föstudagur, 31. desember 2010

Breytingagjaldið hjá Icelandair

Ég er námsmaður í Noregi. Og ef ég ætla breyta flugmiðanum mínum frá Noregi til Íslands þá þarf ég að borga 20 þús breytingagjald af því ferðalagið byrjar í Noregi. Hefði flugið byrjað á Íslandi er það 10 þús.
Þeir bera fyrir sig “gamla gengið” en það er ekkert gamalt gengi. Íslenska krónan hefur ekki verið 10 vs þeirri norsku í yfir 4 ár amk.
Geir

miðvikudagur, 29. desember 2010

Jólagjafaskil Ikea

Fór í Ikea í dag til að fá skipt jólagjöf. Þar sem nú er hafin útsala (hófst strax á fyrsta opnunardag eftir jól) neitar Ikea að taka við vörunni á því verði sem hún var keypt á nema að ég geti sýnt fram á það með kassakvittun. Ekki frekar en aðrir hef ég enga kvittun við hendina og kann illa við að biðja um hana frá gefanda. Þrátt fyrir að eiga smá spjall við annars almennilegan starfsmann þá var ákvörðun Ikea ekki hnikað. Ótrúlega slakt hjá þeim að gefa ekki fáeina daga fyrir vöruskil og þá á því verði sem upphaflega er greitt er fyrir. Ég hafði því miður ekki aðra möguleika en sætta mig við þessa meðferð en ákvað að stoppa eins stutt við og mögulegt var.
Ég mun í ljósi þessarar reynslu frábiðja mér frekari gjafir frá Ikea og reyna eftir fremsta megni að forðast að eiga viðskipti við þessa verslun í framtíðinni.
kveðja,
Magnús

Í stappi við Eymundsson

Þannig vildi til að sonur minn fékk tvö stykki af sömu bókinni í
jólagjöf. Önnur var keypt norður í landi en hin hjá Eymundsson. Þar
sem við búum í Reykjavík var það augljóst að við myndum skila bókinni
sem keypt var í Eymundsson. Sú bók var reyndar ekki með skilamiða en
var þó með verðmiða merktum Eymundsson upp á 3990,- .
Í gær, fyrsta opnunardag eftir jól fór ég í Eymundsson í Kringlunni.
Þar átti ég að fá inneignarnótu upp á 3190,-. Ég var ekki sátt við það
þar sem verðmiði sýndi að bókin var keypt á 3990,-. Ég fékk þau svör
að núna væri bókin á tilboði og að þessi bók hefði örugglega verið
keypt á því tilboði þótt það væri enginn miði á henni sem gæfi það til
kynna. Enn var ég ekki sátt við þessi vinnubrögð því ég taldi að
verðmiðinn hlyti að gilda en þá var mér sagt að það væri ekkert hægt
að gera því afgreiðslukerfið byði ekki upp á annað en tilboðsverðið.
Ég tók því bókina.
Í dag hringdi ég í fyrirtækið og fékk samband við mann sem ég fékk að
kvarta við. Hann tók vel í erindi mitt og sagði það vera alveg ljóst
að ég ætti rétt á að fá inneignarnótu samkvæmt því verði sem á bókinni
væri. Hann sagðist ætla að hafa samband við Eymundsson í Mjódd, bað
mig um að senda kveðju frá sér til verslunarstjórans og sagði að hún
myndi leysa úr þessu fyrir mig.
Ég fór því seinnipartinn og bað um að fá að tala við verslunarstjórann
í Eymundsson í Mjódd. Þá kom í ljós að hún hafði ekki fengið nein
skilaboð og þegar á reyndi náði hún ekki í þann mann sem hafði lofað
mér úrlausn mála fyrr í dag. Hún sagðist einnig ekki geta látið mig fá
rétt verð á bókinni þar sem hún hefði ekki heimild til þess, þeim væri
hreinlega bannað að setja annað verð en tilboðsverðið.
Þetta var því tilgangslaus ferð fyrir mig í annað skiptið á tveimur
dögum. Ég sé því fram á að þurfa enn og aftur að hringja í Eymundsson
á morgun til þess að kvarta. Og væntanlega þarf ég þá í þriðja skiptið
að fara í Eymundsson bókabúðina til þess að skila einni bók.
Það sem upp úr stendur er þetta:Í fyrsta lagi hugsa ég til allra
þeirra sem fengu bækur í jólagjöf keyptar í Eymundsson og eru að skila
þeim núna. Þeir eru væntanlega flestir með skilamiða á bókunum sínum
en ekki verðmiða sem þýðir það að Eymundsson kemst upp með að láta
fólk fá inneignarnótur fyrir lægri pening en var hugsanlega eytt í
jólagjöfina. Í öðru lagi hef ég ekki mikinn áhuga á að versla meira
við Eymundsson eftir að hafa lent í þessu enda hafa þeir ekki mikinn
áhuga á að koma á móts við mig sem viðskiptavin. Sumir hugsa kannski
að þetta sé skitnar 800,- kr. en safnast þegar saman kemur. Fyrir mér
er þetta prinsipp mál. Rétt skal vera rétt.
Kveðja, Ástríður M. Eymundsdóttir

Að skila skóm í Útilífi

Ég var að koma úr Kringlunni þar sem ég skilaði einni gjöf sem hún móðir mín gaf mér, en það voru Viking lágir gönguskór, inn í búðini stóð 18.990kr sem verð á skónum...
Ég ákvað að skila þeim og fékk því innleggsnótu, og á henni kemur fram að inneign mín sé 15.192 kr var nú ekkert að taka neitt rosa eftir þessu fyrr en ég tók miðan upp er heim var komið...
þá er þetta sett upp að varan kosti 18.990 kr og svo kemur eithvða sem mér sýnist ekki vera neitt annað en þjófnaður.... og þeir kalla á sneplinum Línuafsláttur upp á 3.798 kr.
Ég á nú efitr að tékka hvað hún mamma borgaði fyrir skóna, en mér fynst það nú ansi ríflega ef að búðin sé að taka hátt í 4 þúsund krónur fyrir það eina að geyma peningana mína...
Væri gaman að vita ef að fleiri hafa lent í þessu eða fá svör frá versluninni um hvað þessi línuafsláttur til þeirra sé.... en þetta var í Útilíf í Kringlunni.
Með kveðju, Kristján R

þriðjudagur, 28. desember 2010

Græðir Hagkaup á jólagjafaskilum?

Fór og skilaði dóti í Hagkaupum, þann 27. des. s.l. sem barnið mitt
fékk í jólagjöf, sem er nú ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir
að þegar varan er stimpluð inn í kassann kemur upp að ég eigi að fá
3.990 kr. í inneign. Það vildi svo skemmtilega til að verðmiðinn var
enn á dótakassanum (sem er nú iðulega ekki á gjöfum) en þar stóð 5.990
kr. Ég benti á þetta og þetta var leiðrétt eins og skot.
Fór að velta því fyrir mér hvort þetta hafi verið einstakt tilvik eða
hvort þetta sé auðveld leið til að græða?
Það hefur nú ekki alltaf verið talið kurteisi að spyrja hversu dýrar
gjafirnar eru sem maður fær, en það er kannski ekki óvitlaust?
bestu kveðjur og þakkir
:)
Blær

Kreppugler= Zenni Optical með álagningu

Mér fannst Kreppugler mjög sniðugt þegar það kom fyrst, en svo eftir að hafa lent í miklu veseni með að fá gleraugu bætt sem voru gölluð þaðan (endaði með að ég gafst bara upp, fékk ekkert nema dónaskap og leiðindi) fór ég að skoða þetta aðeins, og sá hér á okursíðunni um grun aðila nokkurs að það væri verið að scrape-a (http://okursidan.blogspot.com/2010/10/kreppugler-ea-bara-ny-afer-vi-hafa.html) þar sem þeir slá inn pöntun á síðu eins og zennioptical.com og afgreiða það svo sem sína eigin pöntun, en tala svo um á sínum síðum að þetta sé beint frá byrgja, það er kannski hægt að túlka það sem tæknilega rétt en mér finnst það samt óheiðarlegt.
Ég fór að skoða gleraugnaboxið sem ég fékk gleraugun mín send í og viti menn, það stendur Zenni Optical á því. Ég er ekki lengur í nokkrum vafa á að þetta sé scraping og bara vel smurt á, t.d. eru gleraugu sem ég pantaði frá zennioptical.com á 10.040 kr komin til landsins með sköttum og öllu saman, en nákvæmlega sömu gleraugu með sömu aukahlutum, glerjum og öllu kosta tæp 20 þús á kreppugler. Ég vil hvetja fólk til að versla frekar við Zenni Optical beint og fá bæði lægra verð og sleppa við svona óheiðarlega viðskiptahætti, það er víst búið að hrekkja hinn almenna borgara nóg.

Gleraugnanotandi

þriðjudagur, 21. desember 2010

Flatskjár - Ísland vs England

Var að skoða flott sjónvarpstæki hjá Heimilistækjum - Panasonic - TXP46G20ES - Fullt verð: 369.995 - Tilboð: 299.995.
Datt í hug að athuga hvar slíkt tæki væri ódýrast í UK. Fann samskonar tæki, nýtt að sjálfsögðu, á vefsíðu Amason. Það vekur athygli að "Tilboðsverð" hér heima er 100% hærra en verð með heimsendingu innan Bretlands.

Okurkubbur

Fór í Bókabúðina Eymundsson 19 Des og keypti dagatalskubb, stærri gerðina, sem kostaði 3.226 kr. Þetta kalla ég okur!
Jónína Gunnarsdóttir.

laugardagur, 18. desember 2010

Okrað á lásaspreyi

Í gærkvöldi sárvantaði mig lásasprey, svona til að sprauta inn í frosinn lás. Ég fór á næstu bensínstöð og það vildi svo til að það var Olís. Fyrir pínulitla pakkningu var ég látinn borga 623 kr.!! Ef mig hefði ekki sárvantað þetta hefði ég hlaupið út með það sama! Það stendur ekki á pakkningunni hversu stór hún er en ég myndi giska á svona ca. 30 ml. Það þýðir að lítraverðið af þessu spreyi er á 20.767 kr.!!! Þetta er svipað lítraverð og á dýrasta koníakinu í Ríkinu. Ég ætla aldrei að stíga fæti inn í Olís aftur, það er ljóst.
Kveðja,
Guðmundur

sunnudagur, 12. desember 2010

Vatnsfiskur


Konan keypti fiskflök um daginn. Þetta voru ýsuflök með 10% íshúðun. Afhverju íshúðun er innifalin veit ég ekki en það ætti þá að vera hægt að fá fiskinn án íshúðunar eða íshúðunina sér, ekki satt?
En þar sem ég er stundum leiðinlega smámunasamur þá ákvað ég að vikta þetta allt sjálfur. Fiskuinn í umbúðum vó 838g en á umbúðunum var hann merktur 836g, límmiðinn gæti verið 2g með prentun, lími og fingraförum.
Ég hellti mestu af vatninu úr pokanum í skál og vó það sér, eftir að hafa tarað út þyngdina á skálinni að sjálfsögðu og þá var vatnið 202g.
Síðan vó ég fiskinn sér 634g í pokanum, með límmiðanum.
Eftir það ákvað ég að þerra fiskinn með húsbréfi og þá fór þyngdin niður í 594g úr upprunalegu 836g sem er ca: 41% ekki 10% eins og miðinn gefur til kynna. Þetta kalla ég vörusvik, það er ekkert annað heiti yfir þetta. Mér þætti gaman að sjá framan í þennan framleiðanda ef honum hefði bara verið greitt fyrir 60% af fisknum eða hann hefði fengið 60% af kvótanum.
Svona eiga menn ekki að gera.
Næst kaupi ég fiskinn en ekki frá þessum framleiðanda.
Kveðja,
Steinþór B. Grímsson

Óheiðarlegir viðskiptahættir í Toppskórinn Outlet

Í Fréttablaðinu í gær var heilsíðuauglýsing frá Toppskóm - Outlet sem hljóðaði upp á 50% afslátt af öllum vörum í búðinni. Ég var stödd í umræddri búð fyrir viku síðan og vissi nákvæmlega verð á Ecco inniskóm sem ég var að skoða. Um var að ræða tvennskonar pör sem kostuðu 11.995 kr. Þegar ég hugsaði mér að nýta mér þetta góða auglýsta tilboð í dag var búið að hækka alla skóna í 14.995 kr. Ég spurði stúlkuna hvernig stæði á þessu og hún tjáði mér að það gæti að það hefði ruglast eitthvað verðið og pör í kassa. Hún var s.s að gefa það til kynna að ég hlyti að hafa tekið vitlaust eftir. Hún fór fram og spurði einhverja konu og kom til baka og sagði að þetta væru rétt verð en það gæti verið að verð og pör hefðu ruglast. En þetta svar var svo loðið og tilbúið að ég var ekki tilbúin að kaupa það. Ég sagði að ég væri ekki ánægð með þessi vinnubrögð ef þetta væri rétt hjá mér og sagðist ekki ætla að láta hafa mig að fífli og gekk út og sagðist ekki versla hérMaðurinn minn var með mér og hann vissi einnig rétta verðið á skónum. Mér finnst rétt að fólk viti af þessu að þetta var svo sannarlega ekki um 50% lækkun á vörunum þar sem búið var að hækka vöruna um allt að 30% og "gefa" svo 50% afslátt. Fólk verður að vera á verði.
Kær kveðja,
Gunnhildur Grétarsdóttir

Hvað kostar jólaklipping barnanna?

Nú þurfa krakkarnir að komast í jólaklippinguna. Ég kynnti mér verð hjá 15 hársnyrtistofum fyrir þrjú systkini, 3 ára stelpu og 7 og 12 ára stráka. Stofurnar aldursskipta kúnnahópnum mjög misjafnt, sumar gera engan greinarmun á aldri barnanna, meðan aðrar skipta í marga aldursflokka. Eins og sést eru verðin mjög mismunandi – það munar 67.6% á lægsta og hæsta verðinu – og því greinilega ekkert samráð í bransanum. Auðvitað borgar sig því að athuga verðið áður en maður kaupir þjónustuna. Athugið að gæði og þjónustustig var ekki athugað í þessari könnun, bara verð. Athugið einnig að þessi könnun er ekki tæmandi, það er auðvitað fjöldi annarra stofa til en þessar fimmtán. Hér koma niðurstöðurnar, ódýrasta stofan fyrst og svo koll af kolli.

Í hár saman
Grettisgötu 9
6.800 kr
(1 x 1.800 kr / 2 x 2.500 kr)

Salon Nes
Austurströnd 1
7.000 kr
(2 x 1.900 kr / 1 x 3.200 kr)

Díva
Hverfisgötu 125
7.800 kr
(2 x 2.500 kr / 1 x 2.800 kr)

Solid hár
Laugavegi 176
8.000 kr
(1 x 2.000 / 2 x 3.000)

Englahár
Langarima 21
8.265 kr
(2 x 2.800 / 1 x 3.100 kr - 5% systkinaafsláttur)

Hárný
Nýbýlavegi 28
8.550 kr
(1 x 2.250 kr / 2 x 3.150 kr)

Brúskur
Höfðabakka 1
8.800 kr
(1 x 2.200 kr / 1 x 2.900 kr / 1 x 3.700 kr)

Manda
Hofsvallagötu 16
9.100 kr
(1 x 2.700 kr / 2 x 3.200)

Hárgreiðslustofa Helenu, Stubbalubbar
Barðastöðum 3
10.005 kr
(2 x 3.790 kr / 1 x 4.190 kr – 15% systkinaafsláttur)

Möggurnar í Mjódd
Álfabakka 12
10.450 kr
(1 x 3.150 kr / 2 x 3.650 kr)

Hárgreiðslustofan Gríma
Álfheimar 4
10.500 kr
(1 x 2.500 / 2 x 4.000)

Rakarastofa Ágústar og Garðars
Suðurlandsbraut 10
10.630 kr
(2 x 3.270 kr / 1 x 4.090 kr)

Korner
Bæjarlind 14-16, Kóp
10.700 kr
(1 x 3.100 kr / 2 x 3.800 kr)

Rakarastofan Klapparstíg
Klapparstíg 29
10.920 kr
(2 x 3.360 kr / 1 x 4.200 kr)

Ónix
Þverholti 5
11.400 kr
(3 x 3.800 kr)

Dr. Gunni
(Birtist í Fréttatímanum 10.12.10)

þriðjudagur, 7. desember 2010

Ódýrasti jólakjóllinn og okrið hjá sumum!

