mánudagur, 31. ágúst 2009

Auglýsingafarganið í bíó

Í gærkvöldi 29. ágúst ákváðum við hjónin að fara í bíó, en þó með nokkurra
daga fyrirvara þar sem við erum með 4 börn, 2x 5 mán og svo 2 eldri og
þurftum við pössun fyrir þau. Við fórum út að borða áður og ákváðum að fara
á mynd sem var sögð kl 22:30. Við komum i bíóið borguðum 2200 fyrir miðana,
keyptum okkur þetta hefðbundna, popp og kók og glæpsamlegt nammi í poka á
2.300 (tæplega) kílóið!! (Þegar flestar búðir eru að selja nammið á 800
kall kílóið á laugardögum). Nú, við vorum komin inn í salinn 3 mín í hálf
ellefu. Kl 22:48 eða 30 mínútum síðar hefst myndin. Á þessum 30 mínútum
voru auglýsingar og myndbrot úr væntanlegum myndum. Þetta er algjörlega
fyrir neðan allar hellur að LÁTA fólk sitja í meira en 30 mínútur að horfa
á auglýsingar og myndbrot (auglýsingar fyrir bíóið) þegar bíóverðið er
svona hátt!! Við hljótum að vera búin að borga fyrir myndina með því einu
að borga okkur inn í bíóið. Ég veit vel að að fara í bíó er val hvers og
eins en þetta er orðin rík hefð hjá íslendingum og ekki gert oft á þessu
heimili. Ef bíóverðið kemur ekki til með að lækka verulega eða auglýsingum
fækka mun ég hvetja alla þá sem standa mér næst að hundsa auglýsingatíma
bióanna og fara inn í salinn á þeim tíma sem myndin BYRJAR í raun og veru.
Einnig hvet ég bíóin að setja réttann tíma í blaðaauglýsingar með það
hvenær myndirnar byrja þá hefur fólk val um það hvort það vill mæta fyrr og
horfa á auglýsingar eða aðeins seinna og sleppa við auglýsingar. Það er
mjög villandi og óréttlátt að auglýsa mynd kl 22:30 þegar rauntími er
22:50. Einnig hvet ég bíóin að taka út hlé svona seint á kvöldin.
Kv. Fríða Björk

sunnudagur, 30. ágúst 2009

Jóhönnu blöskrar rúsínuverðmismunur Haga

Ég á ekki orð yfir verðlaginu hér, eða verðmismuninum á milli verslana. Og meira segja verslana í eigu sömu aðila.
Fór í Hagkaup í gær til að kaupa kattamat, því sá kattamatur sem ég kaupi er ekki til í Bónus. Greip með mér Góa súkkulaðirúsinupakka, sem var í rekka fremst í versluninni, mjög freistandi á kr. 474.- . Fannst það svolítið dýrt, en lét freistast. Fór síðan í Bónus og kláraði að versla í helgarmatinn. Það fyrsta sem ég sé þegar ég kem inn í verslunina var Góa súkkulaðirúsinur á kr. 298 kr.
Hvað er í gangi?
Kv. Jóhanna Hermansen.

laugardagur, 29. ágúst 2009

Fáránlega dýr innflutningur

Ég er ekki vanur að kvarta og átti mig á því að fámennið og
fjarlægðin gerir margar innfluttar vörur eitthvað dýrari hér heima en
erlendis en núna brá mér.
Fyrir viku var ég staddur í London og keypti þar Nike Pegasus+ 26
hlaupaskó. Þeir kostuðu í Niketown á Oxford Street (sem er ekki ódýrasta
verslunin), 66,55 pund eða um 14.000 krónur.
Ég var síðan í Útilíf áðan og þar var sami skórinn í hillu á rúmar
27.000 krónur! (Í netverslun Nike kostar skórinn síðan um 11.000kr)
Þetta finnst mér okur.
Kv. Árni

Konur! Ekki láta gera ykkur að fíflum!!!

Verð að segja ykkur frá viðskiptum mínum við Drangey í Smáralind, en þannig er mál með vexti, að fyrir ca. 5 vikum síðan keypti ég frábæra tösku í ofangreindri búð, á 50 % afslætti. Gott og vel, en þar sem ég fór síðan beint í ferðalag, hafði ég engin not fyrir töskuna fyrr en í gær, fimmtudaginn 27. Ágúst 2009.
Og viti menn í rennilásahólfi töskunnar fann ég bíl- og húslykla, og þar sem ég fer í RauðaKross búðirnar eða Góða hirðinn, ef ég vil kaupa notaða hluti, fannst mér þetta ekki nógu gott (því þrátt fyrir 50% afslátt var taskan dýr). Við vinkona mín brunuðum í Smáralindina til að fá skýringu á þessum lyklum, líklegast fannst okkur að starfsfólk verslunarinnar laumaðist til að nota varninginn öðru hvoru, en frúin var á öðru máli, sagði að konur fylltu töskurnar oft af ýmiskonar dóti, þegar þær væru að máta töskurnar, og það hlyti að vera skýringin. Það fer alltaf í taugarnar á mér, þegar svona lítið er gert úr konum, þær eru ekki aular sem máta töskur með því að setja bíllyklana sína í eina rennilásahólfið og fara síðan á puttanum heim.
Þegar ég vildi vita hvernig hún héldi að konan hefði komist burtu á bílnum sínum, hélt hún að það væri ekki í hennar verkahring að skýra það.
Konur verið á verði – ekki láta gera ykkur að fíflum!!!
Elísabet

Myglaðar kartöflur

Keypti sætar kartöflur í Netto frá Búr ehf. Það stóð á þeim "á grillið" og voru pakkaðar inn í mjög fínan gylltan álpappir, 2-3 litlar í pakka á 379 kr. Sárvantaði þær í ofnrétt og neyddist þessvegna til að kaupa þær því annað var ekki í boði í búðinni. Þegar ég kom heim og tók álpappírinn utan af þeim voru þær drullu myglaðar svo gróðurinn stóð upp úr þeim.
Lexían: Pakka sjálfur í álpappír hér eftir. Gott að láta fólk kaupa mat sem er óboðlegur svínum blindandi. Takk Búr ehf.
Eyþór

föstudagur, 28. ágúst 2009

Dýrt salt

Langaði að lata ykkur heyra af verðlagi a landsbyggðinni. Hið fræga salt MOLDON, 250 gr - segi og skrifa 250 gr. - kosta kr. 998 á vesturlandi í verslunni Virkið! 1 kg. af grófu Kötlu salti kostar 130 kr. í Bónus.
Vestlendingur

Ódýrt að láta gera við skó hjá Þráni skóara

Ég fór með skó sem ég á til Þráins skóara á Grettisgötunni, því það hafði komið saumspretta á annan þeirra. Ég hefði ekki farið með skóna nema af því þeir voru nýlegir, bjóst við að viðgerð slagaði hátt í verð á nýjum skóm. Mér var sagt að ég gæti komið tveim tímum síðar og sótt skóna, það stóðst. Hélt að ég þyrfti að borga a.m.k. þrjú þúsund fyrir en þess í stað var ég rukkaður um 350 kr.! Það hafði bæði verið saumað og límt, þannig að viðgerðin sást varla. Það borgar sig greinilega að láta gera við skó.
Björn

Furuhneturnar

Var í Bónus áðan og keypti furuhnetur, 70 gr. frá Gott fæði ehf. borgaði fyrir það 398 kr. Tek það fram að þetta eru ekki lífrænt ræktað, hefði betur keypt þær.
Mér finnst þetta verð út í hött og langaði að benda á þetta.
Bestu kveðjur,
Sólveig

Íslenskunámskeið hjá Mími

Íslenskunámskeið fyrir útlendinga hjá Mímir. sept 2008 verð kr. 13.800,
janúar 2009 sama námskeið 16.500 og haltu þér fast: September 2009, verð kr.
29.500 fyrir námskeiðið. Kannski halda þeir að sjóðir stéttarfélaganna sem
borga oft um 75% af námskeiðunum séu orðnir svona digrir.
Kannski að yfirbyggingin hjá Mímir sé orðin fullmikil?
Hafsteinn

Veljum íslenskt?

Ég er sammála honum Jóni hér á síðunni varðandi óskiljanlegt verð á ísl. vörum.
Það er nánast sama hvaða vörutegundir eru bornar saman sú íslenska er alltaf dýrari, vilji maður kaupa íslenskar vörur til að efla íslenskt efnahagslíf er eins gott að hafa nóg milli handanna. Því miður finnst mér verðlagningin aðeins vera okur og hafa lítið sem ekkert að gera með gengi krónunnar. Mig langar að taka nokkur dæmi : sumar tegundir skyrs og jógúrts hafa hækkað um næstum helming á einu ári, er ekki örugglega verið að mjólka ísl.kýr og notast við ísl. ódýra orku og ísl. ódýrt vinnuafl?
Það sama er uppi á teningnum varðandi ís í ísbúðunum, nærtækasta dæmið er að barnaís með dýfu og nammi kostar nú 320 kr í ísbúðinni í Garðabæ og leyfi ég mér að halda að þetta sé um 50% hækkun frá því um áramót.
Ég hef einnig borið saman verð á kartöflumjöli, púðursykri og ýmsri þurrvöru frá Kötlu saman við innfluttar vörur og því miður munar svo miklu að ég kaupi alltaf innfluttu vöruna.
Svo er það íslenska sælgætið það finnst mér einnig hafa hækkað svakalega.
Ég fór að kaupa stílabækur í Office 1 og þar kostaði ísl. stílabókinn 220 kr á meðan ég gat fengið helmingi þykkri innfluttabók með gormum á 115 kr.
Svo verð ég að fá að nefna brauð og bakarí sem hafa aðgang að ódýrasta rafmagni Í Evrópu og eru líka með ódýrt vinnuafl, hvað í ósköpunum réttlætir verð á sérbökuðu brauði ( 500.kr) eða snúði (190kr.) jafnvel þó hveitið hafi hækkað, ekki hef ég trú á að hveitikostnaður vegi svo mikið í framleiðslukostnaðnum, a.m.k virðast pizzustaðir geta haldi verðinu niðri þrátt fyrir gengið.
Síðast en ekki síst langar mig að skrifa um 66 gráður norður, föt sem íslendingar keppast um að sýna sig og börnin sín í þrátt fyrir kreppu. Verðlagningin þar er komin út úr öllu korti og jafnvel þó ég viðurkenni að þær séu góðar held ég að því miður hafi þeir komist upp með þessa verðlagningu útaf snobbi í almenningi. Þessar vörur hafa lengi verið tákngervingur ísl. fataframleiðslu eins og þær eru t.d í ferjunni Smyril line, þar er horn í fríhöfninni sem hefur að geyma allt það besta í fatahönnun frá norðurlöndunum en þegar kom að ísl.horninu gat maður ekki annað en skammast sín fyrir að vera íslendingur, verðlagningin er þvílík að maður roðnaði sérstaklega þar sem við erum því miður þekktust fyrir peningagrægi erlendis þessa dagana. Vörurnar frá 66 undirstrikuðu það vel og m.a.s held ég að þær séu ekki lengur framleiddar hér.
Eins og áður sagði þó að fólk vilji velja íslenskar vörur þá er það einfaldlega ekki hægt og því miður sé ég engin rök fyrir þessari verðlagningu nema græðgi.
Ragna

miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Smá pæling frá Jóni

Í allri þessari orrahríð á klakanum verðlega séð get ég ekki annað en blöskrað verðlag á íslenskri framleiðslu. Upp að vissu marki er hægt að skilja miklar hækkanir á innfluttri vöru, en ég hefði haldið að það væri akkur fyrir landann að verðleggja sína framleiðslu skynsamlega. Þessir hlutir kosta orðið það sama og þeir innfluttu! Er ég hér aðallega að tala um verð á matvöru og öðru sem heimilin þarfnast. Reyndar hefur verið í mörg ár skrýtið verðlag hér á landi. Flest innlend framleiðsla í öðrum löndum er undantekningarlaust ódýrari en sú innflutta, en hér á landi hefur þetta verið öfugt!
Bara smá pæling.
Kv. Jón

