sunnudagur, 26. júlí 2009

Pizza Rizzo stal frá mér Kr. 6.540


Uppáhalds pizzustaðurinn minn á Íslandi var eitt sinn Pizza Rizzo.
Ég hætti alveg að skipta við aðra pizzustaði eftir að ég uppgötvaði ljúffengu eldbökuðu pizzurnar hjá Rizzo.
100 metra frá húsinu mínu er Dominos Pizza, aðeins lengra frá er hægt að finna Hróa Hött, og Wilson's Pizza er handan við hornið, en ég fór alltaf sérstaka ferð í hraunbæ til þess að sækja tvær 12" pizzur sem ég pantaði í síma hjá Rizzo handa mér og konunni minni. Ég var meira að segja búinn að prófa alls konar áleggskómbós og fann hina fullkomnu: pepperóní, rauðlaukur, ólífur og rjómaostur! Mæli með henni! En ekki hjá Pizza Rizzo!
Ástæðan fyrir því er að í nóvember á síðasta ári, stuttu eftir að Ísland fer á hausinn, þá ákveð ég að splæsa eina pizzu á útlenskan verktaka, sem var búinn að vinna fyrir okkur í nokkra mánuði, af því að hann átti afmæli. Ég fer með hann á Rizzo og ákveð að fá hádegistilboð handa okkur báðum, svona til að spara pening. Það var 12" pizza og drykkur á 1190 kall. Ekki svo slæmt fyrir ljúffenga pizzu og 0.5l af pepsí. Á meðan við vorum að panta spyr maðurinn við kassann hvar við séum að vinna, hann hafi séð svo marga útlendinga, eins og þennan sem var með mér, koma á staðinn og borða pizzu. Ég svaraði að ég ynni hjá fyrirtæki x og að þessi maður væri verktaki hjá okkur. Ég rétti honum svo debetkortið mitt á meðan við spjölluðum. Hann rennir því í gegnum posan, tvisvar eða þrisvar og heldur áfram að spjalla um að hann hafi verið í Pakistan eða Afghanistan eða eitthvað álíka og að hann þekki þetta svæði þarna, þaðan sem verktakinn kemur. Svo fer hann yfir á hinn kassann og rennur kortinu mínu í gegnum þann posa líka. Hann útskýrir ekki af hverju hann fer á annan posa. En af hverju ætti mig að gruna eitthvað? Maðurinn er vingjarnlegur og brosleitur, og svo erum við nú á Íslandi þar sem allir eru svo heiðarlegir, er það ekki? Og ég hugsaði mér bara að það væri eitthvað að posanum. Hann heldur meira að segja áfram að spjalla við okkur á meðan við erum að borða pizzuna sem hann seldi okkur.
Viku seinna fer ég yfir debetkortayfirlitið mitt í netbankanum og tek eftir að það eru þrjár færslur frá Rizzo þann 18.11.2008, og eru úttektirnar allar gerðar á uþb 1 mínútu. Fyrstu tvær færslurnar hljóða upp á Kr. 3.270,- og sú þriðja Kr. 2.380,- (2 x 1.190,-, semsagt hádegistilboðin).
Eins og sést á myndinni sem fylgir (úr netbanka Íslandsbanka), þá eru þetta 3 mismunandi færslur (númer 3016304, 3028221 og 1002600), þær eru skráðar á mínútu millibili (13:04:29, 13:03:23 og 13:03:23) og koma frá tveimur posum (posa númer 964607500010001 og 964607500010002).
Ég sannfærði sjálfan mig um að posinn hafi verið bilaður og hafi óvart tekið af mér 2 x 3.270,- þannig að ég prentaði út kvittanirnar þrjár úr netbankanum og fór með þær á Pizza Rizzo. Þar var ung stelpa að afgreiða, þannig að ég bað um að fá að tala við þann sem réði. Hún sagði mér þá að eigandinn væri ekki við en að hún gæti kannski aðstoðað. Ég útskýrði fyrir henni hvað hafði gerst og sýndi henni kvittanirnar sem sönnun. Hún var mjög skilningsrík og sagði meira að segja að þetta hafi gerst oft áður! Hún tók kvittanirnar, sem ég hafði skrifað GSM númer, nafn, kennitölu og reikningsnúmer á svo að eigandinn gæti nú borgað mér til baka, og sagðist ætla að láta eigandann fá þær.
Eftir viku var ekkert komið inn á reikninginn minn, þannig að ég ákveð að fara þangað aftur með, og aftur með netbankakvittanir handa þeim. Aftur lendi ég á mjög vingjarnlegum og skilningsríkum starfsmanni, sem lofar að láta eigandann hafa kvittanirnar.
Viku seinna var ekkert komið inn á reikninginn.
Nú var ég búinn að gefa þeim tvö tækifæri til þess að leiðrétta "mistökin" en ekkert gerðist.
Þá ákvað ég að hringja í neytendasamtökin sem "vinna fyrir þig"! Mjög vingjarnleg kona ráðlagði mér að tala við þjónustufulltrúa í bankanum mínum. Það ætti að vera hægt að fella niður þessar tvær greiðslur af því að þær væru augljóslega rangar.
Ég hringdi þá í útibúið mitt og fékk enga hjálp. Mér var sagt að af því að þetta var debet kort sem ég greiddi með, þá þyrfti ég að fá peninginn til baka frá Pizza Rizzo, og í versta falli kæra fyrirtækið.
Ég hringdi þá aftur í neytendasamtökin og spurði hvort ég gæti kært pizzustaðinn. Konan sem ég talaði við sagðist geta útvegað mér lögfræðing án kostnaðar, en þá þyrfti ég að gerast meðlimur samtakanna. Félagsgjaldið er 4.300,-. Ekki svo mikið fyrir ársgjald, en ég var að reyna að fá til baka 6.540,- (prinsippmál hjá mér) þannig að 2.200 krónurnar sem ég fengi nettó yrðu ekki þess virði að fara í mál.
Ég ákvað þá að ekki eyða meiri tíma í þetta, en í staðinn segi ég öllum sem ég þekki frá þessu og bið þau að sniðganga alla Pizza Rizzo veitingastaðina. Fyrir stuttu rakst ég á þessa vefsíðu þína, og ákvað að dreifa boðskapnum áfram til þín.
Svona sé ég þetta fyrir mér: maðurinn á pizzustaðnum hefur væntanlega haldið að ég væri moldríkt kapitalistasvín með fyrirtækjakort og að það væri allt í lagi að stela smá pening frá fyrirtækinu sem ég vinn fyrir. Hann rennur kortinu í gegn á posa #964607500010002, slær inn 3.270,- og sendir það tvisvar. Færir sig svo yfir á posa #964607500010001 og slær inn rétta upphæð 2.380,-. Hann var svo snöggur og lipur við að gera þetta, að hann er greinilega æfður posaþjófur.
Kveðja,
Halldór

