mánudagur, 30. maí 2011

OOOOKRIÐ á Íslandi!!!

(tekið í óleyfi héðan):

Hvernig getur eitt skópar rúllað upp á sig nær sex þúsund kalli á leiðinni frá USA til Íslands? Ég geri mér grein fyrir að það eru flutningsgjöld, tollar og álagning, en djísus kræst on a crutch!?

Þessir Converse skór kosta í Target $19.99 eða um ISK 2300. Sömu – nákvæmlega sömu skór - kostuðu í Hagkaup þegar ég fór þangað um daginn ISK 7.999!!! Það er næstum 250% – ofan á smásöluverð skónna úr Target, nota bene, ekki ofan á heildsöluverðið!!

Vinkona mín gefur litla hundinum sínum oft litla snakkmola sem eiga að vera góðir fyrir tannheilsu hvuttans. “En ég spara þá, því pokinn kostar þrjú þúsund kall.” Það var rétt, kr. 2.900 stóð utan á pokanum. Sömu – nákvæmlega sömu vöru – má kaupa hér á rúmar 800 krónur. Eða netbókin mín, sem kostaði $220 – nákvæmlega sömu netbók sá ég á tilboði – á tilboði!!! - á ISK 99.999!!!

Mér er fyrirmunað að skilja verðlag á Íslandi, hvernig það verður til. Auðvitað er engin samkeppni á Íslandi nema að nafni til; hér blómstrar fákeppni og einokun á öllum sviðum, en svo virðist vera sem innflytjendur og kaupmenn geti einfaldlega klesst hvaða álagninu sem þeir vilja ofan á vöruverð án nokkurs eftirlits (og ekki er hið opinbera skárra í skattpíningunni – hvers vegna eru t.d. svona háir tollar á bílum, til að vernda íslenskan bílaiðnað??) Manni finnst að á einokunarsvæði eins og Íslandi ættu stjórnvöld að sjá sóma sinn í að amk “minding the store” af og til.

Ég velti stundum fyrir mér hvernig íslensk stjórnvöld myndu bregðast við þeirri kjarabót fyrir neytendur sem yrði afleiðing inngöngu Íslands í Evrópubandalagið. Reyndar velti ég því ekkert fyrir mér, ég veit það fyrir víst: þau myndu gera nákvæmlega það sama og gert var þegar Ísland varð aðili að EES. Meðal afleiðinga af því samkomulagi var gagnkvæm niðurfelling tolla á ýmsum vörum, sem hefði átt að skila sér í kjarabót fyrir neytendur, ekki satt, hver er annars tilgangurinn með svona bandalögum? Nei, aldeilis ekki. Í stað þess að láta neytendur njóta góðs af samningnum var fundið upp “vörugjald” sem klesst var ofan á vöruverðið.

((Ég komst reyndar að þessu þegar ég hafði einu sinni samband (eftir að hafa heimsótt nokkrar tuskubúðir í Kringlunni og fengið ælukast af okrinu sem viðgengst í þeim bransa) við hið ágæta og hjálpsama starfsfólk tollsins í þeim tilgangi að uppgötva hvernig vöruverð verður til á Íslandi. “Vörugjald” hvað þýðir “vörugjald” spurði ég starfsmanninn: “Það varð til þegar við sömdum okkur inn á EES svæðið og felldum niður tolla eða lækkuðum á nokkrum vörum. Þá var sett vörugjald á ýmsar vörur svo ekki yrði þurrð í ríkiskassanum. Oft nefnt í gamni ‘dulbúinn tollur‘”))

Íris Erlingsdóttir

laugardagur, 28. maí 2011

Seinagangur hjá Sjúkratryggingum Íslands

Fyrir 5 vikum síðan fékk ég tölvupóst frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem
mér var tilkynnt að ég hefði borgað of mikið fyrir heilbrigðisþjónustu á
árinu 2010 og væri kominn með afsláttarkort og ætti rétt á 1.201 króna
endurgreiðslu. Jafnframt var mér tilkynnt að ef ég ætti reikninga frá
árinu 2010 þá ætti ég að koma með þá niður í Sjúkratryggingar sem og ég
gerði. Þegar ég spurði hvenær endurgreiðslan væri væntanleg þá fékk ég
svarið eftir 2-3 vikur c.a. Núna 5 vikum síðar er ekkert komið. Þegar ég
hringdi í Sjúkratryggingar Íslands eftir hádegi í dag þá var þar afar
pirruð og dónaleg kona fyrir svörum sem sagði að því miður væri ekki
byrjað að vinna úr þeim reikningum sem ég hefði skilað inn og ég þyrfi
gjöra svo vel að bíða bara eins og aðrir. Hún átti von á að ég þyrfti að
bíða allavega í einn mánuð til viðbótar. Ég spyr, er hægt að bjóða
venjulegu fólki uppá svona þjónustu? Ég man þegar ég var krakki þá gat
maður farið niður í Tryggvagötu (fór reyndar ekki einn) og fengið þetta
samdægurs. Hvers vegna er það ekki í boði núna?
Nafnleynd

