sunnudagur, 15. mars 2009

Rakaskemmdir eða bara ónýtt batterí?

Mig langar að koma með smá sögu.
Þannig er að ég kaupi mér síma, Sony Ericsson fyrir um 51 þúsund krónur. 9
mánuðum síðar bilar þessi sími. Ef ég lagði hann frá mér þá dó hann þ.e
slökknaði á honum. Ég fer með hann til söluaðila sem er Vodafone. Þar
benda menn mér á að leita beint til umboðsaðila Sony Ericsson sem er
Tækjavörur. Þar er tekið við símanum og spurt hvað sé að honum. Að því
loknu er tekið niður nafn og símanúmer. 3 dögum síðar er hringt í mig frá
Tækjavörum og mér sagt að síminn minn sé ónýtur. Nú spyr ég? Já sko það
eru rakaskemmdir í honum, það borgar sig ekki að gera við hann. Já okei.
Ég fór og náði í símann. Nú voru góð ráð dýr. Þá kíkti ég á síðuna þína og
sá auglýsingu frá Símabæ. Ég fór þangað með símann minn í viðgerð. Kallinn
í Símabæ var að hringja í mig og segja mér að batteríið væri ónýtt. Það
væri hinssvegar ekki til í honum rakaskemmd. Samkvæmt honum þá er
ársábyrgð á batteríinu og í rauninni eiga Tækjavörur að bæta mér
batteríið.
En ef ég vildi nýtt batterí þá væri það minnsta mál að setja það í. Það
kostaði mig litlar 3.900 krónur.
Nú er ég að pæla ætti ég að fara niður í Tækavörur og benda þeim á þessa
greiningu og heimta nýtt batterí eða ætti ég að punga út 3.900 krónum og
láta þar við sitja? Hvað finnst lesendum?
Svo væri gaman að fá svar frá starfsmönnum/eigendum Tækjavara. Af hverju
var mér ekki bent á það að rafhlaðan væri ónýt þegar ég náði í símann? Af
hverju var greiningin sú sama og þegar ég kom síðast með síma til þeirra í
viðgerð "rakaskemmdur" þó það væri ekki um rakaskemmd að ræða?

Nafnleynd

12 ummæli:

  1. umboðsaðili sony ericsson heitir tæknivörur ekki tækjavörur!

    SvaraEyða
  2. Þessar rakaskemmdir eru soldið sérstakar.
    Þær eru áætlaðar með þessu:

    http://www.engadgetmobile.com/2006/10/18/cellphone-water-detection-sticker-haphazardly-voids-warranties/

    En eins og þessi grein segir, þá fer tvennum sögum af gildi og áreiðanleika þeirra. Of mikið af símum eru bara afskrifaðir strax sem rakaskemmdir ef þessir blettir eru rauðir þegar síminn er opnaður.

    SvaraEyða
  3. ÖLL þau skipti sem ég eða aðrir fjölskyldumeðlimir höfum farið með síma í viðgerð hefur ALLTAF komið í ljós að það sé rakaskemmd í símanum og hann því ekki í ábyrgð.... á erfitt með að trúa því að þetta sé málið, held að þetta sé frekar auðveld lausn hjá símafyrirtækjunum til að sleppa við ábyrgðarhlutann!

    SvaraEyða
  4. ég fór með síma í viðgerð hjá símanum og bjóst einmitt við að fá greininguna "rakaskemmdir". en ég fékk hann úr viðgerð heilann. Það var eitthvað stykki brotið sem olli því að það heyrðist ekki í honum þegar hann hringdi.
    En ég verð að viðurkenna það að ég var mjög hissa en ánægð að ekki hafi verið um "rakaskemmdir" að ræða. Síminn var í ábyrgð og fékk ég viðgerðina því fría

    SvaraEyða
  5. Langar til þess að setja þessa grein inn, en hún er fengin af láni frá Hátækni.

