mánudagur, 24. ágúst 2009

Yfirgangur og glæpsamlegt viðskiptasiðferði

Eftirfarandi er lýsing á viðskiptum mínum við viðgerðaþjónustuna Litsýn, Síðumúla 35, eins og ég þekki þau réttust.
Fjórða ágúst síðast liðinn fór ég með myndavélina mína í viðgerð á áðurnefndan stað. Áður hafði mér verið tjáð að það fyrirtæki sem seldi og sinnti þjónustu við þessa tegund véla væri ekki lengur til og Litsýn hefði tekið að sér þjónstu við fyrrum viðskiptavini þess og væri það eina fyrirtækið sem það gerði svo ekki voru valkostir um þjónustuaðilla aðrir.
Þar sem myndavélin er í ódýrari kanntinum var ég ekki viss um að svaraði kosnaði að gera við hana og tjáði þeim sem við henni tók þessar vangaveltur mínar, auk þess sem ég sagði honum að ég væri afar vantrúuð á að vélin væri biluð. Hún væri nýleg, lítið sem ekkert notuð og mun líklegra að um handvöm mína og kunnáttuleysi væri að ræða, en að hún þarfnaðist viðgerðar. Þá spurði ég manninn hvort hann væri til í að sýna mér hvernig rafhlaðan væri losuð úr vélinni, því þar sem bilunin lýsti sér í að hún hafnaði því að vera hlaðin, gæti þá hugsast að rafhlaðan væri laus ???
Viðkomandi sagði mér að hafa engar áhyggjur af þessu, þetta yrði allt athugað og ef vandamálið reyndist ekki meira en laus rafhlaða yrði ég að sjálfsögðu ekki látin borga fyrir að setja hana aftur í. Ekki veitti ég athygli spjaldi við kassann sem á stóð að lámarks gjald fyrir skoðun á hlut væru 3000 kr. og þaðan af síður var mér bent á það af afgreiðslumanni þegar við áttum fyrrnefnt samtal. Að lokum var mér sagt að koma eftir tvo daga, þá yrði vélin tilbúin.
Ég leyfði þremur dögum að líða, svona til að vera nokkuð viss um að þurfa ekki að fara fýluferð. Þá var mér tjáð að vélin væri á biðlista og það færi að koma að henni.
Mér væri óhætt að koma eftir nokkra daga, þá yrði hún örugglega tilbúin.
...Og vika leið og aftur fór ég til að athuga með vélina. Þá var mér sagt að viðgerðamaðurinn væri kominn í frí og óvíst hvenær hann væri væntanlegur aftur til vinnu, en þó von til þess að fríið yrði ekki mjög langt.
Nú horfði ég fram á nokkrar óvissuferðir til viðbótar á verkstæðið og fylltist nokkurri örvæntingu um hvernig ég gæti vitað hvenær rétti tíminn til að athuga með viðgerðina rynni upp. Afgreiðslumaðurinn sem ég talaði við í þetta skiptið, stakk upp á að mér yrðu sent SMS-skilaboð þegar vélin væri tilbúin og enn áréttaði ég að ég fengi að taka ákvörðun um hvort gert yrði við vélina ef sýnilegt yrði að bilunin gæti reynst dýr og líkt og hinn fullvissaði þessi afgreiðslumaðurinn mig um, að haft yrði samband við mig ef stefndi í dýra viðgerð, en í þetta skiptið rak ég augun í spjald við kassann þar sem á stóð að það eitt að afhenda eigur sínar í hendur þessara manna og gefa þeim tækifæri á að handfjalla þær hversu lítið sem það kynni að verða, mundi kosta viðkomandi 3000 kr.
Dagarnir liðu og ekkert kom SMS-ið Nú var ég ákveðin í að sækja vélina í hverning ástandi sem hún kynni að vera....biluð eða viðgerð.
Maður sem ég hafði hitt í síðustu heimsókn minni á verkstæðið kom með vélina og þau skilaboð með frá viðgerðamanninum, en þau mátti einnig lesa á verkbeiðni : BATTERÍ HLAÐIÐ !!! ...og fyrir ómakið vildi hann fá 3000 kr. !!! ...sem kannski er skiljanlegt þar sem það hafði tekið tæpar þrjár vikur að hlaða rafhlöðuna og að auki þurfti að bíða eftir að sérfræðingur í rafhleðslum kæmi úr fríi til að vinna verkið..
Ég spurði afgreiðslumanninn hvernig viðgerðamaðurinn hefði komist að rótum vandans og svarið var : HANN HEFUR TRÚLEGA TEKIÐ BATTERÍIÐ ÚR OG SETT ÞAÐ AFTUR Í !!! ...og fyrir það vildi hann nú fá greiddar 3000 kr. sem hann og fékk.
Það kæmi mér ekki á óvart þó viðskiptahættir þeirra sem reka fyrirtækið Litsýn séu með öllu löglegir, en eingin skal rugla svo í dómgreind minni að ég sjái ekki hversu siðlausir þeir eru. Ég ætla ekki Litsýnar-mönnum að sjá að sér og leiðrétta misgjörðir sínar gagnvart mér, en ég vænti stuðnings frá ykkur hinum sem þennan póst fáið að kanna trúverðugleika þessarar sögu minnar og það með hvort viðskiptaaðillum er stætt á slíkri framkomu.
Viðskipti gærdagsins skildu mig eftir í svipuðu ástandi og eitt sinn þegar brotist var inn á heimili mitt, s.s. eins og ég hefði orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi og ráni um hábjartan dag. Það er von mín að sem flestir sniðgangi samskipti og komist hjá viðskiptum við hugsanlega löglega en með öllu siðblinda og siðlausa þjófa, sem ég tel umrædda menn vera.


