sunnudagur, 9. september 2012

Okursíðan aflögð


Hin áður gríðarvinsæla Okursíða hefur verið aflögð. Ég nenni ekki lengur að halda henni úti. Þetta byrjaði í flippi árið 2007 eftir að okrað hefði verið á mér á lítilli kók  á kínverskum veitingastað í Naustinu. Þetta var svona hugmynd sem einhvern veginn lá í augum uppi og allir kveiktu á. Þetta vakti mikla athygli og allt í einu var ég orðinn einhver svaka neytendagúrú. Fór að skrifa um þessi mál í Fréttablaðið og síðar Fréttatímann og fékk neytendaverðlaunin 2008, sem var eitthvað flipp í Björgvini Gé og hefur ekki verið endurtekið svo ég viti.
Svo missti ég neytendakúlið með selláti í Iceland Express auglýsingu. Var úthúðað sem útrásarvíkingahóra og borgaði niður yfirdráttarheimildina.
Síðasta árið eða svo var Okursíðan helvíti slöpp, fáir sendu inn dæmi og ég nennti þessu minna og minna. Ákvað svo bara að slá þetta af. Auðvitað ættu Neytendasamtökin eða DV eða einhver að vera með svona dæmi hjá sér, en hér eru allavega einhverjir sem hyggjast “taka við kyndlinum” – NÝ OKURSÍÐA Á FACEBOOK.
Takk fyrir og lifi byltingin! Eða ekki.

Dr. Gunni

mánudagur, 16. júlí 2012

Tal - loks komin samkeppni í 3G

Fyrir rúmlega tvemur árum síðan sendi ég bréf hingað á Okursíðuna og talaði um það að samkeppnin í 3G neti væri engin, sama verð allstaðar og það skipti í raun engu máli hvert maður færi í viðskipti því allstaðar fengi maður sama gagnamagn fyrir sama verð.

Ég var að fletta Fréttablaðinu í gær og rakst þá á ansi skemmtilega auglýsingu frá Tal. Já, það er komin samkeppni á 3G markaðinn loksins! En auglýsingin frá þeim hljómaði þannig að ef maður væri með gsm símann hjá þeim í áskrift gæti maður keypt sér 10 gb gagnamagn fyrir 500 kall.


Ég átti ekki orð til í eigu minni að sjá það að nú væri komin samkeppni.
Þegar ég sá þessa auglýsingu dref ég mig beint í Tal og flutti númerið yfir til þeirra frá Vodafone.
Ég er búinn að vera með pakka hjá Vodafone sem heitir Vodafone 250 og hef verið að borga á mánuði fyrir það 2980 kr á mánuði, okei mér fannst það nú svo sem ekkert svo hrikalegt og með fylgdi 100 mb gagnamagn. Ég nota það mikið 3G í símanum að það var svo fljótt að fara framyfir að ég var yfirleitt að borga á mánuði samtals 5000 kall, fyrsti 3þúsund kallinn fyrir mánaðargjaldið og svo hækkaði 3G notkunin það mikið að það varð auka 2þúsund kr í kostnað.

Hjá Tal var ég að fara í pakka sem heitir 6 vinir, hann er á 1.890 kr á mánuði. 1000 sms og 1000 mínútur og svo kemur rúsínan í pylsuendanum að ég þarf bara að bæta við 500 kalli við þetta verð á mánuði til þess að fá 10gb gagnamagn.

Svo eru það 3G netlyklarnir (pungarnir) sem var það sem ég var fyrst og fremst að tala um í bréfi sem ég sendi hingað á síðuna fyrir já rúmin tvemur árum síðan. Samkeppnin var ekki nein en núna er Tal að bjóða uppá áskriftarleið fyrir 3G netlyklanna og þar getur maður borgað á mánuði 2.495 kr. og fengið 30gb gagnamagn. Þessi 30gb hjá vodafone kosta hinsvegar 4990 kr. Þannig að Tal er 100% ódýrari en Vodafone.

