laugardagur, 30. janúar 2010

Fokdýrt að raka sig!

Ég fékk sjokk þegar ég ætlaði að kaupa blöð í Gillette Mach 3 power fushion bla bla rakvélina mína. 8 blöð á 4000 kall í Bónus! Jæja vinur!
Það finnst örugglega fleirum en mér þetta blóðugt verð svo það er um að gera að nota þessi blöð til hins ítrasta. Þannig geta blöðin enst von úr viti. Hér er sýnt hvernig á að lengja líf blaðanna:

http://www.instructables.com/id/How-to-extend-the-life-of-your-Razor-Blade-keeping

Þetta er súpereinfalt trix, maður nuddar bara blaðinu við gallabuxur! Næs...
Gunni

Forðist bílaumboðin!

Um daginn fór peran í loftljósinu í bílnum mínum, Subaru Legacy 2006 (þessi sem kviknar á þegar maður opnar hurðina). Fór í varahlutaverslunina Bílasmiðinn í dag, sem áttu ekki alveg eins peru, en sambærileg pera kostaði 66kr.
Fyrir forvitnis sakir hringdi ég áðan í Ingvar Helgason og kannaði verðið á þessari peru hjá þeim. Hún var ekki nema um 1050% dýrari peran þar, eða um 760kr.
Það eru gömul sannindi að maður á að forðast bílaumboðin eins og heitan eldinn.
kv,
Grétar

Okur og svívirða við neytendur útaf heimabjórdælum

Mér finnst þetta vera algjört svik. Heimilstæki er búið að vera moka út á útsölu nú í janúar svona bjórdælum http://www.ht.is/index.php?sida=vara&vara=6502. Mér fannst þetta ótrúlega hagstæða tilboð grunsamlegt og ég athugaði málið hjá vínbúðinni ATVR og þeir tjá mér að innflutningsaðilinn á bjórkútunum sé hættur með þetta. Sem er Carlsberg bjór frá Vífilfelli.
Það er örugglega búið að selja fleiri hundruð af svona heimabjórdælum undanfarin ár!
Jonas

Dýrt batterí

Duracell 2032 Button Cell Battery fæst á 2 dollara hér. Sama rafhlaðan kostar 1600 kall á bensínstöð í Árbæ. Þetta er rán um hábjartan dag!

sunnudagur, 24. janúar 2010

Dýr ís í Álfheimum

Ég fór í Ísbúðina í Álfheimum um daginn og ætlaði að kaupa mér bragðaref. Ég leit yfir verðspjaldið og sá þá að lítill bragðarefur kostaði 755 kr!!! Ég átti ekki til aukatekið orð og ákvað að fá mér frekar ís í boxi. Ég fékk mér lítinn ís í boxi með heitri karamellusósu og mars. Ég rétti stúlkunni kortið og fékk ísinn. Hann var frekar lítill og svona 6 marsbitar ofan í. Hún sýndi mér afritið og þar stóð 655 kr. takk fyrir...!! Mér finnst þetta svo ógeðslega mikið okur!! Ég vinn á stað sem selur sömu tegund af ís, miklu stærri og með meira nammi og sósu á 500 kr. og fólk er að kvarta yfir því.. Ég fer a.m.k. ekki aftur í Álfheima að fá mér ís.
Kv. Sif

