dýrari en á vínseðli. Við höfðum öll fengið vínseðil þegar inn var komið og því er ekki hægt að útskýra þetta sem villu á einum seðli þar sem verðið var allsstaðar það sama.
Við bentum þjóninum á þetta og hann lenti satt best að segja í stökustu vandræðum með að “leiðrétta” kassann og endaði þetta þannig að hann þurfti að gefa afslátt á reikninginn þar sem verðið á bjórnum virtist alveg ákveðið í afgreiðslukassanum (computer says no).
Varðandi mismuninn á verði á enska og íslenska seðlinum þá virtist ekki vera hægt að breyta því og þjónninn sá ekki ástæðu til að reyna að leiðrétta það en við hlógum bara að þessu og yfirgáfum staðinn án þess að sækja málið til fulls.
Það skal tekið fram að þetta kvöld var mikið að gera og setið á nær öllum borðum. Maturinn stóðst kröfur en hefði mátt vera talsvert betur útilátinn, sér í lagi sushi þar sem hráefnið í það kostar ekki mikið hér á landi. Þjónustan var í allt lagi en ekkert umfram það.
Vildi bara koma þessu á framfæri, en þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór yfir reikninginn frá VISA frænda nú um helgina.
Kveðja,
EÁL

Pósturinn að spara

Ég þurfti nauðsynlega að koma pakka til Norðurlandanna fyrir miðvikudag eftir hvítasunnu. Þegar ég kem í pósthúsið niður í Austurstæti fyrir lokum á föstudeginum er mér tjáð að pakkinn verði fyrst sendur á miðvikudag þeas 5 dögum síðar!
Er verið að einangra Island eða hvað er á seyði? Undirrituð var sumarafleysingamaður póstsins í mörg sumur fyrir um 25 árum síðan. Þá kom alltaf póstbíllinn og sótti póst eftir lokun en hér er verið að spara með að sækja póstinn um leið og pósturinn er sóttur úr póstkössum kl 16. 30 og afgangurinn látinn danka yfir helgina.
Kveðja,
Þórunn

sunnudagur, 7. júní 2009

Ekki sama hvar maður verslar

Johnson Pledge Parkett bón og Laminat Rent parkett sápa fæst ekki í bónusbúðunum og krónunni en fæst fyrir 910 kr í Hagkaup í kringlunni og smáralind . En fæst fyrir 655 kr í fjarðarkaup. Ajax rúðuúði kostar í krónunni bíldshöfða 600 kr en hagkaup 499 kr og fjarðarkaup 450 en fæst ekki í bónus. Nú þarf maður að endasendast bæinn á enda til að fá vörur sem manni vantar og ekki er bensín líterinn svo gefinn. Ég keypti ajax rúðuúðan á 600 kr í krónunni. En ákvað að ath hvað johnson kostaði í fjarðakaup keypti 2 brúsa svo maður sé ekki altaf að fara eltast við þetta. Ég held að þetta séu samantekin ráð hjá Bónus og hagkaup að neyða neytendur til að kaupa brúsan á 910 kr í Hagkaup. Sem er algjört okur. Íspinnakassar með 25 íspinnum voru á 1790kr í krónunni. En bónus hefur verið með sama kassan á 1990kr . Það er greinilega ekki sama hvar maður verslar
með kveðju frá Dóra Elísabet Sigurjónsdótttir

Bic kveikjarar bestir

Ég er einn af þeim mörgu sem eru ekki enn hættir að reykja. Ég svæli vindla í tíma og ótíma og kaupi fullt af einnota kveikjurum. Undanfarin 1-2 ár hefur verið að aukast að kveikjarar sem ég kaupi eyðileggist löngu áður en gasið er búið af þeim. Núna er þetta orðið þannig að nánast allir verða ónýtir nánast strax. Ég keypti um daginn kveikjara sem heitir "RS" og mekkanisminn fór eftir 4 daga. Í fyrradag keypti ég annan í 11-11 sem heitir "PROF" og hann er ónýtur núna. Einu kveikjararnir sem verða ekki ónýtir eru "Bic" þannig að ég er farinn að biðja um þá. Ég myndi giska á að um það bil 3/4 allra kveikjara af öðrum tegundum sem ég hef keypt síðastliðið ár hafi bilað stuttu eftir kaup. Þarna er verið að kaupa ódýrt (sennilega frá Kína) til að halda uppi framlegð. Skítt með hvort það virkar. Þetta er svindl að mínu viti. Ég vil hvetja neytendur sem kaupa kveikjara til að vera meðvitaðir um þetta.
Bestu kveðjur,
GG