Ég fagna þessu að maður sé loksins að sjá samkeppni í þessum málum, ég skipti amk frá vodafone og yfir í Tal í gær bæði 3G netlyklinn og gsm áskrift og mér reiknast að ég sé að spara 4-5 þúsund kall á mánuði með því.

Ég ætla að láta það fylgja með að ég hef heyrt það frá fólki sem hefur verið hjá Tal að þjónustan þar sé alveg skelfileg, sjálfur hef ég bara ekki reynslu af þeim og veit það ekki en ákvað að prufa þetta samt fyrst maður er að sjá 4-5 þúsund króna sparnað á mánuði með þessu. Þannig þetta er allaveganna yfir 50 þúsund króna sparnaður á ári fyrir mig. Held ég sætti mig við það fyrir lélegri þjónustu (ef satt reynist að hún sé léleg)

Hér er færslan sem ég sendi inná okursíðuna í apríl 2010.
http://okursidan.blogspot.com/2010/04/hvar-er-samkeppnin-i-3g.html

Það gleður mig rosalega að það sé loksins alvöru samkeppni í þessu.

G. Ásgeirsson

laugardagur, 14. júlí 2012

Stöð 2 - enginn les smáa letrið


Ég var að hringja í Stöð 2 í dag (13. júlí) til að segja upp sjónvarpsáskriftinni minni. Fékk þá að vita að ég þarf að borga, ekki bara fyrir allan júlímánuð, heldur einnig fyrir allan ágústmánuð. Ég þarf sem sagt að borga næstum tvo mánuði af sjónvarpsáskrift sem ég hef engin not fyrir, þar sem ég er fluttur í annað húsnæði og kominn með áskrift hjá Símanum. Mér var sagt að þetta væri svona í notendaskilmálum sem ég hafi samþykkt og það má vel vera, en það breytir því ekki að þetta hljóta að vera mjög óeðlilegir viðskiptahættir og þörf að vekja athygli á þessu. Svo les auðvitað enginn smáa letrið spjaldanna á milli - það vita það allir.

Pétur Jónasson

þriðjudagur, 3. júlí 2012

Vond þjónusta hjá TAL


Aldrei versla við TAL! Ég sagði upp netþjónustu minni þann 6 júní en af því gerði það eftir mánaðarmót er ég rukkaður fyrir heilan mánuð.
Sem sagt 7000 kr fyrir 6 daga sem ég var ekki einu sinni tengdur. Ég bað þá um að gefa mér slaka á að borga heilan mánuð en það var ekki hægt að taka eina krónu af reikningum.
Þegar maður fær svona lélega þjónusta lætur maður aðra vita. Það er bara þannig!
Þórólfur

Okurlán


Ég er nýbúinn að gera þau heimskulegu mistök að taka lán hjá einu
smálánafyrirtækjana. Þar sem ég átti ekki kost á að greiða upp lánið innan
tveggja mánaða þá var það sent í innheimtu. Höfuðstóllinn var upphaflega
50.000 krónur en skuldin er í dag 100.000 krónur með öllum kostnaði eða
100% álag á höfuðstól. Má þetta?
Skoðum aðeins hvernig þetta er reiknað. Sé tekið 10.000 króna lán sem er
algengasta upphæðin þá er reiknað með 1% vöxtum á dag og 600 króna
kostnaði. Hljómar býsna freistandi ekki satt? En bíðum nú við. Ef við
reiknum þetta á ársgrundvelli þá erum við að borga 1) höfuðstólinn 10.000
krónur 2) kostnað uppá 600 krónur og 3) 365 * 1% eða 365% vexti.

10.000 * 0,01 = 100 * 365 = 36.500 krónur. Að ári liðnu þá er ég að borga
47.100 krónur til baka. Ekki alveg jafn freistandi.

Skoðum annað dæmi.
Tökum 30.000 krónur að láni í eitt ár.

30.000 * 1% = 300 krónur í vexti á dag * 365 = 109.500 krónur BARA VEXTIR.
Samtals heildarendurgreiðsla 140.100 krónur.

