Sýnir færslur með efnisorðinu Elko. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Elko. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 12. október 2011

Hagkaup bakar Elko

Hagkaup er að baka þessa verðvend hjá Elko hvað varðar gamla ps3 leiki og bluray myndir. Til dæmis PS3: Motorstorm Apocalypse 4.999 í Elko og 4.299 í Hagkaup. Síðan eru dæmi um það að myndir sem kosta bara 1.500 í Hagkaup kosti 3.200 í Elko.
Kv; Vilhjálmur

laugardagur, 6. ágúst 2011

Dorma og Elko - Góðir viðskiptahættir

Langar að vekja athygli á góðum viðskiptaháttum hjá Dorma og Elko. Keypti mér heilsukodda í Dorma í Holtagörðum. Vaknaði ítrekað með verk í öxlunum svo ég fékk að prófa annan kodda. Þegar hann virkaði ekki heldur fór ég og fékk endurgreitt upp í topp. Verri búðir hefðu án efa neytt mig til að fá inneignarnótu svo þetta er til fyrirmyndar hjá Dorma.

Sansa Mp3-spilari sem ég keypti hjá Elko í fyrra hætti að virka. Ég gúgglaði vandamálið og komst að því að það var ekkert sem ég gat gert í málinu. Elko tók við spilaranum án þess að yfirheyra mig. Þetta var svo ódýr vara (8000 kall) að það "tók því ekki að gera við hann" og ég fékk bara nýjan, enda spilarinn enn í ábyrgð. Þar sem ekki var til 2gb spilari eins og ég átti fékk ég 4gb í staðinn og þurfti ekkert að borga á milli. Gríðarlegt win/win sem sé.

Svona eiga búðir að vera!

Dr. Gunni

mánudagur, 3. maí 2010

Elko okra á minniskorti

Ég ákvað að leita mér að minniskorti af gerðinni MemoryStick Pro Duo. Sony er upprunalegi framleiðandinn og þ.a.l. dýrari en hinir sem kannski eðlilegt er.

Ég fann hjá ELKO 8GB útgáfu frá Sony á 19.995 ISK (eða 20.000 kall – 5 kall). Fannst mér þetta í dýrari kantinum svo ég ákvað að kíkja á norska síðu sem ég verslaði af þegar ég bjó þar. Fann ég nákvæmlega sama kortið á 362 NOK eða miðað við gengi dagsins, ca 8.000 ISK. Ég hélt nú áfram að reikna mig fram og fann út að það var ódýrara að kaupa af þeim í Noregi, senda það hingað, borga toll og Vask ofan á verðið frá noregi sem er líka með vask. Ef ELKO hefur ekki slysast til að smella 1 fyrir framan verðið, þ.e.a.s. að verðið á að vera 9.995 þá er þetta skólabókardæmi um okur, græðgi og hvernig fyrirtæki í „Samkeppni“ velta misheppnuðu fjárfestingum og rekstrartapi yfir á neytandann.

Heimild:
ELKO lnkur

PS Data linkur

fimmtudagur, 18. mars 2010

Elko stendur ekki við „Verðvernd“

Ég fór í Elko Lindum til að kaupa tölvukapal (Nokia CA-101). Verð á kaplinum er í Elko 3.995kr.. Nákvæmlega sami kapal er til sölu í Símabæ á 1.490kr. Þegar ég benti yfirmanni í Elko á þetta og vildi fá kapalinn á verði samkeppnisaðila - þá segir hann berum orðum að hann ætli ekki að standa við auglýsta verðvernd því að verð Símabæjar væri undir innkaupsverði Elko. Svo fór að ég keypti kapallinn í Símabæ á 1.490kr. - og það er NÁKVÆMLEGA sama varan. Sjá vefslóðir: (Elko / Símabær) Hér er bersýnilega verið að svíkja auglýsta skilmála!
Örvar

laugardagur, 9. janúar 2010

Sjónhverfingar í Elko

Ég var staddur í Elko 30 Des. og var að skoða dvd spilara, rak þá augun samskonar dvd spilara og mamma mín hafði keypt í byrjun Des. Þá kostaði spilarinn kr. 7990. Þegar ég var í búðinni kostaði hann 30 Des. kr. 9990. Sami dvd spilari var síðan á útsölu eftir áramót með 20% afslætti á 7990. Þetta tel ég vera dæmi um sjóhverfingar, þarna er verið að hækka vöruna til að geta veitt háan afslátt.
Kveðja,
Ívar

