þriðjudagur, 19. maí 2009

Ábending fyrir körfuboltaáhugamenn

Vildi benda á áhugavert atriði varðandi áskrift að Stöð 2 Sport. Þeir auglýsa grimmt alls konar íþróttaviðburði og tilboð. Ég er mikill áhugamaður um körfubolta og þar af leiðandi um NBA-deildina sem er nú í fullum gangi, úrslitakeppnin langt komin og mikið á sig leggjandi til að sjá þessa leiki.
Ég hringdi því um daginn í Stöð 2 og vildi vita hvað áskrift í einn mánuð kostaði. Ég vissi reyndar að einn mánuður yrði óhagkvæmasta einingin því það er yfirleitt hagkvæmara að binda sig til lengri tíma, t.d. 3 eða 6 mánuði og þá fær maður lægra gjald á mánuði en þar sem ég var fyrst og fremst að horfa á þessa körfuboltaleiki og vitandi að deildin verður búin fyrripartinn í júní þá vildi ég bara taka einn mánuð. Ég fékk þær upplýsingar að mánuður kostaði um 6 þúsund krónur en að það væri líka hægt að kaupa áskrift í hálfan mánuð. Það var 15. maí þegar ég hringdi og ég bað um að taka mánuð. Þá fékk ég að vita að mánaðartímabiliið hjá þeim væri alltaf frá 5. - 5. hvers mánaðar þannig að ef ég tæki mánuð þá yrði það frá og með 5. maí! Ég væri s.s. að borga fyrir mánuð en fengi bara 20 daga. Hinn kosturinn sem kerfið bauð mér upp á var að taka hálfan mánuð en þá var það bara hægt frá og með 20. maí, þannig að ég myndi þurfa að bíða í fimm daga og m.a. missa af nokkrum leikjum sem mig langaði mjög til að sjá.
Það var alveg sama hvernig ég sneri þessu við stelpuna í símanum, öll svörin voru á þá leið að það væri bara ekkert hægt að gera þetta öðruvísi, "reglurnar bara eru svona" og það bara væri ekki hægt að fá þetta neitt öðruvísi. Ég var samt ekki að biðja um annað en að fá þetta í mánuð og borga fyrir mánuð! Jafnvel þótt ég biðist til þess að taka mánuð frá og með 5. maí gegn því að fá smá afslátt þá gekk það ekki. Ég fékk að tala við yfirmann sem gaf mér sömu svörin aftur - algert "computer says no" dæmi.
Ég benti þeim á að þetta væri býsna óþægilegt, því manni liði eins og maður væri að tapa peningum við að versla við þá þegar díllinn var svona. Þá fékk ég svar til baka um að mér væri auðvitað frjálst að versla við þá en það er nú kannski ekki alveg svo einfalt vegna þess að þeir eru eina stöðin hér heima sem býður upp á þetta.
Ég endaði á að fylgja sannfæringunni og sleppa alveg að versla við þetta batterí en taldi mig reyndar þurfa að bíta í það súra epli fyrir vikið að geta ekkert horft á körfubolta. En viti menn - ég fann síðan mun betri lausn á netinu, þar sem vefur NBA-deildarinnar, nba.com, býður upp á live-feed frá öllum leikjum í úrslitakeppninni og áskriftin að því kostar 30 dollara. Þó gengið sé hátt er það samt ekki nema 3600 kall sem er mun ódýrara en díllinn sem Stöð 2 Sport býður upp á. Ég sló því til og fæ fín gæði á útsendingunni.
Mátti til með að koma þessu á framfæri - óþolandi þegar fyrirtæki með einkaleyfi og einkarétt reyna að troða viðskiptavinum í svona óhagstæða samninga sem eru hannaðir til þess að fyrirtækið þurfi að gera sem minnst en viðskiptavinur taki á sig óþægindi eða aukakostnað.

Kveðja,
Árni

8 ummæli:

  1. Æi greyið mitt en það röfl. Þetta er búið að vera svona hjá stöð2 í a.m.k. 15 ár ef ekki lengur. Mér finnst nú bara flott af þeim þó að bjóða upp á hálfan mánuð(10 dagar) á hálfu verði í staðinn fyrir það að þú greiðir fyrir heilan mánuð en færð bara hálfan eða einfaldlega bíðir til næstu mánaðarmóta.

