föstudagur, 26. febrúar 2010

Fyrning lyfja - Lyfjaver

Mig langar til að segja þér frá viðskiptaháttum Lyfjavers. Þau stæra sig af lágu vöruverði lyfja sem er oft rétt.
Það er samt ekki skrýtið að þau séu að halda vöruverði lágu þegar þau eru að ræna suma kúnna sína.

Þetta er saga mín :
Ég þarf að fá B-12 vítamín sprautur (Vibeden) á 2ja mánaða fresta. Almennt er þetta lyf gefið á 2ja-3ja mánaða fresti. Núna er ég ólétt og því liggur enn meira við að ég fái reglulega þessar sprautur.
Bruna ég því í ódýra apótekið, Lyfjaver, til að kaupa mér nýjan skammt.
Í hverri pakningu eru 5 "ambúlur" til að sprauta sig með. Hver sem er getur séð út að á 2ja mánaða fresti þá duga 5 ambúlur samtals í 10 mánuði.
Ég versla þessar 5 ambúlur í pakka og fer með til hjúkkunar til að láta sprauta mig. Hún bendir mér á að lyfið renni út í maí 2010 og þar sem ég kaupi lyfið í lok febrúar 2010 þá geti ég bara notað 2/5 ambúlunum.
Þetta þótti henni mjög skrýtið og mér líka. Bruna ég því aftur í apótekið og bendi þeim á þetta. Þau bera fyrir mig að þau megi alveg selja lyf með fyrningartíma sem er 3 mánuðir og því sé þetta í lagi. Þau segjast bara eiga þetta lyf með þessum fyrningartíma. Ég hringi því í heildsalan og spyr afhverju þetta sé og þá skilst mér að nýr fyrningartími (langt fram árið 2011) sé kominn fyrir einhverju síðan.
Til að gera langa sögu stutta þá neitar Lyfjaver að leyfa mér að skila þessu inn og fá nýtt í staðinn. Þau létu mig ekki vita þegar ég borgaði að fyrningartíminn væri svona stuttur og þau hafa bara verið með skæting við mig. Bæði Lyfja og Lyf og Heilsa segja mér að þau hafi leyft sínum kúnnum að skila inn lyfjum þegar svona stendur á.
Þetta lyf er frekar dýrt (ca. 6.000) og er ég því að borga núna rúmlega 3.000,- fyrir hverja sprautu í stað þess að borga rúmlega 1.000,-.
Ég á ekki til orð yfir þetta rán og óréttlæti og skil ekki hvernig apótekinu dettur í hug að selja fólki þetta undir þessum kringumstæðum.
Þetta er eins og að selja þunglyndissjúkling 30 töflur af einhverju lyfi en einungis sé hægt að nota 10 af þeim !
Með bestu kveðjum,
Hanna

Svör Brimborgar við þremur færslum

Hér koma svör Brimborgar við þremur nýlegum færslum:

Færsla: Brimborg - þjónustuskoðun (15. febrúar)

Vegna ofangreindar færslu vill Brimborg koma því á framfæri að ekki er verið að bera saman sömu hlutina, þ.e. samanburður er á tímagjaldi en ekki heildarverði þjónustuskoðunar. Tímaverð á þjónustuskoðun hjá Brimborg byggir á viðmiðun við tímaeiningu framleiðanda á meðan Skipting innheimtir rauntíma. Þar að auki er verðið sem gefið er upp í færslunni hjá Brimborg með virðisauka en verðið frá Skiptingu án virðisauka en Brimborg gefur alltaf upp verð með virðisaukaskatti en annað er ekki lögmætt.

Brimborg selur allar þjónstuskoðanir á föstu verði skv. tíma einingakerfi framleiðanda enda skylt samkvæmt lögum að upplýsa viðskiptavin um kostnaðaráætlun. Það er þá áhætta Brimborgar ef verkið tekur of langan tíma. Ef tekið er dæmi á tveggja ára skoðun á Volvo S40 þá er Brimborg að innheimta 1,2 klst fyrir þjónustuskoðun á Volvo S40. Verð p/klst. er 11.794 kr. en ekki 12.500 kr. eins og kemur fram í færslunni. Vinnuliðurinn er því 1,2*11.794= 14.153 kr. m/vsk.