Dagmar Guðrún Gunnarsdóttir

11 ummæli:

 1. Stundum veltir maður því fyrir sér hér á þessari ágætu síðu hvort fólk sé í raun að kvarta eða að stunda atvinnuróg.
  Þessi kvörtun hér að ofan fellur undir bæði.
  Vissulega var þetta allt of langur tími sem fór í að komast að einfaldri niðurstöðu og er það fyrirtækinu ekki til sóma.
  Aftur á móti verður fólk að reyna vissa hluti sjálft, jafnvel að lesa leiðarvísa áður en leitað er til fyrirtækja (sem þurfa jú tekjur til að lifa) til að finna út úr jafn einföldum hlutum eins og að setja í rafhlöður og að hlaða þær.
  Stundum er það dýrt að vera fávís og á það fyllilega við í tilfelli Dagmarar. En allt tal hér um ofbeldi og rán flokkast undir atvinnuróg, því hún sá jú sjálf að þjónustan kostaði, þó lítil væri.

  SvaraEyða
 2. Sammála síðasta ræðumanni, það er ekki við verkstæðið að sakast ef sá sem mætir með tæki til viðgerðar er ekki einu sinni búinn að reyna að hlaða rafhlöðuna. Lélegt af þeim að liggja svona lengi með tækið á verkstæðinu (hefðu náttúrulega mátt vita það þegar það kom inn að biðlistinn væri langur), en þeir skiluðu því viðgerðu (þótt viðgerðin hafi verið aðeins hleðsla), og rukkuðu ekkrt nema skoðunargjaldið, svo það er ekkert ofbeldi eða rán eða siðblinda hér í gangi, bara bilaður notandi.

  SvaraEyða
 3. Ef ég hefði unnið þarna hefði ég bara kíkt á rafhlöðuna þegar hún mætti með vélina og sett hana aftur í. Spurt svo hvort hún vildi prófa þetta núna sjálf eða fá samt tæknimann til að kíkja á þetta. Ef hún hefði sagt já sem er ansi líklegt. Hefði þetta skilað pening í kassann og ekki fúlum kúnna sem hafði val.

  En auðvitað á ALLTAF að segja fólki að lágmarksgjald er 3000 kr þó að ekkert finnist að.

  SvaraEyða
 4. Mér finnst þetta mjög réttmæt kvörtun hjá viðkomanda, svona á ekki að stunda viðskiptahætti hvort sem kúnninn á að vita betur eða ekki.
  Fáránlegt að láta kúnnann skilja vélina eftir ef viðgerðarmaður er að fara í frí, segja ekki frá því, heldur láta viðkomandi koma eftir 2 daga sem var engann veginn að fúnkera í þessum viðskiptum, fyrir utan það á afgreiðslumaður hjá svona fyrirtæki að kunna að athuga rafhlöðu hvort sem kúnninn á að kunna það eða ekki !!! Hefði sparað viðkomanda sporin og leiðindin.
  Maður spyr sig, er kúnninn 0 og nix.
  Mér finnst þetta ömurlega framkoma af fyrirtæki hvort sem þið túlkið þetta sem róg á fyrirtækið eður ei.
  Og þetta lágmarksgjald sem þessi fyrirtæki í viðgerðarbransanum eru að taka er ólöglegt samkv. lögum ef hlutur er í ábyrgð. Ég tek það fram ef hlutur er í ábyrgð, samt taka flestöll fyrirtæki þetta gjald, sem er náttúrulega bara svínslegt.
  Ég myndi ekki sætta mig við svona þjónustu og kvarta og finnst ekkert að því að láta vita um svona þjónustu.

