þriðjudagur, 22. febrúar 2011

Ótrúlegt verð á skrifblokkum hérlendis

Ég fór um bæinn í leit minni að skrifblokk til þess að glósa í, á fundum, í vinnunni, í skólanum, almennar hugmyndir o.s.frv. Krafan var skrifblokk A5 að stærð, helst með bókamerki og teygju utanum til að geta haldið henni lokaðri.

- A4 Smáratorgi átti ekki mikið úrval, ekkert sem passaði almennilega við mínar kröfur. En það sem var í áttina að því var í lágum gæðum og ekki ódýrt eða yfirleitt á verðbilinu 2-4 þús. pr.stk.
- Office One í Smáralind áttu lítið af svona skrifblokkum, og engin passaði almennilega heldur þar. En þær voru aðeins skaplegri í verði á um 2-3þús. pr.stk. og einnig í aðeins betri gæðum.
- Eymundsson í Smáralind átti nokkrar og fann ég strax blokkina sem ég var að leita að. Heitir hún Moleskine og er í góðum gæðum, með vasa aftast til að geyma smá aukaefni, teygju og bókamerki. Allt var frábært, nema verðið. Hún kostaði tæplega 6 þús kr. Mér fannst það frekar dýrt, svo ég dró upp símann minn og notaði forrit til að skanna strikamerkið á bókinni og leita á vefsíðum að verðinu. Fyrsta sem kom upp var $11 fyrir bókina, og það bara í smásölu á netinu. Heldur mikill verðmunur svo ég fór bara heim...
Þegar ég kom heim, fór ég á netið og fann bókina á Amazon, pantaði 2stk þar með hraðsendingu hingað heim á 4400kr. Geri ég ráð fyrir því að þurfa að borga VSK af bókinni þegar hún kemur hingað, en ég fæ þá 2 bækur á svipuðu verði og stök bók er á hjá Eymundsson.
Nánar um bókina sem ég pantaði á Amazon ($9.64) - http://www.amazon.com/Moleskine-Ruled-Notebook-Large/dp/8883701127/ref=sr_1_1?ie=UTF8&qid=1298381935&sr=8-1
- 2stk með expedited shipment hingað heim kostuðu tæpa $38
- Á genginu 117 gerir það 4446 kr.

Lærdómur minn af þessu var sá að bera saman verð á vörum hérlendis og erlendis mun oftar með þessu forriti, því það borgar sig greinilega. En fyrir vörur sem maður hefur möguleika á að bíða aðeins eftir og fyrir svona mikinn sparnað bíð ég glaður í viku eftir að fá bækurnar.

Sigurður Bjarnason

þriðjudagur, 15. febrúar 2011

Súperskór

Súperskór sf er í eigu ósköp venjulegs fjöslkyldufólks sem ákvað einn daginn að gera eitthvað annað og meira en að sitja heima í eldhúsi og kvarta undan verðlaginu á Íslandi. Fyrirtækið rekur netverslunina www.superskor.is þar sem boðið er upp á skófatnað á betri verðum en en boðið er upp á í verslunum á landinu. Síðan er skemmtilega upp sett og auðvelt er að panta vöruna þar sem bæði er hægt að greiða með kreditkorti og millifærslu á reikning verslunar. Boðið er upp á fría heimsendingu hvert á land sem er og fara skórnir í póst um leið og greiðsla berst til seljanda.
Í augnablikinu er aðallega boðið upp á skó fyrir börn og unglinga en stefnt er á aukaúrvalið jafnt og þétt og taka inn skó fyrir herra og dömur fljótlega. Ef farið er inn á síðuna sést að allir barna og unglingaskór kosta minna en 5000 kr.
Síðan hefur fengið góðar viðtökur og hafa þeir sem verslað hafa við Súperskó sf verið ánægðir með vöruna og þjónustuna. Margir halda kannski að ekki sé hægt að versla skó á netinu vegna mismunandi stærða og annara vandkvæða en það er ekki svo. Á síðunni má finna upplýsingar um þá skó sem þykja vera í smærri stærðum en gengur og gerist og einnig má þar finna tölur sem sýna innanmál í millimetrum. Ef skórnir passa ekki þegar þeir eru komnir til kaupanda er boðið upp á senda þá til baka og fá rétt númer sent í staðinn. Sendingarkostnaður vegna skipta á skóm fellur reyndar á kaupanda en engu að síður þægileg lausn.
Kristján