Harmsaga með Símann

Hér er harmasaga mín varðandi samskipti við Símann:
Vill bara eindregið vara við sölumönnum símans og þar með símanum sem fyrirtæki.
Þegar þeir hringdu fyrst, þá var mér sagt : Hvernig væri að fá sér Sjónvarp gegnum ADSL símans ? Kostar ekkert og verður alveg ókeypis.
"Já" hugsaði ég af hverju ekki. Tökum það. Nokkrir mánuðir liðu og allt í einu fær maður reikning upp á næstum 1000 kr. Hvað er þetta ?
Maður fær svar :
"Frá og með 1. mars kemur leigugjald á routerinn 350 kr. Það kemur einnig 600 kr mánaðargjald fyrir grunnpakkann á Sjónvarpi Símans".
Þá var það sem átti að vera ókeypis komið í næstum 1000 kr á mánuði. Þá er hringt aftur. Heyrðu vilt ekki spara þér þennan 1000 kall
og fá skjá 1 ókeypis í desember og svo kostar hann 2200kr á mánuði og við fellum niður restina. S.s. heildargreiðsla 2200kr á mánuði.
Maður lætur enn einu sinni plata sig og segir já (já ég veit ég er vitlaus). Hvað fær maður í reikning næstu mánaðarmót eftir frían desember.
Ekki nema litlar 6050 kr. (fyrir utan 1300 kr fyrir leigt efni). Hvaða svör fær maður svo þegar maður spyr ?
Já þú ert með áskriftina "SkjárEinn" og "SKJÁRHEIMUR - Toppur 2". Það kostar bara þetta, já við getum ekkert gert í þessu í dag.
Ertu ekki til í að hringja seinna og já þú verður sjálfur að skila draslinu til okkar ef þú vilt hætta alveg í áskrift.
Ég hafði aldrei samþykkt neitt annað en að fá bara skjá einn og núna á ég að borga 6050 kr fyrir 1 mánuð.

Kveðja
Ari Bjarnason

miðvikudagur, 20. janúar 2010

Okur í Appelbúðinni

Hringdi í Applebúðina og spurðist fyrir um Ipod shuffle hleðslu og sync snúru þar sem ég hafði týnt minni. Þeir selja snúruna á 5.990 kr! Mér svelgdist nú bara á og varð að hringja aftur 10 mín. seinna til að fá þetta staðfest að þetta hafi örugglega ekki verið eitthvað rugl.

Þess má geta að samskonar snúra kostar $4.45 (558 kr) á Amazon.com

Ég spurði einnig um heyrnartól í Ipoddinn og bað bara um eitthvað samskonar og hafði fyllt með honum, þ.e. svona basic lítil. Verðið hjá Apple 6.490 kr. en heyrnartól eins og fylgdu með Ipodnum kosta $1.76 (221 kr.) á Amazon.com.

Amazon selur bæði nýtt og notað, en þessar vörur sem ég tékkaði á eru nýjar ekki notaðar.

kv.
Þorsteinn

þriðjudagur, 19. janúar 2010

Verðmunur á íslenskum hval - mest af sama bátnum!!!

Loksins getur maður fengið súran hval. Svo fer maður að skoða verðið
á honum og það er að ca 1300 munur á milli fiskbúða: Gamla fiskbúðin í
Hafnarfirði er með hann á 2150 kr., en svo er kílóið 3490 kr. hjá Fiskikónginum. Ég á
eftir að skoða í stóru búðunum, sem eru með þorramat. Vildi bara segja
frá þessum verðmun á íslenskum hval - sem mest allur kemur af sama bátnum frá íslandi.
Kveðja,
Arnar Þór

mánudagur, 18. janúar 2010

Aðvörun vegna "Virðisaukandi þjónusta" tónlist.is hjá Símanum

Ég tók eftir einum lið á síðasta símreikningi mínum merktur Virðisaukandi þjónusta tónlist.is upp á 2.196 kr.
Fékk samband við þjónustuver hjá tónlist.is (sem er bara opið á milli 9 og 11 alla virka daga). Þar var mér sagt að ég væri í áskrift á streymi á lögum hjá þeim gegnum Símann. Þetta er þjónusta sem ég hef aldrei notað, en það rifjaðist reyndar upp fyrir mér að Síminn var með einhverjar auglýsingar í sumar um frítt niðurhal á lögum sem ég mundi eftir að hafa kíkt á einu sinni. Þar sem í ljós kom að þetta var hreint ekki frítt niðurhal, heldur bara aðgangur að lögum sem hægt er að hlusta á ef maður er tengdur á netinu gengum aðgangsorð og vesen, þá hafði ég engan áhuga á þessu þar sem ég kaupi þá frekar þau íslensku lög sem ég vil hlusta á.
En það sem svíður mest er að hafa verið blekktur til að borga fyrir eitthvað í marga mánuði sem ég vissi ekki af fyrr en ég tók eftir þessu af rælni á reikningsyfirliti. Er líklega búinn að borga 12-14 þúsund á þessu tímabili þar sem byrjað var að rukka 549 kr. á viku frá því í ágúst 2009. Það er örugglega fullt af fólki þarna úti sem veit ekki af því að það er að borga þarna aukakostnað fyrir ekki neitt. Samkvæmt þjónustufulltrúa tónlist.is var í smáa letrinu talað um að segja þurfti upp þessari "ókeypis" þjónustu fyrir ágúst 2009(auglýsingaherferð Símans var í júni.)
Auðvitað játa ég á mig aulaskap fyrir að hafa ekki tekið eftir þessu fyrr, en mér finnst samt óþolandi að geta ekki treyst því að það sé ekki sífellt verið að lauma inn á mann aukakostnaði bara ef maður er ekki sífellt að vakta kostnaðarliði sína.
Með kveðju, Alvar

