laugardagur, 24. mars 2012

Svindlkassi í Smáralind

Hér er sjóðheitt myndband um "barna"-spilakassa sem má finna í Smáralindinni. Algjört svindl eins og er útskýrt vel í þessu metnaðarfulla myndbandi, sem Sigurður Kristinn Ómrasson gerði:

http://www.youtube.com/watch?v=QgKUJityS1A

föstudagur, 23. mars 2012

Okursnúður í Kvosinni

Ég bý nálægt Ingólfstorgi og hef stundum keypt einhverja matvöru í Kvosinni, Aðalstræti. Það gerist þó æ sjaldnar því að þar hefur verð farið sí-hækkandi á flestu sem selt er. Í dag tók steininn endanlega úr þegar ég ætlaði að kaupa einn klassískan snúð með súkkulaði. Verðið var 329 krónur og ég afþakkaði pent.

Til samanburðar hringdi ég í nokkur ágæt bakarí og spurði um verð á snúðum:

Björnsbakarí - 210 kr.
Bernhöftsbakarí - 220 kr.
Mosfellsbakarí - 230 kr.
Bakarameistarinn - 235 kr.
Bakarí Sandholt - 240 kr.

Eins og sjá má eru öll þessi bakarí með tiltölulega hófleg verð á snúðum meðan Kvosin okrar á sínum viðskiptavinum. Það er vissulega umhugsunarvert að líklega eru margir viðskiptavinir þeirra erlendir ferðamenn af hótelunum allt í kring sem átta sig ekki vel á þessu "rip-offi". Þetta er sérlega leitt því að þessi verslun lofaði góðu þegar hún opnaði.

Með kveðju,
Sigurður Hr. Sigurðsson.

sunnudagur, 18. mars 2012

Verðleynd í Krónunni

Ég varð ekki beint hrifin þegar Neytendastofa ákvað allt í einu að það væri stórhættulegt að við neytendur sæjum á pökkuðum kjötvörum hvað þær kostuðu, sem sé sæjum verðið. Nú virðist þessi verðleynd vera að breiða sig út um búðirnar allar. Ég er alltaf að reka mig á það í Krónunni að verðleynd virðist hvíla yfir sumum ávöxtum! Einhver kann að segja, þá er bara að fara í skannann - OK, en hann er bara fyrir kjötvörur, sumar alla vega. Ég lenti í því um daginn að grípa upp kjúkling sem yfir var stórt skilti: TILBOð, en það vantaði bara verðið. Ég í helvítis skannann: "vara óþekkt, ekki á skrá". Ég á kassann: "Sorrí, þetta er ekki á skrá." Það var sem sé ekki hægt að kaupa tilboðskjúklinginn!!!! Ég býst við að Krónan hafi þurft að farga nokkrum kjúklingalíkum þá helgina. Legg til að okursíðan kanni verðmerkingar í Krónunni á Fiskislóð.

Kveðja,
Helga Jónsdóttir

laugardagur, 17. mars 2012

Skyrdrykkir minnka

Eftir að skráargatið var lögfest, minnkaði Mjólkursamsalan boxin fyrir skyrdrykkina um helming en selur boxið á sama verði. Ef þetta er ekki okur veit ég ekki hvað okur er. Það hefur ekki nokkur maður minnst á þetta opinberlega svo ég hafi séð. Við látum bjóða okkur allt út í það óendanlega...
Kveðja,
Bergþóra

120 gr hamborgarar í Krónunni (5 fyrir verð 3) eru bara 80 gr

Ég var að versla í Krónunni (í Lindum) og þar var tilboð 5 x 120 gr
hamborgarar á verði 3. Hljómar ágætlega en eitthvað fannst mér þessir
hamborgarar litlir miðað við að eiga að vera 120gr. svo ég bað
starfsmann í búðinni að vikta fyrir mig pakkninguna (plastbakki með 5
hamborgurum) og þetta reyndust vera 390 gr. Svo hver hamborgari hefur
ekki einu sinni náð því að vera 80 gr. Ég benti starfsfólkinu á þetta
að þetta væri röng merking og einn starfsmaðurinn tók tilboðs merkið
sem var hjá kælinum í burtu en ég hafði svosem á tilfinningunni að það
yrði sett upp um leið og ég labbaði út úr búðinni. Þetta var fyrir
rúmri viku síðan en í dag er ennþá verið að selja þessar pakkningar,
sem á stendur að hamborgararnir séu 120gr.
Kveðja, Bryndís