Skiptibókamarkaðurinn

Þar sem þú hefur fjallað töluvert um skiptibókamarkaði undanfarið vildi ég benda þér á nýjan valmöguleika í þeirri flóru. Hingað til hafa verið tveir möguleikar fyrir þá sem ætla að kaupa bækur fyrir skólann. Þ.e. annaðhvort að fara á skiptibókamarkað hjá bóksölunum og kaupa bókina notaða eða einfaldlega kaupa bókina nýja. Síðan hefur bara verið einn valmöguleiki fyrir þá sem hafa ætlað að selja bækur. Fara á skiptibókamarkað hjá bóksölunum og fá fyrir hana inneignarnótu hjá viðkomandi bóksala sem er u.þb. helmingur af söluvirði bókarinnar.
Nú er hins vegar kominn nýr valmöguleiki fyrir bæði seljendur og kaupendur. Í 10.ágúst var opnuð vefsíðan www.skiptibokamarkadur.is þar sem nemar í framhalds- og háskólum geta auglýst bækurnar sínar til sölu milliliðalaust og gjaldfrjálst. Síðan er alfarið fjármögnuð með auglýsingatekjum og því borga notendurnir ekkert annað en að þurfa að hafa auglýsingar á síðunni. Skráðar hafa verið rumar 8.500 bækur til sölu í þessar rúmu tvær vikur sem vefurinn hefur verið í loftinu og hafa rúmlega 4.000 af þessum 8.500 bókum verið seldar.
Vildi bara láta þig vita um þennan nýja valmöguleika fyrir nema. Gangi þér vel.
Kveðja,
Valur Þráinsson
Eigandi www.skiptibokamarkadur.is

Um skiptibókamarkaði

Ég var að ljúka við að lesa pistil dagsins frá þér en talandi um skiptibókamarkaði langar mig að segja þér og sem flestum frá viðskiptum mínum við skiptibókamarkað Eymundsson í gær. Síðustu daga hef ég selt ógrynni af bókum frá menntaskólaárum mínum á skiptibokamarkadur.is fyrir tugi þúsunda króna en nokkur eintök gengu ekki út. Þá brá ég á það ráð að fara inn á http://eymundsson.is/skiptibok og skoða hvað ég fengi frá Eymundsson fyrir hvern titil (svokallað skiptiverð). Þegar ég sá að Eymundsson myndi greiða mér u.þ.b. sömu upphæð og fólk úti í bæ fyrir nokkra titla hélt ég áleiðis í Eymundsson Skólavörðustíg. Þar kom í ljós að hærra verð var gefið upp á netinu en var innstimplað í afgreiðslukassann. Ég gerði athugasemdir og eftir nokkurt karp hringdi elskulegur starfsmaður nokkur símtöl sem þó dugðu ekki til. Mér var bent á að fara í Eymundsson Kringlunni þar sem stærsti markaðurinn er. Þar fékk ég kuldalegar móttökur þegar ég bar upp spurningar mínar um mismunandi verð. Þegar tveir titlar af nokkrum voru með rétt verð í kassanum gafst ég upp og afhenti bækurnar mínar og fékk inneignarnótu. Þegar heim var komið hélt ég á netið og sá enn og aftur að ég hafði rétt fyrir mér.

Sem dæmi er skiptiverð fyrir Íslendingaþætti skv. heimasíðu Eymundsson 594 kr. Ég fékk 450 kr. Skiptiverð fyrir Brennu-Náls sögu í útgáfu MM er skv. netinu 744 kr. Ég fékk 504 kr. Skiptiverð fyrir Sögur, ljóð og líf er 1347 kr. en ég fékk 1065 kr. Því hafði Eymundsson af mér 666 kr. Mig munar um minna!

Með kveðju,
Anna Katrín

Okur í Elko

Sama uppþvottavélin í sömu keðjunni (Bosh uppþvottavél SGU54E08SK):

Ísland :
http://www.elko.is/elko/product_detail/?ec_item_16_searchparam4=guid=6e9c4caf-b2c2-4049-a8a2-388e3fe4cd5c&product_category_id=1725&ew_10_p_id=40765&ec_item_14_searchparam5=serial=SGU54E08SK&ec_item_12_searchparam1=categoryid=1725&serial=SGU54E08SK&ew_13_p_id=40765&

Svíþjóð :
http://www.elgiganten.se/product/vitvaror/diskmaskiner/SGU54E08SK/bosch-diskmaskin-toppklassad?Selected=Accessories#tProductTabcontent

Verð á Íslandi er ISK 134.995
Verð í Svíþjóð er SEK 3.990 sem er ISK 72.350

Sama keðja en verðmunurinn er 86%

Fjandi mikið í flutningskostnað... Gæti verið að smásalan á Íslandi sé
(aldrei þessu vant) að taka neytendur sína í óæðri endann?

Bestu kveðjur
Neytandi

Okur í Eymundsson

Keypti líka pakka með 5 stílabókum (með gormum) á um það bil 890 krónur í Griffli, og þurfti svo að fara í Eymundsson að kaupa bók sem ekki var til í Griffli. Sá þar ALVEG eins stílabækur, nema bara ekki í pakka. EIN STÍLABÓK MEÐ GORMUM Á RÚMAR 480 KRÓNUR!
hvet alla til að athuga ALLTAF fyrst í Griffli áður en þið snúið ykkur að Eymundsson (eða bara leita í öllum búðum áður en þangað er haldið)..
-16ára MR-ingur : D

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Sleppt álegg ekki frádráttarbært í verði

Þannig er mál með vexti að ég og konan fórum á Eldsmiðjuna á laugardaginn, sem er ekki frásögur færandi nema að ég panta mér tilbúna pizzu af matseðli sem kostaði 1990 krónur en bað þá vísvitandi um að sleppa einu áleggi til að sjá hvort ég fengi afslátt. Ástæðan er sú að Eldsmiðjan rukkar aukagrænmetisálegg á 12" pizzu á 250 krónur, mig langaði að vita hvort það sama gilti þá í hina áttina. Ekki þar fyrir utan þá er 250 krónur fyrir 3 sneiðar af papriku fáránlegt verð því kíló af papriku kostar um 300-400 krónur í Bónus. Viti menn auðvitað var rukkað fullt gjald fyrir pizzuna þó að ég hefði sleppt einu áleggi af tilbúinni pizzunni. Ég á meira að segja miðann fyrir þessum viðskiptum þar sem mér fannst þetta vera fáránlegt svo ekki sé meira sagt að ég væri rukkaður fyrir að setja auka álegg á pizzuna en fengi ekkert lægra verð ef ég sleppti einu áleggi af pizzunni.. Samkvæmt matseðli þeirra (http://www.eldsmidjan.is) þá kostar auka álegg eftirfarandi:

Áleggstegundir 10" 12" 16"
Kjötálegg / Meat / Fish 200 kr. 280 kr. 380 kr.

Annað / Other 190 kr. 250 kr. 350 kr.

Með kveðju,
Þórir

mánudagur, 24. ágúst 2009

Skóladótið misdýrt

Var að versla fyrir krakkan skólabækur fór í Grifill að því ég hélt að þar væri hægt að gera góð kaup.
Verslaði 2 skrúfblýanta 0,5 á 459 kr stk, kosta 152 kr í Hagkaup. Við erum að tala um nákvæmlega sömu gerð.
Ensku bók kostaði 5400 í Griffli en 3200 í Office One, og síðasta atriðið var að hilluverð var ekki það sama og ég borgaði munaði 300 kalli á einni bókinni.
Þetta sýnir að smá lappitúr á milli verslana í skeifunni getur sparað manni nokkra þúsundkalla.
Finnbogi

