þriðjudagur, 30. mars 2010

Eldgos hækkar bensínverð!




Ég vil koma þeirri ábendingu á framfæri að hin svokallaða samkeppni olíufélaganna er klárlega ekki til staðar.
Nýjasta dæmið um greinilegt verðsamráð er, að eftir að gosið á Fimmvörðuhálsi hófst þá "slokknaði á samkeppninni" á bensínstöðvunum á Suðurlandi, sér í lagi í kringum Selfoss. Þar sem langtum meiri bílaumferð er um svæðið vegna gossins er greinilegt að olíufélögin ætla að maka krókinn vegna aukinnar umferðar á svæðinu.
Þegar bensínverð var borið saman á gsmbensín.is kom í ljós að það var allt í einu nærri 9 krónum dýrara að kaupa bensín og um 10 krónum dýrara að kaupa dísel á Suðurlandi, en fyrir gos var um 5 krónum ódýrara og allt upp í 7 krónum ódýrara að kaupa bensín og dísel á þessu svæði undanfarna mánuði og ár. Hvað hefur breyst annað en umferðarþunginn?
Ég tók skjáskot af þessum verðum svo það sést að hér er ekki um neitt bull að ræða. Ég vona að tekið verði á þessu með viðeigandi hætti (en þar sem hér má allt sem ekki er sérstaklega bannað þá er ég væntanlega enn einn asninn að sóa kílóbætum í vitleysu).
Kv.
Unnar Már

Ódýrarari leikir á Amazon

Ég og félagi minn ákváðum um daginn að fara að fá okkur God of War 3. Í öllum búðum var verðið tæplega 13.500 sem er hið hreinasta og úrkynjaðasta kjaftæði sem við höfum orðið vitni að. Búðir reyndu ekki einu sinni að fara í verðsamkeppni því það munaði ca. 50 kr á milli búða.
Því ákváðum við að sleppa því að kaupa leikinn, fórum á Amazon og þar kostaði leikurinn ca. 10.500 með öllum flutningskostnaði og tollum. Það þýðir að það munar 3000 kr á milli. Svo var nú um daginn að koma nýr leikur (just cause 2) fyrir leikjatölvurnar og Amazon gefur sama verð upp fyrir báða leiki. En Just Cause 2 kostar ca. 11.900 í búðum.
Búðir hafa því hækkað verðið á God of War 3 því hann er einn eftirsóttasti og vinsælasti leikur sem kemur út um þessar mundir.
Ég vil því segja: OKUR!
Takk fyrir,
Vilhjálmur

Dýrt Reykjavíkurapótek

Reykjavíkurapótek á Seljavegi er nýtt apótek sem hefur auglýst lægra lyfjaverð í einkareknu apóteki. Það er hið besta mál.
En það er ekki allt ódýrt þar, Eucerin sjampóflaska er seld á 2.163.
Sama flaska kostar 1.782 í Lyf og heilsa á Eiðistorgi.
Í Apótekaranum á Melhaga kostar hún 1.654.
Fyrir gjaldeyrishörmungarnar kostaði svona flaska um 800 krónur, er búin að kaupa þetta lengi.
Tvöföldun á því verði telst sennilega "eðlileg" í dag.
En svona mikill munur er hreint okur.
Ingibjörg

Vara sig á viktinni í Hagkaup

Fór í Hagkaup í Skeifunni um daginn og það var bæði grænmeti og sælgæti í matarkörfunni. Ég var að flýta mér og dreif mig í gegn með matinn og borgaði. Svo þegar heim var komið leit ég á kvittunina og fannst það óvenjulega dýrt það sem var viktað. Þá tók ég upp viktina og viktaði allt aftur og það var rúmlega 100gr léttari hver einasti hlutur sem ég keypti og var viktaður á viktinni hjá Hagkaup. Þetta telst heldur betur saman og snuðaði Hagkaup mig um 900 krónur!!
Ég hvet fólk til að staðfesta að vörur séu rétt viktaðar og ég skora líka á neytendasamtökin að fara í búðir með rétt stilltar viktir, standa við útgang matvörubúða og leyfa fólki að prufa að vikta sjálft það sem það var að kaupa!
kv
Óska eftir nafnleynd