þriðjudagur, 13. mars 2012

Einkaklúbbstilboð

Nýti mér stundum Einkaklúbbinn þegar ég fer út að borða og finnst það góð auglýsing fyrir veitingastaði að auglýsa 2f1 (2 fyrir 1), þar sem gaman er að prófa nýja staði og ekki skemmir fyrir að fá 2f1.
Þetta átti hins vegar ekki við þegar ég ætlaði að nýta mér 2f1 tilboðið af matseðli hjá Hressingarskálanum um daginn. Mér var neitað um tilboðið þó að það standi skýrum stöfum í handbókinni að það sé í gildi allan daginn alla daga á þessum árstíma. Í EK auglýsingunni stendur milli 2-6 til 1. október en alltaf alla daga eftir 1. október.
Afgreiðslustelpan neitaði strax að gefa afláttinn þó að við sýndum henni auglýsinguna í bókinni og sagði að fólk hefði kvartað yfir þessu í vikunni. Yfirmaðurinn sagði að það væri aðeins afláttur á milli kl. 2-6. Hún hringdi aftur í yfirmanninn þegar við kvörtuðum yfir þessu og kom tilbaka og sagði þetta væri bara í gildi milli kl. 2-6 og við gætum sent póst ef við vildum ræða þetta eitthvað frekar. Ég sendi póst og hef ítrekað hann en ekki fengið nein svör...
Finnst bara prinsipp að fólk sem auglýsir hjá EK og tilboð yfir höfuð að það standi við það sem það segir og neiti ekki bara að gefa afsláttinn þegar kemur að því að borga. Við vinnufélagarnir munum allavega ekki fara aftur á Hressó í bjór og burger (sem voru báðir frekar þunnir) svo mikið er víst.
Mbkv. Una

mánudagur, 12. mars 2012

Okur-Epli

Eins og svo margir sem keypt hafa iPhone í USA þá þarf ég að fjárfesta í nýjum USB spennibreyti með íslenskri kló.
Á www.epli.is sem er heimasíða umboðsaðila Apple á íslandi er þessi spennibreytir til á 6.990 kr http://www.epli.is/apple-ipod-usb-power-adapter-1120.html
En á heimasíðunni www.isiminn.is sem er að selja Apple vörur er þessi sami spennibreytir til á 2490 kr. http://isiminn.is/product.php?id_product=363
Þetta er náttúrulega ekkert annað en græðgi og okur hjá þeim Eplismönnum á Laugarveginum.

Kv,
Auðunn Valsson

Stjörnur.is - neytendur teknir í nefið

Ég hef oft hugsað um það hvað væri gott ef Íslendingar sameinuðust um að nota einhvern af erlendu vefjunum - eða stofnuðu sinn eigin, þar sem hægt er að gefa stjörnur og komment vegna þjónustu fyrirtækja, lækna o.s.frv. Þegar ég sá að kominn væri vefur sem héti stjörnur.is var ég fyrst ánægð en varð síðan fyrir miklum vonbrigðum. Þarna sýnist mér verið að taka íslenska neytendur enn einu sinni í nefið og mér finnst við eigum að reyna að vekja athygli á því strax.
Neytandi sem vill skrifa umsögn um fyrirgæki eða þjónustu, gerir það líklega m.a. vegna þess að hann ber hag annarra neytenda fyrir brjósti. En um leið og hann setur texta inn á vefinn, afsalar hann sér rétti til að nota sömu orð á öðrum vettvangi! Og eigendur vefjarins sem fá lögverndaðan höfundarétt, mega nota ummælin á hvern þann hátt sem þeim sýnist! Ég trúi því ekki að þetta sé neytendum í hag - eða til þess gert yfir höfuð að þjóna neytendum. Því miður má gera ráð fyrir að afar fáir lesi skilmálana á vefnum. Eða hvað?

