föstudagur, 31. júlí 2009

Kók og hrís

Í lúgusjoppunum við Miklubraut ( við Kringluna ) kostar í dag 1/2 kók í plasti og 1stk. Hrís súkkulaði 440-kr. Mætti halda að þetta væri innflutt en ekki framleitt á Íslandi. Það er greinilegt að menn ætla að taka virkan þátt í að hækka vörur hjá sér og nota sér ástandið. Skora á fólk að skipta ekki við fyrirtæki sem haga sér svona – það er það eina sem þau skilja.
Óska nafnleyndar

Óánægja með Icelandair

Mig langar að koma áleiðis smá misræmi í flugfargjöldum Icelandair sem mér finnst vert að fjalla um,
Þannig er mál með vexti að vinur minn pantar sér flug heim frá Toronto til Reykjavíkur á morgun 30.07.09 á 95.180 aðra leið, (sem er reyndar fáránlegt miðaverð en það er ekki málið).
Við förum að skoða þetta betur og athuga hvort það sé ekki hægt að fara ódýrari leið og prufum að panta far báðar leiðir (þó svo hann sé að flytja heim og vanti bara flug aðra leið).
Þá komumst við að því að flugfarið heim kostar, með sömu dagsetningu og sama flugi, 49.550 eða 45.630 kr ódýrara. Og þá á hann flug aftur út frá 46.710 ef hann velur sér ódýrasta flugið sem svo rennur út þar sem hann þarf ekki á því að halda. Þá er hann með flug heim og aftur út fyrir 96.260 kr sem er nánast sama upphæð og bara fyrir flug heim.
Það sem mér finnst furðulegast við þetta er, að þeir þykjast vera að bjóða fólki flug aðra leið sem er augljóslega á verði tveggja flugfargjalda fram og tilbaka.
Með kveðju,
Einar

þriðjudagur, 28. júlí 2009

Greifinn fer yfir strikið


Við pöntuðum pizzu frá Greifanum og áleggið var alltof dýrt að okkar mati. Sjá meðfylgjandi nótu.
Það er sjaldan lagt vel af áleggi á pizzurnar. Það væri hægt að kaupa sér pylsu, gos og súkkulaði í sjoppu -fyrir eitt auka álegg eins og Greifinn er farinn að rukka fyrir grænmeti sem varla sést á pizzunni.
Þarna er augljóslega farið yfir strikið!
Bestu kveðjur,
Sumarliði Einar Daðason

Dýr Kaldi á Austurvelli

Ákvað að senda þér smá ábendinu....
Þannig var að á föstudaginn fór ég og keypti Kalda (bjór) á Íslenska barnum (Austurvelli) og kostaði stk. 950 Kr. Ég er búinn að spyrja marga og það kannast einginn við að hafa greitt svo hátt verð fyrir 33 cl. bjór í flösku. Án þess að hafa kannað það sérstaklega að þá skilst mér að alment sé verðið um 700-750 kr. á öldurhúsum í Reykjavík. Þannig að þetta er alveg 25-35% hærra verð.
Til samanburðar keypti ég kippu af Kalda í Vínbúð daginn eftir og þar kosta samskonar flöskur 293 Kr.
Þannig að mér finnst þetta engan vegin réttlætanleg álagning.
Spurning hvort þetta sé eitt dæmi þess að staðir sem gera út á tourisma eru að hækka verðið óeðlileg yfir sumarið???
Bestu kveðjur,
Sigurður Valur Sigurðsson

Um tölvukaup

Mig langaði til að vekja athygli á því að þegar tölvukaup eru annars
vegar er ekki allt sem sýnist. Nú hef ég verið að leita mér að fartölvu
enda sú gamla ónýt eftir mjög harkalegan fund með gólfinu, og hef ég hug
á að keyra á honum Linux stýrikerfið, sem er bæði frítt og frjálst.
Þannig er að þegar keyptar eru tölvur fylgir gjarnan með þeim Windows
stýrikerfið, en ég hef ekkert við það að gera, né heldur hef ég neina
löngun til að borga 19900 krónur fyrir það. Fartölvan sem ég hef áhuga á
kostar 89900 krónur, og því er stýrikerfið sem ég vil ekki orðið einn
fimmti af verði vörunnar.
Stýrikerfið er ekkert annað en hrúga af rafeindum sem er verið að
selja á okurverði, og það er ekki mikið mál að fjarlægja þær - það mætti
hreinsa harða disk vélarinnar og selja þá einhverjum öðrum þessa vöru
sem ég vil ekki.
Í símtali við tölvuverslun í gær kom hinsvegar annað á daginn:
"Það er ekki hægt," sagði afgreiðslumaðurinn. "Það er búið að setja
límmiða á hana [tölvuna] og þá getum við ekki tekið stýrikerfið út."
Um er að ræða límmiða til staðfestingar um það að Windows útgáfan á
vélinni sé lögleg. Og auðvitað er ekki hægt að taka límmiða af tölvum
neitt frekar en rafeindir. Límmiðinn er settur á í verksmiðjunni þar sem
stýrikerfið er sett upp fyrirfram. En hversu eðlilegt er það, þegar
maður hyggst kaupa vöru A, að maður neyðist til að kaupa vöru B líka?
Neytendur væru eflaust frekar ósáttir við það ef þeir gætu ekki keypt
sér pylsupakka án þess að neyðast til að kaupa tómatsósuflösku líka.
Vissulega kæmi það sér vel fyrri suma, stundum, en það réttlætir það þó
ekki. Þetta er ekkert öðruvísi.
Kveðja,
Smári

Kaffihúsið í Árbæjarsafninu

Langaði að benda á okur í Árbæjarsafninu. Ég fór þangað með 3 börn í dag, ég þurfti bara að borga mig inn 600 kr sem að mér fannst nú ekkert svo dýrt. Við ákváðum svo að hafa það kósý og fórum á kaffi húsið og fengum okkur kökusneið og gos, fyrir 4 kökusneiðar og 4 gos mátti ég borga 3800 krónur. Vinkona mín sem var með mér keypti eina Appelsín í flösku og hún kostaði 300 krónur!!!! það finnst mér OKUR.
kveðja, Guðbjörg

Ingvar Helgason, þjónusta

Ég varð fyrir mjög undarlegri reynslu í dag. Konan mín ekur um á bíl frá Ingvari Helgasyni ( B&L ), bílinn bilar, þeir taka bílinn innan til skoðunar.
Niðurstaðan var að áætlaður viðgerðarkostnaður væri ca 150 þús, þar af varahlutir 115þús.
En um er að ræða einn hlut, mér fannst stykkið dýrt, ætlaði að athuga hvert verðið væri erlendis og bað um partanúmerið ( það er pöntunarnúmer ).
Þá var mér tilkynnt að stefna umboðsins væri að gefa ekki upp partanúmerin til að neytendur gætu ekki pantað varahluti frá öðrum byrgjum.
Er búinn að hringja í önnur bílaumboð til að kanna viðhorf þeirra, mér virðist að Ingvar Helgason sé eina umboðið með þetta viðhorf.
Ég fékk síðan númerið með því að biðja kunningja minn sem býr í Þýskalandi að hringja í umboðið þar.
Það kom í ljós að verðið á Íslandi er rúmlega 2 X dýrara en í Þýskalandi og UK.
Kv. Þórarinn

Íslenska krónan lágt skráð á Ítalíu

Eitt atriði kom upp nýlega hjá minni fjöldskyldur. Dóttir mín var boðin til Ítalíu að sýna gjörning í sambandi við myndbanda sýningu, þar sem hennar mynd hafði verið valin. Henni var sagt að kaupa miða hér og hann yrði endurgreiddur af sýnendum þegar hún væri komin þangað. Það var tekið mjög vel á móti henni, og allt uppihald og gisting var greitt og mjög vel á málum haldið. Þegar bjóðendur fóru í banka til að fá farmiða-upphæðina sem var rúmar 90.000.- krónur, og þetta var umreiknað í EVRUR, en þá kom í ljós að dóttir okkar fékk 340.- Evrur, því þeir tóku kr. 270.- isl.fyrir hverja Evru.
Ég spurði Iceland Express, sem seldi miðann hvort þeir gætu ekki gefið úr reikning í Evrum, en þá hefðum við orðið að panta miðan í gegnum erlenda afgreiðslu þeirra. Það væru vert að benda fólki á þetta, sem er í sviðuðum málum.
Magni Magnússon

mánudagur, 27. júlí 2009

Varað við Staðarskála

Ég skrapp norður í land með 2 barnabörnin mín um helgina og við stoppuðum aðeins í Staðarskála til að teygja úr okkur sem var frítt ! Ég ákvað nú að gefa þeim aðeins smá hressingu og fengu þau sér miðstærð af frönskum kartöflum og sitt hvora litla gosflösku og ég fékk mér hina sígildu pylsu með ökku og litla kók. Mér lá við yfirlið þegar stúlkan sagði mér að herlegheitin kostuðu kr. 1.875
Þess skal getið að þessi miðstærð af kartöflunum var mjög lítil og hélt ég þetta vera lítinn skammt og hváði við en svo var ekki en skammturinn kostaði kr. 480,-
Við ákváðum þarna strax að stoppa ekki þarna á heimleiðinni, heldur keyrðum alla leið í Snæland í Mosfellsbæ og fengum okkur kjúklinganagga og hamborgara með öllu tilheyrandi og greiddum fyrir það kr. 2.300 eða aðeins 400 meira en fyrir lítilræðið í Staðarskála. Þarna var um fulla máltíð að ræða en það sem við keyptum í Staðarskála var ekki upp í nös á ketti, bara smá hressing.
Ég get ekki annað en varað við þessum stað.
Kk/Þórdís

Dýr sms í útlöndum

Ég fékk símreikning þar sem rukkað er 3.567 kr fyrir SMS móttekið erlendis.
Eða 87 kr fyrir hvert SMS
Þarna finnst mér Síminn sýna á sér hið rétta andlit.
Ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta væri ef engin samkeppni væri.

SMS sent/móttekið erlendis - 41 stk - 3.567,00

Kveðja, Helgi

Okur á tjaldsvæðinu að Leirubakka

Þar sem líður að verslunarmannahelgi þá langar okkur vekja athygli á mismunandi verði á tjaldsvæðum. Árlega förum við stórfjölskyldan í 10 til 20 daga ferð innanlands. Eftir stutta ferð um Suðurland stoppuðum við á tjaldstæðinu að Leirubakka (Heklusetur) og held ég að það sé dýrasta tjaldstæði sem við fjölskyldan höfum nokkru sinni komið á. Verðskráin þar er þannig að fullorðnir borga 800 og börn 6 - 12 ára borga 450. Við munum ekki eftir að hafa séð að 6 ára gömul börn séu rukkuð um hálft gjald og rúmlega það. T.d. er sonur okkar með 4 börn, 6 mánaða ungabarn, 9 ára, 12 ára og 13 ára. Hann þurfti því að borga 3300 kr. fyrir nóttina. Þar sem með í för var ungabarn þá var búið að kanna að tjaldsvæðið byði upp á rafmagn og var svo. Þegar komið var á staðinn kom í ljós að rafmagnstenglar voru 6 stk. og kostaði 800 kr. sólahringurinn. Var þá nóttin hjá syni okkar komin í 4100 kr. Þar sem framboð af tenglum var aðeins 6 þá tengdu við okkur á milli tjaldvagna með fjöltengi 2 og 2 saman og þá var rukkað tvöfalt fyrir tengilinn þ.e. 1600 kr. Fyrir 1600 kr. fást ca. 133 kílóvattstundir (12 kr. pr. kwst). Við búum í 200 fm einbýlishúsi og skv. Orkuveitunni þá notum við ca. 12 kílóvattstundir á sólahring.
Til samanburðar þá kostaði gisting á tjaldsvæði að Hraunborgum í Grímsnesi (flott, fjölskylduvænt tjaldsvæði) 1400 kr. pr. tjaldvagn (óháð fjölda barna) og rafmagn kostaði 300 kr. pr sólahring, samtals 1700 kr. Almennt verð sem sonur okkar var að borga í þessari ferð var um 2000 kr. fyrir fjölskyldu sína á sólahring.
Látum ekki okra svona á okkur á ferðum okkar um landið.
Kær kveðja,
Yngvi og Gulla,

sunnudagur, 26. júlí 2009

Dýr bjór

Gamli bærinn í Mývatnssveit er að selja stóran bjór á 1200 kr., sem er uþb 50 % ofan við almennt verð í dag.
kv. Sigurður Sveinsson

Fáranleiki hjá Hreyfingu

Það er rúmt ár síðan ég keypti mér líkamsræktar kort þá voru 2 vikur
fra því að ég átti 25 ára afmæli. Ég var á 3. ári í Háskóla en fékk
ekki skólaafslátt sökum þess að ég var of gamall.
Þetta þykir mér frekar fárnalegt og vildi benda á þetta, sérstaklega
vegna þess að helmingur nemenda sem var í árgangi mínum var orðinn 25.
ára er ég viss um að þetta sé ekki eins dæmi.
Enda er mastersnám til 5 ára og doktorsnám lengra, ætti það fólk ekki
að fá skóla afslátt.
Gildir þetta bara fyrir þá sem fóru í háskóla beint eftir stúdent og
ætluðu að hætt að mennta sig eftir BS- eða BA gráðu.

Tekið af hreyfing.is:
Skóla aðild (16-24 ára)
Aðgangur að heilsurækt og úti aðstöðu
2ja mán binditími 4.500 kr á mánuði
Skila þarf inn staðfestingu á skólavist við undirritun samnings.


Högni

Vinnubrögð Kaupþing banka

Mig langaði til að deila með ykkur hvernig Kaupþing banki vinnur. Forsagan er sú að ég kaupi fjármálaþjónustu af fyrirtæki sem sendir Kaupþing banka upplýsingar um þá viðskiptavini sem stofna á greiðslukröfu á sem síðar mun birtast í heimabanka og pósti sem greiðsluseðill. Ekkert út á þetta að setja.
Það sem gerist er að nokrar kröfur frá fyrirtækinu misfarast í útskriftarkerfi bankans og það uppgvötast tveimur og hálfum mánuði síðar og hvað gerist þá? Jú krafan sem misfórst átti að hafa gjalddaga 5 maí en þar sem bankinn klúðraði útskriftinni hefði maður haldið að þeir byggju bara til nýja kröfu með greiðsludag sem ekki væri löngu liðinn. Nei þeir stofna kröfuna eftir 1 júlí á greiðsludag 5 maí og eindaga 14 mái með tilheyrandi vanskilakostnaði og senda mér svo áminningarbréf um að nú séu 15 daga til stefnu og ef ég greiði ekki kröfuna verði farið í hart, næst kom svo bréf um 10 daga til stefnu. Það sem mér þykir merkilegt við þetta er að þeir ætla að láta mig borga tæplega 3000 krónur fyrir þeirra eigin mistök svo kröfuhafinn tapi nú ekki á þeirra mistökum. Ég þakka kærlega fyrir að heimabankinn skyldi vera til þvi án hans gætu þeir einfaldlega sagt að krafan hafi farið í póst á réttum tíma en ég ekki séð hann. Þar sem ég veit hvenær ég greiddi reikninga síðast þá veit ég að hún kom ekki inn í kerfið fyrr en eftir 1 júlí og það staðfestir fyrirtækið sem ég versla af. Ef hugsanaháttur bankans væri í takt við það sem sagt er í kjölfar erfiðra aðstæðna fjölskyldna þá hefði engum dottið í hug að láta neytandann borga mistökin eins og reynt er í þessu tilfelli.
Kveðja, nafnleynd

Ódýr hárgreiðslumeistari

Datt í hug að benda á ódýra þjónustu hárgreiðslumeistarans á Háteigsvegi 2, Reykjavík. Stefán Rósar, eigandi stofunnar, býður upp á klippingu, strípur og annað sem viðkemur hárfegurð á ótrúlega góðu verði. Hann segist ekki sjá tilganginn í að okra á þessu, alltaf verið ódýrari en kollegarnir (sem líta hann að sjálfsögðu hornauga), en aldrei sem nú í efnahagsþrengingunum.
Kveðja, Edda Jóhannsdóttir.

Pizza Rizzo stal frá mér Kr. 6.540


Uppáhalds pizzustaðurinn minn á Íslandi var eitt sinn Pizza Rizzo.
Ég hætti alveg að skipta við aðra pizzustaði eftir að ég uppgötvaði ljúffengu eldbökuðu pizzurnar hjá Rizzo.
100 metra frá húsinu mínu er Dominos Pizza, aðeins lengra frá er hægt að finna Hróa Hött, og Wilson's Pizza er handan við hornið, en ég fór alltaf sérstaka ferð í hraunbæ til þess að sækja tvær 12" pizzur sem ég pantaði í síma hjá Rizzo handa mér og konunni minni. Ég var meira að segja búinn að prófa alls konar áleggskómbós og fann hina fullkomnu: pepperóní, rauðlaukur, ólífur og rjómaostur! Mæli með henni! En ekki hjá Pizza Rizzo!
Ástæðan fyrir því er að í nóvember á síðasta ári, stuttu eftir að Ísland fer á hausinn, þá ákveð ég að splæsa eina pizzu á útlenskan verktaka, sem var búinn að vinna fyrir okkur í nokkra mánuði, af því að hann átti afmæli. Ég fer með hann á Rizzo og ákveð að fá hádegistilboð handa okkur báðum, svona til að spara pening. Það var 12" pizza og drykkur á 1190 kall. Ekki svo slæmt fyrir ljúffenga pizzu og 0.5l af pepsí. Á meðan við vorum að panta spyr maðurinn við kassann hvar við séum að vinna, hann hafi séð svo marga útlendinga, eins og þennan sem var með mér, koma á staðinn og borða pizzu. Ég svaraði að ég ynni hjá fyrirtæki x og að þessi maður væri verktaki hjá okkur. Ég rétti honum svo debetkortið mitt á meðan við spjölluðum. Hann rennir því í gegnum posan, tvisvar eða þrisvar og heldur áfram að spjalla um að hann hafi verið í Pakistan eða Afghanistan eða eitthvað álíka og að hann þekki þetta svæði þarna, þaðan sem verktakinn kemur. Svo fer hann yfir á hinn kassann og rennur kortinu mínu í gegnum þann posa líka. Hann útskýrir ekki af hverju hann fer á annan posa. En af hverju ætti mig að gruna eitthvað? Maðurinn er vingjarnlegur og brosleitur, og svo erum við nú á Íslandi þar sem allir eru svo heiðarlegir, er það ekki? Og ég hugsaði mér bara að það væri eitthvað að posanum. Hann heldur meira að segja áfram að spjalla við okkur á meðan við erum að borða pizzuna sem hann seldi okkur.
Viku seinna fer ég yfir debetkortayfirlitið mitt í netbankanum og tek eftir að það eru þrjár færslur frá Rizzo þann 18.11.2008, og eru úttektirnar allar gerðar á uþb 1 mínútu. Fyrstu tvær færslurnar hljóða upp á Kr. 3.270,- og sú þriðja Kr. 2.380,- (2 x 1.190,-, semsagt hádegistilboðin).
Eins og sést á myndinni sem fylgir (úr netbanka Íslandsbanka), þá eru þetta 3 mismunandi færslur (númer 3016304, 3028221 og 1002600), þær eru skráðar á mínútu millibili (13:04:29, 13:03:23 og 13:03:23) og koma frá tveimur posum (posa númer 964607500010001 og 964607500010002).
Ég sannfærði sjálfan mig um að posinn hafi verið bilaður og hafi óvart tekið af mér 2 x 3.270,- þannig að ég prentaði út kvittanirnar þrjár úr netbankanum og fór með þær á Pizza Rizzo. Þar var ung stelpa að afgreiða, þannig að ég bað um að fá að tala við þann sem réði. Hún sagði mér þá að eigandinn væri ekki við en að hún gæti kannski aðstoðað. Ég útskýrði fyrir henni hvað hafði gerst og sýndi henni kvittanirnar sem sönnun. Hún var mjög skilningsrík og sagði meira að segja að þetta hafi gerst oft áður! Hún tók kvittanirnar, sem ég hafði skrifað GSM númer, nafn, kennitölu og reikningsnúmer á svo að eigandinn gæti nú borgað mér til baka, og sagðist ætla að láta eigandann fá þær.
Eftir viku var ekkert komið inn á reikninginn minn, þannig að ég ákveð að fara þangað aftur með, og aftur með netbankakvittanir handa þeim. Aftur lendi ég á mjög vingjarnlegum og skilningsríkum starfsmanni, sem lofar að láta eigandann hafa kvittanirnar.
Viku seinna var ekkert komið inn á reikninginn.
Nú var ég búinn að gefa þeim tvö tækifæri til þess að leiðrétta "mistökin" en ekkert gerðist.
Þá ákvað ég að hringja í neytendasamtökin sem "vinna fyrir þig"! Mjög vingjarnleg kona ráðlagði mér að tala við þjónustufulltrúa í bankanum mínum. Það ætti að vera hægt að fella niður þessar tvær greiðslur af því að þær væru augljóslega rangar.
Ég hringdi þá í útibúið mitt og fékk enga hjálp. Mér var sagt að af því að þetta var debet kort sem ég greiddi með, þá þyrfti ég að fá peninginn til baka frá Pizza Rizzo, og í versta falli kæra fyrirtækið.
Ég hringdi þá aftur í neytendasamtökin og spurði hvort ég gæti kært pizzustaðinn. Konan sem ég talaði við sagðist geta útvegað mér lögfræðing án kostnaðar, en þá þyrfti ég að gerast meðlimur samtakanna. Félagsgjaldið er 4.300,-. Ekki svo mikið fyrir ársgjald, en ég var að reyna að fá til baka 6.540,- (prinsippmál hjá mér) þannig að 2.200 krónurnar sem ég fengi nettó yrðu ekki þess virði að fara í mál.
Ég ákvað þá að ekki eyða meiri tíma í þetta, en í staðinn segi ég öllum sem ég þekki frá þessu og bið þau að sniðganga alla Pizza Rizzo veitingastaðina. Fyrir stuttu rakst ég á þessa vefsíðu þína, og ákvað að dreifa boðskapnum áfram til þín.
Svona sé ég þetta fyrir mér: maðurinn á pizzustaðnum hefur væntanlega haldið að ég væri moldríkt kapitalistasvín með fyrirtækjakort og að það væri allt í lagi að stela smá pening frá fyrirtækinu sem ég vinn fyrir. Hann rennur kortinu í gegn á posa #964607500010002, slær inn 3.270,- og sendir það tvisvar. Færir sig svo yfir á posa #964607500010001 og slær inn rétta upphæð 2.380,-. Hann var svo snöggur og lipur við að gera þetta, að hann er greinilega æfður posaþjófur.
Kveðja,
Halldór

Gúmmískór í Krónunni

Við erum hér tvær frænkur og okkur langar að segja hér frá einstaklega mikilli verðhækkun sem við rákumst á núna í júli.
Málið er að önnur okkar stoppaði í Krónunni á Selfossi laugardaginn 11. júlí síðastliðinn og verslaði fyrir sig og dóttur sína glæsilega gúmmískó. Bleika með blómamynstri alveg tilvaldir í sumarfríið. Parið af skónum kostaði þá 2.899 kr.
Þar sem gúmmiskórnir á dótturina voru of litlir fékk sú sem verslaði skóna frænku sína til að skipta þeim og fá stærri næst þegar hún ætti leið hjá.
Það var svo laugardaginn 18. júli aðeins viku frá því skórnir voru keyptir sem skiptin fóru fram. Þá langaði þeirri sem fór með skóna að kaupa eins gúmmiskó á dætur sínar tvær.
Sem hafði svo sem ekki verið í frásögu færandi nema nú var verðið búið að hækka úr 2.899 kr. í 3.680 kr. parið. Sem sagt rúmlega 700 krónu hækkun á einni viku.
Svo til að kóróna allt þá ætlaði afgreiðslustúlkan í Krónunni að rukka þá sem skipti skónum um mismuninn á verðinu frá því að skórnir voru keyptir og þar til þeim var skipt. Sú sem stóð í skiptunum á skónum gat komið afgreiðslustúlkunni í skilning um að það væri nú ekki rétt að rukka fyrir mismuninn.
Fimmtudaginn 23. júli á sama manneskja leið í Krónuna á Selfossi og labbar fram hjá rekkanum með blessuðu gúmmiskónum og viti menn þá kostar parið kr 3.175 .- Búið að lækka verðið, hm,hm, mjög skrýtið.
Sem þýðir að hún mátti 5 dögum áður borga rúmlega 500 krónum meira fyrir parið en þar sem hún keypti 2 pör þá er munurinn rúmlega 1000 kr.
Nú langar okkur að vita, er verið að breyta verðinu um helgar þegar meira er um ferðamenn?
Er þetta eitthvað sem að við eigum bara að sætta okkur við?
Nei og aftur nei , látum ekki bjóða okkur svona vitleysu.
Kveðja,
Frænkurnar

fimmtudagur, 23. júlí 2009

Europris okur

Ég fór síðastliðinn laugardag með börnin í trampólin leiðangur en komst að því að þau voru allsstaðar uppseld nema í Europris þar sem verðið var langhæst í bænum. Þar sem börnin voru búin að safna sér sjálf fyrir trampólíninu var ákveðið að kaupa það samt þessu dýra verði áður en sumarið væri á enda og borga fyrir þau það sem uppá vantaði.
Trampólín með neti kostaði þennan dag í Europris tæpar 60.000 krónur en hafði verið á rúmlega 40.000 í öðrum verslunum. Ég spurði starfsmann hvort engir afslætti væru í gangi eða hvort útsala væri á næsta leiti en var sagt að svo væri ekki, þeir gætu bara ekki lækkað vegna óhagstæðs gengis.
Í gær (miðvikudag 22.7.09) fjórum dögum seinna datt svo inn um lúguna hjá mér blað frá Europris þar sem á forsíðunni eru auglýst trampólín af sömu stærð og það sem börnin keyptu, með neti, á tæpar 44.000 kr. Ég hringdi á skrifstofu verslunarinnar og sagði mína sögu en var sagt að það væri ekkert hægt að gera fyrir mig og líkti starfsmaðurinn þessu við kjúklingabringur í Bónus sem fara á tilboð með engum fyrirvara. Ég á ekki til orð yfir þessa þjónustu þar sem ég spurði sérstaklega út í afslætti og tilboðsblaðið hefur sennilega verið farið í prentun þegar við keyptum dýra trampólínið!! Ég ætla ekki að stíga fæti inn í þessa verslun framar. Ég vildi bara koma þessu á framfæri þar sem þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heyri um lélega þjónustu í Europris.
Guðrún Guðmundsdóttir

Okur á Skógum

Ég kom við á versluninni í Fossbúð á Skógum undir Eyjafjöllum í gær,
skammt frá Skógarfossi. Keypti helstu nauðsynjar og í matinn. Um er
að ræða litla verslun við hliðina á matsölustað þar sem aðallega
útlendingar versla. Verðið á vörum í búðinni er með þvílíkum eindæmum
að það tekur ekki nokkru tali. T.d. kostaði pakki af 20 servíettum
500 kr. Almennt sýndist mér verð á vörum í verluninni vera langt
langt yfir verði annars staðar á landinu.
Með baráttukveðju
Jón Ársæll Þórðarson

Verð á afþreyingu

Er að bugast á verðum fyrir hóp í einhverskonar skemmtiferð.
Ég er búinn að vera að leita að hópferð fyrir 14 manns , annaðhvort fjórhjólaferð, vélsleðaferð o.s.frv.
T.d. fékk ég tilboð fyrir 14 manns í fjórhjólaferð við Bolöldu í 4 tíma (hjá Litlu kaffistofunni) grillaðir borgarar og 2 öl á mann eftir ferðina, samtals 5 tíma prógram.

Þetta kostar 593.600 kr.!!!

Allur þessi iðnaður er sniðinn fyrir útlendinga, verð í evrum o.s.frv. Það er að verða ógerlegt fyrir íslenskan hóp að gera e-h svona, sérstaklega miðað við árferði.

Endar þetta ekki bara að svona lúxus verði bara fyrir ferðamenn, hvernig væri að fara að taka Castro sér til fyrirmyndar og hafa verð fyrir heimamenn og verð fyrir ferðamenn?

Þetta er Okur Okur Okur!!!
Kv . Auðunn

P.s. Ég lét 8 manns giska á heildarpakkann í þessu tilboði og sá sem skaut hæst giskaði á 250.000 kr , flestir í kringum 100.000 - 130.000 og sjálfur átti ég von á um 200.000kr tilboði . Það er eitthvað athugavert við þetta.

miðvikudagur, 22. júlí 2009

Ótrúlega snubbótt svar World Class

Yfirleitt vil ég ekki kvarta en ég er eiginlega svo hneykslaður - kannski meira yfir svörum en vinnubrögðum - að ég verð að deila reynslunni.
World Class sendi fyrir síðustu jól meðlimum sínum gjafakort fyrir stökum prufumánuði. Meðlimir gátu síðan gefið vinum og vandamönnum kortið. Tilgangurinn væntanlega að leyfa fólki sem ekki eru í viðskiptum að prófa aðstöðuna.
Þessa "gjöf" fékk ég frá mínum betri helmingi og ætlaði að bregða mér í prufumánuð nú í sumar. Hins vegar virðist gjafakortið hafa glatast í flutningum og því sendi ég póst á skrifstofu World Class með upplýsingum um konuna - kennitölu o.fl. - og óskaði eftir nýju korti. Þau gætu vonandi séð að gjafakortið hafi ekki verið nýtt.
Svarið sem ég fékk var eins snubbótt verið gat:

Sæll Benedikt
Því miður þurfum við að fá þetta í hendurnar, þetta er hvergi skráð. Þetta er bara glataður peningur.
KV. Árný

Svarið er kapítuli út af fyrir sig og dæmir sig sjálft. Aldrei myndi ég í það minnsta ráða í framlínu manneskju sem svarar viðskiptavinum á þennan hátt. En að fyrirtæki standi í markaðssetningu (þessi "jólagjöf" er ekkert annað en bein markaðssetning) en hafi síðan ekki innra kerfi fyrir utanumhald finnst mér fyrir neðan allar hellur.
Ákvörðunin er því einföld; árskortið keypt á öðrum stað.
Kær kveðja,
Benedikt Bjarnason

þriðjudagur, 21. júlí 2009

Enn hækkar í Bláa lóninu

Það er víst farið að kosta 4000kr fyrir fullorðna í Bláa Lónið og 1200kr fyrir unglinga á aldrinum 14-15 ára. Er ekki bara málið að hætta að fara í lónið þangað til þeir lækka þetta?
Kv. LKR

Punktablús

Ég vildi láta vita af því sem mér finnst vera algert okur hjá Flugleiðum og Flugfélagi íslands og í raun með ólíkindum að þetta sé liðið af neytendastofu og samkeppnisyfirvöldum.
Þannig er mál með vexti að ég ætla til Ísafjarðar um þarnæstu helgi og þar sem akstur þangað er nokkuð langur þá athugaði ég með flug þessa helgi og vildi nota vildarpunkta sem ég og konan eigum inni til að greiða fyrir flugið eða í það minnsta hluta af því.
Til að byrja með þá er EKKI hægt að bóka ferð með vildarpunktum á netinu og strax við það þá byrjar flugfélagið og flugleiðir að svindla á fólki og taka við slíka bókun 600 kr gjald fyrir þjónustuna (sem ég myndi ekki nota ef það væri hægt að gera þetta öðruvísi).
Ofan á þetta leggst svo flugvallaskattur og fleira og er kostnaður við að borga með vildarpunktum því kominn í 1800 krónur á mann eða samtals 3600 ca fyrir þessa ferð til Ísafjarðar.
Svo er mér tjáð að ofan á þetta þá sé tekinn 2000 krónu gjald fyrir að NOTA vildarpunktana, þannig að kostnaður við þetta er orðinn 5600 krónur auk 20.000 vildarpunkta.
Ofan á allt annað er mér svo tjáð að þetta verði að vera greitt af sama vildarpunktahafa, þ.e ég þarf sem sé að standa í því að millifæra punkta af mér yfir á konuna mína eða öfugt til að það séu 20.000 punktar til ráðstöfunar þar. Já ok gott og vel en ofan á það þá er mér tjáð að ég þurfi að BORGA 3000 krónur fyrir að millifæra þessi helvítis punkta á milli okkar!!!
Þannig að ég þarf að borga 8600 krónur OG 20.000 vildarpunkta fyrir þessa gríðarlegur kjarabót sem flugleiðir rænir fólk með.
Með tilliti til þess að flugið vestur kostar um 9600 á mann aðra leið ÁN vildarpunkta (netfargjald sem er ekki það ódýrasta) þá þykir mér þetta orðið algjört rán og OKUR og ef þess væri einhver kostur þá ætti fólk að sniðganga flugleiði og ÖLL tengd fyrirtæki eins og það getur.
Ég hef aldrei vitað annað eins rugl og þetta og að þeir VOGI sér að kynna þetta sem bónuskerfi þegar svo þeir nota það til að kroppa endalaust pening af fólki þannig að þegar upp er staðið kostar ferðin nánast það sama og áður en punktar eru notaðir og það án alls þess vesens sem fylgir því að bóka þetta SVOKALLAÐA vildarsæti.
Kveðja,
Jóhann Árni Helgason

Sambíóin - Ekki 500 á þriðjudögum á 3D

Sambíóin - Allar myndir á 500 á þriðjudögum

Þar síðasta þriðjudag fórum við tvö með 9 ára strák á Ice Age 3D í Sambíóin Álfabakka. Við borguðum 3700 fyrir herlegheitin. Hvergi er tekið fram í þessum auglýsingum að það eigi ekki við um 3D myndir (mér finnst svo sem kannski alveg sanngjarnt að það væri aðeins dýrara á þá myndir, t.d 750 (sem er þá 250 kr dýrara eins og munurinn er á milli venjulegra mynda og 3D mynda). Einnig er nú aldrei tekið fram heldur að þetta eigi ekki við um Lúxussal en maður getur svo sem sagt sér það sjálfur og það er tekið fram inn á síðu Sambíóanna.