Dýr ostur á American Style

Ég fór með fjölskylduna á American Style í s.l. viku. Ég pantaði 2 barnahamborgaramáltíðir og bað um að ostur yrði settur á. Fyrir ost á barnaborgara voru rukkaðar heilar 195.-, samtals 390.- kr. fyrir tvo barnaostborgara. Hvernig er þetta réttlætanlegt þegar hægt er að fá ostborgara fyrir 250.- á Metro?
Óskar

Góðfúsleg ábending til Borgarleikhússins

Ég er einn af þeim sem elska að fara í leikhús og finnst Borgarleikhúsið alveg æðislega skemmtilegt leikhús og reyni alltaf að fara á allt sem mig langar að sjá sem er margt.
Eitt sem ég hef samt tekið eftir sem Borgarleikhúsið hefur breytt er að hljóðnemar leikaranna eru ekki lengur í gangi nema bara þegar verið er að syngja. Þetta hefur nú aldrei truflað mig neitt en ég lenti í því að þurfa að sitja alveg á efsta bekk á einni sýningu og þá þurfti ég virkilega að hafa fyrir því að heyra hvað var verið að segja því það er ekki kveikt á micunum nema bara í söng.
Kannski hef ég ekki tekið eftir þessu fyrr en ég er viss um að þetta var ekki svona fyrir einhverju síðan, held að micarnir hafi alltaf verið í gangi að einhverju smá leiti til að dreyfa hljóðinu um salinn þegar verið er að tala en nú virðist það vera hætt. Og nú er ég 22. ára gamall og með fullkomna heyrn svo ekki er það ég sem er að klikka.
En já þetta er góðfúsleg ábending til Borgarleikhúsins. Sjálfur sit ég alltaf það framarlega að þetta hefur aldrei böggað mig en ég tók bara eftir þessu hvað það er óþæginlegt að sitja á aftasta bekk ef maður neyðist til þess.
Hef að öðru leiti ekkert útá þetta frábæra leikhús að setja. Alltaf æðislega gaman að fara þarna og ég geri það oft en að mínu mati þá mætti vera kveikt á micunum í tali eitthvað örlítið þó þeir væru ekki jafn hátt stilltir og þegar verið er að syngja.
Kannski hefur þetta alltaf verið svona og ég bara ekki pælt í því, fór ekki að spá í þessu fyrr en ég þurfti að neyðast til að sitja á aftasta bekk á einni sýningunni sem ég er ekki vanur.
Kveðja,
22. ára gamall Leikhúsgestur

Vondu Heimsferðir

Málið er að í dag las ég grein á mbl.is um hversu vel gengur fyrir Bravo Tours í Danaveldi sem jú er í eigu Heimsferða og datt í hug að kanna verð á sumarferð fyrir okkur.
Við erum 5 manna fjölskylda; Hjón 3 börn 5 ára, 7 ára og 16 ára. Sú 16 ára flokkast sem barn í Danmörku en sem fullorðinn hér. Það er reyndar ekki aðal atriðið. Ég set inn upplýsingar (og sleppi þeirri 16 ára) á síðunni bravotours.dk
Ferð fyrir okkur 4 kostar DKK 16.200 með hálfu fæði á Hotel Las Palmas í 2 vikur með Bravo Tour það samsvarar ca. 388.800 ISK).
Nú set ég sömu forsendur inná heimsferdir.is (sleppi þeirri 16 ára). Þá fæ ég upp verðið ISK 728.000 eða ca. DKK 30.333 á sama hóteli og einnig flogið með Primera air.
Sko ef það er svona rosalega dýrt að reka Heimsferðir hér þá er ég viss um að Bravo Tour gæti alveg annast að taka við greiðslum og svo senda 2-3 flugvélar að pikka okkur Íslendinga upp. Afhverju er Heimsferðir svona vondir við okkur?
Ef þetta er ekki dæmi um okur þá veit ég ekki hvað þetta er!
MBK,
Kristinn Sigurþórsson

