mánudagur, 5. október 2009

Verðmerkingar hjá IKEA

Ég hef rekið mig á að IKEA verðleggur vörur sínar misjafnt eftir litum. Þetta veldur talsverðum ruglingi og ég væri ekki að skrifa um þetta nema vegna þess að ég lenti í þessu í annað skiptið í dag, og það í einungis 3 mismunandi innkaupaferðum. Í fyrra skiptið ætlaði ég að kaupa bolla á útsölu, stórt skilti gaf upp útsöluverð. Ég keypti fleiri en einn lit og þegar á kassan kom reyndust eingöngu 2 af 6 samskonar bollum (en mismunandi í lit) á útsölu. Ég fór tilbaka í verslunina og rétt skal vera rétt, með litlum stöfum undir stærðarinnar útsöluverði var liturinn skráður. Síðara skiptið ætlaði ég að kaupa gardínur, þær virtust eiga að kosta 3.690,- krónur en reyndust kosta 5.490,- krónur þegar á kassann var komið. Ég athugaði málið aftur og gardínurnar reyndust fáanlegar í 4 litum, hinir litirnir þrír voru allir verðmerktir 3.690,- en hvergi fannst verðmerking fyrir rauða litinn sem ég hafði valið. Við eftirgrennslan sagði starfsfólk IKEA að þessi litur væri einfaldlega dýrari – ‘þetta er bara svona’ var eina svarið sem ég fékk hjá 3 mismunandi starfsmönnum. Einhvern veginn virtist þetta þó óskiljanlegt þar sem enginn annar sjáanlegur efnismunur var á gardínunum. Mér varð illilega ofboðið og ég dró tilbaka kaupin. Ég hvet neytendur til að eftirgrennslast eftir litamerkingum á verðmerkingum hjá IKEA. Þetta virðist leiðinda trix sem einungis grefur undan því trausti sem viðskiptavinir bera til annars prýðisverslunar.
Með kveðju, Auður

1 ummæli:

  1. Ég er fyrrverandi starfsmaður Ikea og þegar ég vann þar þá var algengt að litir sem að seldust illa voru á lægra verði til að losa um lagerinn.
    Einnig kom það fyrir að litir sem seldust vel voru hafðir ódýrari. Ástæðuna veit ég ekki en ég tek það fram að ég hætti að vinna þar áður en þeir fóru að nýja staðinn þannig að ég veit ekki hvernig þeir gera þetta núna.
    En ég vona að þetta skýri kannski eitthvað

    SvaraEyða