14 ummæli:

  1. Mér finnst soldið asnalegt hjá þér að vera búinn að gefast upp á eigandanum, þarft að tala við hann sjálfan en ekki gegnum starfsmenn

    SvaraEyða
  2. Einmitt, kannski skiluðu kvittanirnar sér ekki einu sinni til eigandans...

    SvaraEyða
  3. Það sem þú getur gert er að fara í bankann þinn og fengið sérstakt blað hjá gjaldkeranum og gert athugasemd við færslunar sem á við. Þessa athugasemd sendir bankinn þinn annað hvort beint á Rizzo eða á Borgun og Valitor sem svo senda það á Rizzo. Rizzo þarf þá að koma með góða útskýringu á þessum kaupum þ.e.a.s. í þessu tilfelli kvittunina með undirskrift frá þér.
    Þeir hafa til þess að mig minnir 5-6 daga.
    Víst að þú verslaðir bara einu sinni þarna á þessari dagsetningu og tíma ættu þeir bara að vera með sönnun fyrir einum viðskiptum en ekki öllum hinum.
    Í þessu tilviki ef þetta væri kreditkort væri þetta bara bakfært aftur á þig og ég held að það sé eins með debetkortin en samt ekki viss.

    Kv. Stefán

    SvaraEyða
  4. Ég er að vinna hjá fjármálastofnun og þekki svona mál. Það sem þú þarft að gera er að gera endurkröfu á færslurnar sem þú gerðir ekki. Bankinn þinn á að hafa rétta eyðublaðið og á að aðstoða þig við málið. Bankastarfsmaðurinn getur svo sent málið í endurkröfudeild Valitors (ef þú ert með Visa Electron debetkort) eða Borgunar (ef þú ert með Maestro debetkort) sem vinna í málinu. Ef þú hefur ekki kvittað undir alla slippana þá færðu peninginn þinn til baka. Svo einfalt er það :)

    SvaraEyða
  5. Nafnlaus 1&2: Var þetta það eina sem hneikslaði ykkur? Mér finnst "soldið asnalegt" að stela. Ég átti ekkert að þurfa að standa í þessu frá byrjun.

    Nafnlaus 3&4: Takk fyrir ábendingarnar! Mér var sagt að leysa þetta sjálfur þegar ég bað um aðstoð frá bankanum mínum, en reyni kannski aftur.

