föstudagur, 31. desember 2010

Breytingagjaldið hjá Icelandair

Ég er námsmaður í Noregi. Og ef ég ætla breyta flugmiðanum mínum frá Noregi til Íslands þá þarf ég að borga 20 þús breytingagjald af því ferðalagið byrjar í Noregi. Hefði flugið byrjað á Íslandi er það 10 þús.
Þeir bera fyrir sig “gamla gengið” en það er ekkert gamalt gengi. Íslenska krónan hefur ekki verið 10 vs þeirri norsku í yfir 4 ár amk.
Geir

miðvikudagur, 29. desember 2010

Jólagjafaskil Ikea

Fór í Ikea í dag til að fá skipt jólagjöf. Þar sem nú er hafin útsala (hófst strax á fyrsta opnunardag eftir jól) neitar Ikea að taka við vörunni á því verði sem hún var keypt á nema að ég geti sýnt fram á það með kassakvittun. Ekki frekar en aðrir hef ég enga kvittun við hendina og kann illa við að biðja um hana frá gefanda. Þrátt fyrir að eiga smá spjall við annars almennilegan starfsmann þá var ákvörðun Ikea ekki hnikað. Ótrúlega slakt hjá þeim að gefa ekki fáeina daga fyrir vöruskil og þá á því verði sem upphaflega er greitt er fyrir. Ég hafði því miður ekki aðra möguleika en sætta mig við þessa meðferð en ákvað að stoppa eins stutt við og mögulegt var.
Ég mun í ljósi þessarar reynslu frábiðja mér frekari gjafir frá Ikea og reyna eftir fremsta megni að forðast að eiga viðskipti við þessa verslun í framtíðinni.
kveðja,
Magnús

Í stappi við Eymundsson

Þannig vildi til að sonur minn fékk tvö stykki af sömu bókinni í
jólagjöf. Önnur var keypt norður í landi en hin hjá Eymundsson. Þar
sem við búum í Reykjavík var það augljóst að við myndum skila bókinni
sem keypt var í Eymundsson. Sú bók var reyndar ekki með skilamiða en
var þó með verðmiða merktum Eymundsson upp á 3990,- .
Í gær, fyrsta opnunardag eftir jól fór ég í Eymundsson í Kringlunni.
Þar átti ég að fá inneignarnótu upp á 3190,-. Ég var ekki sátt við það
þar sem verðmiði sýndi að bókin var keypt á 3990,-. Ég fékk þau svör
að núna væri bókin á tilboði og að þessi bók hefði örugglega verið
keypt á því tilboði þótt það væri enginn miði á henni sem gæfi það til
kynna. Enn var ég ekki sátt við þessi vinnubrögð því ég taldi að
verðmiðinn hlyti að gilda en þá var mér sagt að það væri ekkert hægt
að gera því afgreiðslukerfið byði ekki upp á annað en tilboðsverðið.
Ég tók því bókina.
Í dag hringdi ég í fyrirtækið og fékk samband við mann sem ég fékk að
kvarta við. Hann tók vel í erindi mitt og sagði það vera alveg ljóst
að ég ætti rétt á að fá inneignarnótu samkvæmt því verði sem á bókinni
væri. Hann sagðist ætla að hafa samband við Eymundsson í Mjódd, bað
mig um að senda kveðju frá sér til verslunarstjórans og sagði að hún
myndi leysa úr þessu fyrir mig.
Ég fór því seinnipartinn og bað um að fá að tala við verslunarstjórann
í Eymundsson í Mjódd. Þá kom í ljós að hún hafði ekki fengið nein
skilaboð og þegar á reyndi náði hún ekki í þann mann sem hafði lofað
mér úrlausn mála fyrr í dag. Hún sagðist einnig ekki geta látið mig fá
rétt verð á bókinni þar sem hún hefði ekki heimild til þess, þeim væri
hreinlega bannað að setja annað verð en tilboðsverðið.
Þetta var því tilgangslaus ferð fyrir mig í annað skiptið á tveimur
dögum. Ég sé því fram á að þurfa enn og aftur að hringja í Eymundsson
á morgun til þess að kvarta. Og væntanlega þarf ég þá í þriðja skiptið
að fara í Eymundsson bókabúðina til þess að skila einni bók.
Það sem upp úr stendur er þetta:Í fyrsta lagi hugsa ég til allra
þeirra sem fengu bækur í jólagjöf keyptar í Eymundsson og eru að skila
þeim núna. Þeir eru væntanlega flestir með skilamiða á bókunum sínum
en ekki verðmiða sem þýðir það að Eymundsson kemst upp með að láta
fólk fá inneignarnótur fyrir lægri pening en var hugsanlega eytt í
jólagjöfina. Í öðru lagi hef ég ekki mikinn áhuga á að versla meira
við Eymundsson eftir að hafa lent í þessu enda hafa þeir ekki mikinn
áhuga á að koma á móts við mig sem viðskiptavin. Sumir hugsa kannski
að þetta sé skitnar 800,- kr. en safnast þegar saman kemur. Fyrir mér
er þetta prinsipp mál. Rétt skal vera rétt.
Kveðja, Ástríður M. Eymundsdóttir

Að skila skóm í Útilífi

Ég var að koma úr Kringlunni þar sem ég skilaði einni gjöf sem hún móðir mín gaf mér, en það voru Viking lágir gönguskór, inn í búðini stóð 18.990kr sem verð á skónum...
Ég ákvað að skila þeim og fékk því innleggsnótu, og á henni kemur fram að inneign mín sé 15.192 kr var nú ekkert að taka neitt rosa eftir þessu fyrr en ég tók miðan upp er heim var komið...
þá er þetta sett upp að varan kosti 18.990 kr og svo kemur eithvða sem mér sýnist ekki vera neitt annað en þjófnaður.... og þeir kalla á sneplinum Línuafsláttur upp á 3.798 kr.
Ég á nú efitr að tékka hvað hún mamma borgaði fyrir skóna, en mér fynst það nú ansi ríflega ef að búðin sé að taka hátt í 4 þúsund krónur fyrir það eina að geyma peningana mína...
Væri gaman að vita ef að fleiri hafa lent í þessu eða fá svör frá versluninni um hvað þessi línuafsláttur til þeirra sé.... en þetta var í Útilíf í Kringlunni.
Með kveðju, Kristján R

þriðjudagur, 28. desember 2010

Græðir Hagkaup á jólagjafaskilum?

Fór og skilaði dóti í Hagkaupum, þann 27. des. s.l. sem barnið mitt
fékk í jólagjöf, sem er nú ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir
að þegar varan er stimpluð inn í kassann kemur upp að ég eigi að fá
3.990 kr. í inneign. Það vildi svo skemmtilega til að verðmiðinn var
enn á dótakassanum (sem er nú iðulega ekki á gjöfum) en þar stóð 5.990
kr. Ég benti á þetta og þetta var leiðrétt eins og skot.
Fór að velta því fyrir mér hvort þetta hafi verið einstakt tilvik eða
hvort þetta sé auðveld leið til að græða?
Það hefur nú ekki alltaf verið talið kurteisi að spyrja hversu dýrar
gjafirnar eru sem maður fær, en það er kannski ekki óvitlaust?
bestu kveðjur og þakkir
:)
Blær

Kreppugler= Zenni Optical með álagningu

Mér fannst Kreppugler mjög sniðugt þegar það kom fyrst, en svo eftir að hafa lent í miklu veseni með að fá gleraugu bætt sem voru gölluð þaðan (endaði með að ég gafst bara upp, fékk ekkert nema dónaskap og leiðindi) fór ég að skoða þetta aðeins, og sá hér á okursíðunni um grun aðila nokkurs að það væri verið að scrape-a (http://okursidan.blogspot.com/2010/10/kreppugler-ea-bara-ny-afer-vi-hafa.html) þar sem þeir slá inn pöntun á síðu eins og zennioptical.com og afgreiða það svo sem sína eigin pöntun, en tala svo um á sínum síðum að þetta sé beint frá byrgja, það er kannski hægt að túlka það sem tæknilega rétt en mér finnst það samt óheiðarlegt.
Ég fór að skoða gleraugnaboxið sem ég fékk gleraugun mín send í og viti menn, það stendur Zenni Optical á því. Ég er ekki lengur í nokkrum vafa á að þetta sé scraping og bara vel smurt á, t.d. eru gleraugu sem ég pantaði frá zennioptical.com á 10.040 kr komin til landsins með sköttum og öllu saman, en nákvæmlega sömu gleraugu með sömu aukahlutum, glerjum og öllu kosta tæp 20 þús á kreppugler. Ég vil hvetja fólk til að versla frekar við Zenni Optical beint og fá bæði lægra verð og sleppa við svona óheiðarlega viðskiptahætti, það er víst búið að hrekkja hinn almenna borgara nóg.