    SvaraEyða
  2. Vá hvað fólk getur verið leiðinlegt!

    Hvernig væri það að þeir myndu bjóða þessa þjónustu eins og flest almennileg fyrirtæki gera? S.s. borgar fyrir mánuð og FÆRÐ MÁNUÐ en ekki 20 daga (snuðaður um 10 daga) eða borgar fyrir 10 daga en ekki tvær vikur (ert s.s. snuðaður um 4 daga).

    Mér er alveg sama þótt þetta sé búið að vera þarna í 100 ár... þetta er bjánalegt og fælir fólk frá því að kaupa hjá þeim áskrift.

    Í þessu dæmi hefði Stöð 2 einfaldlega getað reiknað út hvað þessir 20 dagar sem eftir voru af mánuðnum myndu kosta útfrá mánaðarverði og kannski e-ð vægt gjald útaf því (100kr.) og voilá, þeir væru með aðila í áskrift. En í staðinn vilja þeir að hann nái í þetta á netinu eða með öðrum leiðum. Glæsilegt og klassa þjónusta!

    SvaraEyða
  3. biddu þú með 1 commentið viltu ekki bara fara að sleikja upp stöð tvö aðeins meira þetta eru okrarar!!!

    SvaraEyða
  4. Það má einnig benda á tilboð sem þeir buðu fyrir um 1,5 mánuði síðan. Ég var að flytja þegar spennan í enska boltanum var sem mest. Sá að þeir auglýstu grimmt um þær mundir tilboð með þriggja mánaða bindingu. Sérstaklega fyndið í ljósi þess að deildin klárast nú um næstu helgi ... og því hefðiru ekki verið að fá neitt fyrir þriðja mánuðinn...

    SvaraEyða
  5. Mér þætti nú fróðlegt að vita hvort það væri hægt að gerast áskrifandi að Mogganum í kringum 15. dag mánaðar eða jafnvel gerast áskrifandi í 30 daga hvenær sem er og láta það taka gildi samdægurs.

    SvaraEyða
  6. Ástæðan fyrir þessu er að kerfin sem opna áskriftarstöðvarnar opna minnst einn mánuð í einu. Þetta eru kerfi sem Síminn og Vodafone reka og ekki er hægt að breyta nema af framleiðanda sem er erlendur í öllum tilfellum.Þar sem ég þekki til erlendis er ekki hægt að kaupa minna en 3 mánuði í einu í áskrift.

    SvaraEyða
  7. Afhverju þarf alltaf að vera að koma með einhver leiðinda comment! Þetta er síða til að benda fólki á ýmislegt of ef fólk er svona rosalega gott með sig eins og í commenti 1, þá bara sleppa því að skoða síðuna! Alveg rosalega dónalegt.

    SvaraEyða
  8. Fyrirgefðu hvað í ósköpunum er verið að skammast yfir því að það sé verið að röfla yfir því að fólk nýti síðuna til þess að koma með röfl í staðinn fyrir okurdæmi.
    Það er mjög rökrétt að vera með áskriftartímabilið frá 5.-5. hvers mánaðar því þá eru alveg örugglega laun fólks komin inn og menn lenda ekki í því að þetta fari í vanskil. Það er líka mjög rökrétt hjá kortafyrirtækjunum að taka af kortunum 15. hvers mánaðar(kjósi maður að þetta sé tekið beint af kortinu). Því það þarf alveg tíma til þess að reikna svona hluti út og ganga frá þeim. Laun í mínu fyrirtæki eru t.d. reiknuð frá 16.-15. hvers mánaðar svo að launadeildin hafi hálfan mánuð til þess að reikna launin út. Aftur mjög rökrétt.
    Mér finnst hinsvegar alveg réttmætt að kvarta soldið vel og vandlega yfir því hversu dýr áskriftin er enda lítil sem engin samkeppni á þessum markaði. Allaveganna tími ég þessu ekki og bara alls ekki. Bara áskrift af Stöð 2(Bíó og Extra með) í Vild m.v. 12 mánuði gera 75.132 kr. Færi frekar nokkrum sinnum í bíó og í helgarferð til útlanda. fyrir þann penining.

    SvaraEyða