sunnudagur, 14. júní 2009

Lélegt viðskipasiðferði hjá Byko

Getur verið að það sé ennþá einhver 2007 fílingur hjá Byko? Ég fór í verslun Bykó á Akureyri að kaupa ferðagasgrill sem var auglýst í tveimur bæklingum frá þeim sem bornir hafa verið í hús. Þar stendur meðal annars skýrum stöfum í þeim báðum: „Þrýstijafnari og slanga fylgja“. Ég ætlaði að taka pakkningu með grillinu og fara að greiða en sá að enginn þrýstijafnari var á sýningareintakinu. Spyr þá starfsmann hvort það fylgi ekki örugglega þrýstijafnari. Hann kveður svo vera en kemur eftir örstutta stund aftur og segir að hann fylgi reyndar ekki og hann kosti 3.900 kr. Ég er ekki sáttur og næ í bæklingana og sýni honum og öðrum starfsmanni sem virtist yfirmaður. Sá segir að þrýstijafnarinn fylgi ekki með í kaupunum. Fyrst rökstyður hann það með því að í bæklingnum sé fyrirvari um mögulegar breytingar. Þegar ég er ekki sáttur við það svar, þá er næsta mótbára sú að þetta sé prentvilla og ítrekar það þegar ég mótmæli! Systir mín og lítil dóttir fylgdust með þessum sérkennilegu orðaskiptum og þrír aðrir starfsmenn Byko og horfðu á þennan erfiða kúnna með vandlætingarsvip. Að sjálfsögðu lét ég nokkur vel valin orð falla um lélegt viðskiptasiðferði og strunsaði í burtu. Ekki veit ég hverjir eigendur Byko eru og hvernig starfsmenn eru þjálfaðir en eitt er víst að ég mun sneiða hjá Byko framvegis.
Jóhann Frímann

15 ummæli:

  1. Byko er rekið af Norvik hf. Skrifstofa Norvikur er til húsa að Bíldshöfða 14 Reykjavík, sími 585-7000.

    Eigandi Norvikur eða einn af eigendum fyrirtækisins er Jón Helgi Guðmundsson.

    SvaraEyða
  2. OJJJJ barasta hef sjálfur unnið í BYKO og svona kúnnar eins og þú gera starfið ERFITT OG LEIÐINLEGT. Bæklingurinn eins og allir aðrir bæklingar sem dreyft er inn til fólks er ÁVALLT með fyrirvara um prentvillur og er fyrirtækið ekki ábyrgt af þeim.

    En úr því að fleiri en einn starfsmaður hafa farið að horfa á þig með vandlætingu þá hlýtur eitthvað ekki að hafa verið í lagi í þessum orðaskiptum þínum.

    Og að lokum veit ég það að þrýstijafnari og slöngudæmið hefur ávallt verið selt sér með gasgrillum svo lengi sem ég man.

    Ótrúlegt hvað sumir kúnnar þykjast eiga heiminn.

    SvaraEyða
  3. Það er fullkomlega ómögulegt að setningin "Þrýstijafnari og slanga fylgja" geti verið prentvilla eða innsláttarvilla!

    SvaraEyða
  4. Ef að þeir segja í bæklingnum að þetta fylgir með þá eru það þeirra mistök og verða að fylgja því, því að þetta er stór prentvilla og við viðskiptavinir eigum að get treyst því sem stendur þarna.

    Af hverju eru þeir þá að senda þessa bæklinga ef þeir geta ekki verið með réttar upplýsingar í honum!!

    En ég viðurkenni að þetta er ekki fólkinu sem er að afgreiða að kenna og það má ekkert gera, bara að taka við skömmunum sem er hundfúlt því að liðið sem ræður öllu þarna er bara alveg sama um viðskiptavini sína og eru áhuggjulausir upp á skrifstofu með sín flottu laun!!

    SvaraEyða
  5. Í öll þau ár sem ég hef unnið í BYKO hefur aldrei einn einasti bæklingur komið sem hefur ekki innihaldið a.m.k. eina villu!!!!!!!!!!