Dágóð ávöxtunarleið fyrir þann sem rekur svona fyrirtæki.
Er svona löglegt?
Er virkilega ekkert hægt að gera til að banna svona starfsemi eða þá koma
skýrari böndum yfir hana til að takmarka hversu háa vexti má rukka?

Kv.
Tryggvi

miðvikudagur, 27. júní 2012

Dýrt Pepsi í Vestmannaeyjum


Við fórum í dag til Vestmannaeyja og komum við á veitingarstað sem heitir Café María. Við vorum með 4 börn og báðum um 2 ltr. flösku af gosi á borðið þar sem við töldum það vera hagstætt. Þegar við borguðum kostaði flaskan af 2ja ltr. Pepsi 1.200 kr. Þetta er svipað verð og hægt er að fá sex 2ja. ltr. flöskur á í Bónus. Ótrúleg verðlagning og ljóst er að við komum ekki oftar við þarna er við skreppum til Eyja.
 
kv. Jórunn Helena

mánudagur, 25. júní 2012

Heimskuleg verðlagning apóteka


Fór í Lyfjaval til þess að leysa út svefnlyf, 10 töflu spjald í pakka og rak upp stór augu þegar ég fekk ca 1400 kr rukkun við afgreiðsluborðið því að fyrir fullan skammt (30 töflur) hef ég vanalega borgað nokkrum hundraðköllum minna. 


Eins er farið í Apótekaranum þegar ég í fússi fór þangað til að fá töflurnar á betri kjörum. Er eðlilegt að borga meira fyrir minna og minna fyrir meira? Skrýtið!


Ágúst

miðvikudagur, 20. júní 2012

Hvernig á að velja fullkomið avakadó

Hver hefur ekki lent í því að kaupa ónýtt avakadó? Hér er athyglisvert blogg um málið (á ensku) og hugsanlegt að þú lendir aldrei í því aftur að kaupa ónýtt avakadó ef þú tileinkar þér "tæknina"...
Dr. Gunni

mánudagur, 18. júní 2012

Auglýsingablekking Hagkaupsverslananna


Hagkaup auglýsir  "Tax Free" daga   þar sem virðisaukaskattur er felldur niður af ÖLLUM  fatnaði.  Svo að ég skunda  með fjölskylduna að versla skó fyrir sumarið.  Fundum öll þessa fínu skó og meira segja eitt strigaskópar á  tilboði, kr. 3.990.- í staðkr. 5.990.-
Glöð og ánægð með skóval okkar höldum við að afgreiðslukassa, en þar bíða okkar tvöföld vonbrigði.  Tilboðið átti ekki vð alla strigaskóna í þessari hillu (sem að voru allir á sama verðinu), nei bara eitt vörunúmer, en þessi ákveðna vörutegund tók sem svaraði um einum fimmta af hilluplássinu.  
Nú jæja,  það verður þá að hafa það,  virðisaukaskatturinn reiknast þó af.   En NEI,  í huga stjórnenda Hagkaups verslana  telst skófatnaður EKKI FATNAÐUR  !!! Er þetta í lagi ? Maður spyr sig. Ég er mjög ósátt með að hafa verið blekkt með þessum villandi auglýsingum.  Ég gat ekki hugsað mér að hætta við þessi skókaup, þar sem börnin mín voru svo alsæl og glöð með flottu skóna sína, og lét því þetta yfir mig ganga heldur en að takast á við vonbrigði og grát barnanna minna vegna ástæðu þess að ég vildi hætta við kaupin.  Hagkaup á að sjá sóma sinn í að taka fram í auglýsingum sínum, ef að eitthvað er undanskilið frá almennu hugtaki, samanber skófatnaður sé ekki hluti af fatnaði.  Þetta er álíka fáránlegt eins og að auglýsa afslátt af matvöru, en undanskilja frosinn mat.  Ég get allavega ekki fundið rökstuðning fyrir því að skór séu ekki hluti af fatnaði fólks.  Í mínum huga, og þeirra sem ég þekki, falla skókaup undir það að fata sig upp.  Ég verð nú að segja að ég sé ekki marga ganga um skólausa á götum úti. Það er nú frekar að maður sjái fólk spóka sig léttklætt að ofan en að það gangi um berfætt í bænum.
Eins þegar tilboð er auglýst á ákveðnum stað, (eins og tilboðsmiðinn á hillurekkanum) en á ekki við allar vörur á þeim stað, á að afmarka það með sér standi (eða körfu) svo að það leiki ekki vafi á því hvað er verið að selja á þessu sér tilboði.   Í mínum huga er þetta klárlega  auglýsingablekking.

