föstudagur, 28. október 2011

Matarkarfan – 10 árum síðar

Þá nagandi tilfinningu kannast eflaust flestir við að allt hafi hækkað mikið á síðustu misserum og þá ekki síst matvörur. Þann 20. nóvember árið 2001 birti DV verðkönnun á hinni týpísku matarkörfu. Að vanda var karfan ódýrust í Bónus. Í vikunni athugaði ég verð á sömu 19 vöruflokkum og DV athugaði árið 2001. Reyndar athugaði DV líka verðið á Frigg Maraþon þvottaefni, en ég fann það ekki í Bónus núna. Þá var hálfs lítra Appelsínið í dós árið 2001 en í plastflösku árið 2011. Að öðru leiti var allt eins.



Allt hefur hækkað
Eins og við var að búast hefur allt hækkað á þessum tíu árum. Um er að ræða 68.7 prósent hækkun á heildar körfunni. Mest hefur hveiti hækkað, um heil 285.7 prósent. Púðursykur, lyftiduft og Toro sósa hefur hækkað mikið og kaffið líka, um 88.5 prósent.
Eitthvað má skýra hækkunina með genginu – og þó. Í nóvember 2001 var gengi erlendra gjaldmiðla nefnilega frekar hátt: Einn dollari var á 110 kr. (er 114 kr. í dag) og eitt pund á 156 kr. (er á 183 kr. í dag). Evran var reyndar lág, ein Evra var á 97 kr., en er á 159 kr. í dag. Á næstu tíu árum fóru allir þessir gjaldmiðlar í hressilega rússibanaferð upp og niður – lægst fór dollarinn í 58.5 kr., en hæst í 148 kr.– þökk sé hinni ofursveigjanlegu íslensku krónu.
Heimsmarkaðsverð á flestum vörutegundum – þá sérstaklega hveiti – hefur einnig hækkað ofboðslega á þessum tíu árum.

Við höfum það betra – ef við höfum vinnu
Þessi hækkun á matarkörfunni upp á 68.7% er þó ekki eins hræðileg og halda mætti, því á móti kemur að laun hafa hækkað mikið á þessum tíu árum – hvort sem þú trúir því eða ekki. Hagstofan heldur utan um launaþróunina. Miðað við þeirra útreikninga hefur launavísitalan hækkað um heil 109.1% frá nóvember 2001 til september 2011. Árið 2001 voru meðallaun landsmanna 202.000 kr., en árið 2010 (sem er nýjasta árið sem Hagstofan gefur upp) voru meðallaunin 381.000 kr. Þetta er hækkun upp á 88.6%, en eins og áður segir hækkaði matarkarfan um 68.7% – hér munar 20%.
Niðurstaðan er því þessi: Við höfum það aðeins betur. Það er aðeins ódýrara að kaupa í matinn hlutfallslega miðað við laun, en árið 2001.
Eitt má þó ekki gleymast. Atvinnuleysi að jafnaði á mánuði árið 2001 var 1.4%, en var 6.6% í september 2011.

Talsmaður neytenda slær varnagla
Ég bar niðurstöðurnar undir Gísla Tryggvason, Talsmann neytanda.
„Þetta er athyglisverður samanburður,“ segir hann. „Ef útreikningarnir eru réttir hefur hlutfall svona matarkörfu af útgjöldum neytenda vissulega lækkað, en á sama tíma hefur kostnaður við umfangsmikla liði á borð við húsnæði og bifreið stóraukist eins og fleiri stórir liðir, m.a. símakostnaður.
Gísli slær stóran varnagla um þá niðurstöðu að það sé aðeins ódýrara að kaupa í matinn nú en fyrir 10 árum, miðað við launaþróun.
„Hvað sem matarkörfunni líður þá held ég að sú ályktun sé ekki rétt almennt,“ segir hann. „Við þurfum að lifa sjálfbært í þeim skilningi að væntanlegar lífskjarabætur eigi innistæðu en séu ekki teknar að láni, hvað þá okurláni. Fyrri hluta 10 ára tímabilsins varð mikil – fölsk – lífskjaraaukning, sem svo hrundi. Nú er greiðslubyrði þeirra sem skulda, t.d. húsnæðis- og bifreiðalán, mun hærri að jafnaði. Fjármagnskostnaður er sennilega sá kostnaðarliður sem gefur mest sóknarfæri fyrir íslenska neytendur, ef svo má segja.“

Dr. Gunni - Birtist fyrst í Fréttatímanum, 28.10.2011

4 ummæli:

  1. Góð samantekt Herra Dr. ofur Gunni, bestu þakkir.
    Ég er svo alveg sammála Talsmanni neytenda, útgjaldaliðir húsnæðis ættu að vera í þessum samanburði svo hömlulaus græðgi fjármálafyrirtækjana blasi við. Erlendu vogunarsjóðirnir fá sitt með dyggum stuðningi 63 kjörinna niðri við Austurvöll.

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus#1

    Er það fjármálafyrirtækjunum að kenna að við erum með dauða krónu og verðbólgu í kringum 1980 sem þurfti að hemja með því að setja verðtrygginguna á ?

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus#2

    Þú svarar eigin spurningu; Fjármálafyrirtækin fengu verðtrygginguna, neytendur ekki. Græðgin sér um sig sjálf.

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus #3

    Já auðvitað til þess að hægt væri að bjóða upp á lán á viðunandi kjörum. Áður þurftu vextirnir að vera 40,50,60% allt eftir því hversu mikil verðbólgan var.

    SvaraEyða