föstudagur, 20. maí 2011

Rándýr naglalakkseyðir

Ég skrapp í Krónuna á Selfossi um daginn og ætlaði að kippa með mér Lemon
naglalakkseyði. Yfirleitt kostar þetta eitthvað undir 300 krónum í flestum
dagvöruverslunum. Svo kom ég á kassann og þá kom í ljós að þetta kostar í
Krónunni 695 kr! Ég rak upp stór augu og spurði hvort að þetta gæti
staðist og afgreiðslustúlkan jánkaði við því. Ég hætti við kaupin og sá
nákvæmlega sama Lemon naglalakkseyðirinn í Hagkaup, Garðabæ á 350 kr.
Ég veit ekki hvort að það sé svona hátt flutningsgjald á þetta alla
leiðina á Selfoss?
Með bestu kveðju,
BK

þriðjudagur, 17. maí 2011

Okur á lélegum veitingastað

Ég gerði þau mistök fyrir nokkrum vikum að fara á "veitingastaðinn" Yummi Yummi í Smáralindinni. Þarna vorum við mæðgur í verslunarferð og þar sem hungrið fór að segja til sín ákvað sú eldri að fá sér eina með öllu á Bæjarins bestu enda klikkar það aldrei. Litla barninu mínu ætlaði ég að gefa ávaxtamauk úr krukku sem ég hafði keypt í Hagkaupum.
Ég aftur á móti vildi austurlenskan mat og ákvað að prófa Yummi Yummi. Mér fannst heldur dýrt að borga 990 kr. fyrir það sem ég sá vera frekar rýran skammt af núðlum en lét mig hafa það, ég var svo hrikalega svöng.
Ég fer að afgreiðsluborðinu og panta. Bið hann svo um skeið (t.d.plastskeið) svo ég gæti gefið litla barninu mínu að borða, en hana átti hann ekki til. Ég óskaði eftir vatnsglasi, það átti hann ekki til, s.s. glasið, bara einhverja gosdrykki í 1/2 lítra flöskum sem hann seldi dýrt og voru ekki í kæli að ég gæti séð.
Fjandinn hafi það, ég fór og keypti því gos hjá Bæjarins bestu til að skola þessu niður. Svo bíð ég í smá tíma eftir núðlunum.
Ég fæ núðlurnar í boxi, sest niður, fegin að hafa fengið gaffal, sem ég þurfti reyndar að biðja um sérstaklega. Ég opna boxið og við mér blasa núðlur sem hafa POTTÞÉTT verið teknar úr pakkningu úr Bónus, þið vitið þessar pakkanúðlur!! (ég borða svoleiðis stundum heima hjá mér svo ég veit hvað ég var að fá), svo rosalega þurrar og chilikryddaðar að ég gat engan vegin borðað þetta. Ég ætlaði nú heldur betur að skila þessu.
En afgreiðslumanninn/kokkinn var hvergi að sjá þó ég eyddi nokkrum mínútum í að bíða eftir að ég sæi hann til að ná tali af honum. Ég ákvað að ég væri búin að eyða nóg af mínum tíma þarna og fór.
Ég skildi því fjandans boxið eftir opið á borðinu, fullt af núðlum með gafflinum góða sem hafði þjónað því nytsama hlutverki að moka barnamaukinu ofan í svanga litla barnið mitt á meðan ég beið eftir "núðlunum".
Þangað fer ég ALDREI aftur og mun EKKI mæla með þessum stað.
Ég kom við á Bæjarins Bestu við hliðina á þessum stað og fékk mér eina með öllu nema hráum...... Hefði verið fjandans nær að gera það strax.
kv,
Íris

Afslættir á dælulyklum

Ég ákvað að skoða hvort eitthvað olíufélagið væri ekki að bjóða betri kjör til almennings en auðvitað eru þau að bjóða nákvæmlega það sama ... nema fyrir útvalda.

Þarna sérðu myndir af hvað Atlantsolía er að bjóða "völdum vinum sínum". Ég sendi tölvupóst á Atlantsolíu sunnudagskvöldið 15 maí og fékk hringingu frá þeim tilbaka um kl 14 á mánudeginum 16 maí þar sem einhver sölufulltrúi bauð mér að hækka 2 kr afsláttin á dælulyklinum upp í 3 kr sem ég afþakkaði. Benti hann mér þá á að gerast meðlimur FÍB þar sem það mundi borga sig á 3 mánuðum.

Eitthvað hljómaði það ekki rétt þannig að ég fór að reikna. Félagsgjald FÍB er 5820 kr á ári og veitir FÍB dælulykill 4 kr afslátt á öllum stöðvum ásamt 6 kr afslætti á einni stöð. Reiknum því munin á almennum afslætti á dælulykli og þessum 6 kr afslætti á einni stöð sem er 4 kr per líter í þessar 5820 kr sem mundi gera 1455 lítra áður en það fer að borga sig.

