laugardagur, 23. október 2010

Er eðlilegt að ferðamenn borgi meira en innfæddir?

Mikið og frábært húllumhæ er nú yfirstandandi vegna friðarsúlu Johns Lennons í Viðey. Boðið er upp á kvöldferðir út í eyjuna. Lagt er af stað öll kvöld kl. 20. Leiðsögumaður tekur á móti gestum og gengur með þeim að verkinu og fjallar um það sem fyrir augum ber. Naustið, skáli við hlið súlunnar, seldur léttar veitingar. Gjald í þessar ferðir er kr. 5.000 fyrir fullorðna og kr. 2.500 fyrir börn, 7-15 ára. Þetta þótti Birni heldur dýrt. Hann hafði samband: „Alls verða þetta kr. 17.500 fyrir mína fjölskyldu. Mér finnst það nú vægast sagt blóðugt!“

Björn hefur ekki tekið eftir smáa letrinu. Ef grannt er skoðað má lesa: „Allir handhafar greiðslukorta í íslenskum bönkum njóta sérstakra kjara og býðst að kaupa tvo miða á verði eins.“

Með öðrum orðum: Ef þú ert Íslendingur borgar þú helmingi minna en ef þú ert útlendingur. Friðarsúluskoðunin lýtur þar með svipuðum lögmálum og verðlagningin í Bláa lónið: „Fram til 1. apríl 2011 fá handhafar greiðslukorts frá íslenskum banka sérkjör í Lónið; 1.500 kr. á mann. Aðrir borga 28 Evrur eða 4.500 krónur.“ (af heimasíðu Lónsins).

Tvær skoðanir eru uppi um þessa tvöföldu verðlagningu. Sumir segja að þetta sé plebbaleg mismunun, jafnvel siðlaus, enda sé bannað að mismuna fólki eftir þjóðerni (eða uppruna greiðslukorta í þessu tilfelli). Aðrir segja að ferðamennirnir geti bara vel borgað meira en heimamenn, enda hafi þeir ekki tekið þátt í uppbyggingu ferðamannastaðanna. Starfsemin í Viðey er til að mynda niðurgreidd af skattfé sem aðeins Íslendingar hafa lagt til. Þar að auki tíðkist svona tvöfalt kerfi víða í útlöndum.

Hvað segir Einar Örn Benediktsson, formaður Ferðamálaráðs Reykjavíkur, um málið?
„Þessi tvöfalda leið er það sem mörg ferðaþjónustufyrirtæki hafa farið þegar gengi krónunar er lágt. Auðvitað virkar þetta tvímælis, en ég var í Istanbul í vor sem leið og þá voru þrjú verð í gangi: námsmenn, innfæddir og ferðamenn. Reykjavíkurborg niðurgreiðir almennar ferðir út í Viðey og er frítt fyrir börn að 6 ára aldri, 6-18 ára 500 kr., fullorðnir 1000 kr. og eldri borgarar 900 kr. Mér finnst alveg athugandi að hafa hærri verðskrá, ef þjónstuaðili telur það innan marka þess sem þjónustan sem hann býður þolir. Það er líka til dæmis umhugsunarefni að Reykjavíkingar borga niður ýmsa þjónustu sem við notum. Til að nefna eitt þá kostar rúmar 2 evrur í sund. Hvar í Evrópu kostar 2 evrur inn á háklassa sundstaði sem sundlaugar Reykjavíkur eru? Má biðja útlendinga sem heimsækja okkur að borga meira?

Dr. Gunni (Birtist fyrst í Fréttatímanum 15.10.10)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli