mánudagur, 31. október 2011

Bestu hamborgararnir í Reykjavík

Gísli Geir sendi fyrirspurn: Ég var að velta því fyrir mér hvar sé best að fá sér hamborgara í Reykjavík í dag? Finn enga sérfræði ráðgjöf um þetta á netinu? :)

Auðvitað er ekkert eitt svar við þessu. Þetta er týpískt málefni sem verður hugsanlega útkljáð í kommentakerfi. Ég get þó velt upp nokkrum möguleikum:

Hamborgarafabrikka Simma og Jóa kom inn með gusti og hefur verið gríðarlega vinsæl. Þar er nýsköpun í borgaragerð nokkur og verðið alveg fínt.

Hamborgarabúlla Tómasar er traust pleis, enda Tommi með metnað og áhuga á borgurum. Svo fær maður alltaf góða þjónustu og ekkert rugl.

Grillhúsið er alltaf fínt. Leiðinlegt samt að þar skuli hafa verið hætt með "vegabréfs"-afsláttarkortin. Kannski er nýtt VIP kerfi hjá þeim ok. Þarna fæst stærsti borgari landsins, eitthvað 450 gramma flykki minnir mig á hátt í 5000 kall!

Margir eru svag fyrir Vitabarnum og Gleym-mér-ei borgaranum þar, t.d. þessi. Ég þarf að tékka á honum aftur, fannst hann ekkert svo spes þegar ég athugaði hann einu sinni.

Ruby Tuesday er með fína borgara að amerískri fyrirmynd. Líka TGIFridays. Jack Daniels sósan þar er fín á borgara, en mér finnst samt eins og Fridays sé orðin dýrari heim að sækja en Rubys. Metro er með ágætis stöff í sínum verðflokki, ágætis McDonalds-staðgenglar.

Nú svo er fullt af öðrum möguleikum ef manni langar í borgara...

Dr. Gunni

föstudagur, 28. október 2011

Matarkarfan – 10 árum síðar

Þá nagandi tilfinningu kannast eflaust flestir við að allt hafi hækkað mikið á síðustu misserum og þá ekki síst matvörur. Þann 20. nóvember árið 2001 birti DV verðkönnun á hinni týpísku matarkörfu. Að vanda var karfan ódýrust í Bónus. Í vikunni athugaði ég verð á sömu 19 vöruflokkum og DV athugaði árið 2001. Reyndar athugaði DV líka verðið á Frigg Maraþon þvottaefni, en ég fann það ekki í Bónus núna. Þá var hálfs lítra Appelsínið í dós árið 2001 en í plastflösku árið 2011. Að öðru leiti var allt eins.



Allt hefur hækkað
Eins og við var að búast hefur allt hækkað á þessum tíu árum. Um er að ræða 68.7 prósent hækkun á heildar körfunni. Mest hefur hveiti hækkað, um heil 285.7 prósent. Púðursykur, lyftiduft og Toro sósa hefur hækkað mikið og kaffið líka, um 88.5 prósent.
Eitthvað má skýra hækkunina með genginu – og þó. Í nóvember 2001 var gengi erlendra gjaldmiðla nefnilega frekar hátt: Einn dollari var á 110 kr. (er 114 kr. í dag) og eitt pund á 156 kr. (er á 183 kr. í dag). Evran var reyndar lág, ein Evra var á 97 kr., en er á 159 kr. í dag. Á næstu tíu árum fóru allir þessir gjaldmiðlar í hressilega rússibanaferð upp og niður – lægst fór dollarinn í 58.5 kr., en hæst í 148 kr.– þökk sé hinni ofursveigjanlegu íslensku krónu.
Heimsmarkaðsverð á flestum vörutegundum – þá sérstaklega hveiti – hefur einnig hækkað ofboðslega á þessum tíu árum.

Við höfum það betra – ef við höfum vinnu
Þessi hækkun á matarkörfunni upp á 68.7% er þó ekki eins hræðileg og halda mætti, því á móti kemur að laun hafa hækkað mikið á þessum tíu árum – hvort sem þú trúir því eða ekki. Hagstofan heldur utan um launaþróunina. Miðað við þeirra útreikninga hefur launavísitalan hækkað um heil 109.1% frá nóvember 2001 til september 2011. Árið 2001 voru meðallaun landsmanna 202.000 kr., en árið 2010 (sem er nýjasta árið sem Hagstofan gefur upp) voru meðallaunin 381.000 kr. Þetta er hækkun upp á 88.6%, en eins og áður segir hækkaði matarkarfan um 68.7% – hér munar 20%.
Niðurstaðan er því þessi: Við höfum það aðeins betur. Það er aðeins ódýrara að kaupa í matinn hlutfallslega miðað við laun, en árið 2001.
Eitt má þó ekki gleymast. Atvinnuleysi að jafnaði á mánuði árið 2001 var 1.4%, en var 6.6% í september 2011.

