mánudagur, 25. maí 2009

Til útlanda fyrir 990 kr

Ég má til með að láta vita af hádegishlaðborði sem við „lentum“ á í hádeginu í dag hjá Basil & Lime á Klapparstíg.
Var víst fyrsti dagurinn hjá þeim þar sem opið er í hádeginu eftir endurbætur og gaman að sjá að útitjaldið er aftur komið í gagnið – mjög sumarlegt sumsé.
Nema hvað, á hlaðborðinu var gott úrval suður evrópskra rétta með íslensku ívafi. Dæmi um rétti sem ég man eftir voru spænsk paella, pasta með spínati og tígrisrækjum, pasta með kjötbollum og parmessan, nýbakað brauð, heimalagað pestó og hummus, rocket með buffaló mozzarella, ítölsk grænmetissúpa, nautakjöt í sósu, ofnsteiktar kartöflur með hnetum og hvítlauk, plokkfiskur (sem útlendingarnir sem voru þarna voru sérlega sólgnir í) og fleira sem ég kann ekki að nefna.
Sumsé mjög gott og frískandi en um leið saðsamt.
Fréttirnar eru hins vegar þær að fyrir herlegheitin þurftum við aðeins að borga 990 kr. á mann – sem er eingöngu 260 kr. dýrara en í ISS mötuneytinu í vinnunni!
Ekki mikið fyrir ferð til útlanda (útitjaldið er svona eins og í útlöndum sjáðu til)
Kv.
Ólafur Þór Gylfason

Engin ummæli:

Skrifa ummæli