Skipting notar ekki sömu aðferðafræði við útreikning á verki þar sem rauntími er ekki það sama og einingakerfi framleiðanda. Samkvæmt upplýsingum frá Skiptingu þá eru þeir að innheimta 2,5-3 klst. fyrir skoðun. Gefum okkur það að Skipting innheimti 2,5 klst., þ.e. lægri tímafjöldann, og tíminn hjá þeim á 5000 kr án vsk. Tíminn kostar þá með vask kr. 6.275 og gerir því vinnuliðurinn hjá þeim 2,5*6.275=15.688 með vsk. Niðurstaðan er að Skipting er dýrari en Brimborg.

Hér í þessu dæmi er því vinnuliður hjá Brimborg ódýrari sem nemur 9% heldur en hjá Skiptingu. Mikilvægt er bera saman kostnað við verkið í heild en ekki tímagjald nema vitað sé hve langan tíma verkið tekur. Aðeins er hægt að vita hve langan tíma verkið tekur ef notast er við fastverðskerfi eins og Brimborg vinnur eftir og smíðað er af þeim framleiðendum sem Brimborg er umboðsaðili fyrir.

(svör við kommentum:)
Svar til Nafnlaus
Brimborg treystir sér ekki að svara þessari athugasemd því forsendur eru óþekktar.

Svar til Gullvagnsins
Brimborg hefur ekki áhrif á verðlagningu hjá sínum þjónustuaðilum og verðsamráð af slíku tagi er ólögmætt. Kröfur Brimborgar til sinna þjónustuaðila er að þeir framkvæmi þjónustuskoðanir samkvæmt ferli framleiðenda og að þeir fari að lögum en verðlagning þjónustuaðilans er algerlega á hans ábyrgð.

Kv. Sigurjón Ólafsson, framkvæmdastjóri eftirþjónustusviðs Brimborgar

---------------------------------------------------------------------------------

Færsla: Brimborg – okursaga (12. febrúar)

Brimborg tekur undir það að verð á þessum varahlut er hátt. Því miður er það svo að framleiðandi útvegar þessa vöru ekki nema sem samsettan hlut (ekki hægt að kaupa einstakar einingar sem eru bilaðar), það er að segja allan öxulinn. Verð á öxlinum sem var gefið upp af framleiðanda er sambærilegt við verð í Evrópu hjá Daihatsu því það hefði þurft að panta þennan hlut þaðan. Hátt innkaupsverð frá birgja er ástæðan fyrir háu verði. Við getum skilið óánægju neytandans og fögnum að hann hafi fundið þennan íhlut í öxulinn á lægra verði.

Kv. Sigurjón Ólafsson, framkvæmdastjóri eftirþjónustusviðs Brimborgar

---------------------------------------------------------------------------------

Færsla: Dýr stýrishosusett í Brimborg (22. febrúar)

Vegna færslunnar hér að ofan vill Brimborg koma eftirfarandi á framfæri:

Samkvæmt okkar athugun var skipt um háþrýstislöngu á vökvastýri á umræddum bíl en ekki stýrishosusett eins og Böðvar talar um. Þessar vörur eru ekki sambærilegar. Um er að ræða misskilning því háþrýstislanga er ekki ósköp venjuleg bómullarbundin gúmmíhosa eins og Böðvar vill meina og nipplarnir eru ekki svo einfaldir að hægt sé að búa þá til með handborvél.

Hjá Brimborg er verð á háþrýstislöngu með nippli 38.815 kr. m. vsk. Þegar Böðvar hafði samband við Kistufell hefur hann fengið uppgefið verð á annarri vöru því samkvæmt upplýsingum frá Kistufelli selja þeir ekki háþrýstislöngur fyrir vökvastýri né stýrishosusett í Ford Focus. Við vitum ekki verð á hvaða vöru hann fékk uppgefið en ljóst er að ekki er verið að bera saman verð á sömu vöru og því er þessi samanburður ómarktækur. Þess má jafnframt geta að við gerðum verðkönnun og ekki er hægt að fá háþrýstislöngu á vökvastýri á 3.000 kr hjá neinum aðila hér á landi.

Varðandi reimasettið þá verður alltaf að meta hvert tilvik fyrir sig. Í einhverjum tilvikum er nóg að spreyja olíuhreinsi á reimarnar, skola og þurrka eins og Böðvar nefnir en svo er ekki alltaf. Í þessu tilviki mat bifvélavirkinn að nauðsynlegt væri að skipta um reim en eins og alltaf tekur eigandi ákvörðun um hvort viðgerð verði framkvæmd. Þegar viðskiptavinur kemur með bíl í viðgerð til Brimborgar notar bifvélavirki fagþekkingu sína og reynslu til að gefa ráðleggingar um það sem hann telur nauðsynlegt að gera en lokaákvörðun er að sjálfsögðu eigandans.

