miðvikudagur, 30. júní 2010

Bestu paprikur í heimi!?

Ég var að koma úr Hagkaupum þar sem er verið að selja lífrænt ræktaðar paprikur frá Sunnu Garðyrkjustöð í pökkum af tveimur saman. Ég leit ekkert á verðið, enda varla geta paprikur kostað mikið, þó þær séu lífrænt ræktaðar og allt saman. Þetta hljóta að vera bestu paprikur fyrr og síðar (á eftir að prófa) því einn pakki kostar litlar 1229 kr! Síðan til að bæta gráu ofaná svart var mér meinað að skila vörunni, jafnvel þó ég hefði beðið um það strax, vegna reglna frá Heilbrigðiseftirlitinu. Ég vigtaði þessar paprikur sem reyndust vera um 300 g sem þýðir að kílóverðið er 4096 kr! Þeir hljóta að gefa paprikunum nautakjöt til að réttlæta þetta verð!
Kveðja,
Ívar

Bónusbrauð á Café Paris

Var að koma úr hjólatúr neðan úr bæ með tveggja ára dóttur mína. Settumst inn á Café Paris og ég pantaði (án þess að líta á matseðilinn) kaffi (regular), kókómjólk og ristaða brauðsneið með osti og smjöri fyrir dóttur mína. Ekki var það fleira í þetta skiptið. Þegar ég fer að borga og sé hvað þetta kostar er mér þó næstum öllum lokið. Fari það lóðbeina andskotans helsjóðandi leið í kjallara þess neðra að borga 590 kr fyrir ristaða brauðsneið úr Bónus. C´mon! Það er hugsanlegt að eigendur staðarins vilji flæma hjólandi vesturbæinga út af kaffihúsinu sínu, þó ég ætti erfitt með að sjá hvaða mótívasjón stæði þar að baki. Hugsanlega gæti ástæðan verið sú að hjólið sem ég kom á var blátt að lit. Það er í það minnsta jafn absúrd og verðið fyrir brauðið.
Baráttukveðjur,
Kristján Þór

Óánægður með Borgun

Fékk hringingu frá Borgun og var boðið "Almennt kort" sem átti víst að kosta 100 krónur á mánuði eða 1200 á ári. Ég sló til og fékk mér Almennt kort plús. Núna nokkrum mánuðum seinna fór ég að skoða yfirlitið og sá að maður borgar uppgjörs- og úrvinnslugjald upp á 345 krónur í hverjum mánuði ofan á 100 krónurnar!, semsagt kortið kostar 5340 kr á ári, en ekki 1200. Þegar hlutur kostar í raun 4,5x meira en auglýst verð gefur til kynna (kortið er auglýst á 100 krónur á heimasíður Borgunnar), þá er um alvarlegt svindl að ræða.
Annað kort sem Borgun býður upp á er American Express. Ef maður verslar við Atlantsolíu, Skeljung eða Orkuna eða notar á annað borð sjálfsala, þá er ekki ráðlegt að fá sér svoleiðis kort. Þú getur ekki einu sinni tengt þau við títt nefnda lykla frá þessum fyrirtækjum. Þú verður að versla við Olís eða N1 eins og mér var bent á af starfsmanni Borgunnar. Vildi bara láta fólk vita áður en það fær sér American Express kort, ekki gerir Borgun það.
Kv. Nafnlaus

mánudagur, 28. júní 2010

Félagar óánægðir með nammisölu Sambós

Við félagarnir höfum farið reglulega í Sambó, nammiverksmiðjuna á Tunguhálsi, til þess að kaupa nammi. Þeir eru með lítið söluborð þar sem hægt er að kaupa óinnpakkað nammi. Um daginn fórum við þangað og ætluðum að kaupa okkur Þrista á góðu verði. Þar var okkur sagt að pokinn af þeim kostaði 550 krónur. Eitthvað fannst okkur þetta dýrt en ákváðum samt að kaupa okkur einn poka fyrst við vorum búnir að gera okkur ferð þangað. Þegar heim var komið ákváðum við þó að vigta pokann til að sjá hvert kílóverðið væri.
Pokinn var 400 grömm og kostaði 550 krónur.
Þetta þýðir að 1 kg kostar 1375 krónur.
Þá kom í ljós að það er dýrara en í þeim búðum sem við athuguðum síðar í. T.d. kostar kílóið 1192 krónur í Bónus, e-ð svipað í Krónunni og innan við 1300 krónur í Nettó. Okkur þykir bara undarlegt að óinnpakkað nammi beint úr verksmiðjunni sé dýrara en í helstu stórmörkuðunum. Svo voru viðtökurnar heldur dónalegar.
Takk fyrir,
A & G

Villandi kílóverð í Fiskikónginum.

