laugardagur, 15. ágúst 2009

Kryddlegin hjörtu góður, en ekki barnvænn

Mig langar að koma á framfæri nokkru sem vakti óánægju mína það mikið að ég bara verð að hafa orð á því.
Í dag átti ég stefnumót við nokkrar vinkonur mínar og völdum við veitingastaðinn Kryddlegin hjörtu. Þar er hægt að fá alls konar súpur og salat eins og maður getur í sig látið og smakkast allt alveg gífurlega vel. Sú aðstaða kom hins vegar upp í dag að dóttir mín 6 ára gat ekki verið í dagvistun eins og vant er og ákvað ég þá bara að taka hana með og hugsaði að hún hlyti að geta fengið sér smá brauð og kannski súpu.
Semsagt mætum við mæðgur vel stemmdar á staðinn og ég fékk mér súpu, brauð og salatbar sem kostar 1390 og er bara ágætlega sanngjarnt verð þar sem gaman er að smakka mismunandi súpur og exótískan salatbar. Hins vegar er enginn barnamatseðill á staðum og það er nú bara allt í lagi enda tel ég að börn eigi að venjast á að borða allan mat og það eigi ekki að vera neitt special treatment þannig lagað. (Get reyndar skrifað langan pistil um barnamatseðla veitingastaða yfirleitt þar sem þar er sjaldnast annað að finna en djúpsteiktan mat, franskar og smápizzur með tómatsósu og osti - hvað með soðinn fisk, rúgbrauð með kæfu eða hakkbollur og hrísgrjón? jæja, og svo eru allir hissa á að börnin okkar verði feitari með hverju árinu).
En allavegana spurði ég hvað væri í boði fyrir stelpuna 6 ára gamla og hvort það væri eitthvað annað, hvort ég mætti gefa henni af mínum skammti eða hvernig þetta væri. Svarið var að þau væru með barnaverð og það væri 1090 krónur. Ég hváði nú bara og spurði hvort það færi ekkert eftir aldri og að yfirleitt væru barnaskammtarnir á hálfvirði eða oft í kringum svona 600-700 krónur. En nei og þetta væri nú hlaðborð þannig að barnaverðið væri 1090. Þar sem vinkonur mínar voru sestar og búnar að borða og ekki vildum við missa af skemmtilegu hádegi greiddi ég semsagt 2480 fyrir súpu og salatbar fyrir okkur.
Súpurnar og salatið og brauðið smakkaðist allt saman ljómandi vel. Ég smakkaði 2 súpur, salsatómatkjúklingasúpu með nachos og sýrðum rjóma og austurlenska kókos grænmetissúpu. Þær voru rosalega góðar en báðar mjög sterkar og of sterkar fyrir 6 ára (sem reyndar borðar mjög gjarnan súpur - sérstaklega svona salsa með nachos) Af salatbarnum borðaðið sú stutta tómata, gúrkur og epli en klettasalat, rauðlaukur, baunasalöt og ólífur er nokkuð sem fæst börn hafa í hávegum.
Þetta var skemmtileg hádegisstund á föstudegi en ég hef aldrei áður borgað 1090 krónur fyrir 2 brauðsneiðar, nokkra grænmetisbita og nachosflögur.
Mér finnst eiginlega bara sorglegt að í tilfelli eins og þessu er ekki komið á móts við aldur barns eða næringarþörf, skýtur svolítið skökku við að barnið þurfi að borga nánast jafnmikið og sá fullorðni það munar 300 krónum og enn undarlegra er það þegar miðað er við aldur barns. Mjög oft á hlaðborðum er borgað hálft verð fyrir 6-14 ára og það finnst mér alveg sanngjarnt. Einnig þegar maður er að reyna að kenna börnum inn á ný brögð og að þjálfa bragðlaukana að það kosti þá bara heilan helling - ekki nema von að fólk velji þá þessa "fjölskyldustaði" með frönskum og pizzum.
Jæja er nú ekki vön að nöldra en gat bara ekki orða bundist...
Bestu kveðjur,
Addý

3 ummæli:

  1. Já nákvæmlega þetta er nöldur en ekki okurdæmi. Gæti hugsað mér að kíkja þangað við tækifæri hljómar vel.

    SvaraEyða
  2. tók eftir því að á amk 2 stöðum á Norðurlandi Vestra er boðið upp á soðinn fisk á barnamatseðli, á Kaffi Krók og minnir mig á ,,Allanum" Siglufirði:)

    SvaraEyða
  3. Það er heldur ekki barnamatseðill á Friðrik V á Akureyri en þegar við báðum þjóninn um að fá bara minni skammt af Plokkfisknum og borga minna fyrir ungan dreng þá var það ekket mál. Fengum líklega 60% af venjulegum skammti og borguðum 50% af verðinu. Frábær þjónusta.

    SvaraEyða