sunnudagur, 9. september 2012

Okursíðan aflögð


Hin áður gríðarvinsæla Okursíða hefur verið aflögð. Ég nenni ekki lengur að halda henni úti. Þetta byrjaði í flippi árið 2007 eftir að okrað hefði verið á mér á lítilli kók  á kínverskum veitingastað í Naustinu. Þetta var svona hugmynd sem einhvern veginn lá í augum uppi og allir kveiktu á. Þetta vakti mikla athygli og allt í einu var ég orðinn einhver svaka neytendagúrú. Fór að skrifa um þessi mál í Fréttablaðið og síðar Fréttatímann og fékk neytendaverðlaunin 2008, sem var eitthvað flipp í Björgvini Gé og hefur ekki verið endurtekið svo ég viti.
Svo missti ég neytendakúlið með selláti í Iceland Express auglýsingu. Var úthúðað sem útrásarvíkingahóra og borgaði niður yfirdráttarheimildina.
Síðasta árið eða svo var Okursíðan helvíti slöpp, fáir sendu inn dæmi og ég nennti þessu minna og minna. Ákvað svo bara að slá þetta af. Auðvitað ættu Neytendasamtökin eða DV eða einhver að vera með svona dæmi hjá sér, en hér eru allavega einhverjir sem hyggjast “taka við kyndlinum” – NÝ OKURSÍÐA Á FACEBOOK.
Takk fyrir og lifi byltingin! Eða ekki.

Dr. Gunni

mánudagur, 16. júlí 2012

Tal - loks komin samkeppni í 3G

Fyrir rúmlega tvemur árum síðan sendi ég bréf hingað á Okursíðuna og talaði um það að samkeppnin í 3G neti væri engin, sama verð allstaðar og það skipti í raun engu máli hvert maður færi í viðskipti því allstaðar fengi maður sama gagnamagn fyrir sama verð.

Ég var að fletta Fréttablaðinu í gær og rakst þá á ansi skemmtilega auglýsingu frá Tal. Já, það er komin samkeppni á 3G markaðinn loksins! En auglýsingin frá þeim hljómaði þannig að ef maður væri með gsm símann hjá þeim í áskrift gæti maður keypt sér 10 gb gagnamagn fyrir 500 kall.


Ég átti ekki orð til í eigu minni að sjá það að nú væri komin samkeppni.
Þegar ég sá þessa auglýsingu dref ég mig beint í Tal og flutti númerið yfir til þeirra frá Vodafone.
Ég er búinn að vera með pakka hjá Vodafone sem heitir Vodafone 250 og hef verið að borga á mánuði fyrir það 2980 kr á mánuði, okei mér fannst það nú svo sem ekkert svo hrikalegt og með fylgdi 100 mb gagnamagn. Ég nota það mikið 3G í símanum að það var svo fljótt að fara framyfir að ég var yfirleitt að borga á mánuði samtals 5000 kall, fyrsti 3þúsund kallinn fyrir mánaðargjaldið og svo hækkaði 3G notkunin það mikið að það varð auka 2þúsund kr í kostnað.

Hjá Tal var ég að fara í pakka sem heitir 6 vinir, hann er á 1.890 kr á mánuði. 1000 sms og 1000 mínútur og svo kemur rúsínan í pylsuendanum að ég þarf bara að bæta við 500 kalli við þetta verð á mánuði til þess að fá 10gb gagnamagn.

Svo eru það 3G netlyklarnir (pungarnir) sem var það sem ég var fyrst og fremst að tala um í bréfi sem ég sendi hingað á síðuna fyrir já rúmin tvemur árum síðan. Samkeppnin var ekki nein en núna er Tal að bjóða uppá áskriftarleið fyrir 3G netlyklanna og þar getur maður borgað á mánuði 2.495 kr. og fengið 30gb gagnamagn. Þessi 30gb hjá vodafone kosta hinsvegar 4990 kr. Þannig að Tal er 100% ódýrari en Vodafone.

Ég fagna þessu að maður sé loksins að sjá samkeppni í þessum málum, ég skipti amk frá vodafone og yfir í Tal í gær bæði 3G netlyklinn og gsm áskrift og mér reiknast að ég sé að spara 4-5 þúsund kall á mánuði með því.

Ég ætla að láta það fylgja með að ég hef heyrt það frá fólki sem hefur verið hjá Tal að þjónustan þar sé alveg skelfileg, sjálfur hef ég bara ekki reynslu af þeim og veit það ekki en ákvað að prufa þetta samt fyrst maður er að sjá 4-5 þúsund króna sparnað á mánuði með þessu. Þannig þetta er allaveganna yfir 50 þúsund króna sparnaður á ári fyrir mig. Held ég sætti mig við það fyrir lélegri þjónustu (ef satt reynist að hún sé léleg)

Hér er færslan sem ég sendi inná okursíðuna í apríl 2010.
http://okursidan.blogspot.com/2010/04/hvar-er-samkeppnin-i-3g.html

Það gleður mig rosalega að það sé loksins alvöru samkeppni í þessu.

G. Ásgeirsson

laugardagur, 14. júlí 2012

Stöð 2 - enginn les smáa letrið


Ég var að hringja í Stöð 2 í dag (13. júlí) til að segja upp sjónvarpsáskriftinni minni. Fékk þá að vita að ég þarf að borga, ekki bara fyrir allan júlímánuð, heldur einnig fyrir allan ágústmánuð. Ég þarf sem sagt að borga næstum tvo mánuði af sjónvarpsáskrift sem ég hef engin not fyrir, þar sem ég er fluttur í annað húsnæði og kominn með áskrift hjá Símanum. Mér var sagt að þetta væri svona í notendaskilmálum sem ég hafi samþykkt og það má vel vera, en það breytir því ekki að þetta hljóta að vera mjög óeðlilegir viðskiptahættir og þörf að vekja athygli á þessu. Svo les auðvitað enginn smáa letrið spjaldanna á milli - það vita það allir.

Pétur Jónasson

þriðjudagur, 3. júlí 2012

Vond þjónusta hjá TAL


Aldrei versla við TAL! Ég sagði upp netþjónustu minni þann 6 júní en af því gerði það eftir mánaðarmót er ég rukkaður fyrir heilan mánuð.
Sem sagt 7000 kr fyrir 6 daga sem ég var ekki einu sinni tengdur. Ég bað þá um að gefa mér slaka á að borga heilan mánuð en það var ekki hægt að taka eina krónu af reikningum.
Þegar maður fær svona lélega þjónusta lætur maður aðra vita. Það er bara þannig!
Þórólfur

Okurlán


Ég er nýbúinn að gera þau heimskulegu mistök að taka lán hjá einu
smálánafyrirtækjana. Þar sem ég átti ekki kost á að greiða upp lánið innan
tveggja mánaða þá var það sent í innheimtu. Höfuðstóllinn var upphaflega
50.000 krónur en skuldin er í dag 100.000 krónur með öllum kostnaði eða
100% álag á höfuðstól. Má þetta?
Skoðum aðeins hvernig þetta er reiknað. Sé tekið 10.000 króna lán sem er
algengasta upphæðin þá er reiknað með 1% vöxtum á dag og 600 króna
kostnaði. Hljómar býsna freistandi ekki satt? En bíðum nú við. Ef við
reiknum þetta á ársgrundvelli þá erum við að borga 1) höfuðstólinn 10.000
krónur 2) kostnað uppá 600 krónur og 3) 365 * 1% eða 365% vexti.