fimmtudagur, 25. mars 2010

Bilaður graslaukur

Svo brá við um helgina að dætur mínar buðu okkur foreldrum sínum í mat og voru með kartöfflugratín þar sem graslaukur var notaður. Þær voru í sjokki yfir verðinu á graslauknum en sögðu að hann hefði kostað kr. 400 í Samkaupum, Hrísalundi á Akureyri. Við nánari athugun kom í ljós að um 20 grömm var að ræða og reiknast mér þá til að kílóverðið sé kr. 20.000. Þær langaði mest til að skila vörunni en líkt og með margt ungt fólk í dag gerðu það ekki. Og nú spyr ég, er þetta ekki algjör bilun???
Kveðja, Ingveldur

miðvikudagur, 24. mars 2010

Hælir Jack n Jones

Mig langaði að hæla Jack ´n Jones fyrir að halda vöruverði í lágmarki. Fór um
daginn til að kaupa afmælisgjöf handa kallinum og ætlaði að eyða 10.000 kr í
föt. Bjóst við að koma út með einn bol úr Smáralind en í staðinn kom ég út með
tvo boli og eina peysu fyrir 9.900kr. Það eru ennþá einhverjir sem eru ekki að
drepast úr græðgi.
Kær kveðja,
Þórunn Hjaltadóttir

mánudagur, 22. mars 2010

Dýrt í Snælandi

Fór með strákana mína um daginn og spæsti ís á þá hjá Snæland í Mosó, 1
barnaís trúða í brauði og 1 barna trúða ís í boxi, keypti einni 2
bananabita frá góu, fyrir þetta borgaði ég LITLAR 820 kr...........fannst
þetta frekar dýrt.
kv
Andrea

Glæpsamlegt okur á trjágrein í Hagkaup!

Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar ég var stödd við kassann í Hagkaupum áðan og sá að trjágrein sem ég hafði ætlað að kaupa kostar heilar 1299 krónur. Við erum að tala um smá trjágrein til að hafa í vasa yfir páskana með smá skrauti. Tek það fram að þetta var bara greinin sjálf án alls skrauts sem kostaði 1299 krónur. Að sjálfsögðu snarhætti ég við kaupin. Glæpsamlegt okur.
Mbk, Helga

Bensínverð - netsíða

á m.bensinverd.is getur þú gert verðsamanburð á eldsneyti jafnvel úti í umferðinni.
Þeir sem komast á netið í símanum sínum geta einfaldlega skoðað hvar ódýrasta bensínið/díeslið er því oft er mikill munur innan sama olíufélags.
Þetta er sérlega viðeigandi þegar maður t.d. keyrir frá Seltjarnarnesi í Hafnarfjörð og keyrir framhjá fleiri en einni bensínstöð á leiðinni.
kv,
jp

sunnudagur, 21. mars 2010

Ring - mæli með því að fara yfir notkunina!

Langaði bara til að deila þessu með fólki.
Álpaðist inná ring.is að skoða notkunina mína, þar sem ég skráði mig í ring í síðustu viku og vildi skoða hvernig þetta leit allt saman út.
Rak augun í 15.mars. þar kemur fram 1 símtal (51 sek) í númer sem kemur ekki fram á myndinni sem ég sendi með en er í NOVA og kostaði heilar 570 kr (11 kr/sek)
Svo á ég að vera búinn að senda 17 sms í dag (18.mars), er búinn að senda 2 stk.

Ég hringdi í ring og spurði um þetta og þeir virtust allir af vilja gerðir að reyna að leiðrétta þetta, loksins þegar þeir svöruðu.
Ég veit það bara að ég á eftir að fylgjast vel með notkuninni á síðunni þeirra.

kveðja
Jón Bergmann

p.s. vissirðu að þegar maður er með frelsi hjá ring og kaupir áfyllingu þarf maður að taka það sérstaklega fram að maður vilji RING áfyllingu á (1990 kr) annars fær maður bara venjulegu símaáfyllinguna (2000 kr) þar sem maður hringir ekki frítt innan símakerfisins! Af hverju á maður að vilja venjulega áfyllingu á frelsið (borga fyrir alla sem maður hringir í) ef maður er í ring til að hringja frítt innan kerfi símans. Hvenær VILL maður borga aukalega fyrir að hringja þegar maður þarf þess ekki?!

föstudagur, 19. mars 2010

Bolur hækkar í Hagkaup

Ég fór í Hagkaup í Spönginni og keypti þar herrabol sem kostaði 1990 kr. Þetta var gjöf svo ég reif af verðmiðann en þá kom í ljós undir honum verð 1400 kr. Ég spurði afgreiðslustúlkuna hverju þetta sætti. Svarið var "bolurinn hlýtur að hafa hækkað". Ég hætti við kaupin.
Pirraður viðskiptavinur.