Kv. Sigurjón Ólafsson, framkvæmdastjóri eftirþjónustusviðs Brimborgar

Síhækkandi bílatryggingar

Ég vil gjarnan vita hvort sé verið að svindla á mér með bílatrygingar.
Ég er með alveg verðlausan, skoðaðan og óhappalausan bil frá 1992 á götu í Rvk og kaupi á hann skyldutryggingar á Islandi siðan 2008.
Árið 2008 borgaði ég 46.000. Í fyrra borgaði ég 56.000 og nú var ég að fá reikning fyrir 2010 upp á 98.000!
Getur einhver sagt mer hvort þetta geti verið rétt og sangjarnt?
Ég er bara i samband i við fulltrúa sem segist hafa gefið mer alltof góðan deal 2008 til að hafa mig ánægða sem nyjan kúnna.
Eg er alveg bit yfir þessu kerfis-og regluleysi við viðskipti á bilatryggingum.
Kærar kveðjur,
Anna Ingadottir

Trocadero - fínn staður

Ég má til með að mæla með einum veitingastað. Það er pizzastaðurinn
Trocadero, Brekkuhúsum Grafarvogi. Þar getur þú fengið ýmis tilboð m.a 16
tommu pítsu með 2 áleggjum á 1.190 krónur og 12 tommu með 1/2 l af gosi á
890 krónur. Ég hef prófað að borða þarna tvisvar og verð ég að segja að í
bæði skiptin kom þetta mér skemmtilega á óvart. Staðurinn er í eigu hjóna
á efri árum. Þegar þú kemur inn þá finnur þú að þú ert strax velkominn.
Pítsurnar eru mun bragðmeiri en ruslið frá Dominos. Mæli með þessu.
TRT

Hangiálegg - dýrt!

Hangiálegg í Hagkaup.
Var ekki með gleraugun og hélt að verðið væri 416!
Búmm - kom heim og þá kom í ljós 916 krónur fyrir 185 grömm.
4954 krónur kílóið!
Friðrik M.

Dýralæknastofan í Garðabæ

Vildi láta ykkur vita fyrir þá sem versla mikið við Dýralæknastofuna í Garðabæ, og þá sérstaklega sem kaupa R/D hundafóðrið í hvítu/grænu dósunum að verðið per dós hefur hækkað úr 276kr í 476kr. Nú hef ég verslað þennan ákveðna mat í nokkra mánuði hjá þeim og alltaf greitt kringum 276kr fyrir dósina. En í gær þegar ég fór til þeirra að kaupa meira þá var verðið komið í heilar 476kr per dós. Hvet fólk til að fylgjast vel með þessu hjá þeim, og ekki væri verra að fá skýringar á þessari verðaukningu frá þeim.
Emmi

mánudagur, 22. febrúar 2010

Alias-spilið

Langaði bara að benda þér á gífurlega hækkun á Alias spilinu sem kostar núna 9.990 eftir að það kom aftur í verslanir - Mál og menning, það er að segja - en það kostaði að mig minnir 5.990 fyrir jól. Kannski er þetta að hluta til vegna þess að nú er engin jólaverslun í gangi, en þó finnst mér þessi hækkun svívirðileg! Er búinn að vera að bíða eftir því að spilið komi aftur á markaðinn lengi en það er alveg pottþétt að ég er ekki að fara að kaupa það úr þessu!
mbkv,
Jóhann Ólafur Sigurðsson

Dýrt stýrishosusett í Brimborg

það var farið með bíl fjölskyldunar í viðgerð hérna í ágúst hjá Brimborg og það var farin stýrishosan og ný stýrishosa og nipplar með eins og þeir selja þetta frá sér. Þetta er ósköp venjuleg bómullarbundin gúmmíhosa og nipplarnir eru svo einfaldir að það væri hægt að búa þá til inni í bílskúr með handborvél en þetta sett kostaði 35 þúsund krónur og þetta er ford focus station árgerð 2005. Svo vildu þeir líka skipta um reimasett vegna þess að reimarnar blotnuðu í stýrisvökva en það hefði verið nóg að sprauta smá olíuhreinsi á reimarnar skola og þurka þær. Til samanburðar má geta að hægt er að fá svona stýrishosusett í Kistufelli fyrir rétt rúman 3 þúsund krónur.
Böðvar