10.000 * 0,01 = 100 * 365 = 36.500 krónur. Að ári liðnu þá er ég að borga
47.100 krónur til baka. Ekki alveg jafn freistandi.

Skoðum annað dæmi.
Tökum 30.000 krónur að láni í eitt ár.

30.000 * 1% = 300 krónur í vexti á dag * 365 = 109.500 krónur BARA VEXTIR.
Samtals heildarendurgreiðsla 140.100 krónur.

Dágóð ávöxtunarleið fyrir þann sem rekur svona fyrirtæki.
Er svona löglegt?
Er virkilega ekkert hægt að gera til að banna svona starfsemi eða þá koma
skýrari böndum yfir hana til að takmarka hversu háa vexti má rukka?

Kv.
Tryggvi

miðvikudagur, 27. júní 2012

Dýrt Pepsi í Vestmannaeyjum


Við fórum í dag til Vestmannaeyja og komum við á veitingarstað sem heitir Café María. Við vorum með 4 börn og báðum um 2 ltr. flösku af gosi á borðið þar sem við töldum það vera hagstætt. Þegar við borguðum kostaði flaskan af 2ja ltr. Pepsi 1.200 kr. Þetta er svipað verð og hægt er að fá sex 2ja. ltr. flöskur á í Bónus. Ótrúleg verðlagning og ljóst er að við komum ekki oftar við þarna er við skreppum til Eyja.
 
kv. Jórunn Helena

mánudagur, 25. júní 2012

Heimskuleg verðlagning apóteka


Fór í Lyfjaval til þess að leysa út svefnlyf, 10 töflu spjald í pakka og rak upp stór augu þegar ég fekk ca 1400 kr rukkun við afgreiðsluborðið því að fyrir fullan skammt (30 töflur) hef ég vanalega borgað nokkrum hundraðköllum minna. 


Eins er farið í Apótekaranum þegar ég í fússi fór þangað til að fá töflurnar á betri kjörum. Er eðlilegt að borga meira fyrir minna og minna fyrir meira? Skrýtið!


Ágúst

miðvikudagur, 20. júní 2012

Hvernig á að velja fullkomið avakadó

Hver hefur ekki lent í því að kaupa ónýtt avakadó? Hér er athyglisvert blogg um málið (á ensku) og hugsanlegt að þú lendir aldrei í því aftur að kaupa ónýtt avakadó ef þú tileinkar þér "tæknina"...
Dr. Gunni

mánudagur, 18. júní 2012

Auglýsingablekking Hagkaupsverslananna


Hagkaup auglýsir  "Tax Free" daga   þar sem virðisaukaskattur er felldur niður af ÖLLUM  fatnaði.  Svo að ég skunda  með fjölskylduna að versla skó fyrir sumarið.  Fundum öll þessa fínu skó og meira segja eitt strigaskópar á  tilboði, kr. 3.990.- í staðkr. 5.990.-
Glöð og ánægð með skóval okkar höldum við að afgreiðslukassa, en þar bíða okkar tvöföld vonbrigði.  Tilboðið átti ekki vð alla strigaskóna í þessari hillu (sem að voru allir á sama verðinu), nei bara eitt vörunúmer, en þessi ákveðna vörutegund tók sem svaraði um einum fimmta af hilluplássinu.  
Nú jæja,  það verður þá að hafa það,  virðisaukaskatturinn reiknast þó af.   En NEI,  í huga stjórnenda Hagkaups verslana  telst skófatnaður EKKI FATNAÐUR  !!! Er þetta í lagi ? Maður spyr sig. Ég er mjög ósátt með að hafa verið blekkt með þessum villandi auglýsingum.  Ég gat ekki hugsað mér að hætta við þessi skókaup, þar sem börnin mín voru svo alsæl og glöð með flottu skóna sína, og lét því þetta yfir mig ganga heldur en að takast á við vonbrigði og grát barnanna minna vegna ástæðu þess að ég vildi hætta við kaupin.  Hagkaup á að sjá sóma sinn í að taka fram í auglýsingum sínum, ef að eitthvað er undanskilið frá almennu hugtaki, samanber skófatnaður sé ekki hluti af fatnaði.  Þetta er álíka fáránlegt eins og að auglýsa afslátt af matvöru, en undanskilja frosinn mat.  Ég get allavega ekki fundið rökstuðning fyrir því að skór séu ekki hluti af fatnaði fólks.  Í mínum huga, og þeirra sem ég þekki, falla skókaup undir það að fata sig upp.  Ég verð nú að segja að ég sé ekki marga ganga um skólausa á götum úti. Það er nú frekar að maður sjái fólk spóka sig léttklætt að ofan en að það gangi um berfætt í bænum.
Eins þegar tilboð er auglýst á ákveðnum stað, (eins og tilboðsmiðinn á hillurekkanum) en á ekki við allar vörur á þeim stað, á að afmarka það með sér standi (eða körfu) svo að það leiki ekki vafi á því hvað er verið að selja á þessu sér tilboði.   Í mínum huga er þetta klárlega  auglýsingablekking.

Anna Rudolfsdóttir

þriðjudagur, 12. júní 2012

Bíóin vilja að þú étir skít


Í stað þess að skrifa hjartnæman inngang um nauðsyn vatns til að viðhalda lífi á jörðu ætla ég að koma mér beint að efninu. Nú hafa nokkur kvikmyndahús tekið upp á því að vísa vatnsbetlurum frá sjoppunni og senda þá í staðinn með glas inn á klósett. Jafnvel þó þeir versli í sjoppunni. Vatnsbetlararnir mega fá gos og popp, nachos og ís, súkkulaði og hlaup (gegn greiðslu að sjálfsögðu), en ef þeir vilja óbragðbætt vatn verða þeir að sækja það úr klósettvaskinum. Lystaukandi ekki satt?

Ég lenti í þessu síðast í gær. Keypti stórt gosglas fyrir annan en bað um vatn fyrir mig (línurnar sko). Afgreiðslustúlkan var alveg til í að taka við fullt af peningum frá mér fyrir gosinu, en hún var ekki til í að snúa sér við og gefa mér vatn úr krananum, sem var bæðevei jafnlangt frá henni og gosmaskínan. Þegar ég afþakkaði klósettglas spurði hún mig hvort ég ætlaði þá bara að fá gosið. Ég velti því fyrir mér hvort það sé algengt að fólk hafi ekki lyst á því að sækja vatn inn á bað og kaupi þess í stað kolsýrt flöskuvatn á uppsprengdu verði.

Er nauðsynlegt að vera svona rosalega gráðugur? Voru svona margir að biðja um vatn úr krananum að afgreiðslan fór öll úr skorðum? Þarf bíóið að fá greitt fyrir hvert einasta handtak sem starfsfólkið gerir, og ef það er ekki hægt að setja verðmiða á það (eins og kranavatn) þá er það ekki í boði? Má ekki líta á það þannig að bíógestir séu búnir að greiða fyrir vatnsgreiðann með því að kaupa popp, já eða bara bíómiðann sinn? Finnst forkólfum kvikmyndahúsanna þeir í alvörunni vera að gera kúnnunum rosalegan greiða ef þeir leyfa starfsfólki sínu að gefa þeim vatn? Varla myndu þeir hleypa mér inn með vatnsflösku að heiman?