    Þetta er algeng spurning hjá viðskiptavinum þjónustuverkstæðis Hátækni. Í þessari grein er leitast við að svara henni eins vel og kostur er.
    Almennt um raka- vatns og höggskemmdir

    Sími getur bilað á margan hátt, en ein algengasta bilunin er af völdum raka. Vatn er versti óvinur rafmagnstækja, því vatnið leiðir straum og orsakar tæringu. Rakaskemmdir geta komið til af fjölmörgum ástæðum, lítum á nokkur algeng dæmi:


    Þú missir síminn beint í vatn, geymir hann í vasanum á úlpunni eða í vasanum á golfkerrunni (það rigndi jú, en hver man eftir því í hita leikssins). Síminn hefur verið notaður á mjög köldum eða mjög heitum stað (saggamyndun), barnið þitt fær símann lánaðan og nagar hann örlítið, þú lánar símann og hann blotnar óvart, sá sem fékk hann lánaðan er kannski ekkert að segja þér frá því af því símann virkar fínt, en hvað gerist eftir tvær vikur?
    Bilunin kemur smátt og smátt í ljós

    Eins og áður sagði eru óteljandi ástæður fyrir því að síminn skemmist af völdum raka, og oft tekur maður ekki eftir því þegar það gerist og síminn virkar fínt til að byrja með. Nokkrum dögum, vikum eða mánuðum seinna hættir hann að virka. Þú ferð með símann á verkstæði og færð þær fréttir að síminn sé rakaskemmdur og þar með dottinn úr verksmiðjuábyrgð. Rakaskemmd getur verið lengi að koma í ljós. Rafrásir tærast smátt og smátt og bilunin gerir vart við sig. Tæringin sjálf er rakadræg og vex þannig að sjálfu sér, ekki ósvipað því hvernig t.d. bíll ryðgar.
    En hvernig gerðist þetta?

    Algeng spurning sem við fáum frá viðskiptavinum okkar er "hvernig gerðist þetta?", eða "hvers vegna er síminn rakaskemmdur?" Viðgerðarmenn á farsímaverkstæði geta ekki sagt nákvæmlega til um hvers vegna sími er rakaskemmdur, á sama hátt og viðgerðarmaður á réttingaverkstæði getur ekki sagt til um hvernig bíllinn beyglaðist. Það eina sem við getum staðfest er að skaðinn er skeður.


    Oft fáum við þau svör frá viðskiptavinum okkar þegar við færum þeim slæmu fréttirnar að það sé einfaldlega ekki mögulegt að síminn sé rakaskemmdur, þrátt fyrir að skemmdin komi greinilega í ljós við skoðun.


    Farsímar eru einfaldlega notaðir þannig að það er mjög erfitt að halda slíku fram, þó síminn fylgi þér hvert sem þú ferð,inni sem úti, þá ertu yfirleitt ekki með auga á honum 24 tíma á sólarhring.
    Hvers vegna engin ábyrgð á rakaskemmdum síma?

    Ábyrgðin gildir fyrir verksmiðjugalla. Skemmdir vegna utanaðkomandi ástæðna, eins og vegna höggs eða raka eru ekki innifaldar í verksmiðjuábyrgðinni. Allir venjulegir farsímar eru einfaldlega ekki byggðir til að þola raka, til þess þyrftu þeir að vera töluvert stærri og dýrari.
    Græðir þjónustuverkstæðið á því að síminn er rakaskemmdur?

    Því miður halda sumir að þjónustuverkstæðið segi að síminn sé rakaskemmdur þó að hann sé það ekki, kannski til að geta rukkað meira. Þetta er alrangt. Martröð viðgerðarmannsins er sú að opna síma og uppgötva að hann er skemmdur af völdum raka. Það er erfitt og oft ekki hægt að gera við símann, hann þarf að eyða dýrmætum tíma í að útskýra vandamálið fyrir viðskiptavininum, sem kannski trúir honum ekki og bregst hinn versti við. Ef viðskiptavinurinn ákveður að reyna ekki viðgerð situr verkstæðið uppi með ónýtan síma og fær ekkert greitt fyrir sína vinnu. Nei, lífið er mikið auðveldara ef síminn reynist ekki vera vatnsskemmdur, þá rukkar verkstæðið framleiðandann ef síminn er í ábyrgð, eða viðskiptavininn ef hann er það ekki og allir eru ánægðir.
    Að gera við rakaskemmdan síma.

    Stundum er hægt að gera við vatnsskemmdan síma og stundum ekki. Bilunin getur verið mjög flókin og erfitt að finna hana. Þótt síminn sé hreinsaður upp geta leynst tæringar sem með tímanum éta sig inn í prentplötur og íhluti. Svo erfitt er að gera við vatnsskemmda síma að almenna reglan er sú að það er ekki gert. Áhættan felst aðallega í því að þrátt fyrir að gert sé við allar sjáanlegar bilanir geta leynst tæringar á stöðum þar sem ekki er hægt að sjá þær. Þessar tæringar geta síðan valdið bilunum seinna meir, eftir 1 dag, 1 mánuð eða jafnvel 1 ár. Vilji eigandinn taka þessa áhættu og reyna viðgerð gerir hann það á eigin ábyrgð og þarf að fylla út eyðublað því til staðfestu. Sama á við um höggskemmdir.
    Höggskemmdir

    Höggskemmdir og rakaskemmdir eru á margan hátt svipaðar. Bilun getur komið í ljós mörgum mánuðum eftir að síminn verður fyrir höggi. Plastefnin sem notuð eru utan um síma í dag eru mjög sterkt og eftirgefanleg þannig að oft sér ekkert á símanum þegar hann er skoðaður að utan, þrátt fyrir að afleiðingar falls séu greinilegar þegar síminn er opnaður. Þegar sími verður fyrir höggskemmdum geta komið sprungur í íhluti eða lóðningar. Þegar loft kemst inn í lóðninguna byrjar hún smátt og smátt að tærast. Bilunin kemur því ekki strax í ljós, og síminn verður viðkvæmari fyrir frekari áföllum.
    Aldurskvillar

    Bilanir koma til af fleiru en af völdum raka eða höggskemmda. Íhlutir eldast misvel og hætta að virka eða gera ekki nákvæmlega það sem ætlast er til af þeim. Símar hafa gott af smá "uppherslu" alveg eins og bílar, og stilling á tíðni og sendiorku getur gert kraftaverk.
    Ábyrgðarviðgerðir

    Það er ómögulegt fyrir framleiðendur að ábyrgjast að símar bili ekki á ábyrgðartímanum. Allir símar eru stilltir og prófaðir í verksmiðjunni, en samt getur bilun komið upp seinna. Lóðning getur bilað, stundum endast íhlutir ekki eins vel og til var ætlast og skrúfur geta losnað. Þess konar bilanir falla undir verksmiðjuábyrgðina. Þú kemur með símann á þjónustuverkstæðið, sem sér um að leysa vandamálið.
    Ábyrgð á almennum viðgerðum

    Við rafeindaviðgerðir tíðkast að gefa 3ja mánaða ábyrgð á almennum viðgerðum. Undantekningar eru þó gerðar á raka- og höggskemmdum. Ábyrgð á almennri viðgerð þýðir þó ekki að síminn sé í fullri ábyrgð í þrjá mánuði eftir að viðgerð fer fram. Aðeins er tekin ábyrgð á þeirri viðgerð sem framkvæmd var eftir bilanalýsingu eigenda. Ef verkstæðið gerir við rafhlöðutengið og stillir símann, getur það ekki borið ábyrgð á því þótt hátalarinn hætti að virka eftir 2 mánuði.
    "Síminn var í viðgerð en samt virkar hann ekki!"