Seljendur þjálfaðir í svindlinu

Góðan dag! Við eigum greinilega langt í land enn með ásættanlegt siðferði í viðskiptum. Ég fékk tvö áþreifanleg dæmi um slík nú í morgun, er ég skrapp út í Bónus til að kaupa í matinn. Ég keypti kjúklingalæri frá Ali, og gat ekki varist brosi er ég las af umbúðunum að í þessum lærum væri EKKERT VIÐBÆTT VATN. Mér varð hugsað til þess hvort það gæti verið að siðferði framleiðenda væri orðið svo lélegt, að það þyrfti að taka það sérstaklega fram að ekki væri verið að selja manni VATN á yfir þúsund krónur kílóið. Erum við virkilega svona illa stödd?
Af því að Fiskbúðin okkar, hefur að undanförnu séð Bónus fyrir nýjum fiski í þægilegum pakkningum, ætlaði ég að fá mér nýja Ýsu í hádeginu. Þess má geta að fyrst þegar þessar pakningar komu á markaðinn, var í þeim ágætis fiskur, á eðlilegu verði. Ég er gamall sjómaður (Vestfirðingur) og horfi því gagnrýnum augum á þann fisk sem ég kaupi. Ég gat hins vegar ekki séð hvernig þessi fiskur leit út, því flöturinn sem roðið var á (áður en flakið var roðdregið) sneri upp. Þar sem ég hafði oft áður keypt svona pakkningu, og fengið þokkalega góða vöru, tók ég pakkninguna og fór heim.
Þegar ég opnaði pakninguna, komu í ljós nokkur smáflök, af undirmálsfiski, en slíkur fiskur er seldur á hálfvirði á Fiskmörkuðum. Þessi fiskur var orðinn svo gamall (þegar honum var pakkað) að flökin toldu ekki saman. Það var komið LOS í fiskinn og vökvi fisksins allur farinn úr honum. Þetta var sem sagt, það sem kallað er "gúanómatur". Þessi vara var seld á verði fyrsta flokks gæðafisks; þó innkaupsverðið væri líklega 50% af gæðafisksverði og því til viðbótar var fiskurinn orðinn svo gamall, áður en honum var pakkað, að hann gat ALLS EKKI flokkast sem mannamatur.
Ég spyr mig hvor það sé hugsanlegt að ég lifi nógu lengi til að upplifa þokkalega heiðarlega framkomu viðskiptalífsins okkar, því það er jú undirstaðan sem við verðum að byggja endurreisn þjóðfélagsins okkar á.
Með kveðju, Guðbjörn

Ánægð með Big Papas Pizza

Langar að benda á mismunandi verð á pizzum og að það borgi sig að
skoða aðeins tilboð, verð og gæði. Skipti nánast alltaf við Big Papas
Pizza í Mjódd, sem bjóða upp á góðar pizzur á fínu verði. Um daginn
langaði mig að breyta til og hringdi í Hróa Hött. Þar var tilboð í
gangi - kaupir tvær og borgar fyrir eina. Ég panta tvær pizzur og er
þá sagt að ég verði að kaupa annaðhvort gos eða brauðstangir með til
að fá tilboðið. Allt í góðu og upphæðin var kr. 2.100.- Síðan þegar
ég kem á staðinn, rukkar stúlkan mig um 4.100,- Þá hafði mér
greinilega misheyrst svona illilega í símanum, en ég sagðist alls ekki
geta hugsað mér að borga kr. 4.100,- fyrir matinn. Þau buðu mér lægra
verð, en ég ákvað samt að sleppa þessu. Keyrði í Mjóddina á Big Papas
Pizza, fékk þar fyrirmyndar þjónustu og tilboð - 2 pizzur,
brauðstangir og 2 lítra gos á kr. 2.990,- og einungis 10 mínúta bið.
Aldeilis þess virði.
kv, Ágústa Bj.

