þriðjudagur, 30. ágúst 2011

Eldsneytisgjald á vildarpunktum

Var að kaupa mér flugmiða hjá Icelandair fyrir vildarpunkta meðvitaður að ég þyrfti að greiða skatt af miðunum. Eitt þótti mér kunstúgt. Fram kemur í liðnum „Skattar og önnur gjöld“ að þeir eru ca 23.000 kr. á mann báðar leiðir. Við nánari skoðun þá tekur Icelandair 2 x 7.800 kr = 15.600 kr. sem eldsneytisgjald, þ.e. ég fæ flugmiðann frítt en þarf að borga bensínið á flugvélina. Og þar að auki er þetta misvísandi: Icelandair tekur um 64% af þessu gjaldalið; ríkið (skattur) er um 34% af upphæðinni eða ca 7.800 kr (eða svo virðist vera).

Einhver myndi kvarta ef strætó tæki uppá því sama. ÓKEYPIST Í STRÆTÓ (en þarf að borga fyrir bensín ....). Eða að Icelandair myndi setja arðsemisgjald á hvern flugmiða vegna hærri arðsemiskröfu eigenda á félaginu.

Kv. JBB

sunnudagur, 28. ágúst 2011

Óheyrilegur verðmunur á kjöti

Ég má til með að lýsa undrun og hneykslan minni á mun á verði á milli verslanna. Þannig var að ég fór í Bónus í Breiðholti þann 27. ágúst og keypti mér SS grill Caj lambalundir á kr/kr. 4.898, ég keypti líka SS grill lambafillet á kr/kg 3.998.
Í ljós kom að mig vantaði meira og ég var á leiðinni austur ég kom víða við en fékk ekki þessa vöru fyrr en í Kjarval á Hellu sem er í 12 km. fjarlægð frá framleiðslustað kjötsins.
Þar fékk ég SS grill Caj lambalundir á kr/kg. 5.798 og SS grill lambafillet á kr/kg. 4.998.
Mér þykir þetta óheyrilegur verðmunur á sama kjöti á milli verslanna. Tala nú ekki um að við sem búum á framleiðslustað vörunnar þurfum að greiða 20% hærra verð fyrir lundirnar og 25% fyrir fillet en hægt er að kaupa vöruna frá stórmarkaði.
Þá má geta þess að það er óþolandi að geta ekki lengur séð hvað varan kostar nema að leita að skanna til að athuga verð vörunnar.
kveðja, Jórunn

þriðjudagur, 23. ágúst 2011

Takk Jón Bjarnason!


Prima Donna (geðveikt góður ostur frá Hollandi): 5044 kr/kílóið í Krónunni.

Takk Jón Bjarnason!

Fæðuöryggiskveðjur,
Dr. Gunni

mánudagur, 22. ágúst 2011

Hópkaup svarar ásökunum Gylfa

Ég er að vinna fyrir Hópkaup og sá að Gylfi Gylfason setti inn athugasemd um grófa neytendablekkingu, skipulega glæpastarfsemi.
Þar bendir hann á að samskonar tölva sem var á tilboði hjá Boðeind í gegnum Hópkaup fáist há Tölvulistanum á aðeins 99 þúsund og eitthvað enn lægra í Svíþjóð. Sérkennilegt er þó að hann bætir inn link á verðið í Svíþjóð en ekki til Tölvulistans. Tölvan var upprunalega á verðinu 145.000 hjá Boðeind og lækkuðu þeir verðið verulega niður miðað við að Hópkaup myndi selja a.m.k. 30 tölvur. Starfsfólk Hópkaupa gekk úr skugga um að upprunalegt verð væri raunverulegt og var tilboðið sett á vefinn, þar sem 97 einstaklingar festu kaup á slíkri tölvu fyrir aðeins kr. 87.000,-.
Athugasemdum sem þessum tekur Hópkaup mjög alvarlega og hefur starfsfólk Hópkaupa nú leitað að því hvort hægt sé að fá slíka vél í Tölvulistanum á kr. 99.000,- en ekki fundið hana. Hugsanlega var hún á slíku tilboði um helgina en finnst allavega ekki núna á þeirra vef. Einnig er að sjálfsögðu ekki sanngjarnt að bera saman verð erlendis og miða við að hlutum sé smiglað inn til Íslands eða getgátum um heildsöluverð til endurseljenda m.v. útsöluverð úr stórmörkuðum erlendis. Við vonum að Gylfi hafi gengið úr skugga um að Tölvulistinn væri raunverulega með þessa tölvu á þessu verði en ekki bara heyrt það frá einhverjum öðrum.
Eftir stendur þó að hvort sem Tölvulistinn var með tilboð á þessari vél um helgina eða ekki, þá var verðið lang lægst hjá Hópkaup á Íslandi.
Hér fyrir neðan er athugasemd sem Hópkaup settu á FB hjá sér eftir að þessi umræða fór í gang:
Takk kærlega fyrir allar þessar ábendingar um hvar sé hægt að nálgast sambærilega tölvu á góðu verði. Við vorum að selja tölvur frá Boðeind og þeir lækkuðu verðið frá útsöluverði sínu og gengum við úr skugga um að það væri rétt. Ef hægt er að nálgast sambærilega tölvu í öðrum verslunum á Íslandi þá er það mjög gott fyrir neytendur að vita af því en þannig er nú samkeppnin. Tölvan var nú samt ódýrust hjá Hópkaup. Til hamingju allir sem eignuðust nýja tölvu um helgina.