Yfirgangur og glæpsamlegt viðskiptasiðferði

Eftirfarandi er lýsing á viðskiptum mínum við viðgerðaþjónustuna Litsýn, Síðumúla 35, eins og ég þekki þau réttust.
Fjórða ágúst síðast liðinn fór ég með myndavélina mína í viðgerð á áðurnefndan stað. Áður hafði mér verið tjáð að það fyrirtæki sem seldi og sinnti þjónustu við þessa tegund véla væri ekki lengur til og Litsýn hefði tekið að sér þjónstu við fyrrum viðskiptavini þess og væri það eina fyrirtækið sem það gerði svo ekki voru valkostir um þjónustuaðilla aðrir.
Þar sem myndavélin er í ódýrari kanntinum var ég ekki viss um að svaraði kosnaði að gera við hana og tjáði þeim sem við henni tók þessar vangaveltur mínar, auk þess sem ég sagði honum að ég væri afar vantrúuð á að vélin væri biluð. Hún væri nýleg, lítið sem ekkert notuð og mun líklegra að um handvöm mína og kunnáttuleysi væri að ræða, en að hún þarfnaðist viðgerðar. Þá spurði ég manninn hvort hann væri til í að sýna mér hvernig rafhlaðan væri losuð úr vélinni, því þar sem bilunin lýsti sér í að hún hafnaði því að vera hlaðin, gæti þá hugsast að rafhlaðan væri laus ???
Viðkomandi sagði mér að hafa engar áhyggjur af þessu, þetta yrði allt athugað og ef vandamálið reyndist ekki meira en laus rafhlaða yrði ég að sjálfsögðu ekki látin borga fyrir að setja hana aftur í. Ekki veitti ég athygli spjaldi við kassann sem á stóð að lámarks gjald fyrir skoðun á hlut væru 3000 kr. og þaðan af síður var mér bent á það af afgreiðslumanni þegar við áttum fyrrnefnt samtal. Að lokum var mér sagt að koma eftir tvo daga, þá yrði vélin tilbúin.
Ég leyfði þremur dögum að líða, svona til að vera nokkuð viss um að þurfa ekki að fara fýluferð. Þá var mér tjáð að vélin væri á biðlista og það færi að koma að henni.
Mér væri óhætt að koma eftir nokkra daga, þá yrði hún örugglega tilbúin.
...Og vika leið og aftur fór ég til að athuga með vélina. Þá var mér sagt að viðgerðamaðurinn væri kominn í frí og óvíst hvenær hann væri væntanlegur aftur til vinnu, en þó von til þess að fríið yrði ekki mjög langt.
Nú horfði ég fram á nokkrar óvissuferðir til viðbótar á verkstæðið og fylltist nokkurri örvæntingu um hvernig ég gæti vitað hvenær rétti tíminn til að athuga með viðgerðina rynni upp. Afgreiðslumaðurinn sem ég talaði við í þetta skiptið, stakk upp á að mér yrðu sent SMS-skilaboð þegar vélin væri tilbúin og enn áréttaði ég að ég fengi að taka ákvörðun um hvort gert yrði við vélina ef sýnilegt yrði að bilunin gæti reynst dýr og líkt og hinn fullvissaði þessi afgreiðslumaðurinn mig um, að haft yrði samband við mig ef stefndi í dýra viðgerð, en í þetta skiptið rak ég augun í spjald við kassann þar sem á stóð að það eitt að afhenda eigur sínar í hendur þessara manna og gefa þeim tækifæri á að handfjalla þær hversu lítið sem það kynni að verða, mundi kosta viðkomandi 3000 kr.
Dagarnir liðu og ekkert kom SMS-ið Nú var ég ákveðin í að sækja vélina í hverning ástandi sem hún kynni að vera....biluð eða viðgerð.
Maður sem ég hafði hitt í síðustu heimsókn minni á verkstæðið kom með vélina og þau skilaboð með frá viðgerðamanninum, en þau mátti einnig lesa á verkbeiðni : BATTERÍ HLAÐIÐ !!! ...og fyrir ómakið vildi hann fá 3000 kr. !!! ...sem kannski er skiljanlegt þar sem það hafði tekið tæpar þrjár vikur að hlaða rafhlöðuna og að auki þurfti að bíða eftir að sérfræðingur í rafhleðslum kæmi úr fríi til að vinna verkið..
Ég spurði afgreiðslumanninn hvernig viðgerðamaðurinn hefði komist að rótum vandans og svarið var : HANN HEFUR TRÚLEGA TEKIÐ BATTERÍIÐ ÚR OG SETT ÞAÐ AFTUR Í !!! ...og fyrir það vildi hann nú fá greiddar 3000 kr. sem hann og fékk.
Það kæmi mér ekki á óvart þó viðskiptahættir þeirra sem reka fyrirtækið Litsýn séu með öllu löglegir, en eingin skal rugla svo í dómgreind minni að ég sjái ekki hversu siðlausir þeir eru. Ég ætla ekki Litsýnar-mönnum að sjá að sér og leiðrétta misgjörðir sínar gagnvart mér, en ég vænti stuðnings frá ykkur hinum sem þennan póst fáið að kanna trúverðugleika þessarar sögu minnar og það með hvort viðskiptaaðillum er stætt á slíkri framkomu.
Viðskipti gærdagsins skildu mig eftir í svipuðu ástandi og eitt sinn þegar brotist var inn á heimili mitt, s.s. eins og ég hefði orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi og ráni um hábjartan dag. Það er von mín að sem flestir sniðgangi samskipti og komist hjá viðskiptum við hugsanlega löglega en með öllu siðblinda og siðlausa þjófa, sem ég tel umrædda menn vera.


Dagmar Guðrún Gunnarsdóttir

sunnudagur, 23. ágúst 2009

Ferðamanna OKUR á Norðurlandi!

Var á ferð um Norðurland í síðustu viku. Ferðamenn eru vanir því að allt sé dýrast í miðborgum heimsins, en svo er ekki á Íslandi í dag.
Nú þurfa íslenskir ferðamenn á blæða, allt er miðað við gengi Evru á mörgum ferðamannastöðum og gististöðum.
Í pylsuvagninum í göngugötunni á Akureyri eru dýrustu pylsur á Íslandi. Þar er rukkað kr. 300 fyrir stykkið, takk!
En í frægasta pylsuvagni Evrópu ,,Bæjarins Bestu" í 101 Reykjavík kostar sú sama kr. 250.
Á Mývatni í Veitingastaðnum Gamli bærinn kosta venjuleg kaffi uppáhelling kr. 400, takk!
En í hjarta Reykjavíkur í Lækjargötu kostar venjuleg kaffi uppáhelling kr. 200 hjá Kondítorí Korninu.
Og einnig er hægt að borða sig vel saddan fyrir kr.1000 í hjarta Reykjavík á Feita Tómatanum í Lækjargötu, þar er hlaðborð alla daga.
Það þýðir ekki fyrir ýmsa ferðaþjónustu aðila á landsbyggðinni að miða verð sín út frá gengi á erlendum gjaldmiðlum núna. Landinn sættir sig ekki við það lengi.
Kveðja,
Íslenskur ferðalangur

föstudagur, 21. ágúst 2009

Hestamenn forðist Stakkhamar á Snæfellsnesi

Ég hef ekki lagt það í vana minn að kvarta yfir verði á vöru og þjónustu en nú gekk alveg fram af mér. Ég var í hestaferð með nokkrum vinum mínum og fórum við úr Biskupstungum og til Grundarfjarðar og til baka aftur.
Við höfum þurft að fá næturhólf á allmörgum stöðum á leiðinni og borgað fyrir það 200 - 250 kr. á hest yfir nóttina. Við fórum Löngufjörur og fengum næturhólf fyrir hestana á Stakkhamri á Snæfellsnesi og það þurtum við að greiða 1.000 kr á hest fyrir nóttina, semsagt 4 sinnum meira en það er dýrast annars staðar. Við vorum með 30 hesta og
borguðum því 30.000 kr fyrir þessa einu nótt. Ég vil bara vara hestamenn við þessum stað og hvet þá til að stoppa ekki á Stakkhamri þegar þeir fara Löngufjörur.
Kveðja
Margrét

Okrað á örvhentum

Mig langar að koma með smá ábendingu varðandi verðmismun. Var að versla fyrir skólann eins og flest allir. Fór í Office one því hún er talin ódýrust. Á miðanum hjá drengnum sem er að fara í 3. bekk stóð að hann ætti að kaupa skæri sem mér fannst nú ekki mikið mál. En það runnu á mig tvær grímur. Þannig er að strákurinn hjá mér er örfhendur og þarf því hægrihanda skæri. En því líkur verðmunur. Fyrir rétth. kostuðu þau rúmar 400 kr, en fyrir örfh. rúmar 800 kr. Ég bað um skýringi á þessum verðmuni en fékk enga. Svo er verið að tala um að allir sitji við sama borð. Ég hélt að það mætti ekki mismuna börnum þegar að skóla kæmi, hann er jú skilda.
Harpa Þorleifsdóttir, Hafnarfirði

Skrýtið verð í Bónus

Er ekki skrýtið að Gevalia rauður kaffipakki kostar kr 819 án vsk hjá innflytjenda vörunar, þegar samskonar Gevalia kaffi pakki kostar kr 509 með vsk í bónus. Síðan ef þú ferð í minni verslanir þá kostar þessi pakki milli 1000 kr og 1100 kr.
Skrýtið......
Kveðja,
Þórir B

fimmtudagur, 20. ágúst 2009

Verð á þurrmjólk

Ég fór og keypti dós af SMA þurrmjólk í Bónus í gær og bókstaflega sauð á mér þegar ég greiddi fyrir vöruna - 1059 krónur fyrir 450gr.dós. Síðast þegar ég keypti slíka dós fyrir u.þ.b. viku eða svo greiddi ég um 800 kr.fyrir dósina og fannst það dýrt í ljósi þess að ég greiddi um 900 krónur fyrir SMA dós í 10 - 11 um miðjan júlí. Eftir því sem mér fróðari aðilar um SMA þurrmjólk segja kostaði dósin um 500 krónur fyrir nokkrum mánuðum - en þar sem mitt barn er bara 5 vikna þá hef ég ekki frekari samanburð.
Ég hef ekki kannað í örðum verslunum verðið á þessari vöru nema í hagkaup og þar kostaði dósin í gær um 1080 krónur. Eins hef ég fengið upplýsingar um að Nettó sé langódýrast í barnamat þ.m.t. þurrmjólk - það mun ég kanna næst þegar þarf að kaupa dós.
Það er ansi dýrt fyrir mæður sem ekki geta haft börnin sín á brjósti!
kveðja
nýbökuð móðir

Stafræn myndavél í Nýherja


Hef í hyggju að fá mér stafræna myndavél.
Þessi mynd er af netverslun Nýherja. Sama vélin hlið við hlið. (Einhver
hefur gleymt að taka út gömlu vöruna)
Uppseld kostar hún 57 þúsund en á lager kostar hún 68 þúsund.
Ef mér skjátlast ekki þá skoðaði ég þessa vél fyrir mánuði á síðu
Nýherja og þá var hún á 61 eða 62 þúsund. Svo má auðvitað líka nefna
að vélin kostar ekki nema 230 dollara í Bandaríkjunum sem gera hvað,
30 þúsund kall á núverandi gengi. Ég skil ekki hvað réttlætir meira en
helmingi hærra verð hjá Nýherja.
Ég hef því ákveðið að versla vélina frekar úti. Nýherji missir af
viðskiptum mínum vegna Kaupfélagsstefnu þeirra.

Kaffi Kidda Rót

Atli Steinn er ekki ánægður með Kaffi Kidda Rót í Hveragerði: http://www.atlisteinn.is/index.php?option=com_content&view=category&layout=blog&id=40&Itemid=68

miðvikudagur, 19. ágúst 2009

15% hækkun í IKEA

Langar að vekja athygli á að Ikea var að hækka vöruverð um 15%. Ég var að skoða stól sem kostaði 99.900 á sunnudaginn en þegar ég skoðaði á netinu í gær var hann kominn í 114.900. Sófi í sömu vörulínu hækkaði úr 179.900 í 199.900. Þetta finnst mér ansi mikil hækkun á einu bretti.
Bestu kveðjur,
Hrund Einarsdóttir

Gríðarlega dýrar ljósperur í bíla hjá Heklu

Ég er með VW bifreið og þurfti að skipta um aðalljósaperu. Þess má geta að hún er í flóknari kantinum eða xenon D1S pera. Ég hringdi í Heklu og fékk þau svör að ein slík pera kostar 35.000 kr. stykkið !!!!!!!!!!!!
Ég tek það fram að hér var ekki um "orginal" VW peru að ræða.

Þar sem það var á mörkunum að það væri ódýrari að skipta um bíl þá ákvað ég að kanna á eBay. Til að gera langa sögu stutta þá fékk ég tvær perur í gegnum eBay á 9.500 kr. eða 4.750 kr. stykkið ( $ reiknaður á 126 kr. og 2.350 kr. í gjöld hér á Íslandi ). Þess má geta að ég er búinn að skipta og perurnar eru í topp standi.

Það getur ekki verið að einstaklingur á Íslandi getur pantað peru í gegnum eBay af verslun staðsettri N-Karólínufylki í Bandaríkjunum á 4.750 kr. á meðan stórt og gamalgróið fyrirtæki sem pantar þessar vörur í miklu magni, þurfi að selja peruna á 35.000 kr. til þess að hafa eitthvað uppúr því.

