Ég fann mig knúna til þess að koma þessu á framfæri.
Ég kaupi af og til kippu af 2ja lítra gosi í Bónus. Ég hef lent í því að
afgreiðslufólkið notar ekki strikamerkið sem er utan á plastumbúðunum,
heldur rennir strikamerki af flöskunni í skannann og margfaldar með 6. Þá
borgar maður fullt verð fyrir hverja flösku og þá eru það tæpar 1600 kr.
fyrir kippuna. Ef rétta strikamerkingin er notuð, þá fær maður kippuna á
um 998 kr. Ég lenti í þessu núna síðast í dag í Bónus á Selfossi. Afgreiðslustúlkan
skannaði inn flösku og margfaldaði með 6. Ég spurði hana hvort hún ætti
ekki að nota strikamerkið sem væri utan á plastumbúðunum utan um kippuna,
en hún svaraði því að það strikamerki virkaði ekki alltaf og því væri þeim
(starfsfólkinu) sagt að nota bara strikamerki af flöskunni.
Þar sem Íslendingar eiga heimsmet í kókdrykkju, tel ég víst að ansi margir
hafi lent í þessu og borgi því tæpum 600 krónum of mikið fyrir kippuna.
Ég bið því fólk að vera vakandi yfir þessu og passa sig á þessu með
strikamerkin.
Með bestu kveðju,
Björk Konráðsdóttir.