fimmtudagur, 29. september 2011

Garðsapótek oftast ódýrast

Garðsapótek við Sogaveg var oftast með lægsta verðið á lausasölulyfjum þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í apótekum landsins mánudaginn 26. september. Árbæjarapótek Hraunbæ var hins vegar oftast með hæsta verðið í könnuninni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Þar kemur fram að verðmunur á lausasölulyfjum hafi verið frá 23% upp í 93%, en í flestum tilvikum var munur á hæsta og lægsta verði 30 til 60%.

Kannað var verð á 36 algengum lausasölulyfjum, sem eru seld án lyfseðils. Farið var í apótek víðsvegar á landinu en Ólafsvíkurapótek neitaði þátttöku í könnuninni. Lægsta verðið var oftast að finna hjá Garðsapóteki Sogavegi eða í 20 tilvikum af 36. Hæsta verðið var oftast hjá Árbæjarapóteki Hraunbæ sem reyndist dýrast í 20 tilvikum af 36.

Mesti verðmunurinn í könnuninni að þessu sinni var á verkjalyfinu Panodil (500 mg. 30 stk.) var það dýrast á 654 kr. hjá Austurbæjarapóteki Ögurhvarfi og ódýrast á 339 kr. hjá Apótekinu á Akureyri, sem er 315 kr. verðmunur eða 93%. Forðatöflurnar Duroferon (100 mg. 100 stk.) voru dýrastar á 931 kr. hjá Lyf og heilsu Reykjanesbæ en ódýrastar á 490 kr. hjá Garðsapóteki Sogavegi sem er 90% verðmunur. Rennie töflur fyrir bakflæði (96 stk. í pakka) voru dýrastar á 2.332 kr. hjá Lyf og heilsu en ódýrastar á 1.289 kr. hjá Garðsapóteki sem er 81% verðmunur.

Af öðrum algengum lausasölulyfjum má nefna að nikótínlyfið Nicorette fruitmint í 210 stk. pakkningu var dýrast á 5.415 kr. hjá Lyf og heilsu Reykjanesbæ og ódýrast á 4.390 kr. hjá Lyfjaborg Borgartúni sem er 1.025 kr. verðmunur eða 23%. Frunsukremið Vectavir var dýrast á 1.802 kr. hjá Árbæjarapóteki Hraunbæ og ódýrast á 1.240 kr. hjá Garðsapóteki Sogavegi sem var 45% verðmunur.

Birtist fyrst í DV.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli