miðvikudagur, 5. október 2011

Léleg (engin) þjónusta í Hljóðfærahúsinu

Málið er þannig að ég fór í Hljóðfærahúsið þann 22. ágúst til að kaupa ákveðna gerð af stúdíómonitorum (hátölurum) sem mér hafði verið sagt í gegnum síma að væri til. Þegar á staðinn kom, kom í ljós að þessir monitorar voru ekkert til. Hvaðan sá sem svaraði símtali mínu fékk sínar upplýsingar veit ég ekki. Reyndar vildi svo heppilega til að það fannst eitt stykki eftir allt saman.
Nú hefur stereo-hlustun verið standard í 40+ ár, þannig að ég þurfti að sjálfsögðu einn hátalara til. Var mér sagt að það væri sending á leiðinni sem innihéldi það sem ég girntist, og að hún yrði komin í lök sömu viku. Mér væri því óhætt að ganga frá kaupum á tveimur stykkjum og sækja svo hátalarann sem upp á vantaði þegar hann kæmi í hús innan fárra daga.
Í lok vikunnar hringi ég, bara til að vera viss um að planið hefði staðist. Nei nei, þetta hafði þá verið einhver misskilningur, umrædd sending kæmi ekki fyrr en í lok vikunnar á eftir. (Hvar sá sem sagði annað fékk sínar upplýsingar veit ég ekki. Mig minnir reyndar að það hafi verið sami maðurinn.) Jæja, ég læt mig hafa það. Viku síðar hringi ég í þá til að kanna stöðu mála. Þá kemur í ljós að umræddir hátalarar voru ekkert í þessari sendingu. Á hverju fyrri fullyrðingar voru byggðar veit ég ekki.
Nú voru semsagt liðnar tvær vikur, einni viku umfram það sem upphaflega var lofað. Gott og vel. Hversu mikið lengur þarf ég að bíða eftir þessum hátalara sem ég er búinn að borga fyrir? Jú, það var önnur sending á leiðinni sem ætti að innihalda umrædda vöru. Annað kemur svo á daginn. Að vita innihald sendinga þarfnast greinilega skyggnigáfu, sem greinilega enginn starfsmaður Hljóðfærahússins býr yfir, því miður.
Þegar hér er komið sögu þá er ég farinn að gera mér grein fyrir að þetta eigi eftir að taka töluverðan tíma, og ég nenni ekki að hlusta á tónlistina mína úr einum hátalara til lengdar. Því bið ég Hljóðfærahúsið um að lána mér tvo monitora/hátalara af annarri gerð þar til sá sem ég bíð eftir kemur loks í hús. Þetta geri ég í gegnum síma. Starfsmaðurinn segist ætla að kanna hvað hann eigi til að lána mér og hringja svo til baka. Það gerir hann ekki.
Næsta dag mæti ég því á staðinn og heimta vinsamlegast mína lánshátalara. Þá fæ ég, ekki málið. Þeir sem ég bíð eftir eru svo í pöntun og ættu að vera komnir innan örfárra vikna.
Þremur vikum seinna hringi ég enn og aftur (aldrei hringja þeir í mig) til að athuga stöðuna. Jú, þessir hátalarar eru rétt ókomnir og ættu að detta inn í vikunni á eftir, þ.e. þeirri viku sem þetta er skrifað.
Í dag, á miðvikudegi, hringi ég aftur í þá. Nú er sagt að sendingin verði komin á föstudaginn eða í byrjun næstu viku. Ég andvarpa, en ókei. En þá kemur að auki í ljós að eftir allar þessar vikur og öll þessi símtöl þá finnst ég ekki á lista í kerfinu hjá þeim! Var nafnið mitt og símanúmer bara hripað á einhvern post-it miða sem var klesst einhversstaðar og lenti svo í ruslinu?
Topp þjónusta alveg. Topp þjónusta. Mikið vona ég innilega að þessar græjur bili ekki á ábyrgðartímanum, ef það gerist þá sé ég fram á svipað vesen.
Þess má geta að Tónastöðin virðist ekkert betri í því að vita í hvaða viku sendingar koma eða hvað er í þeim. Greinilega miklir leyndardómar í þessum bisness og þykir ekki forgangsatriði að gefa viðskiptavinum réttar upplýsingar.
Kveðja,
Kári

9 ummæli:

 1. Skrítið ég hef alltaf fengið toppþjónustu í Tónastöðinni og er hún margfalt betri en í hljóðfærahúsinu.

  SvaraEyða
 2. Ég get sagt nákvæmlega sömu sögu varðandi kaup mín á borðstofuhúsgögnum hjá Húsgagnahöllinni fyrir nokkrum árum. Ég greiddi þá fyrir borð sem átti að koma í næstu viku en kom síðan ekki fyrr en eftir dúk og disk.