Af síðu Sambíóanna:
500. kr í bíó á þriðjudögum
SAMBÍÓIN HYGGJAST GERA ÞRIÐJUDAGA AÐ BÍÓDÖGUM Þ.E. ALLIR MIÐAR Á 500 Kr.
SAMBÍÓIN muna á næstu vikum bjóða þjóðinni að mæta alla þriðjudaga í kvikmyndahús sín; Álfabakka, Kringlunni, Akureyri, Selfoss og Keflavík þar sem miðaverð verður einungis 500 kr. á ALLAR[1] kvikmyndir og má því halda því fram að hvergi í heiminum sé hægt að fá lægra bíómiðaverð!

Ástæða þessa fyrirkomulags er sú að SAMBÍÓIN hafa leitast eftir skilningi við sína erlendu birgja í kjölfar íslensks efnahagsástands með það að leiðarljósi að gleðja Íslendinga í erfiðu árfeðri.

SAMBÍÓIN vilja jafnframt skora á önnur fyrirtæki að gera slíkt hið sama; þ.e. að vinna samhent að því að létta undir með íslenskum almenningi og reyna hvað þau geta til forðast verðhækkanir þrátt fyrir erlend útgjöld.

[1] Gildir ekki í Lúxus/VIP sal


Óska nafnleyndar

Vaxtaokur Kreditkorta

Góðan daginn,
mig langaði að vekja athygli á okurvöxtum sem eru á veltukortum útgefnum af Kreditkortum hf.
Á meðan kaupþing er með 15.6% vexti á sínum (gull)veltukortum og hafa lækkað verulega síðan stýrivextir fóru að lækka, virðist kreditkort hf hafa ákveðið að hirða mismuninn sjálfir og bjóða almúganum uppá 20% vexti. Þeir vextir voru endurskoðaðir og lækkaðir úr 22.5% hjá þeim 15.júní og stendur ekki til að lækka þá meira. Þess má einnig geta að dráttarvextir hjá þeim eru lægri en þeir venjulegu eða 19% (enda ákveðnir af seðlabankanum). Og einsog það væri ekki nóg þá rukka þeir sérstaklega fyrir það ef maður hringir í þjónustuverið og biður um stöðu korts, eða spyrja útí færslu þá ertu rukkaður fyrir 105 krónur á kortið þitt og greiðir símtalið líka. Þannig vextirnir standa greinilega ekki undir þeim kostnaði, líklegast fara þeir allir í vasann eða uppí útrásarskuldir, hver veit? Langaði bara vara fólk við þessu. Því munurinn á vöxtum á 500þ króna skuld hjá kaupþingi og kredidkortum hf er 22.500 krónur á ári. Mér finnst ótrúlegt að fyrirtæki skuli gera þetta við vaxtapínda þjóð. Ég óskaði eftir lægri vöxtum og spurði þá hvort þetta væri nokkuð prentvilla á síðunni þeirra, svarið sem ég fékk var: "þeir eru svo sannarlega 20% og það er ekki í boði að lækka vexti fyrir bara einn einstakling." - Þannig kannski lækka þeir ef nógu margir kvarta, eða að næg athygli á málinu sé vakin?

Heimildir:
http://kreditkort.is/einstaklingar/gjaldskra/vextir/
http://kreditkort.is/einstaklingar/gjaldskra/nr/163
http://www.kaupthing.is/?pageid=292

kv. Nafnlaus.

Batterí

Hér kemur eitt dæmi um okur, ja alla vega stórkostlegan verðmun.
Ég fór nýlega á Shell-stöðina við Gylfaflöt þar sem starfar mjög elskulegt og þjónustulundað fólk.
Ég spurði um 1.5V batterý. Ég gat þar fengið tvö saman (Duracell minnir mig örugglega) á tæpar 1.500 kr. Mér fannst það heldur mikið svo ég hætti við.
Í dag þurfti ég að fara í Örninn, reiðhjólaverslun, og spurði þá m.a. um svona 1.5V batterý. Þar gat ég líka fengið tvö í pakka frá Duracell á 299 kr.
Sem sagt - ekki versla svona batterý hjá Shell nema þið viljið borga 5-falt verð fyrir þau - verslið þau heldur í Erninum.
Kveðja, Herdís

Varahlutir

Var að hringja út og kanna með verð á afturhjólalegu (með pakkdósum) í gamlan Subaru Legacy (1997).
AB varahlutir virðast vera ódýrastir. Þar fæst settið hjá á 12.988,- Til viðbótar bjóða þeir 12% afslátt ef maður er með dælulykil frá Atlandsolíu. Verðið fer þá niður í 11.429,-
N1 voru næst ódýrastir með legusettið á 14.990,-
Stilling kom næst með 15.568,-
Fálkinn kom næstur með 17.101,-
Og að sjálfsögðu var umboðið með rugl verð, kr. 22.900,- eða næstum því 100% dýrara en þar sem varan er ódýrust.
Ég kaupi alveg að “orginal” hlutur sé eitthvað dýrari, en að verðmunurinn sé svona mikill er auðvitað rugl.
Kv.
Snorri, Hvanneyri

mánudagur, 20. júlí 2009

Nýr veitingastaður

Gleðifregnir fyrir sveltandi fólk í kreppunni ! kynntist af slysni nýjum veitingastað (hann opnar bráðlega en hefur opnað fyrir útpantanir), Áfangastaðurinn Borgartúni 14 (www.food4me.net) og prófaði að panta mat af þeim, sem var bara ótrúlega góður! ég varð södd og þurfti ekki að borga meira en 1000 kall fyrir :D
Tinna Dögg

Flugmiðaverð aðra leiðina hjá Iceldanair !!

Þannig vill til að ég er að fara flytja erlendis og þarf því aðeins að
kaupa flugmiða aðra leiðina. Tengiflug mitt er í gegnum London Heathrow
þannig að Icelandair er eina valið. Þeir bjóða uppá að kaupa miða aðra leið
en það er svimandi upphæð. Miði aðra leið kostar 69.400 kr en ef ég bóka
báðar leiðir kostar miðin á sama flug aðeins 23.950. Mikið þætti mér gaman
að vita hvernig Icelandair rökstyður þennan verðmismun. Ég athugaði einnig
hvernig Iceland Express hagar sínum málum með miðakaup aðra leið og þeir
eru á réttu róli. Miði aðra leið kostar sama og ef maður mundi bóka báðar
leiðir.
Takk fyrir,
Rúnar Ingi Ásgeirsson

Talhólf

Það skiptir væntanlega ekki máli hjá hvaða símafyrirtæki fólk er. Öll taka þau þátt í gríðarlegri gjaldtöku sem heitir Talhólf.
Það kostar 21. Kr. hjá Símanum að fá skilaboðin „Þú hefur náð sambandi við talhólf...“. Venjulega skellir fólk á án þess að nýta sér þjónustuna.

Dæmi um eins ár notkun á þessari þjónustu miðað við að lenda í 1 Talhólfi á dag:
21x1 = 21 kr. á dag
147 kr. á viku
588 kr. á mánuði
7.056 kr. á ári

Dæmi um eins ár notkun á þessari þjónustu miðað við að lenda í 5 Talhólfum á dag:
21x5 = 105 kr. á dag
735 kr. á viku
2.940 kr. á mánuði
35.280 kr. á ári

Það er samfélagsleg skylda allra að slökkva á talhólfinu og láta eins marga og kostur er gera slíkt hið sama.

Arnar

Jói Fel bakari

Ég fór um daginn í bakaríið jóa Fel í smáralindinni og ætlaði að fá mér samloku þar og þegar ég var búin að biðja um það spyr afgr. Stúlkan mig hvort ég ætli að taka matinn með eða borða hann hjá þeim og svara ég henni að ég ætli að borða inni hjá þeim, þá segir hún mér að það kosti aukalega, hætti ég snarlega við þetta, nógu dýrt fannst mér það sem ég sá hjá þeim í borðinu.
En að rukka aukalega fyrir að fá að setjast inn til þeirra að snæða matinn þeirra finnst mér OKUR!!!
Kv. Smári

Rándýr Íspinni

Ég var að koma frá Shell-stöðinni í Ártúnsbrekkunni og ætlaði að kaupa mér ís í góða veðrinu. Valdi mér e-n nýjan Daim ís sem að ég hef ekki séð áður. Þegar ég ætlaði að fara að borga fyrir hann sá ég að hann átti að kosta 798kr. Mér fannst það full mikið fyrir 1 íspinna þannig að ég skilaði honum snögglega.
kv.
Kristinn

föstudagur, 10. júlí 2009

Smurstöðvarkönnun

Ég kannaði með verð á 3 smurstöðvum vegna fólksbíls sem ég er með, svo
til hefðbundinn 10 ára gömul Toyota Corolla eftir að hafa lesið
athugasemdir varðandi smurningarkostnað hér á síðunni. Hjá Max1
kostaði smurningin um 10 þúsund, hjá Bílaáttunni á Smiðjuvegi um 8-9
þúsund og hjá smurstöðinni við Suðurlandsbraut
(Næturvaktarbensínstöðinni) kostaði hún nákvæmlega 8600. Er þetta
miðað við þessa "hefðbundnu" smurningu, þ.e. vélaolíu og síur. Þessi
símtöl kostuðu mig svo kannski 50 krónur en ég sé að þarna getur maður
sparað amk 1000-2000 krónur, á að tékka á verðinu og velja réttan
staðinn.
Gummi

