mánudagur, 16. mars 2009

Illa verðmerkt í Skífunni

Ég var á leiðini til útlanda í morgun og kom við í Skífunni Leifsstöð og var að
athuga hvort þær væri hægt að finna ódýra tónlist. Í einni hillu voru íslenskir
diskar. Þeir sem voru verðmerktir, sem þeir voru reyndar flestir, kostuðu innan
við 2000 krónur. Svo sá ég disk sem ég var spenntur fyrir, nýja disinn með
Emilíu Torrini. Ég gerði ráð fyrir að hann kostaði eitthvað svipað en ákvað þó
að spyrja afgreiðslumanninn. Hann svaraði um hæl 2790 krónur. Ég horfði framan
í manninn og það fór um mig þessi séríslenski aulahrollur því hvorugur okkar
var greinilega búinn að ákveða hver væri aulinn í þessu tilviki. Svo ég leit
undan og forðaði mér út úr búðinni. Einhverra hluta læddist að mér sá grunur að
hér væri verið að leika gamlan leik (ekki síst vegna þess að í sömu hillu var
annar óverðmerktur diskur, nýi diskurinn með Mugison) Að stilla dýru vörunni
óverðmerktri upp við hliðina á ódýrari vörum í þeirri von að kúnninn haldi að
hún sé ódýrari og fatti það ekki fyrr en hann er búinn að borga og nenni ekki
að rexa þegar kortið er komið í gegn. Enda er hann alveg að fara að missa af
flugvél. Það virðist vera einhver skemmtilegur leikur hjá bissnesfólki að hafa
engar eða villandi verðmekingar á vörum og þjónustu. Kannski það sé skýringin
hve margir eru illa staddir í dag. Menn hafa einfaldlega ekki séð neinn
verðmiða en látið samt vaða og fattað fyrst seinna hvað þeir eru að borga.
Hvort sem það eru diskar, matur, hlutabréf, húsnæðislán eða eitthvað annað. Ég
sé mest eftir að hafa ekki tekið mynd af hillunni. En einhverra hluta vegna
kæmi mér ekki á óvart að merkingarnar yrðu enþá svona næst þegar þú eða einhver
sem þú þekkir færi um Leifsstöð. Ég skora á þig að kanna það mál.
Kveðjur,
Steinn Kristjánsson

1 ummæli:

  1. Maður á að sjálfsögðu að versla íslenska tónlist en ekki stela henni. En ekki borga of mikið fyrir. Ég mæli með tónlist.is þar er þessi diskur á 1290kr. og hefur verið frá því að hann kom út. Þetta er algengt verð fyrir nýja íslenska tónlist. Eru hvort eð er ekki allir með ipod í dag?

    SvaraEyða