föstudagur, 12. júní 2009

Þjónustustig í dýrari matvörubúðum

Mig langar að koma hugleiðingu á framfæri sem snýr að matvöruverslunum á borð
við 10-11, 11-11, Nóatún og Hagkaup þar sem verðlagningin er afar rífleg.
Ég hef í mörg ár furðað mig á því afhverju fólk við kassana í þessum búðum
hjálpar ekki viðskiptavinunum að setja í pokana og klárar viðskiptin áður en
næsti viðskiptavinur er tekin (í bakaríið :-þ).
Í staðin er vörunum troðið yfir hver aðra og jafnvel vörum næsta kúnna líka
þannig að maður á fótum sínum fjör að launa og það verður svona
"bónus-fílingur" á verslunarferð sem átti að vera svona "rólegri og
afslappaðri-fílingur" á. Hér væri til dæmis möguleiki fyrir "dýra" verslun að
skapa sér sérstöðu. Það er að segja ef slíkur áhugi er fyrir hendi og
raunveruleg samkeppni er til staðar á fákeppnismarkaði.
Með vinsemd og virðingu,
Guðrún - húsmóðir á besta aldri

11 ummæli:

  1. Þannig var þetta hér áður fyrr. Þessar verslanir sögðu að verðið væri svona dýrt vegna þess hve mikil þjónusta væri fyrir viðskipavinina.

    Nú til dags er maður heppinn ef það er einhver á kassa

    SvaraEyða
  2. Það er einmitt mjög erfitt að sjá muninn á þjónustustiginu í lágvöruverslunum og "þjónustuverslunum". Það er ansi oft ef maður biður um aðstoð við að finna vöru og þess háttar að þeir sem vinna í þjónustubúðunum vita lítið sem ekkert um vörurnar eða hvar þær er að finna.
    Þessi þjónustuafsökun er bara ekki tekin gild lengur, nema þeir fari þá að sýna greinilegan mun á þjónstustiginu!

    SvaraEyða
  3. Mig langar bara að benda á að það er ein verslun sem er bæði með lágt verð og gott þjónustustig, þar er beðið eftir því að maður klárar að setja í poka og manni er hjálpað ef maður verslar mikið og það er Fjarðarkaup. Þú getur líkað skoðað verðmuninn á bloggi "ekki sama hvar maður verslar"

    kv Beta

    SvaraEyða
  4. Ég hef nú lent í því vinnandi á kassa í Nóatúni þegar mikið er að gera sérstaklega seinnipartinn á laugardegi sérstaklega þegar veðrið er svona gott eins og það er búið að vera og allir að versla sér á grillið að umgangurinn á 3-4 kössum er nánast jafnmikil og á 2-3 kössum í Bónus seinnipartinn á virkum dögum eins og það er búið að vera undanfarið. Svo kemur það oft fyrir að afsláttur á hlutum eins og t.d. úr kjötborðinu koma ekki fram og þá þarf að fara í kjötborðið og láta leiðrétta það o.g.s.frv. . Akkurat ekkert sem starfsmaður á kassa getur gert yfir. Þá verður fólk sem þarf að bíða oft pirrað og svona.

    Þannig að það er spurningin hvort að menn vilji að hlutirnir gangi hratt fyrir sig þegar mikið er að gera og að vandamál séu leyst hratt og örugglega að láta svona hluti eins og að setja í poka fyrir viðskiptavininn aðeins sitja á hakanum. Ég meina ég set í poka fyrir eldra fólk sem á því þarf að halda en það er bara ómögulegt þegar mikið er að gera.

    Auðvitað væri síðan lang best ef að það væri hægt að hafa fullmannað á kassana t.d. á laugardegi milli 16-19 þegar mest er að gera en það bara borgar sig ekki fyrir fyrirtækið þegar það dugir jafnvel að vera með einn á kassa þar fyrir utan.

    SvaraEyða
  5. Dæmi um betri þjónustu í klukkubúðum en Bónus: lengri opnunartími, salatbar, kjötborð, meira íslenskumælandi starfsfólk o.fl. Mér finnst skrítið að fólk sjái ekki muninn á þjónustustigum í matvöruverslunum. Gleymið ekki að 10-11 og Bónus er sami eigandinn að höfða til sitt hvors markhópsins. Ef þér finnst 10-11 dýr þá er um að gera að fara í Bónus! Þetta er fjölbreytni kæra fólk!

    SvaraEyða
  6. Að versla í Hagkaup eða Nóatúni er valkostur og ef fólk er ósátt þá ætti það að fara eitthvað annað með viðskipti sín.

    Annars skil ég ekki hvað er svona erfitt við að ganga sjálfur frá sínum vörum ofan í poka.

    SvaraEyða
  7. Hagkaup er hætt með kjötborð og þeir eru hættir að baka á staðnum bagette brauð og ég þarf alltaf að bíða lengur í biðröð þar en í Bónus.

    SvaraEyða
  8. Dagleg velta í Hagkaup hefur hríðfallið undanfarna mánuði og meira en í öðrum matvöruverslunum innan Haga og varla orðið hægt að fá þar almennilegar ferskar vörur s.s. grænmeti og ávexti.

    SvaraEyða
  9. Nafnlaus kl. 02:49 þann 13. júní:

    Eldra fólk á erfitt með að ganga sjálfur frá sínum vörum ofan í poka. Einnig eldra fólk. Þetta þekkist mikið í nágrannalöndunum og sérstaklega í Higher Class búðum en ég hef séð þetta líka í lágvöruverðsverslunum.

    Að sjálfsögðu er það annar valkostur að versla í Hagkaup eða Nóatúni en ég sé engan veginn kostinn við það.

    Ég versla yfirleitt í Bónus/Krónunni eftir því hvort hentar enda á svipuðu verði. Í neyðist stundum til að versla í Hagkaupum þar sem hún er næst vinnustaðnum. Verðmunurinn er gígantískur en ég sé engan mun á þjónustunni?

    Fjölbreytni felst ekki bara í því að hafa annan opnunartíma og annað logo framan á búðinni. Það verður að vera stigsmunur þarna á milli og ég verð að vera sammála, ég sé hann ekki.

    Fleira íslenskumælandi fólk? Nei, reyndar ekki. Ekki sjáanlegur munur a.m.k. og það íslenskumælandi fólk sem vinnur þar veit hvort sem lítið sem ekkert um þær vörur sem þar er verið að selja.

    P.S. Að fara "annað" með viðskipti sín hefur enga merkingu lengur á matvörumarkaði enda mest allt undir sama hatti. Það er annað hvort Norvík eða Hagar. Verð samt að prófa Fjarðarkaup... Er það 100% sjálfstætt? Hver á búlluna?

    SvaraEyða
  10. skilst að fjarðarkaup sé í einkaeign þ.e fjölskyldufyrirtæki.

    SvaraEyða
  11. já það er rétt, Fjarðarkaup er fjölskyldufyrirtæki og hefur sama fjölskyldan rekið það frá upphafi. Þar er þjónustan frábær og gott verð. Ég er hætt að fara í Bónus og Hagkaup og versla alltaf í Fjarðarkaup eða þá í Krónunni. Þjónustan er bara svo frábær í Fjarðarkaup, leyfa manni til dæmis að klára að raða í poka og hjálpa manni ef það er mikið eftir. Eins er mikið af starfsfólki sem hefur verið þarna lengi(mörg mörg ár) og það veit hvar allt er svo að maður getur spurt og fengið svör um hvar þessi eða hin varan er.
    Mæli með Fjarðarkaup.

    SvaraEyða