Ég keypti mér jólakjólinn nú um síðustu helgi og langar að deila því með ykkur.

Ég byrjaði á því að fara á Laugaveginn af því þar er svo mikið af íslenskri hönnun. Eftir að hafa heimsótt nokkrar verslanir þar gat ég nú bara eiginlega ekki meira því mig var farið að svíða svo í augun undan verðmiðunum! Ég veit að maður á að reyna að styðja íslenskt en guð minn góður!! Einföld blússa á nærri fimmtíu þúsund kall! og kjólar sem kosta morð... get ekki ímyndað mér að það séu margir aðrir en útlendingar sem hafi efni á íslenskri tísku þessa dagana.

Ég ákvað því að kíkja í Kringluna og leita að einhverju sem veskið mitt þolir. Eftir að hafa heimsótt nokkrar búðir kíkti ég inn í nýja búð sem heitir Emami. og viti menn.. flottur jólakjóll á viðráðanlegu verði. Ég skoðaði einn silkikjól sem var á tilboði á 25 þúsundkall, það var hægt að breyta honum alveg endalaust. Ferlega sniðugt. Ég keypti hann samt ekki því ég fann annan sem ég féll alveg kylliflöt fyrir, rosalega flottur jólakjóll í svörtu silki og ég borgaði 26.900 kr fyrir hann (hann var ekki á tilboði). Það var líka hægt að breyta honum þannig að ég get verið í hinum á aðfangadag, breytt honum svo bara fyrir áramótin og notað hann svo enn og aftur í fermingunum án þess að nokkur fatti neitt! Þetta er sko jóladíll ársins.. að kaupa kjól sem hægt er að nota aftur og aftur.

En það sem kom mér mest á óvart að þegar ég var á kassanum þá sagði stelpan mér að Emami væri íslensk hönnun!! Hvernig geta þeir verið með eðlileg verð í búðinni sinni á meðan búðirnar sem ég heimsótti á Laugaveginum eru gjörsamlega í ruglinu með sín verð?!

Niðurstaðan: ódýrasti jólakjóllinn er sennilega í Emami búðinni í Kringlunni. Allavegana ef þú vilt kaupa íslenska hönnun.

Kveðja,
Guðrún

laugardagur, 4. desember 2010

Hvað kosta persónulegu jólakortin?

Margir aðilar bjóða upp á þjónustu fyrir fólk sem vill sendir jólakort með mynd af sér og sínum nánustu. Algengasta leiðin er að fólk halar niður forriti sem það vinnur kortin í (stillir mynd eða myndir inn á, velur bakgrunn og kveðju), sendir útkomuna til prentfyrirtækisins og sækir svo kortin tilbúin skömmu síðar eða fær sent heim (sendingarkostnaður bætist þá við). Skoðum möguleikana og gefum okkur að framleiða eigi 30 kort. Öll verðin miðast við 30 kort og umslög eru innifalin í öllum verðum.

Oddi (www.oddi.is) framleiðir þrjár stærðir korta. Verðin: A5 (14.8 x 21 cm) – 5.370 kr, A6 (10.5 x 14.8 cm) - 4.770 kr og ferhyrnd 14 x 14 cm – 5.070 kr. Þetta eru allt opin kort með broti.

Hjá Póstinum (www.postur.is) er boðið upp á ílöng einföld kort í stærðinni 21 x 10 cm. Þrjátíu kort kosta 5.100 kr. Hjá Póstinum má líka panta frímerki með eigin mynd og er lágmarkspöntun ein örk, 24 stk. Verð á einni örk fyrir innanlands sendingu að 50 gr er 3.995 kr (166.50 kr/stk), en þess má geta að póstburðargjald fyrir innanlandsbréf að 50 gr er 75 kr.

Hjá Prentlausnum (www.prentlausnir.is) fást gerð kort í stærðinni A5 (5.070 kr) og A6 (4.170 kr). Hægt er að velja um opin brotin kort eða einföld kort, en verðið er það sama.

Samskipti (www.samskipti.is) bjóða upp á fjórar stærðir af jólakortum, með broti og án. Verð: A6 – 4.700 kr, A5 – 5.000 kr, 14 x 14 – 4.500 kr og 21 x 10 – 4.500 kr.

Pixel prentþjónustan (www.pixel.is) prentar þrjár stærðir. Verð: A6 – 6.300 kr, A5 – 6.900 kr og 15 x 15 – 6.900 kr. Öll kortin eru með broti. Fyrirtækið býður upp á 25% afslátt af öllum verðum til 10. desember.

Pixlar (www.pixlar.is) er með tvær stærðir, 10 x 21 og 15 x 15 – sama verð á báðum stærðum: 4.650 kr sé um einfalt kort að ræða, en 4.950 kr fyrir opin kort með broti.

Netfyrirtækið Jóla (www.jola.is) framleiðir kort af stærðinni 15 x 10 cm með broti. Þrjátíu stykki kosta 3.840 kr með umslögum sem þarf að panta sérstaklega.

Á kortavef Hans Petersen (www.kort.is) er hægt að velja um tvær stærðir, ílöng og ferköntuð einföld kort (21 x 10 og 15 x 15). Sama verð á báðum stærðum – 4.800 kr.

Myndval í Mjódd (www.myndval.is) er með þrjár stærðir. Þrjátíu stykki af stærðunum 15 x 15 og 10 x 21 kosta 4.560 kr., en 30 stykki af 10 x 15 kostar 4.050 kr.

Ljósmyndavörur (framkollun.ljosmyndavorur.is) bjóða upp á fjórar stærðir. Verð: 10 x 15: 3.900 kr, 10 x 20: 4.350 kr, 15 x 15: 4.350 kr og 15 x 20: 4.800 kr.

Eins og sjá má er nokkur verðsamkeppni á persónulega jólakortamarkaðinum. Verðin hér að ofan endurspegla þó á engan hátt gæði prentunar eða korta. Til að ná verðinu niður má svo fara þá leið að framkalla jólalegustu myndina (stafræn framköllun á þrjátíu myndum er á 1.110 kr. í stærðinni 10x15 bæði hjá Hans Petersen og Pixlar.) Þá mynd má líma í jólakort eða á karton (algent verð er 30 kr fyrir 180 gr A4 karton sem dugar í tvö A6 opin kort) og skreyta og föndra við með fjölskyldunni. Ekkert kort verður því nákvæmlega eins. Persónulegasta útfærslan getur því jafnframt verið sú ódýrasta.

Dr. Gunni
(Birtist í Fréttatímanum 2. des 2010)

Soda stream-hylki - mikil hækkun

Ég fór í Krónuna í dag, 3. desember og keypti mér nýtt kolsýruhylki í Sódastream tækið mitt. Ég fékk 594 krónur fyrir tóma hylkið og borgaði 3.354 krónur fyrir nýja kolsýruhylkið. Ég á ekki orð yfir álagningunni. Fyrir um það bil tveim mánuðum borgaði ég um það bil 1.800 krónur fyrir sama hylkið.
Kveðja,
Guðrún Sólveig Högnadóttir

miðvikudagur, 1. desember 2010

Ótrúleg verðhækkun á kaffi

Mig langaði að segja þér frá ótrúlegri verðhækkun á kaffi á kaffihúsum Súfistans. Ég hef heyrt af umræðu um yfirvofandi hækkun á kaffi og að kaffihúsin myndu þurfa að hækka kaffi sitt verulega vegna hækkana á heimsmarkaðsverði og bjóst því við einhverjum hækkunum. Ég er vön að kaupa mér latte og taka hann með mér og borga fyrir það 380 kr (var um 300 kallinn lengi vel) á meðan hinir sem drukku á staðnum og notuðu sætin og borðin og bollana á kaffihúsinu borguðu 430 kr. Nú hefur verðið á sama lattebollanum hækkað í 480 kr og sama verð er á kaffinu hvort þú takir með þér eða drekkir á staðnum. Hækkunin er 26% á einu bretti. Ég er fastgestur á Súfistanum en mér finnst rosalegt að borga næstum 500 kall fyrir kaffibolla, svo því verður líklega kippt út núna.
Kaffikarlinn

föstudagur, 26. nóvember 2010

Varúð - Matseðillinn á Pizza Hut

Ég vildi bara benda fólki á að hafa verðið í huga er það pantar staðlaðar
pizzur af matseðli Pizza Hut

Þannig kostar stór hawaii pizza (með skinku og ananas) 4.990 krónur.
Stór pizza með skinku og ananas kostar hins vegar 4.650

Eins kostar stór sjávarétta pizza (með túnfisk, rækjum og rauðlauk) 6.130
krónur
En stór pizza með túnfisk, rækjum og rauðlauk kostar 5.230

Það borgar sig að rýna í verðið

Kv. virkur neytandi

Fúl með Krakkahöllina

Ég var svo fúl um daginn þegar ég fór með börnin mín þrjú í Krakkahöllina á
Korputorgi. Það kostar inn um helgar 1000 kr. og það sem mér finnst ömurlegt að
það er enginn systkina afsláttur. Ég var búin að lofa krökkunum að fara svo ég
gat ekki hætt við og borgaði þá fyrir þau en varð hundfúl.
Vanalega þegar maður fer á svona svipaða staði eins og t.d Ævintýralandið í
Kringlunni er afsl.fyrir systkini.
Svo gátu krakkarnir ekki fengið gefins plastmál til að fá sér vatn að drekka
eftir hamaganginn sem mér finnst frekar lélegt þegar það er búið að borga inn.
En annars er þetta mjög sniðugur staður og krakkar hafa mjög gaman af að hamast
þarna en ég á eftir að hugsa mig um áður en ég lofa að fara þangað aftur.
kv. xxx

Engiferdrykkir og ódýr fiskur

Engifer-drykkir virðast vera nýjasta heilsuæðið á Íslandi. Nokkrar tegundir eru í boði og er mismikill leyndarljómi yfir tegundum. Drykkirnir eru síður en svo gefnir, sá ódýrasti er af tegundinni Zing og fæst í Bónus á 1.698 krónur, 2 l flaska. Aðrar tegundir eru dýrari, enda leyndardómsfyllri. Ekki veit ég hvers vegna þessi verð eru svona há því innihaldslýsingin gefur ekki tilefni til þessa verðlags. Þvert á móti er hráefnið frekar ódýrt. Kíló af engifer kostar 579 krónur í Bónus, kíló af lime er á 459 kr, kíló af hrásykri á 596 kr og 50 grömm af myntublöðum á 398 krónur. Vatnið kemur svo úr krananum.

Jafnvel mestu eldhúsklaufar eins og ég geta náð upp leikni við að búa til sína eigin engiferdrykki. Ekki þori ég þó að lofa jafn miklum árangri af svona heimagerðum drykkjum og dýru drykkirnir lofa. Það eru fá meinin sem leyndardómsfyllstu engifer-drykkirnir lofa ekki að bæta.

Netið er stútfullt af uppskriftum um engiferdrykki. Magn hráefna fer eftir því hversu sterkan drykk maður vill gera og verður maður að leyfa sér smá tilraunastarfssemi í byrjun. Svona sirka býr maður til sinn eigin drykk:

Engiferrót er söxuð smátt

Sjóðandi vatni helt yfir og þetta kramið svolítið með mortéli til þess að ná bragðinu úr engiferinu.

Limesafa og krömdum myntulaufum bætt í eftir smekk.

Hrásykri bætt í eftir smekk (eða bara sleppt).

Vilji maður fá auka hjálp í baráttunni við kvef kremur maður smátt saxaðan chilli-pipar (og hvítlauk) með engiferinu.

Kælt (eða drukkið heitt eins og te).

En nú að öðru. Nýlega gerði ég könnun á fiskverði á höfuðborgarsvæðinu. Í framhaldi af því fékk ég bréf frá Fiskbúðinni okkar sem framleiðir ferskan fisk fyrir Bónus. Þeim finnst þeir alltaf lenda útundan í verðkönnunum en segjast þó hafa lagt sig fram um að framleiða ódýran og góðan fisk. Kílóverð á roð og beinlausum ýsuflökum í Bónus er 998 kr., en algengt verð í fiskbúðum er á bilinu 1500-1900 kr. Svipaða sögu má segja um fiskibollur (699 kr. – 10% afsláttur við kassa (sama verð frá árinu 1999)) og ýsuréttirnir kosta 998 kr. kg. Bónus virðist því vera með lægstu verðin á ferskum fiski, eins og svo mörgu öðru.

Dr. Gunni
(Birtist í Fréttatímanum 26.11.10)

mánudagur, 22. nóvember 2010

365 okur?

Það sem mig langar að benda á er áskriftin af Stöð 2 sport 2. Fyrir nóvember mánuð greiddi ég 5.781.- kr. fyrir enska boltann sem er í rauninni brjálæði, en maður lætur sig hafa því áhuginn á enska boltanum er bara það mikill. Ég er ekki með áskrift af öðrum miðlum 365. Það sem vakti athygli mína er desember gjaldið sem sett er á enska boltann, það er 6.066.- kr., það hefur sem sagt hækkað um 285.- kr.

Ætli þetta eigi við um allar stöðvar 365 miðla, þ.e.a.s. desember hækkun? Desember er jú sá mánuður sem maður gæti hugsað sér að eyða í áskrift af t.d. Stöð 2 eins og í mínu tilfelli. Það kæmi ekki á óvart ef þeir hækkuðu desember gjaldskránna hjá sér, án þess að láta kóng eða prest vita. Það væri gaman að kanna það. Skv. heimasíðu þeirra (http://stod2.is/Kaupa-askrift) kostar Stöð 2 og Stöð 2 sport 2 ekki nema 13.530.- kr. núna í desember.

Er þetta ekki bara okur?