Valgeir Magnússon

sunnudagur, 21. ágúst 2011

Hóphaup - Gróf neytendablekking

Mig langar að benda á gróft dæmi um neytendablekkingu sem spilar inn á afsláttarsækni landans sem er gjarnan á kostnað skynsemi því afsláttur er bara prósentutala og hið endanlega verð er það sem blífar. Þessu vill fólk gleyma.

Hópkaup auglýsir fartölvu með 40% afslætti en vélin er sögð hafa kostað kr. 145.000 fyrir afslátt og fáist nú á kr. 87.000. Söluforsendurnar eru því þær að neytandinn sé að spara sér kr. 58.000 og fá rándýra klassavél á verulega niðursettu verði,
http://www.hopkaup.is/spraek-asus-fartolva-sem-hentar-vel-i-skolann-og-er-frabaer-heimilisfartolva-a-a-eins-87-000-kr-fra-bo-eind-kostar-145-000-kr-takmarkad-magn-i-bo-i

En við snögga googlun finnst sama vél á kr. 99.000 í Tölvulistanum svo greinilega sést að afsláttarverðið er fiffað til að tilboðið hljómi betur. Fólk er í raun að fá aðeins 12.000 kr. afslátt m/v Tölvulistann en sama vél kostar 70.000 í Svíþjóð sem táknar það að vélin kostar allnokkru minna í heildsölu til íslenskra endursala.

Tölvan er því engin eðalvél heldur bara venjuleg fartölva í ódýrari kantinum sem er seld á fölskum forsendum og kaupendur hafðir að fíflum um leið. Þetta er mjög gróf neytendablekking og jaðrar við skipulega glæpamennsku að mínu mati. En til að dæmið gangi upp þarf líka fáfróða neytendur sem gleypa við öllu sem að þeim er rétt....

Hér er sænska verðið
http://www.prisjakt.nu/produkt.php?p=920379

kv
Gylfi Gylfason

föstudagur, 19. ágúst 2011

Okur á kaffihúsum / Keyrir hægar

Við hjónin förum stundum á kaffihús þegar við kíkjum í bæinn. Áður fyrr fengum við okkur gjarnan kökusneið eða crossaint en núna blöskrar okkur verðlagið. Í Eymundsson á Skólavörðustíg kostar crossaint með súkkulaði 530 kr. og kökusneið í Kaffi Flóru 850 kr. Við keyptum hins vegar hjónabandssælu í Græna Hlekknum á 800 kr. sem er lífræn og til stuðnings Sólheimum. Frábær kaka ca. 8 tommu stór og passar ágætlega fyrir okkur þrjú.
Flest allir bílaeigendur eru ósáttir við eldsneytisverðið í dag en það er eins og sumir fái það frítt miðað við aksturslag. Mér kæmi ekki á óvart að þeir, sem kvarta mest, eru þeir sem eyða mestu. Ég persónulega tók á mínum akstursmáta og dró úr eyðslu um 10%. Ég græddi líka minna stress en finn ekki fyrir að vera lengur á leiðinni. Ég komst líka að því að fleiri eru samferða mér.
Kveðja, Hafsteinn