Gleraugnanotandi

þriðjudagur, 21. desember 2010

Flatskjár - Ísland vs England

Var að skoða flott sjónvarpstæki hjá Heimilistækjum - Panasonic - TXP46G20ES - Fullt verð: 369.995 - Tilboð: 299.995.
Datt í hug að athuga hvar slíkt tæki væri ódýrast í UK. Fann samskonar tæki, nýtt að sjálfsögðu, á vefsíðu Amason. Það vekur athygli að "Tilboðsverð" hér heima er 100% hærra en verð með heimsendingu innan Bretlands.

Okurkubbur

Fór í Bókabúðina Eymundsson 19 Des og keypti dagatalskubb, stærri gerðina, sem kostaði 3.226 kr. Þetta kalla ég okur!
Jónína Gunnarsdóttir.

laugardagur, 18. desember 2010

Okrað á lásaspreyi

Í gærkvöldi sárvantaði mig lásasprey, svona til að sprauta inn í frosinn lás. Ég fór á næstu bensínstöð og það vildi svo til að það var Olís. Fyrir pínulitla pakkningu var ég látinn borga 623 kr.!! Ef mig hefði ekki sárvantað þetta hefði ég hlaupið út með það sama! Það stendur ekki á pakkningunni hversu stór hún er en ég myndi giska á svona ca. 30 ml. Það þýðir að lítraverðið af þessu spreyi er á 20.767 kr.!!! Þetta er svipað lítraverð og á dýrasta koníakinu í Ríkinu. Ég ætla aldrei að stíga fæti inn í Olís aftur, það er ljóst.
Kveðja,
Guðmundur

sunnudagur, 12. desember 2010

Vatnsfiskur


Konan keypti fiskflök um daginn. Þetta voru ýsuflök með 10% íshúðun. Afhverju íshúðun er innifalin veit ég ekki en það ætti þá að vera hægt að fá fiskinn án íshúðunar eða íshúðunina sér, ekki satt?
En þar sem ég er stundum leiðinlega smámunasamur þá ákvað ég að vikta þetta allt sjálfur. Fiskuinn í umbúðum vó 838g en á umbúðunum var hann merktur 836g, límmiðinn gæti verið 2g með prentun, lími og fingraförum.
Ég hellti mestu af vatninu úr pokanum í skál og vó það sér, eftir að hafa tarað út þyngdina á skálinni að sjálfsögðu og þá var vatnið 202g.
Síðan vó ég fiskinn sér 634g í pokanum, með límmiðanum.
Eftir það ákvað ég að þerra fiskinn með húsbréfi og þá fór þyngdin niður í 594g úr upprunalegu 836g sem er ca: 41% ekki 10% eins og miðinn gefur til kynna. Þetta kalla ég vörusvik, það er ekkert annað heiti yfir þetta. Mér þætti gaman að sjá framan í þennan framleiðanda ef honum hefði bara verið greitt fyrir 60% af fisknum eða hann hefði fengið 60% af kvótanum.
Svona eiga menn ekki að gera.
Næst kaupi ég fiskinn en ekki frá þessum framleiðanda.
Kveðja,
Steinþór B. Grímsson