Kv, D

Icelandair 65% dýrara en SAS

Mig langaði að koma á framfæri reynslu minni af viðskiptum við Icelandair og SAS.
Ég byrjaði strax í ágúst að leita eftir hagstæðasta verði á flugi fyrir barn fram og til baka milli Stavanger og Keflavíkur yfir jólin. Þar sem ekki var í boði (á þessum tíma) beint flug til Stavanger, þurfti að kaupa einn innanlandsmiða í Noregi, og svo miða frá Osló til Keflavíkur.
Hagstæðasta verðið sem Icelandair gat boðið mér (og þetta var sannreynt nokkrum sinnum) var 111.000 (með fylgd) á ódýrustu mögulegu dagsetninum á bilinu 15. des til 10. jan. Inni í þessu verði er innanlandsflug með SAS frá Stavanger til Osló og millilandaflug með Icelandair frá Osló til Keflavíkur ásamt fylgd alla leiðina.
Þar sem mér þótti þetta í dýrari kantinum ákvað ég að prófa að setja mig í samband við SAS og athuga verð á sama flugi með þeim (ATH sömu leggir og flugvélar). Hjá þeim kostaði pakkinn 67.000.
Mbk,
Svanur Pálsson

föstudagur, 19. nóvember 2010

Öruggt kynlíf flokkað sem munaðarvara

Á Íslandi eru ótímabærar þunganir landlægar og kynsjúkdómar alltof algengir – þrír til fimm greinast með klamedíu á dag. Einfaldasta lausnin er að nota smokkinn. Áhættuhópurinn er krakkar á unglingsaldri og ungt fólk. Í þessum hópi er lítið verið að spá í neytendamál og því ábyggilega fáir unglingar leitandi bæinn á enda eftir ódýrustu smokkunum. Ekki er ólíklegt að þeir arki bara beint í næstu 10/11-búð þar sem dýrir smokkar blasa nú við þeim á kassanum – til dæmis þrír Durex í litskrúðugum álkassa á 799 krónur eða 12 smokka pakkar sem kosta á bilinu 1.899 – 2.299 kr.
„Afhverju eru smokkar svona dýrir á Íslandi?, er spurning sem kemur upp í hvert einasta skipti sem við förum að fræða framhaldsskólakrakka,“ segir Hólmfríður Helgadóttir hjá forvarnarstarfi læknanema, Ástráði. Félagsskapurinn heimsækir fyrstu bekkinga í nánast öllum framhaldsskólum landsins. „Svarið er að þótt ótrúlegt sé þá eru smokkar flokkaðir sem munaðarvara og því í hæsta skattþrepinu. Við skiljum ekki hvað réttlætir það að flokka öruggt kynlíf sem munaðarvöru, fyrir okkur þá hljómar þetta álíka fáranlegt og að flokka
bílbelti sem munaðarvöru. Auðvitað ættu smokkar að vera skattfrjáls vara,“ segir Hólmfríður.
Hæsta skattþrep þýðir að 25,5 prósenta virðisaukaskattur er á smokkum. Umleitanir hafa staðið yfir síðan 1996 að fella niður lúxustollinn, en ekkert hefur enn gerst í málinu. Það er sláandi dæmi um alvarlegan sofandahátt í stjórnkerfinu. Allir eru þó sammála um að það myndi marg borga sig að lækka virðisaukaskatt á smokkum, því kostnaður af völdum kynsjúkdóma og fóstureyðinga er mjög hár. Með aukinni sölu smokka myndi því sparast gífurlegur kostnaður fyrir þjóðfélagið.
Þrjár tegundir smokka eru til sölu á Íslandi, frá Durex, One og Amor. Það á því að vera hægt að búast við einhverri verðsamkeppni í þessum geira. Í Bónus er ódýrasti 12 smokka pakkinn frá Durex á rétt undir þúsund krónum og 12 Amor smokkar í pakka eru til sölu í Krónunni á svipuðu verði. Á Íslandi má því fá smokka ódýrasta í kringum 80 krónur stykkið, sem er ekki mikið miðað við það ótrúlega vesen sem öryggi á oddinn getur afstýrt.

Dr. Gunni
(Birtist fyrst í Fréttatímanum 19.11.10)

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Ódýr ferskur fiskur í Bónus

Ég var að skoða verðkönnunina sem þú gerðir á fiski í fiskbúðunum og tveimur verslunum.
Málið er að fyrirtækið mitt framleiðir ferskan fisk fyrir Bónus og finnst mér við því miður alltaf lenda útundan í verðkönnunum.
Við höfum lagt okkur fram um að framleiða ódýran og góðan fisk.
Verð á Ýsuflökum er td út úr Bónus á 998 kr kg en mjög algengt verð út úr fiskbúð er á bilinu 1700-1990 kr kg (roð og beinlaust).
Fiskibollurnar okkar kosta út úr Bónus 699 -10% afsláttur við kassa(sama verð frá árinu 1999)en algengt verð út úr fiskbúð er 1100-1500 kr kg.
Ýsuréttirnir okkar kosta 998 kr kg út úr Bónus en algengt verð út úr fiskbúð er 1200-1700 kr kg.
Þannig að fólk getur sparað mikla peninga með því að versla fiskinn sinn í Bónus.
Mig langaði bara vekja athygli þína á þessu og lofa okkur kannski að vera með næst.
Með kveðju,
Finnur Frímann
eigandi Fiskbúðarinnar okkar.

mánudagur, 15. nóvember 2010

Hvað kostar fiskurinn?

Á höfuðborgarsvæðinu eru þónokkuð margar fiskbúðir. Úrval er mismikið og framsetning misjöfn. Sumar fiskbúðir eru nútímalegar og gljándi og bjóða upp á framúrsefnulega rétti samhliða hefðbundnari, á meðan aðrar búðir líta út eins og allar fiskbúðir gerðu fyrir 30 árum síðan. Allar búðirnar eiga það þó sameiginlegt að kaupa hráefnið af sama uppboðsmarkaðinum, og það virðist ekki vera stíf verðsamkeppni í fisksölu í Reykjavík. Og þó. Ég athugaði verð á fimm algengum fisktegundum/réttum í átta fiskbúðum og tveim stórverslunum. Þetta eru niðurstöðurnar:Nokkur verðmunur er á ýsuréttum, plokkfiski og fiskbollum, en það verður að taka með í reikninginn að innihald réttanna er mismunandi eftir búðum. Þessi könnun tekur aðeins mið af verði, ekki gæðum – sumir myndu jafnvel ganga svo langt að segja að hér væri verið aöð bera saman epli og appelsínur.

Samanburður á verði þorsks og skötusels er markvissari. Mestur er munurinn á skötusel. Tvær verslarnir bjóða kílóverð á undir 2000 krónum og er fiskbúðin í Spönginni með besta verðið. Það er 84% ódýrara en hæsta skötuselskílóverðið sem ég fann. Mun minni munur er á þorskflökum, þar er 25% munur á hæsta og lægsta verðinu.

Að lokum má geta þess að fiskur er hollur og góður – staðreynd sem flestum ætti að vera fullkunnugt um – og Íslendingar ættu að borða fisk að minnsta kosti einu sinni í viku, helst tvisvar (eða oftar!)

Dr. Gunni
(Birtist í Fréttatímanum 12.11.10)

Óeðlileg hækkun á barnabílstól hjá N1

Viljum greina frá óeðlilegri hækkun á Multi Tech barnabílstól sem N1 hefur til sölu

Vörunúmer: 400 MLT052624

Verð: 86.355 kr. Eldra verðið var tæp 60.000.- en stóllinn hefur ekki verið til í nokkurn tíma. Höfum beðið eftir nýrri sendingu en þar sem verðið hefur hækkað óeðlilega verður ekkert úr þessum kaupum. Hvað getur eiginlega réttlætt slíka hækkun?

Kveðja,
Sigurður Hreinsson

miðvikudagur, 10. nóvember 2010

Jólamarkaður í Ármúla

Við erum nokkur með jólamarkað í Ármúla 21. Öll varan sem var í Klinkinu er á mikið lækkuðu verði. Leigjum síðan út pláss fyrir alla sem vilja fyrir 2000 kr. daginn.

Erum á facebook.
http://www.facebook.com/pages/Reykjavik-Iceland/Jolamarkadur/139999299382950...

Kveðja,
Svavar

fimmtudagur, 4. nóvember 2010

Byr hækkar um 4 kr.

Hjá Byr, til að fá auðkennisnúmer sent til sín með sms, kostaði það fyrir stuttu kr. 6.- og þeir sögðu það skýrt á Innskráningarsíðu sinni.
Núna segja þeir "SMS Varaleið (kostar skv. verðskrá.),, og í október kíkti ég á verðskránna og það kostaði ennþá kr. 6.-
en í dag kíki ég aftur og það kostar kr. 10.-
Ég veit ekki til þess að viðskiptavinir Byrs hafi verið látnir vita, eða að þeir hafi fengið skilaboð um þetta í gegnum Yfirlit í netbankanum.
Ég vildi koma þessari hækkun á framfæri.
Kv.
Pétur Úlfur

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Óboðleg „þjónusta“ Frumherja á Akureyri

S.l. föstudag, 29. október, voru síðustu forvöð að fara með bifreið með endastafinn 8 í númeri í aðalskoðun, án sektar. Ég er búsettur á Akureyri og hringdi í skoðunarstofuna Frumherja á fimmtudegi. Þar er mér tjáð að opið sé til kl. 16 á föstudegi og ég þurfi ekki að panta tíma, bara mæta á staðinn. Kem kl. 15 í Frumherja. Þá hafa myndast langar biðraðir bifreiða fyrir utan. Mér er tjáð á skrifstofunni að ekki séu teknar fleiri bifreiðar í skoðun þennan dag. Ég geti komið eftir helgi en þá þurfi ég að greiða 7.500 kr. fyrir að koma of seint! Ung kona sem kemur á eftir mér fær sömu svör og liggur við gráti, hún eigi ekki fyrir sektinni. Ekkert tjáði að rökræða þetta við starfsfólkið. Það var ósveigjanlegt.

Ég var ekki varaður við þessu þegar ég hringdi. Hvers vegna í ósköpunum er verið að auglýsa opnunartíma til kl. 16 og að það þurfi ekki að panta ef fyrirtækið hefur ekki starfsfólk til að afgreiða þá sem koma fyrir kl. 16?! Hversvegna er ekki auglýstur styttri opnunartími og allir komist að sem mæta fyrir lok hans, eða að starfsmenn vinni þá yfirvinnu til að klára?

Hver er sanngirnin í því að hirða 7.500 kr. af kúnnum sem mæta á auglýstum opnunartíma og þurfa að snúa frá án þess að fá þjónustu?

Er þetta eitthvað sem fyrirtæki geta leyft sér í umhverfi þar sem skortir samkeppni?

Með bestu kveðju,
Jóhann Frímann Gunnarsson

sunnudagur, 31. október 2010

Ekki okur - ódýr föt á börnin í kreppunni

Barnafatabúðin Blómabörn opnaði þann 14. mars á síðasta ári, að Bæjarhrauni 10, en er nú flutt í glæsilegt húsnæði að Bæjarhrauni 2, spölkorn frá gamla staðnum. Það hefur verið nóg að gera og jákvæð viðbrögð frá byrjun, ekki síst vegna kreppunnar.
Einnig er opið suma Laugardaga en það er nánar auglýst á Facebook undir nafninu Blómabörn Barnafataverslun.
Arnbjörg kaupir notuð barnaföt af fólki á kílóverði og hafa viðtökur verið mjög miklar og góðar.
Nú er hægt að kaupa ódýr og falleg föt á börnin fyrir jólin.

Opnunartími:
MÁNUDAGA - FIMMTUDAGA FRÁ 12-17 EN FÖSTUDAGA FRÁ 12-15.

Blómabörn er með landsbyggðarþjónustu.

Verslunin er á Facebook undir nafninu Blómabörn Barnafataverslun.

Nánari upplýsingar í síma 6161412.

Þriðjudagstilboð hjá Skalla upp í Árbæ

Vildi segja frá tilboði:

1 liter af ís (hvitur-venjulegur) + köld sósa + ein ný mynd og + ein gömul mynd = 890 kr. Þetta er þriðjudagstilboð hjá Skalla upp í Árbæ.
kv.
Linda Björk

föstudagur, 29. október 2010

Út að borða með krakkana

Hvað gerir veitingahús að fjölskylduvænum stað? Er það ekki helst það að gert sé ráð fyrir börnum á staðnum? Að þangað sé þægilegt og gaman að fara með krakkana? Nú bjóða nokkrir veitingastaðir upp á ódýran – jafnvel ókeypis – mat fyrir yngstu fjölskyldumeðlimina, auk þess að leggja metnað í leikhorn og afþreyingu. Kíkjum á tíu dæmi af Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það mætti jafnvel kalla þetta Topp 10 af fjölskylduvænum veitingahúsum í höfuðborginni. Þessi listi er þó auðvitað langt því frá tæmandi.

Græni risinn
Græni risinn á Grensásvegi er með létta og holla rétti. Staðurinn er sérlega hagstæður fyrir fjölskyldufólk til 15. nóvember því réttir af barnamatseðli fylgja frítt fyrir allt að tvö börn þegar foreldrar kaupa rétti af matseðli.

Hamborgarabúllan
Búlla Tómasar Tómassonar er traustur staður. Barnaskammtur: Borgari eða samloka, franskar og gos fyrir 12 ára og yngri kostar 790 kr. Í útibúinu á Bíldshöfða er boðið upp á barnahorn.

Lauga-ás
Veitingahúsið Lauga-ás var fyrst íslenskra veitingastaða til að taka í notkun sérstakt barnahorn. Sjö réttir eru í boði fyrir börn (yngri en 12 ára) á verðbilinu 695 – 995 kr.

Piri – Piri
Allir barnaréttir á Piri-Piri, Geirsgötu, kosta 710 kr. Í Piri-Piri er Piri-land. Það er 30 fermetra leiksalur fullur af leikföngum, og inniheldur þar að auki brúðuleikhús, víkingaskip, risakubbahorn og sjónvarpsherbergi.

Potturinn og pannan
Í Pottinum og pönnunni í Brautarholti er rúmt til veggja og barnahorn. Ýmsir réttir fyrir 12 ára og yngri eru í boði á verðbilinu 980 – 1.390 kr.

Ruby Tuesday
Þægilegt er að fara með krakka á Ruby, nóg pláss og mikið á veggjum sem dreifir athyglinni. Börnin fá bók og liti og geta valið um ýmsa rétti á bilinu 590 – 790 kr.

Saffran
Saffran hefur slegið í gegn síðustu misserin með létta og holla rétti. Dags daglega eru í boði fimm réttir fyrir börn á bilinu 450 – 600 kr. Á sunnudögum til 15. desember fá svo krakkar að 10 ára aldri fría rétti af barnamatseðli þegar foreldrar kaupa rétti af matseðli.

Shalimar
Séu krakkarnir tilbúnir í framandi kost er gaman að fara með þá í krydduðu réttina í Shalimar í Austurstræti. Þar er boðið upp á nokkra bragðsterka rétti fyrir 12 ára og yngri á verðbilinu 890 – 1.290 kr.

Super Sub
Í Super Sub er eitt metnaðarfyllsta barnahorn landsins, rennibraut og boltaland í fjörutíu fermetra plássi. Barnasamlokur má fá á 499 kr., en vinsælast meðal barnafólks er að fá sér fjölskyldutilboð: Tvær pítsur með tveimur áleggstegundum og 2 L af gosi á 2.990 kr. Í eftirrétt er tilvalið að fá sér ís á Yo Yo ís, nokkrum húsum neðar á Nýbýlaveginum.

T. G. I. Fridays
Í Smáralindinni er Íslandsdeild þessarar amerísku keðju og þar má fá ýmsa rétti fyrir 12 ára og yngri á bilinu 395 – 965 kr. Börnin fá litablað og liti. Á fimmtudögum er fjölskyldutilboð. Þá fást allt að tvær fríar barnamáltíðir með hverjum aðalrétti. Og til að gera kjörin enn betri eru ókeypis Buffalo vængir með öllum aðalréttum á fimmtudögum.

Dr. Gunni (birtist í Fréttatímanum 29/10/2010)

sunnudagur, 24. október 2010

Enn um prentarablekhylki

Þótt ég prenti ekki mikið með tölvuprentaranum mínum finnst mér hann alltaf vera að senda mér þau skilaboð að það þurfi að skipta um blekhylki. Þetta er auðvitað hið versta mál því með falli krónunnar hafa þessi prentarablekhylki orðið rándýr.

Prentarinn minn heitir Canon Pixma IP4000. Það eru fimm blekhylki í honum, tvö svört, blátt, rautt og gult. Kaupi ég öll þessi hylki af upprunalegu framleiðslutegundinni Canon þarf ég að punga út í kringum 10.000 krónum. Það er smávægis munur á verðinu á milli búða, þegar ég hef gáð hafa Tölvutek, Elko og Grifill verið með bestu verðin.

Annar möguleiki er að kaupa „samhæft“-blekhylki, þ.e.a.s. ekki orginal Canon hylki heldur ódýrari hylki frá öðrum framleiðendum. Hér eru nokkrir möguleikar í stöðunni. Prentvörur heitir póstverslun sem einnig er með verslun að Skútuvogi 1. Þar get ég keypt samhæfð hylki í prentarann minn fyrir helmingi minna, eða á um 5.000 krónur fyrir hylkin fimm. Enn ódýrari möguleika fann ég hjá Myndbandavinnslunni, Hátúni 6b. Þar eru seld samhæfð blekhylki frá hinu aldna þýska fyrirtæki Agfa fyrir ýmsar gerðir prentara. Verðin eru glettilega góð. Ég get fengið öll fimm hylkin sem ég þarf í einum pakka á 3.190 kr.

En eru samhæfð hylki eins góð og orginal? Kemur ekki sparnaðurinn niður á gæðunum? Auðvitað eru til bæði góð og slæm samhæfð hylki. Ekki kaupa hylki þar sem nafn framleiðanda kemur hvergi fram. Ég keypti einu sinni eitthvað hræbillegt kínverskt blekhylki sem reyndist algjör martröð, það míglak og var næstum því búið að eyðileggja prentarann minn.

Það skiptir mestu í hvað þú notar prentarann þinn. Ef þú prentar mikið og aðallega myndir í lit þá er affarasælast að splæsa í orginal hylki. Ef þú prentar mest texta og skjöl eru samhæfð hylki góður kostur. Því eldri sem prentarinn er, því auðveldara er að finna samhæfð hylki. Ef þú ert með glænýja týpu af prentara er séns á að engin hylki séu í boði nema upprunaleg hylki frá framleiðanda.

Það er hundrað prósent öruggt að þú fáir það besta út úr prentaranum með blekhylki frá upprunalega framleiðandanum. Samhæfð hylki eru hinsvegar ódýrari – geta verið meira en 200% ódýrari – en þú getur verið að taka óþarfa sénsa. Ef þú vandar hinsvegar valið og notar góðan pappír til að prenta á, þá er allt eins líklegt að þú sjáir engan mun.

Dr. Gunni (birtist í Fréttatímanum 22.10.10)

laugardagur, 23. október 2010

Er eðlilegt að ferðamenn borgi meira en innfæddir?

Mikið og frábært húllumhæ er nú yfirstandandi vegna friðarsúlu Johns Lennons í Viðey. Boðið er upp á kvöldferðir út í eyjuna. Lagt er af stað öll kvöld kl. 20. Leiðsögumaður tekur á móti gestum og gengur með þeim að verkinu og fjallar um það sem fyrir augum ber. Naustið, skáli við hlið súlunnar, seldur léttar veitingar. Gjald í þessar ferðir er kr. 5.000 fyrir fullorðna og kr. 2.500 fyrir börn, 7-15 ára. Þetta þótti Birni heldur dýrt. Hann hafði samband: „Alls verða þetta kr. 17.500 fyrir mína fjölskyldu. Mér finnst það nú vægast sagt blóðugt!“

Björn hefur ekki tekið eftir smáa letrinu. Ef grannt er skoðað má lesa: „Allir handhafar greiðslukorta í íslenskum bönkum njóta sérstakra kjara og býðst að kaupa tvo miða á verði eins.“

Með öðrum orðum: Ef þú ert Íslendingur borgar þú helmingi minna en ef þú ert útlendingur. Friðarsúluskoðunin lýtur þar með svipuðum lögmálum og verðlagningin í Bláa lónið: „Fram til 1. apríl 2011 fá handhafar greiðslukorts frá íslenskum banka sérkjör í Lónið; 1.500 kr. á mann. Aðrir borga 28 Evrur eða 4.500 krónur.“ (af heimasíðu Lónsins).

Tvær skoðanir eru uppi um þessa tvöföldu verðlagningu. Sumir segja að þetta sé plebbaleg mismunun, jafnvel siðlaus, enda sé bannað að mismuna fólki eftir þjóðerni (eða uppruna greiðslukorta í þessu tilfelli). Aðrir segja að ferðamennirnir geti bara vel borgað meira en heimamenn, enda hafi þeir ekki tekið þátt í uppbyggingu ferðamannastaðanna. Starfsemin í Viðey er til að mynda niðurgreidd af skattfé sem aðeins Íslendingar hafa lagt til. Þar að auki tíðkist svona tvöfalt kerfi víða í útlöndum.

Hvað segir Einar Örn Benediktsson, formaður Ferðamálaráðs Reykjavíkur, um málið?
„Þessi tvöfalda leið er það sem mörg ferðaþjónustufyrirtæki hafa farið þegar gengi krónunar er lágt. Auðvitað virkar þetta tvímælis, en ég var í Istanbul í vor sem leið og þá voru þrjú verð í gangi: námsmenn, innfæddir og ferðamenn. Reykjavíkurborg niðurgreiðir almennar ferðir út í Viðey og er frítt fyrir börn að 6 ára aldri, 6-18 ára 500 kr., fullorðnir 1000 kr. og eldri borgarar 900 kr. Mér finnst alveg athugandi að hafa hærri verðskrá, ef þjónstuaðili telur það innan marka þess sem þjónustan sem hann býður þolir. Það er líka til dæmis umhugsunarefni að Reykjavíkingar borga niður ýmsa þjónustu sem við notum. Til að nefna eitt þá kostar rúmar 2 evrur í sund. Hvar í Evrópu kostar 2 evrur inn á háklassa sundstaði sem sundlaugar Reykjavíkur eru? Má biðja útlendinga sem heimsækja okkur að borga meira?

Dr. Gunni (Birtist fyrst í Fréttatímanum 15.10.10)

föstudagur, 22. október 2010

Hvað kostar að fá kvef?

Nú er kjörtími kvefs. Horið byrjar að leka úr nösunum, beinverkir herja á og hitavella, hósti og almenn leiðindi. Engin lækning er til við kvefi og allt kemur fyrir ekki sama hvað fólk belgir sig út af náttúrulyfum. Þar til kvefið rjátlast af manni af sjálfum sér má reyna að gera sér kvefið sem þægilegast. Til þess eru ýmis hjálparmeðöl.

Hver býður svo best í kvefvörum? Ég gerði verðkönnun á 10 kveftengdum vörum. Fór í sex apótekum á höfuðborgarsvæðinu og tók niður verðin. Hér koma niðurstöðurnar.Garðsapótek kemur best út úr þessari könnun. Það munar 1.376 krónum á verði tíu vara hjá þeim og dýrasta apótekinu, Lyfju. Garðsapótek hefur verið einkarekið apótek í 50 ár og tekur fram á heimasíðu sinni að það tengist hvorki lyfjakeðjum né eignarhaldsfélögum. Lyfja er hins vegar með meira en 30 útibú um allt land. Það væri hægt að áætla á að markaðsstærð fyrirtækisins myndi skila sér í einhverju öðru en að það væri dýrasta apótek höfuðborgarsvæðisins. Svo er þó ekki.

Dr. Gunni (birtist fyrst í Fréttatímanum 08.10.10)

miðvikudagur, 20. október 2010

Byr rukkar fyrir pappírslaust

Núna er þau hjá Byr byrjuð að rukka um pappírslausar færslur. Ef maður biður um að fá sent í tölvupósti yfirlit eða færslutilkynningu í heimabankanum þá þarf maður að borga 6 kr. fyrir hvern tölvupóst, varla fer sá peningur í frímerki !
Það er segin saga ef maður getur sparað t.d. með því að biðja um pappírslaust þá finnur bankinn alltaf leið til að ná þessu krónum af þér.
Kveðja,
Hafsteinn

þriðjudagur, 19. október 2010

Brjáluð verð á minniskortum

Ég hef verið að bera saman verð á minniskortum í myndavélar og fleiri tæki,
svokölluð "compact-flash" kort, bæði hér á íslandi og á netinu. Verðið hér á klakanum er BRJÁLÆÐI!
16GB kort með les/skrifhraða upp á 30mb/sek eru frá 23.000 til 28.000 krónur.
Nákvæmlega sömu kort eru nú seld á 50 DOLLARA erlendis sem gerir sirka 6.000 kall!
Neytendur (og sérstaklega smásöluverslanir) mega endilega átta sig á því að
verð á geymslumiðlum hefur allt að helmingast miðað við stærð á tveimur árum eða svo.
Jón G

föstudagur, 15. október 2010

Furðuleg ákvörðun hjá Birtingi

Mig langaði að segja frá frekar furðulegum viðskiptaháttum hjá útgáfufélaginu Birtíngi. Fyrir rúmu ári síðan fóru þeir að gefa út unglingatímaritið Júlíu.
Ég ákvað að vera áskrifandi fyrir dóttur mína. Upphaflega átti blaðið að koma út einu sinni í mánuði, og var tekið út af vísakortinu mínu tæpar 1000 kr mánaðarlega, svo fer ég að taka eftir því að allt í einu er farið að taka út tæpar 2000 kr annanhvern mánuð og tæpar 1000 kr hinn mánuðinn.
Ég hringi að sjálfsögðu í Birtíng og bið um útskýringu á þessu, svarið sem ég fékk var, Útgáfufélagið ÁKVAÐ að fjölga blöðunum úr 12 á ári í 17 og þar af leiðandi hækkar áskiftin, ég sagði þeim að ég hefði ekki skráð mig fyrir því og enn síður verið spurð hvort ég vildi þessa aukningu og hækkun. Sama svar útgáfufélagið ÁKVAÐ þetta.
Ég ÁKVAÐ að sjálfsögðu að segja upp áskrift að blaðinu!
Óskar nafnleyndar

Kreppugler eða bara ný aðferð við að hafa pening af fólki fyrir litla eða enga vinnu?

Ég var að athuga með að fá mér gleraugu og var bent á kreppugler.is en þar sem
að ég er skeptískur á allt sem að ég versla hérna heima að þá prufaði ég að taka
lýsinguna á gleraugunum og setja inn í google og viti menn þar er bara síða sem að er nánast alveg eins og kreppugler.is en heitir zennioptical.com með mun betri verð en Kreppugler.
Það sem að þeir eru að gera er að scrape'a (http://en.wikipedia.org/wiki/Web_scraping) þar sem að þú slærð inn pöntun inná síðuna hjá þeim sem að þeir senda síðan áfram á zennioptical.com sem sína eigin pöntun.
Ok maður er að fá mun betra verð þarna (kreppugler.is) en útí búð, samt alveg
búinn að fá mig full saddan af þessu eylífa kroppi í budduna mína af íslendingum.
Enda ætla ég mér bara að versla beint af zennioptical.com og spara mér slatta
þannig.
Hægt er að koma með rök eins og 2 ára ábyrgð sem að á svo sem rétt á sér en það
sem að ég er að spara mér er það mikið að ég get keypt mér 2 gleraugu í staðinn.
Vona að þetta sé ekki rétt hjá mér þar sem að ég vona að menn séu ekki að stunda
svona viðskipti.

http://www.kreppugler.is/

http://www.zennioptical.com/

Einn að missa trúnna á Íslendingum.

mánudagur, 11. október 2010

Slæmir viðskiptahættir - Vodafone

Þetta er nú ekki okur en ég missti af góðum díl og finnst þetta alveg til skammar. Það er greinilega stórt stjórnunarvandamál hjá þessu fyrirtæki.

Málið er að ég færði mig yfir í áskrift á fimmtudegi, þá var sprengiafsláttardagur hjá þeim: "Sprengjuafsláttur í Vodafone Kringlunni til miðnættis í kvöld!! Sony Ericsson W205 á 1 KRÓNU, gegn 6 mánaða árskriftarsamningi. Fleiri frábær símatilboð og kaupaukar í boði. Takmarkað magn svo kíktu til okkar sem fyrst;)". Ég sá þetta á facebook síðu þeirra á sunnudeginum.

Ég var frekar ósátt við að fá ekki að vita af þessu, ég hefði pottþétt nýtt mér þetta. Ég sendi tölvupóst (gat ekki hringt því ég var símasambandslaus í boði þeirra). Þeirra svar er: "Málið er að sprengjutilboðið var ákveðið svo seint að það gleymdist að tilkynna starfsfólkinu um það, ég t.d. frétti ekki af þessu fyrr en næsta dag. Það er búið að tala um þetta við þá sem stjórna þessu um að það verði að láta okkur vita með fyrirvara svo að mál eins og þitt komi ekki upp. Mér þykir mjög leitt að sölumaðurinn hafi ekki vitað af þessu og biðst afsökunar á því fyrir hönd fyrirtækisins en það er búið að lofa okkur að þetta komi ekki fyrir aftur.".

Ég spurði hvort það væri ekki hægt að bjóða mér eitthvað tilboð út af þessu. Nei það er ekki hægt.

---

Annað sem hefur truflað mig:

- Þeir flytja þig líka yfir til fyrirtækisins áður en SIM kortið kemur (ég var símasambandslaus í rúman sólarhring).

- Þeir rukka meira fyrir vef sms en Síminn (8 kr vs 5 kr).

- Þeir eru með stafsetningavillur og asnalegt orðaval á "Mínar síður".

- "Mínar síður" eru mjög hægar og virka ekki alltaf.

---

Ég er frekar fúl yfir þessu og er alvarlega að íhuga að skipta um símafyrirtæki aftur. Mér finnst ekki vera mikill metnaður hjá þessu fyrirtæki.

Óskar nafnleyndar

fimmtudagur, 7. október 2010

Dýrt neftóbak á Akureyrarflugvelli!

Á flugvellinum á Akureyri kostar neftóbaksdollan 850 kr, sem að mér vitandi er
dýrasta dollan á Íslandi. Fyrir sunnan hef ég verið að kaupa dolluna á 720 kr og allt niður í 690. Ég spurði manninn í sjoppunni afhverju neftóbaksdollan væri svona dýr. Hann bar fyrir sig sendingarkostnað. Mæli ég því með því ad þú kaupir tóbakið þitt
annars staðar því 850 kr er hreint okur!
S. Á.

mánudagur, 4. október 2010

Gamlar myndir eru sem nýjar í 107 Videó

Vek athygli á því að myndir sem voru í kvikmyndarhúsunum um 1990 (t.d. Beethoven myndirnar) eru flokkaðar sem nýjar á 107 Reykjavík videoleigunni í Vesturbænum. Þó að maður bendi þeim góðfúslega á að þetta sé ekki alveg eðlilegt þá eru þeir óhagganlegir varðandi þessi mál. Það er í rauninni varla hægt að leigja gamlar barnamyndir hjá þeim. Þeir eru með númerkerfi en það virðist vera í algjöru rugli.
Nafnleyndar óskað

Vesen með Byko

Mig langar að segja frá viðskiptum mínum við Byko. Fyrirtæki mitt hefur verið í
viðskiptum við BYKO í mörg ár. Ég keypti fyrirtækið af öðrum sem virðast hafa
verið líka í viðskiptum við BYKO.
Núna nýlega fór skuld mín hjá BYKO í innheimtu til lögfræðings. Þar sem ég gat
ekki greitt.
Og núna nýlega hafði fyrri eigandi míns fyrirtækis samband. Hann hafði skrifað
uppá ábyrgð í upphafi viðskipta sinna við BYKO.
Nú var þessi ábyrgð allt í einu notuð! Samt samdi ég við BYKO sjálfur þegar ég
hóf viðskipti og skrifa upp á mína ábygð. Þar fyrir utan þekkja allir hjá BYKO
mig og vita allt um mitt fyrirtæki og vita líka að ég á fyrirtækið en sá sem
átti það kemur ekki nálagt því.
Þarna fór BYKO yfir mörkin!! Vissulega greiði ég þessa ábyrgð! Svo aðrir lendi
ekki í að þurfa að greiða. En mitt fyrirtæki kemur aldrei til með að versla þarna
aftur.
Ég vil minna fólk á að ganga úr skugga um að það taki öll frumrit af pappírum
sem það hefur skrifað upp. Þessi maður hafði hringt í BYKO og beðið um að þeir
yrðu sendir til sín en hafði svo gleymt þessu.
Óskar nafnleyndar

föstudagur, 1. október 2010

Europris: Mikil verðhækkun á garni


Ég hef verið að prjóna, eins og fleiri og datt ofan á garn hjá Európris, sem var á þokkalegu verði, keypti nokkrar hespur 16. Maí 2010, þá kostaði 100 gramma hespa 462 krónur. Fór svo 22, sept. og sá að það voru komnir fleiri litir af þessu garni, en eitthvað fundust mér hespurnar orðnar léttari, svo að ég ákvað að kaupa eina og bera saman við það sem ég átti heima. Viti menn nýja hespan er 50 grömm á 599 krónur, sem sagt helmingi léttari en þær sem ég keypti í maí. Látum það vera, en verðið núna er krónur 599 var 462, sem sagt 137 krónum dýrari og helmingi léttari. Lauslega útreiknað telst mér, að þetta sé um 135% hækkun. Ef að þetta er ekki okur þá veit ég ekki hvað er okur. Læt fylgja hér mynd af garninu.
Kveðja Sóley Ingólfsdóttir

þriðjudagur, 28. september 2010

Byr og tölvukerfið

Ég er í viðskiptum við Landsbankann en húsfélagið er í viðskiptum við Byr sparisjóð. Ég er búinn að afþakka allann pappír úr Landsbankanum fyrir reikninga og var það ekkert mál. Eini greiðsluseðillinn sem ég fæ sendan heim er frá Byr sparisjóð fyrir mánaðarlegt gjald í hússjóðinn. Þar sem ég fylgist vel með mínum reikningum í einkabankanum hringdi ég í Byr og vildi afþakka pappírinn en það er ekki svo einfalt. Mér var tjáð að tölvukerfi Byr bjóði ekki uppá það að afpanta pappír. Vingjarnleg konan benti mér á það að eina leiðin fyrir mig væri sú að setja þennan reikning í beingreiðslu hjá Landsbankanum. Það kostar um hundrað krónur per greiðsluseðil að vera með reikning í beingreiðslu þannig að vegna þess að tölvukerfi Byr er ekki "up to date" þá á ég að borga fyrir það. Þeir fá mig ekki í viðskipti á næstunni það er allavega klárt!
Kær kveðja,
Hjörleifur

mánudagur, 27. september 2010

Póstur og Sími okra enn

Sem pirraður neytandi veigra ég mér ekki við því að skipta um þjónustuaðila ef mér þykir á mér brotið og spara iðulega með því að leita lægsta verðsins.
Ég keypti mér nýlega gagnakapall fyrir Sony Ericson síma sem kostar hjá Símanum 3.990 krónur. Mér fannst það heldur mikið fyrir eitthvað sem ég gæti vel komist af án og gerði því litla óformlega verðkönnun á netinu. Það borgaði sig klárlega og fann ég gripinn hjá Símabæ á litlar 1.490 krónur.
Verandi ekki í höfuðborginni pantaði ég gripinn í vefverslun Símabæjar og fékk ég hann sendann í póstkröfu. Sendingarkostnaður kom mér þó heldur betur á óvart þar sem ég fékk að borga heilar 1.205 krónur í sendingarkostnað af einu venjulega umslagi af stærðinni A5 sem náði ekki 50 g þyngd!
Það mætti halda að Pósturinn væru þarna að reyna að sporna við viðleitni minni til að spara með því að kaupa af samkeppnisaðila Símans, og ég sem hélt að þetta væri ekki lengur eitt og sama fyrirtækið...
Kveðja, SI

miðvikudagur, 22. september 2010

Neytendabylting

Það sem er að gerast núna í íslensku þjóðfélagi er ekki til þess fallið að skapa hér lífvænlega búsetu. Hver höndin upp á móti annarri. Krafa um að stjórnvöld og alþingismenn geri eitthvað… eitthvað… eitthvað… En hvað með okkur sjálf.?

Eigum við ekki að gera eitthvað. Eigum við að láta bjóða okkur þetta bull endalaust. Ég hvet ykkur samlandar mínir sem eruð í sömu stöðu og ég að líta í spegill og horfast í augu við ykkur sjálf og spyrja ykkur þeirra einföldu spurninga

„ ætla ég að láta bjóða mér þetta“

„ætla ég að láta troða á rétti mínum og kúga mig til hlýðni“

ef svarið er „ nei.. ég ætla ekki að láta bjóða mér þetta „

þá er bara eitt ráð við því. Taka ábyrgð á eigin lífi og vera virk. Standa upp úr stólnum, fara frá skjánum og framkvæma. Saman veitum við stjórnvöldum, fjármálastofnunum og fyrirtækjum það aðhald sem þeim er nauðsynlegt til að hér þrífist fjölbreytt og gott mannlíf.

Byrjum á bönkunum… hættum að skipta við stóru bankana, hættum að skapa þeim tekjur… lokum öllum reikningum, launareikningi, kortum og flytjum okkar viðskipti annað. Það er fullt af litlum Sparisjóðum út um allt land. Að þessu loknu þá hættum við að borga af lánunum okkar hjá þessum stofnunum. Ef þetta dugar ekki til að menn vakni og sjái að það er ekki hægt að bjóða fólki hvað sem er . Þá förum við öll á sama tíma og lýsum okkur gjaldþrota. Ef við öll 40.000 heimili og 5.000 lítil og meðalstór fyrirtæki gerum þetta þá virkar það og bankarnir eru neyddir til að semja við okkur. Færa öll ólöglegu gengislánin yfir í íslenskar krónur á því gengi sem var þegar þau voru tekin. Vextir verði síðan í samræmi við það sem þekkist annarsstaðar í nágrannalöndum okkar. Tekið verði viðmið verðtryggingar síðustu 10 árin fyrir hrun og það meðaltal verði notað við leiðréttingu höfuðstóls. Þetta á eingöngu við um útlán. Látið ekki segja ykkur að þetta sé ekki hægt.

Næst þá stoppum við kennitöluflakk. Hættum að skipta við þau fyrirtæki og stofnanir sem stunda kennitöluflakk. Fyrirtæki sem skipta um kennitölu gera það vegna þess að þau ráða ekki við þær skuldir sem hvíla á gömlu kennitölunni. En hver borgar svo þær skuldir??

Þau koma svo aftur út á markaðinn og keppa við hina sem reyna að standa við sitt. Fyrirtæki lifa ekki án viðskiptavina.. munið það. Hvert viljið þið að launin ykkar fari…? Til stofnana sem ræna ykkur um hábjartan daginn og sniðganga lög eða til fyrirtækja sem hafa aukið skuldabyrgði ykkar til mikilla muna.

Að lokum stoppum við óhóflegar álögur frá ríkisvaldinu … hættum að kaupa þær vörur sem eru með óhóflega háum vörugjöldum og stuðla að hækkun vísitölu.

Að vera virkur neytandi kostar þó nokkra vinnu og er erfitt fyrst en verður svo bara auðveldara. Því fyrr sem stjórnvöld, fjármálastofnanir og fyrirtæki átta sig á því að okkur er alvara og látum ekki bjóða okkur hvað sem er því betra fyrir alla.

Samstaða er mikill máttur…. notum hann!!!!

Agnes Arnardóttir - sjálfstæður atvinnurekandi - birtist fyrst á Lúgunni.

mánudagur, 20. september 2010

Ekki okur - Buy.is

Ég er búin að vera að skoða myndavélar og var t.d að skoða Canon EOS 500D og fannst svimandi verðmunur á þessari vél.

Buy.is: 119.990
Elko: 144.995
Nýherji: 154.900

Flass fyrir vélina, Speedlite 430 Ex II:
Buy.is: 45.990
Elko: 50.397
Nýherji:56.900

Myndavél + flass:
Buy.is: 165.980
Elko: 195.392 (munar 30.402 miðað við Buy.is)
Nýherji: 211.800 (munar 46.810 miðaið við Buy.is)

Mér er alveg sama þó ég þurfi að bíða lengur eftir þessu á Buy.is en að kaupa þetta annars staðar.

Linda Rós

fimmtudagur, 16. september 2010

Hugsi yfir bílaskoðunargjaldi

Ég er hugsi yfir gjaldi sem er farið að leggjast á þá sem eru of seinir með bílana sína í skoðun. Þetta eru um 15 þúsund krónur, skattheimta sem mér skilst að hafi verið samþykkt í tíð síðustu ríkisstjórnar. Nú er það svo að bílafloti landsmanna er að eldast. Þeir sem minnst hafa á milli handanna eru líklegastir til að aka á gömlum bílum sem bila og eiga erfitt með að standast skoðun. Og þess vegna leggst þetta blessaða gjald þyngst á það fólk. Þetta eru reyndar ekki getgátur hjá mér, heldur var þetta niðurstaða úr samtali sem ég átti við starfsmann eins skoðunarfyrirtækisins.
Egill Helgason

miðvikudagur, 15. september 2010

Engu logið um íslenskt siðferði


Þetta held ég að sé það svæsnasta okur sem ég hef séð, svona í smávöruverslunargeiranum. Þetta keypti ég í versluninni Skriðulandi, í Dölunum, í sumar. 10 svartir venjulegir sorppokar, kr 1.900,-. og Frón kexpakki með þremur einföldum röðum kr. 742,-
Já, það er engu logið um íslenskt siðferði...
Lilja Gunnarsdóttir

Yfirþyrmandi álagning!

Ég fór í Sambíó Álfabakka í gær og ætlaða að kaupa mér Topp frá Vífilfell. Ég var rukkaður um 370 kr. í Sælgætissölunni. Mér blöskraði þetta og ætlaði þá að fá mér úr sjálfsalanum sem þarna var og var þar verðið 360 kr, 10 kr ódýrara. Ég hringdi sjálfur í Vífilfell til að kanna hvað ég gæti keypt 18 flösku kippuna á og þar var verðið til mín 2288 kr. Semsagt flaskan á 127 kr. Stór kaupandi er örugglega með mun betri afslátt en ég og er trúlega að borga um 100 kr fyrir flöskuna. Að setja 270 kr álagningu á vatn með kolsýru út í finnst mér vera algert brjálæði. Þetta er lýsandi dæmi um allt sem er að gerast í kringum okkur, álagning á öllu er orðin yfirþyrmandi.
Erlingur Guðbjörnsson

þriðjudagur, 14. september 2010

Lítið af goji í goji djúsi

Fyrir skömmu keypti ég "Goji Berry" djús í Nóatúni. Eins og margir vita eiga Goji-ber að vera afspyrnu holl, verandi full af andoxunarefnum eiga þau að vera vörn gegn nánast öllu mögulegu. Þau eiga sko að vera hollari en sjálf bláberin. Í krafti þessarar vitneskju minnar á töframætti Goji-berjanna ákvað ég að slá til, jafnvel þótt þessi lífsins elexír kostaði hvorki meira né minna en 395 krónur.
Djúsinn var líka bara ágætlega bragðgóður.
En sælutilfinningin breyttist fljótt í óbragð. Á fernunni er nafn djússins, "Goji Berry", mjög áberandi. Fernan er skreytt með smekklegum myndum af þessum berjum og á pakkningunum eru upplýsingar um töframátt Goji berjanna.
Ég hélt s.s. að ég væri að kaupa djús sem væri a.m.k. aðallega úr Goji berjum.
Mér brá því þegar ég rak augun í (ruglingslegu) ensku innihaldslýsingunni. Þar sagði nefninlega að aðalinnihaldið væri vatn og "Fruit Juices from Concentrate and Pressed 30% (Grape, Passion Fruit, Pressed Goji Berry, 5%)" Hvernig átti maður að skilja þetta? Það var ekki fyrr en maður stautaði sig fram úr hinum tungumálunum að sannleikurinn kom í ljós. Þessi "Goji Berry" djús var bara að 5% Goji.
Mér finnst ég hafa verið illa plataður. Það er ekki séns að ég hefði greitt um 400 krónur fyrir djúsinn ef ekki hefði verið fyrir áberandi mynd af Goji berjum á umbúðunum og umfjöllun um Goji berin. Svo var bara 5% þessarar rándýru vöru Goji ber.
Eiga ekki að vera lög sem vernda okkur fyrir svona viðskiptaháttum?
Sigurður

Límbandsokur í Húsasmiðjunni

Fór í Húsasmiðjuna um daginn og keypti pakkalímband frá Tesa, 66 metra rúllu. Gekk ég út með tvær rúllur, eina brúna og eina glæra og kostaði stykkið 930 krónur. Ég hugsaði "þetta er nú frekar dýrt" en lét mig hafa það. Fór síðan að taka bensín á N1 og rak þá augun í sömu rúllu á 310 krónur og því er verðið hjá ríkisrekna risafyrirtækinu 300% af því sem varan kostar á bensínstöð (sem almennt séð eru dýrar!).
Kær kveðja,
ÓS

miðvikudagur, 8. september 2010

Þjónusta bílafyrirtækja - B & L

Mig langar að deila með einni sögu af bílaviðgerð.
Fyrirtæki okkar á gamlan Renault Kangoo, sem fékk grænan miða hjá bifreiðaskoðun í fyrra þar sem eitthvað þurfti að laga bremsur, jafnvægisslár og öxulhosur. Við fórum með hann til B&L / Ingvars Helgasonar og báðum um viðgerðaráætlun skv. þessum athugasemdalista. Okkur var tjáð að kostnaður væri um 300.000 kr að gera við gripinn. Það varð til þess að við lögðum honum og hugðumst henda honum þar sem við mátum verðmæti hans minna en viðgerðarkostnaðinn.
Það var svo á dögunum að ég þurfti að láta gera við gamlan Hyunday Atos, sem dóttir mín ekur. Ég var brenndur af reynslu minni af B&L svo ég fór á bílaverkstæði í hverfinu mínu, Bílaverkstæði Sigurbjörns Árnasonar, Flugumýri 2 í Mosfellsbæ. Þar fékk ég skjóta og góða þjónustu fyrri sanngjarnt verð, að ekki sé talað um fyrirmyndarumhverfi, sem það fyrirtæki hefur skapað, enda verðlaunað af Mosfellsbæ fyrir umgengni á lóð. Ég ákvað því að dusta rykið af Kangoonum okkar og biðja Sigurbjörn að gefa mér viðgerðaráætlun. Hann tjáði mér að hann ætti að geta gert við bílinn fyrir innan við 65 þúsund. Reikningurinn hljóðaði síðan uppá 61 þúsund krónur, eða um 1/5 af þeirri upphæð, sem B&L áætlaði.
Nú er ég ánægður Kangooeigandi en mitt helsta vandamál er þó það að ég þarf að keyra framhjá B&L daglega tvisvar á dag. Að öðru leyti tel ég rétt að svo stöddu að forðast það fyrirtæki, allavega ef maður ætlar að láta gera við bílinn sinn.
Ég læt afrit af tölvupósti þessum berast framkvæmdastjóra B&L til upplýsinga.
Mér fannst rétt að segja þessa sögu, þó aðallega til þess að hrósa Sigurbirni fyrir sanngjarna og góða þjónustu og fyrirmyndarumhverfi bílaverkstæðis.
Kær kveðja,
Jón Pálsson

mánudagur, 6. september 2010

Fáránlega dýr hjonabandssæla í Nettó

Fór Nettó um helgina og ætlaði að kaupa hjónabandssælu en hætti snarlega við.
Frá Kristjáns bakarí var hún á 949 krónur, og svo var hægt að fá eina frá Myllunni á 619 krónur en mér fannst það litlu skárra.
Kv, SG

mánudagur, 30. ágúst 2010

Grillmatur fyrir vestan

Mig langar að minnast aðeins á tvo staði fyrir vestan, grillskálinn á Patreksfirði og Hótel Bjarkalund. Ég og sonur minn vorum á ferðalagi í sumar og heimsóttu Patreksfjörð, vorum svangir og stoppuðum í Grillskálann N1 og fengum
okkur beikonborgara m/frönskum og kokteisósu+1 gos, afleitur matur, fyrir þetta
borguðum við á fjórða þús. Á leiðinni út var kona að kvarta yfir háu verði á
einhverja vöru sem hún var að kaupa,afgreiðslukonan svaraði að það væri svo
ofsalega dýr fluttningskosnaður að kenna. Veit ekki en okkur langar ekki þangað
aftur. Næst var stoppað á Bjarkalund að fá sér í gogginn og viti menn
ömulegasta grill-samlokan m/frönskum sem um getur (sex ára gæti gert
betur). Eftir að hafa tekið far með ferjunni Baldur (kostaði ca.15 þús.) með
tjaldvagn í eftidragi var vesturlanda-ferðinni okkar lokið. Hoppandi og
skoppandi á þessum hræðilegum vegum. Er virkilega eingin áhugi á að fá ferðafólk
í heimsókn? Ég bara spyr?
G.S.

