laugardagur, 30. maí 2009

Um barnabílstóla

Ég sá athugasemd frá konu einni á síðunni þinni um barnabílstóla og tek undir það með henni að það þurfi að skoða þau mál. Þetta er orðin mikil fjárfesting og erfitt að velja sér stól.
Ég er einmitt í þessum hugleiðingum núna og var búin að ákveða að leigja mér stól frá VÍS en þar sem ég er í viðskiptum við þá er leigugjaldið 700 krónur á mánuði. Ég setti kosti og galla niður fyrir mér til að eiga auðveldara með að velja leið og fannst leigan físilegust af þessum ástæðum:
Mér reiknaðist til að það myndi taka mig tæp 5 ár að greiða andvirði stóls sem ég get keypt úti í búð ef leigugjaldið myndi haldast 700 krónur út tímabilið
Ég get alltaf skilað stólnum og þar með sagt leigunni upp, svo ég er ekki að binda mig neitt eins og ég gerði þegar ég tók húsnæðislánið eða bílalánið.
Það er frábært að geta skilað stólnum og fengið annan sem hentaði betur þegar barnið er orðið stærra í stað þess að vera með bílskúrinn fullan af of litlum barnabílstólum á einhverjum tímapunkti.
Mér hafði verið sagt að hver viðskiptavinur fengi nýjan ónotaðan stól svo þá er maður ekki að taka séns á því að stóllinn sé í lagi eins og maður gerir þegar maður fær hann lánaðan.
En svo fékk ég þær upplýsingar hjá VÍS í gær að ég verði að bíða eftir því að einhver annar skili stól til að ég geti fengið – sem sagt ég fæ notaðan stól. Ég get ekki valið hvað hann hefur verið notaður lengi eða hversu mörg börn hafa notað hann. Ég get ekki verið viss um að stóllinn sé „tjónlaus“ og ég veit ekkert um umhirðu stólsins á neinn hátt.
Þetta fældi mig frá því að taka stól á leigu hjá VÍS og ég ákvað að kaupa mér frekar stól og sleppa því að greiða af bílaláninu þennan mánuðinn því hvort vill maður heldur, öryggi barna sinna í umferðinni eða halda fjárhagslegu mannorði sínu.
En mér finnst nauðsynlegt að benda fólki á þetta því stólarnir endast ekki lengi, mig minnir 2 -3 ár og mér er sagt að einungis sé borin ábyrgð á öryggi stólsins fyrir 2 börn. Ég sel þessar upplýsingar ekki dýrari en ég keypti þær.
Vonast til að sjá umræðu um þessi mál.
Anna

4 ummæli:

  1. Ég veit það ekki en ég er með varasjóð sem myndi dekka svona útgjöld hjá mér einn mánuðinn þannig að ég þarf ekki að sleppa því að borga af láni út af einhverjum óvæntum útgjöldum. Tek bara alltaf a.m.k. 10% af laununum mínum og set til hliðar og slepp við yfirdráttinn eða dráttarvexti og vanskilagjald. Þetta er kannski eitthvað sem unga fólkið í dag þyrfti að læra.

    N.B. ég er 25 ára og fluttur að heiman.

    SvaraEyða
  2. VÍS henda ekki stólum sem er skilað inn. Þeir eru yfirfarnir og ef þeir eru í lagi eru þeir leigðir út áfram. Mér finnst það bara eðlileg vinnubrögð.

    SvaraEyða
  3. Sá sem svarar hérna efst. Þú ert greinilega afskaplega forsjáll drengur og klapp fyrir þér að vera fluttur að heiman 25 ára. En áður en þú ákveður að sá sem setur inn þetta innlegg sé ekki ábyrgur í fjármálum þá vil ég benda á eitt.

    Það eru mjög margir sem eru búnir með varasjóðinn sinn um þessar mundir. Margir sem ekki geta lagt lengur 10% til hliðar af laununum sínum. Það eru líka margir sem eru atvinnulausir, hafa minnkaðar tekjur vegna þess og jafnvel hærri útgjöld því verðbólgan hefur aukist. Þetta er venjulegt fólk sem hefur jafnvel alltaf verið forsjált í fjármálum en er nú að sigla í strand. Þá kemur upp forgangsröðin, í hvað eiga peningar þessa mánaðar að far, bílstól eða bílalán????

    Gangi þér vel

    SvaraEyða
  4. Nýjir bílstólar í dag endast í 7 ár skv upplýsingum frá framleiðanda. Það er auðvitað miðað við að ekki verði tjón á stólnum. einnig þarf að athuga hvort hann hafi staðið mikið í beinu sólarljósi því það styttir endingartíma stólanna.
    En það er allt í lagi með þessa stóla frá VÍS þó þeir séu notaðir, sé ekk hvernig VÍS gæti staðið í því að leigja stóla ef þeir ætluðu að láta ALLA fá nýja stóla....

    SvaraEyða