  SvaraEyða
 3. Húsgagnahöllin er ekkert að hafa fyrir því að láta mann vita t.d. ef að eitthvað sem maður pantar er ekki til hjá framleiðandanum og kom ekki með sendingunni.

  Er núna búinn að bíða eftir gleri í Bodum pressukönnur án stúts fyrir könnur sem eru með ventli sem opnar og lokar könnunni Chamboard Lock og Bean heita þær og fannst mér skrítið að þeir seldu þessar könnur en ekki aukagler í þær sem er gjarnt á að brotna.

  1. póstur sendur til þeirra 22.febrúar og svar um að þetta yrði pantað kom 4.mars og sending átti fyrst að koma í apríl og svo um mánaðarmótin maí/júní og svo sendi ég póst í lok júní til þeirra og ekkert svar. Loks fer ég til þeirra í lok ágúst og þá var þetta ekki til hjá framleiðanda í síðustu sendingu og ætti að koma í næstu. Enn er ég ekki búinn að fá svar og nú eru komnir 7 mánuðir frá svari um að þetta yrði pantað fyrir mig og 7 og hálfur mánuður frá því ég sendi þeim fyrst póst.

  SvaraEyða
 4. Og n.b. ég myndi kaupa þetta á netinu ef allir seljendurnir á þessu gleri senda ekki gler til Íslands. Amazon t.d. sendir ekkert Bodum yfir höfuð til Íslands.

  SvaraEyða
 5. Ættir að geta pantað það í gegnum ShopUSA, þannig ættirðu að komast framhjá þeirri reglu að seljandinn sendi ekki til Íslands. Því seljandinn sendir þá bara til ShopUSA á austurströndinni, sem svo kemur vörunni áfram til þín.

  En það virðist nokkuð ljóst að góð þjónusta (eða það sem ætti í raun að vera basic þjónusta og kurteisi, eins og að hringja og láta vita) heyrir til undantekninga á Íslandi.

  SvaraEyða
 6. Þetta ShopUSA er bara rugl. Ef ég ætla t.d. að panta fyrir 60$ af heimsíðu Bodumog þeir senda það frítt hvert sem er í Bandaríkjunum sem gerir 60*120=7200kr. Komið heim kostar þetta 17.803kr Sem sé það er lagt meira en 10 þúsund kall á þetta í einhver gjölds.

  Segjum að ég geti látið senda þetta beint til Íslands frá síðunni og að sendingarkostnaðurinn yrði(gefum okkur þess vegna 40$ í sendingarkostnað) þá gerir þetta komið heim 12-13 þúsund krónur(innifalið í því er tollskýrslugerðin). Þannig að maður er að borga ansi mikið fyrir þennan millilið.

  Hef milljón sinnum þar sem ég spila á hljóðfæri og erfitt að fá ýmsa aukahluti sem ekki er markaður á Íslandi til að selja hér á landi verslað beint frá USA án þessa milliliðs og aldrei lent í neinum vandræðum og hlutirnir alltaf kostað það sem ég hef áætlað.

  SvaraEyða
 7. www.viaadress.com nota ég alltaf eða www.bongous.com:P

  SvaraEyða
 8. Með ShopUSA þá er það ekki þeir sem leggja allan þenna kostnað á, líka hefðiru sent þetta beint borgaru ekki bara sendingarkostnað og búið...
  Þú þarft að borga Vsk og yfirleitt toll (fer eftir vöru) .. Ef þetta væri svona einfalt einsog þú heldur að það sé þá myndi ég versla allt mitt dót erlendis frá ... Grimm gjöld á innfluttu dóti því miður...

  Sammála með þjónustu í hljóðfærahúsinu ... Finnst hún alls ekki góð.. Tónstöðin hefur verið skárri að mínum mati

  SvaraEyða
 9. Ég fór í Hljóðfærahúsið í Júlí og sérpantaði 2 vörur, önnur kostaði 90k og hin 250k.
  Þeir tóku niður upplýsingar, símanúmer og email en hafa ekki enn látið heyra í sér.
  Ég rölti síðan þarna 5 mánuðum seinna og þá var ódýrari varan bara uppí hillu hjá þeim.

  Hversu erfitt er að láta viðskiptavini vita þegar varan þeirra kemur? Þarna urðu þeir af 340.000 króna viðskiptum sem ég fer með yfir í Tónastöðina frekar því þar fæ ég mikið betri þjónustu.

  SvaraEyða