Anna Rudolfsdóttir

þriðjudagur, 12. júní 2012

Bíóin vilja að þú étir skít


Í stað þess að skrifa hjartnæman inngang um nauðsyn vatns til að viðhalda lífi á jörðu ætla ég að koma mér beint að efninu. Nú hafa nokkur kvikmyndahús tekið upp á því að vísa vatnsbetlurum frá sjoppunni og senda þá í staðinn með glas inn á klósett. Jafnvel þó þeir versli í sjoppunni. Vatnsbetlararnir mega fá gos og popp, nachos og ís, súkkulaði og hlaup (gegn greiðslu að sjálfsögðu), en ef þeir vilja óbragðbætt vatn verða þeir að sækja það úr klósettvaskinum. Lystaukandi ekki satt?

Ég lenti í þessu síðast í gær. Keypti stórt gosglas fyrir annan en bað um vatn fyrir mig (línurnar sko). Afgreiðslustúlkan var alveg til í að taka við fullt af peningum frá mér fyrir gosinu, en hún var ekki til í að snúa sér við og gefa mér vatn úr krananum, sem var bæðevei jafnlangt frá henni og gosmaskínan. Þegar ég afþakkaði klósettglas spurði hún mig hvort ég ætlaði þá bara að fá gosið. Ég velti því fyrir mér hvort það sé algengt að fólk hafi ekki lyst á því að sækja vatn inn á bað og kaupi þess í stað kolsýrt flöskuvatn á uppsprengdu verði.

Er nauðsynlegt að vera svona rosalega gráðugur? Voru svona margir að biðja um vatn úr krananum að afgreiðslan fór öll úr skorðum? Þarf bíóið að fá greitt fyrir hvert einasta handtak sem starfsfólkið gerir, og ef það er ekki hægt að setja verðmiða á það (eins og kranavatn) þá er það ekki í boði? Má ekki líta á það þannig að bíógestir séu búnir að greiða fyrir vatnsgreiðann með því að kaupa popp, já eða bara bíómiðann sinn? Finnst forkólfum kvikmyndahúsanna þeir í alvörunni vera að gera kúnnunum rosalegan greiða ef þeir leyfa starfsfólki sínu að gefa þeim vatn? Varla myndu þeir hleypa mér inn með vatnsflösku að heiman?

Og af hverju viljum við síður fara með tómt glas inn á klósett? Jú vegna þess að þar mígur fólk og skítur. Fólki er ráðlagt að geyma tann-burstann sinn ekki nálægt salerninu vegna þess að þar svífa allskonar sýklar og gerlar um sem óæskilegt er að berist í munn. Maður getur rétt ímyndað sér hversu margfalt fleiri míkróskópískir moðerfokkerar eru í loftinu á almenningsklósetti en á baðinu heima. Allavega ef styrkleiki þvag- og saurlyktar er einhver vísbending. Það má því orða það sem svo að með því að senda viðskipti sína inn á klósett með glas séu kvikmyndahúsin að segja þeim að éta skít.

Haukur Viðar Alfreðsson - birtist upphaflega hér.

mánudagur, 4. júní 2012

Sundlaugin í Kópavogi: Fullt verð í tvo potta!