Verð á spurningaspilum

Ég get bara ekki orða bundist. Ég og mín fjölskylda vorum á leiðinni upp í sumarbústað og hafa það náðugt. Við komum við í bókabúð (Eymundsson) til að kaupa spil til að hafa með okkur. Mín elsta var spennt fyrir "Trivial Pursuit - stelpur á móti strákum" og ég ætlaði að láta það eftir henni en rak í rogastans þegar ég sá verðið. 6995 krónur, takk fyrir, fyrir 100 spurningaspjöld (sem eru þá líklega 600 spurningar) og tvo teninga. Í sömu hillu var annað spurningaspil, Spurt að leikslokum. Það kostaði 3990 krónur og er með nýjum spurningum og þær eru 1620 samtals. Við keyptum það og vorum flest mjög ánægð með það. Ef hægt er að selja svona svipað spil á þessu verði, hvernig getur þá staðið á því að Stelpur á móti strákum er svona miklu dýrara?
kv.
Sigrún

fimmtudagur, 9. júlí 2009

Ósáttur við 2001

Ég vil koma á framfæri tilkynningu um mál er varðar slæma og vonda afgreiðslu og þjónustu sem að ég fékk hjá einni verslun hér í Rvk. Verslunin sem að ég vil nafngreina hér, heitir 2001 og er staðsett á Hverfisgötu 49. Eigandinn að þessari búð heitir Sigurður.
Verslun þessi selur Bío-myndir og tónlist á DVD formi. Þegar að ég kom inn í búðina og spurðist fyrir um eina mynd sem að ég átti í pöntun hjá Sigurði og sýndi honum greiðslu mína til hans þá var svarið að hún væri ekki komin til landsins. Ég sagði þá að ég myndi ekki greiða hærri upphæð en þá sem að um var talað í upphafi pöntunarinnar sem voru rúml, 1700.kr
Hann brást illa við þessu, fór fram í verslun og benti mér á ýmis verð sem að eru á myndum í rekkum verslunarinnar. Í sömu andrá sagði hann að hann skyldi endurgreiða mér þá upphæð sem að ég hafði borgað inn á viðkomandi mynd og gerði það, reif síðan niður pöntunina og sagði mér að koma mér strax út úr búðinni og koma aldrei inn í hana aftur.
Ég sagði þá að ég myndi ekki sætta mig við svona framkomu og slíkan verslunar-máta og tilkynnti honum að ég myndi leita réttar míns í þessu leiðinda-máli. Hann sagði þá að honum væri nákvæmlega sama, hvað ég myndi gera í málinu. Ég leitaði þá til Neytenda-samtakanna, síðan til Neytenda-stofu og endaði svo daginn síðast til Skattrannsóknar-stjóra að Borgartúni 7.
Ástæða óánægju minnar yfir framkomu hans er sú, að ég hef verslað við þessa búð hátt í 3 ár með mikið magn af myndum en hef ekki fengið kvittun fyrir borgun á öllum þeim fjölda mynda, nema tveim síðustu sem að ég keypti hjá honum fyrir rúmlega tíu dögum síðan. Ég bað hann vinsamlegast um kvittun eða kvittanir fyrir öllum fyrrum keyptum myndum hjá versluninni, en þá sagði hann að hann gæti ekki og myndi ekki láta mig fá kvittun fyrir. Ég hef marg oft orðið vitni að því, að sjá það að þegar að ýmsir viðskipta-vinir verslunarinnar hafa keypt myndir hjá 2001 þá hefur hann ekki afhent
kvittanir til baka. Eg er búinn að versla vel yfir 150 myndir þarna í þessari búð og sá tími nær tæplega þremur árum. Þegar að ég hef verslað myndir í öðrum búðum eins og Elko, B.T, Hagkaup og Nexus þá er mér ávallt afhentar kvittanir fyrir greiddri vöru. Ég hef allar þessar kvittanir hjá mér fyrir kaupum frá þessum verslunum. En hef aðeins tvær kvittanir til staðar frá versluninni 2001. Ég er engan veginn sáttur við svona lagað.
Minn réttur er sá að fá kvittun afhenda fyrir vörunum. Ég taldi það vera siðferðisleg skylda mín, að láta Skattrannsóknara-embættið vita af því að verslunin gæfi ekki kvittanir til baka, fór með þetta mál til þeirra og sýndi þeim hluta af þeim kvittunum sem að ég var með frá öðrum búðum og svo þessar tvær frá versluninni 2001. Verðmunurinn á þeim myndum sem að keyptar eru hjá 2001 og hinum verslununum er gríðarlegur í raun. Þó að pantaðar séu eldri og jafnvel gamlar myndir hjá 2001 miðað við jafn-gamlar myndir annars staðar, þá er verðmunurinn að jafnaði helmingi meiri.
Ég get ekki sætt mig við svona okur-starfsemi og sendi þetta bréf öðrum til varnaðar.
Jón Grétar

Pælingar varðandi gæði matvæla

Flott vinna sem er í gangi varðandi verð matvæla og fleiri vara þó betur megi ef duga skal. Annað atriði sem við Íslendingar eigum talsvert í land með. Hvenær er vara vara. Tökum dæmi af appelsínu. Okkur er kennt ungum að aldri að appelsína sé holl. Samt er það svo að appelsínan sem við fáum í næstu verslun getur verið orðin allnokkuð öldruð og á kannski ekki skilið heiðursheitið (holl) appelsína. Ástæðan, jú hún inniheldur ekki lengur það magn af vítamínum sem hún innihélt þegar hún var falleg og fögur týnd af trénu. Hún gæti t.d. verið því sem næst C vitamin laus. Er hægt að kalla slíka vöru appelsínu og er eitthvert eftirlit með því hér á landi hvenær appelsína má heita appelsína en ekki gamalt stöff af akrinum. Ávextir og grænmeti eru framsett sem holl vara. Litlar upplýsingar eru um upprunaland, hvenær hún var framleidd , hversu fersk hún er og hvernig hún var flutt etc..
Önnur spurning. Er eitthvert eftirlit með að það sem á að heita lífræn vara sé lífrænt í botn og grunn.
Kveðja,
Guðbrandur

Röfl við Kaupþing

Meðfylgjandi er bréf sem ég sendi til míns viðskiptabanka, Kaupþings rétt í þessu:

Ég hef verið með mín viðskipti hjá ykkur í yfir 4 ár, lengst af hef ég verið með fyrirframgreitt kreditkort er nefnist "kortið". Allan þann tíma hef ég á u.þ.b. tveggja mánaða fresti fengið í merktum pósti auglýsingableðil þar sem þið reynið að selja mér vöru sem ég hef nú þegar keypt. Ég hef leitt þetta hjá mér hingað til og kastað miðunum beint í ruslið en nú er komið nóg.
Til hvers eruð þið að þessu? Er þessi miði hugsaður sem tilkynning með nýjustu tilboðunum til að halda korthöfum við efnið? Af hverju eru lokaorðin þá "Sæktu um á www.kortid.is"? Eða eruð þið í blindni að senda svona merktan póst á alla í einhverjum ákveðnum markhópi sem ég fell óheppilega inn í? Er yfirhöfuð réttlætanlegt að banki sendi viðskiptavinum ruslpóst í merktum umslögum? Mun ég ekki enda á að henda umslagi sem hefur að geyma mikilvægar upplýsingar?
Ekki nóg með að þið séuð markvisst að eyða verðmætum tíma mínum og að láta höggva niður dýrmæta skóga fyrir þessar tilgangslausu og ómarkvissu auglýsingar, heldur gerið þið þetta allt á kostnað almennings, því íslenska þjóðin er jú að reka þennan banka eftir að þið tókuð þátt í að setja hana á hausinn. Ég held við höfum þarfari hluti að eyða pening í en þetta.
Hér með krefst ég þess að hætt verði að senda mér þessa tilgangslausu auglýsingapésa í merktum pósti. Fái ég aftur svona bréf mun ég segja upp mínum bankaviðskiptum hjá ykkur og þar með "kortinu" sem þið virðist reyna allt til að pranga inn á fólk.
Virðingarfyllst, Þorsteinn Valdimarsson

Vonbrigði á Balthazar

Ég var með gesti erlendis frá í nokkra daga sem fóru í dag. Þau langaði að
snæða íslenskt lamb síðasta kvöldið og ég fór á netið og skoðaði nokkra
matseðla og valdi veitingastaðinn Balthazar í Hafnarstræti 1-3 þar sem þar
var hægt að fá grillað lambakjöt á 2690 kr sjá matseðil
hér: http://balthazar.is/Balthazar/Menu_-_Kveld.html
Þegar á staðinn kom komst ég að því að lambakjötið sem ég hafði valið
staðinn vegna kostaði 3200 og laxinn sem ég hafði ákveðið að fá mér var á
2600 en ekki 2300 eins og kemur fram á netinu. Einnig var laxinn búinn og
bleikja í boði í staðinn. Ég pantaði að auki súpu dagsins.
Þetta var nú ekki það eina. Þjónustan var svo ömurleg að ég átti ekki til
orð. Hvar finna menn svona starfsfólk? Stúlkunni á barnum fannst ekkert að
því að vera með gamlan matseðil á netinu, það voru bara mín mistök að trúa
heimasíðunni.
Við vorum 5 saman. Við sátum í um 30 mínútur áður en þjónn virti okkur
viðlits og það var eftir að við höfðum veifað eins og fávitar til að ná
athygli hans (tek fram að staðurinn var alls ekki þétt setinn (þriðjudagur
um kl. 8). Nú var pöntunin tekin. 30 mínútur liðu þar til ég missti
þolinmæðina og fór á snyrtinguna og spurði í leiðinni hvað matnum liði.
Þjónninn sagði strax jú hann er að koma. Á klósettinu blasti við
hryllingur. Annað klósettið var með hurð sem spörkuð hafði verið upp og
ekki hægt að loka. Hitt klósettið lak og vatn var úti um allt gólf. Enginn
klósett pappír var og engin sápa.
Ég kom aftur að borðinu. Verið var að bera matinn í okkur en við fengum
ekki öll matinn á sama tíma. Einn í hópunum fékk kaldar franskar kartöflur
með hamborgaranum sínum. Við bentum þjóninum á þetta og viti menn, hann
tók eina frönskuna af diskinum og sagði já það er rétt. Einn í hópnum
þurfti þrisvar sinnum að biðja um gaffal. og svo var það súpan, ég spurði
þegar bleikja mín kom í kaldhæðni hvort súpan væri borin fram fyrir eða
eftir aðalréttinn. Þjónninn var með svarið á reiðum höndum: alveg sama þú
ræður. Almáttugur. Það var fokið í mig svo ég hreytti út úr mér ég vil fá
hana á fyrir. Við sem pöntuðum súpu fengum hana þá borðið, hún var köld,
og það var alls ekki pláss fyrir svona marga diska á borðinu. Einn pantaði
hvalkjöt, það var allt of mikið steikt. Ein pantaði pastarétt sem var
óætur.
Hvað er eiginlega að því að að færa gestum hnífapör og forrétti á UNDAN
aðalréttinum?
Þetta endaði svo á því að stúlkukindin sem tók við greiðslu var alveg
vanhæf og gat ekki reiknað út hvað við áttum að fá til baka. Sá sem
greiddi rétti henni meira fé en um var beðið og hún sagði að það vantaði
upp á.
Þessi staður er vonbrigði og allt og dýr miðað við skort á gæðum og
þjónustu. Okurverð á subbulegri búllu. Hálf stjarna því bleikjan var ágæt.
En það er nú líka mjög erfitt að klúðra bleikju.
Edda Björk Ármannsdóttir.

miðvikudagur, 8. júlí 2009

Kreppugler

Rakst á þessa síðu og langaði að benda á hana http://kreppugler.is/
Kannski er búið að segja frá henni hérna inni áður.
Brynjar

Dýr íspinni


Fékk vægt sjokk um sl helgi en var staddur að skoða Gullfoss og Geysi
eins og hver annar túristi á Íslandi í dag.
Ekki nema að heitt var í veðri og kærkomið að skella sér á íspinna hjá
Geysir Shops í Haukadal.
Viti menn 4 pinnar fyrir okkur kostuðu 990 ISK! Fokk, hvað er að
gerast!? Síðan er auglýstur íspinni í helgarblaði DV frá Kjörís á 99
ISK (Diskópinni) en þarna var hann verðlagður á 270 ISK.
Læt fylgja með ljósmynd af vöruplakati frá Kjörís sem hékk þarna uppi
til skýringar! Hvað kostar eiginlega að flytja vörur frá Hveragerði og
uppá Geysi?
Með ískaldri kveðju,
Matthías

Dýr súkkulaðikökusneið - er þetta eðlilegt?