Vínarbrauð hjá Oddi bakara

Fór í Odd bakara á Grensásvegi - 1/2 vínarbrauðslengja sem varla var meira en
eitt lítið vínarbrauð því endinn var með. 300 kall takk, OKUR!

fimmtudagur, 18. mars 2010

Elko stendur ekki við „Verðvernd“

Ég fór í Elko Lindum til að kaupa tölvukapal (Nokia CA-101). Verð á kaplinum er í Elko 3.995kr.. Nákvæmlega sami kapal er til sölu í Símabæ á 1.490kr. Þegar ég benti yfirmanni í Elko á þetta og vildi fá kapalinn á verði samkeppnisaðila - þá segir hann berum orðum að hann ætli ekki að standa við auglýsta verðvernd því að verð Símabæjar væri undir innkaupsverði Elko. Svo fór að ég keypti kapallinn í Símabæ á 1.490kr. - og það er NÁKVÆMLEGA sama varan. Sjá vefslóðir: (Elko / Símabær) Hér er bersýnilega verið að svíkja auglýsta skilmála!
Örvar

miðvikudagur, 17. mars 2010

Tölvuleikurinn ódýrastur í BT

Ég er með smá dæmi um okur.

Ég var að leita að tölvuleik handa lítilli frænku sem heitir "Doppa bregður á
leik". Þetta er leikja og fræðsludiskur fyrir börn. Ég byrjaði á að skoða verðin á
heimasíðum nokkurra fyrirtækja og blöskraði verðið á þessum leik, þar til ég
endaði í BT. Þarna muna 2.000 kr. á hæsta og lægsta verði. Það greinilega
borgar sig að fara á milli staða og skoða verðið.

Apple búðin: 3.990
A4: 3.780
Elko: 3.019
Eymundson: 2.519
BT: 1.990

Kv.
ED

Hrósar Gallabuxnabúðinni

Vill hrósa Gallabuxnabúðinni fyrir góða þjónustu, keypti buxur hjá
þeim á útsölu í jan og var mjög ánægður með þær þar til þær rifnuðu í
klofinu í lok feb. Fór með buxurnar til þeirra og óskaði eftir að láta
laga þær, sem þau gerðu, þegar ég kom að sækja þær buðu þau mér að
skipta og fá nýjar. Ég ákvað samt að fá gömlu buxurnar aftur og gefa
þeim eitt tækifæri í viðbót og var mér boðið að koma aftur og skila
þeim ef þetta gerðist aftur.
Þetta kalla ég góða þjónustu og má kannski bæta við að ég keypti
fyrstu buxur af þeim þegar ég var að byrjaði framhaldsskóla fyrir
rúmlega 11 árum, síðan þá hef ég keypt eitt stk af og til og er þetta í
fyrsta skiptið sem buxur frá þeim rifna hjá mér.
Kveðja,
Hjörtur H.

Drykkir í Borgarleikhúsinu!

Ég skellti mér á FAUST um helgina og var alveg heillaður af verkinu. Það sem stakk mig verulega var þegar ég ætlaði að fá mér drykk í hléinu. Þarna er hægt að fá litlar dósir af gosi sem innihalda að mig minnir 150 ml. þetta eru svona "flugvéladósir". Verðið á þessum dósum var 400 kr sem mér finnst algjört OKUR svo ekki sé meira sagt. Ég ákvað að taka ekki þátt í þessari vitleysu og fékk mér bara vatn.
kv. Örn

Leiga fyrir pósthólf hjá Vodafone

Ég má til með að segja þér frá reikningnum sem ég fékk frá Vodafone í dag:

