þriðjudagur, 12. maí 2009

Notum Okursíðuna rétt

Kæru allir á Okursíðunni!
Mér þætti vænt um að fólk bæri meiri virðingu fyrir því sem hér er verið að skrifa. Upprunalegi tilgangur síðunnar var, að ég held, að benda á okur eða siðleysi í verðlagningu, já eða slæma þjónustu almennt, og auðvitað líka benda á það góða og réttláta. Þegar síðan fór svo að bjóða upp á að hægt væri að leggja inn athugasemdir við bréf komu oft verulega áhugaverðar viðbótarupplýsingar inn þar. Síðuna var hægt að nota sem hjálpartæki til að forðast okrin og beina viðskiptum sínum til þeirra sem ættu allt gott skilið. En nú síðustu daga virðist sem hópur af grömu fólki sé farið að nota athugasemdakerfið til að skeyta skapi sínu á meðbræðrum og -systrum og þá hættir nú aldeilis að vera gaman að lesa kommenntin. Ef meðvitaðir neytendur geta ekki staðið saman og beint gremju sinni í rétta átt í stað til hvorra annarra, er fokið í flest skjól. Bið ég nú fólk að bera virðingu fyrir hvoru öðru og nota síðuna vel, því hún er svo sannarlega hjálpartæki sem virkar.
Að lokum: Ekki okur: Big Papas Pizza í Mjóddinni, 9 tommur á 790 krónur með 3 álegstegundum að eigin vali. Fínar flatbökur. Fórum 3 í gær og fengum okkur öll mismunandi blöndur og allt reyndist prýðilegt.
Bestu kveðjur,
Heiða

5 ummæli:

  1. Þetta er allt saman gott og réttmætt en eru það ekki þið stjórnendur síðunnar sem velja inn okurdæmi þar sem verið er að bera saman epli og appelsínu? Nóatún,10-11,11-11 vs Bónus og Krónan. Tússlitir í Eymundsson vs tússlitir í Megastore(réttmæt athugasemd að alveg eins væri hægt að bera saman 6 milljón króna Benz og Lödu druslu).

    Svo hefði mér fundist að það væri allt í lagi að benda einstaklingi sem fær ekki afslátt á kassa og síðan of lítinn eftir að hann gerir athugasemd að hann ætti bara að standa harðar á sínu.

    En svo þekki ég nú það af eigin reynslu af því að hafa starfað í ónefndri verslun í 8 ár að munurinn á viðskiptavinum í dag og þegar ég byrjaði er svart og hvítt. Viðskiptavinir eiga það mun frekar til í dag að vera ótrúlega dónalegir og ósanngjarnir heldur en fyrir 8 árum.

    Þetta er mjög góð síða að flestu leyti og ég þakka gott framtak en sum dæmin í seinni tíð mættu alveg missa sín og að sama skapi mættu þeir sem þau dæmi koma með kynna sér alvöru dæmi hér inn á síðunni og læra af þeim.

    SvaraEyða
  2. svo sammála þessu. Það er ekkert gaman að koma með ábendingu og vera kaffærð sem ónýtur neytandi vegna jafnvel stundarmistaka

    Kveðja,
    Heiða Hrönn

    SvaraEyða
  3. Það er ekkert að því að bera saman eppli og appelsínur. Auðvitað eru klukkubúðirnar dýrari, en öllu má nú ofgera. Ef fólk væri að senda inn okur útaf nokkrum prósentum þá tekur því ekki að birta það.

    Ef munurinn er upp á tugi prósenta (já eða hundruð) þá er ekkert að því að benda á það aftur og aftur og aftur. Góð vísa er ekki of oft kveðin.

    SvaraEyða
  4. Þar sem ég haga innkaupum heimilissins eftir þessari síðu þá er ég sammála. Dr.Gunni er í hávegum hafður í mínu seðlaveski.
    Erla Sigurðardóttir.

    SvaraEyða
  5. Innilega sammála #1. Margar athugasemdir hér á síðunni upp á síðkastið eru kannski einmitt til að benda ótrúlega frekum og tilætlunarsömum viðskiptavinum á að hugsa sinn gang líka.
    Þetta fer í báðar áttir, og það er oft hvorki rétt né sanngjarnt það sem fólk er að skrifa hér inn í einhverri frekju og hugsunarleysi.

    Ég hef einnig unnið við verslun í töluverðan tíma - og aldrei vitað jafn mikinn dónaskap og viðskiptavinir hafa oft sýnt á undanförnum árum. Það er vissulega kominn tími til að sporna við okri - en líka við þessari þróun þar sem neytendur telja sig geta komist upp með hvað sem er með með að sýna yfirgang og frekju!

    SvaraEyða