Og af hverju viljum við síður fara með tómt glas inn á klósett? Jú vegna þess að þar mígur fólk og skítur. Fólki er ráðlagt að geyma tann-burstann sinn ekki nálægt salerninu vegna þess að þar svífa allskonar sýklar og gerlar um sem óæskilegt er að berist í munn. Maður getur rétt ímyndað sér hversu margfalt fleiri míkróskópískir moðerfokkerar eru í loftinu á almenningsklósetti en á baðinu heima. Allavega ef styrkleiki þvag- og saurlyktar er einhver vísbending. Það má því orða það sem svo að með því að senda viðskipti sína inn á klósett með glas séu kvikmyndahúsin að segja þeim að éta skít.

Haukur Viðar Alfreðsson - birtist upphaflega hér.

mánudagur, 4. júní 2012

Sundlaugin í Kópavogi: Fullt verð í tvo potta!


Ég fór í sundlaug Kópavogs í gær (sunnud). Þar kostar sundferðin heilar 550 kr og
skipti það engu máli þótt verið væri að þrífa laugina og alla pottana nema
tvo. Þannig að ég sumsé greiddi 550 kr fyrir aðgang að tveimur pottum og
standbekkjum. Það var engin tilkynning um að þrif stæðu yfir!

Til samanburðar þá er ekki svo langt síðan að Laugardalslaugin var
endurgerð og þá var aðeins opið í tvo eða þrjá potta þar og þá var nú
einfaldlega ókeypis í sund.

Fannst ég bara verða að benda á þetta því mér var svo stórlega misboðið.
kv. Bára

fimmtudagur, 31. maí 2012

Laukur: 500% dýrari í neti en í lausu


Í Krónuni er kílóverð á 3 stk af venjulegum lauk í neti ekki uppgefið, hvorki í verðskanna, sem birti bara stykkjaverð, né á kassa (hélt reyndar að það væri skylda að gefa upp, hvar er Neytendastofa?). Verðið reyndist vel yfir 500 kr/kg (249 kr fyrir 3 lauka sem voru rúm 400 grömm). Laukur í lausu kostar ca. 80 kr/kg (þegar hann fæst). Hér munar BARA rúmlega 500%... Í Bónus er reyndar oftast hægt að velja ódýrari laukinn lausan í kassa, bara að passa vel að tína draslið frá, en í Krónunni er svarið að ÞVÍ MIÐUR eigum við ekki ópakkaðan lauk. Ætli þetta sé pakkað á tunglinu?
Kv, Auður

Uppþvottavél: 8 lítil plasthjól 1/10 af verðinu


Nokkur hjól eru týnd á grindinni og þau sem eru eftir eru illa farin.

Það eru lítið plast hjól, 4 í eftri grind og 4 aðeins stærri í neðri grind.

Eftir smá leit, komst ég að því að Rafha er að flytja inn og þjónusta mína tegund af uppþvottavél, Zanussi.
Ég bjallaði í þá og þeir staðfestu að þeir ættu þessi hjól á lager þar sem það væru nánast alltaf eins hjól í öllum Zanussi uppþvottarvélum ( í raun eru þó ofstast eins í öllum tegundum)
Þeir gátu ekki gefið upp nákæmt verð í gegnum síma en það besta sem þeir gátu sagt mér var 9.000 til 10.000 fyrir þessi 8 hjól.
Þetta gerir 1/10 af verði vélar ef hún er keypt ný, þá er miðað við ódýrustu Zanussi vélina sem þeir bjóða upp á.

Eftir smá leit þá fundust sömu hjól á eBay á ISK 2.683 m/ sendingargjaldi (á eftir að bæta við tolli) og espares.co.uk á nokkuð hærra verði en þó ekki jafn hátt og hér heima eða ISK 6.975

föstudagur, 25. maí 2012

Undarlegur afsláttur í World Class


Ég var að skrá mig á Crossfit námskeið (4 vikur) hjá World class þar sem ég
er nú þegar viðskiptavinur. Almennt verð á þetta námskeið er 21.900 kr. Ég
fæ 5.280 kr í afslátt vegna þess að ég er með ótímabundin samning við
stöðina og borga 6.149 kr á mánuði í áskrift.
Þar sem ég borga alltaf 6.149 kr á mánuði er ég að borga 22.769 kr sem er
869 kr meira en þeir sem eru ekki viðskiptavinir World class...
Kv. Agnes

fimmtudagur, 24. maí 2012

Rangar verðmerkingar í Krónunni

Er allur þjófnaður í matvöruverslunum tilkynntur til lögreglu? nefnist athyglisverð grein eftir Stefán Hrafn Jónsson í Fréttablaðinu í dag. Þar fjallar hann um rangar verðmerkingar í matvöruverslunum. Hann tekur Krónuna sérstaklega fyrir og rangt verð á kalkúna. Krónan hefur oft legið undir ámæli hér vegna akkúrats þessa, að geta ekki verðmerkt almennilega. Ég skil nú bara ekki afhverju verslunin tekur sig ekki bara saman í andlitinu með þetta. Er svona erfitt að hafa verðmerkingar í lagi?

En allavega. Grein Stefáns er hér

mánudagur, 21. maí 2012

Bílabón: N1/Bónus


Fór í Bónus um helgina að versla í matinn eins og venjulega. Rakst þar á bílabón. Þetta er Sonax bón alveg eins og ég hafði keypt í N1 fyrir nokkru og mundi að mér þótti það ansi dýrt í N1 eins og reyndar allt annað þar.

Sonax bón í Bónus 250 ml 690 kr

Sonax bón í N1 250 ml 1610 kr

Ég bara spyr: Má þetta alveg???

Kv, Viktor

sunnudagur, 20. maí 2012

Sextíma okurgrill


Við hjónin keyptum okkur grill hjá Húsasmiðjunni, sem er vart frásögu færandi. Nema þegar búið var að greiða fyrir grillið var okkur afhentur ferkantaður kassi sem innihélt ósamansett grill. Skemmst er frá að segja að það tók mig 6 tíma að púsla þessu saman.

Þegar Húsasmiðjan auglýsir grillin þá eru þau samansett á öllum myndum og eins er sýningargrill samansett í verslun. Hvergi er nefnt að grillið fáist aðeins í ferköntuðum kassa með hundruðum aukahluta sem þurfi að púsla saman á 6 tímum.

Mín meining er að verið sé að okra á grillum ef þau eru seld á einhvers konar framleiðslustigi en auglýst sem heill og samansettur hlutur.

Kveðja, Gunnar

fimmtudagur, 17. maí 2012

Líf og sjúkdómatryggingar


Tryggingafélögin auglýsa grimmt þessa stundina og eru stöðugt að minna
okkur sem yngri eru á mikilvægi þess að vera líf og sjúkdómatryggð. Ég er
búinn að sækja um líf og sjúkdómatryggingu hjá öllum tryggingafélögunum og
fæ allsstaðar neitun á þeim forsendum að ég sé of þungur. Ástæðan sem ég
fæ þegar ég leita skýringa er að það sé of mikil áhætta fólgin í því að
tryggja mig þar sem ég gæti hvenær sem er fengið sykursýki, heilablóðfall,
hjartaáfall og fleiri heilsutengda sjúkdóma. Bíddu nú aðeins við, eru
tryggingafélögin með þessu að gefa þau skilaboð að feitir einstaklingar
séu í meiri áhættuhóp en annað fólk á að fá hjarta og æðasjúkdóma ásamt
ýmsum öðrum kvillum? Hvað með þá sem reykja? Hvað með þá sem eru
sykursjúkir eða berjast við sambærilega sjúkdóma? Getur verið að þeir fái
sínar tryggingar þegjandi og hljóðalaust en af því að þú ert feitur þá
máttu éta það sem úti frýs?