föstudagur, 19. febrúar 2010

Mælir með Nón

Mig langaði að koma á framfæri hve rándýrt það er að prenta hjá Prentmeti á Selfossi.
Ég þurfti að láta prenta fyrir mig eintak af lokaritgerð og var hún 123 bls. 33 í lit og 90 í svarthvítu. Ég hafði samband við Prentmet á Selfossi (bý á Selfossi) og óskaði eftir verði. Mér var tjáð að hver svarthvít síða kostaði 15 kr. en það væri mun dýrara ef hún væri í lit þar sem hver síða kostaði þá 200 kr. Í stuttu máli sagt fékk ég vægt áfall því bara lituðu síðurnar hjá mér hefðu kostað mig 6600 kr. plús hitt sem væri 1350 kr. samtals 7950 kr. fyrir prentun á einu eintaki og hugsanlega auka kostnaður fyrir gormun og frágang (veit ekki hvað það átti að kosta).
Eftir þetta ákvað ég að hringja í Nón á Suðurlandsbraut þar sem ég hafði haft reynslu af prentun hjá þeim fyrir tveimur árum síðan og þá voru þeir mjög sanngjarnir í verði enda kom það á daginn er ég hafði samband þangað að hver svarthvít síða kostaði 10 kr. í prentun og lituð síða 35 kr. og síðan var mér tjáð að ég þyrfti að borga 1200 kr. í vinnugjald. Ég borgaði fyrir eintakið með öllu samtals 3255 kr. Það er því 4695 kr. ódýrara að prenta hjá Nón á Suðurlandsbraut heldur en hjá Prentmeti á Selfossi (hugsanlega vantar inn í þennan mun kostnað við frágang hjá Prentmeti). Ef Prentmet er ekki að okra þá veit ég ekki hvað. Mæli með því að fólk hringi á undan sér áður en það lætur prenta út t.d lokaritgerðir í háskólum eða öðru slíku og kanni verð.
Mæli með Nón, hröð og góð þjónusta sem ég fékk.
Dísa

1817 byrjaðir að rukka

Langaði bara að láta vita að þjónustusíminn 1817 frá Tal er byrjaður að rukka fólk sem er ekki hjá þeim með heimasímann eða gsm. Þetta var alltaf frítt áður.
Einar

mánudagur, 15. febrúar 2010

Brimborg - þjónustuskoðun

Langaði að benda á eftirfarandi misræmi í verðlagningu bifreiðaverkstæða.
Þjónustuverkstæði Brimborgar í Reykjavík rukkar 12.500 kr./klst vegna þjónustuskoðunar á Volvo á meðan verkstæði í Keflavík sem hefur heimild til að framkvæma samskonar skoðun fyrir Brimborg rukkar 5000 kr./klst. Maður á verkstæðinu í Reykjavík skýrir munin út með mismunandi verkefnastöðu. Þ.e Reykjavíkurverkstæðið getur rukkað morðfjár fyrir bara vegna þess að það er mikið að gera hjá þeim!
Er þetta eðlilegt?
Kveðja,
Elvar

sunnudagur, 14. febrúar 2010

Byko-okur á gerefti

Hér er lítil saga af okri.
Í nokkur ár hefur fyrirtækið sem ég vinn hjá keypt spónlögð beykigerefti hjá Byko. Þetta hafa verið um 200 stykki á ári. Eftir hrunið sívinsæla, þá fór verðið nokkuð hækkandi, og nánast allt árið í fyrra kostaði stykkið, sem er 2,25 metrar að lengd 3.969 krónur. Þetta þótti okkur nokkuð dýrt, enda kostaði gerefti á einn karm
19.845 krónur. Þar sem við erum að endurnýja íbúðir sem eru til útleigu hjá þessu fyrirtæki, þá héldum við að annar kostur væri ekki í stöðunni.
Síðastliðið haust fór ég einu sinni sem oftar að kaupa nokkur gerefti, en bregður þá svo við að þau eru ekki til, spyr ég þá sölumanninn hvenær von væri á þeim aftur, þar sem mér lá nokkuð á að fá hlutina. Þá segir hann, að þeir sem flytja þetta inn hafa ekki komið með þessa vöru hingað, þannig að þú ættir að spyrja þá.
Ég hafði nú alltaf haldið að Byko flytti þetta inn, en sölumaðurinn sagði mér að Járn og gler flyttu þessa vöru inn. Ég fór þangað og spurði um gereftin. Jú þeir flytja þetta inn og áttu nægar birgðir. Ég spyr um verðið á stykkinu hjá þeim. Andlitið datt næstum af mér. 1.711 krónur stykkið. Byko leggur semsagt 140% á vöruna fyrir að stilla henni upp í versluninni. Ég sagði fulltrúa innflytjandans frá þessu, og hann hváði. Nokkrum dögum seinna átti ég erindi í Byko, sá þá að gereftin voru komin aftur, og nú hafði verðið heldur betur breyst - 2.160 krónur stykkið. Það er ótrúlegt hvað sumir reyna að græða á viðskiptavinunum, en þetta leiddi til þess að ef ég þarf að kaupa vörur þá athuga ég fyrst hvort ég fái þær annarsstaðar en hjá Byko og geri samanburð.
Bara þessi eina ferð í haust sparaði 100.000 krónur.
Ég á nótur sem sanna mitt mál.
Sveinn Elías Hansson