Fiskikóngurinn Sogavegi auglýsir Humar á kr 2000 kr kg. Þetta er villandi því það er ekki til humar í þessari búð á kr 2000 kg. Það eru einungis 2 kg pakkningar í boði á þessu verði sem segi að það verður að borga 4000 kr ef ætlunin er að fá Humar á 2000 kr kg. Þetta kemur ekki í ljós fyrr en maður ætlar að versla.

Annað
Liðamín og lýsi frá Lýsi kostar rúmar 1700 kr í Krónunni, en 3400 í Garðsapóteki sem átti að vera svo ódýrt apótek. Hvað er það aftur sem var svo ódýrt í Garðsapóteki?
S.S.

þriðjudagur, 22. júní 2010

Reiknivél PFS

Í dag var opnaður nýr vefur Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir neytendur, Reiknivél PFS.
Vefnum er ætlað að auðvelda neytendum að átta sig á flóknum fjarskiptamarkaði og bera saman verð á þjónustuleiðum fjarskiptafyrirtækjanna fyrir heimasíma, farsíma og ADSL nettengingar. Reiknivél PFS tekur til algengustu innanlandsnotkunar á heimasíma og farsíma og niðurhals á gögnum erlendis frá með ADSL tengingum.
PFS

mánudagur, 21. júní 2010

Naut eða gömul belja?

Ég er nú bara aðeins að velta vöngum yfir því hvort verið sé að segja viðskiptavinum ósatt eða hvort þetta skipti engu máli. En það er alltaf talað um að t.d. hamborgarar séu gerðir úr nautahakki, nautagúllas er til líka, nautalundir og alltaf eitthvað nauta nauta.
Ég þekki það nú ekki hvort það sé einhver munur á bragðinu en eflaust ekki því það sem ég er að reyna að segja að þegar maður borgað nautakjöt þá veit maður í raun aldrei hvort maður sé í raun að borða nautakjöt eða gamla belju.
Þetta er nú bara svona stutt pæling hjá mér, er í lagi að kalla allt nautakjöt bara nautakjöt þegar það er alveg pottþétt að það er mun líklegra að maður sé að borða gamla belju heldur en naut.
Bara stutt pæling um kjötiðnaðinn...
G. Á.

Reiðhjólahjámar fyrir börn

Ég fór á dögunum að kaupa reiðhjólahjálm fyrir son minn sem er 4 ára. Ég fór á marga staði að leita að barnahjámi. Flesta hjálma fann ég í Húsasmiðjunni, voru verðin þar á samll hjálmum frá kr. 4.990.- til kr. 7.990.- (þess má þó geta að tilboð var á hjálmum sem voru xx small á kr. 1.990.- en slíkir hjálmar passa aðeins mjög litlum börnum, eða köttum). Voru verðin í Húsasmiðjunni í takt við verðin á öðrum stöðum. -Okur
Ég fór í Europris og fann þar hjálma sem voru talsvert ódýrari og keypti þar mjög flottan og traustvekjandi hjálm á kr. 2.800.-
Maður veltir fyrir sér hvað býr í þessum rosalega verð mun.
kv,
Unnar

CNET segir ódýra kapla jafn góða og dýra

Mæli með að fólk lesi þetta. Ódýrir HDMI tölvukaplar eru alveg jafn góðir og fokdýrir.
Kveðja,
Trausti

miðvikudagur, 16. júní 2010

Buy.is :o)

Langar bara að lýsa ánægju minni með þjónustu og verð hjá buy.is. Var að leita mér að minniskorti í farsíma og var búinn að vera að skoða á netinu hér heima og erlendis. Fæstir sendu hingað til lands þannig að ég ákvað að leita bara fyrir mér hér innanlands (enda mikilvægt að hlúa að verslun og þjónustu hér.)
Var að leita mér að 2GB korti, Síminn bauð kortið á 3490kr en Buy.is á 2490kr
Pantaði það og greiddi hjá Buy.is og fékk það í hendur að nokkrum dögum liðnum. Allt stóðst og ég var sáttur.
kv. Ívar

þriðjudagur, 15. júní 2010

Soyamjólkin í Bónus

Heilsuhúsið selur soyamjólk natural kr 188, sama soyamjólk í Bónus kr 254.
Heilsuhúsið selur soyamjólk plus calcium á kr 283, sama soyamjólk í Bónus kr 254.
Hvað er á seiði, jú soyamjólk natural er mikið ódýrari í innkaupi og þess vegna ódýrari í Heilsuhúsinu.
Bónus notar hins vegar tækifærið og selur báðar tegundir á sama prís og fær ca kr 66 í bónus fyrir sig af ódýrari vörunni.
Ingibergur Elíasson

miðvikudagur, 9. júní 2010

Apótekið "lægra verð"?