    SvaraEyða
  6. Nafnlaus nr. 5, höfundur greinarinnar, uuuu já, frekar myndi ég hafa upp á eigandanum í stað þess að skilja kvittanirnar eftir hjá einhverjum sumarstarfsmönnum (..."Þar var ung stelpa að afgreiða...") sem gleyma þessu strax. Allavega væri það ofar á mínum forgangslista heldur en símtal í neytandasamtökin þar sem þú hyggst kæra staðinn...

    Pfff

    SvaraEyða
  7. Þetta var í nóvember, semsagt ekki sumarafleysing, og sagði hún mér "þetta hefur gerst oft áður". Hún var mjög samviskusöm og miður sín yfir þessu. Það var alveg greinilegt. Stuttu seinna afhenti ég öðrum starfsmanni kvittanir og ekkert gerðist þá heldur. Ég trúi því ekki að hvorugur starfsmaðurinn hafi áframsent kvittanirnar. Maðurinn sem tók þessar tvær auka færslur af mér var sko enginn vitleysingur. Þetta var maður á aldrinum 40-50, sem vissi nákvæmlega hvað hann var að gera.
    Ég er hættur að verja mig fyrir að hafa verið rændur. Pfff.

    SvaraEyða
  8. anskoti eru þetta lákúrulegir "viðskiptahættir" hjá Rizzo

    SvaraEyða
  9. Ég vann í verslun og ég hef séð svonalagað í kortakerfinu .. sem betur fer ekki algengt, en var heljarinnar maus að laga, tók einhverja mánuði fyrir tölvuspekúlanta að laga þetta (kannski líka af því þetta var svo sjaldgæft að það þurfti að bíða jafnvel nokkrar vikur eftir næsta svona feil til að menn áttuðu sig á því að þetta væri ekki komið í lag) .. veit ekki hvað gerist, en af einhverri ástæðu þykist posinn ekki virka en er í raun að rukka þig síðustu færslu á undan (sem útskýrir líka muninn á upphæðunum) .. starfsmaðurinn áttar sig náttúrulega ekki á þessu (þótt hann sé maður á fimmtugsaldri sem "veit nákvæmlega hvað hann er að gera") þar sem posinn virðist hreinlega ekki vera að ná sambandi..

    Pappírssneplar eiga það til að týnast þegar þeir þurfa að berast frá einum til annars, þótt minni líkur séu á að það gerist tvisvar, þá gerist það. Efast um að þar sé einlægur brotavilji eigandans, enda er talað um að einn óánægður kúnni sé á við tíu eða tuttugu óánægða í umtali. Um leið og þú næðir í hann persónulega efast ég ekki um að málið yrði leyst í snatri. Ég set hins vegar stærra spurningamerki við bankastarfsmanninn sem sagði þér að "redda þessu sjálfur", því þeir eiga að sjá um samskipti við kortafyrirtækið, sem síðan rukkar Rizzo um kvittun (sem væntanlega komu aldrei fyrir fyrri færslunum ef ég man rétt þegar þetta kom upp í minni verslun), og ofrukkunin endurgreidd í kjölfarið.

    SvaraEyða
  10. ég lennti í því nákvæmlega sama og þú varst að lennda í, nema við pizza rizzo á grensásveginum, og þegar ég kom þangað með kvittanirnar, þá var bara mætt manni með skæting og sagt, þú hefur sennilegast til keypt 3 pizzur, ekki bara eina, fáum fullt af svona vitleysingum hingað sem reyna að ljúga upp á okkur um að taka of mikið af kortinu þeirra.

    SvaraEyða
  11. Ég lendi í nákvæmlega sama atviki fyrir rúmlega tveimur árum, þá fékk ég reyndar endurgreidd strax og mér tjáð að unnið væri að viðgerði á þessari villu, sú viðgerð hlýtur enn að standa yfir !!!

    SvaraEyða
  12. borga með peningum,nota aldrey kort bara til að taka út peninga.Enþá eru Islendingar að falla í grifjuna að borga á börum með korti algjör vittleysa.Lærið að lifa fólk.

    SvaraEyða
  13. Þetta verður leiðrétt strax ef þú hringir í 8989979 Sigfús.
    Biðjumst afsökunar á þessum leiðu mistökum.

    Eigendur Rizzó Pizzería.

    SvaraEyða
  14. Mér er alveg sama þó að eigendurnir borgi Halldóri þetta aftur. Þessi staður er komin í svörtu bókina mína og mun ég þar með aldrei versla við hann. Útaf þessu:
    "þetta hefur gerst oft áður"
    GRRRAAAAAWRRRR!!! AAAAAAAAAAAAAARRRG!!! HVERSKONAR ROTTU ÞJÓFAR ERU ÞIÐ EIGINLEG!!
    EKKI FRÆÐILEGUR MÖGULEIKI Á AÐ ÉG VERSLI VIÐ ÞENNAN STAÐ!

    Takk Halldór fyrir þessa ábendingu.

    SvaraEyða