sunnudagur, 17. janúar 2010

Ekki sniðugt að kaupa bagðefni í Soda Stream

Ég var í Byko í dag og sá þar Soda Stream tæki til sölu og á eitt slíkt
gamalt og gott. Ég og konan erum að ganga fram hjá rekkanum með
herlegheitunum í búðinni og rekumst þá á blandefnið fyrir græjuna. Og hvað,
það kostar tólfhundrað kall e-ð sem dugar í 12 lítra. Ok við pældum ekkert
meira í því fyrr en út í bíl. Keyptum ekki neitt. Þá förum við að hugsa.
Hundrað kall líterinn plús gosið og þú gerir þetta sjálfur vááá. Ég kaupi
svo kók zero 2 lítra í dag eftir þetta í bónus á 175 bokkuna. Það mætti þá
benda Byko á að selja bara kók zero því þá væri það bara ódýrara. Ég ætla
síðan ekki að tala um það sem ég sá að ætti að hækka út af þessu blessaða
prósenti í vsk því það var svo fjarri að það var djók. Voru 2 miðar á vöru
og bara búið að laga annan.
Kveðja,
Einar

Blekkingar á útsölum

Nú þegar kreppan er í algleymingi er ekkert selt í verslunum nema að það sé á afslætti eða þá "ennþá á gamla verðinu". T.d. eru búðirnar Herragarðurinn og Bossbúðin (sem eru sama félag) búnar að keyra á 20% afslætti í mest allt haust. Þetta er auðvitað enginn afsláttur heldur hafa bara allar vörur í búðunum verið verkmerktar 25% of hátt. Flík sem þú borgar 800 kr fyrir er verkmerkt á 1000 kr. Þetta er kjánaskapur sem allir sjá vonandi í gegn um.
Hinsvegar versna málin þegar kemur af útsölum. Þegar nýársútsölunar byrjuðu þá var auglýstur 40% afsláttur og nú er hann kominn í 50%. Þetta er auðvitað bara blekking vegna þess að afslátturinn er miðaður við verðmiðann. Á 40% afslætti kostar því flíkin sem var seld á 800 kr fyrir Jól 600 kr á útsölu. Jú, það stendur 1000 kr á verðmiðanum en í reynd er þessi útsala bara 25% (600/800 = 0.75) þar sem flíkin var líklega aldrei seld á 1000 kr. Sama gildir um 50% útsölu - nú kostar sama 800 kr flík 500 kr sem er 37.5% afsláttur.
Björn

fimmtudagur, 14. janúar 2010

Keypti rakvélablöð á Ebay

Eins og við vitum sem notum raksköfur þá er verðið ekki bara okur heldur komið út úr öllu korti. Ég skellti mér því á Ebay og keypti 56 blöð og eina sköfu (með blaði) Gillete Mach 3 og þetta kostaði með sendingarkosnaði 11.169 og tollur var 3.398 semsagt 14.567.ef við deilum þessum 56 blöðum í þessa upphæð og sleppum sköfunni þá kostar blaðið 260 og þá kostar hylki með 4 blöðum 1040 eða tæplega þrisvar sinnum minna heldur en út í búð á Íslandi. Þegar okrið er orðið svona mikið hér verður maður að bjarga sér ekki satt?
Róbert

miðvikudagur, 13. janúar 2010

Vöruhækkanir í skjóli VSK breytinga

Ég keypti í dag smá hylki af tonnataki í N1. Hilluverð kr. 579, en nýtt verð kr. 751. Það er 30% hækkun. Spurði hverju þetta sætti, og var bent á tilkynningu á veggnum, sem nú er að finna í flestum búðum, um að hilluverð og raunverð stemmi ekki vegna breytinga á VSK á sumum vörum úr 24,5% í 25,5%. En þessi breyting á VSK ætti aðeins að valda 1,255 / 1,245 = 0,8% hækkun! Hér er hækkunin 38-föld á við það.