Subway - ábending

Ég fór á Subway í Skeifunni og ákvað að fá mér bát. Sé auglýsta stjörnumáltíð þar sem maður bætir við 280 krónum og fær þá miðstærð af gosi með og velur svo um 2 smákökur eða snakk. Ég valdi smákökurnar. Við hjónin borðuðum þetta með bestu lyst en þegar heim var komið fór ég að skoða kvittunina og sé þá að í raun borgar maður 290 krónur fyrir þessa stjörnumáltíð. Það er stimplað inn gosglas á 239 krónur og smákökur á 199 krónur, svo dragast frá 148 krónur. Samkvæmt mínum útreikningum standa þá eftir 290 krónur en ekki 280 eins og er auglýst á veggnum hjá þeim. Þó manni muni kannski ekkert mikið um þennan tíkall þá er subway að græða alveg slatta á þassu því þetta er fljótt að safnast saman. Ég sendi þeim ábendingu og vona að þetta verði leiðrétt en ég vildi benda fleirum á þetta.
KV Margrét

föstudagur, 12. febrúar 2010

Nammið í Smárabíói

Nammið í Smárabíói er algjörlega ómerkt. Maður veit ekkert hvað þetta kostar og stelpurnar í sjoppunni varla heldur. Er svonalagað ekki bannað?
Þórhallur

Brimborg - okursaga

Hér er reynslusaga mín af Brimborg:
Systir mín á Daihatsu Terios smájeppa ekinn um 80.þ. km. og kom til mín út
af smellum í öxli að framan þegar lagt er á bílinn, einkenni um að
öxulliður sé að gefa sig. Hringdi í Brimborg til að kanna með
varahlut....ekki til, bara hægt að panta og þá bara allan öxulinn,
kostaði yfir 100.000 kr. sagði maðurinn. Það leið næstum yfir mig. Ég
hellti mér yfir hann tilkynnti honum að þetta félag, Brimborg, væri
glæpastofnun. Leitaði í öðrum verslunum að þessum varahlut en fékk hvergi.
Endaði með að ég pantaði öxulliðinn frá Bretlandi (fann hann á Ebay),
kostaði þar 16 GBP, EÐA HEILAR 3.000 KR. Komið heim með öllum gjöldum (tók
viku) kostaði liðurinn 12.000 kr. og með ísetningu um 25.000 kr. komplet.
Skilaboð mín til Brimborgar, þetta er algjör og fullkominn dónaskapur að
bjóða viðskiptavinum upp á svona þjónustu. Haldið þið að fólk hafi ekkert
annað við peningana að gera en að láta stela þeim af sér? Ég held að þið
ættuð að fara að hugsa ykkar gang.
Magnús

miðvikudagur, 10. febrúar 2010

Vangaveltur um STEF

Ég hef mikið verið að spá í því ágæta fyrritæki Stef.
Þegar maður kaupir harðan disk borgar maður gjald til stef
Þegar maður kaupir mp3 spilara borgar maður gjald til stef
Þegar maður kaupir tóman geisladisk eða DVD disk borgar maður gjald til stef
Þegar maður kaupir stafrænan diktarfón til þess að taka upp sitt eigið efni borgar maður gjald til stef
Útvarpstöðvar borga skilst mér um 500 þúsund kall á mánuði til stef
Verslanir sem leyfa þessari útvarpstöð að hljóma í verslununni borga líka til stef þó útvarpstöðvarnar séu búnar að borga þetta
Öruglega líka eitthvað gjald sem fer til stef þegar maður kaupir sér útvarpstæki án þess að ég sé alveg viss.

