mánudagur, 25. maí 2009

G(r)e(i)ðslag sumra starfsmanna Icelandair

Ég hef ósjaldan, sökum breytilegrar dagskrár, þurft að seinka flugi og breyta farmiðum - auðvitað með tilheyrandi breytingagjöldum. Gott og vel.
Það sem mér hefur þótt áhugavert er að verðið (fast breytingagjald og uppfærsla í dýrara sæti (ef ekkert "ódýrt" sæti býðst)) virðist fara eftir geðþótta starfsmanna Icelandair. Þetta hef ég reynt nokkrum sinnum - og fengið mismunandi niðurstöður þegar ég hef hringt með nokkurra mínútna millibili - og hefur þá munað tugum þúsunda.
Almennilegir og viðmótsþýðir starfsmenn virðast alltaf finna betra verð en þeir sem svara dónalega og eru sennilega löngu kulnaðir í starfi. Merkilegt!
Ég átti bókað flug með Icelandair til Kaupmannahafnar á dögunum. Þegar ég bókaði ferðina var töluvert ódýrara að bóka báðar leiðir en bara aðra.
Við innritun í Leifsstöð kom í ljós að ferðinni hafði verið eytt í kerfinu þar sem ég hafði ekki nýtt fyrri ferðina (hef aldrei lent í slíkum vandræðum hjá Icelandexpress). Mér var bent á að snúa mér á söluskrifstofuna - nokkrum metrum frá innritunarborðinu. Starfsmaðurinn þar sagði að miðinn væri sama sem ógildur og bauð mér að kaupa nýjan miða á rúmar fimmtíu þúsund krónur (í síður en svo fulla vél til Kaupmannahafnar)! Það þótti mér heldur mikið og spurði hvort fleiri vélar færu til Kaupmannahafnar þennan sama dag. Þá kom í ljós að vél keppinautarins átti áætlaða brottfor eftir klukkustund og þegar ég sýndi á mér fararsnið bað starfsmaðurinn mig að bíða þar sem hann vildi athuga hvað "þeir" myndu bjóða og átti sennilega við hærra settari samstarfsmenn sína á hinum enda tölvulínunnar. Eftir stutta stund (innan við mínútu) og lyklaborðsglamur kom í ljós að ég gat keypt nýjan miða (eða endurnýjað - eftir því hvernig á það er litið) á þrettán þúsund krónur. Ég tók auðvitað þessu einstaka tilboði án þess að orða hugsanir mínar sem slíkar til starfsmannsins við hann.
Þrátt fyrir að lenda reglulega í uppákomum sem þessum hef ég lítið aðhafst (fyrir utan nokkur hundsuð tölvuskeyti til Icelandair) vegna anna og samfélagslegs ábyrgðarleysis. Batnandi mönnum er best að lifa og eru skrif þessa bréfs er dauft mjálm en samt vonandi eitthvað.
Þess má geta að starfsstúlkan við innritunarborðið var einstaklega almennileg og sagði næst ætti ég bara að hringja og láta vita að ég myndi ekki nýta mér fyrri ferðina til að koma hugsanlega í veg fyrir svipuð vandræði. Ég held að það verði samt langt í næst.
Ég bendi fólki á að vera vakandi, spyrja spurninga og að kurteisi er dásamleg.
NN - nafnleyndar óskað

1 ummæli:

  1. Fyrir 2 árum var ekki nokkur leið að hringja og láta vita að maður myndi ekki nýta sér fyrri ferðina. Ég er viss um að það er ennþá þannig.
    Þegar ég hringdi í Icelandair og ætlaði að sleppa 1. legg í flugi var mér sagt að það væri ekki hægt - ef maður mætir ekki í einn legg í flugleið fær maður stimpilinn "no-show" og allir leggir í farmiðanum eftir það eru gerðir ógildur.
    Þjónustufulltrúinn sagðist ekkert geta gert fyrir mig - punktur.

    Ef menn ætla að kaupa miða sem þeir ætla ekki að nota er best að hafa þá í lok ferðar til að losna við svona rugl.

    SvaraEyða