  Takk fyrir þetta Dagmar.

  SvaraEyða
 5. Sæl Dagmar.

  Því miður virðast of margir nota þennan mjög svo góða vef til að ausa úr skálum reiði sinnar í stað þess að vera málefnalegir. Því m iður var það raunin með umkvörtun þína. Ef ég væri forráðamaður Litsýnar, myndi ég ekki hika við að fara í meiðyrðamál vegna algjörlega óviðeigandi orða sem þú lést falla um fyrirtækið. Orð eins og "líkamleg og andlegt ofbeldi, siðblindir og siðlausir þjófar" og síðast en ekki síst fyrirsögnin, eru allt saman orð sem eru ástæða til málsóknar gegn þér.
  Biturt fólk eins og þú rýrir gildi þessa vefs með slíkum stóryrðum, þar sem þú leitaðir að auki til fyrirtækisins að ástæðulausu. Hefðir betur kynnt þér vélina og stungið batteríinu í samband áður en þú fórst að trufla vinnandi menn.
  Vegni þér betur með kaup á heimilistækjum í framtíðinni og geymdu leiðarvísana vel og lestu þá jafnvel áður en þú lætur stóru orðin falla.


  Það er alltaf

  SvaraEyða
 6. "...og síðast en ekki síst fyrirsögnin..."

  Fyrirsögnin er ákveðin af Okursíðunni...

  SvaraEyða
 7. Ekki í þessu tilfelli, nei. Þetta var subjectið á pósti Dagmarar.
  kv, Okursíðan

  SvaraEyða
 8. "[Þ]ú leitaðir að auki til fyrirtækisins að ástæðulausu. Hefðir betur kynnt þér vélina og stungið batteríinu í samband áður en þú fórst að trufla vinnandi menn."

  Hún tók það fram við starfsmann Litsýnar að myndavélin virtist hafna því að batteríið væri hlaðið, og spyr hvort það geti verið að batteríið sé laust (= væntanlega ekki rétt sett í vélina). Þar að leiðandi má gefa sér það að hún hafi sjálf verið búin að reyna að hlaða batteríið.

  Og hvort sem þjónustugjald er rukkað fyrir minnstu viðvik eða ekki, þá finnast mér það léleg vinnubrögð að liggja á hlutum án þess að láta vita um biðlista eða það að viðgerðarmaður sé á leiðinni í frí. Það gæti vel verið að viðkomandi vildi reyna eitthvað annað (t.d. fá ráð hjá vinum eða kunningjum) áður en hann/hún leggur inn hlut sem bíður svo bara í margar vikur.

  SvaraEyða
 9. Samkvæmt grein Dagmar hafði hún reynt að hlaða rafhlöðuna en ekki tekist. Varla ætti að þurfa að leita í handbók til að vita hvernig á að hlaða tækið. Mér finnst rangt að tala um að verið sé að trufla vinnandi menn eða leita til þeirra af ástæðulausu, þetta er jú þeirra vinna, að veita viðskiptavinum þjónustu og verslunin er opin almenningi. Sumir virðast telja að þjónusta sé eitthvað sem viðskiptavinurinn eigi ekki rétt á. Einnig vil ég mæla með að ekki sé talað niður til fólks þó það tjái sig um hluti sem það er ekki sátt með (á ísl. kallast það víst að nöldra eða væla).

  SvaraEyða
 10. Dagmar Guðrún Gunnarsdóttir.5. nóvember 2010 kl. 10:26

  Við þá sem hér að ofan fundu sig knúna til að hreyta í mig ónotum, hóta mér málsókn og finna að kvörtunum mínum vegna áðurnefnds viðgerðafyrirtækis, vil ég þetta segja: Mér finnst það frekar lítilmannlegt og varla mark á takandi þegar fólk treystir sér ekki til að skrifa óhróður um aðra undir nafni. Hinum vil ég þakka stuðninginn og skilning á umkvörtunarefni mínu...það gefur augaleið að minna máli skiptir að slík jákvæð skrif séu skrifuð undir nafni.
  kv.
  Dagmar Guðrún Gunnarsdóttir.

  SvaraEyða