miðvikudagur, 29. apríl 2009

Myglusveppur í Jó jógúrt.

Ég verð að koma þessu á framfæri þar sem þeir hjá Mjólku virðast ekki ætla að gera neitt í þessu þrátt fyrir að ég hafi haft samband við þá.
Málið er að ég keypti reglulega Jó jarðaberja jógúrt í Bónus og borðaði á morgnanna, en svo núna fyrir páska kaupi ég 2 dósir sem eru með myglusvepp í lokinu og það langt fyrir síðasta söludag. Ég hef samband við þá hjá Mjólku og þeir lofa að koma og athuga þetta en það vill ekki betur til en að ekkert gerist fyrr en ég hef samband við þá aftur. Gæðastjórinn þeirra kemur með nýjar Jó dollur handa mér, 2 jarðaberja og 1 sólberja og lofar að bæta úr þessu. Ég var bara ágætlega sáttur þangað til ég opna sólberja jógúrtina og sé nokkra loðna sveppi í lokinu og ofaná jógúrtinni. Þetta varð til þess að ég sendi Ólafi Magnússyni framkvæmdastjóra Mjólku tölvupóst þar sem ég sagði honum að ég hefði ekki lyst á að borða jógúrtina þeirra og ég vildi bara fá endurgreitt. Ég hef ekkert svar fengið frá honum og hef ekki hugmynd hvert ég á að snúa mér.
Það er alveg á tæru að það er eitthvað mikið að framleiðslunni hjá þeim fyrst að það er mygla í öllum þessum dósum sem eru allar með sitthvorn framleiðsludaginn, sitthvor tegundin og langt í síðasta söludag. Mig langar bara til að vara fólk við að versla ekki Jó jógúrt fyrst að Mjólka hefur ekkert gert til að fullvissa mig um að það sé búið að koma í veg fyrir þetta. Að minnsta kosti kíkja í lokið á dósinni, sveppurinn er svona hvít loðin bóla. Alls ekki borða jógúrt með myglusvepp jafnvel þó að hann líti sakleysislega út. Sjá: http://www.mast.is/flytileidir/matvaeliogadfong/adskotaefni/sveppaeitur

Kveðja
Valdimar Þór Brynjarsson

7 ummæli:

  1. Þetta hljómar nú ekki vel, hvorki myglan né viðbrögð þeirra hjá þessu nýja fyrirtæki. Óánægður viðskiptavinur er þeim dýr, en ánægður viðskiptavinur er dýrmætur.

    Ég sendi Mjólku einmitt ábendingu um að tvisvar hefði ég keypt frá þeim rjóma, sem var orðinn súr fyrir síðasta söludag (sá fyrri var opnaður dálítið fyrr og var orðinn súr nokkrum dögum fyrir s.s., en hinn var opnaður á s.s. og var súr).

    Svo ég sendi tölvupóst þar sem ég benti á þetta, að maður gerði jú ráð fyrir því að varan væri í lagi fram að síðasta söludegi en svo þakkaði ég jafnframt fyrir jógúrtina frá þeim, sem ég hef hingað til borðað með bestu lyst. Ég fékk hins vegar ekkert svar frá þeim, hefði þótt eðlilegt að fá "takk fyrir ábendingun" í það minnsta.

    Vona að Mjólka taki sig á og verði annt um ánægða viðskiptavini.

    kv. Laufey

    SvaraEyða
  2. Ég lenti einmitt í þessu, keypti rjóma frá Mjólku sem var orðinn gallsúr á síðasta söludegi. Ég sendi þeim tölvupóst þar sem þau báðust afsökunar og báðu mig að gefa sér upp símanúmer, þar sem þau vildu endilega senda mér eitthvað til að bæta þetta upp (ekki að ég hefði verið að fara fram á neitt slíkt, vildi bara láta vita af þessu) - ég svaraði en heyrði svo aldrei neitt í þeim aftur ... Þjónustan ekki alveg í lagi þar á bæ, virðist vera.

    Nanna

    SvaraEyða
  3. Þetta vandamál með Mjólku-rjómann er greinilega algengt, ég keypti svona rjóma í Bónus og hann var súr þegar ég opnaði hann sem var vel fyrir síðasta söludag. Hef haldið mig við gamla góða rjómann síðan.

    SvaraEyða
  4. Sökin gæti verið hjá búðinni sem selur vöruna, ef að þeir setja hana ekki strax í kæli og láta hana bíða lengi í hitanum.
    Siggi

    SvaraEyða
  5. mér sýnist helst vera viðbragðsleysi mjólku sem verið er að kvarta yfir, en svo er nú líka dáldið skrýtið að fólk sé að lenda í þessu súrsi hjá mjólku trekk í trekk.

    SvaraEyða
  6. heilbrigðiseftirlitið! - mæli með að einhver hafi samband við þá.

    SvaraEyða
  7. Ég hef líka heyrt að mjólkin sé látin standa rosalega lengi á planinu hjá þeim í trukkonum, og hef heyrt misjafnar sögur af þeim sem fyrir þessu fyrirtæki fara.

    SvaraEyða