Ég fór í 3 apótek og skoðaði Nutrilenk 180 töflur:

Garðsapótek: 6.200 kr.
Apótekarinn: 6.440 kr.
Apótekið: 7.367 kr.

Ég hef ekkert verslað hingað til við Apótekið og það er greinilega ekki að fara að breytast.

Óska nafnleyndar

mánudagur, 7. júní 2010

Næluokur Lyfju

Okkur hjónin vantaði öryggisnælur og fórum í Rúmfatalagerinn á Smáratorgi, en því miður voru þar allar öryggisnælur uppseldar. Fórum við þá í Lyfju í sama húsi og keyptum 12 nælur í kassa. Þetta voru stórar öryggisnælur nr. 4 framleiddar í Þýskalandi og hentuðu okkur vel. Við ákváðum að kaupa einn kassa, en þegar kom að því að borga brá okkur heldur betur. Verðið var 654 krónur eða sem svarar 54 krónum á stykkið. Þetta er okur sem við viljum koma á framfæri.
Guðmundur

sunnudagur, 6. júní 2010

Mælir með Réttingarverkstæði Hjartar

Svoleiðis er að ég lenti í smátjóni með bílinn minn um daginn og var bent á að fara á Réttingarverkstæði Hjartar á Smiðjuvegi 56 í Kópavogi. Fór þangað og þeir tóku bílinn strax og löguðu það sem þurfti að gera, skiptu um húdd, framrúðu, sprautuðu svolítið og svona. Lofuðu bílnum út á föstudegi og stóðu við það. Heyrðu, svo sæki ég bílinn eftir hádegi og varð heldur betur hissa, búið að sprauta frambretti og laga rispur og högg hingað og þangað sem ég hafði ekki beðið um. Borgaði minn reiking án þess að vera rukkaður aukalega fyrir það sem hafði verið gert aukalega. Geng glaður út í minn bíl og varð enn meira hissa, búið að þrífa bílinn hátt og lágt að innann!! Þjónusta sem ein og sér hefði kostað nokkra þúsundkalla á bónstöð. Frábær þjónusta í alla staði og ég mæli hiklaust með þessu verkstæði.
Baldur

þriðjudagur, 1. júní 2010

Euroshopper/Bónus kjúklingabringur - Tilraun

Eftir að hafa keypt frosnar kjúklingabringur oft og þótt verð á þeim gott, þá tók ég ítrekað eftir því að þær rýrnuðu mjög mikið við eldun. Og í kjölfarið á því ákvað ég að gera tilraun (eins vísindalega og ég gat). Hún fólst í því að kaupa bringur af mismunandi tegundum, elda og sjá hvert raunkílóverð á þeim er. Til að reyna að gæta sanngirni og ná fram ágætis meðaltali keypti ég um 4kg af þessum tegundum. Hér á eftir fylgja niðurstöður fyrir fyrstu 2 tilraunirnar. Þess ber þó að minnast á að kílóverðið á Euroshopper kjúklingabringunum sem ég notaðist við gæti hafa breyst þ.s. ég gerði þann lið tilraunarinnar fyrir um ári síðan.

Euroshopper kjúklingabringur
Pakkningar: 4x1 = 4kg
Þiðinn kjúklingur: 3,54kg
Eldaður kjúklingur: 2,494kg
37,65% Rýrnun frá kaupmagni að elduðu magni
Raunkílóverð: 1495 * 1,3765 = 2058 kr/kg
* Miðað er við Euroshopper bringur í pokum á 1495 kr/kg

Bónus ferskar kjúklingabringur
Pakkningar: 0,848+0,834+0,832+0,826+0,870 = 4,21kg
Eldaður kjúklingur: 3,535 kg
16% Rýrnun frá kaupmagni að elduðu magni
Raunkílóverð: (1998*0,8) * 1,16 = 1854 kr/kg
* Miðað er við Bónus ferskar bringur í bökkum á 1998 kr/kg með 20% afslætti

Niðurstöður
Hér má sjá, að þó kílóverðið á Euroshopper bringunum virðist vera nokkuð lægra, þá eftir eldun breytist það allnokkuð í hina áttina. Bónus fersku bringurnar eru því um 204 kr/kg ódýrari en ES bringurnar.

Kv. Siguurður