Ef verslunareigendur nýta sér almennt þennan möguleika til verðhækkana er varla von á góðu varðandi verðbólguna. Ætli Steingrímur hafi hugsað út í þetta? Fróðlegt væri að sjá könnun á þessu.

Kv,
Davíð

mánudagur, 11. janúar 2010

Flugeldaokur

Í kringum áramót hef ég haft það að venju að versla alla mína flugelda hjá Flugeldamörkuðum björgunarsveitanna og styrkja gott málefni. Það mun ég eflaust ekki gera aftur. Á þrettándanum kom ég við á einum af sölustöðum þeirra og ætlaði að versla flugelda fyrir kvöldið. Venjulega veita þeir manni ágætan afslátt þennan dag og bjóst ég við því sama þetta árið. Eftir að hafa valið slatta af flugeldum komst ég að því að gefinn væri 10 % afsláttur. Ég spurði hvers vegna ekki væri gefinn meiri afsláttur miðað við að síðustu ár hafi ég fengið margt á hálfvirði. Þá var mér tjáð af sölumanninum að afslátturinn væri svona lítill vegna þess að þeir hefðu nánast ekkert hækkað verðið síðan árið áður (2008). Þetta er lygi. Ég á ennþá bæklinginn sem þeir gáfu út í fyrra sem sýnir úrval og verð á flugeldum. Ég bar saman 2008 og 2009 bæklingana og þetta er niðurstaðan.

Nafn Verð 2008 Verð 2009 Hækkun
Lásbogi 3850 6300 64%
Gun Powder 2900 5400 86%
Gullraketta 2550 5400 112%
Ýlukaka 550 3200 480%

Þetta er aðeins brot til að sýna hækkunina. Ég lét ekki ljúga að mér og fór annað og keypti mér flugelda þetta árið.

Takk fyrir!
Aron

laugardagur, 9. janúar 2010

Okur á bíleigendum

Hér geturðu séð brot af raunverulegu okri sem reynt er á bíleigendum:

http://www.leoemm.com/brotajarn32.htm

Kveðja,
Leó M. Jónsson

Sjónhverfingar í Elko

Ég var staddur í Elko 30 Des. og var að skoða dvd spilara, rak þá augun samskonar dvd spilara og mamma mín hafði keypt í byrjun Des. Þá kostaði spilarinn kr. 7990. Þegar ég var í búðinni kostaði hann 30 Des. kr. 9990. Sami dvd spilari var síðan á útsölu eftir áramót með 20% afslætti á 7990. Þetta tel ég vera dæmi um sjóhverfingar, þarna er verið að hækka vöruna til að geta veitt háan afslátt.
Kveðja,
Ívar

föstudagur, 8. janúar 2010

Dýrt cellofan

Langaði bara að láta vita hversu illilega ég lét taka mig í gær!
Þurfti að pakka brúðkaupsgjöf í snarheitum, fólkið á leið úr landi og
kom við í Blómabúðinni Burknanum í Hafnarfirði að fá pakkað inn í
cello og smá borða með.
Yfirleitt spyr ég nú áður hvað kostar að fá cellu og smá borða áður
en hafist er handa en núna var ég á svo mikilli hraðferð að ég
gleymdi því.
Fékk cello utan um 2 lopapeysur og ögn af svörtum venjulegum borða á
upp á punt og þegar átti að borga jú 900 krónur.
Ég hef oft fengið svipaða þjónustu, m.a. í Garðheimum, Blómabúð í
Mjóddinni og fleiri stöðum og held ég hafi í það mesta borgað 300
krónur en þá var líka pakkað og skreytt meira.
Ég átti ekki til orð, 5 mínútur, 2 metrar af borða og aðrir af cello
í það mesta, 900 krónur takk fyrir.
Ég passa mig allavega á að gleyma aldrei að spyrja aftur um verðið
fyrirfram eða fer og fjárfesti bara sjálf í cello og borða!
Fer allavega aldrei aftur í þessa okurbúllu þarna í Hafnarfirðinum.
Kveðja, Una

Slökkvið ljósin!