Ódýrt gos í Á stöðinni

Ég fer nú ekki oft í Hafnafjörðinn en það gerði ég um daginn, kom við í
sjoppu/bensínstöð sem heitir Á stöðinni og fékk þar hálfan líter af Egils
Kristal á 149kr. Var við öllu viðbúinn og bjóst við að þurfa borga um 300kr
eins og flestum sjoppum. Þeir eiga hrós skilið!
Þórunn

sunnudagur, 13. febrúar 2011

"Miðjan" úr lundinni dýrari í Nóatúni

Við hjónin fórum í Nótatún Hamraborg áðan til þess að kaupa okkur smávegis nautakjöt í matinn. Eftir smá umhugsun leist okkur best á ungnauta lund á kr. 5398 kílóið. Við þurftum ekki mikið, en það sem var til hjá þeim var c.a. 500 gr. Við báðum hann um c.a. 2-300 gr. af þessu hálfa kg. Þegar búið var að skipta lundinni þá reyndist bitinn sem við vildum vera um 300 gr. og ákvaðum við að kaupa hana. Þá tjáði starfsmaðurinn okkur að þar sem þetta væri miðjan úr lundinni, þá myndir kílóverðið HÆKKA upp í kr 5999 kílóið. Ég hef aldrei lent í svona vitleysu og hef til þessa geta gengið út frá því að það verð sem er auglýst í búðinni væri það verð sem neytandinn ætti að greiða. Það er með ólíkindum að þeir vogi sér að hækka verðið þegar maður er búinn að ákveða hvað kaupa á í það skiptið. Okkur fannst þetta hinn mesti dónaskapur og löbbuðum út úr búðinni. Er þetta það sem koma skal?
Kveðja,
Guðrún

föstudagur, 11. febrúar 2011

Vændi í Fréttablaðinu

Við vinnufélagarnir vorum að skoða smáauglýsingar fréttablaðsins þegar mér var litið í nudd auglýsingarnar. Fyrir utan 2 auglýsingar frá Íslendingum mátti eingöngu finna auglýsingar á ensku. Ég tók mig því til og hringdi í símanúmerin sem fylgdu auglýsingunum til að forvitnast hvað fælist í whole body massage. Svörin sem ég fékk voru, allur líkaminn er nuddaður og svo er happy ending í lokin. Ef þú vilt meira þá kostar slíkt aukalega. Algengt verð fyrir svona þjónustu frá 10.000 kalli og uppúr. Er
þetta ekki vændi? Er semsagt hægt að versla svona í gegnum Fréttablaðið? Ja hérna. Svona er Ísland í dag.

ATH: Ég hafði aldrei í hyggju að nýta mér þjónustu þessara kvenna. Eingöngu var hringt til að spyrja hvað fælist raunverulega í þessari þjónustu.

Óskar nafnleyndar

Upplýsingar á afgreiðslukassaskjá

Væri ekki uppálagt að kanna hvernig staðið er að því að afgreiðslukassaskjár snúi að viðskiptavininum við kassann? Þ.e. að þeir sýni það verð sem sett er inn og svo samtöluna. Við sem erum heyrnarlaus og/eða heyrnarskert vorum að ræða þetta og þessu atriði er ábótavant í sumum verslunum. Mér finnst t.d. óþolandi þegar afgreiðslufólkið þylur upp upphæðina og maður segir HA? Snýr sér að skjánum og þar er samtalan ekki, heldur síðasta varan sem var slegin inn, þegar beðið er um upphæðina á skjáinn, kemur stundum fát á starffólkið, það fer að leita á lyklaborðinu að takkanum sem slá á svo samtalans sjáist á skjánum sem snýr að kúnnanum. Stundum finnst takkinn stundum ekki og stundum er sagt að takkinn sé bilaður o.s.frv. Þessu er mest ábótavant í Hagkaupum, á bensínstöðum, sjoppum; sem sagt í mörgum búðum. Í dag var enginn skjár til staðar í snyrtivörudeildinni í Hagkaup í Garðabæ, samt var þar að mér sýndist nýr afgreiðslukassi. Hvað segja lög og reglur um svona atriði? Ég er búin að senda fyrirspurn á Neytendastofu; postur@neytendastofa.is hef ekkert svar fengið en vona að þar finnst minnst einhver sem getur svarað þessu atriði. Þetta er upplýsingaraðgengismál og mér telst svo að fólk eigi rétt að sjá það verð sem slegið er inn og samtöluna líka. Eins mætti alveg skoða líka hjá gjaldkerum í banka með það í huga að viðskiptavinurinn á rétt á að sjá hvaða upplýsingar gjaldkerinn er að skoða um sig við afgreiðslu á sér og hvaða upplýsingar hann sér á skjánum þegar reikningsnúmer manns er slegið inn.
Kær kveðja,
Sigurlín Margrét

Ónýtar ljósaperur í Domti

Ég fór fyrir nokkru í verslun sem heitir Domti á Smáratorgi og rakst þar á ljósaperur af þeirri sortinni sem er orðin illfáanleg, þessar gömlu góðu, sem sagt, og þar sem þær voru á góðu verði, keypti ég nokkur stykki. Þær virðast hins vegar vera einnota, því ýmist sprungu þær um leið og kveikt var á ljósinu eða í síðasta lagi þegar næst var kveikt. Kippti mér svo sem ekki mjög upp við þetta, hélt jafnvel að eitthvað væri að rafmagni heima hjá mér, en nú hef ég af því spurnir að margir fleiri hafa lent í þessu. Er hægt að kvarta yfir ljósaperum? Má flytja inn hvað sem er?
Ég vildi vara fólk við að falla í þessa sömu gryfju.
Herdís Ólafsdóttir

Tilviljunarkennd verðlagning Icelandair

Ég er í fyrirtækjarekstri og ferðast töluvert. Ég er orðin nokkuð sleipur að finna mér hagstæðar flugferðir á netinu. En mér er óskiljanlegt hvernig Icelandair verðleggur sín flug. Endalausar auglýsingar á flugi "frá 18000 og eitthvað" sem er svo nánast vonlaust að finna þegar maður ætlar að bóka. Ég hef haft samband við félagið og það er alltaf sama svarið, búið að selja ódýrustu fargjöldin blablalba. En ég fullyrði að þetta er blekking. Hér um daginn skoðaði ég flug til nýs áfangastaðar Icelandair, Bilund. Ef þú ferð á bókunarvél Icelandair þá geturðu sannreynt eftirfarandi.

Dags út 27 júní og til baka 29 júní. Ég exa við báðar leiðir og niðurstaðan er kr 78.320

Svo prófa ég aðra aðferð:

Bóka aðra leiðina út 27 júní og hún kostar kr 18.880

Bóka aftur aðra leið Bilund Kef og upp kemur 19.409 kr. Samtals 38.289. Hér munar 40 þúsund krónum!

Eg prófa aftur út 28 júní út og til baka daginn eftir 29 júní = kr 99620

Aftur prófa ég hina aðferðina og niðurstaðan er 52,879. Hér munar 46 þúsund. Þetta eru sömu sæti í sama flugi.

Ég hef bókað flug hjá mörgum flugfélögum og ég fullyrði að verðlagningin hjá Icelandair er óskiljanleg og verulega tilviljunarkennd.

En það er vert að benda fólki á þetta, fólk getur sparað sér töluverðar upphæðir með að bóka eitt flug í einu. Það er að segja þangað til félagið uppgörtvar klúðrið.