Ég tel mig nú vera með þokkalegt langlundargeð en sl. laugardag þá blöskraði mér. Þannig var að ég ásamt manninum mínum og barnabarni tylltum okkur niður í sumarblíðunni á kaffihúsið Espresso barinn á Lækjartorgi. Keypti ég kaffi og djús og súkkulaðikökusneið handa barnabarninu og kostaði þessi kökusneið kr. 790,- og var hún frekar í minni kantinum. Ég áttaði mig ekki á verðinu fyrr en ég var búin að borga hvað sneiðin kostaði. Það sem svo gerði endanlega útslagið að mér finnst hafa verið okrað á mér er það að á sunnudeginum átti ég leið í Sandholt bakarí á Laugaveginum og þar sá ég nákvæmlega eins súkkulaðiköku og spurði hvað sneiðin hjá þeim kostaði og er hún seld á kr. 520,-. Ég gat ekki orða bundist við afgreiðslumanninnn í bakarínu og sagði frá hvað sneiðin hefði kostað á Espresso barnum. Afgreiðslumaðurinn sagði mér að þeir keyptu súkkulaðikökuna hjá þeim. Ég bara hreinlega skil ekki þessa verðlagninu það er greinilega dýr ferðakostnaðurinn frá Sandholt bakarí á Laugaveginum og niður á Lækjartorg.
Mig langar reyndar að bæta við hversu jákvætt mér finnst að hafa litla grasblettinn á Lækjartorgi, þessi blettur glæðir torgið lífi.
Með sumarkveðju,
Sigrún Elfa

Dýrasta kaffið á landinu?

Var stödd í Skaftafelli fyrir viku, og komst að því að ég gleymdi kaffinu mínu heima, sem er nátturulega það fyrsta sem ég fæ mér á morgnana. Svo við hjón fengum okkur bíltúr í Freysnes og viti menn: Kaffið var til og tvær tegundir, Merrild kostadi rúmar 1200 kr og Gevalía rúmar 1600 kr! Þar sem ég var alveg kaffilaus keyptum við ódýrari pakkann, eða þannig. Þetta er ekki há verðlagning - þetta er OKUR! Ég hef mjög gaman af því að ferðast um landið en það er orðið spurning hvort ég hafi efni á því. Kv,Guðný

Gengið

Mátti til með að láta þig vita af raunum mínum, ekki stórvægilegum en svolítið kjánalegum.
Er á leið til Evrópu og ákvað að kaupa Evrur. Keypti 1000 stk af þeim í Íslandsbanka og þegar heim var komið rak ég augun í að sölugengi Íslandsbanka á Evrum var annað á heimasíðu en á viðskiptakvittun. 178 kr á heimasíðunni en 182 kr á kvittun. Hringdi í þjónustuver og spurði hverju sætti. Fékk þau svör að 182 kr væri sölugengi seðla eða seðlagengi. Ástæða þess að ég keypti evrur var til að greiða minna fyrir evruna en ef ég notaði VISA því gengi gjaldmiðla hjá þeirri stofnun er hærra en sölugengi bankanna á gjaldeyri. En viti menn. Visa gengið er 181 kr. og er því lægra en þetta sölugengi seðla. Sparnaðurinn sem átti að felast í fyrirhöfninni, 4.000 kr, varð því að 1.000 kr útgjaldaauka. Skemmtilegt.
Kveðja
Eiður Arnarsson

Langódýrast í Lyfjaveri

Ég þurfti að kaupa þriggja mánaða skammt af lyfinu Nasonex og þar sem ég hafði heyrt af miklum verðmun á milli apóteka ákvað ég að gera létta verðkönnun áður en ég leysti lyfseðilinn út. Niðurstaðan var sú að það munar allt að 55% á verði lyfsins á milli apóteka!! Langódýrast var lyfið í Lyfjaveri. Það getur svo sannarlega borgað sig að gera verðsamanburð!

Apótek / Verð / Munur / Prósentumunur
Lyfjaver / 3.520
Garðsapótek / 4.402 / 882 / 25%
Skipholtsapótek / 4.646 / 1.126 / 32%
Apótekið - Hagkaup, Skeifunni / 4.982 / 1.462 / 42%
Lyfja Lágmúla / 5.393 / 1.873 / 53%
Lyf og heilsa, Austurveri / 5.450 / 1.930 / 55%

Dúna

Seðilgjöld!!!

Er þetta ólöglegt eða ekki með þessi helv.. seðilgjöld ??
Kreditkort er að rukka mann núna um 551.kr fyrir seðilgjald !!!
Það verður að fara gera eitthvað í þessu, jafnvel bara fara slá þetta lið af !!!!
Kv.
Arnar Líndal Sigurðsson

Pera í Range Rover

Las í féttablaðinu í dag um þetta verð á bílavarhlut. Ég þarf sjálf að kaupa peru í bíl (framljósa) og er með einhverju sérstöku ljósi. Mér var reyndar bent á að fara á fleiri staði en umboðið (Ingvar Helgason) fyrir Range Rover. Veit þetta er dýr bill og allt það en ég hringdi á 3 staði og spariði mér mikinn pening.
þessi litla pera kostar á N1 eða Bílanaust 18.685 kr já ekkert minna, en þetta var það ódýrasta. Hjá Stillingu kostar peran 19.895 kr sem munar ekki miklu en hjá umboði kostar þessi pera (er reyndar guði sé lof ekki til þar núna) þvi jú margir fara oft beint í umboðið en þar kostar hún yfir 40 þús kr - man ekki nákvæma tölu
Hvering má það vera að sama pera geti kostað 100% meira í umboði en í öðrum verslunum??
Hinsvegar var mér líka bent á að fara á E-bay og þar mætti kaupa þetta á ca 2000 kr,, en þar sem ég er með bílinn í láni í takmarkaðan tíma vil ég skipta um þessa peru strax.
Vildi bara láta vita af þessu að það má spara áður en farið er af stað og hringja nokkur símtöl. Það sparaði mér allvega
kv
Sesselja

Saltpækill

Nú get ég ekki orða bundist. Ég fór í Bónus og keypti bacon framleitt fyrir
Bónus, kemur ekki fram hver er framleiðandi. Fyrir steikingu vóg baconið 0,262 kg, eftir steikingu 0,105 kg - sem sagt rýrnun uppá 0,157 kg! Finnst mér hart að kaupa
saltpækil og fitu á 1298 kr/kg. Vildi aðeins benda á þetta.
Kveðja, Haraldur

Erfitt að reikna rétt í Nóatúni


Öðru hverju býður Nóatún í Hamraborg okkur viðskiptavinum sínum að borga einungis fyrir tvær eins lítra kókflöskur, en taka þrjár.
Einhverra hluta vegna vefst fyrir þessum ágætu herrum að reikna þetta út rétt.
Ég sendi hér reikning sem sýnir að Nótatún í Hamraborg rukkar 177 krónur fyrir hverja eins lítra kókflösku, en borga einungis tilbaka 136 krónur.
Ég gerði auðvitað athugasemdir og fékk borgað tilbaka, en margir viðskiptavinir hafa lent í þessu sama og ég án þess að gera athugasemdir.
Þetta hef ég reynt áður á sama stað.
Eiríkur Jónsson

mánudagur, 6. júlí 2009

Bónus taki á sig gengislækkun

Ég er nýlega búinn að eignast tvíbura og hef því þurft að kaupa þurrmjólk til að gefa börnunum. Ég versla oftast í Bónus og þegar ég byrjaði að kaupa þessa þurrmjólk, c.a. 15. júní, kostaði 450 gr. dós af SMA Gold þurrmjólk, 496 kr. þar af leiðandi kostuðu 2 dósir(900 gr.) 992 kr. En svo fóru að koma 900 gr. dósir í hillur Bónus og viti menn....magnafslátturinn var þannig, að sú dós kostar 1.598 kr. Þetta er bara fáránlega siðlaust og finnst mér að þeir ættu nú að taka eitthvað af þessari hækkun á sig, því þeir eiga sinn þátt í því að gengið, sem þeir fela sig eflaust á bakvið, sé hrunið.
Kveðja,
Eiríkur

laugardagur, 4. júlí 2009

Röng verðmerking á Booztbar

Mig langaði til að deila miður skemmtilegri Boozt reynslu minni.
Ég fór í gær á Booztbarinn í N1 Borgartúni og ætlaði að fá mér tilboð sem samanstendur af litlu Boozti og hafraklatta.
Þetta tilboð hefur verið í gangi í nokkurn tíma en þegar ég kom á staðinn var búið að prenta út blað með nýju "tilboði" sem er 100 kr hærra (allt Boozt hafði einnig hækkað um 100kr).
Það sem ég tók þó strax eftir var að gamla tilboðsauglýsingin hékk enn uppi með gamla verðinu 695kr fyrir Boozt og hafraklatta í stað 795 á útprentuðu auglýsingunni.
Ég benti á tilboðið og sagði afgreiðslustúlkunni að ég vildi fá þetta tilboð. Hún sagði mér þá að verðið hefði hækkað og tilboðið breyst.
Ég benti henni þá góðfúslega á þá staðreynd að samkvæmt Neytendalögunum ætti ég rétt á Booztinu á því verði sem var fyrir framan mig.
Hún sagði að það skipti engu máli, hærra verðið gilti og þau ættu eftir að taka hitt tilboðið niður.
Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég staðið og rökrætt en þar sem hádegishléið mitt var nærri búið, sem og alls fólksins í röðinni fyrir aftan mig, lét ég mig hafa það og greiddi fyrir herlegheitin.
Ég er búin að leita að upplýsingum um eigendur Booztbarsins þar sem ég vil benda þeim á miður góða viðskiptahætti en hef ekki fundið.
Ef einhver býr yfir þeim upplýsingum þætti mér vænt um ef viðkomandi skrifaði þær í athugasemdirnar.
Elín

Nýtt gjald hjá ríkisbankanum Kaupþingi

Ég var að skoða kreditkortayfirlitið mitt í netbankanum hjá Kaupþing og sá færslu upp á 50 kr með skýringunni "útskr.gjald". Ég sendi fyrirspurn á bankann til að spyrja hvað í ósköpunum þetta væri og þá er þetta GJALD FYRIR AÐ BIRTA YFIRLITIÐ Í NETBANKANUM. Það á aldeilis að græða hvar sem hægt er að plokka af manni peninginn. Ég svaraði dömunni "er þetta eitthvað grín?" og hef ekki fengið svar við því...
Brynhildur Bolladóttir

Njálgur - meðferð - lyf - rááándýrt!

Að fá sníkjudýr í heimsókn er ekkert djók. Bara fáranlega dýrt. Dóttir mín fékk
Njálg ekkert fyrir svo löngu og þurftum við fjölskyldan á tilheyrandi meðferð
að halda. Meðferðin sem slík eru töflur, mismargar eftir þyngd hvers og eins.
Við erum 5 í fjölskyldu og þurftum við á 24 töflum samtals. í boði var í
apóteki Vanquin 32 töflur í pakka á 8.091 kr. Lyfið þarf að taka að nýju eftir
14 daga svo sníkjudýrirð fari ekki aftur á kreik. Meðferðin sem slík er á
16.182 Kr.

En
Ef ég hef samband við lækni og hann gefir mér grænt ljós á að fá lyfseðilsylda
lyfið Vermox þá tekur maður eina töflu per mann. 6 töflur af Vermox er á 1.310
kr þá kostar 14. daga meðferðin 2.620 kr.
Fáránlegur mismunur því þetta er meðferð fyrir alla fjölskylduna og aðra sem
eru í næturgistingu á heimilinu.
Apótekið sem ég leitaði til er Lyfja

Tekið af www.lyfja.is
Vermox 6 stk 1.310 kr.
Mebendazól, virka efnið í Vermox, er breiðvirkt ormalyf og er það t.d. notað
við njálg. Það eyðir ormunum með því að trufla meltingarstarfsemi þeirra og
hefur auk þess áhrif á þroska eggja. Njálgur er lítill innyflaormur og er
algengasta sníkjudýr hjá börnum og fullorðnum í löndum með svipað veðurfar og
hjá okkur. Smitun verður á þann hátt að egg berst frá smituðum einstaklingi og
í munn annars. Eggin klekjast fljótt út í meltingarfærunum og dýrin ná fullum
þroska í neðri hluta þarmanna á 2-6 vikum. Kvendýrin skríða síðan út úr
endaþarminum, oftast að næturlagi og verpa eggjum sínum í húðfellingar og festa
þau þar með límkenndu efni. Hreyfingar ormanna og límið sem þeir festa eggin
með valda kláða. Ekki er með vissu vitað til þess að njálgur valdi öðrum
óþægindum en kláða og margir þeirra sem ganga með njálg hafa engin einkenni.
Spóluormasýking, bandormasýking og sullaveiki eru mjög sjaldgæfar hér á landi
en þessar sýkingar verða vanalega þegar menn umgangast sýkt dýr.

Vanquin 32 stk 8.091 kr.
Vanquin er notað gegn njálg. Njálgur er lítill innyflaormur og er algengasta
sníkjudýr hjá börnum og fullorðnum í löndum með svipað veðurfar og hjá okkur.
Smitun verður á þann hátt að egg berst frá smituðum einstaklingi og í munn
annars. Eggin klekjast fljótt út í meltingarfærunum og dýrin ná fullum þroska í
neðri hluta þarmanna á 2-6 vikum. Kvendýrin skríða síðan út úr endaþarminum,
oftast að næturlagi og verpa eggjum sínum í húðfellingar og festa þau þar með
límkenndu efni. Hreyfingar ormanna og límið sem þeir festa eggin með valda
kláða. Ekki er með vissu vitað til þess að njálgur valdi öðrum óþægindum en
kláða og margir þeirra sem ganga með njálg hafa engin einkenni. Pýrvín, virka
efni lyfsins, drepur sjálfan njálginn en ekki egg Hans. Þess vegna er ekki
nægilegt að taka lyfið einu sinni heldur þarf að endurtaka meðferðina að 14
dögum liðnum. æskilegast er að allir fjölskyldumeðlimir gangist undir
lyfjameðferð.

Kv. Notandi

Álfaliljur - taubleiur

Í framhaldi af umjöllun um verð á bleium datt mér í hug að senda þér línu.
Ég er móðir 2ja ára drengs og vildi skipta yfir í taubleiur vegna þess hve verð á einnota bleium hér á Íslandi var óheyrilega hátt og fór sí hækkandi.
Þegar ég fór út í búð til að kaupa bleiurnar fékk ég sjokk vegna þess að eitt stykki kostaði minnst 3.600 kr. þannig að 10 bleiur myndu kosta a.m.k. 36.000 kr. Ef maður keypti small, medium og large eftir því sem barnið stækkaði yrði það 108.000 kr. lágmark. Þar sem ég vinn sem leikskólakennari og er auk þess í námi var þetta full stór biti fyrir mig.
Ég ákvað því að láta framleiða fyrir mig og bjóða öðrum til sölu í leiðinni einnar stærðar vasableiur sem duga frá fæðingu þar til bleiutímabilinu lýkur. Útkoman varð taubleiurnar Álfaliljur sem hafa reynst vel. Þær kosta 2500 kr. stk. og fylgja tvö innlegg með. Tíu bleiur kosta 23.500 kr. Einnig flyt ég inn fleiri tegundir af bleium sem eru ódýrari og hafa einnig reynst vel.
Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni minni:
www.tamezonline.com (hérna er blanda af íslensku og ensku vegna þess að erlenda forritið ræður ekki vel við íslenska stafi.)
http://alfaliljur.web.is (þetta er ókeypis vefsíða og því takmörkuð, ég mundi þurfa að borga a.m.k. kr.10.000 mánaðarlega fyrir síðuna auk gjalda, til að hafa fleiri greiðslumöguleika og spurning hvað ég þyrfti að leggja mikið á bleiurnar í viðbót til að halda úti slíkri síðu).
Mitt aðal markmið er að halda verðinu eins lágu og mögulegt er.
Mér datt í hug að það væri gott að láta fólk vita að til eru ódýrari lausnir og að hærra verð er ekki alltaf ávísun á meiri gæði.
B.K.
Tamila Gámez Garcell

Tilboðin hjá Subways

Bátur mánaðarins á Subway er Grænmetissæla. "Tilboðsverðið" á 12 tommu bát er að venju 698 kr sem er því miður ekki mjög gott tilboð þar sem báturinn kostar venjulega 699 kr. Þetta þýðir að tilboð mánaðarins "sparar" manni eina krónu.
AFL

Á hausinn við að flytja

Ég var að flytja frá Grafavogi í Vesturbæinn. Pantaði stóran bíl frá Nýju sendibílastöðinni ásamt aukamanni og þóttist hafa gert með verðhugmynd af verðskránni. þetta tók þá 3 tíma. Frá kl 18.00- 21.00 og ég fékk rukkun upp á 58 þús. Ég hringdi í framkvæmdastjórann sem sagði að þetta væri eðlilegt verð í bransanum. Ég skoðaði verðskrána aftur en þeir hafa klínt einhverju ofan á hæsta ratan. Þetta er algjört RÁN og ég fékk vægt áfall þegar ég þurfti að borga. Endilega varaðu fólk við þessu fyrirtæki. Ég sem einstæð móðir fór alveg á hausinn við þetta.
Kveðja,
Svana

Frítt í Reykjavík

Ég missti vinnuna í október og ákvað þar sem ég átti skyndilega engan pening, að finna afþreyingu í Reykjavík sem kostaði ekkert. Ég ákvað að deila síðan "rannsókn" minni með öðrum og opnaði heimasíðu í dag sem heitir www.freecitytravel.com um allt það sem er ókeypis í Reykjavík. Það sem er inni á þessari síðu kostar ekkert. Hún verður á ensku til að byrja með og síðar ætla ég að færa hana yfir á íslensku. Það á líka eftir að setja inn fleiri hluti sem kosta ekkert en það er allt að koma!
Vildi bara láta þig vita af þessari síðu, hvet þig til þess að kíkja inn á hana :)
Kveðja,
Inga Jessen

fimmtudagur, 2. júlí 2009

Okur á flutningskostnaði


Ég verð að segja frá viðskiptum mínum við DHL sem tók að sér að flytja pakka fyrir mig frá Noregi til Íslands en sjóflutninginn annaðist „Óskabarn Þjóðarinnar“ Eimskip.
Tek það fram að ég er í smá Þjónustuvinnu þar sem ég þarf að nota efni sem ekki er hægt að flytja með flugi en verður að fara í sjófrakt.
Pakkinn var 15.kg að þyngd og læt ég mynd fylgja af honum.
Krafan hjá DHL hljóðaði upp á kr. 83.052- skrifa krónur áttatíuogþrjúþúsundfimmtíuogtvær íslenskar krónur. Eða kr. 5.537- fyrir hvert kíló.
Ég „grét“ undan þessu verði við þá en úr ísköldum útrásarvíkingaaugum þeirra mátti lesa „borgaðu bara auminginn þinn þú getur ekkert gert eða farið annað“ Höfðingjarnir slógu af kr. 5000- heimsendingargjaldi plús vask þannig að reikningurinn varð kr. 76.827- sem var greiddur.
Ég rita þessar linur til þeirra sem hugsa sér að fara út í atvinnurekstur og þurfa að flytja inn smávörur sem ekki er hægt að flytja öðruvísi en með sjóflutningum að kanna sinn gang áður svo ekkert svona komi á óvart.
Með Kveðju,
Sverrir Jónsson

Gengið á Tax Free

Langaði að benda fólki á sem er að fara erlendis og ætlar að fá Tax Free og er að velta fyrir sér hvort það eigi að taka peninginn á flugvellinum eða að láta leggja hann inn á kreditkort að velja frekar fyrri kostinn.
Ég var í Svíþjóð og keypti sænsku krónuna hér heima á 16,7 en svo þegar ég var að fá endurgreitt Tax Free inn á Visa reikninginn fæ ég 11,3 fyrir hana.
Mér finnst ég hafa verið rænd :(
Við fáum það sem seðlagengið úti er hverju sinni.
Kv,Hildur

miðvikudagur, 1. júlí 2009

Barnavörur á klink

Varð að láta þig vita af góðu verði á snuðum, pelum og öðru smálegu barnadóti í
Klinkinu, eða hvað það nú heitir, útsölumarkaðurinn í Skeifunni.
Mér blöskraði verðið að snuðum í Bónus, en nú kostar þar pakki með tveimur Nuk
snuðum tæpar 800 kr. (ca. 795) og eins í Hagkaup, (799 kr.).
Kíkti í Klinkið og þeir eru með Chicco barnavörur og þar er hægt að fá snuð á
99 kr. og tvö í pakka á 199 kr, og reiknaðu nú.
kv.
Aldís

Dýr skoðun í Bílabúð Benna

Mig langaði að benda á okur hjá BílaBúð Benna. Ég fór með bílinn minn
(ársgamall smábíll) í reglubundna þjónustuskoðun, sem samkvæmt þeim ég á
að mæta í á ársfresti. Þegar ég skila inn bílnum sé ég að gjaldið fyrir að
fara með bílinn í þessa skoðun er 19.900kr og svo stóð á sama lista
3.400kr í smurgjald. Þannig ég bjóst við reikning upp á ca 25þús þegar ég
sækji bílinn. En nei reikningurinn hljómaði upp á 40þús ! Ekkert var að
bílnum, þetta var bara eftirlit og smurning, skipt var um olíusíu og
loftsíu.
Þannig mér er spurn, geta þeir skikkað mann í að mæta á ársfresti í þessa
skoðun og borga greinilega 40þús í lágmarksgjald, þegar hægt er að fara
annað miklu ódýrara (Ein sem fór nýlega með bílinn í sambærilega skoðun
annað borgaði 15þús í heildina). Eða er nóg að fara í skoðun þegar
límmiðin segir til.
kv, Vala

Brynja 1000% ódýrari en Byko


Mig vantaði skáphurða segulstál um daginn. BYKO átti það ekki til og vildi selja mér svona smellu. Þegar ég sá verðið hætti ég við. Þeir vildu fá 900 kr. fyrir eintakið. Ég fór í Brynju á Laugaveginum áðan og verslaði segulstálin mín og rakst þá á smelluna góðu - sem kostaði í Brynju litlar 90 kr. eintakið. KLIKKUN : /
Gunnar Sigmundsson