Óheiðarlegir viðskiptahættir í Toppskórinn Outlet

Í Fréttablaðinu í gær var heilsíðuauglýsing frá Toppskóm - Outlet sem hljóðaði upp á 50% afslátt af öllum vörum í búðinni. Ég var stödd í umræddri búð fyrir viku síðan og vissi nákvæmlega verð á Ecco inniskóm sem ég var að skoða. Um var að ræða tvennskonar pör sem kostuðu 11.995 kr. Þegar ég hugsaði mér að nýta mér þetta góða auglýsta tilboð í dag var búið að hækka alla skóna í 14.995 kr. Ég spurði stúlkuna hvernig stæði á þessu og hún tjáði mér að það gæti að það hefði ruglast eitthvað verðið og pör í kassa. Hún var s.s að gefa það til kynna að ég hlyti að hafa tekið vitlaust eftir. Hún fór fram og spurði einhverja konu og kom til baka og sagði að þetta væru rétt verð en það gæti verið að verð og pör hefðu ruglast. En þetta svar var svo loðið og tilbúið að ég var ekki tilbúin að kaupa það. Ég sagði að ég væri ekki ánægð með þessi vinnubrögð ef þetta væri rétt hjá mér og sagðist ekki ætla að láta hafa mig að fífli og gekk út og sagðist ekki versla hérMaðurinn minn var með mér og hann vissi einnig rétta verðið á skónum. Mér finnst rétt að fólk viti af þessu að þetta var svo sannarlega ekki um 50% lækkun á vörunum þar sem búið var að hækka vöruna um allt að 30% og "gefa" svo 50% afslátt. Fólk verður að vera á verði.
Kær kveðja,
Gunnhildur Grétarsdóttir

Hvað kostar jólaklipping barnanna?

Nú þurfa krakkarnir að komast í jólaklippinguna. Ég kynnti mér verð hjá 15 hársnyrtistofum fyrir þrjú systkini, 3 ára stelpu og 7 og 12 ára stráka. Stofurnar aldursskipta kúnnahópnum mjög misjafnt, sumar gera engan greinarmun á aldri barnanna, meðan aðrar skipta í marga aldursflokka. Eins og sést eru verðin mjög mismunandi – það munar 67.6% á lægsta og hæsta verðinu – og því greinilega ekkert samráð í bransanum. Auðvitað borgar sig því að athuga verðið áður en maður kaupir þjónustuna. Athugið að gæði og þjónustustig var ekki athugað í þessari könnun, bara verð. Athugið einnig að þessi könnun er ekki tæmandi, það er auðvitað fjöldi annarra stofa til en þessar fimmtán. Hér koma niðurstöðurnar, ódýrasta stofan fyrst og svo koll af kolli.

Í hár saman
Grettisgötu 9
6.800 kr
(1 x 1.800 kr / 2 x 2.500 kr)

Salon Nes
Austurströnd 1
7.000 kr
(2 x 1.900 kr / 1 x 3.200 kr)

Díva
Hverfisgötu 125
7.800 kr
(2 x 2.500 kr / 1 x 2.800 kr)

Solid hár
Laugavegi 176
8.000 kr
(1 x 2.000 / 2 x 3.000)

Englahár
Langarima 21
8.265 kr
(2 x 2.800 / 1 x 3.100 kr - 5% systkinaafsláttur)

Hárný
Nýbýlavegi 28
8.550 kr
(1 x 2.250 kr / 2 x 3.150 kr)

Brúskur
Höfðabakka 1
8.800 kr
(1 x 2.200 kr / 1 x 2.900 kr / 1 x 3.700 kr)

Manda
Hofsvallagötu 16
9.100 kr
(1 x 2.700 kr / 2 x 3.200)

Hárgreiðslustofa Helenu, Stubbalubbar
Barðastöðum 3
10.005 kr
(2 x 3.790 kr / 1 x 4.190 kr – 15% systkinaafsláttur)

Möggurnar í Mjódd
Álfabakka 12
10.450 kr
(1 x 3.150 kr / 2 x 3.650 kr)

Hárgreiðslustofan Gríma
Álfheimar 4
10.500 kr
(1 x 2.500 / 2 x 4.000)

Rakarastofa Ágústar og Garðars
Suðurlandsbraut 10
10.630 kr
(2 x 3.270 kr / 1 x 4.090 kr)

Korner
Bæjarlind 14-16, Kóp
10.700 kr
(1 x 3.100 kr / 2 x 3.800 kr)

Rakarastofan Klapparstíg
Klapparstíg 29
10.920 kr
(2 x 3.360 kr / 1 x 4.200 kr)

Ónix
Þverholti 5
11.400 kr
(3 x 3.800 kr)

Dr. Gunni
(Birtist í Fréttatímanum 10.12.10)

þriðjudagur, 7. desember 2010

Ódýrasti jólakjóllinn og okrið hjá sumum!

