þriðjudagur, 7. apríl 2009

Lágvöruverðsverslun...???

Sælt veri fólkið,
Í dag, 6. apríl 2009, birtist frétt á www.mbl.is sem fjallar um þann verðmun sem reyndist vera á matvörukörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í 8 verslunum 2.apríl s.l. Þar kemur fram að vörukarfan var ódýrust í Bónus þar sem hún kostaði kr. 15.158 en dýrust í Samkaup Úrval þar sem hún kostaði kr. 21.402. Þessir munur á Bónus og Samkaup-Úrval, sem nú er augljós staðreynd, mælist sem kr 6.244,- eða því sem nemur um 41%. Þrátt fyrir að um algjöra hörmungarstaðreynd sé að ræða og að undirritaður hafi búsetu í sveitarfélagi sem eingöngu hefur matvöruverslanir Samkaup-Úrval innan sinna marka, þá verður ekki fjallað sérstaklega um það í þessu bréfi.
Í umræddri frétt er hlekkur inn á excel skjal þar sem allar forsendur könnunarinnar koma fram. Það sem undirrituðum þykir stinga verulega í augun er að matarkarfan mælist ódýrari í þjónustu- og vöruúrvalsversluninni Fjarðarkaupum í Hafnarfirði, þar sem hún kostar kr 17.182,- heldur en hún gerir í lágvöruverðsversluninni Krónunni á Bíldshöfða, þar sem hún kostar kr 17.385,- .
Munurinn á körfunni er reyndar ekki nema kr 203,- , en Fjarðarkaupum í hag engu að síður og því er ekki óeðlilegt að velta fyrir sér ýmsu. T.d. er hægt að velta fyrir sér hvort fara megi eins frjálslega með nafnbótina "lágvöruverðsverslun" og hverjum og einum hentar, eða hvort til sé regluverk um slíkt, t.d. hjá Samtökum verslunar og þjónustu eða hreinlega bara Neytendastofu ...???
En alveg án þess að taka nokkuð af þeim hjá Fjarðarkaupum, sem augljóslega eru að standa sig mjög vel í að halda verðum niðri, þá er hér um að ræða blákaldar og skráðar staðreyndir sem ættu hæglega að geta aðstoðað hvern og einn við að taka örlítið upplýstari ákvörðun um hvar skal versla næst.
Fyrir þá sem vilja skoða þetta nánar þá er fréttin hér og excelskjalið umrædda er hér. Escelskjalið er einnig neðan við fréttina sjálfa og þar undir heitinu "Verðsamanburður ASÍ í heild".
Kveðja
Leó Ingi Leósson

3 ummæli:

  1. Krónan er einmitt svona tæplega lágvöruverslun. Einu ódýru hlutirnir þar eru þessir týpísku matarkörfukannana vörur. Restin er svo oft á tíðum á sama verði eða jafnvel dýrari en Hagkaup og Nóatún.

    SvaraEyða
  2. Sammála, ég versla ekki í Krónunni. Hef margmargmargoft lent í því að vara er dýrari á kassa en í hillu (en aldrei öfugt) og auk þess eru fjölmargar vörutegundir inn á milli á algjörum okurprís (dýrari en hagkaup/nóatún). Ég styð ekki svona sjoppu sem þykist vera ódýr.

    SvaraEyða
  3. Gott er að athuga að allar svokallaðar lágvöruverslanir eru með öll vöruverð í lágmarki milli 12-16 virka daga.

    Vegna þess þegar menn koma til að gera vörukannanir og sjá hvað allt er svo ódýrt í hillunni er þetta ávallt góð og virk auglýsing þegar vörukannanir eru birtar í blöðum.

    Eftir kl:16 er vöruverð keyrt aftur upp, en oftast gleymast nokkrar vörur þess vegna eru þær vörur dýrari á kassa en upp í hillu

    SvaraEyða