Mánaðargjald pósthólf á eigið lén kr. 84,-
Útskriftargjald kr. 232,-

Samtals kr. 316,-

-þar af Virðisaukaskattur kr. 64,-

Ég hugsaði með mér að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, virðisaukinn
næstum jafn hár og þjónustan sem ég fæ frá fyrirtækinu og
útskriftargjaldið nær þrefalt verð þjónustu.
Við pöntun á pósthólfinu bað ég um ársreikning, þ.e. greiða árið
fyrirfram. Þegar ég hafði samband við innheimtu Vodafone í dag var mér
boðið að nota kreditkort til að losna við mánaðarlegt útskriftargjald. -
Satt að segja skil ég ekki hvað hangir á spítunni þegar fyrirtækið
hafnar árs fyrirframgreiðslu og telur vænlegra að nota slíkar
mánaðarlegar skuldfærslur ásamt útskriftargjöldum og býður
kortagreiðslur til vara.
Kveðja, Gunnar Geir

þriðjudagur, 16. mars 2010

Verð á skellibólum

Fór í Byggt og Búið í gær í kringlunni og keypti 28 (Plast) skellisbólur frá Tesa á skáphurðir á 735 kr. (sá fyrir mér ca.325 kr) (minnist ekki á verð á öðru eins og Dúkahníf fleiri þúsund), þannig að það er blessuð blíðan...
Takk fyrir síðuna. Guðmundur.

miðvikudagur, 10. mars 2010

Gull í augun

Ég keypti mér augndropa í apóteki upp í Mjódd. Skammturinn er 10 ml. sem er nú
ekki mikið. En glasið kostaði rúmlega 1.800 kr. Og dýr er þá líterinn allur!!!!
Varan er framleidd af Johnson & Johnson er ber enga innihaldslýsingu.
Ég held satt best að segja, að þetta sé bara eymað vatn.
Ella

þriðjudagur, 9. mars 2010

Ómar ánægður með Kvikkfix

Þurfti að láta skipta um bremsuklossa að aftan á bílnum mínum. Er blankur þessa dagana og fór því á stúfana að leita af bestu verðum. Hafði samband við nokkra og endaði hjá KvikkFix í Kópavogi. Góð þjónusta og mjög sanngjarnt verð. Keypti af þeim bremsuklossana og þeir renndu fyrir mig diskana og gengu frá dæminu á meðan ég beið. Nokkuð heppinn að komast fljótt að en ég hringdi á undan mér og þeir kláruðu málið á mjög stuttum tíma. Frábær þjónusta.
Ómar

Verðskrá Íslandspóst hækkar í tilfellum um 72% á nokkrum mánuðum

Ég pantaði mér nýlega hleðslutæki fyrir fartölvuna frá Englandi af E-bay. Hleðslutækið var ekki til hér á landi. Ég er búin að vera að kanna gjaldtöku og þess háttar í kringum svona innflutning þar sem ég ætla að nýta mér þennan verslunarmáta enn frekar.
Ég get séð að engin tollur er af svona vörum sbr. reiknivél tollstjóra: http://www.tollur.is/upload/files/calc_netverslun(20).htm. Hinsvegar er það Íslandspóstur sem makar aldeilis krókinn, með gjaldtöku í hverju horni. Til að tollafgreiða pakka, sem samkvæmt landslögum ber engan toll hafa stjórnendur hjá Íslandspósti búið til alls 9 gjaldtökuflokka sbr. þessi gjaldskrá: http://www.postur.is/desktopdefault.aspx/tabid-123/138_read-187/.
Og ekki nóg með að þeim sé beitt af öllu afli og margir gjaldflokkar geta átt við sömu sendinguna, þá hefur þessi gjaldksrá í sumum tilvikum hækkað um 72 % síðasta hálfa árið sbr. þessi verðskrá frá því síðasta sumar: http://www.postur.is/Portaldata/1/Resources/verdskrar/verdskra_mai_2009_vef.pdf.
Ekki get ég ímyndað mér að kostnaðaraukning af einhverju tagi liggi þarna til grundvallar, þar sem laun eru almennt að lækka og þar sem þessi gjaldtaka kemur til vegna umsýslu starfsmanna og er ekki háð neinum vélbúnaði eða öðrum utanaðkomandi rekstrakostnaði.
Þarna er einokunarfyrirtæki einfaldlega verið að okra á almenningi sem leitast allra leiða við að drýgja heimilistekjur sínar og versla á hagkvæman og lögmætan hátt á netinu.
Með kveðju.
Guðmundur Hrafn Arngrímsson