Ég er bara svona að velta vöngum yfir öllu því sem maður kaupir sem tengist tónlist á engan hátt, ég er með harðan disk sem ég nota EINGÖNGU fyrir ljósmyndir sem ég hef tekið. Samt borgaði ég gjald til stef þegar ég keypti þennan harðadisk.
En já þessi hugleiðing mín snýst aðalega um það hvað það er lagt mikið á allskyns vörur sem rennur beint til stef þó svo að maður noti viðkomandi vöru ekki á neinn hátt fyrir tónlist.

Hvað á það t.d. að þýða að verslun þurfi að borga stefgjöld fyrir að leyfa útvarpstöð að hljóma í viðkomandi verslun þegar útvarpstöðin sjálf er búin að borga það líka. Þetta er dæmi um að rukka fyrir sama hlutinn tvisvar að mínu mati.

Já ég skal bara fúslega viðurkenna það að mig langar mjög svo til þess að stofna almennilega tónlistarútvarpsstöð en þetta 500 þúsund króna stefgjald í hverjum mánuði kemur því miður í veg fyrir þann draum hjá mér.

Ég velti því stundum fyrir mér hvernig það væri ef Bylgjan og Rás 2 og þessar helstu tónlistarútvarpstöðvar væru bara ekki til. Hvar myndi fólk þá heyra nýja tónlist og uppgvöta hljómsveitir. Ef útvarpstöðvar myndu bara ekki spila tónlist heldur vera bara með talað mál. Myndi plötusala aukast? Nei, þvert á móti yrði það vonlaust fyrir nýja tónlistarmenn að koma sér nokkurntíman á framfæri og enginn myndi kaupa plöturnar þeirra því það vissi enginn hverjir þeir væru.

Það böggar mig í rauninni verulega mikið að útvarpstöðvar þurfi að greiða stefgjöld.
Er stef að rukka oftar en einusinni fyrir sama hlutinn með því að rukka útvarpstöðvar og svo líka verslunina sem lætur útvarpsstöðina hljóma í viðkomandi verslun?

Ég er mjög hlyntur því að kaupa hljómdiska og á ég stórt geisladiskasafn því mér finnst svo gaman að eiga orginal diskinn, stend sérstaklega við bakið á íslenskum tónlistarmönnum, hef það ekki í mér að sækja íslenskan disk á netinu án þess að borga fyrir hann. Fer frekar útí búð og kaupi diskinn. í 300 þúsund manna samfélagi finnst mér ég ekki geta annað en að styrkja viðkomandi flytjanda ef mig langar að njóta tónlistarinnar sem viðkomandi hefur gefið út.

Kveðja,
Tónlistar og útvarpsáhugamaður

þriðjudagur, 9. febrúar 2010

Ódýrara hjá KvikkFix

Það er ekki oft sem maður lendir í því nú til dags að hlutirnir kosti minna en maður býst við, en það gerðist þó um daginn þegar ég lét skipta um olíu á bílnum. Mér fannst ég því verða að deila þessu með einhverjum.
Ég fór í KvikkFix í Kópavogi og kostuðu olíuskiptin u.þ.b. 50% af því sem ég hafði borgað undafarið hjá öðru fyrirtæki. Olía getur vissulega verið misjöfn að gæðum og ég þekki ekki þessa olíu sem þeir eru að nota hjá KvikkFix en þegar það er farið að muna tugum þúsunda á ári er ég alveg til í að vera bara með ódýru olíuna. Og af gefnu tilefni....Ég vinn ekki hjá KikkFix.

Athugið. Verð með vsk og án.

Verð á "gamla staðnum"
(Fínir strákar og góð þjónusta, en verðið greinilega óþarflega hátt.)

Dags.12/02/09

Olíuskipti 2.690kr.
Olíusía 1.791kr.
Síugjald 791kr.
Rúðuvökvi 460kr.
Olía Helix Ultra (3.5 l) 4.953kr.
Loftsía 2.990kr.*

Afsláttur -685
Verð Samtals: 12.991kr.