Kveðja,
Níels

fimmtudagur, 10. febrúar 2011

Neytendur hafðir að fíflum hjá Jóni og Óskari

Ég sé mig tilneydda til að senda meðfylgjandu upplýsingar varðandi óheiðarlega viðskiptahætti.
Um seinustu helgi, 7. - 9. febrúar, var auglýstur 40% afmælisafsláttur af öllum vörum hjá skartgripaversluninni Jóni og Óskari þar sem þeir áttu 40 ára afmæli. Þar sem ég hafði fengið dýra eyrnalokka frá þeim í jólagjöf og skipt þeim í inneignarnótu þann 15. Janúar 2011 þá hugsaði ég mér gott til glóðarinnar. Ég hringdi fyrst í verslunina og spurði hvort það mætti nota inneignarnótu á þessum afmælisafsláttardögum.
Svarið var ekkert mál. Ég var því voða ánægð þegar ég fór niður í búðina og ætlaði að versla fyrir nótuna mína sambærilega vöru á góðum afslætti. EN VITI MENN... vörurnar sem ég var búin að vera að skoða voru búnar að hækka á bilinu 34% til 36%.
Mér varð illt. Eyrnalokkarnir sem ég fékk í jólagjöf og skilaði 15. janúar kostuðu 34.200 krónur áður, en voru komnir í 47.000 krónur. Eyrnalokkarnir sem ég ætlaði hins vegar að skipta í voru á 37.200 þann 15. janúar en voru komnir í 50.000 krónur slétt.
Ég lét reyndar afgreiðslustúlkuna vita af þessu og hún hvíslaði að mér að ég fengi eyrnalokkana á gamla verðinu eða eins og þeir kostuðu vikuna áður. Viðskiptavinurinn sem stóð við hliðina á mér spurði hvort þetta væri svona með allt í búðinni en svarið var nei, einungis þetta tiltekna merki.
EN hvað vitum við?????????????
Tekið skal fram að í þessari verslun var fullt út úr dyrum alla helgina þar sem fólk hélt greinilega að það væri að fá 40% afslátt.
Virðingarfyllst,
Guðný Gísladóttir

miðvikudagur, 9. febrúar 2011

Krónan skuldar mér 180 kr.

Þetta er ágætt í bland, Bónus og Krónan út á Granda. Krónan er þó aðeins meira eins og maður sé í búð, því Bónus er meira eins og maður sé í skemmu. Allavega: Í Krónunni hefur löngum verið ömurlega verðmerkt og það er ekkert að breytast. Auk þess er stundum vitlaust merkt. Auðvitað á maður að vekja athygli á þessu í búðinni og vera með uppsteit við kassann en það er bara svo ferlega bjánalegt og leiðinlegt fyrir aðra kúnna. Svona er maður slappur neytandi, þrátt fyrir allt. Áðan keypti ég erlent Famous lúxus hnetubland og tók alveg sérstaklega eftir því að pokinn kostar 399 kr. Kíkti ekki á miðann (eins og fífl) fyrr en ég kom heim og þá hefur þetta skannast inn sem Famous ristaðar hnetur á 579 kr – búðin hafði af mér 180 kr. Ég velti því fyrir mér hvort strikamerkin séu öfug á hinn veginn, þ.e. að maður borgi minna fyrir dýrari hneturnar? Ég ætti að bruna upp í búð með pokann og strimilinn en ég bara hreinlega nenni því ekki. (Frekar nenni ég að skrifa þetta á Okursíðuna!)
Í staðinn bíst ég við að Krónan hafi samband og leggi 180 kr inn hjá mér þegar ég hef gefið þeim upp reikningsnúmerið. Þeir geta sannreynt hvort ég sé ekki að segja satt á kassanum í Krónunni út á Granda.
Og eitt enn. Ég tróð vörunum í tvo poka og þeir rifnuðu báðir á leiðinni út í bíl. Munaði litlu að stórslys ætti sér stað. Aldrei hafa pokar, hvorki frá Bónus né Krónunni rifnað, sama hvað maður treður í þá, svo hér er klárlega verksmiðjugalli á ferð. Tékkið á því.
Bkv,
Dr. Gunni