Ég keypti mér jólakjólinn nú um síðustu helgi og langar að deila því með ykkur.

Ég byrjaði á því að fara á Laugaveginn af því þar er svo mikið af íslenskri hönnun. Eftir að hafa heimsótt nokkrar verslanir þar gat ég nú bara eiginlega ekki meira því mig var farið að svíða svo í augun undan verðmiðunum! Ég veit að maður á að reyna að styðja íslenskt en guð minn góður!! Einföld blússa á nærri fimmtíu þúsund kall! og kjólar sem kosta morð... get ekki ímyndað mér að það séu margir aðrir en útlendingar sem hafi efni á íslenskri tísku þessa dagana.

Ég ákvað því að kíkja í Kringluna og leita að einhverju sem veskið mitt þolir. Eftir að hafa heimsótt nokkrar búðir kíkti ég inn í nýja búð sem heitir Emami. og viti menn.. flottur jólakjóll á viðráðanlegu verði. Ég skoðaði einn silkikjól sem var á tilboði á 25 þúsundkall, það var hægt að breyta honum alveg endalaust. Ferlega sniðugt. Ég keypti hann samt ekki því ég fann annan sem ég féll alveg kylliflöt fyrir, rosalega flottur jólakjóll í svörtu silki og ég borgaði 26.900 kr fyrir hann (hann var ekki á tilboði). Það var líka hægt að breyta honum þannig að ég get verið í hinum á aðfangadag, breytt honum svo bara fyrir áramótin og notað hann svo enn og aftur í fermingunum án þess að nokkur fatti neitt! Þetta er sko jóladíll ársins.. að kaupa kjól sem hægt er að nota aftur og aftur.

En það sem kom mér mest á óvart að þegar ég var á kassanum þá sagði stelpan mér að Emami væri íslensk hönnun!! Hvernig geta þeir verið með eðlileg verð í búðinni sinni á meðan búðirnar sem ég heimsótti á Laugaveginum eru gjörsamlega í ruglinu með sín verð?!

Niðurstaðan: ódýrasti jólakjóllinn er sennilega í Emami búðinni í Kringlunni. Allavegana ef þú vilt kaupa íslenska hönnun.

Kveðja,
Guðrún

laugardagur, 4. desember 2010

Hvað kosta persónulegu jólakortin?

Margir aðilar bjóða upp á þjónustu fyrir fólk sem vill sendir jólakort með mynd af sér og sínum nánustu. Algengasta leiðin er að fólk halar niður forriti sem það vinnur kortin í (stillir mynd eða myndir inn á, velur bakgrunn og kveðju), sendir útkomuna til prentfyrirtækisins og sækir svo kortin tilbúin skömmu síðar eða fær sent heim (sendingarkostnaður bætist þá við). Skoðum möguleikana og gefum okkur að framleiða eigi 30 kort. Öll verðin miðast við 30 kort og umslög eru innifalin í öllum verðum.

Oddi (www.oddi.is) framleiðir þrjár stærðir korta. Verðin: A5 (14.8 x 21 cm) – 5.370 kr, A6 (10.5 x 14.8 cm) - 4.770 kr og ferhyrnd 14 x 14 cm – 5.070 kr. Þetta eru allt opin kort með broti.

Hjá Póstinum (www.postur.is) er boðið upp á ílöng einföld kort í stærðinni 21 x 10 cm. Þrjátíu kort kosta 5.100 kr. Hjá Póstinum má líka panta frímerki með eigin mynd og er lágmarkspöntun ein örk, 24 stk. Verð á einni örk fyrir innanlands sendingu að 50 gr er 3.995 kr (166.50 kr/stk), en þess má geta að póstburðargjald fyrir innanlandsbréf að 50 gr er 75 kr.

Hjá Prentlausnum (www.prentlausnir.is) fást gerð kort í stærðinni A5 (5.070 kr) og A6 (4.170 kr). Hægt er að velja um opin brotin kort eða einföld kort, en verðið er það sama.