Ég fór í sundlaug Kópavogs í gær (sunnud). Þar kostar sundferðin heilar 550 kr og
skipti það engu máli þótt verið væri að þrífa laugina og alla pottana nema
tvo. Þannig að ég sumsé greiddi 550 kr fyrir aðgang að tveimur pottum og
standbekkjum. Það var engin tilkynning um að þrif stæðu yfir!

Til samanburðar þá er ekki svo langt síðan að Laugardalslaugin var
endurgerð og þá var aðeins opið í tvo eða þrjá potta þar og þá var nú
einfaldlega ókeypis í sund.

Fannst ég bara verða að benda á þetta því mér var svo stórlega misboðið.
kv. Bára

fimmtudagur, 31. maí 2012

Laukur: 500% dýrari í neti en í lausu


Í Krónuni er kílóverð á 3 stk af venjulegum lauk í neti ekki uppgefið, hvorki í verðskanna, sem birti bara stykkjaverð, né á kassa (hélt reyndar að það væri skylda að gefa upp, hvar er Neytendastofa?). Verðið reyndist vel yfir 500 kr/kg (249 kr fyrir 3 lauka sem voru rúm 400 grömm). Laukur í lausu kostar ca. 80 kr/kg (þegar hann fæst). Hér munar BARA rúmlega 500%... Í Bónus er reyndar oftast hægt að velja ódýrari laukinn lausan í kassa, bara að passa vel að tína draslið frá, en í Krónunni er svarið að ÞVÍ MIÐUR eigum við ekki ópakkaðan lauk. Ætli þetta sé pakkað á tunglinu?
Kv, Auður

Uppþvottavél: 8 lítil plasthjól 1/10 af verðinu


Nokkur hjól eru týnd á grindinni og þau sem eru eftir eru illa farin.

Það eru lítið plast hjól, 4 í eftri grind og 4 aðeins stærri í neðri grind.

Eftir smá leit, komst ég að því að Rafha er að flytja inn og þjónusta mína tegund af uppþvottavél, Zanussi.
Ég bjallaði í þá og þeir staðfestu að þeir ættu þessi hjól á lager þar sem það væru nánast alltaf eins hjól í öllum Zanussi uppþvottarvélum ( í raun eru þó ofstast eins í öllum tegundum)
Þeir gátu ekki gefið upp nákæmt verð í gegnum síma en það besta sem þeir gátu sagt mér var 9.000 til 10.000 fyrir þessi 8 hjól.
Þetta gerir 1/10 af verði vélar ef hún er keypt ný, þá er miðað við ódýrustu Zanussi vélina sem þeir bjóða upp á.

Eftir smá leit þá fundust sömu hjól á eBay á ISK 2.683 m/ sendingargjaldi (á eftir að bæta við tolli) og espares.co.uk á nokkuð hærra verði en þó ekki jafn hátt og hér heima eða ISK 6.975

föstudagur, 25. maí 2012

Undarlegur afsláttur í World Class


Ég var að skrá mig á Crossfit námskeið (4 vikur) hjá World class þar sem ég
er nú þegar viðskiptavinur. Almennt verð á þetta námskeið er 21.900 kr. Ég
fæ 5.280 kr í afslátt vegna þess að ég er með ótímabundin samning við
stöðina og borga 6.149 kr á mánuði í áskrift.
Þar sem ég borga alltaf 6.149 kr á mánuði er ég að borga 22.769 kr sem er
869 kr meira en þeir sem eru ekki viðskiptavinir World class...
Kv. Agnes

fimmtudagur, 24. maí 2012

Rangar verðmerkingar í Krónunni

Er allur þjófnaður í matvöruverslunum tilkynntur til lögreglu? nefnist athyglisverð grein eftir Stefán Hrafn Jónsson í Fréttablaðinu í dag. Þar fjallar hann um rangar verðmerkingar í matvöruverslunum. Hann tekur Krónuna sérstaklega fyrir og rangt verð á kalkúna. Krónan hefur oft legið undir ámæli hér vegna akkúrats þessa, að geta ekki verðmerkt almennilega. Ég skil nú bara ekki afhverju verslunin tekur sig ekki bara saman í andlitinu með þetta. Er svona erfitt að hafa verðmerkingar í lagi?