Kveðja
Ljósvaki

mánudagur, 17. ágúst 2009

Stöð 2 enn og aftur

Mig langar að deila þessu LÖGBROTI með fólki. Ég er áskrifandi að stöð 2 og hef verið í mörg ár. Fyrir nokkru síðan tók ég eftir því að þeir rukka mig um tilkynningargjald í hverjum mánuði sem eru 250 krónur. Ég hringdi í þá og bað þá vinsamlegast um að hætta að senda mér pappírinn og þar af leiðandi þyrfti ég ekki að borga þetta gjald, sem er by the way búið að setja í lög, eða ég veit ekki betur allavega. Stúlkan sem ég talaði við í símann sagðist myndu gera það, ekki málið. En viti menn...núna allnokkrum mánuðum seinna þá tek ég eftir því að ég er ENNÞÁ að borga þetta gjald og fæ nú nett sjokk og hringi upp í stöð 2. Ég sagði afgreiðslustúlkunni að ég hafi fyrir löngu beðið um að þau hættu að senda mér pappír því ég kæri mig ekki um að borga fyrir þetta 250 kr á mánuði. Þá fékk ég þessa mjög svo æfðu og greinilega margsögðu ræðu: Afgreiðslukerfið okkar bíður ekki upp á að senda greiðsluseðla annað hvort í heimabankann eða í pósti svo að við verðum að senda út greiðsluseðla, við höfum fengið undanþágu frá neytendasamtökunum með þetta. Þá spyr ég "og hvenær heldurðu að þið getið "lagað" þetta kerfi ykkar?" Stúlkan svarar: "ég bara veit það ekki, þetta átti að vera tilbúið eftir áramótin síðustu"

Bara smá reikningsdæmi:
Segjum að Stöð 2 hafi 20.000 áskrifendur (hef ekki hugmynd um fjöldann)
Þeir rukka hvern haus um 250 kr á mánuði
þetta gera 5 MILLJÓNIR á mánuði og 60 MILLJÓNIR Á ÁRI!!!

Ábyggilega alveg óvart hjá þeim að þeir geti ekki lagað þetta kerfi sitt!! Ætli þeir væru fljótari að laga það ef það kæmi betur út fyrir þá? Ætla að gerast svo kræf og segja bara FOKK JÁ, þeir myndu redda því eins og skot!

Það liggur við að ég gubbi eftir þetta, mér blöskrar svo. Og ég bara spyr er þetta löglegt?
Kveðja,
Ein sjokkeruð á stöð 2

Okur á dömubindum í Krónunni

Ég fór í Krónuna í Seljahverfi um daginn til að kaupa mér dömubindi, þar voru Libresse Invisible Ultra Thin dömubindi, einfaldur pakki á 839 kr.(12 stk í pakka). Ég var á hraðferð og klukkan að verða 9 að kvöldi svo ég lét mig hafa þetta. Fór svo í Bónus daginn eftir og þar er tvöfaldur pakki á 698 kr. (ég kaupi ekki Always Ultra og Krónan er hætt að selja Ria dömubindin sem ég keypti alltaf, komst að því í þessari ferð).

Hvert dömubindi kostar þá 70 krónur í Krónunni en 29 krónur í Bónus.

Ég sé ekki alveg að Krónan geti verið að standa undir nafninu Lágvöruverslun með verðin svona.

Óska nafnleyndar

Tryggingarsvik hjá Apple

MacBook fartölvur frá Apple hafa verið mjög vinsælar um allan heim enda yfirleitt talið að um hágæðavörur sé að ræða. Því miður komst undirritaður að því að verksmiðjuábyrgð frá framleiðenda á þeim tölvum sem seldar hafa verið, a.m.k. áður en umboðið breytti um kennitölu sl.vetur, eru ekki lengur teknar gildar. Nýjar tölvur sem hrynja vegna galla t.d. í rafhlöðum og sem hafa verksmiðjuábyrgð í a.m.k 2 ár fást nú ekki bættar. Ég hafði keypti MacBook fartölvu fyrir 8 mánuðum af umboðinu hér á landi sem hrundi skyndilega í sumar vegna galla í rafhlöðu en fékkst ekki bætt. Ég átti ekki annarra úrkosta en að kaupa nýja rafhlöðu af umboðinu enda tölvan annars ónothæf. Ég gerði þó fyrirvara í kaupunum um rétt minn sem var í sjálfu sér ekki vefengdur en skýring sem forráðamenn Apple umboðsins gáfu var að "fyrri eigendur" hafi tekið út tryggingar sem var ætlað til að bæta skaða á gölluðum rafhlöðum hér á landi og umboðið nú hefði ekki burði til að bæta skaðann enda fengist skaðinn ekki lengur bættur frá Apple erlendis!!!?????
Sjá má að stórfeld svik viðgangast ef hægt er að selja nýjar vörur og umboðið hirðir síðan verksmiðjuábirgðir og tryggingarfé sem er ætlað neytendum. Hverju er hægt að búast við í framtíðinni af stórum og "virtum umboðsaðilum " hér á landi, sérstaklega ef þau komast upp með slíka viðskiptahætti í skjóli kennitöluflakks? Kemur tryggingarfé sem umboðin fá greidd frá framleiðanda þá fram í bókhaldi þessara fyrirtækja sem tekjur? Veit Apple framleiðandinn erlendis af þessum viðskiptaháttum á Íslandi og ef svo er hver eru viðbrögð þeirra gagnvart MacBook tölvueigendum.
Vilhjálmur Ari

Kaffið í FreysnesiÞann 23. júlí var ég á ferð um suð-austurland og kom við í Freysnesi A-Skaft.
Mér brá í brún þegar ég sá kaffiverðið og fór út í bíl og náði í myndavélina og
hér meðf. er myndin af kaffinu.
Kveðja,
Jens Gíslason

laugardagur, 15. ágúst 2009

Vax strimlar - rosa verðmunur

Ég er með upplýsingar sem ég tel mikilvægt fyrir konur (og auðvitað marga
karlmenn einnig) að vita.
Undanfarin ár hef ég farið reglulega á stofu til að láta taka hár af fótum með
vaxi. Þessi þjónusta er góð en kostar nú sitt og því hef ég vanið mig á að gera
þetta sjálf og kaupi ég ávallt Veet vax strimpla, 20 strimla í kassa.
Fór í Hagkaup og kostaði einn kassi af Veet vaxstrimlum (grænum) með Aloe Vera
og Lotus 2659 kr !!! Þvílíkt okur, þar sem hægt er að fara á stofu og fá þetta
gert af fagmanni fyrir lítið hærra verð. Þegar maður hefur ekki mikinn pening
milli handanna þá er það einmitt svona hlutir sem maður hættir að eyða pening
í. Ákvað ég því að sleppa því að kaupa vaxstrimlana. Fór svo í Bónus stuttu
síðar og fann sömu strimla á einungis 990 kr !!!! Þvílíkur verðmunur!!!! og
þvílíkur munur að geta hafist handa við þá "ánægjulegu" athöfn að vaxa hárin af
löppunum enn á ný ;)
Kveðja
Elva Björk, nývöxuð og glansandi :)

Fiskifélagið - ekki sniðugur

Ég fór út að borða í hádeginu á splunkunýjan stað sem heitir Fiskifélagið. Mjög flott útlit á öllu, bæði innandyra og utan og lofaði góðu. Við vorum tvær vinkonur og ákváðum að fá okkur súpu í hádegismat og pöntuðum okkur sitthvora gerðina (af þeim tveimur sem í boðið voru). Ég fékk mjög bráðgóða fiskisúpu en magnið svo skorið við nögl að við fórum þaðan sársvangar báðar tvær. Borgaði tæplega 1500 krónur fyrir mesta lagi hnefafylli af súpu, einn humarhala og nokkrar brauðsneiðar. Ég fékk ég þá skýringu þegar ég gerði athugasemd við magnið að þetta væri forréttarsúpa en það kom hvergi fram á matseðlinum eða í þjónustunni sem var frekar döpur og handahófskennd. Í ofanálagt var verðið á staðnum 300 krónum hærra en á matseðlinum sem ég hafði lesið á heimasíðu staðarins. Ég mun ekki fara aftur á þennan stað.
Óska nafnleyndar

Kryddlegin hjörtu góður, en ekki barnvænn

Mig langar að koma á framfæri nokkru sem vakti óánægju mína það mikið að ég bara verð að hafa orð á því.
Í dag átti ég stefnumót við nokkrar vinkonur mínar og völdum við veitingastaðinn Kryddlegin hjörtu. Þar er hægt að fá alls konar súpur og salat eins og maður getur í sig látið og smakkast allt alveg gífurlega vel. Sú aðstaða kom hins vegar upp í dag að dóttir mín 6 ára gat ekki verið í dagvistun eins og vant er og ákvað ég þá bara að taka hana með og hugsaði að hún hlyti að geta fengið sér smá brauð og kannski súpu.
Semsagt mætum við mæðgur vel stemmdar á staðinn og ég fékk mér súpu, brauð og salatbar sem kostar 1390 og er bara ágætlega sanngjarnt verð þar sem gaman er að smakka mismunandi súpur og exótískan salatbar. Hins vegar er enginn barnamatseðill á staðum og það er nú bara allt í lagi enda tel ég að börn eigi að venjast á að borða allan mat og það eigi ekki að vera neitt special treatment þannig lagað. (Get reyndar skrifað langan pistil um barnamatseðla veitingastaða yfirleitt þar sem þar er sjaldnast annað að finna en djúpsteiktan mat, franskar og smápizzur með tómatsósu og osti - hvað með soðinn fisk, rúgbrauð með kæfu eða hakkbollur og hrísgrjón? jæja, og svo eru allir hissa á að börnin okkar verði feitari með hverju árinu).
En allavegana spurði ég hvað væri í boði fyrir stelpuna 6 ára gamla og hvort það væri eitthvað annað, hvort ég mætti gefa henni af mínum skammti eða hvernig þetta væri. Svarið var að þau væru með barnaverð og það væri 1090 krónur. Ég hváði nú bara og spurði hvort það færi ekkert eftir aldri og að yfirleitt væru barnaskammtarnir á hálfvirði eða oft í kringum svona 600-700 krónur. En nei og þetta væri nú hlaðborð þannig að barnaverðið væri 1090. Þar sem vinkonur mínar voru sestar og búnar að borða og ekki vildum við missa af skemmtilegu hádegi greiddi ég semsagt 2480 fyrir súpu og salatbar fyrir okkur.
Súpurnar og salatið og brauðið smakkaðist allt saman ljómandi vel. Ég smakkaði 2 súpur, salsatómatkjúklingasúpu með nachos og sýrðum rjóma og austurlenska kókos grænmetissúpu. Þær voru rosalega góðar en báðar mjög sterkar og of sterkar fyrir 6 ára (sem reyndar borðar mjög gjarnan súpur - sérstaklega svona salsa með nachos) Af salatbarnum borðaðið sú stutta tómata, gúrkur og epli en klettasalat, rauðlaukur, baunasalöt og ólífur er nokkuð sem fæst börn hafa í hávegum.
Þetta var skemmtileg hádegisstund á föstudegi en ég hef aldrei áður borgað 1090 krónur fyrir 2 brauðsneiðar, nokkra grænmetisbita og nachosflögur.
Mér finnst eiginlega bara sorglegt að í tilfelli eins og þessu er ekki komið á móts við aldur barns eða næringarþörf, skýtur svolítið skökku við að barnið þurfi að borga nánast jafnmikið og sá fullorðni það munar 300 krónum og enn undarlegra er það þegar miðað er við aldur barns. Mjög oft á hlaðborðum er borgað hálft verð fyrir 6-14 ára og það finnst mér alveg sanngjarnt. Einnig þegar maður er að reyna að kenna börnum inn á ný brögð og að þjálfa bragðlaukana að það kosti þá bara heilan helling - ekki nema von að fólk velji þá þessa "fjölskyldustaði" með frönskum og pizzum.
Jæja er nú ekki vön að nöldra en gat bara ekki orða bundist...
Bestu kveðjur,
Addý