Kv.
Einn ósáttur

þriðjudagur, 8. maí 2012

Verð á hjólum: Ísl/Danmörk

Ég var að skoða verð á reiðhjólum, og fór inn á orninn.is. Þar fann ég ágætis hjól: Trek 4900 Disc. Það kostar 200.000 kr - http://orninn.is/V%C3%B6rur/Rei%C3%B0hj%C3%B3l/Fjallahj%C3%B3l/Herrar/TREK_4900_Disc

Fyrir einstaka forvitni langaði mig að vita hvað þetta hjól kostar úti. Trek halda sjálfir út ágætis verðmiðunarsíðu fyrir hjólin sín, ég ákvað að skoða hvað þetta sama hjól kostar í Mekka hjólreiðamannsins, Danmörku: http://www.trekbikes.com/dk/da/bikes/mountain/sport/4_series/4900_disc/# Jú, 5.990 DKR. Sem er uþb. 132.000 IKR. Sem sagt, það munar 68.000 eða 66%. (Bæði verðin innihalda VSK, 25% í Danmörku, og 25.5% hér) (Síðan leggst reyndar 10% tollur á reiðhjól hér, þannig að það ætti að kosta um 145.000)

Ég trúði þessu ekki, þannig að ég fann 2 verslanir í Kaupmannahöfn, og verðið stenst. 5990 í báðum verslunum. Prófaði aðra vinsæla verslun, Markið. Fann ágætis hjól, Scott Scale 80 Disc. Það kostar 170.000 þar: http://markid.is/?item=842&v=item&category-group=hjol Í random búð í Danmörku er þetta sama hjól á 5.500 danskar (ca. 134.000 með 10% tolli) http://cykelexperten.dk/cms/modules/shop/public_product_view.php?slang=1&path=71,232&id=4623

Aðeins skárra, en samt töluverður munur.
 Bestu kveðjur, Jón Ragnarsson

mánudagur, 7. maí 2012

ViðskiptaVINUR Tals?

Málið er það að ég hef verið viðskiptavinur TALS í langan tíma. En svo gerist það að ég gat ekki greitt reikning frá þeim með eindaga 2. Apríl síðasliðinn. Og ég er ekki enn búin að greiða hann út af ástæðu sem ég ætla ekki að ræða um hér. En viti menn, hvað hefur gerst í dag, 3ja maí. Krafan á hendur mér hefur aukist til mikilla muna, úr kr. 8.516 í 13.782, á aðeins einum mánuði og einum degi til viðbótar. Er einhver að tala um að það sé engin mafía hér. Og hversvegna er þetta gert svona? Jú sett var á sínum tíma reglugerð af manni fólksins sem hafði mikinn jöfnuð í huga. Og samkvæmt þessari reglugerð, sem reyndar var breytt aðeins seinna (en bara pínupons), er uppskriftin af því að ég er að fá svona mikla óávöxtun á skuld mína, og Tal fer eftir henni nákvæmlega, no mercy. En það er hægt að gera aðeins betur en þetta því að ef ég geri skriflegan samning á morgun um greiðslu þá má bæta við 2.700 krónum (íslenskum) til viðbótar. Og þá yrði skuldin aðeins 16.482 en helmingurinn af því er 8.241 sem er aðeins minni en höfuðstóllinn. Ég hef verið viðskiptavinur Tals í allan þennan tíma en í dag var mér tjáð að ekki væri hægt að fella niður innheimtugjöld, ekkert svoleiðis, engin minnkun, engin miskun. En hver vill vera viðskiptavinur félags sem beytir viðskiptavinum sínum svona þvingunum að það er búið að nærri tvöfalda reikninginn á innan við tveimur mánuðum? Já mér er spurn. Og við erum ekki að tala um að ég hafi keypt eitthvað af þeim einu sinni, nei þetta hefur verið viðvarandi samband. Það sem verra er að ég þarf að vera í viðskiptum við þá út þennan mánuð að því að ég get ekki farið fyrr. En að vera vinur TALs er ekki lengur í myndinni. Og tel ég að það þurfi að endurskoða notkun orðsins „viðskiptavinur“ á viðskipti milli neytenda og margra fyrirtækja því að það er alltaf verið að taka okkur í F****** R********, þurrt. Og þetta var í boði Auðar. Kveðja, fyrrum vinur

sunnudagur, 6. maí 2012

Glerkrukkur?!

Kaupir einhver tómar glerkrukkur sem eru 20 krónur dýrari en krukkur með einhverju í? Þessi mynd er fengin af Facebooksíðu Halldórs Högurðar.

sunnudagur, 15. apríl 2012

Ég er REIÐ! Svindl á neytendum

Hér má lesa mikla og ítarlega úttekt Þórhildar Löve á kjúklingalærum sem hún keypti í Fjarðarkaupum. Titillinn greinar Þórhildar segir sitthvað um innihaldið: Ég er REIÐ! Svindl á neytendum.

miðvikudagur, 11. apríl 2012

Okur í Hlíðarfjalli

Ég fór á skíði á Akureyri um páskana og þar er hægt að kaupa svartan ruslapoka sem búið er að klippa úr fyrir hendur og höfuð sem maður getur klætt sig í þegar það fer að rigna.

Þarna var hægt að kaupa 1 stk. svartann ruslapoka á 150 kr.
Á rúllunni eru 50 stk. af pokum.
Út í búð er hægt að kaupa svona rúllu með 50 pokum á ca. 3300 kr. sem þíðir að pokinn er á 66 kr. (eflaust ódýrara ef þeir fá afslátt)

Hlíðarfjall kaupir semsagt pokann á 66 kr. en selur hann svo áfram á 150 kr.Kveðja,
Ein á skíðum

sunnudagur, 8. apríl 2012

Skóbúðin Focus

Ég ákvað að kaupa skópar handa kærustunni minni í afmælisgjöf og fór með henni í Smáralindina þar sem að við enduðum í skóbúðinni Focus. Þar sá hún leðurskó sem að henni leist vel á þannig að ég keypti þá handa henni.
Skórnir kostuðu 16.995 kr og voru víst alvöru leður og henni þótti þeir mjög flottir. Allavega þá förum við úr búðinni og yfir í aðra búð þar sem að við hittum vinkonu okkar og kærastan mín tekur skóna úr kassanum til að sýna henni, nema hvað að þá skoðum við þá betur og kemur í ljós að þeir eru gallaðir (byrjað að rakna upp einn saumurinn á öðrum skónum) þannig að við förum yfir í Focus aftur og látum vita af þessu og fengum annað par. Við vorum aðeins of fljót á okkur að skoða þá ekki líka gaumgæfilega vegna þess að þegar að við vorum komin út í bíl og lögð af stað heim þá sáum við að þeir voru líka gallaðir (bæði rennilásinn á öðrum skónum búinn að rakna upp og lausir saumar á báðum skónum) en þá var klukkan orðin of margt þannig að við þurftum að skila þeim næsta laugardag (páskafrí þarna inn á milli og allt lokað). Allt í lagi, við förum næsta laugardag í búðina og látum vita að þetta sé annað skóparið sem að við fáum sem að er gallað þannig að við viljum helst bara fá endurgreiðslu (fyrst að þetta er frágangurinn á skónum þarna þá kærum við okkur ekki um að eyða tæplega 17 þús kalli þarna í vöru sem að er gölluð) en okkur er neitað um endurgreiðslu. Eftir smá þræting og að hafa fengið svörin "ég sem ekki reglurnar" og "ég get sent þá til skósmiðs en þá koma þeir ekki aftur fyrr en einhvern tímann í næstu viku" frá starfskonunni (auk þess bauð hún okkur að fá aftur gallaða parið sem að við skiluðum fyrst, sem gefur að skilja að þá séu þeir að setja aftur gallaðar vörur í sölu) þá gátum við fengið inneignarnótu frá NTC búðunum (Companys, Deres, EVA, Focus, Gallerí Sautján, GS skór, Karakter, Kultur, Kultur menn, smash, Sparkz, Urban), fyrst að það var eina mögulega lausnin þarna þá urðum við að sætta okkur við það þó svo að fyrir mitt leyti þá vil ég ekki versla við þetta batterí fyrst að þeir neita endurgreiðslu þrátt fyrir að maður sé með kassakvittun, posastrimil og að hafa fengið í tvígang gallaða vöru. Allavega þá er það á hreinu að ég versla ekki aftur við Focus þegar að ég kaupi skó handa kærustunni.
Dabbi V

laugardagur, 24. mars 2012

Svindlkassi í Smáralind

Hér er sjóðheitt myndband um "barna"-spilakassa sem má finna í Smáralindinni. Algjört svindl eins og er útskýrt vel í þessu metnaðarfulla myndbandi, sem Sigurður Kristinn Ómrasson gerði:

http://www.youtube.com/watch?v=QgKUJityS1A

föstudagur, 23. mars 2012

Okursnúður í Kvosinni

Ég bý nálægt Ingólfstorgi og hef stundum keypt einhverja matvöru í Kvosinni, Aðalstræti. Það gerist þó æ sjaldnar því að þar hefur verð farið sí-hækkandi á flestu sem selt er. Í dag tók steininn endanlega úr þegar ég ætlaði að kaupa einn klassískan snúð með súkkulaði. Verðið var 329 krónur og ég afþakkaði pent.

Til samanburðar hringdi ég í nokkur ágæt bakarí og spurði um verð á snúðum:

Björnsbakarí - 210 kr.
Bernhöftsbakarí - 220 kr.
Mosfellsbakarí - 230 kr.
Bakarameistarinn - 235 kr.
Bakarí Sandholt - 240 kr.

Eins og sjá má eru öll þessi bakarí með tiltölulega hófleg verð á snúðum meðan Kvosin okrar á sínum viðskiptavinum. Það er vissulega umhugsunarvert að líklega eru margir viðskiptavinir þeirra erlendir ferðamenn af hótelunum allt í kring sem átta sig ekki vel á þessu "rip-offi". Þetta er sérlega leitt því að þessi verslun lofaði góðu þegar hún opnaði.

Með kveðju,
Sigurður Hr. Sigurðsson.

sunnudagur, 18. mars 2012

Verðleynd í Krónunni

Ég varð ekki beint hrifin þegar Neytendastofa ákvað allt í einu að það væri stórhættulegt að við neytendur sæjum á pökkuðum kjötvörum hvað þær kostuðu, sem sé sæjum verðið. Nú virðist þessi verðleynd vera að breiða sig út um búðirnar allar. Ég er alltaf að reka mig á það í Krónunni að verðleynd virðist hvíla yfir sumum ávöxtum! Einhver kann að segja, þá er bara að fara í skannann - OK, en hann er bara fyrir kjötvörur, sumar alla vega. Ég lenti í því um daginn að grípa upp kjúkling sem yfir var stórt skilti: TILBOð, en það vantaði bara verðið. Ég í helvítis skannann: "vara óþekkt, ekki á skrá". Ég á kassann: "Sorrí, þetta er ekki á skrá." Það var sem sé ekki hægt að kaupa tilboðskjúklinginn!!!! Ég býst við að Krónan hafi þurft að farga nokkrum kjúklingalíkum þá helgina. Legg til að okursíðan kanni verðmerkingar í Krónunni á Fiskislóð.

Kveðja,
Helga Jónsdóttir

laugardagur, 17. mars 2012

Skyrdrykkir minnka

Eftir að skráargatið var lögfest, minnkaði Mjólkursamsalan boxin fyrir skyrdrykkina um helming en selur boxið á sama verði. Ef þetta er ekki okur veit ég ekki hvað okur er. Það hefur ekki nokkur maður minnst á þetta opinberlega svo ég hafi séð. Við látum bjóða okkur allt út í það óendanlega...
Kveðja,
Bergþóra

120 gr hamborgarar í Krónunni (5 fyrir verð 3) eru bara 80 gr

Ég var að versla í Krónunni (í Lindum) og þar var tilboð 5 x 120 gr
hamborgarar á verði 3. Hljómar ágætlega en eitthvað fannst mér þessir
hamborgarar litlir miðað við að eiga að vera 120gr. svo ég bað
starfsmann í búðinni að vikta fyrir mig pakkninguna (plastbakki með 5
hamborgurum) og þetta reyndust vera 390 gr. Svo hver hamborgari hefur
ekki einu sinni náð því að vera 80 gr. Ég benti starfsfólkinu á þetta
að þetta væri röng merking og einn starfsmaðurinn tók tilboðs merkið
sem var hjá kælinum í burtu en ég hafði svosem á tilfinningunni að það
yrði sett upp um leið og ég labbaði út úr búðinni. Þetta var fyrir
rúmri viku síðan en í dag er ennþá verið að selja þessar pakkningar,
sem á stendur að hamborgararnir séu 120gr.
Kveðja, Bryndís

þriðjudagur, 13. mars 2012

Einkaklúbbstilboð

Nýti mér stundum Einkaklúbbinn þegar ég fer út að borða og finnst það góð auglýsing fyrir veitingastaði að auglýsa 2f1 (2 fyrir 1), þar sem gaman er að prófa nýja staði og ekki skemmir fyrir að fá 2f1.
Þetta átti hins vegar ekki við þegar ég ætlaði að nýta mér 2f1 tilboðið af matseðli hjá Hressingarskálanum um daginn. Mér var neitað um tilboðið þó að það standi skýrum stöfum í handbókinni að það sé í gildi allan daginn alla daga á þessum árstíma. Í EK auglýsingunni stendur milli 2-6 til 1. október en alltaf alla daga eftir 1. október.
Afgreiðslustelpan neitaði strax að gefa afláttinn þó að við sýndum henni auglýsinguna í bókinni og sagði að fólk hefði kvartað yfir þessu í vikunni. Yfirmaðurinn sagði að það væri aðeins afláttur á milli kl. 2-6. Hún hringdi aftur í yfirmanninn þegar við kvörtuðum yfir þessu og kom tilbaka og sagði þetta væri bara í gildi milli kl. 2-6 og við gætum sent póst ef við vildum ræða þetta eitthvað frekar. Ég sendi póst og hef ítrekað hann en ekki fengið nein svör...
Finnst bara prinsipp að fólk sem auglýsir hjá EK og tilboð yfir höfuð að það standi við það sem það segir og neiti ekki bara að gefa afsláttinn þegar kemur að því að borga. Við vinnufélagarnir munum allavega ekki fara aftur á Hressó í bjór og burger (sem voru báðir frekar þunnir) svo mikið er víst.
Mbkv. Una

mánudagur, 12. mars 2012

Okur-Epli

Eins og svo margir sem keypt hafa iPhone í USA þá þarf ég að fjárfesta í nýjum USB spennibreyti með íslenskri kló.
Á www.epli.is sem er heimasíða umboðsaðila Apple á íslandi er þessi spennibreytir til á 6.990 kr http://www.epli.is/apple-ipod-usb-power-adapter-1120.html
En á heimasíðunni www.isiminn.is sem er að selja Apple vörur er þessi sami spennibreytir til á 2490 kr. http://isiminn.is/product.php?id_product=363
Þetta er náttúrulega ekkert annað en græðgi og okur hjá þeim Eplismönnum á Laugarveginum.

