fimmtudagur, 24. september 2009

Óeðlilegir viðskiptahættir stundaðir í ELKO

Mig langar til að benda á eftirfarandi:
Fór í dag í ELKO og var ákveðinn í að kaupa tilboðs tæki sem heitir, Thomson 32'' LCD sjónvarp 32N90NH22N á kr. 99.995, var reyndar að kaupa það fyrir föður minn sem er á níræðisaldri.
Samkvæmt heimasíðunni hjá þeim átti þetta tæki að vera með svokölluðum DVB-T móttakara (stafrænn móttakari til móttöku á RUV og RUV+ ásamt fleiri stöðvum)
Þegar á svæðið var komið, tilkynnti sölumaðurinn mér það að betra væri að kaupa næsta tæki við hliðina á þessu Toshiba 32'' LCD sjónvarp 32AV635DN á kr. 119.995, þar sem það væri með DVB-T móttakara en hitt ekki.
HALLÓ sagði ég, er þetta allt saman tóm vitleysa sem stendur á heimsíðunni hjá ykkur, hann sagði þá strax að þar væri prentvilla. Ok, en hvað með þær upplýsingar sem standa á tækjalýsingunni undir tækinu á sölustað (ELKO í Skógarlind 2), þar voru nefnilega sömu upplýsingar. Það var það sama þar, prentvilla að hans sögn.
Jæja sagði ég. Ég er þá tilneyddur til að kaupa dýrara tækið sem er með DVB-T móttakara (faðir minn ætlaði að kaupa ódýrara tækið eingöngu vegna DVB-T móttakarans), það munar jú um 20.000 krónur, sem er bara töluverður peningur fyrir ellilífeyrisþega.
Var svo í kjölfarið hundfúll og svekktur yfir þessum svikum.
Fór þó við kassann og borgaði dýrara tækið. Á meðan ég beið eftir afgreiðslu greip ég nýjasta sölubæklinginn frá ELKO sem kom út í gær (21.09.2009). Þar var þetta sama Thomson tæki á forsíðunni, og viti menn þar var tækið einnig auglýst með stafrænum móttakara (DVB-T).
Þá fór ég nú til baka inn í verslunina og talaði við annan starfsmann, hann tjáði mér að Thomson tækin væru ekki með stafrænum móttakara, punktur.
Spurði ég hann þá um hverskonar sölubrellur þessir menn hjá ELKO stunduðu. Hann talaði um að þarna hefðu átt sér stað mannleg mistök.
Mannleg mistök, prentvillur og aftur prentvillur, þvílíkt og annað eins.....
Þeir hjá ELKO fá fólk til að mæta á svæðið í góðri trú um að hægt sé að kaupa ódýr sjónvörp með stafrænum móttökurum. Sem síðan er, þegar á hólminn er komið bull og vitleysa, svindl og svínarí. Og því miður er þetta ekki einangrað dæmi, hef heyrt af mörgum sambærilegum sögum.
Þessa menn á að kæra fyrir óheiðarlega og ólöglega viðskiptahætti. Og svo á að sekta þá almennilega. Þeir læra ekki fyrr en þeir þurfa að opna budduna. Einnig vona ég að þeir fari að stunda heiðarlega sölumennsku.
Einn svikinn,
Sigurður Rafnsson
Reykjavík

17 ummæli:

  1. En þú keyptir samt dýrara tækið?

    SvaraEyða
  2. hahaha typical íslendingur...vælir, en lætur samt taka sig í rassgatið.

    SvaraEyða
  3. Góðan dag

    Ég skoða þessa síðu a.m.k. einu sinni í viku. Það er áhugavert að sjá dæmin sem að fólk kemur með og stundum gott að vita af þeim, bara til þess að maður geri ekki sömu mistök og kanni verðið á fleiri stöðum. En þessi comment eru nú alveg að missa marks t.d. þetta hérna á undan, af hverju þarf að segja svona og láta eins og vitleysingur. Ég veit ekkert meira né minna um þetta mál en þessi fyrir ofan um þetta Elko dæmi en maðurinn fór í Elko út af ákveðinni auglýsingu og svo þegar upp er staðið þá er verið að auglýsa vöru sem er ekki til. Um það snýst málið en ekki hvort að sölumaðurinn hafi getað snúið honum í að kaupa annað dýrara tæki eða ekki.

    SvaraEyða
  4. Sammála síðasta ræðumanni, algjör óþarfi að koma með dónalegar athugasemdir !

    SvaraEyða
  5. Ég skil það þannig að hann hafi neyðst til að kaupa dýrara tækið vegna stafræna móttakarans, ekkert flókið við það. Og ég er sammála því að það er allt of mikið um skítkast hérna á kommentakerfinu.