mánudagur, 7. desember 2009

Viðgerðarvesen

Datt í hug að senda línu með smá pælingu. Þannig er mál að ég keypti
Phillips heimabíó seint á síðasta ári í Elko. Dvd spilarinn sem fylgdi
virkaði vel þangað til einn daginn fór hann að sýna allt í bleiku. Þannig
gekk þetta öðru hverju, bleik mynd en þess á milli var allt í lagi. Einn
daginn fór það svo alveg og ég hætti að fá nokkra mynd. Prófaði allt sem
mér datt í hug, skipti á milli HDMI tengja í sjónvarpinu og notaði meira
að segja mismunandi snúrur. Allt kom fyrir ekki, alveg sama hvað ég gerði
það kom bara ekki mynd.
Ég ákvað því að fara í Elko enda tækið enn í ábyrgð og fá það lagað. Ég
lýsti biluninni vel fyrir þeim sem tók niður lýsingu. Gat þess meðal
annars að ég væri með tengda ps3 tölvu við sjónvarpið og ef ég færði snúru
úr tölvunni yfir í spilarann kæmi engin mynd en ef ég setti hana aftur í
tölvuna þá væri allt OK. Því hlyti þetta að vera dvd spilarinn.
10 dögum seinna fæ ég hringingu. Spilarinn er kominn aftur og Öreind,
fyrirtækið sem sér um allar viðgerðir segir að það sé í fínu lagi með
allt. Engin bilun. Ég rukkaður um 3550 krónur fyrir viðvikið. Með tækinu
fylgdi frá þeim orðsending um að trúlega væri þetta stillingaatriði sem ég
væri að klúðra, ég breytti engum stillingum, einn daginn hætti tækið bara
að virka. Ég kem allavega heim og set í samband nákvæmlega eins og það var
10 dögum fyrr og hvað helduru, allt virkar!
Mín pæling er sú. Öreind segir að ekkert sé að og nær sér í 3550 krónur í
skoðunargjald. 3550 krónur rukkast fyrir 30 mínútna vinnu, gjaldskrá tekur
fram að möguleiki sé á 15 mínútum og rukkast fyrir þær einhverjar tæpar
2000 krónur. Ef tækið var í lagi þá tók ekki nema 2 mínútur að stinga því
í samband og sjá það. 15 mín því eðlilegri tími. En síðar, hugsanlega um
mánaðarmót þá senda þeir reikninga fyrir viðgerðum til Elkó og fá greitt
fyrir stykkið sem þeir skipta um ásamt vinnutíma starfsmanns. Þetta er
allavega mjög skrítið, ég fór með tæki sem virkaði ekki en fæ það til baka
í góðu lagi, þarf engu að síður að greiða þar sem það var jú í lagi –
segja þeir.
Vona að þú sjáir þér fært að birta þetta, væri gaman að fá viðbrögð og sjá
hvort fleiri hafi lent í svipuðu. Annars hrósa ég þér fyrir að halda úti
þessari síðu, áhugaverð lesning í hvert skipti.
Bestu kveðjur,
E.K.

mánudagur, 28. september 2009

Fríhöfnin stendur ekki undir nafni

Mig langar að koma á framfæri að ekki er allt sem sýnist með að vörur sem seldar eru í Leifsstöð í Duty Free við komu til landsins séu ódýrari en í verslunum ELKO og ætti fólk að athuga verðlag í ELKO ef það ætlar að kaupa eitthvað við komu til landsins áður en það fer til að bera saman.
Ég var að koma til landsins aðfaranótt fimmtudags og var að spá í þráðlausan síma að Panasonic gerð og spurði afgreiðslumanninn hvort þetta væri eitthvað ódýrara en út úr búð í borginni og hann svaraði að það ætti allavega að vera skattinum ódýrara svo ég keypti símann á 10.999,- kr.
Viti menn þegar ég kom heim rak ég augun í ELKO blað og þar var nákvæmlega sami síminn auglýstur á 9.995,- kr. eða 1004 krónum ódýrari. Miðað við þetta verð hefði síminn ekki átt að kosta meira en 8.028,- kr. í Fríhöfninni.
Það borgar sig að athuga verð í verslun ELKO áður enn maður fer og hefur í huga að versla tæki í fríhöfninni.
Fríhöfnin virðist ekki standa undir nafni sem fríföfn!!
Virðingarfyllst,
Reynir Björnsson