Ánægður með start tölvuverslun

Það er ekki nóg að láta bara vita um verslanir sem standa sig ílla, það má líka láta vita þegar verslanir eru liðlegar. En þannig er mál með vexti að ég fór í janúar og keypti mér vestern digital 1 TB flakkara í tölvuverslununni start.
Þar sem flakkarar endast nú alveg nokkur ár yfirleitt þá var ég ekkert að missa mig neitt yfir ábyrgðarskirteninu og í kæruleysi týndist það hér heima og gæti allt eins hafa lent óvart í ruslinu bara veit það ekki. Amk finn það hvergi.
En jæja svo gerist það að þessi flakkari bilar rúmlega mánuði eftir kaupin, hættir bara að virka og kemur ekki fram í tölvunni. Ég gerði dauðaleit að ábyrgðarskirteninu en fann það bara ekki og fór ég því í heimabankann minn og prentaði út færsluna fyrir flakkaranum sem sýndi þó amk dagsetningu, verslun og upphæð og fór með diskinn í verslunina ásamt útprentaðri færslunni og var alveg búinn að sjá það fyrir að þetta væri borin von fengi öruglega ekkert fyrst ég væri ekki með sjálfa kvittunina.
En maðurinn í búðinni bara tók mér vel og sagði að þetta væri bara flott mál og tók við disknum og ætlar að kíkja á hann.
Þetta finnst mér til fyrirmyndar þar sem diskurinn kostaði mig alveg um 20 þúsund kall og ég var eiginlega búinn að sjá að þessi 20 þúsund kall væri farinn í vaskinn hratt og öruglega en þá tóku þeir færsluna úr heimabankanum gilda.
Þannig tölvuverslunin Start fær lofið að þessu sinni, ánægður með þá!
G. Ásgeirsson

Ís á 425 kr

ÉG fór í sunnudagsbíltúr með fjölskylduna um daginn, öllum finnst ís úr vél
svaka góður nema einum þannig að við förum alltaf í sjoppu og kaupum ís þar
fyrir hann. Sjoppan sem varð fyrir valinu að þessu sinni er Smári Dalvegi.
Strákurinn var sendur inn með 500kr seðil til að kaupa sér sinn uppáhaldsís,
Lúxus kjörís topp. Þegar hann kom út var hann með 75kr í afgang og reikniði
nú!!! Ísinn er nú varla orðinn það dýr í innkaupum, ekki er hægt að kenna
gengishækkun um í þetta skipi... hvað er eiginlega að?
Þórunn

sunnudagur, 7. mars 2010

Prentvörur opna verslun

Við erum flutt í Skútuvog 1 í Reykjavík og komin með nýtt símanúmer: 553 4000
Við opnuðum Prentvörur.is í ágúst 2009 með það að markmiði að bjóða upp á gæðavöru á lágu verði. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar en snemma kom í ljós að yfir helmingur viðskiptavina okkar vildi sækja vörurnar í Akralindina sem var ekki mjög hentugt verslunarhúsnæði.
Til að bæta aðstöðuna höfum við flutt starfsemina að Skútuvogi 1 í Reykjavík og opnað þar litla verslun sem við vonum að eigi eftir að stækka á næstu mánuðum. Okkar markmið sem endranær er að bjóða gæðavöru á lágu verði og láta alla njóta þess hvort þeir eru stórir eða smáir, landsbyggðin nýtur sömu kjara og höfuðborgarbúar því við fellum niður sendingargjald vegna pantana sem eru yfir 5.000 kr.
Við erum sérfræðingar í innkaupum á gæðavöru á lágu verði og því skilum við til viðskiptavina okkar.
Verið ávallt velkomin í Skútuvoginn!
Bestu kveðjur
Jón Sigurðsson og starfsfólk