En allavega. Grein Stefáns er hér

mánudagur, 21. maí 2012

Bílabón: N1/Bónus


Fór í Bónus um helgina að versla í matinn eins og venjulega. Rakst þar á bílabón. Þetta er Sonax bón alveg eins og ég hafði keypt í N1 fyrir nokkru og mundi að mér þótti það ansi dýrt í N1 eins og reyndar allt annað þar.

Sonax bón í Bónus 250 ml 690 kr

Sonax bón í N1 250 ml 1610 kr

Ég bara spyr: Má þetta alveg???

Kv, Viktor

sunnudagur, 20. maí 2012

Sextíma okurgrill


Við hjónin keyptum okkur grill hjá Húsasmiðjunni, sem er vart frásögu færandi. Nema þegar búið var að greiða fyrir grillið var okkur afhentur ferkantaður kassi sem innihélt ósamansett grill. Skemmst er frá að segja að það tók mig 6 tíma að púsla þessu saman.

Þegar Húsasmiðjan auglýsir grillin þá eru þau samansett á öllum myndum og eins er sýningargrill samansett í verslun. Hvergi er nefnt að grillið fáist aðeins í ferköntuðum kassa með hundruðum aukahluta sem þurfi að púsla saman á 6 tímum.

Mín meining er að verið sé að okra á grillum ef þau eru seld á einhvers konar framleiðslustigi en auglýst sem heill og samansettur hlutur.

Kveðja, Gunnar

fimmtudagur, 17. maí 2012

Líf og sjúkdómatryggingar


Tryggingafélögin auglýsa grimmt þessa stundina og eru stöðugt að minna
okkur sem yngri eru á mikilvægi þess að vera líf og sjúkdómatryggð. Ég er
búinn að sækja um líf og sjúkdómatryggingu hjá öllum tryggingafélögunum og
fæ allsstaðar neitun á þeim forsendum að ég sé of þungur. Ástæðan sem ég
fæ þegar ég leita skýringa er að það sé of mikil áhætta fólgin í því að
tryggja mig þar sem ég gæti hvenær sem er fengið sykursýki, heilablóðfall,
hjartaáfall og fleiri heilsutengda sjúkdóma. Bíddu nú aðeins við, eru
tryggingafélögin með þessu að gefa þau skilaboð að feitir einstaklingar
séu í meiri áhættuhóp en annað fólk á að fá hjarta og æðasjúkdóma ásamt
ýmsum öðrum kvillum? Hvað með þá sem reykja? Hvað með þá sem eru
sykursjúkir eða berjast við sambærilega sjúkdóma? Getur verið að þeir fái
sínar tryggingar þegjandi og hljóðalaust en af því að þú ert feitur þá
máttu éta það sem úti frýs?

Kv.
Einn ósáttur

þriðjudagur, 8. maí 2012

Verð á hjólum: Ísl/Danmörk

Ég var að skoða verð á reiðhjólum, og fór inn á orninn.is. Þar fann ég ágætis hjól: Trek 4900 Disc. Það kostar 200.000 kr - http://orninn.is/V%C3%B6rur/Rei%C3%B0hj%C3%B3l/Fjallahj%C3%B3l/Herrar/TREK_4900_Disc

Fyrir einstaka forvitni langaði mig að vita hvað þetta hjól kostar úti. Trek halda sjálfir út ágætis verðmiðunarsíðu fyrir hjólin sín, ég ákvað að skoða hvað þetta sama hjól kostar í Mekka hjólreiðamannsins, Danmörku: http://www.trekbikes.com/dk/da/bikes/mountain/sport/4_series/4900_disc/# Jú, 5.990 DKR. Sem er uþb. 132.000 IKR. Sem sagt, það munar 68.000 eða 66%. (Bæði verðin innihalda VSK, 25% í Danmörku, og 25.5% hér) (Síðan leggst reyndar 10% tollur á reiðhjól hér, þannig að það ætti að kosta um 145.000)