Samskipti (www.samskipti.is) bjóða upp á fjórar stærðir af jólakortum, með broti og án. Verð: A6 – 4.700 kr, A5 – 5.000 kr, 14 x 14 – 4.500 kr og 21 x 10 – 4.500 kr.

Pixel prentþjónustan (www.pixel.is) prentar þrjár stærðir. Verð: A6 – 6.300 kr, A5 – 6.900 kr og 15 x 15 – 6.900 kr. Öll kortin eru með broti. Fyrirtækið býður upp á 25% afslátt af öllum verðum til 10. desember.

Pixlar (www.pixlar.is) er með tvær stærðir, 10 x 21 og 15 x 15 – sama verð á báðum stærðum: 4.650 kr sé um einfalt kort að ræða, en 4.950 kr fyrir opin kort með broti.

Netfyrirtækið Jóla (www.jola.is) framleiðir kort af stærðinni 15 x 10 cm með broti. Þrjátíu stykki kosta 3.840 kr með umslögum sem þarf að panta sérstaklega.

Á kortavef Hans Petersen (www.kort.is) er hægt að velja um tvær stærðir, ílöng og ferköntuð einföld kort (21 x 10 og 15 x 15). Sama verð á báðum stærðum – 4.800 kr.

Myndval í Mjódd (www.myndval.is) er með þrjár stærðir. Þrjátíu stykki af stærðunum 15 x 15 og 10 x 21 kosta 4.560 kr., en 30 stykki af 10 x 15 kostar 4.050 kr.

Ljósmyndavörur (framkollun.ljosmyndavorur.is) bjóða upp á fjórar stærðir. Verð: 10 x 15: 3.900 kr, 10 x 20: 4.350 kr, 15 x 15: 4.350 kr og 15 x 20: 4.800 kr.

Eins og sjá má er nokkur verðsamkeppni á persónulega jólakortamarkaðinum. Verðin hér að ofan endurspegla þó á engan hátt gæði prentunar eða korta. Til að ná verðinu niður má svo fara þá leið að framkalla jólalegustu myndina (stafræn framköllun á þrjátíu myndum er á 1.110 kr. í stærðinni 10x15 bæði hjá Hans Petersen og Pixlar.) Þá mynd má líma í jólakort eða á karton (algent verð er 30 kr fyrir 180 gr A4 karton sem dugar í tvö A6 opin kort) og skreyta og föndra við með fjölskyldunni. Ekkert kort verður því nákvæmlega eins. Persónulegasta útfærslan getur því jafnframt verið sú ódýrasta.

Dr. Gunni
(Birtist í Fréttatímanum 2. des 2010)

Soda stream-hylki - mikil hækkun

Ég fór í Krónuna í dag, 3. desember og keypti mér nýtt kolsýruhylki í Sódastream tækið mitt. Ég fékk 594 krónur fyrir tóma hylkið og borgaði 3.354 krónur fyrir nýja kolsýruhylkið. Ég á ekki orð yfir álagningunni. Fyrir um það bil tveim mánuðum borgaði ég um það bil 1.800 krónur fyrir sama hylkið.
Kveðja,
Guðrún Sólveig Högnadóttir

miðvikudagur, 1. desember 2010

Ótrúleg verðhækkun á kaffi

Mig langaði að segja þér frá ótrúlegri verðhækkun á kaffi á kaffihúsum Súfistans. Ég hef heyrt af umræðu um yfirvofandi hækkun á kaffi og að kaffihúsin myndu þurfa að hækka kaffi sitt verulega vegna hækkana á heimsmarkaðsverði og bjóst því við einhverjum hækkunum. Ég er vön að kaupa mér latte og taka hann með mér og borga fyrir það 380 kr (var um 300 kallinn lengi vel) á meðan hinir sem drukku á staðnum og notuðu sætin og borðin og bollana á kaffihúsinu borguðu 430 kr. Nú hefur verðið á sama lattebollanum hækkað í 480 kr og sama verð er á kaffinu hvort þú takir með þér eða drekkir á staðnum. Hækkunin er 26% á einu bretti. Ég er fastgestur á Súfistanum en mér finnst rosalegt að borga næstum 500 kall fyrir kaffibolla, svo því verður líklega kippt út núna.
Kaffikarlinn