mánudagur, 30. ágúst 2010

Grillmatur fyrir vestan

Mig langar að minnast aðeins á tvo staði fyrir vestan, grillskálinn á Patreksfirði og Hótel Bjarkalund. Ég og sonur minn vorum á ferðalagi í sumar og heimsóttu Patreksfjörð, vorum svangir og stoppuðum í Grillskálann N1 og fengum
okkur beikonborgara m/frönskum og kokteisósu+1 gos, afleitur matur, fyrir þetta
borguðum við á fjórða þús. Á leiðinni út var kona að kvarta yfir háu verði á
einhverja vöru sem hún var að kaupa,afgreiðslukonan svaraði að það væri svo
ofsalega dýr fluttningskosnaður að kenna. Veit ekki en okkur langar ekki þangað
aftur. Næst var stoppað á Bjarkalund að fá sér í gogginn og viti menn
ömulegasta grill-samlokan m/frönskum sem um getur (sex ára gæti gert
betur). Eftir að hafa tekið far með ferjunni Baldur (kostaði ca.15 þús.) með
tjaldvagn í eftidragi var vesturlanda-ferðinni okkar lokið. Hoppandi og
skoppandi á þessum hræðilegum vegum. Er virkilega eingin áhugi á að fá ferðafólk
í heimsókn? Ég bara spyr?
G.S.

Okur hjá internetþjónustu

Mér langaði til þess að benda á algjört okur hjá internetþjónustunni www.len.is
Sé keypt hýsing hjá lén.is (Netvistun) gefa þeir sig út fyrir það að það fylgi með frítt .is lén í 1 ár.
Jújú allt gott og blessað og kann að hljóma mjög góður díll fyrir suma en þegar farið er í saumana á þessu má sjá alveg hrikalegt okur.
Isnic.is er eini söluaðili léna á íslandi og þurfa ALLAR lénaskráningar hvaða sem þær virðast keypta að fara í gegnum isnic. Gott og blessað. Árgjaldið er 7.982 krónur fyrir lénið sem www.len.is segist gefa með hýsingum sínum.
Mánaðargjald á hýsingu hjá lén.is er fyrir 500mb hýsingu er 3.990 krónur, ef það er margfaldað með 12 kemur út talan 47.880 krónur
Þá fer fólk að spyrja sig, er ekki tæplega 48 þúsund kall á ári bara sanngjarnt verð fyrir hýsingu með .is léni.
Svarið er Nei.
Tökum annað dæmi með aðra internetþjónustu, hýsingarþjónustan 1984.is rukkar einungis 672 krónur á mánuði fyrir 5 GB hýsingu.
Það kostar semsagt á ári hjá 1984.is 8.064 krónur, vissulega fylgir ekki .is lén með þeirri hýsingu og bætast því við 7.982.
Sem segir okkur það að 500 mb hýsing hjá lén.is kostar 47.880 krónur á ári.
En 5 GB hýsing hjá 1984.is kostar þegar búið er að versla sér lénið aukalega 16.046 krónur á ári.
Hérna sést mjög auðveldlega þetta hriklega okur sem www.len.is lætur viðgangast og vona ég innilega að ekki nokkur lifandi maður (né kona) versli sér hýsingu á þessum okurprís þarna hjá lén.is.
Það hljómar miklu betur að borga 16.046 krónur á ári fyrir 5 GB hýsingu og lén heldur en að borga 47.880 krónur á ári fyrir 500 mb hýsingu og lén (sem sagt er að sé frítt, ekki er nú aldeilis).
Finnst svona okur alveg óþolandi og vildi ég því láta aðra vita af þessu
Kveðja, G.Á.

laugardagur, 28. ágúst 2010

3D er RUGL!!