Eitt sem taka mætti vekja athygli á er óhófleg rafmagnseyðsla fyrirtækja. Ég ók í gærkvöld fram hjá Glitni í Laugarnesinu og þar var húsið greinilega mikið til mannlaust en ljós í hverjum einasta glugga (skrifstofu). Það má vera að rafmagn á Íslandi sé ódýrt en á meðan ég borga rafmagnið hjá þeim, vil ég endilega að það verði haldið námskeið í að kenna að slökkva ljós...víðast hvar er þetta einn takki við útgang (hurð) á viðkomandi skrifstofu og ætti ekki að taka nema svona viku að kenna að ýta á hann.
Annar aðili sem truflar mig oft er golffélagið í Grafarholti. Þar á bæ (minnumst þess að golfíþróttin fær ansi mikla styrki) eru flóðljós í gangi meira og minna allt árið, allan sólarhringinn. Þetta kostar væntanlega eitthvað og aftur – það erum við sem borgum. Svona nokkuð þarf að skoða og passa uppá.
Og á meðan ég er að tuða: bankarnir eru enn að eyða milljörðum í rugl. Núna hafa þeir bara breytt um nafn og starfsemin heitir skilanefnd…kaupþing eitt og sér er með um milljarð í launagreiðslur til sinna mjög svo vellaunuðu starfsmanna í þessari nefnd og ég á von á þvi á að hinir bankarnir séu það líka.

sunnudagur, 3. janúar 2010

Tölvutek beitir Hagkaupsaðferðinni, hækkar álagningu dagana fyrir jól

Ég vil deila biturri reynslu minni af að versla jólagjöf í tölvubúðinni Tölvutek í Borgartúni.
Ég fór í helstu tölvubúðirnar fyrir jólin að leita að svokölluðum
sjónvarpsflakkara, ég endaði á að velja mér Western Digital
sjónvarpsviðmótsgræju og Lacie 1TB flakkara (svona laus harður diskur), í
verslunninni Tölvutek og kostaði þetta saman 49.990 kr. Þegar ég ætlaði að
fjárfesta í þessari gjöf og í verslunina var komið var mér sagt að þetta
væri ekki til en myndi koma daginn eftir en einnig var mér bent á að
daginn eftir kæmi glæný rosagræja sem væri miklu, miklu betri en það væri
tæki frá Lacie sem sameinaði þetta tvennt, flakkari sem hægt væri að
tengja í sjónvarp og mjög stílhreinn, flottur og spilaði allar gerðir
skráa. Ég var samt ekki sannfærð en bað um að bæði það sem ég hafði ætlað
að kaupa og ein svona ofurgræja yrði tekin frá fyrir mig og ég ætlaði að
ákveða mig daginn eftir (ofurgræjan kostaði 10þús meira en það sem ég
hafði valið). Daginn eftir þá endanlega sannfærir sölumaður Tölvuteks mig
um að ofurgræjan sé svo flott og svo miklu betri kaup og ég beit á agnið
og keypti græjuna á 59.990 kr og gaf kærastanum í jólagjöf. Þetta var
21.desember.
29.desember, mánudaginn eftir jól, er ofurgræjan - þessi rosaflotta, nýja,
besta græja, komin á útsölu á 49.990 kr. Þeir lækkuðu verðið á þessari
rosagræju sem var nýkomin til landsins um tíuþúsund á viku...
Ég hringdi í verslunina til að vera alveg viss um að um sömu græju var að
ræða og var það staðfest við mig.
Það segir mér eitt: að Tölvutek lagði óeðlilega á vörur sínar fyrir jólin.
Hvernig geta þeir öðruvísi leyft sér að selja sínar nýjustu og flottustu
vörur sem fara í sölu viku fyrr á svo miklu lægra verði svo skömmu síðar?
Ég endaði með að versla jólagjafir þarna fyrir yfir 80.þús kr.
Ég mun beina mínum viðskiptum annað næstu jól en ekki láta Tölvutek plata
mig aftur með þessari Hagkaupsaðferð sinni.
G.L.