Verð hjá KvikkFix

Dags.20.01.2010

Olíuskipti 1.518kr.
Olíusía 820kr.
Rúðuvökvi 80kr.
Olía Turbosyn (3,5 l) 1.475kr.
Ljósapera 12V5W44kr.
Pönnutappapakkning 25kr.

Verð 3.962kr.
vsk 1.010

Verð Samtals: 4.972 kr.


*Ef loftsían er tekin burt úr reikningsdæminu er þetta samt 10þús. á móti 5þús.
Mæli með þessu fyrir þá sem eiga leið í Kópavoginn.
http://kvikkfix.is/

Kveðja,
Steinþór Jakobsson

Icelandair - samskipti og þjónusta.

Fyrir nokkrum árum ferðuðumst við hjónin til Amsterdam, ein af okkar mörgu ferðum með Icelandair, sem hefur þann vafasama titil í mínum huga að vera ruslfélag. Þar skortir þjónustulund og viðskiptavinurinn er hans sláturafurð.
Við vorum með bókað sæti. Frá AMS. á 9 AB, innrituðum á þeim sætum, þegar kom að því að fara um borð, þá breyttu starfsmenn félagsins sætaskipan okkar, í ég í 16 b, konan mín í 29 d. Við undum þessu illa, ég kvartaði við yfirflugfreyjuna sem sagðist ekkert geta gert, handskrifað við dyr vélarinnar þessi sætaskipan. Flugfreyjan (Oddný) sagðist ekki geta gert neitt fyrir okkur, og þar við sat.
Ég reyndi að fá tal af þjónustustjóra Icelandair daginn eftir, það starf er ekki til, en boðið upp á að senda kvörtun skriflega, sem ég gerði, með afrit af bréfi og ljósrit af boarding pössum til forstjórans Jón Karls Helgasonar. Engin viðbrögð. Ég gat ekki unað þessu, eyddi miklum tíma í að fá leiðréttingu, málið fór í fjölmiðla, þá vaknaði skepnan. Að málinu kom Bryndís í kvörtunardeild, sagðist ekki geta gert neitt, en sendi okkur gjafamiða á morgunverð (kaffi og rúnstykki) á Nordica Hoteli, það gáfum við syni okkar og hans konu. Afsökunarbeiðni hefur ekki borist enn, og hennar er ekki vænta. Þetta var annað skiptið sem við urðum fyrir verulegum óþægindum sem farþegar þessa félags þ.e. af starfsfólki þess. Þetta hefur ekkert breyst.
Nú í þriðja skiptið er eftirfarandi dæmi:
Ég ráðgerði ferð, 30 april til Amsterdam. Þá var sértilboð hjá Icelandair með sköttum til AMS aðra leið Kr: 15,900,00 semsagt fyrir tvo báðar leiðir. 63,600,00. Með sköttum. Ég hugðist nota gjafabréf American express, fyrir fríferðafélaga og vildarpunkta. Greiða með 38 þús vildarpunktum + gjafabréfi sem er vegna mikilla viðskipta með Amex korti.

Þegar dæmið var gert upp þá leit það svona út: AMEX gjafabréf + 38000 vildarpunktar +42,760 kr. Mismunur er því Kr. 20,840 miðað við að greiða sjálfur og hafa val um á ferðadögum. Semsagt 38000 punktar og gjafabréfið var metið á 20,840 kr. Þetta er fáránlegt reikningsdæmi, sem segir að svokallaðir vildarpunktar og gjafabréf sem er mörgum takmörkuðum háð er afar lítils virði. Kostnaður við Amex kort er mikill, bæði fyrir korthafa og fyrirtækin sem það taka. Mín niðurstaða er að þessir vildarpunktar og háar greiðslur vegna þessa gjafabréfs er ekki notendavænt. Þetta hlýtur að verða að skoðast af neytendastofu, eða þeim aðilum sem um neytendamál fjalla. Svona blekkingardæmi verður að stöðva. Hvað skyldu margir obinberir starfsmenn hafa svona hlunnindi?
Kveðja,
Guðjón Jónsson