Ódýrari stílabækur

Ég var að komast að því að hægt er að kaupa stílabækur og rúðustrikaðar bækur (A4 stærð) á u.þ.b. 300 kr. hjá Spíral í Bæjarhrauni 20, bakhús. S. 553-8383.
Kostar annars allt að 700 kr.
Ég tek fram að ég á engra hagsmuna að gæta.
Þetta er gott fyrir barnafólk að vita, mín börn eru komin úr grunnskóla.
Kv, Stefán Ingi Hermannsson

Góðir strákarnir í Nesdekki

Í öllu okrinu undanfarið finnst mér ég hafa dottið ofan í lukkupott í bílaviðgerðum. Nesdekk út á Granda skipta ekki bara um dekk heldur gera við bílana líka. Nýverið hef ég tvisvar þurft að gera við bílinn hjá mér. Í fyrra skipti þurfti að gera við pústið, logsjóða og fleira og það kostaði rúmar 10þ kr. Í dag var svo gert við bæði handbremsu og skipt um stýrisenda svo bíllinn færi í gegnum skoðun og það kostað kr. 13.799 og þurfti ég ekki að borga aukalega fyrir það að þeir náðu í varahluti fyrir mig. Ég var í mörg ár á gömlum bíl sem oft þurfti að gera við og man ég sjaldnast eftir því að kostnaður væri nokkurntíman undir 20.000 kr. sama hvað var gert, hvað þá viðgerðir sem þessar. Strákarnir segja manni fyrirfram hvað þarf að gera, hversu langan tíma það tekur og svo stenst allt eins og stafur á bók og er jafnvel ódýrara en þeir hafa metið. Þeir eru ákaflega þjónustulundaðir, útskýra fyrir manni í smáatriðum ef maður vill skilja viðgerðina og eru alltaf skemmtilegir. Ég tek það sérstaklega fram að ég á engra hagsmuna að gæta við þetta fyrirtæki, græði ekkert á því að senda þetta inn en mér finnst þetta fyrirtæki bara eiga virkilega skilið að fá hrós. Ég var á leiðinni með að skipta um bíl og fá mér nýrri en sé núna fram á að geta átt hann mun lengur án þess að fara á hliðina af viðgerðakostnaði.
Bestu kveðjur,
Anna

Aukakostnaður í Skjábíói

Fyrir skömmu leigði ég mynd á skjábíó. Þegar ég samþykkti leigu þá var samþykkið fyrir 550 krónur.
Ég fékk greiðsluseðil í morgun vegna myndarinnar sem leigði á skjábíó fyrir 550. En auðvita er reikningurinn´fyrir 800 krónur eins og ykkur er fullkunnugt því við kostnaður við innheimtu á 550 kr er 250 kr eða rétt um 45% af upphaflegum reikningi.
Magnað.
Maður spyr sig þeirrar einföldu spurningar hversvegna þetta er slíkur sérreikningur þegar ég greiði nú þegar á öðrum reikning aðra þjónustu símans og hvers vegna þetta bættist ekki á þann reikning í stað þess að hækka umsamið gjald um 45%?
Þannig að spurningin er af hverju fæ ég sér reikning með tilheyrandi kostnaði og af hverju þetta lagðist ekki á hinn reikninginn sem ég greiðin hvort sem er?
Ef það er viðtekinn venja að bæta 45% innheimtukostnaði á leigu á myndum þá legg ég líka til að það komi fram við leigu að kostnaður verði 550 + 250 innheimta. Það væri góður viðskiptaháttur.
Virðingarfyllst,
G. Jökull

fimmtudagur, 13. ágúst 2009

Ódýrt kaffi í miðbænum

Café Latté í frauðmáli kostar svona um 400 kall víðast hvar. Ég fór í Bernhöftsbakarí á Bergstaðastræti áðan og pantaði mér tvöfaldan latté úr kaffivél. Slíkt kostar ekki nema 235 kall hjá þeim og er fullkomlega sambærilegt við flest svona kaffi sem maður fær annars staðar. Þar að auki má minna á að öll rúmstykkin eru enn á 50 kall stk hjá þeim en eru oft á 100 kall eða meira annars staðar. Áfram Bernhöftsbakarí!
Dr. Gunni

Okurbrauð í 10-11

Mig langaði að benda á að Heimilisbrauð kostar 489 kr í 10-11 en 189 kr í Bónus, meðalverð á þessu brauði er um 250 kr í hagkaup og Nóatúni.
Ekkert smá okur !!!
Kær kveðja, Valgerður Rúnars.

Byko og Gabor

Um daginn var skrifað um það í neytendahorni Fréttablaðsins að gasið væri ódýrt í Byko. Ég gerði mér ferð þangað með tvo 9 kg gaskúta til að fá fyllingu á. Þeir
áttu reyndar bara til á 10 kg kútum og var ekkert mál að taka 9 kg
kútana uppí.
Þegar svo átti að borga var ég rukkaður um rúmlega 17.000 krónur fyrir
áfyllinguna og ég spurði hvort hún hefði ekki tekið hina uppí sagðist
hún hafa gert það.
Þetta fannst mér of dýrt og fór á Select við smáralind keypti áfyllingu
þar og borgaði rétt undir 9000 kr þar.
þannig að þetta "ódýra" gas virðist ekki vera til lengur í Byko.

Annað mál:
Ég fór í Gabor skóverslun í Fákafeni og keypti afmælisgjöf handa konunni
minni skó sem kostuðu 14,990,- Hennar stærð var ekki til enn voru að
koma þannig að ég fékk skó sem voru hálfu nr of stórir eða litlir sem hún mátti skipta þegar hennar stærð kæmi. Hún fer til þeirra og þá voru þeir ekki komnir og þau taka af henni skónna sem ég hafði keypt og segjast hringja í hana þegar
sendingin kemur. Þau gera það þremur dögum síðar og þegar hún sækir þá
er hún rukkuð um kr 5000 í viðbót. Ég efast ekki um að það séu
einhverjar hækkanir í gangi og er sjálfur að vinna í verslun.
Enn svona verslunarmáti hef ég ekki kynnst áður. Ég keypti skóna og tók
þá til að fá þá á þessu verði mér var boðið að fá gjafabréf vildi það
ekki svo verðið myndi haldast.
Með kveðju,
Jóhann Viðarsson

Samkaup ekki að standa sig

Í Samkaupum á Borgarbraut Akureyri var auglýst 50% afsláttarverðá grænum vínberjum verð áður 649.- 'A spjaldi sem listaði alla ávexti var verðið 559.-
Margar vörur t.d. gulrótarkaka voru ómerktar, ekkert verð.
Vildi koma þessu á framfæri.
Sigrún Gunnlaugsdóttir

miðvikudagur, 12. ágúst 2009

Smá aukasmurning hjá Elko?

Hjá ELKO eru þeir nú með tilboð á PHILIPS 42" FULL HD LCD (42PFl3604D) sjónvarpi á 209.995 kr. Nokkuð gott verð eða hvað? Lítum aðeins á hvað þetta sjónvarp kostar hjá samsvarandi verslun í Svíþjóð, Elgiganten. Þar bjóða þeir sama tæki á 6.990 SEK eða um 122.000 íslenskar krónur. ELKO er því með 72% hærra verð en Elgiganten í Svíþjóð!
kv.
Eyþór

Lúxusfiskur

Áhugaverð síða til að skoða ef fólk vill ódýra gæða vöru og fría heimsendingu.

*****luxusfiskur.is*****

kv.
Friðrik J

Sprauturjómarán

Um daginn sendi ég son minn út í búð með 1.000 kr. og bað hann að
kaupa 2 brúsa af sprauturjóma og eina Pepsí. Viti menn, þegar hann kemur til baka er hann bara með einn brúsa af rjóma sem kostaði 710 kr í Pétursbúð á Ægisgötu, einn brúsi af rjóma í Bónus kostar um 250 kr. þetta kalla ég RÁN.
kv.
Húsmóðir í 101

Panta mat með aukakostnaði

Núna er ég svöng og langar að panta mér mat því ég er svo þreytt að ég nenni ekki að sækja hann í kvöld. Ég er búin að taka eftir nokkrum auglýsingum með pantamat.is. Þeir taka meðal annars fram að maður fái meira fyrir peninginn, bestu tilboðin, maður getur fengið sent eða sótt og að það sé enginn aukakostnaður. Mér fannst þetta sniðugt og ætlaði að panta mat á síðunni þeirra en þá kemur fram í svona ca. 90% tilvika að það sé sendingarkostnaður, mismikill þó eftir stöðum. Þar sem er enginn sendingarkostnaður er e.h lágmarks upphæð sem þú þarft að kaupa fyrir til að fá sent heim til þín án kostnaðar, sem mér finnst alveg sanngjarnt. Mér finnst þetta blekkjandi auglýsing og ekki eiga sér stað að það sé enginn aukakostnaður þegar þú þarft að borga sendingar kostnað! Hvað er það annað en aukakostnaður?
HB

Verðmunur á ljósaperum

Maðurinn minn keypti 60 W ljósaperu frá Philips í gær í Húsasmiðjunni og kostaði hún 467 kr. Honum fannst þetta reyndar alveg ótrúlegt svo hann hringdi í Heimilistæki og athugaði verðið þar, og þar kostar samskonar ljósapera 218,00 kr. Vildi bara láta vita af þessu.
Með kveðju
Stefanía

Safnaokur

Á ferðum mínum um landið í sumar hafa nokkur söfn verið heimsótt.
Þar á meðal stórglæsilegt Víkingasafn Í Reykjanesbæ. Þar er selt inn á 1.500 krónur. Ég reiddi fram 7.500 krónur fyrir mig og mitt fólk.
Þar af voru 2 menntaskólanemar og 2 háskólanemar sem fá engan afslátt ólíkt því sem gerist í öðrum löndum.
Mér fannst þetta hreint okur, ekki síst í ljósi þess að ég tel mig hafa heyrt að þetta safn hafi fengið einhverja þá hæstu styrki af almannafé sem um getur.
Draugasetrið á Stokkseyri selur líka inn á 1.500 krónur sem mér persónulega finnst okur inná jafn lélegt safn.
Nágranninn á Veiðisafninu seldi hinsvegar inn á 1000 krónur á sitt safn.
Það safn er stórkostlega vel heppnað, og ég held að eigandinn hafi sett þetta á laggirnar án opinberra styrkja.
Ég mæli með að fólk missi ekki af Veiðisafninu, það er upplifun fyrir alla.
Þessi verð eru fyrir fullorðins aðgang.
Ingibjörg

þriðjudagur, 11. ágúst 2009

Misdýr tjaldsvæði

Ég ætlaði að fara með fjölskylduna um daginn á tjaldsvæði sem ég hafði ekki prófað áður en leit vel út. Það var Leirubakki í nágrenni Heklu.
Ég skoðaði sem betur fer upplýsingar um tjaldsvæðið áður en ég hélt þangað og rak augun í verðskránna. Fyrst hélt ég að ég væri að lesa ranga verðskrá en svo reyndist ekki vera. Við höfum ferðast mikið um landið og gist á fjölmörgum tjaldsvæðum og hvergi séð verð sem komast nálægt þessu!
Skv heimasíðu þeirra er þetta gjaldskráin:

Fyrir fullorðna: 800 kr pr. nótt á mann.
Fyrir börn 6-12 ára: 450 kr pr nótt á mann.
Rafmagn fyrir húsbíla og fellihýsi: 800 kr pr nótt.