Talsmaður neytenda slær varnagla
Ég bar niðurstöðurnar undir Gísla Tryggvason, Talsmann neytanda.
„Þetta er athyglisverður samanburður,“ segir hann. „Ef útreikningarnir eru réttir hefur hlutfall svona matarkörfu af útgjöldum neytenda vissulega lækkað, en á sama tíma hefur kostnaður við umfangsmikla liði á borð við húsnæði og bifreið stóraukist eins og fleiri stórir liðir, m.a. símakostnaður.
Gísli slær stóran varnagla um þá niðurstöðu að það sé aðeins ódýrara að kaupa í matinn nú en fyrir 10 árum, miðað við launaþróun.
„Hvað sem matarkörfunni líður þá held ég að sú ályktun sé ekki rétt almennt,“ segir hann. „Við þurfum að lifa sjálfbært í þeim skilningi að væntanlegar lífskjarabætur eigi innistæðu en séu ekki teknar að láni, hvað þá okurláni. Fyrri hluta 10 ára tímabilsins varð mikil – fölsk – lífskjaraaukning, sem svo hrundi. Nú er greiðslubyrði þeirra sem skulda, t.d. húsnæðis- og bifreiðalán, mun hærri að jafnaði. Fjármagnskostnaður er sennilega sá kostnaðarliður sem gefur mest sóknarfæri fyrir íslenska neytendur, ef svo má segja.“

Dr. Gunni - Birtist fyrst í Fréttatímanum, 28.10.2011

mánudagur, 24. október 2011

Barnaafmælið flutt út

Margir kjósa að flytja barnaafmælið af heimilinu til að losna við umstangið. Nokkrir staðir á Stór-Reykjavíkursvæðinu bjóða upp á þessa þjónustu. Í öllum tilfellum er gert ráð fyrir því að veislan standi yfir í u.þ.b. tvo klukkutíma.

Í Ævintýragarðinum, Skútuvogi, er allskonar afþreyting fyrir börn (rennibrautir, hoppukastalar o.s. frv.). Þar eru tvö afmælisherbergi, eitt fyrir 8-12 börn, annað sem rúmar allt upp í 25 börn. Aðgangur að garðinum, pítsa, drykkur og íspinni kostar 1.400 kr á barn.

Afmælispakki Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð samanstendur af klukkutíma í keilu, gosglas og þrjár pítsusneiðar fyrir hvern gest, gjöf fyrir afmælisbarnið (bolta) og fríleik fyrir sigurvegara keilukeppninnar. Lágmark eru átta gestir og kostar pakkinn 1.650 kr á haus.

Í Veröldinni okkar í Smáralind er hægt að halda pítsu- eða hamborgaraafmælisveislu (matur, drykkur, eftirréttur). Það kostar 1.350 kr á barn, en verðið lækkar ef börnin eru fleiri en tuttugu. Vilji foreldrar sjá um veitingar sjálfir kostar það 850 kr á barn.

Krakkahöllin á Korputorgi er eitt þúsund fermetra hoppukastalasvæði. Þar er dúkað upp afmælisborð og boðið upp á pítsur, brauðstangir, kandífloss og gos. Verðið er 1.500 kr á barn og segjast starfsmenn Krakkahallarinnar sjá um allt frá A-Ö. Ef foreldrar afmælisbarns vilja koma með veitingarnar sjálfir kostar aðstaðan 1.100 kr á barn.

Í Ævintýralandi í Kringlunni er hægt að halda veislur fyrir 8-20 börn. Gjald án matar er 850 kr á barn. Veitingastaðir á Kringlutorgi bjóða tilboð fyrir veislurnar. Dominos bjóða t.d. tvær pítsusneiðar með einu áleggi, tvær brauðstangir og drykk á 400 kr. Væri þá kostnaður við hvern gest kominn í 1.250 kr.