    SvaraEyða
  6. Þetta er þekkt strategía í sölum á heimilistækjum og hefur verið stundað hér á landi af ákveðinni verslun sem ég nefni ekki á nafn. T.d. það að sjónvarpstækið sem er auglýst á "mega" tilboði í bæklingnum þeirra er stillt upp við hliðina á dýrara tæki, en passað að vanstilla það aðeins þannig að myndin verði örlítið óskýr. Svo þegar fólk kemur og ætlar að kaupa tilboðstækið þá er því bent á að það hafi nú ekki sömu gæði og dýrara tækið. Og sölumanninum er nánast bannað að selja tilboðstækið þar sem hagnaðurinn af því er mun minni en af dýrara tækinu.
    Ég heyrði þessa sögu og sel hana ekki dýrari en ég keypti hana en frá minni reynslu af þessari verslun þá tel ég nokkrar líkur á því að hún sé sönn.

    SvaraEyða
  7. Varan var til, hún var bara auglýst með öðrum formerkjum, þeas. með digital móttakara, sem var svo bara analog þegar uppi var staðið.
    Þetta er lykilatriði í umfjölluninni. Það er töluverður munur á eplum og appelsínum. Svo er það spurning hvort varan hafi verið auglýst svona með ásetningi eða hvort um mannleg mistök hafi verið að ræða. Nú dæmir hver fyrir sig....

    SvaraEyða
  8. Hví er það álitið dónalegt að benda á fáránleikann í því að versla við þá sem lugu að manni?

    Það neyðist enginn til að kaupa sjónvarpstæki.

    Ég tek eftir þessu mjög oft á þessari vefsíðu. Fólk er að kaupa sér hluti og kvarta síðan yfir verðinu. En verðið lækkar ekkert og viðskiptahættir breytast ekkert ef menn halda áfram að kaupa okrið og versla við þá sem fara illa með mann.

    Eða eiga kannski allir aðrir að gera það nema sá sem skrifar?

    Það getur vel verið að athugasemd nr.2 sé illa orðuð, jafnvel skítkast. En hún er samt sem áður sönn.

    SvaraEyða
  9. Ég vil ekkki trúa því að ELKO stundi þetta meðvitað, hef oft verslað þar og gert fín kaup. Skilarétturinn er líka snilld. Hitt er svo annnað, að enginn ætti að kaupa sjónvarp sem er ekki með DVB móttakara

    SvaraEyða
  10. Það sem þessi síða hefur kennt mér er að gera alltaf athugasemd strax í viðskiptum og standa fast á henni þar til hlutirnir hafa verið lagaðir eða sleppa því að eiga viðskipti við viðkomandi söluaðila. Þetta hafa þó þeir sem láta taka sig í æðra kennt mér.

    SvaraEyða
  11. Smá spurning frá þeim sem ekki veit...

    Hvað gerir DVB móttakari fyrir sjónvarpið?

    SvaraEyða
  12. Má til með að bæta við ofangreinda umfjöllun mína um ELKO.
    Í kjölfarið á ofangreindi umfjöllun um ELKO, barst mér skeyti frá deildarstjóra viðkomandi deildar. Þar harmar hann þessi mistök og skýrir út fyrir mér hvernig þau eru tilkomin. Baðst hann innilegrar afsökunar á þessu öllu saman og bauðst til að greiða mér þann mismun sem var á tækjunum tveimur. Fannst mér hann maður meiri fyrir vikið, að viðurkenna þeirra mistök. Fer ég því sæll og sáttur frá viðskiptum mínum við ELKO.
    Mér finnst rétt að þetta komi fram.
    Einn ósvikinn
    Sigurður Rafnsson
    Ps. Vísa svo athugasemd nr. 2 til föðurhúsana...

    SvaraEyða
  13. Athugasemd nr 2 er kannski smekklaus, en það er nú samt margt til í henni...

    SvaraEyða
  14. Sammála því að það sé til lítils að kvarta ef maður kaupir svo hlutinn á því verði sem kvartað er yfir. Þannig vinnst ekki neitt.

    SvaraEyða
  15. Hluturinn var keyptur með 20.000 kr. afslætti, á endanum. Þannig að ávinningurinn hlýtur að vera þó nokkur. Þannig skil ég þetta.
    Kaupandinn fær dýrara tækið á verði þess ódýra. Þannig að hann var nú ekki tekinn meira en það í ......

    SvaraEyða
  16. DVB er digital Video Broadcasting.
    DVB er staðall fyrir stafrænt sjónvarp sem sent er um jarðsenda í Evrópu.
    Þetta er það sem verður einungis í útsendingu sjónvarps innan fárra ára, gefur skýrari myndir, auðveldara að laga og breyta myndum í stafrænu formi án þess að gæðin rýrni og margt fleira.
    Vona að þetta útskýri eitthvað Nafnlaus nr 11.

    Kv E

    SvaraEyða
  17. Starfsmenn í Elko gera þetta viljandi,, auglýsa ódýr tæki, svo er starfsmannafundur um hvaða tæki þeir eiga að reyna selja, sem sagt dýrari tæki... Leið og þú kemur inn í elko og ert með auglýsingu á eitthvað ódýrasta tækið, reynir sölumaður fyrst að selja þér dýrari tæki..

    SvaraEyða