fimmtudagur, 24. september 2009

Óeðlilegir viðskiptahættir stundaðir í ELKO

Mig langar til að benda á eftirfarandi:
Fór í dag í ELKO og var ákveðinn í að kaupa tilboðs tæki sem heitir, Thomson 32'' LCD sjónvarp 32N90NH22N á kr. 99.995, var reyndar að kaupa það fyrir föður minn sem er á níræðisaldri.
Samkvæmt heimasíðunni hjá þeim átti þetta tæki að vera með svokölluðum DVB-T móttakara (stafrænn móttakari til móttöku á RUV og RUV+ ásamt fleiri stöðvum)
Þegar á svæðið var komið, tilkynnti sölumaðurinn mér það að betra væri að kaupa næsta tæki við hliðina á þessu Toshiba 32'' LCD sjónvarp 32AV635DN á kr. 119.995, þar sem það væri með DVB-T móttakara en hitt ekki.
HALLÓ sagði ég, er þetta allt saman tóm vitleysa sem stendur á heimsíðunni hjá ykkur, hann sagði þá strax að þar væri prentvilla. Ok, en hvað með þær upplýsingar sem standa á tækjalýsingunni undir tækinu á sölustað (ELKO í Skógarlind 2), þar voru nefnilega sömu upplýsingar. Það var það sama þar, prentvilla að hans sögn.
Jæja sagði ég. Ég er þá tilneyddur til að kaupa dýrara tækið sem er með DVB-T móttakara (faðir minn ætlaði að kaupa ódýrara tækið eingöngu vegna DVB-T móttakarans), það munar jú um 20.000 krónur, sem er bara töluverður peningur fyrir ellilífeyrisþega.
Var svo í kjölfarið hundfúll og svekktur yfir þessum svikum.
Fór þó við kassann og borgaði dýrara tækið. Á meðan ég beið eftir afgreiðslu greip ég nýjasta sölubæklinginn frá ELKO sem kom út í gær (21.09.2009). Þar var þetta sama Thomson tæki á forsíðunni, og viti menn þar var tækið einnig auglýst með stafrænum móttakara (DVB-T).
Þá fór ég nú til baka inn í verslunina og talaði við annan starfsmann, hann tjáði mér að Thomson tækin væru ekki með stafrænum móttakara, punktur.
Spurði ég hann þá um hverskonar sölubrellur þessir menn hjá ELKO stunduðu. Hann talaði um að þarna hefðu átt sér stað mannleg mistök.
Mannleg mistök, prentvillur og aftur prentvillur, þvílíkt og annað eins.....
Þeir hjá ELKO fá fólk til að mæta á svæðið í góðri trú um að hægt sé að kaupa ódýr sjónvörp með stafrænum móttökurum. Sem síðan er, þegar á hólminn er komið bull og vitleysa, svindl og svínarí. Og því miður er þetta ekki einangrað dæmi, hef heyrt af mörgum sambærilegum sögum.
Þessa menn á að kæra fyrir óheiðarlega og ólöglega viðskiptahætti. Og svo á að sekta þá almennilega. Þeir læra ekki fyrr en þeir þurfa að opna budduna. Einnig vona ég að þeir fari að stunda heiðarlega sölumennsku.
Einn svikinn,
Sigurður Rafnsson
Reykjavík

miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Okur í Elko

Sama uppþvottavélin í sömu keðjunni (Bosh uppþvottavél SGU54E08SK):

Ísland :
http://www.elko.is/elko/product_detail/?ec_item_16_searchparam4=guid=6e9c4caf-b2c2-4049-a8a2-388e3fe4cd5c&product_category_id=1725&ew_10_p_id=40765&ec_item_14_searchparam5=serial=SGU54E08SK&ec_item_12_searchparam1=categoryid=1725&serial=SGU54E08SK&ew_13_p_id=40765&

Svíþjóð :
http://www.elgiganten.se/product/vitvaror/diskmaskiner/SGU54E08SK/bosch-diskmaskin-toppklassad?Selected=Accessories#tProductTabcontent

Verð á Íslandi er ISK 134.995
Verð í Svíþjóð er SEK 3.990 sem er ISK 72.350

Sama keðja en verðmunurinn er 86%

Fjandi mikið í flutningskostnað... Gæti verið að smásalan á Íslandi sé
(aldrei þessu vant) að taka neytendur sína í óæðri endann?

Bestu kveðjur
Neytandi

laugardagur, 1. ágúst 2009

Farsímamál

Get ekki orða bundist. Dóttir mín 14 ára safnaði sér fyrir fyrsta farsímanum sem keyptur var í Elko um miðjan apríl s.l. Nokia 2630 nánar tiltekið sem kostaði þá 12.495 . Auka trygging var afþökkuð því starfsfólk gat litla grein gert fyrir því í hverju hún fælist. í dag rúmum þrem mánuðum seinna þegar dóttir mín tekur símann upp úr vasanum á gallabuxunum sínum kemur engin mynd á skjáinn. Hann er dauður. Við af stað til Elko, síminn en í ábyrgð en nei!! Nákvæmlega þetta er ekki ábyrgðarmál, síminn þolir ekki þann þrýsting að vera í gallabuxnavasa né heldur mikinn mun á hita og kulda. Ef ég hefði nú tekið aukatryggingu hefði hún líklega greitt þetta , þó ekki alveg klárt.!! Mér þykir þetta afspyrnu léleg þjónusta. Að okkur sé t.d. ekki gert grein fyrir að um sé að ræða "einnota" síma og leiðbeint við kaup. Við veltum þessum málum fyrir okkur í amk. klukkutíma óg enduðum á að kaupa þennan síma. Stelpan var mikið sár
Geirþrúður