Skítlegt viðmót Icelandair

Ég var að bóka mér flug til Evrópu og hugðist nýta mér 25.000 punkta sem ég hafði sankað að mér í gegnum árin. Þá fer ég inná þessa blessuðu Vildarklúbbsíðu þeirra, sem er ein sú ógagnsæjasta sem til er.
Ferðin kostaði 42.000 punkta og það var ekki hægt að setja punktana uppí ferðina.
Þannig að ég kaupi mér 17.000 punkta fyrir 25.500 krónur + 2.000 "millifærslugjald" og panta ferðina í góðri trú um að ég muni nú allavega koma út í hagnaði, þar sem að flugmiðinn kostaði 50.000 krónur.
Þegar ég er búinn að ganga frá pöntuninni fæ ég senda kvittun í pósti þar sem ég er rukkaður um 25.000 krónur, sem eru líklega skattar en hvergi tilgreindir sem slíkir og hvergi kom fram áður en að ég staðfesti pöntunina hversu háir þessir skattar yrðu.
Þannig að ég stend uppi með flugmiða sem er jafn dýr og venjulegur miði en 25.000 punktum fátækari. Þá hringi ég í Icelandair til þess að spyrja út í þessa hluti og þá fæ ég það allra skítlegasta viðmót sem ég hef fengið á allri minni æfi. Kona með hrokafullan tón tjáir mér að hún hefði sko aldrei keypt svona mikið af punktum og að það væri bara heimskulegt. Síðan segir hún að ég hefði vel geta gert mér grein fyrir þessu og svona væri þetta bara.
Nú langaði mig að breyta ferðinni og panta auka miða og hótel, og láta þessar greiðslur ganga uppí. Þá að sjálfsögðu er það ekki hægt, ekki einu sinni að skila þessum punktum sem ég í heimsku minni keypti.
Ég skora á Icelandair að auka gagnsæi í þessu pöntunaferli sínu og birta sundurliðað heildarverð áður en greitt er og leifa fólki að skila þessum blessuðu punktum ef að það hefur keypt þá, því annað er að ég best veit ólöglegt.
Pétur

mánudagur, 7. febrúar 2011

Kókópuffs í 10-11 – minni kassi, sama verð

Er búin að kaupa Kókópuffs soldið mikið undanfarið. Fer alltaf í 10-11 í Engihjalla.
Kókópuffsið var búið svo ég fór útí búð og keypti annan pakka. Ég var ennþá með gamla kassann heima og þá sé ég að Kókópuffsið sem ég var að kaupa er minni kassi. Hann var eitthvað um 650 gr, en er núna orðinn 450 gr. En samt er SAMA VERÐ – 600 kall! Jamm... minnkaðu bara kassann en haltu verðinu – Gott trix!
Stefanía

miðvikudagur, 2. febrúar 2011

Disney matreiðslubókin morandi í villum

Disney matreiðslubókin er uppseld, seldist í 14000 eintökum, ein mest selda bók landsins. Uppskriftirnar eru víst morandi í hvimleiðum villum. Sjá t.d.:

http://er.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=22756543&advtype=52&showAdvid=22756543#m22756543

http://er.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=21957173&advtype=52&showAdvid=21957173#m21957173

Kannski hefur það farið fram hjá mér en ég hef ekki séð þetta koma fram í fjölmiðlum. Skil vel að ekki sé vinnandi vegur að innkalla bókina en það ætti að gefa út nýjar leiðréttar blaðsíður svo fólk geti límt yfir ef það vill. Leiðinlegt ef eldri krakkar eru að elda eftir uppskriftum sem eru dæmdar til að mistakast og halda að þeir séu svona misheppnaðir sjálfir :-S )
Kv,
Bedda

þriðjudagur, 1. febrúar 2011

Hrútspunga-okur

Ég var að versla í dag og rak augun í verð á súrmat og öllu þessu þorra-tengda dóti og fékk sjokk. Sá hrútspunga á 2990 kr/kg. Þarna er greinilega verið að fara yfir strikið. Þessi hefð deyr fljótt ef þetta heldur svona áfram. Þá fæ ég mér frekar hráskinku frá Ítalíu sem kostar sirka 1000 kr meira kílóið, en bragðast töluvert betur en súrsaðir pungar.
Einar