Gefum okkur bíl sem eyðir 10 lítrum per 100 km og deilum þessum 1455 lítrum á 3 mánuði sem gerir 485 lítra sem hann vill að ég eyði á einum mánuði ... eða 4850 kílómetra sem hann vill að ég keyri á mánuði til að þetta borgi sig á 3 mánuðum.

Meira að segja harðasta fólk sem keyrir 100 km í vinnu og 100 km heim mundi ekki ná þeirri tölu á mánuði. 200 km per virkan dag * 20 virkir dagar í mánuði (að meðaltali) mundu gera 4000 km á mánuði.

Ekki skrítið að bensínverð sé svona hátt hérna á íslandi ef starfsmennirnir hjá þeim eru svona vel gefnir.
G.E.

sunnudagur, 15. maí 2011

Ódýrt niðurhal á erlendri músík

Ég rakst fyrir tilviljun á þessa netsíðu http://www.mp3vips.com/, en þarna er boðið mun ódýrara download á erlendri músík en almennt gerist. Til samanburðar við Amazon er u.þ.b. 5-6 faldur verðmunur t.d. plata með Sting - The dream of the blue turtles kostar 9$ á Amazon en 1,5$ á mp3vips. Helsti gallinn er sá að vöruframboðið er ekki til jafns á við stóru vefina.
Þekkið þið einhverja aðra svona vefi sem eru jafn ökonomískir?
Með kveðju,
Hergeir Einarsson

Pizzutilboð í húsgagnabúð

Þeir eru með, í húsgagnaverslun (!), tilboð, Eurovision að sjálfsögðu, á pizzuhráefnum, 1990 kall eða svo. Mætti á staðinn og ætlaði að grípa þetta með mér, en datt í hug að leggja saman einingaverðin. Eg gat bara ekki fengið nákvæmt verð, vegna skorts á merkingum, en talan virtist vera á bilinu 16-1700 kall.
"Tilboðið" felst þá í okri, ekki satt?
Kv. Friðrik

fimmtudagur, 12. maí 2011

Símafyrirtæki út í móa með snúru

Snúra í algenga farsíma, svona til að hlaða tækið og flytja gögn yfir í tölvu.
Síminn og Vodafone eru með þetta á 5000 og 4000 krónur.

Símabær í Mjóddinni, er inni hjá Nettó, selur sömu vöru á undir 1700 kr.

Til fróðleiks má geta þess að Amazon selur þetta á um 200 kr ísl.
Fróðlegt þætti mér að sjá hvernig Síminn reiknar sig í 5000 kr.

Nafnlaus

laugardagur, 7. maí 2011

Tannkrem dýrara en rauðvín!

Ég var að kaupa tannkrem á dögunum og tók eftir því að einingarverðið var frá um 4995 krónum á lítrann og upp í 6990 kr/lítra. Sápa held ég að ég megi fullyrða að sé tiltölulega ódýrt innihaldsefni en auk hennar inniheldur tannkrem nú til dags ýmis konar dótarí, svo sem glimmerflögur. Nú skil ég að glimmerflögurnar kosti hvítuna úr auganu og alveg sjálfsagt að neytandinn geti valið um svoleiðis fínerí en jafnvel gamla, venjulega hvíta tannkremið kostar u.þ.b. tvöfalt meira en lítrinn af þokkalegu rauðvíni. Hver ætli sé skýringin?
Kær kveðja,
Selma

PS Þetta var í Krónunni en ég reikna með að verð á tannkremi sé ekki ósvipað annars staðar.

fimmtudagur, 5. maí 2011

Dekk hjá Dekkverki og Byko

BYKO auglýsir í morgun (Fréttablaðið 5. maí) sumardekk til sölu. Algeng stærð, 175/65 X 14, er á kr. 10.290. Mér eru sagðar miður góðar sögur af þessum BYKO dekkjum – sumir segja þau vera framleidd í Kína úr plastafgöngum og uppsópi. Við skulum þó gefa okkur að svo sé ekki og þetta séu vönduð dekk úr vandaðri framleiðslu.

Ég keypti um daginn tvö splunkuný Michelin Energy dekk af þessari stærð. Þau kostuðu 11.500 kr. stykkið hjá Dekkverki í Garðabæ. Ég nýt engra afsláttarkjara þar og þekki ekkert til fyrirtækisins – annað en að ég fer þangað aftur að kaupa dekk!

Vandað dekk úr BYKO af óljósum uppruna og með óþekktu vörumerki á kr. 10.290 eða Michelin Energy á 11.500 kr?

Pétur

mánudagur, 2. maí 2011

Okur á hvítlauk í Nóatúni

Fór í Nóatún í JL húsinu um helgina og ætlaði að kaupa hvítlauk. Hætti snarlega við þegar ég kom á kassann og sá að 250gr. askja kostaði 469 krónur. Þetta er hlutur sem maður grípur með sér og heldur að kosti nú ekki mikið. En 469 krónur fyrir 250 gr. er auðvitað okur dauðans!!!
Kveðja, Bjarni Þór!