Kær kveðja
Bryndís

Af vefnum:
Stjörnur.is er í eigu Já Upplýsingaveitna hf. sem sjá jafnframt um rekstur vefjarins.

Með því að láta Já í té umsögn um fyrirtæki og/eða atvinnurekanda og vörur hans og þjónustu, veitir notandi vefsíðunnar, umsagnaraðili og/eða höfundur umsagnarinnar því hér með Já ótakmarkaðan, einhliða rétt til nýtingar og birtingar umsagnarinnar á þeim vettvangi og með þeirri aðferð og tækni sem Já þóknast, þar á meðal á vefsíðunni Já.is, auk þess sem sá aðili veitir Já fullan rétt til að gera önnur eintök af umsögn hans. Fellur sami aðili samhliða frá eigin rétti til nýtingar og birtingar umsagnarinnar á öðrum vettvangi og eintakagerðar af henni og nýtur hann þess réttar ekki eftir að hann hefur sent Já umsögn sína til birtingar, hvorki sjálfur né til framsals annarra aðila. Birting, nýting og eintakagerð umsagna sem er að finna á vefsíðunni er því öðrum aðilum en Já með öllu óheimil án skriflegs samþykkis Já. Brýtur slík notkun gegn lögvernduðum höfundarrétti Já og kann meðal annars að varða bótaskyldu.

sunnudagur, 11. mars 2012

Cintamani - Listaverð og outletverð

Ég fór á konukvöld Létt Bylgjunnar um daginn og sá Cintamani úlpur á 50% afslætti. Ein af þeim, Eir, átti að kosta rétt tæpar 30 þúsund, og 50% af því þá rétt tæpar 15 þúsund. Mér fannst þetta svo góður díll að ég gat ekki sleppt honum, þó þetta væri ekki óska Cintamani úlpan mín. En nóg um það. Ég fór svo á kassann og úlpan kom þar inn á rétt tæpar 20 þúsund, starfsmaðurinn fór þá í að breyta verðinu í kassanum upp í tæpar 30 þúsund (listaverðið) og tók svo 50% afsláttinn af því verði. Ég gerði athugasemd við þetta og starfsmaðurinn sagði mér að afslátturinn væri af listaverðinu en ekki outlet verðinu. Mér fannst þetta afar skrýtið en keypt samt úlpuna því mér fannst 15 þúsund krónur vera fínn díll. En mér finnst þetta afar vafasöm auglýsing hjá þeim. Að auglýsa úlpu á 50% afslætti, miða það við listaverðið en ekki outlet verðið og úlpan hvergi til sölu á listaverðinu.
Óskar nafnleyndar

fimmtudagur, 8. mars 2012

Viðgerð á símaskjá - usa/ísland

Vildi vekja athygli á því að ég hef keypti mér síma fyrir þremur árum síðan, nokia xpressmusic 5800. Ég lenti í því óláni að brjóta skjáinn í símanum tvisvar sinnum og kostaði viðgerðin 15000 kr hjá hátækni í gegnum vodafone. Skjárinn brotnaði nú í þriðja skiptið og er ég staðsettur í Bandaríkjunum. Ég keypti skjáinn á heilar 2000 kr og viðgerðin tók 30 min og ég borgaði þessar myndalegu 2000 kr í viðbót fyrir hana..

Ég reiknaði út hvað kostar að flytja inn skjáinn.

2000kr kostar hann
7,5% tollgjald - 2150kr
20% efnisskattur - 2580kr
25.5% virðisauki - 3238kr

Vodafone + Hátækni taka því 11.762 fyrir viðgerðina..

Okur, það held ég

Heiðar

Okursíðan komin á Facebook


Okursíðan er komin á Facebook. Fæst ekki feitt læk á það?
http://www.facebook.com/okursidan