miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Um skiptibókamarkaði

Ég var að ljúka við að lesa pistil dagsins frá þér en talandi um skiptibókamarkaði langar mig að segja þér og sem flestum frá viðskiptum mínum við skiptibókamarkað Eymundsson í gær. Síðustu daga hef ég selt ógrynni af bókum frá menntaskólaárum mínum á skiptibokamarkadur.is fyrir tugi þúsunda króna en nokkur eintök gengu ekki út. Þá brá ég á það ráð að fara inn á http://eymundsson.is/skiptibok og skoða hvað ég fengi frá Eymundsson fyrir hvern titil (svokallað skiptiverð). Þegar ég sá að Eymundsson myndi greiða mér u.þ.b. sömu upphæð og fólk úti í bæ fyrir nokkra titla hélt ég áleiðis í Eymundsson Skólavörðustíg. Þar kom í ljós að hærra verð var gefið upp á netinu en var innstimplað í afgreiðslukassann. Ég gerði athugasemdir og eftir nokkurt karp hringdi elskulegur starfsmaður nokkur símtöl sem þó dugðu ekki til. Mér var bent á að fara í Eymundsson Kringlunni þar sem stærsti markaðurinn er. Þar fékk ég kuldalegar móttökur þegar ég bar upp spurningar mínar um mismunandi verð. Þegar tveir titlar af nokkrum voru með rétt verð í kassanum gafst ég upp og afhenti bækurnar mínar og fékk inneignarnótu. Þegar heim var komið hélt ég á netið og sá enn og aftur að ég hafði rétt fyrir mér.

Sem dæmi er skiptiverð fyrir Íslendingaþætti skv. heimasíðu Eymundsson 594 kr. Ég fékk 450 kr. Skiptiverð fyrir Brennu-Náls sögu í útgáfu MM er skv. netinu 744 kr. Ég fékk 504 kr. Skiptiverð fyrir Sögur, ljóð og líf er 1347 kr. en ég fékk 1065 kr. Því hafði Eymundsson af mér 666 kr. Mig munar um minna!

Með kveðju,
Anna Katrín

1 ummæli: