þriðjudagur, 19. maí 2009

Þögnin ein til svara?

Ég ákvað að leggja smá upphæð til ávöxtunar inn á Tvennu reikning hjá
Netbankanum sáluga. Reikningur þessi var verðtryggður með 36 mánaða
binditíma. Bankinn lofaði í skilmálum að í lok hvers árs yrðu vextir
Tvennu reiknings bornir saman við svokallaðan Markaðsreikning
(óverðtryggðan reikning) og skyldi ég hljóta þá ávöxtun er hærri væri
hverju sinni.
Nú þekkja flest allir að Nýja Kaupþing yfirtók rekstur, skuldir og
innistæður á reikningum Netbankans.
Af þessu tilefni hafði ég samband við Nýja Kaupþing til að fá vitneskju
um innistæðu mína. Jú hún var þarna, komin inn á "Stjörnubók" á lægri
vöxtum en áður og þegar ég innti eftir kjörum kom á daginn að
fyrrgreindir samanburðarvextir voru ekki til boða hjá hinu Nýja
Kaupþingi. Sem sagt Nýja Kaupþing hafði hirt peningana mína út úr
Netbankanum, en ekki kjörin mín.
Ég var ekki sáttur við þennan framgangsmáta og bað Nýja Kaupþing um að
aflétta 36 mánaða binditíma af bókinni minni svo ég gæti leitað nýrra
ávöxtunarleiða.
Nýja Kaupþing svaraði ekki beiðni minni og leitaði ég því til
Umboðsmanns neytenda, hann svaraði ekki. Þá hafði ég samband við
Neytendastofu sem benti mér á Fjármálaeftirlitið. Þar liggur kvörtun
mín og beiðni um afléttingu á bindiskyldu um þessar mundir. - Allt er
þetta á eins hendi, RÍKISINS, þar sem hver bendir á annan án þess að
svara réttmætum fyrirspurnum og beiðnum um úrlausnir. - Spurning hvort
við séum á fullri siglingu við að taka upp ekki-úrlausnir kenndar við
hið ágæta Parkinson lögmál?

Kv. G.Geir

6 ummæli:

  1. Djöf væl þetta. Veit ekki betur en að Netbankinn fór á hausinn og Kaupþing þurfti að bjarga innistæðunni þinni að beiðni ríkisins. Afhverju ferðu ekki bara í næsta útibú bankans og tekur út innistæðuna? Amk gerði ég það og það var ekkert mál.NN

    SvaraEyða
  2. Eins og ég sé þetta gerði bankinn og viðskiptavinurinn samning.

    Bankinn fékk peninga viðskiptavinarins í hendurnar (sem hann ÁTTI að ávaxta, spurnin hvernig það gekk) og í staðinn átti vv að fá einhver réttindi og hlunnindi.

    Þegar Kaupþing tók yfir innistæðuna (s.s. fékk peninginn) finnst mér rétt að samningurinn átti að standa. Þ.e. að þær leiðir sem fólk er með, s.s. sparnaðarleiðir, hefðu auðveldlega átt að geta haldið sér.

    Svo er spurning hversu auðvelt það reynist að fá þetta útborgað aftur þar sem þetta var á 36 mánaða binditíma.

    Annað: Afskaplega finnst mér fólk vera misnota nafnleyndina á athugasemdum með óþarfa skítkasti í garð þeirra sem koma með athugasemdir.

    SvaraEyða
  3. Eins og ég sé þetta þá gerði viðskiptavinurinn og Netbankinn samning um ávöxtun. Netbankinn fer svo á hausinn og sá samningur er því ekki lengur til. Að beiðni ráðherra var innistæðan færð yfir í Kaupþing og mín reynsla er sú að það er ekkert mál að taka út peninginn. Vv og Kaupþing gerðu ekki með sér neinn samning og Kaupþing er ekki þvingað til að taka yfir samninga gjaldþrota banka. Ef fréttir eru svo skoðaðar þá fékk Kaupþing ekkert fjármagn frá Netbankanum, eina sem færðist voru tölur á skjá.
    Svo að lokum. merkilegt hvað hægt er að skrifa hérna sem kemur í raun okri ekkert við. Hljómar sem væl í mínum eyrum.

    SvaraEyða
  4. Athugið: "Hér eru birt okurdæmi og neytendapælingar frá lesendum" segir í yfirskrift þessa vefs.

    Smá neytendapæling: Ríkið færir innlán einstaklings yfir í eigin banka. Skammtar honum lága vexti sem eru langt frá því er upphaflega var samið. Féð er sagt bundið til 36 mánaða og á þeim mánuðum er bókareigandi að tapa umtalsverðum vöxtum. - Vildir þú ágæti "Nafnlaus" una þeim kjörum að hluta ævisparnaðar þíns væri ráðstafað með slíkum hætti?

    Kv. G.Geir

    SvaraEyða
  5. Finnst það hæpið G.Geir að viðkomandi myndi sætta sig við það. Og ef hann myndi lenda í þessu sjálfur myndi hann sennilega ekki kalla það væl ef hann reyndi fá úr því breytt.

    SvaraEyða
  6. Fór Netbankinn á hausinn?
    Það var SPRON sem fór á hausinn. Netbankinn var/er sér fyrirtæki sem var í eigu SPRON.

    Ég er líka einn af þeim viðskiptavinum Netbankans sem var fluttur nauðungarflutningum yfir til þess banka sem ég hefði hvað síst farið í viðskipti við. Og jú, settur á mun lakari kjör.

    SvaraEyða