Ósátt með Fjörukránna og Víkingahátíðina

Við fjölskyldan höfum verið fastagestir víkingahátíðarinnar í mörg ár og altaf haft gaman af henni. Sumarið 2009 fór ég, systir mín og litla frænka á hátíðina og við vildum borða kvöldmat á staðnum. Ég keypti handa mér og frænku minni stórar franskar á heilar 800kr og skammturinn var minni en venjulegur lítill skamtur! Fæ meiri franskar með hamborgara á hvaða veitingastað sem er og ég sá í hyllingum franskarnar frá Pulsubarnum í hfj við Fjörðinn en þar fær maður risa stóra skamta fyrir lítið verð. Frænka mín pantaði sér kjötsúpu um kvöldið á ca 2000kr, kom í ljós að þetta var smá sletta, aumingja stelpan var glorsoltin eftir matinn en það er hægt að fá sömu súpuna á víkingamarkaðnum um daginn, aðeins minni skamtur á 200kr!! systir mín pantaði pasta með hvítlauksristuðum humar á ca 2500 og viti menn, það var eitt stykki humar! Enda fleirtala ekki tekin framm á matseðli. Pastað var þurrt og bragðvont (tel það nokkuð hart að spara sósuna á svo dýru pasta). Fyrir svona tveimur árum síðan fékk kærastinn minn bbq rif á sama stað og hann gat ekki borðað það, svona 80% bein og rest var fita og hart kjöt og við kærastinn minn erum sammála að hamborgarinn braðast einsog bitið sé í skítuga ull (semsagt keimur af kjötinu). Ég versla aldrei aftur við þessa búllu. Ef maturinn er dýr er bara eins gott að hann bragðist sómasamlega!
Mér finst þetta svo sorglegt, uppáhalds hátíðin mín er dáin, ég elska þennan stað, flottur og sjarmerandi en reksturinn er farinn fjandans til gagnvart kúnnum. Fólk ætti alltaf að hafa eitt í huga þegar það er að versla, ef fyrirtækið gefur skít í kúnnan á kúnninn að gera slíkt hið sama! Ekki kaupa meira og valsa út í hugsunarleysi. Ég hef mælt með þessum stað við túrista í gegnum tíðina en aldrei aftur.
Kveðja, ósátt Víkingahátíðar-unnandi.

miðvikudagur, 3. mars 2010

Mishá verð í viðgerðarþjónustu

Krakkarnir keyrðu yfir klakahröngl og rústuðu pústinu. Pabbi borgar. Fór þá með gömlu Toyotuna á pústverkstæði í Hafnarfirði og fékk símtal um að það myndi kosta 90,000 kr. eða meir. Hvarfakúturinn kostaði um 20.000 kr. Hugsaði með mér að nú borguðu krakkarnir, ég væri búinn að fá nóg, en það gengur ekki sagði konan, þau eru í skóla. Það kom svo í ljós að þetta er svo gömul drusla (1993 módel), að það nægir að setja einfaldan kút, ekki hvarfakút.
Ég bað samt um frest til að íhuga málið. Hringdi í pústþjónustu í Kópavogi, næsta bæ, og þar kostaði þetta ekki 70,000 kr heldur 45,000 kr. Þar græddi ég strax 25.000 kr. Ég skrifaði þetta allt niður og hugsaði með mér, "Hvað ef ég hringi enn annað?" og það gerði ég. Hringdi í Pústverkstæðið Fjöðrina í Dugguvogi sem gerði þetta fyrir 22,600 kr. og ég á reikninginn til sönnunar.
Hvað ef ég hefði hringt á Hvammstanga? .... annars, að öllu gamni slepptu þá virðast ótrúleg verð vera í gangi í viðgerðarþjónustu.
Kveðjur,
Ólafur Sigurðsson

Lifandi tilkynningagjald

Takk fyrir Okursíðuna. Vildi fá að tjá mig aðeins. Útgefandi tímaritsins Lifandi vísinda hringdi í mig og bauð mér tilboð á tveimur tímaritum blaðsins fyrir 490 krónur. Ég tók því, enda ágætis díll. Eftir að hafa fengið blöðin í hendurnar birtist mér hins vegar í heimabankanum mínum reikningur upp á 640 krónur, en þar hafði tilkynningargjaldi upp á 150 kr. verið smurt ofan á, sem ekkert hafði verið minnst á þegar útgefandinn hafði samband við mig.
Kannski ekki há upphæð, en skítlegt samt, ef þú spyrð mig.
Kveðja,
JDK