Ég trúði þessu ekki, þannig að ég fann 2 verslanir í Kaupmannahöfn, og verðið stenst. 5990 í báðum verslunum. Prófaði aðra vinsæla verslun, Markið. Fann ágætis hjól, Scott Scale 80 Disc. Það kostar 170.000 þar: http://markid.is/?item=842&v=item&category-group=hjol Í random búð í Danmörku er þetta sama hjól á 5.500 danskar (ca. 134.000 með 10% tolli) http://cykelexperten.dk/cms/modules/shop/public_product_view.php?slang=1&path=71,232&id=4623

Aðeins skárra, en samt töluverður munur.
 Bestu kveðjur, Jón Ragnarsson

mánudagur, 7. maí 2012

ViðskiptaVINUR Tals?

Málið er það að ég hef verið viðskiptavinur TALS í langan tíma. En svo gerist það að ég gat ekki greitt reikning frá þeim með eindaga 2. Apríl síðasliðinn. Og ég er ekki enn búin að greiða hann út af ástæðu sem ég ætla ekki að ræða um hér. En viti menn, hvað hefur gerst í dag, 3ja maí. Krafan á hendur mér hefur aukist til mikilla muna, úr kr. 8.516 í 13.782, á aðeins einum mánuði og einum degi til viðbótar. Er einhver að tala um að það sé engin mafía hér. Og hversvegna er þetta gert svona? Jú sett var á sínum tíma reglugerð af manni fólksins sem hafði mikinn jöfnuð í huga. Og samkvæmt þessari reglugerð, sem reyndar var breytt aðeins seinna (en bara pínupons), er uppskriftin af því að ég er að fá svona mikla óávöxtun á skuld mína, og Tal fer eftir henni nákvæmlega, no mercy. En það er hægt að gera aðeins betur en þetta því að ef ég geri skriflegan samning á morgun um greiðslu þá má bæta við 2.700 krónum (íslenskum) til viðbótar. Og þá yrði skuldin aðeins 16.482 en helmingurinn af því er 8.241 sem er aðeins minni en höfuðstóllinn. Ég hef verið viðskiptavinur Tals í allan þennan tíma en í dag var mér tjáð að ekki væri hægt að fella niður innheimtugjöld, ekkert svoleiðis, engin minnkun, engin miskun. En hver vill vera viðskiptavinur félags sem beytir viðskiptavinum sínum svona þvingunum að það er búið að nærri tvöfalda reikninginn á innan við tveimur mánuðum? Já mér er spurn. Og við erum ekki að tala um að ég hafi keypt eitthvað af þeim einu sinni, nei þetta hefur verið viðvarandi samband. Það sem verra er að ég þarf að vera í viðskiptum við þá út þennan mánuð að því að ég get ekki farið fyrr. En að vera vinur TALs er ekki lengur í myndinni. Og tel ég að það þurfi að endurskoða notkun orðsins „viðskiptavinur“ á viðskipti milli neytenda og margra fyrirtækja því að það er alltaf verið að taka okkur í F****** R********, þurrt. Og þetta var í boði Auðar. Kveðja, fyrrum vinur

sunnudagur, 6. maí 2012

Glerkrukkur?!

Kaupir einhver tómar glerkrukkur sem eru 20 krónur dýrari en krukkur með einhverju í? Þessi mynd er fengin af Facebooksíðu Halldórs Högurðar.

sunnudagur, 15. apríl 2012

Ég er REIÐ! Svindl á neytendum

Hér má lesa mikla og ítarlega úttekt Þórhildar Löve á kjúklingalærum sem hún keypti í Fjarðarkaupum. Titillinn greinar Þórhildar segir sitthvað um innihaldið: Ég er REIÐ! Svindl á neytendum.

miðvikudagur, 11. apríl 2012

Okur í Hlíðarfjalli

Ég fór á skíði á Akureyri um páskana og þar er hægt að kaupa svartan ruslapoka sem búið er að klippa úr fyrir hendur og höfuð sem maður getur klætt sig í þegar það fer að rigna.