Ísbúðin Háaleitisbraut 58-60 er ný ísbúð í verslunarkjarnanum Miðbæ. Á efri hæðinni er aðstaða til afmæla. Í salnum eru tveir flatskjáir, dvdtæki og tvær Wii leikjatölvur og leikir. Hver veisla kostar 5000 kr fyrir salinn. Það er frjálst að koma með veitingar en það þarf þó að kaupa ís fyrir gesti. Krakkarnir koma niður og velja (foreldrar setja upp hvað er í boði) og svo er greitt í lokin fyrir það sem tekið út. Dæmi: Krapglas 330 kr.- stk, Pinnaís t.d. Hlunkur 220 kr.- stk. Einnig er hægt að fá ís upp sem foreldra skammta sjálfir. Ef gestir væru 15 og boðið væri upp á krapglas væri kostnaðurinn 663 kr. á barn.

miðvikudagur, 12. október 2011

Hagkaup bakar Elko

Hagkaup er að baka þessa verðvend hjá Elko hvað varðar gamla ps3 leiki og bluray myndir. Til dæmis PS3: Motorstorm Apocalypse 4.999 í Elko og 4.299 í Hagkaup. Síðan eru dæmi um það að myndir sem kosta bara 1.500 í Hagkaup kosti 3.200 í Elko.
Kv; Vilhjálmur

mánudagur, 10. október 2011

Upptekinn maður horfir á Stöð 2

Þetta tengist að vísu ekki okri en eitt sem mér finnst skrítið.
Málið er að ég er áskrifandi að Stöð 2 og Stöð 2 bíó og Plúsnum og er með áskriftina á Digital ísland. Þar sem ég er mjög oft ekki heima á kvöldin ákvað ég að fá mér adsl sjónvarp hjá Vodafone til þess að fá Stöð 2 fresli og geta þá horft á hvaða þátt á Stöð 2 sem er aftur í tímann um tvær vikur, þeir fá plús í kladdann fyrir að bjóða uppá þetta.
En til þess að það sé möguleiki þarf ég að færa alla Stöð 2 áskriftina yfir á þennan Adsl myndlykil. Gott og vel ég gerði það og gat notið dagskrá stöðvar 2 aftur í tímann um tvær vikur og gat horft þegar það hentaði mér vegna þess að ég er ekki mikið heima vegna vinnu.
En þessi adsl myndlykill höktir þessi ósköp vegna þess að sjónvarpið er náttúrlega að fara í gegnum internet routerinn og það kemur fyrir að stöðvarnar hökti mikið sem gerir upplifunina á það að horfa á Stöð 2 ekki skemmtilega. Þannig að ég fór aftur og bað um að láta breyta þessu aftur yfir á digital ísland til þess að það væri hægt að horfa á sjónvarpið án hökts og spurði hvort þau gætu haft stöð 2 frelsi áfram inná adsl sjónvarpinu en það var ekki möguleiki þannig ég lét bara breyta þessu aftur yfir á digital ísland og missti þess vegna stöð 2 frelsi út.
Nú var svo komið að þar sem ég er ekki mikið heima og missi af bókstaflega öllu að ég var að spá í að segja bara upp áskriftinni að stöð 2 til þess að vera ekki að eyða peningum í sjónvarpstöð sem ég hef ekki tíma til að horfa á.
En þar sem mér finnst stöð 2 mjög skemmtileg sjónvarpsstöð þá ákvað ég að fara mínar eigin leiðir og keypti mér sjónvarpsflakkara sem bíður uppá upptöku og núna síðasta mánuðinn er ég bara búinn að programmera flakkarann minn þannig að hann taki upp þá þætti á stöð 2 sem ég vill ekki missa af og þá eru þeir komnir inná flakkarann minn þar til mér dettur í hug að eyða þeim, á meðan ég eyði þeim ekki get ég þess vegna haft þá á flakkaranum næstu 10 ár.
Ég er t.d. ekki heima neitt núna og verð ekki í dag en flakkarinn minn er prógrammeraður heima til þess að taka upp Heimsenda sem er að byrja í kvöld því ég vill ekki missa af þeim þætti.
Þannig já þessi litla dæmisaga kannski vekur stöð 2 til umhugsunar að bjóða frekar áskrifendum að hafa stöð 2 frelsi sér á adsl sjónvarpinu en sjálfar stöðvarnar á digital ísland og þá eru þeir ekki að lenda í því að áskrifendur séu að búa sér til afrit af öllu sem þeir sýna í sjónvarpinu.
Að mínu mati er adsl sjónvarpið ekki nógu þróað til þess að það sé boðlegt að horfa endalaust á sjónvarpið gegnum internetið.
Skrapp t.d. erlendis í viku um daginn og flakkarinn tók upp þá þætti sem ég var búinn að schedulera hann til að taka upp þannig það beið mín bara á honum algjör sjónvarpsveisla, þetta er eitthvað sem ég myndi ekki nenna að standa í ef ég gæti horft á þetta bara á stöð 2 frelsi, en ég vill ekki hafa stöðvarnar sjálfar á adsl sjónvarpinu vegna hökts.
En nota flakkarann frekar í staðinn fyrir að segja upp stöð 2 því mér finnst þetta mjög skemmtileg sjónvarpstöð þrátt fyrir að vera mjög upptekinn maður.
Ef stöð 2 vill að ég hætti að gera mér afrit af þáttunum þeirra þá mættu þeir skoða það að bjóða stöð 2 frelsi sér á adsl sjónvarpi en stöðvarnar sjálfar á digital ísland :)
Kveðja, G.Á - Ánægður með dagskrá stöðvar 2

