fimmtudagur, 10. september 2009

Óviðunandi dreifing Fréttablaðsins

Mig langar til að gera dreifingu Fréttablaðsins að umtalsefni. Svo er mál
með vexti að Fréttablaðið berst mér mjög óreglulega. Suma daga er það
stundvíslega í bréfalúgunni minni á morgnanna en aðra daga berst það alls
ekki. Í blaðinu segir að ef blaðið berst ekki eigi maður að hringja í síma
5125060. Þar eru allar línur ávallt uppteknar en tala má skilaboð inn á
segulband. Eftir að hafa talað inn á segulbandið í nokkur skipti er ég
hættur að hringja þar sem ég hefði alveg eins getað kvartað við kött
nágrannans því að blaðið kom ekki þrátt fyrir hringinguna. Um daginn þraut
þolinmæðin svo að ég sendi öllum ritstjórum og blaðamönnum Fréttablaðsins
orðsendingu þar sem ég kvartaði yfir dreifingarþjónustu Fréttablaðsins.
Auðvitað töldu þeir sér þetta mál óviðkomandi.
Nú er það að sjálfsöðu svo að ég á enga kröfu til að fá Fréttablaðið inn
um lúguna hjá mér á morgnanna þar sem blaðið er ókeypis. En má ég þá
frábiðja mér að ég sé talinn til lesenda blaðsins þegar blaðið reglulega
birtir montlínurit um hvað margir lesi Fréttablaðið og hvað margir
Moggann.
Þegar íslenska kreppan þeirra Davíðs og Geirs skall á í haust greip ég
m.a. til þess ráðs að segja upp áskrift minni að Mogganum. Nú neyðist ég
til að gerast aftur áskrifandi ef ég vil hafa eitthvað að lesa með seinni
bollanum á morgnanna.
Vertu nú svo vænn að taka í lurginn á honum Ara Eðvaldssyni eða þá
Baugsfeðgum að þeir komi dreifingu blaðsins í viðunandi ástand.
Með þökk fyrir síðuna þína í blaðinu sem ég les reglulega, þ.e. þegar mér
berst blaðið.
Pétur Eiríksson
Bakkasel 9
109 Reykjavík

15 ummæli:

  1. Já þetta þarf að vera í lagi, það er allra hagur hefði maður haldið. Ég er alltaf að pirra mig á frekar slökum útburði heima hjá mér í Vesturbænum. Ég skal tuska Baugsfeðga til þegar ég hitti þá í golfi á morgun (djók).
    kv, Gunni

    SvaraEyða
  2. ég bý út á landi og þangað koma ca 200 blöð,en ef maðue er ekki kominn í einhverja sjoppuna eða búðina fyrir kl 10 f. hádegi þá eru þau búin(þar sem ég mæti í vinnuna kl 07,00 þá fæ ég aldrei blað!)

    SvaraEyða
  3. Er þetta okurdæmi????

    SvaraEyða
  4. Ég bý á Hornafirði og þessir snillingar hjá Fréttablaðinu hættu bara allt í einu að dreifa blaðinu hingað án nokkurra skýringa sem mér finnst helvíti lélegt !

    SvaraEyða
  5. Það er hægt að lesa blað dagsins og mörg blöð aftur í tíman á www.vísi.is

    SvaraEyða
  6. Nei þetta er ekki okurdæmi en þetta er neytendapæling. Lestu hausinn áður en þú ferð að æpa.

    SvaraEyða
  7. Sama hér, góð athugasemd þó ekki sé hún okur! Ég bý í vesturbænum, í blokk, og blaðið berst hreint ekki alltaf og kemur dáldið oft eftir að fólk er farið til vinnu...

    SvaraEyða
  8. Afsakið en er fólk ekkert að taka eftir hvernig ástandið er. Fréttablaðið á í virkilegum vanda fjárhagslega, það er t.d. ástæðan fyrir því að þeir hættu með helgarblaðið. Ofan á það þá er það Pósthúsið (Baugsmenn) sem ber ábyrgð á útburði og hefur það fyrirtæki verið að berjast í bökkum síðan það var stofnað. Það fær hvorki blaðbera í störf né ræður við að halda þeim í starfi á mannsæmandi launum. Ofan á það er fyrirtækið ekki með dreifingarkerfi úti á landi sem er ástæðan fyrir því að landsbyggðafólk fær ekki blaðið. Ég efast um að það eigi eftir að vera langlíft blað.

    SvaraEyða
  9. Ég bý úti á landi þar sem blaðið hefur aldrei verið borið út, heldur var hægt að nálgast það í verslunum og söluturnum, en fyrir skömmu var byrjað að hafa það í kössum á ljósastaurum, og mikið er ég feiginn, hættur að nálgast blaðið og mikið minni pappír í endurvinnsluna. :)

    SvaraEyða
  10. í minni blokk virðist blaðberanum vera mjög annt um umhverfið og setur ekki annað blað í kassann ef ekki er búið að taka fyrra blað, það getur verið dálítið pirrandi ef maður fer eitthvað eins og ég geri nú stundum, þar sem ég les blöðin oft seinna, ég kvartaði sem breytti auðvitað engu. Hvet fólk til að hringja þangað samt, það er frekar fyndið, þeir breyta svo oft um raddir í sjálfvirka símsvaradraslinu sínu að maður þarf að spyrja hvort manneskjan sé alvöru þegar loksins er svarað.

    SvaraEyða
  11. Their gripu til thess ràds ad hagræda thannig ad ì litlum byggdum hætta their ad dreifa ì hùs og setja thad ì stadinn ì sèrstaka frèttabladskassa sem eiga vìst ad vera ì hverri götu.

    SvaraEyða
  12. Kannski er það köttur nágrannans sem hirðir blaðið !

    SvaraEyða
  13. Mér finnst Fréttablaðið hafa þá skyldu gagnvart auglýsendum sínum að dreifa blaðinu samviskusamlega í öll hús á höfuðborgarsvæðinu eins og þeir gefa sig út fyrir.

    SvaraEyða
  14. Sammála síðasta ræðumanni! Ég bý í Laugarnesinu og fæ blaðið oftast snemma. En stundum bregst morgun-útburðurinn,þá kemur það seinni part dagsins sem er allt í lagi. Einstaka sinnum kemur blaðið alls ekki og það þýðir ekki að hringja í dreifinguna, það skeður ekki neitt. En hvað gerir blaðburðarfólkið við blaðið,þegar það ber það ekki út??

    SvaraEyða
  15. Þó að fréttablaðið sé ókeypis þá hafa þeir skildum að gegna gagnvart þeim sem kaupa auglýsingar hjá þeim. Þeir koma með endalausar "skoðanakannanir" á lestri blaðsins og fyrirtæki kaupa auglýsingar hjá þeim til að ná til allra þessra "lesenda" svo er ekki nema hluti sem fær blaðið eða getur nálgast það. Fjöldi í prentun er ekki það sama og fjöldi lesenda .

    SvaraEyða