Þarna var hægt að kaupa 1 stk. svartann ruslapoka á 150 kr.
Á rúllunni eru 50 stk. af pokum.
Út í búð er hægt að kaupa svona rúllu með 50 pokum á ca. 3300 kr. sem þíðir að pokinn er á 66 kr. (eflaust ódýrara ef þeir fá afslátt)

Hlíðarfjall kaupir semsagt pokann á 66 kr. en selur hann svo áfram á 150 kr.



Kveðja,
Ein á skíðum

sunnudagur, 8. apríl 2012

Skóbúðin Focus

Ég ákvað að kaupa skópar handa kærustunni minni í afmælisgjöf og fór með henni í Smáralindina þar sem að við enduðum í skóbúðinni Focus. Þar sá hún leðurskó sem að henni leist vel á þannig að ég keypti þá handa henni.
Skórnir kostuðu 16.995 kr og voru víst alvöru leður og henni þótti þeir mjög flottir. Allavega þá förum við úr búðinni og yfir í aðra búð þar sem að við hittum vinkonu okkar og kærastan mín tekur skóna úr kassanum til að sýna henni, nema hvað að þá skoðum við þá betur og kemur í ljós að þeir eru gallaðir (byrjað að rakna upp einn saumurinn á öðrum skónum) þannig að við förum yfir í Focus aftur og látum vita af þessu og fengum annað par. Við vorum aðeins of fljót á okkur að skoða þá ekki líka gaumgæfilega vegna þess að þegar að við vorum komin út í bíl og lögð af stað heim þá sáum við að þeir voru líka gallaðir (bæði rennilásinn á öðrum skónum búinn að rakna upp og lausir saumar á báðum skónum) en þá var klukkan orðin of margt þannig að við þurftum að skila þeim næsta laugardag (páskafrí þarna inn á milli og allt lokað). Allt í lagi, við förum næsta laugardag í búðina og látum vita að þetta sé annað skóparið sem að við fáum sem að er gallað þannig að við viljum helst bara fá endurgreiðslu (fyrst að þetta er frágangurinn á skónum þarna þá kærum við okkur ekki um að eyða tæplega 17 þús kalli þarna í vöru sem að er gölluð) en okkur er neitað um endurgreiðslu. Eftir smá þræting og að hafa fengið svörin "ég sem ekki reglurnar" og "ég get sent þá til skósmiðs en þá koma þeir ekki aftur fyrr en einhvern tímann í næstu viku" frá starfskonunni (auk þess bauð hún okkur að fá aftur gallaða parið sem að við skiluðum fyrst, sem gefur að skilja að þá séu þeir að setja aftur gallaðar vörur í sölu) þá gátum við fengið inneignarnótu frá NTC búðunum (Companys, Deres, EVA, Focus, Gallerí Sautján, GS skór, Karakter, Kultur, Kultur menn, smash, Sparkz, Urban), fyrst að það var eina mögulega lausnin þarna þá urðum við að sætta okkur við það þó svo að fyrir mitt leyti þá vil ég ekki versla við þetta batterí fyrst að þeir neita endurgreiðslu þrátt fyrir að maður sé með kassakvittun, posastrimil og að hafa fengið í tvígang gallaða vöru. Allavega þá er það á hreinu að ég versla ekki aftur við Focus þegar að ég kaupi skó handa kærustunni.
Dabbi V

laugardagur, 24. mars 2012

Svindlkassi í Smáralind

Hér er sjóðheitt myndband um "barna"-spilakassa sem má finna í Smáralindinni. Algjört svindl eins og er útskýrt vel í þessu metnaðarfulla myndbandi, sem Sigurður Kristinn Ómrasson gerði:

http://www.youtube.com/watch?v=QgKUJityS1A