Fór í bíó áðan, Háskólabíó, á Aulinn ég, með 3ja ára og 6 ára krakkana mína. Það kostar 1400 kall á mann - enginn barnafsláttur á þrívíddarmyndir! Vanalegt barnaverð er annars 650 kr. Ertu ekki að djóka í mér hérna? Ég gekk auðvitað út en fattaði að ég var búinn að lofa krökkunum að fara í bíó, svo ég snéri sneyptur við og 4200 kall fór í þessa geðveiki!
Háskólabíó er með einhverja aðra 3d tækni en önnur bíó - öðruvísi gleraugu - og ég man ekki eftir að hafa þurft að borga svona okurverð fyrir krakkana á 3d myndir annars staðar.
Svo er þrívídd bara rugl, miklu verri myndgæði í þessu og maður er hálfpartinn kominn með hausverk þegar maður fer út. Þetta er bjánaleg þróun og virðist ekki vera gert til annars en að vera afsökun fyrir bíómiðaokri. Og er auðvitað svar Hollywood við dánlódi líka. Sæmileg mynd svo sem annars.
Dr. Gunni

fimmtudagur, 26. ágúst 2010

Dýrt hjá bílaverkstæðum!

Sonur minn ætlaði að láta skipta um vatnskassa í bílnum sínum - kassann fékk hann í Stjörnublikk, verð c/ 19.000.-...? - hlýtur að vera í lagi, hvað veit maður?. En þegar átti að setja hann í, var hringt víða og Kvikk þjónustan bauðst til að setja hann í bílinn fyrir 18.000.-, enga stund gert, var sagt. Ég hringdi á 2 aðra staði og komst að því að þetta er klukkutími til 1 og hálfur en tíminn á bílaverkstæði er kominn í 9.500.-. Mér finnst stutt síðan að tíminn á verkstæði var 4-5.000.- kall, en þvílík hækkun! Laun okkar, kaupmáttur og kaupgeta nær þessu aldrei. Ég held að verkstæði / bifvélavirkjar séu að notfæra sér ástandið í þjóðfélaginu og hækkað uppúr öllu valdi. OKUR! OKUR! OKUR!
Már

Okur-kartöflur hjá Fiskikónginum

Fór í Fiskikónginn á Sogavegi og keypti frábæran fisk, mikið úrval, góður fiskur og nýr, en í dýrari kantinum. Gott og vel, keypti samt fisk, en svo datt mér í hug að kippa með kartöflum, gullauga, 1 kg í poka. Þegar afgreiðslumaðurinn sagði : "500 kr" þá datt alveg yfir mig. Ég skilaði þeim strax. Ég hafði heyrt auglýstar kartöflur í Bónus eða Krónunni á 149.- kr og fór í Bónus. Það passaði.
M

Dýr bláber í Nettó

Velkomin í Nettó!
Ferskt lífræn bláber
50% afsláttur
Verð nú aðeins 290 kr/125 g
Áður 579 kr/125 g
Kílóverð fyrir lækkun 4.632 kr. - eru ekki öll bláber á Íslandi lífrænt ræktuð?
Anna

þriðjudagur, 24. ágúst 2010

Ánægður með Nings

Ég gerði mér ferð á Nings um daginn, eftir að hafa lesið misjafna gagnrýni
um staðinn á okursíðunni þinni. Ég ákvað að fara á Suðurlandsbrautina.
Pantaði ég mér nautakjöt með grænmeti og hnetusósu, man ekki númer
réttsins. Svo fékk ég mér eggjanúðlur. Verð ég að segja að ég varð ekki
fyrir vonbrigðum og bæði maturinn og þjónustan sem ég fékk á staðnum fór
langt fram úr væntingum mínum. Broshýrar og kurteisar afgreiðslustelpur,
frábær matur og gott andrúmsloft, er hægt að biðja um meira? Mæli með
Nings fyrir alla.
NAFNLEYSINGI

föstudagur, 20. ágúst 2010

Okur í Húsasmiðjunni

Nú langar mig að benda þér á okur sem viðgengst í hinni ríkisreknu Húsasmiðju.
Ég þurfti að kaupa mér ryðfríar skrúfur eins og notaðar eru í sólpalla og fl. (græna efnið) og algengasta stærðin er 4,5x60 mm. og kostar hún 34 kr.stk. í Húsasm. eða 6.800.- pakkinn með 200 stk. Ég kannaði verðið hjá Ísól í Ármúlanum og þar kostaði pakkinn af sömu stærð rúmar 2.300.- Er hægt annað en að kalla þetta okur?!
Hlynur

Okurverð á ís í Gullnesti Grafarvogi

Ég fór með fjölskylduna að kaupa ís núna um daginn.
Gullnesti (Bullnesti) selur miðstærða af ís í boxi með smá lakkrís og sósu á 670 kr. stk.!
Maður fer á KFC og fær risakjúklingaborgara, franskar og gos á 1.100 kr.
Þetta er nátturlega bara bilað okur og græðgi!
Steinn

fimmtudagur, 19. ágúst 2010

Grænmetisæta óhress með Pottinn og pönnuna

Í júlí hittumst allnokkrir niðjar langafa míns og langömmu minnar á Húnavöllum.
Gist var á tjaldstæði sem Hótel Húnavellir reka. Potturinn og pannan reka hótelið og veitingasölu. Þarna var allstór hópur saman komin.
Kostnaður fyrir utan tjaldstæði var 5000 krónur og var í því innifalið aðstaða í íþróttasal og sameiginlegur kvöldverður. Það má gera ráð fyrir að salurinn hafi kostað 1000 kall og maturinn 4000 kall.
Á matseðli voru 3 fiskréttir í forrétt og 3 kjötréttir í aðalrétt. Með þessu var hægt að fá kartöflusalat, eplasalat, hrásalat og brúnaðar kartöflur. Já og brauð og viðbit.
Ég er grænmetisæta og borða ekkert af því sem var á boðstólnum nema meðlætið.
Ég lét vita með tölvupósti með góðum fyrirvara að ég borðaði ekki það sem væri á matseðli og spurðist fyrir upp á hvað grænmetisætum væri boðið.
Þar sem ég fékk ekkert svar skrifaði ég aftur. Ekkert svar barst svo ég hringdi og var mér lofað að ég fengi mat sem ég borðaði. Þegar ég mætti á svæðið ræddi ég
við mann sem var í móttöku um þá ósk mína að fá grænmetisfæði og af sömu gæðum og matur annarra gesta væri. Hann lofaði að koma því á framfæri.
Svo koma hátíðarkvölverðurinn. Ég gaf mig fram við kokkinn, bara svo hann vissi af mér þegar matur yrði framreiddur. Þá sagði kokkurinn, "Þú færð papriku fyllta með olívum".
Er það forréttur, spurði ég. Nei, var svarið, þú færð engan forrétt. Ég sem sagt fékk papriku fyllta með svörtum olívum og venjulegum brauðosti, kannski gouda. Svo fékk ég mér að sjálfsögðu meðlæti. Fyrir þetta borgaði ég sem sagt 4000 krónur. Hráefnið í "réttinn" hefur að hámarki kostað 200 kall. Töluverð álagning þar.
Með matnum keypti ég vínflösku og kostaði hún 4800 krónur. Hægt var að kaupa sér bjór 500 ml á 980 kr og svo var líka hægt að kaupa sér tvo lítra af appelsíni á 2800 krónur, já tvö þúsund og átta hundruð krónur.
Er þetta ekki okur? Er það með þessum hætti sem við viljum kynna Ísland fyrir ferðamönnum, íslenskum sem erlendum?
Ég mun ekki borða á Pottinum og pönnunni oftar. Það er nokkuð ljóst.
Bestu kveðjur,
Margrét Ríkarðsdóttir
Akureyri

fimmtudagur, 12. ágúst 2010

Ódýrir smokkar - öruggt og hraðvirkt frá Amazon

Hjá Amazon má ná stykkinu af Durex smokkum niður í 32 krónur.
Pantaði 2 x 100 stk til að ná sendingarkostnaðinum niður þar sem ég var ekki að
panta neitt annað með.
Það tók innan við 5 sólarhringa að fá þetta sent á næsta pósthús.

Sjá nánar á http://www.amazon.com/gp/product/B000BH26LI/

Vegna eldri færslur um smokka á Okur-blogginu vil ég taka eftirfarandi fram:
- Hjá Skeljungi/Select er Atlasinn ekki lengur til.
- Hjá Megastore voru þeir uppseldir og afgreiðslumaður vissi ekki um framhaldið.
- Hjá vefverslunum sem kalla sig íslenskar sé ég enga leið til að ná þessu niður
fyrir 32 kr stykkið.

Svo er verið að rukka um 150 kr fyrir þetta hérna heima í smásölu, stk. Það er okur!
Að lækka vsk úr 25% í 7% dugar ekki til að einu sinni nálgast verðið frá Amazon.
Svo eru þægindin við að versla við Amazon óumdeild og Durex er vandað merki.

Nafnlaus smokkakaupandi

Okurvín á veitingahúsum

Í ÁTVR kostar flaska af Criollo Cabernet Shiraz rauðvíni frá Argentínu 1.449 krónur.
Á Vínbarnum, sem er ekki ódýr staður, kostar þessi flaska 3.800 krónur. Á Tapas barnum kostar sama flaska litlar 5.690 krónur. Það má segja að veitingastaðir geti verðlagt hluti á það sem þeim sýnist svo lengi sem einhver vill borga uppsett verð. En er fólk meðvitað um svona okur þegar það leyfir sér að fara út að borða?
Ingibjörg

þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Síminn hækkar í kreppunni!

Þessi skilaboð fann ég á símareikninginum í heimabankanum mínum:

"Verðhækkun
Síminn mun frá og með 1. október nk. breyta verði á þjónustu sinni. Nákvæmar upplýsingar verður að finna á vefsíðu Símans 1. september nk. undir fréttir og hjá
þjónustuveri í síma 800 7000. Við hvetjum viðskiptavini til að kynna sér þessar breytingar vel."

Það er greinilega ekki bara Orkuveitan sem ætlar sér að hækka gjaldskrána sína á næstunni.

með kveðju
J.K.

laugardagur, 7. ágúst 2010

Hofland-setrið í Hveragerði fær góða dóma!

Við vorum á ferð fjölskyldan núna í vikunni fyrir austan í bústað og ákváðum að skreppa í smá ferð og gefa eldamennskunni frí eitt kvöld og var ákveðið að fara með familíuna út að borða. En allavega þá enduðum við í Hveragerði og í rauninni duttum þar niður á stað sem heitir Hofland-setrið. Get sagt að við fórum ekki illa svikin út úr þeim viðskiptum. Pöntuðum eina 16" pizzu með 4 áleggstegundum (ekki matseðilspizza) fyrir manninn minn og elsta son sem þeir skiptu á milli sín, yngri sonurinn var með 12" hvítlaukspizzu og ég var með borgara með öllu, frönskum og tilheyrandi. 3 stórar gos og svali fyrir guttann. Alls var þetta 5.590 kr. Fín þjónusta, kósí staður og hreinlegur og við vorum í alla staði alveg stóránægð og tókum með okkur restina heim í boxi sem náðist ekki að klára á staðnum og var það étið upp til agna líka... þannig að við fórum ánægð frá þessu. Sjaldan sem maður er sáttur við verð og gæði.
Kærar kveðjur,
Lilja Líndal Sigurðardóttir.

miðvikudagur, 4. ágúst 2010

Allt sama símafyrirtækið?

hérna er smá efni fyrir okursíðuna að vísu ekki okur en smá svona neytendapæling samt sem áður.
Ég fór um daginn í verslun vodafone og lét verða af því að kaupa mér 3G netlykil eftir nokkurra mánaða umhugsun. Félagi minn var með mér (hélt hann væri í vodafone) og var í vandræðum með að netið hjá sér væri svo hægt þannig hann bað afgreiðslustúlkuna um að fletta upp nettengingunni hjá sér og gaf upp heimasímann hjá sér því hann hélt að það gæti verið að hann væri búinn að niðurhala of mikið, nettengingin er skráð á móður hanns. Jæja afgreiðslustúlkann lætur hann vita af því að internetið hjá honum væri skráð hjá Tal og hann væri þar eingöngu með 60gb limit á mánuði og væri kominn uppí 124gb.
Jæja gott og vel hann komst þá að þessu að það hafi verið vandamálið. En svo fórum við félagara að hugsa, hvernig í ósköpunum getur afgreiðslustúlka hjá Vodafone séð allar upplýsingar um viðkomandi tengingu sem er ekki einusinni skráð í þeirra fyrirtæki? Hún sá að hann væri bara með 60gb limit og væri kominn uppí 124gb. Þannig maður spyr sig, er kerfið hjá símafyrirtækjunum svona rosalega samtengt að Vodafone getur bara skoðað eins og það vill allar upplýsingar um nettenginguna hjá fólki í viðskiptum við önnur fyrirtæki?
Þetta var nú bara svona smá pæling.
Kveðja, G.Á.

