fimmtudagur, 19. ágúst 2010

Grænmetisæta óhress með Pottinn og pönnuna

Í júlí hittumst allnokkrir niðjar langafa míns og langömmu minnar á Húnavöllum.
Gist var á tjaldstæði sem Hótel Húnavellir reka. Potturinn og pannan reka hótelið og veitingasölu. Þarna var allstór hópur saman komin.
Kostnaður fyrir utan tjaldstæði var 5000 krónur og var í því innifalið aðstaða í íþróttasal og sameiginlegur kvöldverður. Það má gera ráð fyrir að salurinn hafi kostað 1000 kall og maturinn 4000 kall.
Á matseðli voru 3 fiskréttir í forrétt og 3 kjötréttir í aðalrétt. Með þessu var hægt að fá kartöflusalat, eplasalat, hrásalat og brúnaðar kartöflur. Já og brauð og viðbit.
Ég er grænmetisæta og borða ekkert af því sem var á boðstólnum nema meðlætið.
Ég lét vita með tölvupósti með góðum fyrirvara að ég borðaði ekki það sem væri á matseðli og spurðist fyrir upp á hvað grænmetisætum væri boðið.
Þar sem ég fékk ekkert svar skrifaði ég aftur. Ekkert svar barst svo ég hringdi og var mér lofað að ég fengi mat sem ég borðaði. Þegar ég mætti á svæðið ræddi ég
við mann sem var í móttöku um þá ósk mína að fá grænmetisfæði og af sömu gæðum og matur annarra gesta væri. Hann lofaði að koma því á framfæri.
Svo koma hátíðarkvölverðurinn. Ég gaf mig fram við kokkinn, bara svo hann vissi af mér þegar matur yrði framreiddur. Þá sagði kokkurinn, "Þú færð papriku fyllta með olívum".
Er það forréttur, spurði ég. Nei, var svarið, þú færð engan forrétt. Ég sem sagt fékk papriku fyllta með svörtum olívum og venjulegum brauðosti, kannski gouda. Svo fékk ég mér að sjálfsögðu meðlæti. Fyrir þetta borgaði ég sem sagt 4000 krónur. Hráefnið í "réttinn" hefur að hámarki kostað 200 kall. Töluverð álagning þar.
Með matnum keypti ég vínflösku og kostaði hún 4800 krónur. Hægt var að kaupa sér bjór 500 ml á 980 kr og svo var líka hægt að kaupa sér tvo lítra af appelsíni á 2800 krónur, já tvö þúsund og átta hundruð krónur.
Er þetta ekki okur? Er það með þessum hætti sem við viljum kynna Ísland fyrir ferðamönnum, íslenskum sem erlendum?
Ég mun ekki borða á Pottinum og pönnunni oftar. Það er nokkuð ljóst.
Bestu kveðjur,
Margrét Ríkarðsdóttir
Akureyri

2 ummæli:

  1. 2800 kr ... díses, þetta er það svæsnasta sem ég hef lesið lengi. Þetta er skammarlegt.

    SvaraEyða
  2. Sumir kokkar láta sig hafa það að kaupa t.d. tilbúin grænmetis eða baunabuff og "sleppa" með það ef furðufuglar eins og grænmetisætur villast inn til þeirra.
    En það er nú frekar lamað, að láta gest borga okurverð fyrir tiltekt í kælinum ...
    Metnaður - hvað er það ??

    SvaraEyða