Kv,
Auðunn Valsson

Stjörnur.is - neytendur teknir í nefið

Ég hef oft hugsað um það hvað væri gott ef Íslendingar sameinuðust um að nota einhvern af erlendu vefjunum - eða stofnuðu sinn eigin, þar sem hægt er að gefa stjörnur og komment vegna þjónustu fyrirtækja, lækna o.s.frv. Þegar ég sá að kominn væri vefur sem héti stjörnur.is var ég fyrst ánægð en varð síðan fyrir miklum vonbrigðum. Þarna sýnist mér verið að taka íslenska neytendur enn einu sinni í nefið og mér finnst við eigum að reyna að vekja athygli á því strax.
Neytandi sem vill skrifa umsögn um fyrirgæki eða þjónustu, gerir það líklega m.a. vegna þess að hann ber hag annarra neytenda fyrir brjósti. En um leið og hann setur texta inn á vefinn, afsalar hann sér rétti til að nota sömu orð á öðrum vettvangi! Og eigendur vefjarins sem fá lögverndaðan höfundarétt, mega nota ummælin á hvern þann hátt sem þeim sýnist! Ég trúi því ekki að þetta sé neytendum í hag - eða til þess gert yfir höfuð að þjóna neytendum. Því miður má gera ráð fyrir að afar fáir lesi skilmálana á vefnum. Eða hvað?

Kær kveðja
Bryndís

Af vefnum:
Stjörnur.is er í eigu Já Upplýsingaveitna hf. sem sjá jafnframt um rekstur vefjarins.

Með því að láta Já í té umsögn um fyrirtæki og/eða atvinnurekanda og vörur hans og þjónustu, veitir notandi vefsíðunnar, umsagnaraðili og/eða höfundur umsagnarinnar því hér með Já ótakmarkaðan, einhliða rétt til nýtingar og birtingar umsagnarinnar á þeim vettvangi og með þeirri aðferð og tækni sem Já þóknast, þar á meðal á vefsíðunni Já.is, auk þess sem sá aðili veitir Já fullan rétt til að gera önnur eintök af umsögn hans. Fellur sami aðili samhliða frá eigin rétti til nýtingar og birtingar umsagnarinnar á öðrum vettvangi og eintakagerðar af henni og nýtur hann þess réttar ekki eftir að hann hefur sent Já umsögn sína til birtingar, hvorki sjálfur né til framsals annarra aðila. Birting, nýting og eintakagerð umsagna sem er að finna á vefsíðunni er því öðrum aðilum en Já með öllu óheimil án skriflegs samþykkis Já. Brýtur slík notkun gegn lögvernduðum höfundarrétti Já og kann meðal annars að varða bótaskyldu.

sunnudagur, 11. mars 2012

Cintamani - Listaverð og outletverð

Ég fór á konukvöld Létt Bylgjunnar um daginn og sá Cintamani úlpur á 50% afslætti. Ein af þeim, Eir, átti að kosta rétt tæpar 30 þúsund, og 50% af því þá rétt tæpar 15 þúsund. Mér fannst þetta svo góður díll að ég gat ekki sleppt honum, þó þetta væri ekki óska Cintamani úlpan mín. En nóg um það. Ég fór svo á kassann og úlpan kom þar inn á rétt tæpar 20 þúsund, starfsmaðurinn fór þá í að breyta verðinu í kassanum upp í tæpar 30 þúsund (listaverðið) og tók svo 50% afsláttinn af því verði. Ég gerði athugasemd við þetta og starfsmaðurinn sagði mér að afslátturinn væri af listaverðinu en ekki outlet verðinu. Mér fannst þetta afar skrýtið en keypt samt úlpuna því mér fannst 15 þúsund krónur vera fínn díll. En mér finnst þetta afar vafasöm auglýsing hjá þeim. Að auglýsa úlpu á 50% afslætti, miða það við listaverðið en ekki outlet verðið og úlpan hvergi til sölu á listaverðinu.
Óskar nafnleyndar

fimmtudagur, 8. mars 2012

Viðgerð á símaskjá - usa/ísland

Vildi vekja athygli á því að ég hef keypti mér síma fyrir þremur árum síðan, nokia xpressmusic 5800. Ég lenti í því óláni að brjóta skjáinn í símanum tvisvar sinnum og kostaði viðgerðin 15000 kr hjá hátækni í gegnum vodafone. Skjárinn brotnaði nú í þriðja skiptið og er ég staðsettur í Bandaríkjunum. Ég keypti skjáinn á heilar 2000 kr og viðgerðin tók 30 min og ég borgaði þessar myndalegu 2000 kr í viðbót fyrir hana..

Ég reiknaði út hvað kostar að flytja inn skjáinn.

2000kr kostar hann
7,5% tollgjald - 2150kr
20% efnisskattur - 2580kr
25.5% virðisauki - 3238kr

Vodafone + Hátækni taka því 11.762 fyrir viðgerðina..

Okur, það held ég

Heiðar

Okursíðan komin á Facebook


Okursíðan er komin á Facebook. Fæst ekki feitt læk á það?
http://www.facebook.com/okursidan

fimmtudagur, 23. febrúar 2012

Niðurlæging í bíó

Afhverju er oft hálfgerður bömmer að fara í bíó á Íslandi? Fyrst náttúrlega auglýsingafargan í 20 mín og svo oft allskonar rugl á sýningunni. Myndin ekki í fókus, alltof lágt stillt, allt í rugli með textann eða meira að segja að það er ekki slökkt í salnum (hér greinir kvikmyndagagnrýnandinn Haukur Viðar Alfreðsson frá ömurlegri reynslu í Kringlubíói, sem að hans mati er lélegasta bíó landsins).

Maður er að borga sig inn og því er lágmark að bíóin hafi basic hluti í lagi. Eins og að slökkva í salnum þegar myndin hefst!

Svo er annað mál – sem bíóin bera litla eða enga ábyrgð á - að sumir bara kunna ekki að fara í bíó. Eru blaðrandi saman út alla myndina (kannski búnir að gleyma að þeir eru ekki heima í stofu), eða talandi í farsíma og sms-andi lon og don. Lenti í þessu um daginn að síminn hjá einni í næstu röð hringdi og hún byrjaði að tala í símann (í stað þess að slökkva bara eins og hún hefði átt að gera - Hæ, heyrðu ég er í bíó og get ekki talað... Hvað segirðu? Bla bla bla...)

Fokking óþolandi!
Dr. Gunni

Æfingagjöld barna

Mig langar rosalega að heyra meiri umræðu um æfingargjöld barna. Mjög mikið er í boði af íþróttum fyrir börn og rosalega mismunandi hvað kostar. Ég ætla ekki að fara út í einstök félög og hvað kostar en það sem ég vil fá í umræðuna er hvað er boðið upp á fyrir peninginn, hvaða kröfur er hægt að gera þegar maður er búinn að borga fyrir ákveðna „þjónustu“ og hvaða rétt hefur maður ef maður vill ekki nýta „þjónustuna“ lengur.
Dóttir mín hefur prófað nokkrar íþróttagreinar sem kosta mis mikið og mjög mismikið sem maður er að fá fyrir peninginn. Hér eru nokkru atriði sem mér finnst skipta máli:

1) Að æfingarnar séu í boði (þe. Ekki felldar niður) og að þær séu á þeim tíma sem ákveðið var þegar maður greiðir.

2) Að þjálfarinn sé hæfur í starfi og jafnvel eftir því sem maður borgar meira gerir maður þær kröfur að þjálfarinn sé faglærður og vanur að vinna með börn.

3) Að hópurinn sem barnið er í á æfingu sé passlega stór (þe. að mínu viti ekki meir en 15 börn per þjálfara).

4) Að það sé tekið fram hvaða búnaður til íþróttaiðkunar sé innifalið í gjaldinu (sjaldan er um slíkt að ræða), að það sé tekið fram ca. hvaða önnur útgjöld maður getur átt von á, á æfingartímabilinu (t.d. mótsgjöld og ferðakostnaður).

5) Síðast en ekki síst að barnið hafi ánægju af að vera á æfingu og nái framförum.

Ég sendi nátturlega þetta bréf af gefnu tilefni þar sem ég var með dóttur mína í íþróttagrein sem er frekar dýr, (æfingargjaldið fyrir sept-des var 38.000 kr) en að sama skapi fékk ég það fyrir peninginn sem ég vildi. Þar var faglærður og þaulæfður þjálfari. Æfingartímar stóðust alltaf. (voru formlega í boði 2x í viku en svo var þriðji tíminn í boði aukalega án þess þó að vera „skilda“. Passlega stór hópur og barnið náði ágætis tengingu við krakkana í hópnum. Endað var á flottri og vel uppsettri sýningu í lok annar. (samt sem áður vildi dóttirin ekki halda áfram og hætti um áramótin).

Nú er barnið að æfa aðra íþrótt sem kostar 30.000 önnin, jafnlangir æfingartímar (þriðji tíminn samt ekki í boði). Þar er aftur á móti unglingsstelpur að kenna sem hafa greinilega mismikla reynslu, það sem verra er að það er ekki sami þjálfarin á þriðjudögum og laugardögum. Þar er sífellt verið að færa til eða fella niður tíma, dóttirin er ekki að ná tengingu, veit t.d. ekki hvað þjálfarinn heitir og þekkir enga krakka í hópnum. Sem er frekar leiðinlegt þar sem hún hafði óskaði stíft eftir að æfa þessa íþrótt og fór að æfa fjarri hennar heima hverfi án þess að þekkja fyrir neinn í hópnum.

Þætti vænt um ef þessar umræðu væri velt upp einhversstaðar.

Kveðja,
Sigrún Guðný Pétursdóttir

miðvikudagur, 22. febrúar 2012

Tékkland enn ódýrast

Enn er athyglisvert að skoða verð á bifreiðaskoðun. Þetta er þjónustu sem er sambærileg alls staðar, þ.e. það er ekki "betri" skoðun á einum stað en öðrum.

Verð á venjulegum bíl (undir 3500 kg):

Aðalskoðun: 9.460 kr - var 8.680 kr í fyrra
Frumherji: 8.900 kr - var 8.400 kr í fyrra
Tékkland: 7.945 kr - var 7.495 kr í fyrra

Tékkland kom nýlega inn á markaðinn og er með þrjár stöðvar, Reykjavíkurvegi 54, Hafnarfirði; í Holtagörðum og að Borgartúni 24.

Ég veit ekki með ykkur, en ég vel það ódýrasta, enda sparnaður upp á 955 og 1515 kall.

Tékkland er líka eina fyrirtækið sem birtir verð strax á upphafssíðu heimasíðunnar sinnar. Hjá hinum þarf maður að leita sérstaklega eftir verðinu.

Dr. Gunni

fimmtudagur, 16. febrúar 2012

Fyrirtaks þjónusta í Oasis!

Alltof oft er kvartað, stundum má hrósa.
Ég keypti angorupeysu í Oasis í Kringlunni, trúlega milli jóla og nýárs. Heim komin varð ég þess vör að peysuskömmin fór skelfilega úr hárunum og til að gera illt verra var hún hvít. Til að gera langa sögu stutta beitti ég öllum mínum húsmóðurráðum og hæfileikum til 30 ára, en allt kom fyrir ekki. Peysan hélt áfram að skilja eftir hvíta slóð hvar sem hún kom, í fötunum mínum, húsgögnum og m.a.s. í þvottavélinni. Ég þurfti að láta vélina ganga tóma þegar ég var búin að þvo peysuskömmina í 14. sinn í von um að ástandið lagaðist, svo mikil loðna gekk úr henni. Ég frysti peysuna. Engin breyting.
Í morgun ákvað ég að prófa að fara með peysuna í verslunina og segja mínar farir ekki sléttar en gerði mér ekki miklar vonir um góðar viðtökur, þar sem svo langt var um liðið. Fyrir tilviljun hafði ég geymt kvittunina sem er ekkert endilega sjálfgefið að fólk geri.
Ég bar upp erindið og var því tekið af stakri ljúfmennsku, mér boðið að velja mér eitthvað í staðinn eða fá inneignarnótu fyrir upphæðinni.
Svona eiga sýslumenn, eða verslunarfólk, að vera!
Nanna Gunnarsdóttir þýðandi

miðvikudagur, 8. febrúar 2012

Bild up

Smá mál en sjokkerandi: Sonur minn fór í aðgerð í jan 2012 og þarf að nærast á Bild-up pakka-efni (matur) um talsverðan tíma. Í Bónus var verið fyrst ca. 450 kr pakkinn í dag 537 kr. (mánaðar verðbólgan hér á fullu) en lyfjabúðir rukka vel yfir 1000 kr. Ekki furða að allt hér sé í tómu tjóni - öllu bara velt yfir á neytendur.
kv. Kristinn

Dagnet Vodafone hækkar

Mig langaði bara til að vekja athygli fólks á að þann 1. febrúar síðastliðinn hækkaði Dagnet Vodafone úr 25 kr. í 90 kr.
Þetta fær mig til að íhuga að skipta um símafyrirtæki, eða allavega til að hætta að fara á netið í símanum mínum. Sem er reyndar blessun í dulargervi.
Linda

Rán í Húsasmiðjunni

Varð fyrir því óláni að það bilaði svokallaður skiptir í sturtunni hjá
mér. Þetta er takkinn sem notaður er til að skipta á milli hvort vatnið
fer upp í gegnum sturtuhausinn eða út í gegnum sturtubarkann og brúsuna.
Skaust í Húsasmiðjuna og náði í eitt stykki og viti menn 11.295 kr.
Fannst mér þetta nokkuð dýrt þannig að ég fór í búð sem heitir Flísa og
bað markaðurinn sem Múrbúðin rekur. Þar var til sambærilegur skiptir og
verði 1.190 þ.e.a.s verð munurinn var næstum tífaldur. Fór að sjálfsögðu
aftur og skilaði stykkinu í Húsasmiðjuna. Látum liggja á milli hluta
hvort einhver gæðamunur kunni að vera á þessu en þetta er bara hreint og
klárt rán. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég rek mig á svona verðmun
milli annarsvegar Byko og Húsasmiðjunar og hinsvegar Múrbúðarinnar.
Herbert Bjarnason

föstudagur, 3. febrúar 2012

Vegna reikninga frá TAL fyrir óveitta þjónustu

Í talsverðan tíma hefur undirritaður átt í greiðsluvanda og það hefur gengið svo langt að ég gat ekki greitt símreikningana mína á tilsettum tíma. Nú hef ég komist að því afhverju ógreidd skuld mín við símfyrirtækið TAL hefur haldið áfram að vaxa óeðlilega þrátt fyrir að lokað hafi verið fyrir alla þjónustu nema innhringinar í heimasímann (þ.e., lokað hefur verið fyrir farsímann og nettenginguna, og úthringingar úr heimasímanum):

Mér hafa verið skuldfærðar að jafnaði um 8 þúsund kr. pr. mánuð fyrir þjónustu sem kostar skvt. verðskrá allra símfyrirtækja á landinu milli 12- og 15 hundruð krónur á mánuði, - þ. e. grunnþjónustugjald fyrir heimasíma án úthringinga.

Auðvitað get ég sjálfum mér um kennt að greiða reikningana ekki á tilsettum tíma, og það hefur sosum gerst áður, það get ég vel viðurkennt.

En ég er ekki vissum að það sé eðlilegt eða sjálfsagt að hægt sé að rukka mig um 8.000. - kr. að jafnaði á mánuði fyrir þá þjónustu eina að hægt sé að hringja í mig í heimasímann minn. Þessa reikninga get ég, samvisku minnar vegna, ekki greitt, vil ekki borga og mun aldrei borga.

En annað er enn alvarlegra: Svar þjónustustúlkunnar í litla básnum í Kringlunni í gær:

, - Þetta er svona hjá öllum símafyrirtækjunum.'

Ég hef ákveðið að kanna hvort það er rétt - og ef svo er, hlýtur að vera um verðsamráð að ræða. Fyrir það hafa fyrirtæki verið dæmd í háar sektir (sbr. olíuverðs- og grænmetisverðssamráð).

Ef það reynist rétt að öll símfyrirtæki landsins rukki fólk fyrir óveitta þjónustu, mun ég kæra það til Samkeppniseftirlitsins.

Halldór Carlsson
Undirritaður er atvinnulaus fjölmiðla- og sagnfræðingur og nemi við Háskóla Íslands.
Lifir á um 160 þúsund krónum á mánuði.

miðvikudagur, 1. febrúar 2012

Roðlaust og beinlaust í Bónus

Núna undanfarna daga hefur Bónus skiltað með verðið 1.098.- kr. kg. af roðlausum og beinlausum ýsuflökum frá Fiskbúðinni okkar.
Verð sem tekið er á kassa er hins vegar kr. 1.259,- sem gerir mismun upp á kr. 161.- pr. kg.
Ef gefum okkur að allar Bónusbúðir selji aðeins 25 tonn af ýsuflökum á viku, þýðir þessi mismunur á milli þess verðs sem okkur er sagt að varan kosti og þess sem Bónus tekur kr. 209.300.000,-. Bara þessi eina litla vörutegund ! Yfir tvö hundruð milljónir!
Verum vakandi!!!
Óli Sig

sunnudagur, 29. janúar 2012

Verslunarferð í Krónunni

Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa síðu sem ég les öðru hvoru og vildi koma á framfæri upplifun sem ég átti í dag í Krónunni upp á Höfða.
Ég fór þangað með innkaupaseðil með ýmsum nauðsynjavörum og byrja í grænmetisdeildinni. Þar vantaði mig spínat og salat og við hliðina á mér stendur starfsmaður sem er að tína skemmd blöð af kálinu þannig að það líti vel út.
Þegar ég fer að skoða salatið sem ég hafði augastað á, sé ég að síðasti söludagur var 26. Janúar (Í dag er 29. Janúar). Shit happens og ég segi stráknum sem er að tína skemmda kálið af kálhausnum frá þessu. Hann yrðir ekki á mig eða segir neitt og byrjar strax að fjarlæga pokanna með salatinu. Allt í góðu.
Næstu vörur fara í innkaupakerruna og svo kemur að því kaupa Lasagna plötur. Þá er einn pakki eftir. Þegar ég skoða hann hefur einhver opnað hann og límt aftur. Það finnst mér ekki boðlegt söluvara.
Næst eru það mjólkuvörurnar og í framhaldi af því er það sinnep á pylsurnar. Ég finn sinnep og þar sem það er ekki mikið notað á mínu heimil, þá skoða ég dagsetningu sem var 26.11 eða 26.12. Ok dugar í næstum því ár. Nei, bíddu hægur. Þetta rann út 2011. Þessi ónýta vara er semsagt búinn að vera 1-2 mánuði upp í hillu í augnhæð án þess að starfsmenn verslunarinnar geri nokkuð í því.
Ég kalla til mín starfsstúlku Krónunnar sem er í nokkurra metra fjarlægð og bendi henni á að það sé vara þarna sem er kominn fram yfir síðasta söludag. Hennar viðbrögð voru að ganga í burt án þess að yrða á mig og láta sig hverfa. Kannski fór hún að ná í yfirmann sinn, ekki sagði hún neitt við mig.
Mér finnst þetta spaugileg upplifun en það er eitthvað veruleg mikið að í verslun sem býður upp á svona vörur og þesskonar þjónustu.
Ég myndi hvetja Jón Helga Guðmundsson eiganda Krónunnar til að labba þarna í gegn og skoða þetta því ef ég væri hann væri ég ekki sáttur við svona í minni verslun.
Ég skal líka gefa ókeypis ráð:
Það er að ef viðskiptavinur finnur vöru sem er kominn yfir síðasta söludag í versluninni þá ætti hann að fá 2 eintök af vörunni ókeypis (og að sjálfsögðu ekki ónýtar).
Ég er ekki að tala um einn salatpoka og eina dós af sinnepi. Það var heill rekki af salati og a.m.k. 10-15 sinnepsdollur of gamlar.
Og svo finnst mér lágmark að að starfsfólk yrði á mig. Í bæði skiptin talaði ég við fólkið með bros á vör. Meira að segja 8 ára strákurinn minn undraði sig á framkomu starfsmanna þegar ég talaði.
Kveðja,
Matthías

fimmtudagur, 19. janúar 2012

Laukur í Bónus


Ætli það sé eðlilegt að laukur í 500 gr pakkningum sé 7,6x dýrari en laukur í stöku? Meðfylgjandi mynd er úr Bónus í Faxafeni. Það sama á við um tómata og sveppi í stöku vs. pakkningu. Maður hefði gleypt því að það væri hugsanlega einhver örlítill munur, en ekki svona mikill...!
kv.
Birkir

þriðjudagur, 10. janúar 2012

Ipad aukahlutur - 2 verð

http://iphone.is/products/7938-rover-app-controlled-spy-tank kostar 35.990 hjá iphone.is, en http://buy.is/product.php?id_product=9208600 24.990 hjá buy.is.
þetta er náttúrlega bara okur.
Óskar nafnleyndar

laugardagur, 7. janúar 2012

Síminn hækkar verð myndlykils

Hana nú! Síminn búinn að hækka mánaðarleiguna á myndlyklinum upp í 990 kr á mánuði. Verðið var 690 kr. Einu sinni kostaði ekki neitt að hafa sjónvarpið í gegnum myndlykilinn en 1. mars 2009 fór leigan upp í 600 kr á mánuði. Eftir nýjustu hækkunina fær maður reyndar fjórar nýjar erlendar stöðvar með.

Hér má lesa um verð"breytingar" Símans. Ég get reyndar hvergi lesið ástæðuna fyrir þessari hækkun.

Bkv, Dr. Gunni

fimmtudagur, 5. janúar 2012

Verð á Lancer, Hekla - Sparibíll

Mitshubishi Lancer Evolution X kostar

9.600.000 kr hjá Heklu (sjá hér)

en 6.590.000 kr hjá Sparibíl (sjá hér)

Bíllin hjá Sparibíl er nýr.

Kveðja,
Patrekur Sveinn