    SvaraEyða
  6. Heil setning í bæklingi er ekki prentvilla.
    Ég tek það heldur ekki í mál að verðmerking sé prentvilla.

    Þessi æsti hér að ofan sem heldur inni tökkum á lyklaborði sínu einhverra hluta vegna verður að læra að orð skulu standa.

    Ég er einn af þessum leiðinlegu sem fer yfir strimilinn og er með tuð, nú seinast í gær í Krónunni þar sem ég fékk 70 krónur endurgreiddar vegna rangra verðmerkinga. Örugglega er einhver voða fúll yfir því að ég skuli gera mál úr 70 krónum og í gær horfði kassastrákurinn á mig með fyrirlitningasvip. En það er allt í lagi, hann lætur þá bara svindla á sér með bros á vör í framtíðinni.

    Ég vil óska Jóhanni Frímanni til hamingju með að hafa staðið á sínu og ekki gert eins og svo margir hefðu gert í hans sporum, þ.e. keypt þrýstijafnarann og slönguna og bloggað síðan um það, voða fúll.
    Ef það væru fleiri eins og Jóhann Frímann, þá væri veröldin betri staður.

    Björn I

    SvaraEyða
  7. Ef að þessi fyrirvari um prentvillur og breytingar er svona öflugur þá ætti Byko tæknilega séð að vera leyfilegt að prenta bara alskonar vitleysu t.d. gefa upp 50% lægra verð á öllum vörum. Þannig gætu þeir lokkað fólk í búðirnar og þegar einhverjir færu að kvarta þá gætu þeir bara sagt að þetta væru allt saman prentvillur eða að breytingar hefðu verið gerðar. Þetta er náttúrulega úti í hött og svona viðskiptahættir skammarlegir. Gott hjá þér Jóhann Frímann að standa á þinu og láta þá ekki komast upp með neitt kjaftæði.
    BH

    SvaraEyða
  8. Þetta eru ömurlegir viðskiptahættir. Fyrirtækið hefði átt að standa við það sem stóð prentað í bæklingnum eða taka vöruna úr sölu þegar ljóst varð að um svo afgerandi prentvillu var að ræða. G.Geir

    SvaraEyða
  9. Vá hvað ég er heppinn. Ég keypti gasgrill í BYKO fyrir rúmum mánuði síðan. Ég spáði ekki einu sinni í því hvort slangan og þrýstijafnari fylgdi með. Fór heim og það var með í kassanum, allt tengt og fínt.
    Þannið að fyrverandi BYKO starfsmaðurinn sem var með skítkast hér að ofan og sagðist vita að slangan og þrýstijafnarinn væru ALLTAF selt sér hefur rangt fyrir sér. Nema að ég hafi verið svona ótrúlega heppinn að fá þetta frítt með, óumbeðið.

    SvaraEyða
  10. Málið er samt að bæklingurinn er unninn af öðru fyrirtæki. Áður en bæklingurinn er að lokum prentaður er hann sendur fram og tilbaka og flakkara á milli fjölda aðila áður en hann er síðan sendur í prentun. Í því ferli verða furðulega mörg mistök.

    Oft gerist það að eitthvað er auglýst sem á ekki að vera auglýst. Í eitt skiptið er kannski sett í blaðið vara sem er uppseld og gleymist að taka úr áður en það fer í prent.

    Kannski hefur í þessu tilviki sá sem gerir bæklinginn (auglýsingastofa) sett inn að þetta fylgi en annað hvort a) sá sem les yfir hjá Byko ekki séð það eða gleymt að láta taka setninguna út eða b) sá sem sendir lokaeintak í prentsmiðju hefur gleymt að taka út setninguna.

    Þess vegna er þetta sett í bæklinginn ("Með fyrirvara um prentvillur og myndbreng") og með prentvillu er væntanlega verið að meina heilt yfir mistök við útfærslu og gerð/prentun bæklingins, en ekki bara innsláttarvillur eða þvíumlíkt.

    Vel á minnst, ég vinn ekki hjá Byko né tengist því á nokkurn hátt. Ég þekki bara pínulítið ferlið á þessu og veit alveg að mistökin eru algengari en fólk heldur.

