miðvikudagur, 22. júní 2011

Lúmskur laumupúkaháttur MS

Hafa menn tekið eftir því að smurostur frá MS er kominn í nýjar pakkningar, að sumu leyti flottari? Gallinn er bara sá að innihaldið í nýju umbúðunum er 200 gr. í stað 250 gr. í gömlu umbúðunum, en á sama verði, eða 25% dýrari en áður. Þetta er lúmskt bragð og engar skýringar gefna. Greinilega ætlast framleiðandi til þess að neytandi taki ekki eftir neinu, enda líklegt að forsendurnar fyrir hækkun séu á veikum grunni. Hefur mjólkurverð til bænda hækkað? Þetta var fyrir kjarasamninga, þannig að hærri launakostnaðar er ekki til að dreifa. Forvitnilegt væri að fá svör við þessum laumupúkahætti.

Kveðja,
Helgi Jóhannsson

Þriðjudagstilboð og ís

Þriðjudagstilboðin hjá bíóunum er gott mál. Kostaði 750 kall á mann inn á allar myndir í Háskólabíó í gær, en ekki 1200 kall eins og vanalega. 900 kall í plús á par er fínt. Fór á Bridesmaids sem er hverjar krónu virði, bæði á tilboði og ekki.

Sniðugt væri ef ísbúðir framlengdu þriðjudagstilboðið og lækkuðu verð á þriðjudögum. Þá gæti gróðinn í bíó nýst beint í ís, svo þriðjudagskvöld yrðu pakki, bíó og ís. Hugmynd?

Dr. Gunni

föstudagur, 10. júní 2011

Erlendar ódýrari síður

Sá þarna umræðu varðandi ódýr gleraugu og fl.
Mæli með einni í viðbót (fyrir merkjagleraugu aðallega), www.framesdirect.com, ég hef pantað tvisvar frá þeim og þeir hafa verið mjög faglegir og snöggir að afgreiða.
Ég pantaði gleraugu frá ítalska framleiðandanum Armani, þau komu heim á 20 þús. kr (það er varla að maður fái ódýrustu gleraugun með styrkleika á þeim prís hér á landi).
En í það minnsta er linsuverð þokkalegt hér á landi, yfirleitt munar innan við helming á útsöluverði og innflutningsverði (svo sem 500 kr. pakki frá USA kostar um 1000 kr. hér).
Einnig vil ég benda á vefsíðu sem er með allann fjandann (aðallega rafmagnsdót), en það er www.sunsky-online.com. Hef prófað að panta þaðan og það var allt í góðu lagi.
kv. Hlynur Stefánsson

sunnudagur, 5. júní 2011

Okur í Sjóminjasafninu

Við litla fjölskyldan fórum á Hátíð Hafsins í dag og áttum skemmtilegan dag að skoða fiskana og bragða á grilluðu hrefnukjöti. En það sem stendur upp úr eftir daginn er ferðin sem fórum inná Víkina og settumst niður á litla túristakaffibúlluna inná Sjóminjasafninu.
Konan ákvað að bjóða okkur í kaffi enda var kalt úti. Hún keypti tvo kaffibolla, einn trópí og tvær upprúllaðar pönnukökur og borgaði 1.500 kr. ísl. Ég varð svo reiður því mér fannst verið að hafa mig að fífli fyrir að hafa borgað allan þennan pening fyrir ekki neitt!
kv.
Guðm. Hilberg Jónsson.