miðvikudagur, 5. október 2011

Léleg (engin) þjónusta í Hljóðfærahúsinu

Málið er þannig að ég fór í Hljóðfærahúsið þann 22. ágúst til að kaupa ákveðna gerð af stúdíómonitorum (hátölurum) sem mér hafði verið sagt í gegnum síma að væri til. Þegar á staðinn kom, kom í ljós að þessir monitorar voru ekkert til. Hvaðan sá sem svaraði símtali mínu fékk sínar upplýsingar veit ég ekki. Reyndar vildi svo heppilega til að það fannst eitt stykki eftir allt saman.
Nú hefur stereo-hlustun verið standard í 40+ ár, þannig að ég þurfti að sjálfsögðu einn hátalara til. Var mér sagt að það væri sending á leiðinni sem innihéldi það sem ég girntist, og að hún yrði komin í lök sömu viku. Mér væri því óhætt að ganga frá kaupum á tveimur stykkjum og sækja svo hátalarann sem upp á vantaði þegar hann kæmi í hús innan fárra daga.
Í lok vikunnar hringi ég, bara til að vera viss um að planið hefði staðist. Nei nei, þetta hafði þá verið einhver misskilningur, umrædd sending kæmi ekki fyrr en í lok vikunnar á eftir. (Hvar sá sem sagði annað fékk sínar upplýsingar veit ég ekki. Mig minnir reyndar að það hafi verið sami maðurinn.) Jæja, ég læt mig hafa það. Viku síðar hringi ég í þá til að kanna stöðu mála. Þá kemur í ljós að umræddir hátalarar voru ekkert í þessari sendingu. Á hverju fyrri fullyrðingar voru byggðar veit ég ekki.
Nú voru semsagt liðnar tvær vikur, einni viku umfram það sem upphaflega var lofað. Gott og vel. Hversu mikið lengur þarf ég að bíða eftir þessum hátalara sem ég er búinn að borga fyrir? Jú, það var önnur sending á leiðinni sem ætti að innihalda umrædda vöru. Annað kemur svo á daginn. Að vita innihald sendinga þarfnast greinilega skyggnigáfu, sem greinilega enginn starfsmaður Hljóðfærahússins býr yfir, því miður.
Þegar hér er komið sögu þá er ég farinn að gera mér grein fyrir að þetta eigi eftir að taka töluverðan tíma, og ég nenni ekki að hlusta á tónlistina mína úr einum hátalara til lengdar. Því bið ég Hljóðfærahúsið um að lána mér tvo monitora/hátalara af annarri gerð þar til sá sem ég bíð eftir kemur loks í hús. Þetta geri ég í gegnum síma. Starfsmaðurinn segist ætla að kanna hvað hann eigi til að lána mér og hringja svo til baka. Það gerir hann ekki.
Næsta dag mæti ég því á staðinn og heimta vinsamlegast mína lánshátalara. Þá fæ ég, ekki málið. Þeir sem ég bíð eftir eru svo í pöntun og ættu að vera komnir innan örfárra vikna.
Þremur vikum seinna hringi ég enn og aftur (aldrei hringja þeir í mig) til að athuga stöðuna. Jú, þessir hátalarar eru rétt ókomnir og ættu að detta inn í vikunni á eftir, þ.e. þeirri viku sem þetta er skrifað.
Í dag, á miðvikudegi, hringi ég aftur í þá. Nú er sagt að sendingin verði komin á föstudaginn eða í byrjun næstu viku. Ég andvarpa, en ókei. En þá kemur að auki í ljós að eftir allar þessar vikur og öll þessi símtöl þá finnst ég ekki á lista í kerfinu hjá þeim! Var nafnið mitt og símanúmer bara hripað á einhvern post-it miða sem var klesst einhversstaðar og lenti svo í ruslinu?
Topp þjónusta alveg. Topp þjónusta. Mikið vona ég innilega að þessar græjur bili ekki á ábyrgðartímanum, ef það gerist þá sé ég fram á svipað vesen.
Þess má geta að Tónastöðin virðist ekkert betri í því að vita í hvaða viku sendingar koma eða hvað er í þeim. Greinilega miklir leyndardómar í þessum bisness og þykir ekki forgangsatriði að gefa viðskiptavinum réttar upplýsingar.
Kveðja,
Kári