þriðjudagur, 16. ágúst 2011

Íslensk paprika / Hollensk paprika


Þessa mynd tók ég af verðmiðum á íslenskri papriku vs. hollenskri í Bónus í dag. Ég gat ekki séð sjáanlegan mun á sjálfri vörunni en mikið ber á milli í verðum.
Kveðja
-Villi

miðvikudagur, 10. ágúst 2011

Hárlenging frá helvíti

Ég ákvað um daginn að fá mér hárlengingu hjá Hárlengingar.is á Grensásveginum, og fékk mér eina slíka á laugardaginn seinasta sem kostaði 25 þúsund krónur. Sem er gott verð.
Daginn eftir byrjar mér að klægja og svíða óstjórnlega í hársvörðinn. Svo var ég orðin svo illa haldin að ég eyddi deginum með hausinn undir köldu vatni og komst ekki í vinnuna. Þennan sama dag hringi ég í hárgreiðslukonuna sem gerði þetta sem er einnig eigandinn, og lét hana vita hvað hefði gerst. Hún bauð mér að koma kl átta um kvöldið til þess að taka lengingarnar úr. Ég sagði henni að ég væri föst undir köldu bununni í baðinu og gæti ekkert gert, og hvort ég gæti ekki fengið tíma fyrr en það. Hún sagðist ætla athuga það og hringja fimm mínútum seinna í mig. Fimm mínútur liðu, svo klukkutímarnir, aldrei hringdi hún. Það endaði með því að ég keyrði þangað sjálf kl þrjú og á staðnum var kona sem gat tekið þetta úr fyrir mig. En þá byrjar ballið, ekki nóg með að ég hafi borgað 25 þúsund krónur til þess að setja þetta í, heldur þurfti ég líka að greiða 5000 kr. til þess að láta taka þetta úr.

Á meðan ég sat þarna í stólnum, með tárin í augunum, var ég einnig sökuð um lygar, því það væri sko allt í lagi með hausinn á mér. Hann væri ekkert rauður og hárið væri fullkomlega brennt í.

Frú Fúl

Flott þjónusta hjá Bilaða bílnum

Gamall VW Polo sem við hjónin eigum ofhitnaði í góða veðrinu og eftir smá forkönnun kom í ljós að hringrás í gegnum vatnskassann var lítil sem engin og að viftan fór ekki í gang, s.s. líklega vatnsdæla eða vatnslás (sagði tengdapabbi allavega ;-)

Ég hringdi í ótal verkstæði sem voru öll bókuð og eiginlega flestir dónalegir í símann, var jafnvel boðinn tími eftir 18 daga á einu verkstæðinu með hranalegum orðum "við rukkum tímann ef þú kemur ekki" eins og ég væri að gera símaat.

Einhverstaðar poppaði upp númerið hjá þessum --> Bílaþjónustan Bilaði Bíllinn, Skógarhlíð 10. Ég prófaði að hringja þar sem þeir eru í nágrenni við mig í 105.

Þeir sögðust fara í þetta í hjáverkum, það lægi nokkuð fyrir hvað væri að og þeir væru busy í öðru.

Þá hringja þeir í mig um 20:30 að kvöldi sama dags og segja mér að skipt hafi verið um vatnslás en nú sé bíllinn búinn að vera í gangi í X tíma og viftan fari ekki af stað þó bíllin hitni. Ef þetta sé skynjari þá muni þetta taka allt að tvo daga (í hjáverkum) og mundi kosta <25þ.

Fyrir hádegi daginn eftir er hringt aftur og þá var búið að prófa viftuna, komast að því að hún var OK og finna hvar sambandsleysið var og laga það.

Fyrir þetta borgaði ég 18þ. með nótu og sundurliðun á vinnu og varahlutum (ekkert rugl hjá þessum strákum).

Þetta er í fyrsta sinn sem ég get sagt að ég hafi treyst vinnubrögðum verkstæðis 100%.

Þeir ræddu í upphafi hvað planið væri að gera og áætluðu verðið lauslega, hringdu reglulega og uppfærðu stöðuna, voru svo nokkuð ódýrari en áætlað var og allt að tveim dögum á undan áætlum m.v. svörtustu spá.

Æðisleg þjónusta, það var ekki verið að lofa upp í ermina á sér og allt stóðst sem þeir sögðu.