    Örsjaldan kemur það fyrir að síminn bilar strax eftir að viðgerð lýkur. Það þarf ekki að taka það fram að ekkert þjónustuverkstæði sendir frá sér síma sem það veit að er bilaður. Það þýðir einfaldlega aukinn kostnað fyrir verkstæðið því vitanlega fær það símann strax í hausinn aftur. Stundum eru bilanir þess eðlis að þær "plata" viðgerðarmanninn. Hann opnar símann, sér laust tengi, lóðar það, skrúfar símann saman og prófar hann. Allt virkar. Það að tengið var laust vegna þess að síminn datt, og lóðning á tenginu við hliðina á er með örlítilli sprungu, svo smárri að hún er ógreinanleg, gat viðgerðarmaðurinn ekki vitað. Síðan er síminn sendur með póstinum og þegar viðskiptavinurinn fær hann aftur hefur sprungan tærst og ekki er hægt að kveikja á símanum. Gremja viðskiptavinarins er að sjálfssögðu skiljanleg, en því miður er ekkert annað að gera en að senda símann til baka þar sem verkstæðið gerir við símann aftur.

    Undarleg skepna síminn!

    Við vonum að ofanskráð gefi örlitla mynd af því sem getur bilað í símanum þínum. Hann samanstendur jú af þúsundum íhluta, með ennþá fleiri þúsundum lóðninga. Í símanum eru ein eða fleiri prentplata, hver og ein með mörgum lögum af plasti, glertrefjum og koparrásum. Íhlutirnir eru úr kísil, plasti og járni, lóðningarnar samanstanda af tini, blýi og silfri. I tengjunum er gull. Fram- og bakhlutar gerðir úr meiru af plasti og takkamottan úr gúmmíi. Og allt þetta blandað saman á að virka sem sími. Það verður að teljast tæknilegt afrek að það gerir hann oftast.


    Snúið og staðfært úr sænsku.

    SvaraEyða
  6. Þakka þér fyrir þetta. Ég er búinn að lesa þetta fyrir lifandis löngu.

    Ég er búinn að eiga þrjá sony ericsson síma sem hafa allir bilað eftir smá notkun (6-12 mánuði) það er ekki eðlileg ending á síma.

    Þessir símar komu ekki nálægt raka. Það er ekki eins og ég hafi verið með símann útí rigningu viljandi.

    Þessi sími sem ég tala um hér að ofan er þriðji síminn sem ég fór með í viðgerð á þetta verkstæði. Ég hafði núna gætt mín vandlega á að hafa símann aldrei nálægt raka eða vatni.

    En hvaða greiningu fæ ég: RAKASKEMMD OG EKKI Í ÁBYRGÐ! Helvítis andskotans kjaftæði.

    SvaraEyða
  7. Spurning um að skipta um tegund?
    Sony Ericsson er greinilega bara ekki með góða síma, nema að þú sért svona svakalega óheppin/nn? ;)

    SvaraEyða
  8. Ég vildi endilega koma því fram á framfæri að Tæknivörur greina ekki rakaskemmdir út frá því að líta á límmiðann sem er á rafhlöðunni heldur eru teknar myndir af rakaskemmdum ef þær finnast. Oftast eru þær í botntengjum síma og þar af leiðandi er mjög auðvelt að greina það - spansgræna á hleðslutengi. Endilega farið í tæknivörur og biðjið um myndirnar af rakaskemmdunum þar sem að það er regla að taka myndir af skemmdunum.

    SvaraEyða
  9. Takk fyrir svarið. Þetta er ekki rétt hjá þér. Þegar ég fór til þeirra síðast og sótti símann minn vildi ég fá að sjá sönnun þess að síminn væri rakaskemmdur. Ég fékk að sjá þennan umrædda límmiða á símanum og hvernig liturinn hefði breyst.
    Hvernig í andskotanum kemst raki í farsíma? Ég er enginn nýgræðingur á farsímamarkaðinum. Ég held að sá sími sem ég er með núna sé sími númer 9 eða 10 sem ég á. Hann er EKKI að gerðinni Sony Ericsson.

    Ég hef átt Nokia síma hér framan af. Ég hef notað símana til að tala í, verið með hann í bílnum o.sfrv. Nokia símarnir hafa yfirleitt dugað í 2-3 ár, síðan hef ég skipt og keypt mér nýjan. 2-3 ár er mjög góð ending á síma.