Súpur á Skógum

Okkur er tíðrætt um okur á veitingastöðum úti á landi og varð ég áþreifanlega vör við það núna síðastliðinn sunnudag að Skógum. Þar eru reknir a.m.k. tveir veitingastaðir og á þessum tveimur stöðum er gríðarlegur verðmunur.
Annarsvegar er það veitingastaður nálægt fossinum sjálfum Skógarfossi en þar kostar súpa dagsins kr. 1400, sem er að sjálfsögðu algert rán og til að bæta gráu ofaná svart þá er matseðill sem hangir uppi með álímdum verðmiðum og þegar kíkt er undir þessa álímdu veðmiða þá er verð næstum tvöfalt lægra þar undir. Algerlega óforskammað að sjá ekki sóma sinn í það minnsta að fela gamla verðið.
Hinsvegar er einnig veitingahús eða cafeteria við Byggðasafnið og þar kostar súpa dagsins kr. 900.00 sem er mun ásættanlegra verð auk þess staðurinn langtum huggulegri en sá fyrrnefndi, einnig var hægt að fá fínasta smurt brauð á kr. 700,00, grillaðar samlokur á kr. 500.00 og fleira og fleira og mun skaplegra verð. Gef þessum stað mín bestu meðmæli og þá sérstaklega fyrir nokkuð sanngjarnt verð og ferskan mat.
Hef litið farið útá land í sumar en blöskraði þetta verð á fyrrnefnda staðnum, en sjálfsagt eru svona staðir til um allt land. Það verður að varast að þegar er um fleiri en einn staða að ræða að fólk kynni sér verð og gæði áður en það velur hvar það borðar.
Með kveðju,
Ingveldur Gunnarsdóttir

Stóra Kókkippusvindlið

Ég fann mig knúna til þess að koma þessu á framfæri.
Ég kaupi af og til kippu af 2ja lítra gosi í Bónus. Ég hef lent í því að
afgreiðslufólkið notar ekki strikamerkið sem er utan á plastumbúðunum,
heldur rennir strikamerki af flöskunni í skannann og margfaldar með 6. Þá
borgar maður fullt verð fyrir hverja flösku og þá eru það tæpar 1600 kr.
fyrir kippuna. Ef rétta strikamerkingin er notuð, þá fær maður kippuna á
um 998 kr. Ég lenti í þessu núna síðast í dag í Bónus á Selfossi. Afgreiðslustúlkan
skannaði inn flösku og margfaldaði með 6. Ég spurði hana hvort hún ætti
ekki að nota strikamerkið sem væri utan á plastumbúðunum utan um kippuna,
en hún svaraði því að það strikamerki virkaði ekki alltaf og því væri þeim
(starfsfólkinu) sagt að nota bara strikamerki af flöskunni.
Þar sem Íslendingar eiga heimsmet í kókdrykkju, tel ég víst að ansi margir
hafi lent í þessu og borgi því tæpum 600 krónum of mikið fyrir kippuna.
Ég bið því fólk að vera vakandi yfir þessu og passa sig á þessu með
strikamerkin.
Með bestu kveðju,
Björk Konráðsdóttir.