Bkv.
Kjartan Kjartansson

ps - Ef fólk hefur reynslu af öðrum góðum verkstæðum má það endilega deila henni í kommentakerfinu.
Umsjónarmaður

mánudagur, 8. ágúst 2011

Útsölumarkaður stendur ekki undir nafni

Ég fór á markaðinn í Laugardalshöllinni um daginn og langaði að athuga hvort ég gæti gert góð kaup. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég labbaði um og sá að margt þarna inni var á sama verði og út í búð. DVD-myndir voru á sama verði og myndirnar í Elko. Ég sá spil sem ég er búin að vera að skoða í Hagkaup og þegar ég sá að það var 100 kr dýrari á markaðinum þá var mér nóg boðið og spurði afgreiðslumanninn hvort þetta væri ekki afsláttarmarkaður og sagði honum frá þessu þá yppti hann bara öxlum og gat engu svarað. Rosalega væri ég fegin ef svona markaðir væru ALVÖRU markaðir. Ég hélt að það væri meiningin með svona mörkuðum að verslanir eða heildsalar væru að reyna að losna við lagerdótið og leyfa fólki að versla mjög ódýrt.

kv Nafnlaus

Stríð við Vestmannaeyjar í uppsiglingu?

Sundlaug Vestmannaeyja rukkar börn sem ekki eru frá Vestmannaeyjum um 150 krónur
fyrir staka sundferð. Börn sem eiga lögheimili í Vestmannaeyjum borga ekkert.
Er ekki möguleiki á því að Sundlaugar í Reykjavík rukki Vestmanneyinga aukalega fyrir það eitt að vera Vestmannaeyingar ?
Karl

laugardagur, 6. ágúst 2011

Dorma og Elko - Góðir viðskiptahættir

Langar að vekja athygli á góðum viðskiptaháttum hjá Dorma og Elko. Keypti mér heilsukodda í Dorma í Holtagörðum. Vaknaði ítrekað með verk í öxlunum svo ég fékk að prófa annan kodda. Þegar hann virkaði ekki heldur fór ég og fékk endurgreitt upp í topp. Verri búðir hefðu án efa neytt mig til að fá inneignarnótu svo þetta er til fyrirmyndar hjá Dorma.

Sansa Mp3-spilari sem ég keypti hjá Elko í fyrra hætti að virka. Ég gúgglaði vandamálið og komst að því að það var ekkert sem ég gat gert í málinu. Elko tók við spilaranum án þess að yfirheyra mig. Þetta var svo ódýr vara (8000 kall) að það "tók því ekki að gera við hann" og ég fékk bara nýjan, enda spilarinn enn í ábyrgð. Þar sem ekki var til 2gb spilari eins og ég átti fékk ég 4gb í staðinn og þurfti ekkert að borga á milli. Gríðarlegt win/win sem sé.

Svona eiga búðir að vera!

Dr. Gunni

þriðjudagur, 2. ágúst 2011

Verðtryggingin - Mesta okur Íslandssögunnar?

Verðtryggin er alveg frábært fyrirbæri - fyrir þann sem lánar. Maður tekur lán og borgar af því mánaðarlega í svo og svo langan tíma. Í siðuðum samfélögum (með nothæfan gjaldeyri) ætti lánið að lækka, rétt? Á Íslandi hækkar það hins vegar bara og það ekkert smá.

Einu sinni voru víst bæði laun og lán verðtryggð, og meikar þetta þá kannski aðeins meiri sens. "Verkalýðsforystin" mun hafa samið rassinn úr buxunum í þessu dæmi og eftir sitjum við með sífellt hækkandi íslensku lánin okkar.

Stundum kemur upp umræða um að "afnema verðtrygginguna" en svo koðnar hún bara niður jafnóðum og lánin halda áfram að hækka. "Norræn velferðarstjórn" eða ekki, splittar ekki diff.

Hagsmunasamtök heimilina er ekki að fíla þetta og hér er ágætis grein eftir Andreu J. Ólafsdóttur, formann Hagsmunasamtakanna - Margföld svikamylla verðtryggingarinnar.

Í tilefni af mánaðarmótunum,
Dr. Gunni

Dýrt að hlaða slökkvitæki

Er með slökkvitæki frá Öryggi, léttvatn 2 lítrar. Vantaði áfyllingu og spurði hvað það kostaði. Kom í ljós að það kostar 6.096 kr. að hlaða tækið. Mér blöskraði þetta okur því 8 lítra nýtt tæki kostar tæp 9 þúsund krónur.
Þ.E.

Engin miskun hjá Orkuveitunni

OR innheimtir nú Fráveitugjaldið með sama gjalddaga og eindaga. Það er betra eð vera tilbúinn að borga strax og launin koma inn hjá manni svo ekki komi til harðra innheimtuaðgerða. Flestir hafa þann háttinn á að gera manni a.m.k. 10-20 daga til að borga en það er engin miskun á þessum bæ.
Með kveðju,
Glámur