Flest tjaldsvæði rukka ekki fyrir börn, börn fá að vera börn til 16 ára aldurs og stilla verði á rafmgani í hóf. Fyrir okkur hefði nótt á þessu tjaldsvæði kostað 4.450 kr! Það er meira en helmingi hærra verð en það sem ég hef borgað hingað til á tjaldsvæðum!
2x Fullorðnir: 1600kr
1x 16 ára: 800kr
1x 13 ára: 800kr
1x 7 ára: 450kr
1x 3 ára: frítt!
Rafmagn 1 nótt: 800kr
Samtals: 4.450Kr

Þótt ég læsi þetta af heimasíðunni hjá þeim þá hringdi ég í þá til staðfestingar og þeir staðfestu að 1 nótt fyrir fjölskylduna myndi kosta 4.450kr
Ég á bara 1 orð yfir þetta; OKUR!
5 stjörnu tjaldsvæðið hjá Fossatúni sem hingað til hefur verið það dýrasta á landinu (en haft mjög mikið uppá að bjóða) kostar þar sami pakki 4.000kr sem er líka dýrt.
5 stjörnu tjaldsvæði á Úlfljótsvatni sem er frábært tjaldsvæði með aðstöðu fyrir börn sem best verður á kosið kostar sami pakki 2.000Kr og innifalið í því eru veiðileyfi!
Kveðja,
Ferðalangur

Rándýr bíllykill

Lenti í því að týna lyklinum að bílnum sem er fjögurra ára WW - Passat. Hringdi í Heklu og fékk þær upplýsingar að nýr lykill myndi kosta 40 þúsund krónur (sagt og skrifað). Sem betur fer fannst varalykillinn á heimilinu. Þetta er svívirðilegasta dæmið um okur sem ég hef heyrt af þetta árið.
Kveðja,
Tumi Kolbeinsson

Líkamsræktarkortin endalausu

Mig langar að vara fólk við sem kaupir sér kort hjá sporthúsinu og lætur draga mánaðarlega af sér upphæðina sem því nemur. Ég keypti mér skólakort í september 2008 sem átti að gilda í 10 mánuði og kostaði mig 2990 kr í mánuði. Í júlí átti seinasta greiðslan mín að vera en í byrjun ágúst fæ ég 11 rukkunina og upphæðin allt í einu orðin 3590.
Þar sem ég (og eflaust meirihluti fólks) las ekki samninginn nógu vel þarf ég að borga af þessu korti í aðra 3 mánuði þvi ég sagði því ekki upp á 6.mánuði og 500 kr meira en upphaflega, svo þeir gefa sér grænt ljós fyrir að hækka gjaldið eftir að eiginlega binditímanum líkur. Núna vildi ég óska að ég hefði staðgreitt þetta því þá væri ég laus alla mála, svo sporthúsið er í raun að mismuna og blekkja fólk sem greiðir ekki með peningum og lokka að asna eins og mig sem fatta ekki að 10 mánaða kort sé endalaust ef maður segir því ekki upp. 10 mánuðir eru 10 mánuðir. ... Ég vona bara að fólk skoði yfirlitin sín því þeir græða mikið á því að hafa þetta bara rúllandi.
Ég hringdi og talaði við miög óliðlegan sölufulltrúa um þetta mál og lýsti yfir gremju minni sem sagði "jahh, svona er þetta bara".
Kæra fólk, lesið samninginn ykkar vandlega og munið að segja upp með 3 mánaða fyrirvara ef þið viljið hætt áður en kortinu líkur er boðskapurinn með þessum skrifum mínum.
Óska nafnleyndar

Bremsuklossar

Bremsuklossar í Hyundai Santa fe sem kostuðu í fyrra ca. Kr.4800 í Stillingu en kosta þar í dag rúmar kr. 13.000 (okur). Í N1 kosta samskonar klossar ca. kr.7700,- (ekki til á lager en eðlilegt verð) í AB varahlutum kostuðu klossarnir kr.7.183,- en þar var veittur 10% afsláttur.... Niðurstaðan verðmunur ekki eðlilegur.... Stilling okrar í skjóli kreppu.
Fritz

mánudagur, 10. ágúst 2009

Nærbuxur með erlendum verðmiða

Í Debenhams eru seldar boxernærbuxur - 3 saman í pakka. Ætlaði ég að versla mér slíkar eins og gengur en rak augun í það að flestir pakkarnir voru með erlendum verðmerkingum, þ.e. 5 pund eða 7,5 evrur. Nú voru þetta verðmerkingar (með gulu - mjög áberandi) sem sýndu verð útúr búð annarsstaðar í Evrópu (með álagningu verslunar) og er alveg öruggt að innkaupaverð Debenhams á Íslandi er lægra og miðar við að með eðlilegri álagningu sé íslenskt verð í samræmi við hið erlenda verð með tilliti til gengis. Hins vegar kostar þessi pakkning hér kr. 2.990,- (150-200% hærra en verðið ætti að vera miðað við gengi).
Nú skýla menn sér bakvið óhagstætt gengi og því þurfi allt að vera dýrara og allt þurfi að hækka en með tilliti til gengis ætti þessi vara að kosta kr. 1050,- eða 1355,- eftir því við hvorn gjaldmiðilinn er miðað.
Kveðja,
Samúel

Passið ykkur á drykkjunum á Ítalíu!

Ég fór með konuna út að borða á Ítalíu. Fengum okkur að borða og maturinn var fínn og kostaði þannig séð ekkert mikið. En ég og konan fengum okkur sitthvort pepsiglasið, hálfan líter af vatnsþynntu pepsiglasi í klökum og svo eftir matinn fékk konan sér venjulegt svart kaffi, einn bolla. Svo fengum við reikninginn og þá brá okkur. Eitt pepsiglas kostaði 700 kr. Einn kaffibolli, kolsvart og sykurlaust kostaði 350 kr. Við sem sagt borguðum 1750 kr fyrir 2 pepsiglös og einn kaffibolla. OKUR!!
kv, Guðmundur Guðjónsson

sunnudagur, 9. ágúst 2009

Rosahækkun á barnaís

Ég hef, þrátt fyrir kreppu, leyft mér þann munað vikulega að kaupa mér barnaís í
brauðformi, án dýfu. Þetta hef ég gert í Olís stöðinni á Selfossi, þe. Arnbergi.
Til skamms tíma hefur ísinn kostað 149 krónur, eða þar til núna. Áðan keypti ég mér þennan sama ís, sem nú kostar 225 kr. Þetta er semsagt yfir 50% hækkun. Þetta er fáránleg hækkun og velti ég því fyrir mér hvað veldur og hvort annað hjá þessari ágætu bensínstöð hefur hækkað eitthvað svipað. Það ber þó að geta þess að lokum að kaffibollinn er frítt. Kannski er hækkunin á ísnum til að mæta því ?
kveðja,
Steindór Tómasson

Dýrt brauð

Konan mín stökk inn í Bæjarbakarí Bæjarhrauni í Hafnarfirði til að kaupa 1
stk brauð. Kom hún svo út með speltbrauð sem hún þurfti að greiða 545 kr
fyrir. Ég tók mig til og viktaði brauðið og var það 580 gr. Þetta gera uþb
1000 kr á kíló af þessu brauði. Þetta finnst mér vera algjört okur og mun
ég ekki skipta við þetta bakarí framar og sennilega segja mörgum frá þessu
okri. Og hver er að græða þá???
Kv.
Pétur

Dýr gisting

Sæll, vil láta vita af dýrasta tjaldstæði sem ég hef gist á í sumar vorum að mínu mati rænd -:(
Kerlingfjöll er alveg ótrúlegur staður en dýrasta tjaldstæðið. Verðið eða hvaða aðstaða stendur til boða er hvergi sýnilegt og enginn kom að rukka. Við heiðarleg og eftir að gista eina nótt fórum inn á stað sem er merktur Restaurant (þar var lokað kl: 21.30 í afgreiðslunni um kvöldið sem við komum) og spurðum hvar við ættum að borga svarið var: Hér kostar 1400 kr. á mann og við hefðum mátt fara í sturtu. Þetta er algjörlega siðlaust verð. Tvö útisalerni, annað stíflað, nokkur klósett í kjallara á "Restaurant" og aðeins eitt opið kvennamegin. Svo er líka ljótt að sjá hvað allt er í mikilli niðurníðslu hjá þeim.
Bkv. KP

föstudagur, 7. ágúst 2009

40% afsláttur bara 20%

Ég var að versla í Bónus upp í Mosfellsbæ í gær, kl: var að verða 18:00, eða komið að lok dagsins 4.ágúst. Inn í kæli hjá þeim voru kjúklingar frá Ali á 40% afslætti merktir á hvern og einn svo var einnig stóru gulu spjaldi komið fyrir í hillunni sem á stóð 40% afsláttur af Kjúklingum frá Alí, (notabene þetta var í lok dags), nema ég fer alsæl að kassanum og borga það sem ég verslaði sem var fljótt að rjúka upp í 10þús. nema hvað mér fannst þetta ansi dýrt allt saman og ég sem hafði vandaði mig verulega við innkaupin. Þegar heim var komið fór ég yfir greiðslukvittunina og viti menn, ég hafði aðeins fengið 20% afslátt af Kjúklingnum, sem á stóð 40%, ég gerði mér lítið fyrir og fór til baka því ég bý í nágrenni við Bonus og viti menn þegar ég ber þetta upp við verslunarstjórann, þá lítur hann í augu mín og segir: "þetta tilboð var aðeins um helgina", !!!! hversu langt er hægt að ganga til að seilast í buddu neytenda sinna, eru Bonusmenn ekki búnir að stela nóg??? Svo ég missti mig alveg og spurði hvort ekki væri kominn tími frá því um morguninn að leiðrétta auglýsinguna sem stæði í hillunni um 40% og skipta um miða og setja 20% í stað 40% í stað þess að svíkja neytendur og láta þá halda að þeir séu að fá 40% afslátt og selja þeim síðan vöruna á 20%. Þennan dag hafa margir verið plataðir sem voru í góðri trú um að þeir væru að verlsa kjúlla á 40% en í raun fengu þeir aðeins 20%afslátt. Svona er Ísland í dag:(
kv: Pirraður neytandi að versla við Bonus

