mánudagur, 6. apríl 2009

IFEX gleymdi bragðefninu

Ég sá að um daginn var verið að hæla hér mjög mikið kattafóðri frá Ifex sem fæst í Bónus. Það er íslensk framleiðsla og sagt vera afskaplega hollt og gott fyrir kettina.
Ég fór auðvitað strax og fjárfesti í 2ja kílóa poka af þessu góðgæti. En þá kom í ljós að kettirnir mínir vilja ekki sjá þetta fóður og snerta það alls ekki. Sama er að segja um 3 aðra ketti sem ég reyndi að troða þessu fóðri í, þeir líta ekki við því.
Ég sendi tölvupóst til IFEX 24. mars sl. og kvartaði undan þessu.
Þeir svöruðu mér um hæl og sögðust hafa fengið kvartanir út af þessu og hefðu þeir komist að því að gleymst hafi að setja bragðefni í kattamatinn og sögðust þeir ætla að bæta mér þennan skaða. Reyndar hef ég nú ekki orðið vör við þá heima hjá mér ennþá og ekki hafa þeir hringt í gsm númerið mitt sem ég gaf þó upp.
Ég vildi bara koma þessari slæmu reynslu minni á framfæri og vara fólk við að fara eftir svona auglýsingabrellu.
Kveðja,
Svanhildur G

1 ummæli:

  1. Ég er með tvo ketti sem nærast að mestu leyti á þurrfóðri og ákvað að prófa IFEX um daginn. Þau eru bæði nokkuð matvönd og hafa alls ekki sama smekk, en eru þó bæði alveg vitlaus í þetta íslenska fóður. Ég myndi því í þínum sporum prófa þetta aftur, en er þó sammála því að mér finnst það argasti dónaskapur af þeim að lofa þér einhverjum sárabótum en hafa svo ekki samband.

    SvaraEyða