fimmtudagur, 6. ágúst 2009

Við viljum fullorðinsstílabækur

Ég álpaðist til að stofna Facebook-grúppu rétt áðan, hún heitir „Við viljum fullorðinsstílabækur!“ Kannski gerist enginn meðlimur í henni, þetta er hugsanlega bara sérviska mín. Mér finnst vanta svo tilfinnanlega stílabækur með litlu línubili, þéttari línum. Íslenskar stílabækur eru allar með 9 mm línubili, jafnvel smæstu minniskompur, sem er sóun á pappír, en það sem verra er, það er leiðinlegt að skrifa í þær. Innfluttar bækur eru yfirleitt með þéttari línum, 6-7 mm, hvaðan sem þær koma. En hafi þær verið dýrar fyrir, þá eru þær orðnar viðbjóðslega dýrar eftir gengishrun. Stykkið af moleskine, minni gerðinni, er orðið öðru hvoru megin við 5000 krónur.
Ég veit ekki hvort á bakvið íslensku framleiðsluna hvílir sú hugmynd að hér skrifi enginn á pappír nema börn, eða hvað veldur … en er semsagt að vona að ef þetta þreytir fleiri en mig, og nógu margir tala um það, þá gæti einhver stílabókaframleiðandi óvart hlerað samræðuna á kaffihúsi, eða rekist á hana í blaði, gleymt henni svo – en vaknað einn daginn með snilldarhugmynd í kollinum sem hann veit ekki hvaðan kom: þéttari línur!
Ég held nefnilega að það sé tímasóun að nefna þetta við framleiðendurna beint, því upp til hópa eru menn hér of þverir til að taka vel einhverjum tilmælum eða ábendingum utan úr bæ.
Hér fyrir neðan er textinn sem fylgdi Facebook-grúppunni úr hlaði. Enn sem komið er sýnist mér ég vera eini meðlimurinn, og kannski verður það bara þannig. Annars væri fyndið að reyna að virkja Rithöfundasambandið í málinu … ég held að á fundum þess sé annars aðallega rætt um sumarbústaðamál.

„Íslenskir notendur penna og pappírs líða fyrir markaðsbrest, þar sem engar stílabækur eru framleiddar á landinu með línubili sem hentar fullorðnum. Allar innlendar stílabækur –og jafnvel smæstu minniskompur – eru framleiddar með 9 mm línubili.
Innflutt okurvara nýtur á meðan mikillar hylli.
Við skorum á íslenska framleiðendur stílabóka og minniskompa að framleiða bækur með 6-7 mm línubili.
Sé búið um þær í glyslausar kápur og þær seldar á sanngjörnu verði munu þær slá í gegn. Liggi síðurnar þétt hver upp að annarri, þannig að þær líti út fyrir að bjóða jafn mikinn ritflöt innan rúmtaksins og nokkur kostur er mun sú stríða ásjóna ögunar og örlætis laða enn fleiri að bókunum. Ef nokkur kostur er, að auki, að rúna ytri síðuhornin af um nokkra millimetra – alls ekki um of, bara rétt svo að ekki brotni upp á þau við velking í töskum – munu allir fullorðnir ritfanganotendur taka ástfóstri við gripina.
Framleiðendur, söluaðilar, neytendur og íslenska krónan munu njóta góðs af þeirri bragarbót.
Síðan viljum við ódýrari teiknipappír!“

Haukur Már Helgason.

2 ummæli:

  1. Hæ – takk fyrir að birta þetta nöldur. Meðlimir Facebook hópsins eru nú yfir 160, og bætist í, hér: http://www.facebook.com/group.php?gid=110720596854&ref=ts

    Með kveðju,

    HMH.

    SvaraEyða
  2. Það sem fólk skráir sig á þessu vesalings Facebook....

    SvaraEyða