Ég fékk sendan gíróseðil um daginn frá Íslandsbanka vegna rannsókna
sem gerðar voru á fæðingablettum sem voru teknir af mér. Gjaldið fyrir
rannsóknina var 1.400 krónur. Gott og vel. Ekkert mál. Hins vegar
hljóðaði reikningurinn í heild sinni upp á 1.675 krónur, og þegar ég
fór að rýna betur á blaðsnepilinn sá ég neðanmálsgrein sem lítið bar
á: "Annar kostn. kr. 275 leggst á við greiðslu"
Þar sem mér fannst þetta heldur dularfull og ófullnægjandi útskýring
hringdi ég í bankann og spurði hvaða kostnaður þetta væri eiginlega.
Maður er vanur að sjá eitthvað sem heitir seðilgjald, en það er ekki
svona há upphæð. Stúlkan sem varð fyrir svörum tjáði mér að þetta væri
kostnaður sem væri ákveðinn af hverju fyrirtæki fyrir sig í svona
innheimtu og væri því líklega seðilgjald og/eða eitthvað álíka. Svörin
fannst mér frekar loðin, en lét mér þó þetta nægja og þakkaði fyrir og
sagðist ætla að hringja í Vefjarannsóknarstofuna og spyrjast frekar
fyrir um þetta.
Þar á bæ svaraði mér önnur stúlka, en hún sagði að þetta gjald væri
ekki frá þeim komið, heldur væri seðilgjald eða eitthvað því um líkt
sem bankinn innheimti. Nú fór frekar að þykkna í mér og benti ég henni
á að ég væri búinn að hringja í bankann og fá allt aðrar upplýsingar
þar. Varð mér að orði að mér þætti þetta blaðsnifsi sem ég héldi á
frekr dýrt ef það væri metið á 275 krónur. Hún játti því, en þakkaði
mér svo fyrir að hringja og bauð mér að leggja 1.400 krónurnar inn á
reikning hjá Vefjarannsóknarstofunni og þá yrði gíróseðillinn
einfaldlega felldur niður. Þetta þáði ég með þökkum og var ekki seinn
á mér að borga.
Nú ætla ég ekki að segja til um það hvort önnur hvor stúlkan hafi
verið að segja mér ósatt með það hvaðan þetta gjald kemur, en í ljósi
þess að með því að borga beint inn á reikning fyrirtækisins fær maður
þennan óskilgreinda kostnað felldan niður sýnist mér heldur að bankinn
sé ekki að segja allan sannleikann. Það margborgar sig að lesa á
gíróseðlana sína og athuga málið ef þar finnst eitthvað sem manni
finnst undarlegt.
Bestu kveðjur,
Kristján B. Heiðarsson
Þú átt auðvitað að kvarta í neytendastofu þar sem að seðilgjald er orðið óheimilt samkvæmt lögum sem Björgvin G. setti hérna í febrúar og tóku gildi held ég um síðustu eða þar síðustu mánaðarmót. Er ekki heldur frá því að fyrirtækjum sé skylt að tilgreina á seðlinum hvaða gjald um ræðir og fellur annar kostnaður ekki undir að vera skilgreining á því.
SvaraEyðaAllavegana alls ekki sætta þig við þetta!!!!!!!!!
Seðilgjald er valfrjálst af kröfuhafa sem er þá í þessu tilfelli Vefjarannsóknastofan.
SvaraEyðaBankarnir rukka hinsvegar fyrirtækin um þessi innheimtugjöld en það eru ekki nema nokkur ár síðan að sá kostnaður var bara hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækjanna, síðustu ár hafa fyrirtækin bætt þessum kostnaði við greiðsluseðlana og oft miklu hærri tölu en kostnaðurinn segir til um.
Seðilgjald er ekki valfrjálst og síðan fyrr í vetur er það lögbrot. Svo var nú það ekki tekið fram að um seðilgjald væri að ræða heldur bara sagt annar kostnaður og það má ekki.
SvaraEyða