föstudagur, 5. júní 2009

Dýrt í BMM

Góðan dag ég var að gramsa í bókabúðinni í dag og sá þar bókina Heilsuátak með dr Gillian, mig langaði rosalega í bókina enda full af hollum og góðum uppskriftum en hún kostaði 4380 krónur. Ég rölti mér í Heilsuhúsið og sé að þar er hún einnig til sölu en óverðmerkt... stekk á afgreiðslustúlkuna og bið um verðið... upphaflega var hún á 3750 krónur en er seld á 2812 krónur. Þetta er náttúrulega bara "taktu mig í ********* " verð á bókum hjá M og M. Vissi að það er allt þar á yfirsprengdu verði en fyrr má nú vera.
Kv, Lilja Kjerúlf

Rosahækkun á boozti

Langar til að benda á nýjasta okrið á boozt barnum í World Class
Laugum. Fyrir ekki svo löngu síðan var hægt að kaupa sér eðal
skyrboozt sem var blandað fyrir mann á staðnum úr ferskum ávöxtum og
skyri og kostaði lítill boozt 590.-kr Fyrir nokkrum mánuðum var tekið
uppá því að bjóða vinsælustu tegundirnar af boozti úr vél (fyrirfram
blandað) og maður gat valið hvort maður vildi ferskt á 590.-kr eða úr
vél á 450.-kr Í dag er staðan sú að það er ekki lengur hægt að fá
ferskt boozt þ.e blandað með ferskum ávöxtum/skyri á staðnum heldur
BARA forblandað úr vél og verðið er að sjálfsögðu 590.- en ekki 450.-
eins og það var þegar "tilraunar" starfsemin með boozt úr vél stóð
yfir!! Ég spyr hví var verðið á litlum boozt ekki lækkað niðrí 450.-
fyrst það er ekki lengur hægt að fá vöruna sem kostaði 590.-??

Kv,
GM

Ekki ánægður með Beco

Ég get ekki orða bundist yfir okri á
viðgerðaþjónustu hjá BECO ljósmyndavöru- og þjónustufyrirtæki,
Langholtsvegi 84, 104 Rvík. Ég fór með rúmlega ársgamla Canon EOS 40D
myndavél í viðgerð 24. apríl þar sem flassið small ekki upp við
myndatöku. Við afhendingu vélarinnar greiddi ég kr. 2.988,- fyrir
skoðun og bilanaleit. Mér var tjáð að viðgerð tæki ca. hálfan
mánuð. 13. maí eða 19 dögum síðar var hún tilbúin. Þá mátti ég
greiða til viðbótar kr. 6.130,-. Mér ofbauð kostnaðurinn og spurði
hvað viðgerð hefði tekið langan tíma og fékk það svar að það
hafi verið ca. klst. Á reikningi eru tilgreindar 2 einingar v/hreinsunar
@ kr. 3.205,- án VSK. Einingin er þá trúlega 30 mín. Vinnustundin
leggst þá á u.þ.b. kr. 8.000,- með VSK. Annar kostnaður s.s.
prófun með mælitækjum og hreinsiefni kostaði ca. kr. 1.200,- með VSK
Viðgerðarmaðurinn kvað þá vera að hugsa um að
hækka gjaldið,
það væri bara ekki komið til framkvæmda. Mér varð að orði að ég
hefði ekki lagt fyrir mig rétt nám til að græða peninga, en það
væri orðið of seint á gamals aldri að breyta til. Ég þætti okrari
ef ég setti upp svona hátt gjald fyrir mína sérfræðikunnáttu. Vélin
virkar, en ég vil benda öðrum á að kanna vel fyrirfram hvað viðgerð
hjá BECO gæti hugsanlega kostað. Með kveðju, Páll Ólafsson,

Dýrt rauðvín í Fríhöfninni

Vildi vekja athygli á verðlagi í Fríhöfninni í Keflavík - Masi Costasera Amarone ruaðvín kostar þar 3.799 kr. Í ÁTVR kostar það 3.789, tíu krónum ódýrara en í Fríhöfninni! Ansi góð álagning það. Sú útskýring sem að ég fékk hjá Fríhöfninni var sú að ÁTVR gæti ekki hækkað sitt verð fyrr en allar gamlar birgðir væru búnar þannig að ef þessi flaska er til á Raufarhöfn um ókomna framtíð þá getur ÁTVR ekki hækkað sitt verð!!!
Kv. Haraldur B. Hreggviðsson.

Kreppumatur

www.svangur.is
Árni

Langloka Jóa Fel

Ég fór áðan og keypti litla langloku sem er ca. 20cm löng með grænmeti hjá JÓA FEL í Holtagörðum.
Þetta smástykki kostaði nærri 700kr. Ég að sjálfsögðu hætti við. Eru menn ekki alveg í lagi í álagningunni, þetta er ekki bara okur þetta er algjör DÓNASKAPUR við neytendur
Kv,
Kristinn

Fegurð á fjárlögum

Langaði að vekja athygli á nýrri bloggsíðu. Vinkona mín er ansi sniðug
með að finna ódýrar snyrtivörur og fegrunarráð sem kosta ekki mikið. Við
hvöttum hana til þess að opna bloggsíðu sem hún hefur nú gert.
Í kreppunni þarf maður (kona) að hugsa svolítið um í hvað maður er að eyða og
gott að fá ráð hvernig maður getur litið sæmilega út fyrir hvað minnstan
pening.
Slóðin á síðuna er www.fegurdafjarlogum.blogspot.com.
Mæli með að kíkja á hana!

Kv. Vinkona :)
__________________

Tal hækkar

Ég er með heimasíma og nettengingu hjá Tali og varð verulega undrandi þegar ég las yfir síðasta reikning frá þeim. Mánaðagjaldið fyrir heimasímann hækkaði um 78% á milli apríl og maí, úr 1000 kr í 1780 kr. Ég trúði varla öðru en að um mistök væri að ræða og hringdi því í Tal til þess að kanna málið. Svörin sem ég fékk voru þau að þetta væru 2 hækkanir saman, hvor upp á 390 kr. Fyrir sakir "góðmennsku þeirra" þá var ákveðið að hlífa fyrrum áskrifendum Hive við fyrri hækkuninni, sem átti að vera fyrir áramót, en skella þessum 2 hækkunum saman núna.
Þetta er fyrir heimasíma þar sem frítt er að hringja í aðra heimasíma. Forvitnilegt væri að fá sundurliðað hvaða aukni kostnaður á rekstri landlínukerfisins útskýrir 78% hækkun.
Arnar

Börn verða fullorðin í bíói

Ég bara varð að skrifa frá því sem ég komst að um daginn, ég komst að því að börn hætta að verða börn 9 ára gömul, allavega samkvæmt Smárabíói.
Sonur minn og vinur hans sem eru báðir fæddir í ágúst 1998, (s.s. 10 ára gamlir en verða 11 ára núna í ágúst) ákváðu að fara í bíó og var fundin mynd sem sýnd er í Smárabíó, ég mamman fór með inn til að borga miðann og komst þá að því að sonur minn er fullorðin samkvæmt smárabíói. Ég varð orðlaus og ákvað að kanna þetta betur og komst að þessu...
Verðlagning í Smárabíó er svona
8 ára og yngri = 600 kr
9 ára og eldri = 1100 kr
á Þriðjudögum er svo 500 kr tilboð hjá þeim.
þegar er um að ræða þríviddarmyndir eða Digital myndir þá bætast við um 50 - 100 kr á miðann.
Ég ákvað að ath hvernig þetta væri í Sambíó, (viðurkenni að ég ath ekki annars staðar)
Verðlagning í Sambíó er svona
7 ára og yngri = 550 kr
8 ára til 12 ára = 750 kr
12 ára og eldri = 1000 kr
þegar um er að ræða þríviddarmyndir þá bætast við 200 kr á miðann
og þegar um er að ræða digital myndir þá bætast við 50 kr á miðann.
Vildi bara koma þessu á framfæri þar sem mér finnst skrýtið að börn hætti að verða börn 12 ára og hvað þá 9 ára.
kveðja, Thelma Dögg

Kaffi59 = Okur

Fór á veitingahúsið Kaffi59 á grundarfirði.
Og sá þar á matseðlinum 2 L kók . 700kr.
Ég gekk út áður en það tókst að ræna mig.
Fór á Krákuna í sama bæ, fékk þar mat og bjór á 450kr (sem kostaði 750 á Kaffi59)
Ari

Vitlaus lyf

Ég fór til að leysa út lyf í Lyfju Sauðárkróki. Tók bara það sem búið var að taka til fyrir mig, borgaði og fór heim. Svo þegar heim var komið tók ég eftir að læknirinn minn hafði ávísað röngu lyfi. Ég fór strax morguninn eftir í Lyfju og ætlaði að skila lyfinu, en þá var eingöngu hægt að fá endurgreiðslu fyrir helmingi verðsins á lyfinu. Tek það fram að ekki var búið að opna umbúðir eða því um líkt. vill ég benda fólki á að skoða lyfin sem það fær áður en greitt er svo það sé öruggt að það sé með rétt lyf áður en það greiðir :) með kveðju Eva

Óánægð með Suzuki umboðið

Fór með bílinn minn í Suzuki umboðið til að láta bilana lesa hann...Ég tók fram að það ætti bara að segja mér hvað væri að bílnum..
Fyrst var hann vitlaust lesinn, útaf ljósi sem ég vissi hvað var að..Það kom ganginum í honum ekkert við... Þannig að hann var tekinn inn aftur og lesinn..
Eftir ca klst bið þá var kallað í mig og sagt að bíllinn væri tilbúinn...Mér var sagt að kertin væru ónýt, ég sagði fínt,
hugsaði að ég yrði mjög fljót að laga það sjálf..Nema þá sagði maðurinn að það væri búið að skipta um kerti og hann hafi sett líka 1/2 líter af olíu...
Hann sagði að það hafi orðið að skipta um kerti núna..Væru alveg ónýt...
Það sem fór í taugarnar á mér var að ég var aldrei spurð hvort þeir ættu að skipta um þetta fyrir mig eða setja olíu á bílinn....
Ég var mjög ósátt við þetta hjá þeim,sérstaklega þar sem reikningurinn var 16.771 kr..... Þar er mesti kosnaðurinn vinnan, sem ég hefði getað sparað mér með því að gera þetta sjálf...
Og að þurfa borga ca 800kr fyrir 1/2 líter af olíu er bara algjört rán.. Á olíu hérna í skúrnum....
Mér fannst þetta svolítið gróft hjá þeim hjá Suzuki í Skeifunni.... En bíllinn virkar mjög vel..Sem hann hefði líka gert ef við hefðum gert þetta sjálf fyrir minni pen....