fimmtudagur, 4. febrúar 2010

Upptökutæki er MP3-spilari hjá Tollinum

Ég pantaði mér í desember af netinu Zoom H4N upptökutæki (Linkur).
Tækið kostaði án aðflutningsgjalda 40 þúsund krónur.
Svo kemur tækið til landsins og allt í góðu með það. Svo kemur að því að borga tollinn og þá er tollurinn fyrir þetta tæki 30 þúsund krónu (75% af upphafsverðinu að bætast við aftur á tækið).
Ég ákvað nú bara að borga þennan 30 þúsund kall og lesa svo bara tollskýrsluna í rólegheitum því ég var viss um að þetta væri miskilningur og vantaði tækið.
Svo les ég tollskýrsluna og sé hvað málið var og þá höfðu þeir flokkað þennan starfræna diktafón sem MP3 Spilara (WHAT?)
Ég auðvitað hringi í tollinn og bendi þeim á að starfænni diktafónninn sem ég hafði pantað hafi greinilega verið óvart flokkaður sem mp3 spilari og ætlaði að leiðrétta misskilninginn. Eftir smá stund á hold kom hún aftur í símann og sagði að svona væri þetta bara, að svona diktafónar væru alltaf flokkaðir sem mp3 spilari.
Ég bara get ekki skilið hvernig þeir fá það út að þetta sé mp3 spilari, þetta vissulega geymir hljóðfæla en bara hljóðfæla sem maður hefur tekið upp sjálfur, viðtöl og fleira.
Þetta er alltof stór græja til þess að geta nokkurntíman verið mp3 spilari.
Vildi bara koma þessu á framfæri, finnst alveg meira en skrítið að þeim finnist rétt að flokka upptökutæki sem mp3 spilara.
Kv, Gunnar

Svekktur með Símann

Er mjög ósáttur við þetta 6 vinakerfi símans. Keypti mér um daginn svona áskrift og fattaði mjög fljótlega að þessar 1900 kr. voru engin inneign heldur bara fyrir þjónustuna. Ok fínt og blessað...þarna átti ég samt 6 vini og það átti sko að nýta. Þegar ég hinsvegar var búinn að nota þjónustuna í hálfan mánuð og reyndar kaupa mér inneign fyrir hina vinina sem ekki voru á þessum lista, ákvað þetta blessaða fyrirtæki að byrja að rukka mig um eitt númer á listanum, sem að á endanum kláraði inneign mína fljótt því að ég hélt náttúrulega að ég væri að hringja í það á þessum vinaskala.
Svörin sem ég fékk frá þjónustuverinu eftir ítrekaðar tilraunir, voru á endanum að ég væri með 2 heimasímanúmer á listanum mínum og að það mætti bara hafa eitt. Það stendur hinsvegar hvergi í skráningarferlinu að svo sé og þegar ég spurði gaurinn í þjónustuverinu eftir því hvar það stæði gat hann ekki svarað.
Ég var hvergi varaður við því að ég mætti ekki hafa 2 heimasímanúmer, samt ákváðu þeir að rukka mig hálfum mánuði seinna um það númer sem ég hafði notað....ekki hitt númerið sem ég hafði ekki notað(skrítin tilviljun). Þannig að það mætti segja að ég hafi átt 5 vini og 1 óvin samkvæmt þessu (en gott fyrir símann því að auðvitað græða þeir bara meira á því). Mjög mikið túlkað þeim í hag, og svörin "afþví bara".
Ég verð að segja að það er skítalykt að þessu og ég held að ég geti ekki litið Símann sömu augum eftir þetta.
Ps. Er búinn að vera í viðskiptum við símann síðan 1987.
kv, Einn svekktur

mánudagur, 1. febrúar 2010

Eymundsson dýrir

Ég var búin að tína blýpennanum mínum, þessum eina sanna. Þannig að þegar ég fór á Akranes á föstudaginn síðasta ákvað ég að kaupa mér nýjan, fór í Eymundsson og keypti eitt stykki á 580 krónur, sem mér finnst nú frekar mikið. Á laugardaginn átti ég svo erindi í Hagkaup og rak augun í alveg eins blýpenna og hann kostaði 152 krónur! Ef þetta er ekki okur þá veit ég ekki hvað þetta er.
Sigurbjörg Kristmundsdóttir

Ósátt við lakkríshækkun

Ég er mjög ósátt við verðhækkanir á lakkrísafgöngum hjá Góu. Áður hét lakkrísgerðin Appolo og er Góa búin að kaupa reksturinn. Afgangasala hefur verið í áratugi hjá þessu fyrirtæki og þá á skaplegu verði. Í fyrra kostaði kílóið af afgöngum 300 kr, fór síðan í 500 kr. kílóið einhverntíma í haust. Nú eru seldir poka sem eru 750 gr á 500 kr. Allavega um 100% hækkun á stuttum tíma. Þeir eiga að skammast sín!
Kv, Björk