Dýrt nammi í (Sam)bíóum

Við hjónin skelltum okkur á Inception í Kringlubíói í kvöld. Miðarnir á 650 kr.
stk (Þriðjudagstilboð). Fór síðan og keypti 1/2 ltr. af Topp og 1/2 ltr. af Coke Zero. Fyrir þetta mátti ég reiða fram 720 kr! Miðstærð af poppi, 10 karamellur og 1 lítið súkkulaði, samtals 1650 kr. Er ekki í lagi með þetta lið? Hversu mikið þarf það að græða á fólki? Bíóferðin á þriðjudagskvöldi endaði semsagt í 3000 kr.! Maður er hættur að skilja, eru engin mörk á græðgi fólks. Hvernig stendur á því að það þarf að leggja fleiri hundruð prósent á þessar vörur? Læt mér nægja í framtíðinni að fara í Krambúðina á Skólavörðustíg og leigja þar nýjustu spólurnar á 300 kr. stk. og kaupi svo gos og snakk í Bónus. Þannig fer bíókvöldið ekki yfir 1000 kr. Fólk á ekki að versla við svona lið. Ég mæli með því að fólk kaupi sér gos, popp og nammi áður en það fer í bíó, þetta er bara rugl.
Kveðja,
Jakob Aðils og Guðrún H.A. Eyþórsdóttir

Ódýr og góður orkudrykkur

Ég fæ mér orkudrykki endrum og eins. Prófaði í gær X Ray Energy drink, sem mun víst keppa stíft við Red Bull í mörgum löndum. Hann smakkast álíka og blár Magic, ég myndi bara segja að hann væri betri og einhvern veginn mildari á tungunni. Verðið kom svo skemmtilegast á óvart, 115 kr. dósin (25 cl) í Kosti. Ég mæli með þessum ef fólki vantar smá búst.
Dr. Gunni

þriðjudagur, 3. ágúst 2010

Bláa lónið - enn einu sinni!

Vildi bara benda á Bláa Lónið, enn og einu sinni. Verð á mann er komið upp í 28€ ef ég sá rétt, en í beinhörðum íslenskum rukka þeir 4600 krónur per fullorðinn. Varð fyrir því óláni að hafa lofað nokkrum sjálfboðaliðum sem voru í vinnu hjá mér að fara með þau í Bláa lónið, þar sem þetta voru allt útlendingar og fór ég með þau sex og auka bílstjóra. Fékk að vísu smá afslátt en borgaði engu að síður rúmlega 33 þúsund í lónið fyrir okkur átta.
Vil taka skýrt fram að ég sé ekki eftir peningunum í krakkana, þau áttu það vel skilið og rúmlega það, en mér blöskrar algerlega verðið. Þar fyrir utan var lónið kalt og allur sjarmi farinn af því í þessu annars steríla umhverfi. Stór volgur pottur með sandi í botninn og einstaka fötur á víð og dreif með gamla góða hvíta gumsinu. Fyrir 4600 krónur manninn. Í einu orði sagt: OKUR!
Þetta var blóðugt og mun ég aldrei bjóða útlendingum þarna framar og segja þeim að forðast þennan túristapitt.
Óskar nafnleyndar

Illskiljanleg verðlagning á 3D bíómyndamiðum í Smárabíói

Mig langar að vekja athygli á verðlagningu á bíómiðum á 3D mynd (Shrek) í Smárabíói.
Í fyrsta lagi: Það kostar meira að fara á Shrek sem 3D mynd en venjulega "2D" mynd.
Í öðru lagi: Shrek á ensku (og 3D) er ekki textuð á íslensku, samt er verðið ekki lækkað, það er hækkað (m.v. 2D)
Í þriðja lagi: Þrívíddar gleraugu er seld aukalega.
Skýringin á 3ja liðnum var m.a. að "svo margir ættu þegar gleraugu" (!).
Þetta er svipað og þurfa að kaupa sérstaklega plasthnífapör á skyndibitastað að því að svo margir eigi slík hnífapör heima hjá sér. Hvað skyldu margir taka með sér 3D gleraugu þegar þeir ákveða að fara í bíó?
Í stuttu máli: Bíógesturinn þarf að borga hærra verð fyrir mynd í þrívídd þrátt fyrir að hún er ótextuð og til viðbótar að að borga aukalega fyrir nauðsynleg áhöld til að njóta myndarinnar. Hvað næst, verður farið að selja manni heyrnartól?
Kv.
Lárus Jón Guðmundsson