miðvikudagur, 29. apríl 2009

Seðilgjöld kreditkortafyrirtækja

Var að fá í pósti greiðslukortayfirlit frá Kreditkort hf. Tók eftir því að liðurinn "skuldfærslugjald" var kominn upp í 396 kr. Eitthvað minnti mig að þessi tala hefði verið mun lægri fyrir ekki svo löngu síðan. Ég fletti í heimilisbókhaldinu og mikið rétt, þetta gjald hefur margfaldast á stuttum tíma.
Í júní 2008 var gjaldið 135 kr, en hækkaði um haustið í 180 kr, eða um 33%. Þetta 180 kr gjald entist fyrirtækinu hins vegar ekki lengi, því nú í mars er gjaldið hækkað í 396 kr, eða um 120%, til viðbótar við 33% hækkunina nokkrum mánuðum áður.
Samtals er hækkunin því frá júní '08 og þar til nú í mars 193%. Rétt tæp þreföldun, geri aðrir betur. Ég ætla að hafa samband við fyrirtækið í fyrramálið og leita skýringa og hvet aðra viðskiptavini til að gera hið sama.
Ég er með svo líka með American Express kort, en hringt var í mig fyrir áramót og þetta boðið án árgjalds, ég hugsaði að það gæti verið sniðugt útaf fyrirhugaðri utanlandsferð. Færslugjaldið hefur einnig snarhækkað á því korti, ég var ekki með sjálfkrafa skuldfærslu á því korti, útskriftargjaldið er komið upp í 551 kr, en var 321 kr í febrúar. Það er 72% hækkun á einu bretti. Kortið liggur skiljanlega óhreyft.
Ég talaði við þjónustufulltrúa, sem benti mér á að ef ég afþakka mánaðarlegt pappírsyfirlit og læt skuldfæra borga ég "aðeins" 200 kr skuldfærslugjald, í stað 396 kr (sem er samt hærra en 180 kr gjaldið sem ég borgaði fyrir að fá pappírsyfirlit í júní 2008). Ég sendi engu að síður línu til Kreditkorta hf. með formlegri arthugasemd og fékk eftirfarandi svar:
Hækkun á gjaldskrá til korthafa okkar er tilkomin vegna hækkunar á aðkeyptri þjónustu til Kreditkorts við tölvuvinnslu, uppgjör og færsluhirðingu frá seljendum. Þetta er sem sagt gjöld sem hafa hækkað til okkar og við verðum því miður að hækka verðin.
Ég veit ekki. Hafa þessir umræddu kostnaðarliðir hjá fyrirtækinu þrefaldast síðan í jún 2008? Finnst líklegra að aðalástæðan sé snarminnkuð velta vegna miklu minni innkaupa, sérstaklega erlendis, Kreditkort hafi þess vegna þurft að "stilla" tekjustraumana... Þess má geta að eigendur Kredikorta eru bankar og sparisjórðir, stærstu eigendurnir nú Íslandsbanki og NBI hf.
Með góðri kveðju,
Einar Karl Friðriksson

Engin ummæli:

Skrifa ummæli