Ekki ánægður með Elko

Fyrir tveimur árum keypti ég prentara með skanna hjá Elkó. Hann bjó yfir
frjálsum vilja og skannaði og prentaði rétt þegar honum sýndist, auk þess
sem straumtengið átti það til að slökkva á græjunni ef það var hreyft til.
Ég fór loksins með hann í búðina og vildi skipta honum en við
þjónustuborðið sagði starfsfólkið mér að skoða þyrfti gripinn og lagfæra
ef hægt væri; að ekki væri um nein vöruskipti að ræða nema prentarinn væri
sannanlega ónýtur. Ég lét hann af hendi og beið eftir hringingu. Hana fékk
ég nokkrum dögum seinna. Þá var mér tjáð að prentarinn hefði prentað
fullkomlega, skanninn skannað framar öllum vonum og straumbreytirinn ekki
verið neitt til trafala. Aðspurður sagðist maðurinn á verkstæðinu hafa
prófað öll þessi atriði (einu sinni) og komist að þeirri niðurstöðu að
ekkert væri að honum. Hann fann ekki á sér neina hvöt til þess að gera
neinar nánari prófanir þrátt fyrir að ég ítrekaði við hann að þessi
vandamál kæmu upp öðru hvoru, en ekki endilega í hvert einasta skipti sem
prentarinn væri notaður.
Sökum þess að ég þarfnaðist prentarans ákvað ég að láta þar við sitja og
sækja hann til þeirra. En þá sagði maðurinn í símanum mér að ég þyrfti að
greiða þúsund krónur í „skoðunargjald” vegna þess að ekkert hefði fundist
að honum! Ég átti sem sagt ekki aðeins að láta það yfir mig ganga að
verkstæðisstarfsmaður hefði kastað til hendinni og ákveðið eftir
yfirborðslega sannprófun að ekkert væri að. Ég átti líka að borga sekt
fyrir að hafa ómakað starfsmenn Elkó með raftæki sem var í ábyrgð hjá
þeim! Ég skrifaði ekki undir þessa skilmála þegar ég keypti tækið og mér
var fyrst sagt frá þessari harðlínureglu Elkó EFTIR að hafa skilað tækinu
inn til viðgerðar.
Ég ákvað að fara í búðina og láta reyna á það hversu ósveigjanleg þessi
regla væri. Og viti menn! Hún var eins og meitluð í granítstein. Á meðan
ég beið var manni við hliðina á mér sagt að hann gæti ekki skilað DVD-mynd
sem hann hefði fengið heldur þyrfti fyrst að sannprófa meintan galla
hennar. Hann sagðist ekki búa nándarnærri þessari Elkó-verslun og kvaðst
hafa komið daginn áður við án þess að fá afgreiðslu og spurði hvort
starfsfólkinu fyndist það sanngjarnt að láta hann þurfa að keyra þrisvar í
sömu búð til þess að fá einni skitinni kvikmynd skipt. Jú, það fannst
þeim, og þegar að mér kom fékk ég að mæta sama, dásamlega viðmóti. Daman
við þjónustuborðið sagði mér þvert ofan í öll mótrök að það væri
óhnikanlegur sannleikur hins almáttka Elkós að ekkert væri að tækinu, og
að fyrir þá ósvífni mína að láta óbilað tæki inn til viðgerðar væri ekki
nema sanngjarnt að ég greiddi fyrir það skoðunargjald í sekt; að tveggja
ára ábyrgð Elkó næði ekki yfir örstuttar (og ónægar) prófanir ef enginn
galli fyndist.
Án þess að borga tók ég prentarann upp af borðinu og bjóst til brottfarar
til þess að sjá hvernig hún myndi bregðast við. Hún brosti kalt og sagði
að þau myndu þá bara senda sektina í innheimtu. Þá seildist ég ofan í
vasa, henti tveimur Jónum Sigurðssonum á borðið og kvaðst aldregi aftur
ætla að versla við þessa raftækjakeðju. Mér fannst það ekki mikil hótun en
daman virtist taka hana mjög nærri sér, því hún tók þá aftur til máls um
sanngirni þess að hafa af almúgafólki fé fyrir aðstoð sem það hefur fulla
ástæðu til að ætla að sé fríkeypis. Ég lét fortölurnar mér sem vind um
eyru þjóta og gekk út í bíl með „fullkomlega starfhæfa” prentaraskannann
minn í fanginu. Enn sem komið er hafa forritin sem fylgdu með honum ekki
náð að fá hann til þess að skanna og það er hendingu háð hvort hann
prentar það sem fyrir hann er lagt eða einhverja bölvaða spássíuvitleysu.
Elkó hefur greinilega ákveðið að hætta að koma til móts við viðskiptavini
sína og byrja að gera þeim erfitt fyrir að fá umsamda aðstoð. Kannski er
þetta góð leið til þess að skera niður útgjöld en þetta er líka góð leið
til þess að missa viðskiptavini. Og það er einmitt það sem Elkó á skilið.
Vonandi verða þessir svívirðilegu viðskiptahættir til þess að fólk hættir
alfarið að leggja leið sína í búðir þessarar verslunarkeðju.
kv,
Símon

Svívirðilegt breytingagjald

Eftirfarandi þykir mér alveg hreint óhugnalegt peningaplokk!
Ég er námsmaður í Kaupmannahöfn og hef búið þar síðastliðin þrjú ár. Ég kem til Íslands tvisvar til þrisvar á ári í þessi hefðbundnu frí. Flugmiðaverð hefur yfirleitt verið svipað hjá Icelandair og Icelandexpress en ég hef oftar kosið að fljúga með Icelandair því þeir "bjóða svo góða þjónustu". Það er nokkuð ljóst að viðskipti mín verða við Icelandexpress hér eftir.
Vegna óviðráðanlegra aðstæðna þarf ég að breyta Icelandair flugi mínu frá Íslandi. Nú ég hringi í þjónustuverið og eftir 15 mín. bið fæ ég loks samband við þjónustufulltrúa. Niðurstaða þess samtals var sú að til þess að breyta miðanum þyrfti ég að greiða rúmar 30.000 krónur!! Breytingagjaldið eitt og sér eru tæpar 23.000 krónur og verðmunur miða eru 8.000 krónur. Ég skil vel að verðmunur sé á miðum en 23.000 krónur í "breytingagjald" er óheyrilega mikill peningur! Athugið það að breytingagjald Icelandexpress eru 2.900 krónur - húrra fyrir þeim. Nýr miði í sama flug hjá Icelandair kostar 27.800. Það er því ódýrara að henda gamla flugmiðanum og kaupa nýjan í staðinn fyrir að breyta.
Útskýringin sem ég fékk hjá þjónustufulltrúa Icelandair er sú að fyrst að ferðin hófst í Kaupmannahöfn, þá reikni þeir breytingagjaldið í dönskum krónum. Hvers konar fjárans rök eru það? Ég á engar danskar krónur frekar en aðrir Íslendingar og ég keypti minn miða á íslenskum krónum í gegnum icelandair.is.
Kær kveðja,
fátækur námsmaður

Dýr ferðaþjónusta

Allir hlutir tengdir ferðaþjónustu eru orðnir yfirnáttúrulega dýrir eftir fall krónunar. Ég get nefnt nokkur dæmi:
Íbúð 4 manna til leigu á vegum hótel Óðinsvé kostar ekki nema 38þ .....ekki á viku heldur nóttin
Bændagisting á Mývatni ekki nema 38þ nóttin
7 manna bíll á bílaleigu í lok júní í 12 daga 350þ krónur.....350.000kr isk!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Ég meina keyptu þér svona bíl og skildu hann eftir!
Inger

Í mynd eða algjörlega ÚR MYND

Mig langar ótrúlega að koma óánægju minni á framfæri. Þar sem að mamma mín fór með bróðir minn í fermingarmyndatöku hjá Mynd í hafnarfirði ákvað hún að taka son minn með og láta taka nokkrar myndir af honum. Eftir því sem ég best veit borgaði hún rúmlega 40.000 krónur fyrir verkið. Svo í dag átti ég að fara með þessar myndir og fá stækkun á tveim myndum af bróður mínum og langaði mig líka að láta framkalla eina mynd af syni mínum á striga sem er ekki frá sögu færandi nema hvað að strigaprentum 30x40 cm kostar litlar 14.250 krónur hjá þeim og ég spyr eins og bjáni gerið þið þetta sjálf..."nei nei við látum gera þetta fyrir okkur" er svarið sem ég fékk. Ég með sárt ennið á ekki fyrir svona dýrri mynd fer og hringi í Hans Petersen og spyr hvort þau geti skannað inn mynd og prentað á striga? svar" já já það erekkert mál!" og ég spyr þá hvað mynd af stærðinni 30x40 kosti og hún svara 5.900 kr komin á ramma!!!! Ok ég segi henni þá að ég komi með myndina en þá spyr hún "er myndin nokkuð tekin af ljósmyndara?" Og ég auðvita svara "Já!" "ok þá verður þú að fá leyfi hjá honum til að gera endurprentun!!!" Ég spyr þá "veistu hvort að ljósmyndarinn í Mynd í Hafnarfirði hafi gefið leyfi fyrir slíku" Svarið var "nei nei hann leyfir það pottþétt ekki!!!
Hvernig getur það verið ásættanlegt að borga 8.350 kr meira fyrir mynd í Mynd heldur en Hans Petersen???? Ég er svo fúl að ég ætla ekki einu sinni að hengja þessar myndir upp þar sem fólk sér þær... ég tek mynd sjálf og læt prenta hana á striga fyrir 5.900 kr!!!
Mæli hins vegar vel með gamanmyndum í Kópavogi þar eru sanngjarnir aðilar á ferðinni! ;)
Takk fyrir frábæra síðu!

Kveðja,
Ásdís Jóhannesdóttir

Varðandi sparnað við rakstur

Vildi bara benda á smá sparnaðaleið, verðið á rakvélablöðum er orðið ansi hátt (3500-4000,- kr fyrir 5 blaða pakka) , þannig að maður ákvað að skipta yfir í rakhníf til að spara aðeins peninginn, þannig að ég fór á stúfana með að finna slíka sem tók smá tíma, þar sem fáir eru að selja þá þessa dagana, en eftir smá leit þá fann ég slíka til sölu í Hárhorninu við hverfisgötu (ská á móti Hlemm) og þar kostar þeir 6.900,- kr. , klárlega hægt að spara þarna.

--
Með kveðju\Best Regards
Reynir Örn Guðmundsson

Dýrt batterí á bensínstöð

Vantaði batterí flatt duracell 2025. Fór í Shell Laugavegi, sama bensínstöð og Næturvaktin var tekinn upp í. Þar kostaði þetta blessaða batterí 1599kr. Sem mér og afgreiðslumanninum fannst dýrt, en ég hugsaði að kannski þetta sé ekki mikið notað og er framleitt í litlu upplagi, þá er þetta svona dýrt kannski bara. Ég keypti það allaveganna. Daginn eftir var ég í Hagkaup skeifunni, nákvæmlega sama batteríið var þar á 949. Algert rugl, hvað skýrir þessa álagningu á bensínstöðinni veit ég ekki. En eitt er víst að ég mun frekar kaupa batterí í Hagkaup eftir þetta.
Frekar fúll neytandi!