Takk fyrir,
Gulla

Ánægð með Hagkaup og stelpu í GK skó

Mig langaði bara að láta vita hvað ég er rosalega ánægð með Hagkaup núna. Ég keypti skó á 7 ára strákinn minn í apríl síðastliðnum og hann byrjaði ekki að nota þá að neinu ráði fyrr en um miðjan mai. En svo eru þeir bara ónýtir, skórinn farinn að "tala" s.s sólinn að framan alveg laus og ég veit ekki hvað og hvað. En svo fór ég í Hagkaup í Njarðvík í dag og talaði við þær og ég var ekki með kvittunina eða neitt og þær skiptu við mig á skónum, létu mig fá alveg eins skó í sömu stærð i skiptum. Ég er mjög sátt við þessa reynslu mína af Hagkaup í dag og vildi koma því á framfæri.
Og fyrst að ég er byrjuð þá langar mig líka til að senda stórt hrós til einnar stelpu sem vinnur í GK skór í Smáralind. Hún gerði allt sem hún gat til að aðstoða mig þrátt fyrir að ég hafi ekki fundið það sem ég var að leita að. Þetta er greinilega stelpa sem hefur gaman af vinnunni sinni og það sýnir sig hjá henni.
Erna Sigrún

Grillburstar

Það er heldur betur búið að vera veður í grill, það sem af er sumri og fór ég á stúfana um daginn og ætlaði að kaupa nýjan bursta til að þrífa grindurnar í grillinu.

Burstinn sem ég keypti kostaði 699kr. í Hagkaupum og mig minnir að heiti hans, eða vörumerki hafi einfaldlega verið BBQ.

Nákvæmlega sama bursta sá ég á þessum stöðum með mismunandi verðmiðum.

Húsasmiðjan. 999kr.
Tiger 400kr.
Rúmfatalagerinn 199kr.

Þetta er nú engin svakaleg upphæð, en hvernig stendur á því að húsasmiðjan getur leyft sér að vera 400% dýrari en rúmfatalagerinn með nákvæmlega sömu vöruna.
Er ég nokkuð viss um að þetta er ekki einstakt tilfelli og vill ég hvetja fólk til að gera verðsamanburð þegar það fer að verzla.
Takk fyrir mig,
Davíð

Visa E2 / American Express

Ég hef verið með Visa E2 vildarkort en fékk nýlega upphringingu frá American Express og var boðið betri kjör, margfallt fleiri punktasöfnun fyrir hvern 1.000 kall og ekkert árgjald fyrsta árið og 5.000 vildarpunkta við fyrstu notkun. Ég tók því, enda hafði punktasöfnunin á E2 nýlega lækkað frá 4 niður í 2 punkta fyrir hvern 1.000 kall. En American Express var að bjóða 10 punkta. Ég fékk svo kortið sent heim ásamt bréfi þar sem mér var óskað til hamingju með nýja kortið og sagt að ég greiði ekkert árgjald af Classic-kortinu fyrsta árið. Ég var ekki búin að virkja kortið þegar ég fékk fyrsta reikninginn upp á 5.200 kr. árgjald + 551 kr. úrvinnslugj/útskrift. Ég hringdi og þjónustufulltrúin virtist koma af fjöllum og ég spurði hvort þetta væri ekki rétt sem lofað var og sem stæði í þessu bréf. Hún svaraði "Jú ef það var sagt við þig" Svo fór ég að lesa á heimasíðu þeirra og þar er stjörnumerking og smátt letur sem segir að þú fáir ekki þessa 5.000 punkta við fyrstu notkun korts nema ef þú borgir árgjaldið! Þegar ég fór svo að skoða málið komst ég að því að þrátt fyrir fleiri punkta hjá American Express, er það dýrara í krónum fyrir mig ef ég tek inn í endurgreiðsluna hjá E2 í desember. Þegar valið stendur á milli þess að fá fleiri punkta eða spara pening kýs ég að spara peninginn. En ef fólk er með kort þar sem engin endurgreiðsla er í boði getur verið að þetta borgi sig.
Meðfylgjandi er samanburður á Visa E2 almennu vildarkorti og American Express Classic korti.
Ingunn

fimmtudagur, 4. júní 2009

Víkingasafnið í Kef

Það kostar 1500 kr á mann að fara í gegnum Víkingasafnið í Keflavík!!
Ss fyrir hjón með 3 börn yfir 12 ára er það 7500 kr!
Veit ekki hvað er innifalið í þessu svosum en VÁ
Díana

miðvikudagur, 3. júní 2009

Fluggjaldafrumskógurinn

Flugfélögin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að villa um fyrir neytendum.
Í meðfylgjandi skjali sést greinilega hvernig verðlagningin breytist
hreinlega eftir því hvað er valið (tími, önnur leið, báðar, kross bókað).
Það er kostulegt að prófa þessar bókunarvélar og sjá hvernig verðið
breytist eftir því hvernig bókað er.
Hlægilegast þykir mér að sjá hvernig verðið breytist á dögum í kringum
það sem þú gefur upp sem brottfarardag og komudag. Það má "plata"
bókunarvélina stundum með því að þykjast ætla út 12. júní (gefa upp) en
velja svo raunverulega brottfarardag t.d. 9. júní.
En þetta er mjög tímafrekt og örugglega ekki neytendavænt.
Ég ætla ekki einu sinni að minnast á skattana sem bætast ofan
á og eru mjög ógegnsæir. Látið er líta út eins og þetta sé eitthvað
sem ríkið tekur en í raun er þarna inni olíugjald sem hækkar bara
en lækkar ekki að sama skapi þegar þróunin er slík.
Þetta virðist vera látið óátalið af helstu varnaraðilum netyenda þeas Samkeppniseftirlit
(misbeiting samkeppnisstöðu á fákeppnismarkaði) og af Neytendastofu.
Kannski eru þau svona fámenn og fjárvana. Er það tilviljun?
Hvernig litist fólki á að kaupa málningu sem kostaði 100 kr ef málað væri
á mánudögum en 200 kr ef viðkomandi ætlaði að mála á sunnudegi og
150 ef málað væri úr henni á þriðjudegi?
Ruglingslegt, ekki satt? Hvers vegna svona ruglingsleg verðskrá?
Væntanlega til þess að neytandinn missi verðvitund.
Meðvitundarlaust fólk lætur betur að stjórn en fólk með meðvitund.
Ólafur Gylfason

GS varahlutir bjarga deginum

Við skoðun á bíl mínum, Hondu CRV, kom í ljós að báðir afturdempararnir voru ónýtir. Ég hringdi í GS varahluti þar sem stk kostaði 11.400 kr, en ég fékk báða á 21.000 með öryrkjaafslætti. Ég hafði líka hringt í N1 (áður Bílanaust) og þar kostaði 27 eða 29 þúsund STYKKIÐ! Ég lagði nú ekki einu sinni í að hringja í umboðið. Ég vil því eindregið mæla með GS varahlutum, Bíldshöfða 14. Þeir fá tíu plús í einkunn hjá mér!
Sófanías

Circus Rokk og Ról tónleika - Bakskita!