Okur hjá internetþjónustu

Mér langaði til þess að benda á algjört okur hjá internetþjónustunni www.len.is
Sé keypt hýsing hjá lén.is (Netvistun) gefa þeir sig út fyrir það að það fylgi með frítt .is lén í 1 ár.
Jújú allt gott og blessað og kann að hljóma mjög góður díll fyrir suma en þegar farið er í saumana á þessu má sjá alveg hrikalegt okur.
Isnic.is er eini söluaðili léna á íslandi og þurfa ALLAR lénaskráningar hvaða sem þær virðast keypta að fara í gegnum isnic. Gott og blessað. Árgjaldið er 7.982 krónur fyrir lénið sem www.len.is segist gefa með hýsingum sínum.
Mánaðargjald á hýsingu hjá lén.is er fyrir 500mb hýsingu er 3.990 krónur, ef það er margfaldað með 12 kemur út talan 47.880 krónur
Þá fer fólk að spyrja sig, er ekki tæplega 48 þúsund kall á ári bara sanngjarnt verð fyrir hýsingu með .is léni.
Svarið er Nei.
Tökum annað dæmi með aðra internetþjónustu, hýsingarþjónustan 1984.is rukkar einungis 672 krónur á mánuði fyrir 5 GB hýsingu.
Það kostar semsagt á ári hjá 1984.is 8.064 krónur, vissulega fylgir ekki .is lén með þeirri hýsingu og bætast því við 7.982.
Sem segir okkur það að 500 mb hýsing hjá lén.is kostar 47.880 krónur á ári.
En 5 GB hýsing hjá 1984.is kostar þegar búið er að versla sér lénið aukalega 16.046 krónur á ári.
Hérna sést mjög auðveldlega þetta hriklega okur sem www.len.is lætur viðgangast og vona ég innilega að ekki nokkur lifandi maður (né kona) versli sér hýsingu á þessum okurprís þarna hjá lén.is.
Það hljómar miklu betur að borga 16.046 krónur á ári fyrir 5 GB hýsingu og lén heldur en að borga 47.880 krónur á ári fyrir 500 mb hýsingu og lén (sem sagt er að sé frítt, ekki er nú aldeilis).
Finnst svona okur alveg óþolandi og vildi ég því láta aðra vita af þessu
Kveðja, G.Á.

laugardagur, 28. ágúst 2010

3D er RUGL!!

Fór í bíó áðan, Háskólabíó, á Aulinn ég, með 3ja ára og 6 ára krakkana mína. Það kostar 1400 kall á mann - enginn barnafsláttur á þrívíddarmyndir! Vanalegt barnaverð er annars 650 kr. Ertu ekki að djóka í mér hérna? Ég gekk auðvitað út en fattaði að ég var búinn að lofa krökkunum að fara í bíó, svo ég snéri sneyptur við og 4200 kall fór í þessa geðveiki!
Háskólabíó er með einhverja aðra 3d tækni en önnur bíó - öðruvísi gleraugu - og ég man ekki eftir að hafa þurft að borga svona okurverð fyrir krakkana á 3d myndir annars staðar.
Svo er þrívídd bara rugl, miklu verri myndgæði í þessu og maður er hálfpartinn kominn með hausverk þegar maður fer út. Þetta er bjánaleg þróun og virðist ekki vera gert til annars en að vera afsökun fyrir bíómiðaokri. Og er auðvitað svar Hollywood við dánlódi líka. Sæmileg mynd svo sem annars.
Dr. Gunni

fimmtudagur, 26. ágúst 2010

Dýrt hjá bílaverkstæðum!

Sonur minn ætlaði að láta skipta um vatnskassa í bílnum sínum - kassann fékk hann í Stjörnublikk, verð c/ 19.000.-...? - hlýtur að vera í lagi, hvað veit maður?. En þegar átti að setja hann í, var hringt víða og Kvikk þjónustan bauðst til að setja hann í bílinn fyrir 18.000.-, enga stund gert, var sagt. Ég hringdi á 2 aðra staði og komst að því að þetta er klukkutími til 1 og hálfur en tíminn á bílaverkstæði er kominn í 9.500.-. Mér finnst stutt síðan að tíminn á verkstæði var 4-5.000.- kall, en þvílík hækkun! Laun okkar, kaupmáttur og kaupgeta nær þessu aldrei. Ég held að verkstæði / bifvélavirkjar séu að notfæra sér ástandið í þjóðfélaginu og hækkað uppúr öllu valdi. OKUR! OKUR! OKUR!
Már

Okur-kartöflur hjá Fiskikónginum

Fór í Fiskikónginn á Sogavegi og keypti frábæran fisk, mikið úrval, góður fiskur og nýr, en í dýrari kantinum. Gott og vel, keypti samt fisk, en svo datt mér í hug að kippa með kartöflum, gullauga, 1 kg í poka. Þegar afgreiðslumaðurinn sagði : "500 kr" þá datt alveg yfir mig. Ég skilaði þeim strax. Ég hafði heyrt auglýstar kartöflur í Bónus eða Krónunni á 149.- kr og fór í Bónus. Það passaði.
M

Dýr bláber í Nettó

Velkomin í Nettó!
Ferskt lífræn bláber
50% afsláttur
Verð nú aðeins 290 kr/125 g
Áður 579 kr/125 g
Kílóverð fyrir lækkun 4.632 kr. - eru ekki öll bláber á Íslandi lífrænt ræktuð?
Anna

þriðjudagur, 24. ágúst 2010

Ánægður með Nings

Ég gerði mér ferð á Nings um daginn, eftir að hafa lesið misjafna gagnrýni
um staðinn á okursíðunni þinni. Ég ákvað að fara á Suðurlandsbrautina.
Pantaði ég mér nautakjöt með grænmeti og hnetusósu, man ekki númer
réttsins. Svo fékk ég mér eggjanúðlur. Verð ég að segja að ég varð ekki
fyrir vonbrigðum og bæði maturinn og þjónustan sem ég fékk á staðnum fór
langt fram úr væntingum mínum. Broshýrar og kurteisar afgreiðslustelpur,
frábær matur og gott andrúmsloft, er hægt að biðja um meira? Mæli með
Nings fyrir alla.
NAFNLEYSINGI

föstudagur, 20. ágúst 2010

Okur í Húsasmiðjunni

Nú langar mig að benda þér á okur sem viðgengst í hinni ríkisreknu Húsasmiðju.
Ég þurfti að kaupa mér ryðfríar skrúfur eins og notaðar eru í sólpalla og fl. (græna efnið) og algengasta stærðin er 4,5x60 mm. og kostar hún 34 kr.stk. í Húsasm. eða 6.800.- pakkinn með 200 stk. Ég kannaði verðið hjá Ísól í Ármúlanum og þar kostaði pakkinn af sömu stærð rúmar 2.300.- Er hægt annað en að kalla þetta okur?!
Hlynur

Okurverð á ís í Gullnesti Grafarvogi

Ég fór með fjölskylduna að kaupa ís núna um daginn.
Gullnesti (Bullnesti) selur miðstærða af ís í boxi með smá lakkrís og sósu á 670 kr. stk.!
Maður fer á KFC og fær risakjúklingaborgara, franskar og gos á 1.100 kr.
Þetta er nátturlega bara bilað okur og græðgi!
Steinn

fimmtudagur, 19. ágúst 2010

Grænmetisæta óhress með Pottinn og pönnuna

Í júlí hittumst allnokkrir niðjar langafa míns og langömmu minnar á Húnavöllum.
Gist var á tjaldstæði sem Hótel Húnavellir reka. Potturinn og pannan reka hótelið og veitingasölu. Þarna var allstór hópur saman komin.
Kostnaður fyrir utan tjaldstæði var 5000 krónur og var í því innifalið aðstaða í íþróttasal og sameiginlegur kvöldverður. Það má gera ráð fyrir að salurinn hafi kostað 1000 kall og maturinn 4000 kall.
Á matseðli voru 3 fiskréttir í forrétt og 3 kjötréttir í aðalrétt. Með þessu var hægt að fá kartöflusalat, eplasalat, hrásalat og brúnaðar kartöflur. Já og brauð og viðbit.
Ég er grænmetisæta og borða ekkert af því sem var á boðstólnum nema meðlætið.
Ég lét vita með tölvupósti með góðum fyrirvara að ég borðaði ekki það sem væri á matseðli og spurðist fyrir upp á hvað grænmetisætum væri boðið.
Þar sem ég fékk ekkert svar skrifaði ég aftur. Ekkert svar barst svo ég hringdi og var mér lofað að ég fengi mat sem ég borðaði. Þegar ég mætti á svæðið ræddi ég
við mann sem var í móttöku um þá ósk mína að fá grænmetisfæði og af sömu gæðum og matur annarra gesta væri. Hann lofaði að koma því á framfæri.
Svo koma hátíðarkvölverðurinn. Ég gaf mig fram við kokkinn, bara svo hann vissi af mér þegar matur yrði framreiddur. Þá sagði kokkurinn, "Þú færð papriku fyllta með olívum".
Er það forréttur, spurði ég. Nei, var svarið, þú færð engan forrétt. Ég sem sagt fékk papriku fyllta með svörtum olívum og venjulegum brauðosti, kannski gouda. Svo fékk ég mér að sjálfsögðu meðlæti. Fyrir þetta borgaði ég sem sagt 4000 krónur. Hráefnið í "réttinn" hefur að hámarki kostað 200 kall. Töluverð álagning þar.
Með matnum keypti ég vínflösku og kostaði hún 4800 krónur. Hægt var að kaupa sér bjór 500 ml á 980 kr og svo var líka hægt að kaupa sér tvo lítra af appelsíni á 2800 krónur, já tvö þúsund og átta hundruð krónur.
Er þetta ekki okur? Er það með þessum hætti sem við viljum kynna Ísland fyrir ferðamönnum, íslenskum sem erlendum?
Ég mun ekki borða á Pottinum og pönnunni oftar. Það er nokkuð ljóst.
Bestu kveðjur,
Margrét Ríkarðsdóttir
Akureyri

fimmtudagur, 12. ágúst 2010

Ódýrir smokkar - öruggt og hraðvirkt frá Amazon

Hjá Amazon má ná stykkinu af Durex smokkum niður í 32 krónur.
Pantaði 2 x 100 stk til að ná sendingarkostnaðinum niður þar sem ég var ekki að
panta neitt annað með.
Það tók innan við 5 sólarhringa að fá þetta sent á næsta pósthús.

Sjá nánar á http://www.amazon.com/gp/product/B000BH26LI/

Vegna eldri færslur um smokka á Okur-blogginu vil ég taka eftirfarandi fram:
- Hjá Skeljungi/Select er Atlasinn ekki lengur til.
- Hjá Megastore voru þeir uppseldir og afgreiðslumaður vissi ekki um framhaldið.
- Hjá vefverslunum sem kalla sig íslenskar sé ég enga leið til að ná þessu niður
fyrir 32 kr stykkið.

Svo er verið að rukka um 150 kr fyrir þetta hérna heima í smásölu, stk. Það er okur!
Að lækka vsk úr 25% í 7% dugar ekki til að einu sinni nálgast verðið frá Amazon.
Svo eru þægindin við að versla við Amazon óumdeild og Durex er vandað merki.

Nafnlaus smokkakaupandi

Okurvín á veitingahúsum

Í ÁTVR kostar flaska af Criollo Cabernet Shiraz rauðvíni frá Argentínu 1.449 krónur.
Á Vínbarnum, sem er ekki ódýr staður, kostar þessi flaska 3.800 krónur. Á Tapas barnum kostar sama flaska litlar 5.690 krónur. Það má segja að veitingastaðir geti verðlagt hluti á það sem þeim sýnist svo lengi sem einhver vill borga uppsett verð. En er fólk meðvitað um svona okur þegar það leyfir sér að fara út að borða?
Ingibjörg

þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Síminn hækkar í kreppunni!

Þessi skilaboð fann ég á símareikninginum í heimabankanum mínum:

"Verðhækkun
Síminn mun frá og með 1. október nk. breyta verði á þjónustu sinni. Nákvæmar upplýsingar verður að finna á vefsíðu Símans 1. september nk. undir fréttir og hjá
þjónustuveri í síma 800 7000. Við hvetjum viðskiptavini til að kynna sér þessar breytingar vel."

Það er greinilega ekki bara Orkuveitan sem ætlar sér að hækka gjaldskrána sína á næstunni.

með kveðju
J.K.

laugardagur, 7. ágúst 2010

Hofland-setrið í Hveragerði fær góða dóma!

