Hér er lítil saga af okri.
Í nokkur ár hefur fyrirtækið sem ég vinn hjá keypt spónlögð beykigerefti hjá Byko. Þetta hafa verið um 200 stykki á ári. Eftir hrunið sívinsæla, þá fór verðið nokkuð hækkandi, og nánast allt árið í fyrra kostaði stykkið, sem er 2,25 metrar að lengd 3.969 krónur. Þetta þótti okkur nokkuð dýrt, enda kostaði gerefti á einn karm
19.845 krónur. Þar sem við erum að endurnýja íbúðir sem eru til útleigu hjá þessu fyrirtæki, þá héldum við að annar kostur væri ekki í stöðunni.
Síðastliðið haust fór ég einu sinni sem oftar að kaupa nokkur gerefti, en bregður þá svo við að þau eru ekki til, spyr ég þá sölumanninn hvenær von væri á þeim aftur, þar sem mér lá nokkuð á að fá hlutina. Þá segir hann, að þeir sem flytja þetta inn hafa ekki komið með þessa vöru hingað, þannig að þú ættir að spyrja þá.
Ég hafði nú alltaf haldið að Byko flytti þetta inn, en sölumaðurinn sagði mér að Járn og gler flyttu þessa vöru inn. Ég fór þangað og spurði um gereftin. Jú þeir flytja þetta inn og áttu nægar birgðir. Ég spyr um verðið á stykkinu hjá þeim. Andlitið datt næstum af mér. 1.711 krónur stykkið. Byko leggur semsagt 140% á vöruna fyrir að stilla henni upp í versluninni. Ég sagði fulltrúa innflytjandans frá þessu, og hann hváði. Nokkrum dögum seinna átti ég erindi í Byko, sá þá að gereftin voru komin aftur, og nú hafði verðið heldur betur breyst - 2.160 krónur stykkið. Það er ótrúlegt hvað sumir reyna að græða á viðskiptavinunum, en þetta leiddi til þess að ef ég þarf að kaupa vörur þá athuga ég fyrst hvort ég fái þær annarsstaðar en hjá Byko og geri samanburð.
Bara þessi eina ferð í haust sparaði 100.000 krónur.
Ég á nótur sem sanna mitt mál.
Sveinn Elías Hansson
Ótrúleg ósvífni hjá Byko! Í takt við allt annað í þessu blessaða þjóðfélagi. Hve margir ætli feli verðhækkanir bak við "kreppu og gengisfall krónunnar". Staðreyndin er að menn hafa nýtt sér tækifærið til að hækka álagninguna.
SvaraEyða