Veit nú ekki hvort að þú birtir þetta frá mér en ég get bara ekki orða bundist! Voðalegur 2007 bragur á fyrirtækjunum miði.is og Herra Örlygi (held ég) í tengslum við þessa tónleika.
Ég keypti í góðri trú miða í stúku í Laugardagshöllina á þessa tónleika. Nokkrum dögum sé ég forsvarsmann tónleikahaldara (Herra Örlygs?) í fjölmiðlum varðandi niðurfellingu tónleika Jóhönnu Guðrúnu, sem áttu að vera daginn áður í Laugardagshöll. Planið átti að vera að samnýta þann búnað sem til þarf að halda svona tónleika og ná með því auknu hagræði. Hætt var við tónleika Jóhönnu vegna einhverra samningaviðræðna hennar í Svíðþjóð og allt í einu kemur í ljós að ekki væri hægt að halda tónleika Dúndurfrétta daginn eftir. Einhverjum dögum eftir þetta, var tilkynnt að Circus tónleikarnir myndu verða fluttir á NASA. Hvernig á að koma öllum úr Laugardagshöll inn á NASA veit ég ekki! En það liggur í augum upp að sala á þessa tónleika hefur gengið afleitlega og því ekki annað gera að flytja þá á mun minni stað. Luagardalshöll tekur rúmlega 5000 manns en NASA ekki meira en 800 manns.
Allavegna ég borgaði 7800 kr fyrir tvo miða í stúku á þessa tónleika og hafði ekki hugsað mér að hætta við að fara, þrátt fyrir að fá að standa á NASA í tvo tíma á þessum tónleikum. Þannig að ég hafði samband við miði.is fyrr í dag og vildi fá mismuninn á stúkumiðum og stæðismiðum endurgreiddann, því ég ætlaði ekki að borga 1000 kall extra bara fyrir það að standa við hlið einhvers sem hafði borgað fyrir að fá að standa í upphafi. Nei þá var það ekki hægt! Það á sem sagt að rukka mig um 1000 kalli meira pr. miða fyrir það eitt að hafa viljað fá að sitja á þessum tónleikum í upphafi! Ég þakkaði pent fyrir og tjáði þeim á miði.is að svona léti ég ekki bjóða mér og að ég vildi fá endurgreitt fyrir miðana í dag. Nei, þá var það ekki hægt heldur, því að það tekur 2-3 daga að endurgreiða miðana! Semsagt að ég má þakka fyrir það fá endurgreitt fyrir helgi (og fyrir tónleikana) ef miði.is þóknast svo.
Ég á bara hreinlega ekki til orð yfir þessari þjónustu. Fyrir það fyrsta þá getur maður verslað miðana á netinu, en samt ekki alveg, vegna þess að maður þarf að fara hvort sem er á "næsta sölustað" til að ná í miðana sem greinilega er ekki hægt að prenta út á netinu og því verður hagræðið fyrir neytandann ekkert. Svo þegar tónleikahaldararnir ná ekki að standa við þá vöru sem þeir hafa selt manni, þá fyrst reyna þeir að selja manni allt aðra (og verri) vöru fyrir sama verð og ef maður þiggur hana ekki með þökkum, þá er heljarinnar prósess að fá endurgreitt! Hvaða rugl er í gangi?? Ég hélt það að með því að semja við miði.is þá væri miðasalan gerð miklu einfaldari (fyrir neytandann) og fljótlegri. Það er greinilega ekki svo. Látum það liggja milli hluta að nauðsynlegt hafi verið flytja tónleikana (slíkt gerist og ekkert við því að segja), en þá er algert lykilatriði að tónleikahaldarar komi á móts við okkur neytendur í samræmi við breytingar á tónleikunum. Hvaða vit er í því að selja miða á NASA á tvennu verði?
Kv. Ósáttur neytandi.

Svikamylla Securitas

Securitas eru nokkuð sniðugir í að búa sér til pening. Ekki veitir af enda eru eigendurnir búnir að mergsjúga það eins og öll önnur góð fyrirtæki "auðmanna".
Þeir eru með greiðsluseðla með gjalddaga 18. dag mánaðarins og eindaga þann 26. Þremur dögum eftir eindaga er krafan svo sett í innheimtu og þá dettur 900 kall á hana í viðbót.
Kreppuþjakaðir landmenn eiga erfiðara með að greiða seðla seinni part mánaðar og eflaust margir sem þurfa að draga greiðsluna fram að útborgunardegi um mánaðarmót, en þegar að því kemur er Securitas búið að tryggja sér 17% álag á greiðsluna.
Þetta er náttúrulega bara rán og ég vildi frekar að Lalli Jones fengi að njóta þessarar ávöxtunar heldur en Securitas. Það er ljóst að þegar mínum 36 mánaða samningi líkur þá mun ég fela einhverjum öðrum að ræna mig.
kv.
Citizen Kane

Vatnssósa Búrfells beikon

Um helgina keypti ég tvo pakka af beikoni frá Búrfelli, sem ekki er í frásögur færandi, nema hvað að við steikinguna rann svo mikið vatn úr beikoninu að marg þurfti að hella því af. Ég ákvað því að athuga hve mikið beikonið rýrnaði við steikingu. Samkvæmt umbúðunum (ég dró þær meira að segja frá þyngdinni) var beikonið 730 g. Eftir steikingu var útkoman 229 g. Sem sagt - BÚRFELL - segir allt sem segja þarf.
kv
Anna