    Svo fæ ég mér Sony Ericsson. Hvítan samlokusíma. Hann bilar eftir 8 mánaða notkun. Ég fer með hann í Tæknivörur og þá er mér sagt að hann sé ónýtur af rakaskemmdum og ekki í ábyrgð.

    Næst fæ ég mér annan Sony Ericsson. Síma fyrir c.a 50 þúsund krónur. Ég nota hann í 4 mánuði, þá deyr hann. Ég fer með hann í Tæknivörur og hver er greiningin: RAKASKEMMDIR, EKKI Í ÁBYRGÐ.

    Þriðji Sony Ericsson síminn bilaði líka eftir 11 mánaða notkun. Ég fer með hann líka í Tæknivörur í viðgerð reynslunni ríkari. Ég hafði passað að þessi sími kæmi ekki nálægt raka. En allt kom fyrir ekki. Greningin kom, RAKASKEMMDUR.
    Þannig að ég fór með hann annað og eina sem var að honum er ónýtt batterí. Í rauninni hefðu Tæknivörur átt að bæta mér batteríið þar sem það er ársábyrgð á því en ég bara nennti ekki að standa í því að fá það frá þeim. Í rauninni hefði sá tími, orka og kostnaður sem hefði farið í að fá batteríið verið meiri en þær 3.900 krónur sem ég greiddi fyrir það hjá Símabæ. Maðurinn þar er mjög almennilegur og segir manni allan sannleikann.
    Þannig að það borgaði sig ekki að fara í Tæknivörur til að heyra sömu lygasöguna: RAKASKEMMDIR EKKI Í ÁBYRGÐ.

    Gaman væri að fá útskýringu af hverju þessir símar duga svo skammt. Af hverju dugir Nokia betur?

    SvaraEyða
  10. Hvaða bull er í gangi hérna, heldur einhver í alvöru að tæknivörur eða hátækni séu að leika sér að dæma síma rakaskemmda? Þetta eru fyrir tæki sem að hafa verið lengi í þessum bransa og væru auðvitað löngu orðin gjaldþrota ef að þau væru ekki með betri samvisku en þetta. Það að Gylfi í símabæ skuli vera að bilunargreina síma er magnað þar sem að hann hefur enga visku eða tæki til að skoða svona tæki. Kannski ættir þú að ath hvað margar kennitölur hann hefur verið að nota síðustu ár.

    Það að símarnir þínir hafi dugað lengur fyrir mörgum árum síðan á sér kannski eðlilegar skýringar, í dag eru farsímar orðnir litlar tölvur og þar af leiðandi miklu viðhvæmari en þegar að símar gátu hringt og sent sms.

    Það að einhver nenni að hlusta á svona bull er alveg með eindæmum og kvet ég fólk frekar að leita til tæknivara eða hátækni ef að það er ekki sátt við þjónustu þessara fyrirtækja, það eru alltaf til einhverjir sem að getað hjálpað þér.

    Þetta eru jú einu fyrirtækin sem að hafa verið viðurkennd til að skoða þessi tæki.

    SvaraEyða
  11. Ég hef átt bæði SonyEricsson og Nokia síma, síðust ár hef ég verið með Sony Ericsson og hef ég alltaf verið mjög ánægð. Ég hef átt síma af báðum gerðum sem fundist hafa rakaskemmdir í og er ekki með símana mína í aðstæðum sem ég hef talið geta skemmt þá. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að ég er með þessi tæki á ferðinni og ég get vel hafa talað í símann rigningu, gleymt honum í bílnum eða inni á baði á meðan sturtan er í gangi.

    Staðreyndin er sú að Nokia er ekkert betri en SonyEricsson. Báðar tegundirnar eru jafnt viðkvæmar komist þær í snertingu við raka.

    SvaraEyða
  12. Það er eiginlega að það se nóg að nokkrir dropar af rigningu eða vatni komist inn í símann þá geta rásirnar skemmst og síminn eyðilagst.

    SvaraEyða