Við vorum á ferð fjölskyldan núna í vikunni fyrir austan í bústað og ákváðum að skreppa í smá ferð og gefa eldamennskunni frí eitt kvöld og var ákveðið að fara með familíuna út að borða. En allavega þá enduðum við í Hveragerði og í rauninni duttum þar niður á stað sem heitir Hofland-setrið. Get sagt að við fórum ekki illa svikin út úr þeim viðskiptum. Pöntuðum eina 16" pizzu með 4 áleggstegundum (ekki matseðilspizza) fyrir manninn minn og elsta son sem þeir skiptu á milli sín, yngri sonurinn var með 12" hvítlaukspizzu og ég var með borgara með öllu, frönskum og tilheyrandi. 3 stórar gos og svali fyrir guttann. Alls var þetta 5.590 kr. Fín þjónusta, kósí staður og hreinlegur og við vorum í alla staði alveg stóránægð og tókum með okkur restina heim í boxi sem náðist ekki að klára á staðnum og var það étið upp til agna líka... þannig að við fórum ánægð frá þessu. Sjaldan sem maður er sáttur við verð og gæði.
Kærar kveðjur,
Lilja Líndal Sigurðardóttir.

miðvikudagur, 4. ágúst 2010

Allt sama símafyrirtækið?

hérna er smá efni fyrir okursíðuna að vísu ekki okur en smá svona neytendapæling samt sem áður.
Ég fór um daginn í verslun vodafone og lét verða af því að kaupa mér 3G netlykil eftir nokkurra mánaða umhugsun. Félagi minn var með mér (hélt hann væri í vodafone) og var í vandræðum með að netið hjá sér væri svo hægt þannig hann bað afgreiðslustúlkuna um að fletta upp nettengingunni hjá sér og gaf upp heimasímann hjá sér því hann hélt að það gæti verið að hann væri búinn að niðurhala of mikið, nettengingin er skráð á móður hanns. Jæja afgreiðslustúlkann lætur hann vita af því að internetið hjá honum væri skráð hjá Tal og hann væri þar eingöngu með 60gb limit á mánuði og væri kominn uppí 124gb.
Jæja gott og vel hann komst þá að þessu að það hafi verið vandamálið. En svo fórum við félagara að hugsa, hvernig í ósköpunum getur afgreiðslustúlka hjá Vodafone séð allar upplýsingar um viðkomandi tengingu sem er ekki einusinni skráð í þeirra fyrirtæki? Hún sá að hann væri bara með 60gb limit og væri kominn uppí 124gb. Þannig maður spyr sig, er kerfið hjá símafyrirtækjunum svona rosalega samtengt að Vodafone getur bara skoðað eins og það vill allar upplýsingar um nettenginguna hjá fólki í viðskiptum við önnur fyrirtæki?
Þetta var nú bara svona smá pæling.
Kveðja, G.Á.

Súpur á Skógum

Okkur er tíðrætt um okur á veitingastöðum úti á landi og varð ég áþreifanlega vör við það núna síðastliðinn sunnudag að Skógum. Þar eru reknir a.m.k. tveir veitingastaðir og á þessum tveimur stöðum er gríðarlegur verðmunur.
Annarsvegar er það veitingastaður nálægt fossinum sjálfum Skógarfossi en þar kostar súpa dagsins kr. 1400, sem er að sjálfsögðu algert rán og til að bæta gráu ofaná svart þá er matseðill sem hangir uppi með álímdum verðmiðum og þegar kíkt er undir þessa álímdu veðmiða þá er verð næstum tvöfalt lægra þar undir. Algerlega óforskammað að sjá ekki sóma sinn í það minnsta að fela gamla verðið.
Hinsvegar er einnig veitingahús eða cafeteria við Byggðasafnið og þar kostar súpa dagsins kr. 900.00 sem er mun ásættanlegra verð auk þess staðurinn langtum huggulegri en sá fyrrnefndi, einnig var hægt að fá fínasta smurt brauð á kr. 700,00, grillaðar samlokur á kr. 500.00 og fleira og fleira og mun skaplegra verð. Gef þessum stað mín bestu meðmæli og þá sérstaklega fyrir nokkuð sanngjarnt verð og ferskan mat.
Hef litið farið útá land í sumar en blöskraði þetta verð á fyrrnefnda staðnum, en sjálfsagt eru svona staðir til um allt land. Það verður að varast að þegar er um fleiri en einn staða að ræða að fólk kynni sér verð og gæði áður en það velur hvar það borðar.
Með kveðju,
Ingveldur Gunnarsdóttir

Stóra Kókkippusvindlið

Ég fann mig knúna til þess að koma þessu á framfæri.
Ég kaupi af og til kippu af 2ja lítra gosi í Bónus. Ég hef lent í því að
afgreiðslufólkið notar ekki strikamerkið sem er utan á plastumbúðunum,
heldur rennir strikamerki af flöskunni í skannann og margfaldar með 6. Þá
borgar maður fullt verð fyrir hverja flösku og þá eru það tæpar 1600 kr.
fyrir kippuna. Ef rétta strikamerkingin er notuð, þá fær maður kippuna á
um 998 kr. Ég lenti í þessu núna síðast í dag í Bónus á Selfossi. Afgreiðslustúlkan
skannaði inn flösku og margfaldaði með 6. Ég spurði hana hvort hún ætti
ekki að nota strikamerkið sem væri utan á plastumbúðunum utan um kippuna,
en hún svaraði því að það strikamerki virkaði ekki alltaf og því væri þeim
(starfsfólkinu) sagt að nota bara strikamerki af flöskunni.
Þar sem Íslendingar eiga heimsmet í kókdrykkju, tel ég víst að ansi margir
hafi lent í þessu og borgi því tæpum 600 krónum of mikið fyrir kippuna.
Ég bið því fólk að vera vakandi yfir þessu og passa sig á þessu með
strikamerkin.
Með bestu kveðju,
Björk Konráðsdóttir.

Dýrt nammi í (Sam)bíóum

Við hjónin skelltum okkur á Inception í Kringlubíói í kvöld. Miðarnir á 650 kr.
stk (Þriðjudagstilboð). Fór síðan og keypti 1/2 ltr. af Topp og 1/2 ltr. af Coke Zero. Fyrir þetta mátti ég reiða fram 720 kr! Miðstærð af poppi, 10 karamellur og 1 lítið súkkulaði, samtals 1650 kr. Er ekki í lagi með þetta lið? Hversu mikið þarf það að græða á fólki? Bíóferðin á þriðjudagskvöldi endaði semsagt í 3000 kr.! Maður er hættur að skilja, eru engin mörk á græðgi fólks. Hvernig stendur á því að það þarf að leggja fleiri hundruð prósent á þessar vörur? Læt mér nægja í framtíðinni að fara í Krambúðina á Skólavörðustíg og leigja þar nýjustu spólurnar á 300 kr. stk. og kaupi svo gos og snakk í Bónus. Þannig fer bíókvöldið ekki yfir 1000 kr. Fólk á ekki að versla við svona lið. Ég mæli með því að fólk kaupi sér gos, popp og nammi áður en það fer í bíó, þetta er bara rugl.
Kveðja,
Jakob Aðils og Guðrún H.A. Eyþórsdóttir

Ódýr og góður orkudrykkur

Ég fæ mér orkudrykki endrum og eins. Prófaði í gær X Ray Energy drink, sem mun víst keppa stíft við Red Bull í mörgum löndum. Hann smakkast álíka og blár Magic, ég myndi bara segja að hann væri betri og einhvern veginn mildari á tungunni. Verðið kom svo skemmtilegast á óvart, 115 kr. dósin (25 cl) í Kosti. Ég mæli með þessum ef fólki vantar smá búst.
Dr. Gunni

þriðjudagur, 3. ágúst 2010

Bláa lónið - enn einu sinni!

Vildi bara benda á Bláa Lónið, enn og einu sinni. Verð á mann er komið upp í 28€ ef ég sá rétt, en í beinhörðum íslenskum rukka þeir 4600 krónur per fullorðinn. Varð fyrir því óláni að hafa lofað nokkrum sjálfboðaliðum sem voru í vinnu hjá mér að fara með þau í Bláa lónið, þar sem þetta voru allt útlendingar og fór ég með þau sex og auka bílstjóra. Fékk að vísu smá afslátt en borgaði engu að síður rúmlega 33 þúsund í lónið fyrir okkur átta.
Vil taka skýrt fram að ég sé ekki eftir peningunum í krakkana, þau áttu það vel skilið og rúmlega það, en mér blöskrar algerlega verðið. Þar fyrir utan var lónið kalt og allur sjarmi farinn af því í þessu annars steríla umhverfi. Stór volgur pottur með sandi í botninn og einstaka fötur á víð og dreif með gamla góða hvíta gumsinu. Fyrir 4600 krónur manninn. Í einu orði sagt: OKUR!
Þetta var blóðugt og mun ég aldrei bjóða útlendingum þarna framar og segja þeim að forðast þennan túristapitt.
Óskar nafnleyndar

Illskiljanleg verðlagning á 3D bíómyndamiðum í Smárabíói

Mig langar að vekja athygli á verðlagningu á bíómiðum á 3D mynd (Shrek) í Smárabíói.
Í fyrsta lagi: Það kostar meira að fara á Shrek sem 3D mynd en venjulega "2D" mynd.
Í öðru lagi: Shrek á ensku (og 3D) er ekki textuð á íslensku, samt er verðið ekki lækkað, það er hækkað (m.v. 2D)
Í þriðja lagi: Þrívíddar gleraugu er seld aukalega.
Skýringin á 3ja liðnum var m.a. að "svo margir ættu þegar gleraugu" (!).
Þetta er svipað og þurfa að kaupa sérstaklega plasthnífapör á skyndibitastað að því að svo margir eigi slík hnífapör heima hjá sér. Hvað skyldu margir taka með sér 3D gleraugu þegar þeir ákveða að fara í bíó?
Í stuttu máli: Bíógesturinn þarf að borga hærra verð fyrir mynd í þrívídd þrátt fyrir að hún er ótextuð og til viðbótar að að borga aukalega fyrir nauðsynleg áhöld til að njóta myndarinnar. Hvað næst, verður farið að selja manni heyrnartól?
Kv.
Lárus Jón Guðmundsson

fimmtudagur, 22. júlí 2010

Okur/misræmi hjá Icelandair

Langaði að benda á okur/misræmi hjá Icelandair, varðandi breytingar á flugmiðum. Við búum úti og keyptum okkur miða heim í sumarfrí, á vefsíðu icelandair og völdum fyrir rælni að borga í dönskum krónum enda engin verðmunur á miðanum hvort sem valið er að sjá verðið í íslenskum eða dönskum krónum. Hins vegar vandast málið þegar við viljum framlengja dvöl okkar. Breyting á miða kostar 9900 krónur ef miðinn er keyptur í íslenskum krónum en 19000 krónur ef keyptur í dönskum krónum.
Þetta þykir okkur verulega undarlegt og jafnframt erfitt að skilja hvernig hægt er að réttlæta þennan mun.
Sem sagt, það virðist vera nærri 100% verðmunur á breytingargjaldi eftir því hvort miði er keyptur á íslensku interneti eða útlensku!
Kveðja, Kristín

þriðjudagur, 20. júlí 2010

Tímareim í Opel Vectra b 2.0 bensínvél

Ab varahlutir hafa verið ódýrir en ekki í þessu, 33.700 kr ca fyrir tímareimasett með strekkjara og tveimur hjólum liklega, vatnsdæla 10.750 uþb. um það bil.

N1 15.600 settið, vatnsdæla 8.800
Stilling 17.700 settið, vdæla 7000
Kistufell 20.000 settið.
Poulsen 10.000 vdæla. reim 3850, hjól 6000 líklega tvö hjól.
Umboðið , ingvar helgason vdæla 12.000 en ódýr hjól 820 kr. reim 2300, strekkjari 6700, original hjól 3000.

Ég hef lítið fundið verðlista og kannanir á netinu, þetta bætir aðeins úr því.

B. V.

Spyrjið um verð!

Starfsfólki er oft sagt að tala sem minnst um verð þangað til gestir eru búnir að renna niður matnum ásamt okrinu á honum og á þetta þá helst við þar sem starfsfólkið er meðvitað um okrið því þeir sem hefðu vitað um okrið versla ekki, en ekki veit ég hvort það á við á þessum stað en verðin hefðu mátt vera skýr aðgengileg og sjáanleg.
Fólk þarf bara að vara sig þau eru mörg sölutrixin í veitingarekstri.
Svo er þarna rétt hinumegin við flóan fyrir vestan Arnastapi aðal veitingarhúsið þar sem ég man ekki hvað heitir enda mun ég aldrei fara inn á þann stað aftur og ekkert af mínu fólki og vinum því þar er okrið alveg með ólíkindum, smá sneið af súkkulaðiköku 950 kr og sama okrið er á öðrum veitingum þar.
Spyrjið alltaf um verð áður en verslað er.
Þar sem verð eru ekki sýnileg þá er mjög líklegt að þar er verið að okra.
Einn ferðalangur

mánudagur, 19. júlí 2010

Rán í Flatey

Var að lesa um rán um hábjartan daginn hér á síðunni.
Má til með að segja frá verðlaginu á veitingahúsinu í Flatey sem má líka kalla rán.
Ég fór með fjölskylduna (2 fullorðnir og 3 börn) í ferð hálfan dag til Flateyjar og við fórum veitingahúsið þar.
Þjónustustúlka kom að borðinu hjá okkur og tilkynnti að hún væri ekki með matseðil en þuldi upp þriggja rétta seðil dagsins með forrétti, aðalrétti og dessert, en þar sem við ætluðum okkur ekki slíka máltíð spurðum við um eitthvað minna sagði hún okkur að þau væru með súpu dagsins með brauði og einnig gætu börnin fengið grjónagraut. Varð það ofan á að panta 3 súpur, 2 grjónagrauta, 3 x ½ l. Kók og 1 x ½ vatn án þess að spyrja að verði þar sem ég áleit að súpa myndi kosta á bilinu 700-1000 kr og gosið væri á veitingahúsaverði. Súpan, brauðið og grjónagrauturinn smakkaðist vel en maður fékk næstum óbragð í munninn þegar ég greiddi reikninginn uppá 8.800 kr. Ein súpa (broccolisúpa) dagsins kostar 1.800 kr og skál af grjónagraut fyrir barn kostar 950 kr.
Nafnlaus

fimmtudagur, 15. júlí 2010

Ekki okur á bjór

House of Guinness, Lækjargötu 10 Rvk, býður landsmönnum uppá Fimm Tuborg í Fötu alla daga frá 19:00 til 23:00 á litlar 1500 krónur, nánast sama verð og í vínbúðinni. Það þarf að styrkja svona fyrirtæki.
Kv,
Rikhard Johannsson

Óhóflegt verð á Brúðuheima

Við vorum fjölskyldan á ferðalagi í Borgarnesi í sumarfríinu. Þá langaði okkur að sjá Brúðuheima, nýtt safn sem þar er staðsett. Viti menn, aðgangur fyrir 1 fullorðinn er kr. 1.600- Já sextánhundruðkrónur, látið ekki líða yfir ykkur. 1000- fyrir börn og 600- fyrir börn til 2ja ára aldurs. Þar sem fjölskyldan samanstendur af 5 fullorðnum og 2 börnum hefðum við þurft að greiða 9.600- þarna inn. ÞAÐ ER ALLT OF DÝRT.
Vildi koma þessu í loftið.
Óskar nafnleyndar

miðvikudagur, 14. júlí 2010

Kvartað á netinu

Daginn,
Ég vildi benda á viðbót í skotvopnabúr neytenda. Vefsvæðið Kvörtun hefur verið sett upp til að auðvelda neytendum að láta heyra í sér!

Okursíðan Dr. Gunna er frábær staður til að láta heyra í sér varðandi verð og kaupmátt.

Kvörtunarsíðan er fyrir þjónustutengd málefni sem falla ekki undir athugasemdir vegna verðs.

Nú geta neytendur látið heyra í sér á einum vettvangi ef þeir hafa lent í slæmri reynslu hjá fyrirtæki, til að láta aðra vita og koma skilaboðum áleiðis til fyrirtækja sem oft á tíðum eru ekki að auðvelda neytendum að koma þeim á framfæri.