    En ég hef unnið nógu lengi við þjónustustörf að ég þykist vita að viðskiptavinurinn sem hefur skrifað innleggið hafi ekki beint verið kurteisin uppmáluð þegar hann bar upp kvörtun sína. Sérstaklega þegar kvartað er í aðilum sem eru bara að vinna sína vinnu eftir forskrift sinna yfirmanna.

    Ég þekki það líka sem fyrrum afgreiðslumaður í verslun að þegar fólk er með dónaskap og leiðindi vill maður EKKERT gera fyrir það en ef fólk er kurteist og rólegt eru allir vegir færir. Hefði verið einfalt mál fyrir þessa aðila að láta þetta fylgja með í þínu tilviki, en það er spurning hvort að afgreiðslufólkinu hefði bara ekki þótt dónaskapurinn og yfirgangurinn of mikill? Finnst það ansi líklegt. Svona eins og að fá hráku út í matinn sinn þegar maður öskrar á þjóninn/kokkinn á veitingastaðnum.

    Bendi því viðkomanda að hafa bara beint samband við höfuðstöðvar Byko.

    SvaraEyða
  11. Sko maður reynir að vera eins kurteis og maður getur við kúnnan og brosa út í eitt alveg sama hversu dónalegir þeir eru.

    Hef lent t.d. margsinnis í því að þegar komið var að skila hlut á lager að þá varð fólk alveg ótrúlega fúllt yfir því að það þyrfti að fara upp fyrir ,afturinn í verslunina og á þjónustuborð til þess að fá endurgreitt inna á reikninginn hjá sér.

    Menn hafa komið með ársgamla kvittun og viljað fá að skipta vörunni og gjörsamlega fríkað út yfir því að fá vörunni ekki skipt.

    Orðið fúlir yfir því að það taki meira en 5 mínútur að ná í 15 flúorljós efst í rekka og tvö önnur ljós með,fríkað út og og sagst aldrei ætla að versla aftur við fyrirtækið.

    Þá er um að gera að vera pollrólegur,sýna kurteisi og brosa sama þótt maður myndi vel vilja láta nokkur vel valin orð falla á svona ótrúlega mikinn dónaskap og yfirgang.

    Hugtakið viðskiptavinurinn hefur alltaf á réttu að standa er úrellt hugtak en kurteisi á báða bóga gerir þetta allt svo miklu auðveldara.

    SvaraEyða
  12. Ef þeir ætla að standa á því að þetta sé villa í bæklingnum eiga þeir að gefa út villuleiðréttingu (a.m.k. einhvers staðar) svo að þeir geti vísað í að "við leiðréttum það víst". Annars er það ekki villa, heldur vísvitandi blekkingar.
    Myndi það drepa þá að prenta út A4 blað til að setja við hliðina á grillinu, eða skella leiðréttingasíðu á netið?

    Erlendis er það kallað "bait and switch" að lokka fólk inn í búð til að gera góðan díl, sem er ekki í boði nema rándýr aukapakki sé keyptur líka eða því miður uppseldur (og reynt að selja dýrari/verri vöru). Það er víðast hvar ólöglegt, en virðist vera vinnuregla á Íslandi.

    SvaraEyða
  13. Allt saman gott og gilt en ekkert sem almennir starfsmenn á gólfi geta að gert eða breyttt.

    SvaraEyða
  14. Ef almennir starfsmenn geta ekkert gert að þessu, er þá ekki minnsta málið að ná í vakt/verslunarstjóra?

    SvaraEyða
  15. Vandamálið er að þetta gerist í öllum fyrirtækjum og allir lenda einhverntímann í einhverju leiðinlegu, oftast er þetta bara spurning um óheppni. Það er frekar gróft að sleppa því að versla þar aftur, ert í raun bara að gera sjálfum þér grikk þar sem BYKO gæti vel verið með mörg góð tilboð og góð verð miðað við sammkeppnisaðila. Bara alls ekki alltaf, þessvegna þarf að halda öllum fyrirtækjunum á tánum með góðum og gildum kvörtunum og vera vakandi þegar maður verslar eitthvað.

    SvaraEyða