Sony center vs. Ebay

Ég er nú ekki vanur að kvarta né kveina en mér vægast sagt ofbauð um
daginn. Þannig er mál með vexti að ég þurfti að kaupa batterí fyrir
sony vídeóvélina mína. Fór ég þvi í Sony Center og ath málið. Jújú..
hann átti batteríið. Svo kom að því að borga og tók ég upp veskið en
brá heldur betur þegar hann sagði batteríið kosta tæplega 14000 kr!!!
Ég trúði þessu varla og þegar ég sagði afgreiðslumanninum að ég myndi
aldrei borga svona mikið fyrir þetta þá setti hann upp
hneykslunarsvip... eins og ekkert væri eðlilegra. Þegar ég kom heim þá
fór ég á ebay og keypti 2 stk af þessum batteríum á.. og hlustaðu
nú... 25 ameríska dollara eða ca 3000 kr!!! Svo bætist náttúrulega við
sendingarkostnaður og tollur þannig að í allra versta falli þá borga
ég í heildina 6000 kr fyrir 2 stk!!
Á tímum sem þessum, þegar alltaf er talað um gjaldeyrisvaraforða og að
nú eigi að styðja við íslensk fyrirtæki o.þ.h. þá finnst mér þetta
ekki bara ömurlegt... heldur hreint og beint lágkúrulegt. Þetta
flokkast alls ekki undir eðlilega álagningu að mínu mati og hreinlega
hvetur mann til að versla slíka hluti á netinu.
Bestu kveðjur,
Ragnar

Hvenær er ný peysa ný?

Ég fór í Hagkaup um daginn með vinkonu og fór að skoða mig um á útsölunni hjá þeim og skoða nýju vörurnar og rek ég þar augun í peysu sem var á rekka merkt ný vara og kostaði 7999. Þetta er nú kannski ekki í frásögur færandi nema það að ég kaupi mér alveg nákvæmlega sömu peysuna í mai á rúmar 4000 krónur, að vísu með afslætti var bæði virðisaukahelgi hjá þeim og einhver annar afsláttur sem mig minnir að hafi verið 30% þannig að ég fæ þessa peysu í vor á tæpum 50% afslætti en núna er henni stillt upp sem nýrri vöru. Þetta finnst mér vera frekar lélegt og vill benda fólki á að hafa augun opin fyrir svona viðskiptaháttum.
Erna Sigrún

fimmtudagur, 6. ágúst 2009

Við viljum fullorðinsstílabækur

Ég álpaðist til að stofna Facebook-grúppu rétt áðan, hún heitir „Við viljum fullorðinsstílabækur!“ Kannski gerist enginn meðlimur í henni, þetta er hugsanlega bara sérviska mín. Mér finnst vanta svo tilfinnanlega stílabækur með litlu línubili, þéttari línum. Íslenskar stílabækur eru allar með 9 mm línubili, jafnvel smæstu minniskompur, sem er sóun á pappír, en það sem verra er, það er leiðinlegt að skrifa í þær. Innfluttar bækur eru yfirleitt með þéttari línum, 6-7 mm, hvaðan sem þær koma. En hafi þær verið dýrar fyrir, þá eru þær orðnar viðbjóðslega dýrar eftir gengishrun. Stykkið af moleskine, minni gerðinni, er orðið öðru hvoru megin við 5000 krónur.
Ég veit ekki hvort á bakvið íslensku framleiðsluna hvílir sú hugmynd að hér skrifi enginn á pappír nema börn, eða hvað veldur … en er semsagt að vona að ef þetta þreytir fleiri en mig, og nógu margir tala um það, þá gæti einhver stílabókaframleiðandi óvart hlerað samræðuna á kaffihúsi, eða rekist á hana í blaði, gleymt henni svo – en vaknað einn daginn með snilldarhugmynd í kollinum sem hann veit ekki hvaðan kom: þéttari línur!
Ég held nefnilega að það sé tímasóun að nefna þetta við framleiðendurna beint, því upp til hópa eru menn hér of þverir til að taka vel einhverjum tilmælum eða ábendingum utan úr bæ.
Hér fyrir neðan er textinn sem fylgdi Facebook-grúppunni úr hlaði. Enn sem komið er sýnist mér ég vera eini meðlimurinn, og kannski verður það bara þannig. Annars væri fyndið að reyna að virkja Rithöfundasambandið í málinu … ég held að á fundum þess sé annars aðallega rætt um sumarbústaðamál.

„Íslenskir notendur penna og pappírs líða fyrir markaðsbrest, þar sem engar stílabækur eru framleiddar á landinu með línubili sem hentar fullorðnum. Allar innlendar stílabækur –og jafnvel smæstu minniskompur – eru framleiddar með 9 mm línubili.
Innflutt okurvara nýtur á meðan mikillar hylli.
Við skorum á íslenska framleiðendur stílabóka og minniskompa að framleiða bækur með 6-7 mm línubili.
Sé búið um þær í glyslausar kápur og þær seldar á sanngjörnu verði munu þær slá í gegn. Liggi síðurnar þétt hver upp að annarri, þannig að þær líti út fyrir að bjóða jafn mikinn ritflöt innan rúmtaksins og nokkur kostur er mun sú stríða ásjóna ögunar og örlætis laða enn fleiri að bókunum. Ef nokkur kostur er, að auki, að rúna ytri síðuhornin af um nokkra millimetra – alls ekki um of, bara rétt svo að ekki brotni upp á þau við velking í töskum – munu allir fullorðnir ritfanganotendur taka ástfóstri við gripina.
Framleiðendur, söluaðilar, neytendur og íslenska krónan munu njóta góðs af þeirri bragarbót.
Síðan viljum við ódýrari teiknipappír!“

Haukur Már Helgason.

Prentarablek

Góðan dag,
Langaði bara að koma á framfæri verðmismun á svörtu prentarableki. Fór í gær í Office 1 í Skeifunni ætlaði að kaupa svart blek HP336. Þar kostaði það 3690 kr. Vissi ekkert hvort það væri dýrt eða ekki en ákvað að kanna á fleiri stöðum, og kom svo auga á Griffil þar sem ég var á leið úr Skeifunni (er lítið á ferðinni í svona innkaupum svo þetta er ekki alveg í haustnum á manni hverjir selja svona hluti) OG VITI MENN ÞEIR SELJA SVONA BLEK Á 2990 kr. Ég vildi bara koma þessu á framfæri því það munar um minna. Og svo eru kannski fleiri en ég sem vita ekki hvað er sanngjarnt verð fyrir svona hluti.
Kveðja, Guðlaug

Súfistinn okrar

Ég fór á kaffihúsið Súfistinn í Hafnarfirði og bauð foreldrum mínum upp á kaffi og tertusneið sem var í boði á Súfistanum.
Mér krossbrá þegar ég fékk að vita hvað ég ætti að greiða fyrir herlegheitin,sem var kaffibolli fyrir þrjá og þrjár tertusneiðar.
3.400 krónur takk fyrir.
Fyrir ofan afgreiðsluborðið er krítartafla þar sem búið var að skrifa upp einskonar verðskrá þar sem kom fram það sem í boði er,nema að búið var að stroka út öll verðin,en ég veit ekki betur en að skylt sé að sýna verðskrá frammi fyrir öllum.
Ég greiddi fyrir þetta með debetkorti en,ég fékk ekki neina kvittun afhenda fyrir því sem keypt var,þar sem veitingarnar voru sundurliðaðar,eins og alls staðar annars staðar er gert,einungis kvittun með heildarupphæð.
En ef maður deilir þessu með þremur þá gerir það ca. 1.133 kr. á mann. fyrir eina tertusneið og kaffibolla.
Ekki er þjónað á borð fyrir þennan pening,eins og gert er á langflestum kaffihúsum,heldur er allri vinnunni komið á viðskiptavininn,sem þarf að sækja allt saman sjálfur eins og í hverju öðru mötuneyti,kaffið,kökurnar,mjólk,sykur og svo framvegis og þar sem við sátum þá þurfti að troðast í gegnum þvöguna við afgreiðsluborðið með fulla kaffibolla og tertur á diski til þess að komast á borðið þar sem við sátum.
Þetta er ekki boðlegt á neinn hátt og er algjört okur!
Kristján Blöndal

Enn um Bláa lónið

Það kostar 4140 isl.kr í Bláa Lónið!
En þeir þurfa nú ekki að hafa áhyggjur að markaðsetja sig fyrir sitt eigið fé!
The two also signed an agreement for a research fund for the next four years. According to the agreement the ministry will provide Blue Lagoon a grant for research and international marketing of the psorisasis and eczema treatment. The value of the grant is Isk 25 million annually for the next four years.
(http://www.bluelagoon.com/news/53/default.aspx)
Hvernig er þessum peningum "til kynnigarmála á erlendri grund"varið innan Blá Lónsins ehf, því þetta er mjög almennt orðað!
þeir "bjóða" íslendingum 2fyrir1 en það eru nú samt 2070isl.kr fyrir einn!! eitt mesta okur íslands!
Það er næstum því fyndið að kalla Þetta blá lónið þar sem Grímur Sæmundsen er gallharður sjalli, eins og sést á myndinni þá er Árni Matt með að tryggja hagsmuni í sínu kjördæmi.
Viðskiptahugmyndir íslenskra kapitalista hafa alltaf verið fjármagnaðar af ríkinu, þeir sem berjast hvað harðast fyrir kapitalima vinna hjá ríkinu.
Þeir passa uppá að orða þetta þannig að það er verið að niðurgreiða þjónustu fyrir fólk með húðsjúkdóma, en láta 100milljónir fljóta með í "kynningarmál á erlendri grundu", ef ég þekki íslenka stjórnsýslu og almannatengsla drifkraftinn rétt, þá er þetta kjaftæði og orðgljáfur!
það er okrað og síðan borgum við í gegnum skattana okkar fyrir "kynningarmál"
Heyrðu ef ég hafi ekki bara fundið 100milljón króna matarholu fyrir niðurgreiðslu á skólamáltíðum fyrir íslensk börn til 2012!
kveðja,
Bjarni

Plat á útsölu

Í útvarpinu var auglýst útsala (50%) í Toppskórinn (outlet) – Vinlandsleið 6. Ég fór þangað og fann gólfskó –mundi reyndar eftir að Eccogólfskór höfðu verið á bilinu frá 14000 – 17000 síðast ég skoðaði (3 vikum fyrr) en mundi ekki eftir hvað þessi kostaði. Merkt verð núna var 22.995 kr. Fór nokkrum dögum seinna í Ecco búðina í Kringluna og þar kostaði samskonar skór um 18.000kr. Toppskórinn, sem auglýsar sig sem outlet, ódýr er sem sagt að stunda það að hækka verðið (um 4000kr) (og hækka afslátt úr 30% í 50%) og kalla þetta úsölu. Vona að það sé hægt að stoppa svona af!!!
Bestu kveðjur – og alls ekki sátt.
Annelise Larsen-Kaasgaar

Mikil hækkun á olíupönnu

Þannig er að fyrir 2 árum varð ég fyrir því óláni að gata hjá mér olíupönnuna en ég er á Skoda Oktavíu. Ég fór því í Heklu og keypti nýja á kr. 3.196. Núna um helgina kom aftur gat á olíupönnuna þannig að aftur fór ég í Heklu að kaupa pönnu en núna kostaði hún 15.457. Ég trúði þessu ekki og fór því að leita af gömlu nótunni. Pannan hefur því hækkað um 485 % á 2 árum en gengi evru hefur aðeins hækkað um úr 84kr í 181 kr. Þeir hjá Heklu eiga einnig aðra gerð af pönnum sem þeir kalla orginal pönnu hún kostaði 2007 um 24000 en í dag 28600 Ekki svo mikil hækkun það. Ég mátti til að senda þér þessa ábendingu mér ofbauð svo.
Kveðja, Sigrún Baldursdóttir

Krukkuokur í Krónunni

Við fjölskyldan erum að brasa við rabbabarasultugerð í kreppunni. Vantaði nokkrar tómar krukkur sem ég síðan sá uppstillt á áberandi stað í Krónunni í lindarhverfi. Á spjaldi við þær stóð "Tómar krukkur frábært verð" en engin verðmerking sjáanleg, þótt vel væri að gáð. Þær voru til í nokkrum stærðum tók þessa minnstu. c.a. 0.3l með skrúfuðu loki, sem sagt ósköp venjuleg sultukrukka. Og viti menn, þessi krukka átti að kosta 359.-kr. Tóm krukka! Þvílkt okur.

mánudagur, 3. ágúst 2009

Grillkol

Mig vantaði grillkol í gærkvöld og skaust í næstu búð, 10-11, til að bjarga málum. Ekkert varð af kaupum því að mér ofbauð verðið. Kingsford-kol, 4,08 kg, kostuðu 1.190 kr eða 291 kr/kg í 10-11. Á næstu Olís-stöð var verðið svipað, 1.198 eða 293 kr/kg. Sams konar poki kostar 671 kr hjá Húsasmiðjunni (157 kr/kg). En ekki eru stórar pakkningar alltaf ódýrastar. Hjá Húsasmiðjunni kostar 10 kg poki af Weber-kolum 2.332 (233 kr/kg). BYKO virðist þó eiga metið því að 2,5 kg poki kostar 770 (308 kr/kg). Hjá Europris virðist kílóverðið vera 199 kr. og Samkaup/Úrval eru með tilboð þar sem kílóverðið er 120 kr. Þessi verðkönnun varð gerð á vefnum að morgni 1. ágúst 2009 og ekki er víst að upplýsingar séu að öllu leyti nákvæmar. En það er a.m.k. gott að hafa augun opin.

Svanberg

laugardagur, 1. ágúst 2009

Farsímamál

Get ekki orða bundist. Dóttir mín 14 ára safnaði sér fyrir fyrsta farsímanum sem keyptur var í Elko um miðjan apríl s.l. Nokia 2630 nánar tiltekið sem kostaði þá 12.495 . Auka trygging var afþökkuð því starfsfólk gat litla grein gert fyrir því í hverju hún fælist. í dag rúmum þrem mánuðum seinna þegar dóttir mín tekur símann upp úr vasanum á gallabuxunum sínum kemur engin mynd á skjáinn. Hann er dauður. Við af stað til Elko, síminn en í ábyrgð en nei!! Nákvæmlega þetta er ekki ábyrgðarmál, síminn þolir ekki þann þrýsting að vera í gallabuxnavasa né heldur mikinn mun á hita og kulda. Ef ég hefði nú tekið aukatryggingu hefði hún líklega greitt þetta , þó ekki alveg klárt.!! Mér þykir þetta afspyrnu léleg þjónusta. Að okkur sé t.d. ekki gert grein fyrir að um sé að ræða "einnota" síma og leiðbeint við kaup. Við veltum þessum málum fyrir okkur í amk. klukkutíma óg enduðum á að kaupa þennan síma. Stelpan var mikið sár
Geirþrúður

Dýrt á Reðursafnið

Við vorum 12 manna hópur á ferð um landið í síðustu viku og datt einhverjum okkar í hug að skoða hið margumtalaða Reðursafn á Húsavík og ákváðum við að láta slag standa...
Þegar við svo gengum inn þá var hver einstaklingur rukkaður um 600 krónur fyrir að fá að labba einn hring sem tók c.a. 5 mínútur og þótti flestum sem að enn einn útrásarvíkingurinn hafi verið að ræna okkur... ekki nóg með það heldur neitaði reðursafnið að taka við kortum og ekkert var kassakerfið á staðnum heldur er ölllum peningum stungið beint í stóran reðurkassa og er því augljóst að lítið er um að greiddur sé skattur af þessum þjófnaði.
kv.
Sigurður Pálsson

Ferðapunktar Icelandair

Aðili í minni fjölskyldu hefur farið nokkrum sinnum á milli New York og
Keflavíkur frá áramótum og hefur greitt mismunandi fargjöld, yfir 20 þús.,
yfir 30 þús. og yfir 40 þús., en aldrei fengið nema 525 punkta sem er mikil
breyting frá því sem áður var. Það er greinilega nær ómögulegt að safna sér
fyrir fargjaldi með punktum. Á sama tíma fást 500 punktar fyrir flug hér
innan lands og í vissum tilfellum 1000 punktar (M Class).
Vildarklúbburinn er talsvert apparat, ætli það væri ekki hægt að lækka
fargjöld ef hann yrði lagður niður. Það breytir engu fyrir fólk að fá
rúmlega 500 punkta þegar það er að greiða háar upphæðir fyrir far.
Annað mál eru skattar og gjöld sem lögð eru á fargjöld. Í dæmi sem ég er
kunnug voru greiddar um 55 þús., þar af er sjálft fargjaldið sagt vera um 29
þúsund. Er þetta eðlilegt?
Með kveðju,
Auður

Okur á túrtöppum

Ég hef lengi pirrað mig á því hvað það er dýrt að kaupa túrtappa, og fékk einhvertíman þau svör að það væri vegna þess að túrtappar og dömubindi flokkuðust sem "munaðarvara".
Þetta gerði mig rosalega reiða, enda er það enginn munaður að þurfa ekki að vera útataður í blóði 5 daga í mánuði.
Núna var ég í hagkaup um daginn og ætlaði að kaupa mér pakka af töppum (ég kaupi alltaf tampax, OB get ég ekki notað) en þegar ég sá verðið á pakkanum blöskraði mér svo rosalega að ég hætti við að kaupa þá og labbaði tómhent út.
Auðvitað neyddist ég samt til þess að fara aftur og kaupa þá nokkrum dögum seinna...
Pakkinn af tampax túrtöppum kostaði 999krónur takk fyrir!
það þýðir að á einu ári þarf ég að "blæða" (í orðins fyllstu) 12-15 þúsund krónum bara fyrir það eitt að hafa fæðst með píku en ekki typpi.
Ég hef aldrei getað fengið staðfestingu á því hvort þetta sé í raun munaðarvara eða hvort sá sem sagði mér það hafi bara verið að tala út um rassgatið á sér, en mig langar VERULEGA að komast að því.
Hvað geri ég ef ég vil mótmæla því að það sé aukin álagning á þessa "munaðarvöru" sem engin kona kemst af án?
ÓÓ

Okur í Hrauneyjum

Í anda þeirrar samkenndar sem ég taldi að kreppan hefði skapað ákvað ég í vor að ferðast í framtíðinni meira innanlands og styrkja íslenskt, en eftir því sem ég rekst oftar á okurstarfsemi íslenskrar ofurgræðgi verð ég fráhverfari þeirri hugmynd.
Um daginn eftir Sprengisandstúrinn komum við svöng og þreytt við í Hrauneyjum og ætluðum að fá okkur að borða. Í boði var súpa og salatbar á litlar 2200 krónur, sem hefði hugsanlega verið hægt að réttlæta ef salatbarinn hefði til dæmis innihaldið eitthvað ríkulegra en þessar þrjár tegundir af pasta út á kálið. Það þarf náttúrlega ekki að orðlengja að út fórum við án þess að fá okkur að borða.
Ef ferðamannaiðnaðurinn ætlar að halda áfram að haga sér svona þá er eins víst að:
a. Ferðamönnum fjölgi ekkert þar sem það er ekkert ódýrara á íslandi en annarsstaðar þrátt fyrir hagstætt gengi
b. Íslendingar kjósi heldur að borga okurverð fyrir salatið sitt í útlöndum.
http://bibbasvala.blogcentral.is/

Spáð í framtíðarokur/,,sjálfbærni"

Bygging Tónlistar- og Ráðstefnuhúss stefnir nú þegar í yfir 25 milljarða
útgjöld, gæti skotist yfir 30 milljarða. Framreiknðar fyrri áætlanir eru allar
kolsprungnar,voru feik ! Aldei hafa verið peningar í sjóði. A.m.k. 2/3
hlutar kostnaðar eru gjaldeyrisútgjöld,erlent lánsfé. Ekkert má hrófla
við því fari sem gjaldþrota Portus( & ÍAV) bjó til árið 2006.
Raunsær útreikningur á fjármagnskostnaði TR framkvæmdar verður á
bilinu 1.5 til 2 milljarðar árlega miðað við 35 ára lánstíma á bestu vaxtakjörum,
leggst við almenn rekstrarútgjöld hússins.
Reksturinn verður sjálfbær er nú fullyrt. Ef sá villti draumur rætist að allt að
160.000 manns njóti viðburða í TR árlega, þarf húsið samt að ná inn 10-15.000 kr.
hústekjum af hverjum gesti að jafnaði á mann , bara upp í fjármagnskostnað .
Slíkt okur gerir húsið ónothæft fyrir almenning og fyrir listamenn ! Þá verður
sú ein leið fær að skemmta skattgreiðendum með okurálagi á skatta ef bjarga
á fjármagnskostnaði TR í horn. TR er fyrirfram í "tæknilegu gjaldþroti" .
Þessar döpru staðreyndir blasa við. Má ekki bregðast við þeim?
Baldur Andrésson

Okur á rúnstykkjum

Ég fór í bakarí í morgun til að kaupa mér rúnstykki sem er nú ekki í frásögur færandi en mér ofbauð svo verðið á ósmurðu einföldu birkirúnstykki að ég mátti til með að senda línu. Rúnstykkið kostar 120 krónur í Mosfellsbakarí Háleitisbraut og svona til samanburðar þá kostar rúnstykkið í Bernhöftsbakarí 50 krónur, 85 krónur borgaði ég fyrir rúnstykki um daginn í Björnsbakaríi Austurströnd. Ég keypti mér nú þetta rúnstykki í Mosfellsbakaríinu í morgun af því einfaldlega ég nennti ekki að fara neitt annað fyrir eitt rúnstykki sem ég var búin að ákveða að fá mér en það er nokkuð ljóst að næst þegar mig langar í nýbakað bakkelsi þá verður það ekki Mosfellsbakarí sem ég legg leið mína í fyrir utan að brauðið í Bernhöfts er líka svo miklu bragðbetra (o;
Góða helgi,
Thelma