Íslenskir neytendur eru að átta sig á því að þeir hafa gífurlegt vald og er kvortun.wordpress.com eitt vopnið í þeirri baráttu.

kveðja,
Kvartarinn

Iceland express - verð á fylgd fyrir börn

Langar að koma á framfærir hvernig Express verðleggur fylgd fyrir börn sem eru að ferðast ein. Ég er búsett í Danmörku og kom nýlega til landsins ásamt 2 börnum mínum. Þau urðu svo eftir á landinu góða og eru að koma til baka í dag ásamt frænku sinni.

Ekki vildum við foreldrarnir að þau væru ein á vappi í flugstöðinni svo ákveðið var að kaupa fylgd fyrir þau.

Fylgd kostar 3400 kr pr barn, en þar sem þau eru a sitt hvoru bókunar númeri þarf að gera 2 greiðslur. þá kemur í ljós að barnið sem búsett er á Íslandi borgar 3400 kr en mín börn sem búsett eru í Danmörku greiða 220 kr dkk og var skýringin að þar sem farmiðinn þeirra hafi verið keyptur í DK þá komi þetta líka í dkk. en verðmunurinn er mikill

Ef miðað er við gengið 21 þá er ég að greiða 4620 krónur fyrir hvort barn sem gerir 9,240,- sem að ég greiddi með íslenskum krónum...

Hringdi í express og viðraði málið við kurteisa afgreiðslukonu sem sagði að þetta væri bara svona og þeir gætu ekki alltaf verið að vesenast með að breita genginu hjá sér. Benti henni á að þetta hefði ekkert með gengið að gera því ef að ég ættu að sitja við sama borð þá hefði ég átt að greiða ca 162 kr dkk. pr. barn.

Fátt varð um svör og ekkert gert til að vilja leiðrétta málið.

kv, Dröfn Traustadóttir

mánudagur, 12. júlí 2010

Rán um hábjartan dag í Hafinu bláa.

Fór í sunnudagsbíltúr með foreldrum mínum og syni, áfangastaður var
Stokkseyrarbakki, fín ferð í góðu verði. Á leiðinni til baka ákváðum
við að stoppa og fá okkur eitthvað í svanginn, kaffihlaðborð á Hafinu
bláa varð fyrir valinu, okkur þótti það reyndar nokkuð dýrt, 1900 kr.
á mannin en létum okkur hafa það. Þær kökur sem ekki voru frosnar voru
gamlar og harðar þannig að við borðuðum ekki nema eina sneið á mann.
Reikninginn takk, 10,600 TÍU ÞÚSUND OG SEX HUNDRUÐ fyrir kaffihlaðborð
fyrir fjóra, jú 4 x kaffihlaðborð= 7600+ 4 x kaffi 3000, kaffið er
ekki innifalið í auglýstu KAFFI hlaðborði heldur kostar gömul
uppáhelling 750 krónur á manninn, mig verkjar ennþá í rassgatið eftir
þessa ferð.
Með kveðju, Sveinbjörn Eysteinsson.

laugardagur, 10. júlí 2010

Sólning og viðgerð á sprungnu jeppadekki

Ég fann nagla í öðru afturdekkinu hjá mér þannig að ég kom við í Sólningu, losaði dekkið undan rúllaði því inn. Starfsmaðurinn náði í tappa, kippti naglanum út, tróð tappanum í, pumpaði í dekkið. Tók ca 2-3 mínútur. Reikningurinn 2490 kr.
Og svo er sagt að lögfræðingar séu á háu tímakaupi.
Með kveðju,
Magnús Gunnarsson

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Hressó fær falleinkun

Læt mig hafa það að kaupa mér latte af og til á góðum kaffihúsum fyrir 3-400 kall.
Datt svo inná Hressó í dag, bað um latte með heslihnetusírópi. Fékk einhvern hrikalega rammann, brennheitan kaffidrykk sem smakkaðist hræðilega og reikning með sem á stóð 590 kr!
590 fyrir einn kaffibolla. Ég sendi drykkinn tafarlaust til baka og bað bara um venjulegt kaffi, fékk það og gerði svo upp reikninginn. Ekki tók skárra við.
Uppáhellinginn kostaði 470kr. Venjulegur kaffi á 470kr!
Ég er til í að borga 3-400 krónur af og til fyrir afbragðs kaffi sem er brennt og malað á staðnum og framreitt af fólki sem kann til verka eins og hjá Kaffismiðjunni eða Café Haíti en þetta var hreint og beint móðgun við mig sem viðskiptavin, bæði gæði vörunnar og svo verðið.
Hressó fær falleinkun og fer ég ekki þangað framar.
Ása Jóhanns

þriðjudagur, 6. júlí 2010

Verð á spínati í Bónus...

Það virðist vera að það sé mun ódýrara að kaupa nautakjöt og halda veislu en að versla tilbúið salat í bónus (ss þetta sem er inpakkað í plastpoka.) Mæli með að fólk tékki á kílóverðin á þessu grasi. 200gr af spínati kosta rúmlega 500 krónur. Og það í lágvöruverslun? Ég get ræktað þetta í blómapotti útá svölum! In fact ég gerði það. Fræin kostuðu mig 25 kr. í Blómavali. Og ég fæ spínat fyrir það út sumarið, ef ekki lengur...
Virðist vera að þessi hollustu grös (Hollt og gott eða Himnesk hollusta) sé peningaplokk dauðans. Framleiðslukostnaðurinn er 1/50 af söluverði. Liggur við að plastið í pakkningunum kosti meira.
Bestu nöldurkveðjur,
Hjalti P Finnsson
Neytandi

Borgar sig að gera verðsamanburð á varahlutum í bíla

Vantaði stýrisenda í jeppa:

Hjá Enn einum kostaði hann 16.000 kr.

Hjá Bílabúð Benna 7.500 kr.

Kv. Nafnlaus.

Okur í Apple á íslandi?

Er einhver sem getur útskýrt þetta fyrir mér???????? Miðað við gengi dagsins kostar iPod USB Dock Connector Cable tengi 225 krónur á amazon.com (1200 ef ekki á tilboði) .... en í epli.is (apple á íslandi) 4490 krónur!

Amazon.com

Epli.is

Okur?
Óskar nafnleyndar

Lyfjuokur á norskum brjóstdropum

Í Lyfju kosta danskir brjóstdropar kr. 1.478 en í Garðsapóteki kr. 1.098.
Verðmunurinn er 35%. Hagkvæmni stærðarinnar hjá Lyfju skilar sér ekki til neytenda. Lyfja er með 34 apótek víðsvegar um landið, en Garðsapótek er með 1 apótek.
Kveðja,
Jón

Þrívíddarbíó og okur!

Í Sambíóunum þurfa bíógestir sem ætla á þrívíddarmynd að kaupa gleraugun sérstaklega - auk þess sem dýrara er á myndina í þrívídd en á venjulega mynd. Gleraugun kosta 140 kall en þegar myndin er búin eru stórir kassar við útganginn þar sem fólk er hvatt til að "endurvinna" gleraugun - ja eða gefa sambíóunum þau aftur til endursölu. Flestir sem gengu út hentu gleraugunum í þessi box og virtust ekki átta sig á að þeir ættu gleraugun og gætu notað þau aftur næst.
Erlendis þar sem ég hef farið í þrívíddarbíó hafa gleraugun alltaf fylgt miðaverðinu og svo skilur maður þau eftir í kassa svo hægt sé að nota þau aftur.
Elín

föstudagur, 2. júlí 2010

Óánægð með Digital

Við viljum koma á framfæri mikillri óánægu okkar með þjónustuna hjá Digital Ármúla. Við fórum með tölvuna okkar þangað í viðgerð þar sem þeir eru með umboðið fyrir Fujitsu Siemens. Það tók þá um mánuð að laga hana sem var svo sem allt í lagi nema það að þeir löguðu það sem var að en svo var búið að skemma start takkann á henni og einnig var hún ílla sett saman.
Við fórum aftur með hana 21. maí, við hringdum oft til að ath stöðuna á tölvunni og þá var ekkert búið að gera og starfsfólkið lofaði alltaf að hringja til baka í okkur en hringdu aldrei. Í dag fengum við nóg og hringdum í enn eitt skiptið í þá og þá fengum við bara þau svör að þeir væru ekki lengur með neina viðgerðaþjónustu sem er ný seld frá þeim en þar sem tölvan var búin að vera hjá þeim síðan í maí var nú meira en nægur tími til að laga hana.
Okkur var bara bent á það að tölvan væri hjá þeim en þeir myndu ekki laga hana þar sem þetta eru bara orð á móti orði hvort þeir hefðu skemmt hana eða við.
Við sóttum tölvuna okkar um 1 og hálfum mánuði eftir að hún fór til þeirra og þá var ekkert búið að gera. Þetta er bara brot af því sem ég hefði vilja skrifa um þetta fyrirtæki en ég læt þetta duga. Við hjónin mælum ALLS EKKI með þjónustunni hjá Digital!
Þessi texti hér að neðan er tekinn af heimasíðunni þeirra og það er sko ekkert til í því sem þeir segja:
Betri þjónusta!
Markmið Digital er að veita framúrskarandi þjónustu og það er og verður aðalsmerki okkar. Lögð er áhersla á gott aðgengi að starfsfólki, vörum og öllum upplýsingum sem nýst geta viðskiptavinum okkar.
Kveðja, Hildur og Gummi

Besti ísinn einnig ódýrastur!

Besti ís höfuðborgarsvæðisins fæst í Ísbúð Vesturbæjar, Hagamel. Og hann er ekki bara bestur því hann er ódýrastur líka, a.m.k. samkvæmt þessu! Biðjið um "Gamla ísinn", sem líkist Brynju-ís á Akureyri. Nammi nammi namm!
Gunni

fimmtudagur, 1. júlí 2010

Bensínverð í Reykjavík og á landsbyggðinni

Mig langar að koma aðeins inná bensínverð en undanfarnar vikur virðist hafa hlaupið örlítil samkeppni í meint verðstríð olíufélaganna (8-)) en eitt finnst mér alltaf jafn undarlegt og það er að bensín og olía er alltaf ódýrari í Hveragerði og sérstaklega á Selfossi en í bænum.
Ástæan er fjarri því að vera augljós en einhverntíma var því kastað fram að þetta væri vegna harðari samkeppni á þessu svæði en annarsstaðar.
Þessi rök finnst mér míg-leka þar sem t.d. í Grafarvoginum eru innan við 2 km á milli 5 bensínstöðva. Úr Rimahverfinu næ ég td. á 11 bensínstöðvar á innan við 7 mínútum þannig að samkeppnin ætti nú aldeilis að vera grjót-hörð.
Þessu til viðbótar þá þarf að flytja allt eldsneyti til Hveragerðis og Selfoss með bílum, talsvert lengri leið en á höfuðborgarsvæðinu þannig að flutningskostnðaurinn er talsvert meiri pr. lítra fyrir austan en í bænum, en samt er lítrinn ódýrari þar og munar oft um 10,- á lítrann og stundum meira.
Þarna er ég t.d. að bera saman Orkuna á Selfossi og í Reykjavík, en það sama á við um Olís, ÓB og Atlantsolíu sem mér sýnist hafa fengið "þægilega" sneið af neytendakökunni. Hver getur útskýrt þennan verðmun á mannamáli?
Kv. Maggi.

miðvikudagur, 30. júní 2010

Bestu paprikur í heimi!?

Ég var að koma úr Hagkaupum þar sem er verið að selja lífrænt ræktaðar paprikur frá Sunnu Garðyrkjustöð í pökkum af tveimur saman. Ég leit ekkert á verðið, enda varla geta paprikur kostað mikið, þó þær séu lífrænt ræktaðar og allt saman. Þetta hljóta að vera bestu paprikur fyrr og síðar (á eftir að prófa) því einn pakki kostar litlar 1229 kr! Síðan til að bæta gráu ofaná svart var mér meinað að skila vörunni, jafnvel þó ég hefði beðið um það strax, vegna reglna frá Heilbrigðiseftirlitinu. Ég vigtaði þessar paprikur sem reyndust vera um 300 g sem þýðir að kílóverðið er 4096 kr! Þeir hljóta að gefa paprikunum nautakjöt til að réttlæta þetta verð!
Kveðja,
Ívar

Bónusbrauð á Café Paris

Var að koma úr hjólatúr neðan úr bæ með tveggja ára dóttur mína. Settumst inn á Café Paris og ég pantaði (án þess að líta á matseðilinn) kaffi (regular), kókómjólk og ristaða brauðsneið með osti og smjöri fyrir dóttur mína. Ekki var það fleira í þetta skiptið. Þegar ég fer að borga og sé hvað þetta kostar er mér þó næstum öllum lokið. Fari það lóðbeina andskotans helsjóðandi leið í kjallara þess neðra að borga 590 kr fyrir ristaða brauðsneið úr Bónus. C´mon! Það er hugsanlegt að eigendur staðarins vilji flæma hjólandi vesturbæinga út af kaffihúsinu sínu, þó ég ætti erfitt með að sjá hvaða mótívasjón stæði þar að baki. Hugsanlega gæti ástæðan verið sú að hjólið sem ég kom á var blátt að lit. Það er í það minnsta jafn absúrd og verðið fyrir brauðið.
Baráttukveðjur,
Kristján Þór

Óánægður með Borgun

Fékk hringingu frá Borgun og var boðið "Almennt kort" sem átti víst að kosta 100 krónur á mánuði eða 1200 á ári. Ég sló til og fékk mér Almennt kort plús. Núna nokkrum mánuðum seinna fór ég að skoða yfirlitið og sá að maður borgar uppgjörs- og úrvinnslugjald upp á 345 krónur í hverjum mánuði ofan á 100 krónurnar!, semsagt kortið kostar 5340 kr á ári, en ekki 1200. Þegar hlutur kostar í raun 4,5x meira en auglýst verð gefur til kynna (kortið er auglýst á 100 krónur á heimasíður Borgunnar), þá er um alvarlegt svindl að ræða.
Annað kort sem Borgun býður upp á er American Express. Ef maður verslar við Atlantsolíu, Skeljung eða Orkuna eða notar á annað borð sjálfsala, þá er ekki ráðlegt að fá sér svoleiðis kort. Þú getur ekki einu sinni tengt þau við títt nefnda lykla frá þessum fyrirtækjum. Þú verður að versla við Olís eða N1 eins og mér var bent á af starfsmanni Borgunnar. Vildi bara láta fólk vita áður en það fær sér American Express kort, ekki gerir Borgun það.
Kv. Nafnlaus

mánudagur, 28. júní 2010

Félagar óánægðir með nammisölu Sambós

Við félagarnir höfum farið reglulega í Sambó, nammiverksmiðjuna á Tunguhálsi, til þess að kaupa nammi. Þeir eru með lítið söluborð þar sem hægt er að kaupa óinnpakkað nammi. Um daginn fórum við þangað og ætluðum að kaupa okkur Þrista á góðu verði. Þar var okkur sagt að pokinn af þeim kostaði 550 krónur. Eitthvað fannst okkur þetta dýrt en ákváðum samt að kaupa okkur einn poka fyrst við vorum búnir að gera okkur ferð þangað. Þegar heim var komið ákváðum við þó að vigta pokann til að sjá hvert kílóverðið væri.
Pokinn var 400 grömm og kostaði 550 krónur.
Þetta þýðir að 1 kg kostar 1375 krónur.
Þá kom í ljós að það er dýrara en í þeim búðum sem við athuguðum síðar í. T.d. kostar kílóið 1192 krónur í Bónus, e-ð svipað í Krónunni og innan við 1300 krónur í Nettó. Okkur þykir bara undarlegt að óinnpakkað nammi beint úr verksmiðjunni sé dýrara en í helstu stórmörkuðunum. Svo voru viðtökurnar heldur dónalegar.
Takk fyrir,
A & G